Færsluflokkur: Sjónvarp

Í djúpköfun með áttavita

KompásliðiðÞað er opinberlega viðurkennt að fjölmiðlar gegni gríðarlega mikilvægu hlutverki í hinni lýðræðislegu umræðu. Sömuleiðis er það skjalfest opinber stefna að fjölmiðlar eigi að vera virkir við að veita stjórnvöldum, stórfyrirtækjum og öðrum aðhald með gagnrýninni umfjöllun - með því að spyrja gagnrýninna spurninga, leita upplýsinga og staðfestinga og færa þær upplýsingar fram til almennings.

Á Íslandi hefur "djúpköfun" í blaða- og fréttamennsku þó aldeilis ekki notið forgangs hjá fjölmiðlaeigendum og þeir hinir sömu almennt og yfirleitt boðið blaða- og fréttamönnum upp á vinnuálag, tímaþröng og beina og óbeina ritskoðun. Blaða- og fréttamenn hafa þrátt fyrir þetta oft gert góða hluti og Kompás-menn ekki síst (á sumum sviðum hið minnsta).

Niðurlagning Kompáss-þáttanna var hrikaleg ákvörðun Ara Edwald, Jóns Ásgeirs og félaga. En rímar út af fyrir sig við stefnu sjónvarpsstöðvar þar sem afþreyingin er númer eitt, tvö og þrjú. Fréttir og fréttaskýringar hafa fengið að hanga í fjórða sætinu, en hafa nú verið settar enn neðar og má allt eins telja líklegt að fréttir Stöðvar tvö séu jafnframt í niðurskurðarsigtinu.

Ég er ánægður með það sem Jóhannes og félagar í Kompási lýsa yfir, að þeir ætli að halda áfram með þáttinn, þótt þeir fái ekki að halda nafni þáttarins. Ekki kemur fram HVAR þeir ætla að halda áfram með þáttinn; kannski á Skjá einum, kannski ÍNN, hvað sem því líður er nú tilefni sem aldrei fyrr til gagnrýninnar djúpköfunar. Nú með meiri áherslu á að afhjúpa leyndardóma viðskiptalífsins (þótt það kunni að bitna á áherslunni á barnaníðinga um sinn). Og nú án sjálfsritskoðunar í ljósi eignarhaldsins á fjölmiðlinum þar sem þættirnir voru sýndir...


mbl.is Fá ekki að nota Kompásnafnið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flokkur "í tætlum" - vegna þjóðarviljans

Þá eru dagar ríkisstjórnar Geirs H. Haarde (loks) taldir. Í beinni útsendingu. Geir tilkynnti þjóðinni þetta áðan og sagði að brotnað hefði á kröfu Samfylkingarinnar um að taka við forsætisráðuneytinu (fram að kosningum). Mest varð ég hugsi yfir orðum Geirs um að Samfylkingin væri "í tætlum" og þyldi ekki fjarveru formanns síns. Þetta er auðvitað fráleit lýsing.

Burt séð frá meintu náðarvaldi (karisma) Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur þá eru "tætlur" Samfylkingarinnar augljóslega fyrst og fremst fólgnar í því að grasrót flokksins, óbreyttir flokksmenn, gripu í taumana í Þjóðleikhúskjallaranum og kröfðust breytinga. Grasrótin endurómaði þar háværan þjóðarvilja. Geir talaði eins og að grasrótin eigi undir öllum kringumstæðum bara að gera það sem foringinn segir og hlýða. En flokksstarfið í Samfylkingunni er augljóslega ekki "Davíðskt".

Og flokksstarfið er heldur ekki "Davíðskt" innan Sjálfstæðisflokksins (lengur). Þar er líka að finna "tætlur", til að mynda djúpstæðan ágreining um Evrópumálin og ekki síður flokkadrætti hinna ýmsu arma um eftirmann Geirs. Þar er líka að finna sterkar raddir fyrir því að fyrir löngu hafi átt að "hreinsa til" í Seðlabankanum - en hollusta Geirs gagnvart Davíð Oddssyni hefur sætt furðu hjá æði mörgum í hinni almennu umræðu. Segja má að undanfarið hafi Sjálfstæðisflokkurinn verið í "tætlum" vegna nærveru Davíðs, hafi Samfylkingin verið í "tætlum" vegna fjarveru Ingibjargar!

Ofan á þrískiptingu valdsins má tala um fjórða vald fjölmiðla, fimmta vald fyrirtækjanna, sjötta vald samtaka almennings og ég leyfi mér nú að bæta við sjöunda valdinu - valdi hins almenna borgara. Almenningur hefur nú með mótmælum og öðrum aðgerðum komið ríkisstjórn frá, sem ekki naut trausts og trúverðugleika. Þetta er sögulegt í meira lagi. Búið er að hreinsa til í Fjármálaeftirlitinu og engin starfsstjórn mun taka við sem ekki hreinsar til í Seðlabankanum. Að öllum líkindum mun myndast breið samstaða um breytingar á stjórnarskrá í áttina að lýðræðislegra þjóðfélagi. Að öllum líkindum mun myndast samstaða um bæði siðferðilegri stjórnmál og viðskipti. Deila má um eitt og annað í þessari atburðarrás, en ég tel óhætt að óska þjóðinni til hamingju með árangurinn.


mbl.is Stjórnarsamstarfi lokið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svartir Baugsliðar slátra Kompási

Kannski mestu Anarkisma-Svartliðarnir séu Ari Edwald og Jón Ásgeir Jóhannesson? Þeir ganga nú um með brauki og bramli og rífa niður lýðsræðisstofnanir - því gagnrýnin fréttamennska í fjölmiðlum er einn af hornsteinum lýðræðisins. Ari og Jón, íklæddir svörtu, grýta nú eggjum, banönum og gangstéttarhellum að fjölmiðlamönnum og slasa lýðræðið.

Illi heilli eru einkareknir ljósvakafjölmiðlar landsins í höndum hins svarta Baugsveldis og nær allir einkareknir prentmiðlar líka. Sennilega finnur fólk þessa svarta veldis fyrir því að of öflugar fréttastofur undirstofnana sinna kunni nú að vera farnar að finna fyrir of mikilli sjálfstæðisþörf - og sjálfsritskoðun þá að minnka. Sennilega finnst hinum andlitshuldu (þeir sína aldrei sitt rétta andlit) svörtu Baugsverjum því tímabært að grýta uppsagnareggjum í fréttamenn "sína" og fótumroða sjálfstæða hugsun. Þegar búið er að reka Sigmund, Sölva, Jóhannes og Kristinn Hrafns; hvað hugsa hinir? Þegar búið er með ofbeldi að slátra Kompási - taka hinir upp gagnrýna hugsun og sjálfstæð vinnubrögð? Eða fara þeir eins og aðrar "ljóskur" að leita að mönnum sem bjarga köttum úr trjám og síðan að segja frá dásamlegum vörum og þjónustu Baugsveldisins? Það skyldi þó ekki vera.

Kompás mátti ekki slátra. Þó ég hefði valið aðrar áherslur þar - meira flett ofan af viðskiptamógúlum - þá hefur þetta verið ómissandi þáttur fyrir gagnrýna umræðu. Ég er rasandi reiður að hinir andlitshuldu svartklæddu Baugsliðar hafi nú grýtt þáttinn í hel.

Ég skora á blaða- og fréttamenn landsins að taka höndum saman gegn þessum svörtu öflum.


Nú skunda ég á Austurvöll

Er hissa á því að ekki sé "live" útsending með myndatökuvélum á Austurvelli. Er að fara í skó og skunda á Austurvöll...

Samfylkingin ibbar smá gogg

Ekki fer á milli mála að það hafa myndast brestir í stjórnarsamstarfið. Brestirnir heyrast í tengslum við útkomu auka-landsfundar Sjálfstæðisflokksins og nú hefur Samfylkingin boðað einhvers konar fundarhöld til að ... hvað var það kallað ... skerpa stefnu sína? Össur lætur litla kínverja springa af og til og alls ekki virðist óréttmætt að gera ráð fyrir kosningum í ár.

Þær kosningar eiga ekki að koma of snemma, það hef ég sagt fyrr. Í fyrsta lagi í maí/júní, en jafnvel ekki fyrr en í september/október. Annars vegar er brýnt að óánægju- og reiðialdan í samfélaginu fái að formast í nýrri (nýjum) pólitískri breiðfylkingu (flokki), sem nái að skipuleggja sig og taka þátt í kosningum af myndugleika. Ef það gerist hins vegar ekki þá verður óánægt og reitt fólk að fá gott tækifæri og tíma til að hreinsa til í "gömlu" flokkunum með lýðræðislegum hætti; koma í veg fyrir uppstillinga-áráttu þeirra sem verma nú valdasætin og knýja fram lýðræðislegt val á nýrri forystu meðsem opnustum prófkjörum. Þetta hef ég tuðað um áður og tuða enn.

Ég leyfi mér og að bæta því við að ríkisstjórnin ætti fram að þeim kosningum fyrst og fremst að hegða sér eins og starfsstjórn og einbeita sér að lausn brýnustu vandamála. Þessi ríkisstjórn á ekki að efna til verulega umdeildra kerfisbreytinga, eins og að auka einkarekstur í heilbrigðisþjónustunni. Og sem slík starfsstjórn ætti hún að hleypa að fólki sem áunnið hefur sér traust meðal hins reiða almennings, í lykilembætti og úttektir. Menn eins og Þorvaldur Gylfason, Vilhjálmur Bjarnason, Ragnar Önundarson, Lilja Mósesdóttir (fleiri mætti nefna); þau eiga að vera í stöðu til að hafa bein og formleg áhrif á ákvarðanir stjórnvalda.

Starfsstjórnin og Alþingi ættu og að dusta rykið af fjölmiðlalagafrumvarpi því sem þverpólitísk samstaða náðist um (en menntamálaráðherra treysti sér ekki til að knýja í gegn (ég er EKKI að tala um Davíðs-frumvörpin)), endurskoða það og laga að aðstæðum og gera svo að lögum. Þar sem aðaltakmarkið væri að efla sjálfstæði ritstjórna fjölmiðla og gera rekstur fjölmiðla bæði gagnsærri og auðveldari. Bæði nú og á komandi mánuðum og árum er brýn nauðsyn að hafa hina lýðræðislegu umræðu öfluga og aðgengilega - og óbrenglaða af utanaðkomandi og ólýðræðislegum öflum.


Mannlíf í "útgáfuhlé" - fjölmiðlar í lífróðri

Blöð og tímarit sem Birtíngur hefur gefið út.Ekki er nú mikið bloggað um þau stórtíðindi að tímaritið Mannlíf hafi verið sett í "útgáfuhlé", sem mér sýnist miðað við stöðuna á fjölmiðlamarkaðinum þýða niðurlagningu um nokkurt skeið. Þetta er enn eitt dæmið um þann ólgusjó sem fjölmiðlar eru í og gerir blaða- og fréttamönnum sífellt erfiðara um vik að vinna vinnu sína almennilega. Einmitt núna þegar þjóðin þarf hvað mest á gagnrýninni fjölmiðlun að halda.

Mannlíf hefur í gegnum árin alltaf verið með beittar og gagnrýnar greinar á síðum sínum (þótt áherslan á það hafi verið mismikil eftir ritstjórum). DV tilheyrir sama útgáfuaðilanum og hefur þurft að skera niður hjá sér (fjöldi blaðsíðna) þótt kraftur sé í blaðinu. Dagblaðið 24 stundir er horfið, búið að skera niður og sameina fréttastofur RÚV, fréttastofur Stöðvar 2 og Bylgjunnar hafa farið í gegnum hagræðingu með fækkun, Mogginn rær lífróður og fleira mætti nefna.

Blaða- og fréttamenn kjósa þessa dagana fyrir árlega tilnefningu til blaðamannaverðlauna. Margir gera það áreiðanlega með hálfum hug vegna fjármálakreppunnar og almennrar viðurkenningar á að fjölmiðlar hafi brugðist í aðdraganda kreppunnar. En ýmislegt var ágætlega gert samt. Og blaða- og fréttamenn hafa stigið á stokk og lofað að gera betur. Það verður hins vegar ansi erfitt við sífelldan niðurskurð og "útgáfuhlé". Hugsanlega finnst í vaxandi mæli mótvægi í netmiðlum. Vonandi. Hins vegar ætti ríkið einnig að íhuga að finna leiðir til að létta undir með rekstri fjölmiðla (með sanngjörnum hætti), enda er hlutur fjölmiðla í hinni lýðræðislegu umræðu viðurkenndur og talinn mikilvægur.

Ég vona alltént að ekki fari fleiri fjölmiðlar undir græna torfu eða í "útgáfuhlé".


mbl.is Mannlíf fer í útgáfuhlé
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Össur segir fjölmiðlum fyrir verkum

 Össur Skarphéðinsson ræðir við fréttamenn

Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra hefur nú skammað fjölmiðla fyrir að flytja ekki jákvæðar fréttir úr ranni ráðuneytis síns. Fjölmiðlar eru samkvæmt honum sekir um að hafa ekki áhuga á því sem hann er að sýsla með sprotafyrirtæki og almennt að vilja ekki greina frá nokkru sem jákvætt er í kjölfar bankahrunsins.

Aðalatriðið hjá Össuri er að fjölmiðlar hafa auðsýnt lítinn áhuga á plönum sem hann kynnti fyrir helgina; frumherjastyrkjum "til að aðstoða unga frumkvöðla með brilljant hugmyndir". Ég held að Össuri sé hollt að hafa það ríkulega í huga að enn eru þetta bara plön. Þetta er ekki komið til framkvæmda. Enn er þetta bara loftbóla og þjóðin fer varlega í kringum loftbólur núorðið. Þetta er vissulega fín hugmynd og athyglisvert að til séu fjármunir til að setja í þetta, á sama tíma og sjúklingum er vísað á dyr og/eða þeir rukkaðir um stórfé. En Össur; ég er viss um að áhugi fjölmiðla stóraukist þegar styrkveitingar þessar eru almennilega komnar á koppinn og "brilliant hugmyndirnar" að verða eða orðnar að veruleika. Eins og þú segir sjálfur: Fjölmiðlar eiga að ... "draga upp raunsanna mynd af veruleikanum í kringum okkur". Stefnumörkun ráðherra um að ætla að veita styrki á í dag nokkurn veginn skilið eindálk og sirka níundu síðu - og auglýsingu frá ráðuneytinu skammt frá.

 Ég held að Össur hljóti að skilja það, sem fyrrum blaðamaður og ritstjóri, að fjölmiðlar, rétt eins og almenningur, eru ekki gjarnir á að láta plata sig öllu meir með froðusnakki. Ég er viss um að frumherjaplön Össurar eru meira en froðusnakk, er viss um að hann meinar fullt með þessu og ætlar sér góða hluti. Við skulum öll fylgjast með þessum styrkjum og skoða umsóknirnar og brilliant hugmyndirnar. Þegar það er komið á blað, og öðrum sýnilegt en bara ráðherra, má fyrir alvöru fara að tala um jákvæðar fréttir.

Fjölmiðlar, eins og almenningur, er þessa dagana ekki mikið gefnir fyrir að taka orðum og gjörðum ráðherra fyrirfram sem snilld. Það er rétt hjá Össuri að tilhneigingin er fremur að horfa á dökku hliðarnar þegar stjórnvöld eru annars vegar. Hvers vegna ætli það sé?


mbl.is Össur: Eftirtektarverð hjarðhegðun fjölmiðla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um fjölmiðla og eigendur þeirra

Meðal þess sem Einar Már Guðmundsson nefndi í ræðu sinni á Austurvelli í dag var að Sigmundur Ernir (og félagar hans á Stöð 2 og öðrum "Baugsmiðlum") ættu að segja við Jón Ásgeir Jóhannesson (aðaleiganda miðlanna) að taka þá ábyrgð sem hann beri.

Undir þetta má taka upp að vissu marki, en það fer eftir hvað meint er með "segja við". Er átt við að þeir eigi að tala við hann persónulega og skipa honum að taka ábyrgð? Er átt við það að þeir eigi að segja þetta við hann í fréttaupptöku og þá sem hluta af frétt? Er átt við að starfsfólkið eigi að fara í verkfall og stöðva fjölmiðilinn sem það vinnur hjá þar til Jón Ásgeir hefur tekið ábyrgð? Eða er átt við "óbeina" aðkomu að slíkum skilaboðum með flutningi á gagnrýnum fréttum um meintar sakir Jóns Ásgeirs, þar sem reiddar eru fram fréttir og fréttaskýringar með óyggjandi upplýsingum, þess eðlis að Jón Ásgeir hljóti að taka ábyrgð? Hér er úr vöndu að ráða.

Auðvitað eru faglegir fjölmiðlamenn tvístígandi gagnvart eigendum þeirra fjölmiðla sem þeir starfa á. Ef þeir flytja fréttir af eigendum sínum þá eru þeir vanhæfir til þess og þeim ekki trúað. Ef þeir flytja ekki fréttir af eigendum sínum eru þeir undir hæl eigenda sinna. Menn eru því á milli steins og sleggju. Geta sig varla hrært og eru gagnrýndir hvað sem þeir gera. Er betra að vera vanhæfur? Er verra að vera undir hæl eigendanna?

Ég hygg að allt of mikið sé gert úr meintri þrælslund blaða- og fréttamanna gagnvart eigendum fjölmiðlanna. Ég held að of mikið sé jafnframt gert úr ritskoðunartilburðum eigendanna sjálfra. Stór hluti vandans er sjálfsritskoðun - það er fagmönnum erfitt að fjalla krítískt um eigendur síns fyrirtækis. Milli steins og sleggju sem fyrr segir. Baugsmiðlar eiga erfitt með að fjalla um Baug. Viðskiptablaðið gat illa fjallað um Bakkavararbræður. Morgunblaðið á erfitt með að fjalla um sína eigendur. RÚV er líka í vandræðum; t.d. að fjalla um menntamálaráðherra og makann hans.

Fjölmiðlum í svona stöðu væri það góður kostur að geta leitað út fyrir ritstjórnirnar og í smiðju óháðra og ótengdra fjölmiðlaverktaka um einstök verkefni sem eru eigendum viðkomandi fjölmiðla of náin. Ég sting upp á því.


mbl.is Mótmælt á Austurvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað nánar tiltekið fæst með ofbeldi og eyðileggingu?

Miklar umræður sköpuðust við síðustu færslu mína um Kryddsíldarævintýrið við Hótel Borg. Það er gott. Í færslunni var ég almennt að taka undir gildi og nauðsyn mótmælanna, en frábiðja mér ofbeldi og eyðileggingu og taldi þannig óréttmætt að rjúfa viðkomandi dagskrárgerð, enda væri þar verið að spyrja stjórnmálamenn krítískra spurninga.

Það er óbreytt. Ég hef nú horft á mikinn fjölda mynda og lesið ótal frásagnir af atburðunum við Hótel Borg og það hefur ekki breytt grundvallarskoðun minni á því sem fram fór, þótt ég hafi heldur færst nær túlkun mótmælenda hvað ofbeldi af hálfu lögreglunnar varðar. Fæ ekki betur séð en að piparúðaárásin hafi verið hlutfallslega of sterk viðbrögð miðað við aðstæður.

Þetta breytir hins vegar ekki þeirri skoðun minni að hluti mótmælendanna (ég hef sérstaklega nefnt þá sem ég kalla Anarkistana) gekk of langt. Græjur voru skemmdar og saklaust fólk var meitt. Ég tel að þegar slíkt gerist þá sé veruleg hætta á því að mótmælin missi stuðning og ekki er það gott. Innan um heiðvirt og gott fólk sem býr við réttmæta reiði eru einstaklingar sem virðast hafa ofbeldi og skemmdarverk að sínu skærasta leiðarljósi. Það er ekki gott.

En það má vissulega ræða hvaða aðferðir eru líklegar til að opna augu stjórnvalda best og mest. Getur verið að leið hinna svarklæddu og andlitshuldu Anarkista sé einmitt best? Verða bílar og hús að brenna og fólk að lemstrast og deyja? Er það tilfellið? Gott væri að fá upplýsingar um það hvort stjórnvöld hafi einhvers staðar breytt um stefnu vegna róttækra aðgerða og ofbeldis af hálfu þeirra hlutfallslega fáu mótmælenda sem lengst ganga. Er það að gerast í Grikklandi núna? Gerðist það í Frakklandi vegna aðgerðanna í úthverfum Parísar? Er þessi róttæka aðferðarfræði með öðrum orðum einhvers staðar að skila árangri þannig að augu stjórnvalda opnast og stefna þeirra breytist? Eða næst meiri og betri árangur með annarskonar og friðsamlegri aðferðum?

Notabene, ég er ekki að tala um heildstæðar uppreisnir innan þjóðfélaga, byltingar. Hvorki aðgerðirnar hér né t.d. í Grikklandi eru uppreisn eða bylting. Fjarri því. Enginn vafi er á því að mikil reiði er ríkjandi í samfélaginu vegna Hrunsins Mikla og spillingarmála sem tengjast því, en það er langur vegur frá því að þorri þegna landsins vilji umbylta ríkjandi samfélagsskipan. Það vill skipta um fólk, já, en ekki stjórnskipan. Krafan um kosningar er kannski einmitt staðfesting á viljanum til að halda í fulltrúalýðræðið og þingræðið. Eða hvað haldið þið?


mbl.is Gas Gas Gas á gamlársdag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það átti að færa Kryddsíldina - það á að stokka upp

Eins reiður og ég er vegna Hrunsins og sammála almennum mótmælum þá hlýt ég að fordæma eyðileggingaþörfina sem þarna birtist. Að því sögðu verð ég að harma að Stöðvar tvö fólk hafi ekki séð hættuna fyrir og ákveðið að flytja Kryddsíldina burt frá Hótel Borg og Austurvelli.

Ég held að þetta flokkist ekkert undir að vera vitur eftir á hjá mér - ef vitað er að aðgerðir myndu standa yfir á þessum stað og þessum tíma. Mig grunar raunar að Stöðvar tvö fólk hafi ekkert haft á móti því að mótmælaaðgerðir myndu "krydda" Kryddsíldina, en þá er það fólk samsekt stjórnvöldum um að hafa vanmetið reiðina sem í gangi er hjá þeim róttækustu. 

En auðvitað eiga stjórnvöldin mestu sökina á því hversu reitt fólk er. Þau hafa algjörlega misst allt samband við venjulegt fólk og halda að fólkið sé sátt við það sem þau gera. Sem er af og frá. Hjá fólki er mjög vel rökstuddur grunur um að allar "björgunaraðgerðir" miðist við að púkka undir útvalda en láta "óbreytta" fá reikninginn. Það er ímyndin og ekkert bendir til þess að hún sé röng.

Hitt er annað mál að reiði almennings hefur ekki, enn hið minnsta, fengið boðlegar og lýðræðislegar útrásarleiðir. Slíkt ýtir undir óánægju. Ef fram væru að koma "alvöru" nýir pólitískir valkostir og/eða að uppstokkun væri að eiga sér stað í "gömlu" flokkunum væri ástandið strax betra. En svo er ekki.


mbl.is Fólk slasað eftir mótmæli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband