Alþýðan fær ekkert að vita

Það eru á fjórða tug efnisatriða í "aðgerðaáætluninni" milli Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF) og við pöpullinn höfum fengið að vita um eitt þeirra; sársaukafulla stýrivaxtahækkun. Eru efnisatriðin þó ekki trúnaðarmál af hálfu IMF, heldur eingöngu ríkisstjórnar Íslands. Engin önnur niðurstaða er rökleg, önnur en að fleiri og kannski verri skilyrði séu þarna á ferðinni, sem talið er betra að þegja sem lengst yfir. Til að mynda til að ýta ekki undir mótmælaöldurnar.

Fjölmiðlar hafa ekki upplýst um þessi þrjátíu og eitthvað atriði og jafnvel ekki leitast við að finna út úr þeim. Í millitíðinni verður pöpullinn að giska í óvissu sinni og vona það besta, en búa sig undir það versta. Þjóðin vill fara til vinstri og hverfa frá (ný)frjálshyggjuofuráherslunni, en viðbúið er að skilyrði IMF lúti einmitt að ýmsum breytingum í "frelsis"átt, meira en verið hefur. Einkavæða Íbúðalánasjóð, einkavæða í velferðarkerfinu, skera niður útgjöld til velferðarmála, frelsisvæða innflutning á landbúnaðarafurðum, "hreinsa"til í atvinnulífinu (leyfa veikum fyrirtækjum að fara á hausinn) og svo framvegis. Þöggunin gefur mér leyfi til að giska og ég á von á hinu versta frá IMF, sem gert hefur heiminum mun meira ógagn en gagn.

Það er mér mikið undrunarefni af hverju fjölmiðlar hafa ekki lagt ofuráherslu á að upplýsa um þessi atriði. helst dettur mér í hug að "leynifundir" með ráðherrum hafi skilað sér í þöggun. Útvaldir ritstjórar vita þá eitthvað sem við hin erum of ófullkomin að meðtaka, að því er virðist.

Ég vona að ég hafi í einu og öllu rangt fyrir mér í þessari færslu.


mbl.is Viljayfirlýsing tekin fyrir í stjórn IMF á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Sæll nafni.

Er það ekki málið. Er ekki í gangi hér ákveðin ritskoðun. Það er búið að ganga á þessa fáu fjölmiðla og fá þá til að birta neikvæðar og óþægilegar fréttir. Stór hluti frétta sem við fáum í dag af stöðu mála hér heima koma frá útlöndum.

Við erum að upplifa í tengslum við þessa kreppu eina vinsælustu aðferðina við stjórnun sem notuð er hér á landi, "Sveppaaðferðina".

Sveppaaðferðin er einföld: "Keep them in darkness and feed them with horseshit".

Friðrik Hansen Guðmundsson, 3.11.2008 kl. 12:59

2 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Ja, nafni, ég hef oft sagt og segi enn að fullt af blaða- og fréttamönnum hafa bein í nefinu og heildin á að geta staðið á prinsippum sínum. Alltof oft er þeirri ímynd varpað fram að blaða- og fréttamenn séu nánast upp til hópa strengjabrúður fjölmiðlaeigendanna. Þetta kann að eiga við í sumum tilvikum, en ekki flestum.

En blaða- og fréttamenn þurfa að fá sterkari vopn í hendurnar. Tjáningarfrelsi verður að vera vel rúmt, sjálfstæði ritstjórna gulltryggt, "Kínamúrar" milli ritstjórnar og markaðsdeilda og gott ef ekki samfélagsútgjöld til rannsókna mála á vettvangi fjölmiðla (óháð vinnsla upplýsinga). Vopn til að verjast ágangi eigenda og markaðslögmála, sem vilja hafa efniviðinn "skemmtilegri" og ódýrari í framleiðslu og skera niður "alvöru"efni. Vopn sem gerir þeim kleift að "rífa kjaft".

Eins og er, er staðan þó erfið; bara eitt einkafyrirtæki á markaði og eitt stórt (og stórgott) ríkisfyrirtæki, ásamt Viðskiptablaðinu (í eigu Bakkavararbræðra). Menn að missa vinnuna - en restin glímir við freistandi sjálfsritskoðun og skuggann af atvinnumissinum.

Friðrik Þór Guðmundsson, 4.11.2008 kl. 23:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband