Færsluflokkur: Sjónvarp

Mark "Deep throat" Felt kvaddur

 Mark Felt.

Merkilegur einstaklingur er látinn. Mark Felt var embættis- og stjórnmálamaður sem unni heitar rétti og hag almennings en rétt og hag spilltra stjórnmálamanna og athafnamanna.

Gagnvart gjörspilltum yfirmönnum sínum í pólitíkinni og fjármögnurum þeirra tók hann afstöðu með Jóni og Gunnu og hjálpaði blaðamönnunum Woodward og Bernstein hjá fjölmiðlinum Washington Post að fletta ofan af spillingu og leynimakki Nixons og kóna hans. Tryggði hið nauðsynlega lýðræðislega aðhald, sem ekki fékkst samkvæmt venjulegum rásum.

Bless, Felt.

Hvar eru "Feltar" Íslands? Hvar eru þeir sem þykir meira virði hagur almennings en hagur spilltra stjórnmála-, embættis- og athafnamanna - og koma mikilsverðum upplýsingum til trúverðugra blaða- og fréttamanna?


mbl.is „Deep Throat" látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ALLT fer undir teppið og við borgum ALLT

Því meir sem tíminn líður til einskis, því meir sem menn í ábyrgðarstöðum sverja af sér ábyrgð, þeim mun sannfærðari verð ég að sekir menn muni sleppa, að verðmæti okkar fari í súginn og að það verði setta á axlir alþýðu landsins í núverandi og komandi kynslóðum að borga - að axla ábyrgðina!

Hvarvetna finnst mér blasa við að þetta verði lexía málsins. Ráðagerðir um hvítbók, um sérstakan saksóknara, um rannsóknir á hinu og þessu - allt kemur þetta allt of seint til framkvæmda. "Útrásarvíkingarnir" munu sleppa og hafa haft nægan tíma til að fiffa með eignir og skuldir. Pólitískir ráðamenn sleppa við að axla ábyrgð. Ráðherrar þessarar og síðustu ríkisstjórna munu sleppa við ábyrgðina. Bankastjórn og bankaráð Seðlabankans munu sleppa. Stjórnendur og yfirstjórn Fjármálaeftirlitsins munu sleppa. Ekkert af þessu liði fær nema í mesta lagi áminningu. Enginn mun tapa pening og æru nema Jón og Gunna. 

Engu mun skipta þótt fjölmiðlar geri sitt besta við að bæta upp fyrir sofandaháttinn undanfarinna ára. Harðar fréttir fjölmiðla virðast enda ekki hreyfa við sekum og ábyrgum aðilum hið minnsta.

Að þessum svartsýnu orðum sögðum held ég í jólabloggpásu!


Þingmenn um fjölmiðla - fjölmiðlar um þingmenn

Nú auglýsir Skjár Einn að framundan sé þátturinn Málefnið. Í Málefninu á að fjalla um "framtíð Íslenskra fjölmiðla". Umsjónarmenn þessa dagskrárgerðar í fjölmiðlinum Skjá Einum um fjölmiðla eru tveir kjörnir þingmenn þjóðarinnar, sem þiggja laun fyrir löggjafarstörf, Illugi Gunnarsson, kjörinn þingmaður af lista Sjálfstæðisflokksins og Katrín Jakobsdóttir, kjörinn þingmaður af lista Vinstri grænna.

Það veitir ekki af umfjöllun um framtíð íslenskra fjölmiðla. Sjálfsagt eru þau ekki verst til þess fallin, lögfræðingurinn og þingmaðurinn Illugi og bókmenntafræðingurinn og þingmaðurinn Katrín. Og sjálfsagt má finna að því að hefðbundnir fjölmiðlamenn annist dagskrárgerð um framtíð íslenskra fjölmiðla. Einhvern veginn finnst mér það nú samt eins og þarna eigi blindur að leiða haltan. Hafa þingmenn ekki annars nóg að gera þótt þeir taki ekki dagskrárgerð af fólki sem vantar verkefni? Eru aðstoðarmenn þessara þingmanna kannski að sinna þingstörfunum sjálfum?

Það er gott að það eigi að fjalla um framtíð íslenskra fjölmiðla

Ég legg til að í næsta þætti fjalli tveir fjölmiðlamenn, blaða- og fréttamenn, um framtíð íslenskra stjórnmála. Það er líka ákaflega verðugt verkefni um atvinnugrein og fag sem eru í djúpri kreppu þessi misserin. Annar ofangreindra þingmanna væri kjörinn til að svara krefjandi spurningum um stjórn íslenska ríkisins síðustu tvo áratugina eða svo. Um hrikalega útkomu flokks hans í skoðanakönnunum (sem mætti útleggja sem "stórkostlegt rekstrartap"). Um lexíuna af nýfrjálshyggjunni og einkavinavæðingunni o.s.frv. Og auðvitað um þann skaða sem íslensk stjórnmál hafa orðið fyrir.


Baráttukveðjur til RÚV-ara

 

Ég sendi starfsmönnum RÚV hér með mínar heitustu baráttukveðjur vegna enn einnar uppsagnahrinunnar. Mér sýnist ljóst að allt of langt hafi að undanförnu verið gengið við niðurskurð og sparnað og að það muni verulega skerða getu fjölmiðilsins til að ástunda frétta- og dagskrárgerð. Einmitt þegar við þurfum hvað mest á öflugum fréttum og fréttatengdu efni að halda.

Ég nefni þetta með í huga að ekki er um einangraða uppsagnahrinu að ræða, heldur hafa niðurskurðar- og sparnaðaraðgerðir staðið yfir allt frá því fyrir ohf-væðingu. Mjög margir reyndir frétta- og dagskrárgerðarmenn eru horfnir af vettvangi og ljóst að fækkunin nú gerir það enn erfiðara en áður að standa undir væntingum um öfluga, sjálfstæða og óháða upplýsingagjöf til almennings. Þess utan hanga yfir höfðum manna óljós orð um frekari aðgerðir og undir þeim kringumstæðum liggur eins og mara á starfsfólkinu óttinn um atvinnuöryggið og þar með leggst á fólkið af vaxandi þunga sjálfsritskoðun og meðvirkni.

Þetta er afleitt ástand. Þótt við því sé að búast að RÚV þurfi að mæta versnandi árferði þá hygg ég að aðgerðir séu komnar langt upp fyrir það sem eðlilegt getur talist miðað við lögbundið hlutverk þessa fjölmiðils í almannaeigu. Tal um afnám afnotagjalds og brotthvarf RÚV af auglýsingamarkaði leggur þeim mun meiri skyldur á herðar stjórnvalda um að tryggja fjölmiðlinum í almannaeigu næg fjárframlög til sómasamlegs rekstrar.


mbl.is Starfsmenn Rúv boða til funda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjölmiðlar í ólgusjó

 

Ég var búinn að nefna það að ástandið á fjölmiðlamarkaðinum ætti eftir að versna, en manni verður nú samt um og ó þegar verstu spár virðast ætla að rætast. "24 stundir" blaðið er horfið, Fréttablaðið að renna inn í Árvakur, Mogginn að riða til falls, starfsfólk Viðskiptablaðsins að reyna að taka við blaðinu af Bakka(varar)bræðrum og RÚV að segja upp fjölda frétta- og dagskrárgerðarmönnum.

Mér sýnist enda vonlítið að blaða- og fréttamenn geti almennilega staðið við heitstrengingar um ný og betri vinnubrögð eftir sofandahátt og meðvirkni síðustu ára. Þeir fyllast sennilega enn frekar en fyrr af ótta um atvinnu sína og af sjálfsritskoðun. 

Þetta er afleit þróun.


mbl.is Unnið að fjárhagslegri endurskipulagningu Árvakurs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hárbeittur og hættulegur niðurskurðarhnífur hjá RÚV OHF

Í raun og sann hefur staðið yfir nær linnulaus niðurskurður hjá RÚV allt frá ohf-væðingunni í fyrra - og var "stofnunin" þó í þokkalega þéttri spennitreyju fyrir þau tímamót. Við ohf-væðinguna hættu fjölmargir góðir frétta- og dagskrárgerðarmenn og enn fleiri hafa yfirgefið fjölmiðilinn síðan og enn virðist þeim eiga að fækka.

Mér sýnist að staðan sé að verða ansi krítísk þegar horft er á upplýsinga- og fræðsluskyldu þessa fjölmiðils í almannaeigu. Væntanlega er þó markmiðið ekki að reka frétta- og dagskrárgerðarþjónustu með algerum lágmarks mannskap. Samfélagið þarf á því að halda að sameinaðar fréttastofur RÚV séu öflugar, en ekki máttlausar og mannskapurinn logandi hræddur um atvinnuöryggi sitt - sífellt að passa sig að stuða ekki valdaöflin og sífellt að ástunda sjálfsritskoðun vegna þess. Því meiri gagnrýni sem ríkir á einkarekna fjölmiðla vegna hugsanlegra áhrifa eigenda þeirra þeim mun mikilvægara er það almenningi að eiga traustan bakhjarl í sjálfstæðri og óháðri fréttastofu og dagskrárgerð á vegum fjölmiðils í almannaeigu. Hin lýðræðislega umræða krefst þess.

Hver var ávinningurinn af ohf-væðingunni? Hvernig hefur ríkið uppfyllt loforð um fjármögnun? Hvað voru frétta- og dagskrárgerðarmenn margir fyrir þau tímamót og hvað verða þeir margir eftir nýjasta niðurskurðinn?


mbl.is Boðað til starfsmannafundar hjá RÚV
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Borgaraleg óhlýðni G. Péturs

Ég var auðvitað að vona að G. Pétur Matthíasson fyrrverandi fréttamaður Sjónvarpsins hefði verið með leyfi RÚV í farteskinu þegar hann ákvað að birta á bloggi sínu umrætt myndskeið af tilraun hans og Þóru Kristínar Ásgeirsdóttur, fyrrum fréttamanns Stöðvar 2, til að taka viðtal við Geir H. Haarde með "alvöru" krítískum spurningum. Það eru auðvitað vonbrigði að svo hafi ekki verið og að ég hygg borðleggjandi að G. Pétur hafi því gerst brotlegur við siðareglur blaða- og fréttamanna og innanhússreglur RÚV.

Ég hygg hins vegar að G. Pétur skili þessum gögnum ósköp glaður og sáttur í bragði. Hann hefur áreiðanlega tekið ákvörðun um borgaralega óhlýðni með þessum gjörningi sínum og víst er að myndskeiðið sýndi okkur ágætlega ofan í hrokafullan hugarheim forsætisráðherra - því það var akkúrat ekkert óeðlilegt við krítíska og krefjandi spurningu G. Péturs sem Geir stöðvaði og fór í fýlu út af. Það er ætlast til þess að blaða- og fréttamenn spyrji harðra og krítískra spurninga; þeir eiga að grípa þær spurningar sem liggja í loftinu og þótt menn spyrji hart er það ekki endilega vegna persónulegra skoðana, heldur eru "devil´s advocate" spurningar mjög algengar í fréttamennskunni.

Myndskeiðið sýnir ágætlega að ráðamönnum er meinilla við að svara krefjandi og hörðum spurningum. Þá dreymir kannski um dásamlega en liðna tíð þegar ráðherrar voru þéraðir af sjónvarpsfréttamönnum, sem báru bara upp spurningar sem ráðherrarnir sjálfir höfðu gaukað að þeim!

Mér finnst aukinheldur rétt að fólk hafi það í huga að ráðherrar Sjálfstæðisflokksins hafa gjarnan níðst á G. Pétri í gegnum árin. Davíð gaf tóninn í þeim efnum, lagði línuna; hreytti ónotum í G. Pétur fyrir þá sök eina að fyrr á ferli sínum hafði G. Pétur starfað á Þjóðviljanum! Ég var vitni að því og ég held að Geir hafi þarna ekki viljað vera minni maður en Dabbi Pabbi.

Skamm, skamm G. Pétur fyrir að nota efni í eigu RÚV í heimildarleysi. Þú braust siðareglur! En takk.


mbl.is Krafa um að viðtali við Geir verði skilað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frekar að boða "30-menningana" næst!

 Húsfyllir er í Háskólabíói.

Flottur fundur í Háskólabíói. Fundarstjórinn boðaði næsta fund í desember og sagði að þá yrðu fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar og lífeyrissjóðanna boðaðir til að svara spurningum. Ég er svolítið hissa - ég átti nú frekar von á því að það væri örugglega komið að "30-menningunum", útrásarvíkingunum svokölluðu, aðal sökudólgunum. Ég hef miklu miklu miklu fleiri spurningar til þeirra en verkalýðsforkólfa.

Kannski kemur þó að þeim þarnæst. Þeir þurfa kannski lengri fyrirvara, þrátt fyrir einkaþotur, að koma frá útlöndum, sumir kannski frá Luxemborg og Cayman og Tutola eyjunum.  En kannski er borin von að þeir þori að koma.

Ég komst ekki á fund þennan en gat fylgst með honum að megninu til í sjónvarpinu. Mér fannst afar sársaukafullt fyrir augun að sjá Árna Johnsen beint fyrir aftan ræðupúltið, vambmikinn holdgerving spillingarinnar, fúlan á svip og á köflum að því kominn að dotta, svei mér þá. Ekki falleg "auglýsing" fyrir ríkisstjórnina. En góð áminning.


mbl.is „Þetta er þjóðin“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Líka vantrauststillögu á stjórnarandstöðuna

 

Það er gott mál að stjórnarandstaðan hafi lagt fram vantrauststillögu á ríkisstjórnina. Ég á ekki von á því að hún verði samþykkt, en allt í lagi með það; út úr þessu kemur hið minnsta nauðsynleg umræða um frammistöðu ríkisstjórnarinnar. En eina tillögu vantar.

Samhliða þessari tillögu þyrfti að liggja fyrir vantrauststillaga á stjórnarandstöðuna. Hún hefur líka brugðist. Og hluti hennar á hið minnsta jafn mikla sök á óförum lands og þjóðar í efnahags- og viðskiptamálum og núverandi ríkisstjórn; sem sé Framsóknarflokkurinn. Ef til vill má leysa þetta með því að í væntanlegum vantraustsumræðum gangi menn út frá því að vantraust sé rætt á bæði í senn, þessa ríkisstjórn og ríkisstjórnirnar á undan.

Það er morgunljóst að flytja mætti margar vantrauststillögur fram til umræðu og afgreiðslu. Ekki bara gegn ríkisstjórninni og stjórnarandstöðunni, heldur líka gegn Seðlabankanum, Fjármálaeftirlitinu, yfirmönnum bankakerfisins, auðjöfrunum og fleirum. Fjölmiðlar ættu líka skilið að fá á sig vantrauststillögu, en þeir að minnsta kosti vita að því, hafa viðurkennt skömm sína og vanmátt og eru vonandi byrjaðir að bæta sitt ráð. Stór hluti þjóðarinnar á líka vantraust skilið fyrir að dansa með gullkálfinum til dýrðar í æðisgenginni en undirstöðulausri efnis- og græðgishyggju, en nokkuð ljóst er að óbreyttir landsmenn eru einmitt þeir einu sem verða almennilega látnir axla ábyrgð með því að taka á sig skellinn. Þjóðinni verður refsað með skuldafangelsi, en Geir, Solla, Valgerður Sverris, Halldór Ásgríms, Davíð Oddsson, Jónas Fr. Jónsson, Jón Sigurðsson, Sigurður Einarsson, Jón Ásgeir Jóhannesson, Bjarni Ármannsson, Björgólfur Guðmundsson, Björgólfur Thor, Þorsteinn Már Baldvinsson, Lárus Welding, Kjartan Gunnarsson og fleiri slíkir menn; munu allir sleppa.

Enda sýnist mér að allar boðaðar rannsóknir verði í skötulíki. Ég les það út úr þeirri staðreynd að hersveitir rannsóknar- og ákæruvaldsins fóru ekki strax af stað með húsleitir og yfirheyrslur þegar augljós og rökstuddur grunur blasti við öllum (öðrum) um voðaverk sem stórsköðuðu land og þjóð.

Ekki einu sinni fréttir af þessum dularfullu meintu fjársvikum í kringum Stím ehf virðast kalla á viðbrögð. Þvílíkt og annað eins!Ef lögguna vantar kæru til að geta byrjað þá skal ég hjálpa til með þessu opna kærubréfi til efnahagsbrotadeildar Ríkislögreglustjóra og til skattrannsóknarstjóra:

Reykjavík 21. nóvember 2008.

Undirritaður, sem einn eigenda Glitnis, óskar hér með eftir tafarlausri opinberri rannsókn á hlutabréfaviðskiptum Glitnis og Stíms ehf. Miðað við upplýsingar sem fram hafa komið opinberlega liggur borðleggjandi fyrir rökstuddur grunur um brot á hegningar- og skattalögum. óskað er tafarlausrar rannsóknar, þar sem byrjað verður á að tryggja að rannsóknargögnum verði ekki spillt.

Friðrik Þór Guðmundsson.


mbl.is Vantrauststillaga komin fram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjölmiðlar og niðurskurður

Afþreying er hvað fjölmiðlarekstur varðar svo gott sem andstæðan við fræðslu og upplýsingagjöf (fréttir). Þegar markaðslögmál eru ríkjandi og það kreppir að, fjölmiðill þarf að draga saman seglin og segja upp fólki, er tilhneigingin sú að spara á sviði fræðslu og frétta (alvarlegum, þungum sviðum) frekar en á sviði afþreyingar.

Við fjölmiðlun er gjarnan talað um information (upplýsingar/fræðsla), infotainment (sambland af upplýsinga- og skemmtanagildi) og entertainment (skemmtanagildi - afþreying). Víða um heim hafa ekki síst sjónvarpsstöðvar með fréttastofur verið að færast æ meir frá klassískum fréttum (information) yfir í blönduna (infotainment) og margir fréttasjúkir kvartað yfir því og þá ekki síst þeir sem telja fjölmiðla og einkum sjónvarpsstöðvar vera virkasta og kannski æskilegasta vettvanginn fyrir beina lýðræðislega umræðu og upplýsingaveitu.

Um þessar mundir ríkir fáokun á íslenska fjölmiðlamarkaðinum, þar er kreppa og þar er verið að skera niður.

 


mbl.is 365 verður Íslensk afþreying
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband