Fjölmiðlamenn gegn áhrifum Jóns Ásgeirs

 Hlustaði á utandagskrárumræðurnar um stöðuna á fjölmiðlamarkaðinum, sem fram fóru á Alþingi áðan. Allveg merkilegt hve svona þingumræður geta verið innihaldssnauðar og fátækar af lausnum og hugmyndum. Hvað um það: Það kom fram sem máli skiptir, að grípa verður inn í til að stöðva einokunartilburði Jóns Ásgeirs Jóhannessonar í Baugi á fjölmiðlamarkaðinum.

Það var reyndar hlálegt að sjá Sigurð Kára Kristjánsson gerast töffari og minna á þegar bananar voru settir á tröppur þinghússins í mótmælum gegn fjölmiðlafrumvarpi fyrir fjórum árum.  Það er enda reginmunur á stöðunni á fjölmiðlamarkaðinum þá og nú og reginmunur á þeim hugmyndum að fjölmiðlalögum sem Davíð og Halldór stóðu fyrir og hinum sem þverpólitísk samstaða náðist um og einnig þeim sem nú er full þörf á að sjái dagsins ljós. Upprunaleg fjölmiðlafrumvörp, sem banana-mótmælin beindust gegn, voru haturs-aðgerðir Davíðs gegn Baugi og ekkert annað.

Ég sagði á þeim tíma að staðan væri þó þolanleg meðan Árvakur og 365 ættu í samkeppni. Nú er sú forsenda gufuð upp og nú er að óbreyttu komin upp sannanleg einokun. Nú veitti ekki af faglegum fjölmiðlalögum. Í þessu sambandi er mikilvægt að hafa í huga að staðan hefur gerbreyst til hins verra.

Fjölmiðlamenn landsins koma saman á morgun til skrafs og ráðagerða á málþingi. Þar verður meðal annars rætt hvernig fjölmiðlar landsins gersamlega brugðust í aðdraganda banka- og þjóðfélagshrunsins og þar verður hin nýja einokunarstaða áreiðanlega líka rædd í þaula. Mér finnst mikilvægt að tækifærið verði notað og að íslenskir blaða- og fréttamenn strengi þess heit að halda Jóni Ásgeiri og kónum hans fyrir utan múra ritstjórnanna - með öllum ráðum. Enn mikilvægara er að ritstjórar og fréttastjórar stígi á stokk og strengi þess heit að fagmennska ein muni ráða för en ekki óskir Eigandans. Fjölmiðlamenn verða að rísa upp og sameinast gegn Berlusconi/Murdoch Íslands. Helst af öllu þarf að knýja ódáminn til að selja allar eða stóran hluta af fjölmiðlaeigum sínum í dreift eignarhald.


mbl.is Rosabaugur Jóns Ásgeirs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Fjölmiðlalögin sem forseti hafnaði á sínum tíma voru einmitt ætluð til að koma í veg fyrir þá stöðu sem við erum í núna. Að halda því fram að einhverjar annarlegar hvatir Davíðs Oddsonar hafi ráðið einhverju er hreinlega hjákátlegt og barnalegur málflutningur og er í anda við aðdróttanir Ingibjargar Sólrúnar. Staðan sem er uppi núna er tilkomin vegna þess að stór hluti fjölmiðlafólks og stjórnmálamanna þorðu ekki að taka afstöðu gegn þeirri hringamyndun fjölmiðla sem var í uppsiglingu sakir heigulsháttar. Ég spyr, eru fjölmiðlamenn eitthvað líklegri til að taka ábyrga afstöðu núna, þegar meirihluti þeirra starfar hjá fjölmiðlum sem heyra beint undir Jón Ásgeir og Björgólfs feðgana. Ja, ég á eftir að sjá það!

Elías (IP-tala skráð) 4.11.2008 kl. 15:46

2 Smámynd: Marinó Már Marinósson

Ég er sammála Elías.   Mjög margir voru á móti þessum fjölmiðlalögum á sínum tíma bara af því Davíð var með þetta en skoðuðu aldrei innihaldið.    Enda hefur t.d. Fréttablaðið aldrei verið beitt í gagnrýni sinni né trúverðugt blað að mínu mati.    

Marinó Már Marinósson, 4.11.2008 kl. 15:55

3 identicon

Upprifjun:

http://www.visir.is/article/20070404/SKODANIR04/104040087

Rómverji (IP-tala skráð) 4.11.2008 kl. 16:13

4 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Elías og Marínó: það var grundvallarmunur á fjölmiðlafrumvarpi Davíðs og Halldórs (af hverju nefnið þið ekki Halldór?) eins og það leit út í fyrstu og síðari útgáfum eða þverpólitísku útgáfunni. Sjáið þið ekki þennan mun? Haldið þið virkilega að fjölmiðlamenn og að ekki sé talað um öll samtökin, félögin, fagmennina og fræðingana sem voru á móti upphaflegu útgáfunum hafi ekki lesið frumvörpin?! En skilað samt inn umsögnum!! Andstaðan gegn upphaflegu áformunum Davíðs og Halldórs var mjög almenn og rökstudd.

Þess utan blasir við að gerbreyting hefur orðið á stöðu mála. Að koma nú og segja: Þetta hefði ekki gerst ef fjölmiðlalög (Davíðs og Halldórs?) hefðu væru í gildi - er ákaflega barnalegt.

Friðrik Þór Guðmundsson, 4.11.2008 kl. 17:17

5 identicon

Rétt og þarft af þér, Friðrik Þór, að minna á hlut framsóknardindlanna í þessu og fleiri málum. Ekki síst einkavinavæðingu bankanna, sem þeir bera alfarið ábyrgð á. Ég gæti líka spurt Elías: Hvernig heldurðu að fjölmiðlalandslagið væri nú ef forsetinn hefði EKKI synjað lögunum staðfestingar? Vafalaust yrði þú og þínir skoðanabræður (sem eru nú orðið ansi fáir) glaðir ef hér væri bara ríkisútvarpið og Mogginn, báðum stjórnað af sjálfstæðismönnum?

Barbari (IP-tala skráð) 4.11.2008 kl. 17:56

6 Smámynd: María Kristjánsdóttir

Klukkan hvað er þessi fundur og hvar?

María Kristjánsdóttir, 4.11.2008 kl. 18:19

7 Smámynd: Marinó Már Marinósson

Ég gleymdi auðvitað Halldór, afsakaðu það.   Er ekkert að verja þá neitt sérstaklega.    Ég geri mér alveg grein fyrir því að þessir aðilar sem þú nefndir hafi lesið þetta allt og komið með umsagnir en æsingurinn í kringum þetta mál allt var bara svo mikill.  

ps. Síðasta grein í athugasemd þinni voru ekki mín orð.

Marinó Már Marinósson, 4.11.2008 kl. 18:42

8 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Hver á að reka þennan fallít ruslpóst og hvernig á yfirleitt ruslpóstur að geta starfað í samkeppni við Ruslveitu ríkisins sem hefur verið gjaldþrota í amk. 15 ár undir stjórn seppa íhaldsins? Hvers konar markaður á að geta gengið þar sem krónískum hallarekstri og gjaldþroti ráðandi aðila er endalaust forðað af almannafé?

Baldur Fjölnisson, 4.11.2008 kl. 22:41

9 identicon

É gsegi bara: Áfram Jón Ásgeir. Láttu ekki hina nýju tegun kommúnisma buga þig.

Steingrímur

Steingrímur Kristinsson (IP-tala skráð) 4.11.2008 kl. 23:56

10 identicon

Er ekki bara kominn tími á það að fjölmiðlafólk sem hefur virkilegan áhuga á t.d. rannsóknarblaðamennsku og eðlilegri gagnrýni og umræðu í samfélaginu taki sig saman og stofni félag um rekstur t.d. blaðs. Ég er viss um að slíkt blað yrði kærkomið í þessa fátæku fjölmiðlaflóru landsins. Allavega myndi ég kaupa slíkt blað.

Nína S (IP-tala skráð) 5.11.2008 kl. 00:58

11 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

5 þúsund manns með 10 þúsund króna hlut hver = góð 50 milljón króna byrjun. Einnig 100 milljón króna lán hjá Kaupþingi sem síðan verður fellt niður!

Friðrik Þór Guðmundsson, 5.11.2008 kl. 14:24

12 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Var spurður að því áðan hvort ekki væri of langt gengið að kalla Jón Ásgeir "Berlusconi" Íslands. Svarið er jú og nei. Til að vera jafnoki Berlusconi þyrfti Jón Ásgeir líka að vera aðalmaður stjórnmálaflokks og ráðherra (með hléum kannski). Það hefur Jón Ásgeir ekki gert. Enn. Að öðru leyti er ekkert rangt við að líkja stöðu Jóns Ásgeir á fjölmiðlamarkaði við stöðu Berlusconi og Murdoch. Of mikil völd og áhrif á fjölmiðla.

Friðrik Þór Guðmundsson, 5.11.2008 kl. 23:02

13 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Ég get ekki beðið eftir að sjá gjaldþrota einstaklinga fjölmenna um að fjármagna gjaldþrota ruslpóst sem hefur haldið þeim sofandi á meðan þeir voru settir á hausinn, hahahahaha og har. Það hlýtur að vera hámark kóerísins að fjármagna sérstaklega þá sem taka menn í ósmurt rassgatið.

Baldur Fjölnisson, 5.11.2008 kl. 23:47

14 Smámynd: Kolbrún Jónsdóttir

Þetta er ansi vel skrifað Friðrik. 

Ég er á því að þessi áróður gegn Davíð sé að einhverju leyti verk þeirra fjölmiðla sem þá voru í eigu Jóns Ásgeirs. Davíð hefur ekki látið hann kaupa sig eins og mér virðist Ingibjörg Sólrún hafa gert, ja allavega hennar flokkur :) og því miður ansi stóran hluta þjóðarinnar...  En ég verð nú bara að segja að ég var að ræða þetta við erlenda vinkonu mína hvernig Jón Ásgeir veður uppi heima á Íslandi og datt henni líka strax í hug Berlusconi, svo mér finnst ansi skondið að finna hérna þessa sömu líkingu :) 

Já kominn tími til að fólk vakni og sjái hvað þessi peningajöfur er að gera okkur öllum Íslendingum!

Kolbrún Jónsdóttir, 6.11.2008 kl. 00:50

15 identicon

Sæll Friðrik!

 Meira hvað þú ert að bjóða upp á og kynda undir heimskulegri umræðu á þessum þræði. Mig langar til að vitna í Ómar R. Valdimarsson sem hittir naglann á höfuðið:

Rauðsól vs. 365

Áður en þingmenn fara mikið að væla yfir því að eignarhald fjölmiðla sé allt að færast yfir á hendur eins manns, er ráðlegt að spyrja sig eftirfarandi spurninga:

  • Eignarhald fjölmiðla 365 breytist lítið við það eitt að þeir færist frá 365 yfir til Rauðsólar. Fyrst að það er tilfellið, af hverju skiptir eignarhaldið þá meira máli í dag en í gær?
  • Hefði ekki komið til þess að Rauðsól keypti fjölmiðla 365 hefði 365 líklega orðið gjaldþrota og fjölmiðlar fyrirtækisins því gufað upp. Eftir stæði einn ríkisfjölmiðill (Skjár 1 er bara kleina og því ekki talinn með). Er það hollt fyrir frjálsa fjölmiðlun að ríkið, með pólitískt skipaðan útvarpsstjóra, ráði eitt för í fjölmiðlaflóru landsins?
  • Umræðan um eignarhald Rauðsólar kemur upp á sama tíma og kröfur um að RÚV drægi sig út af auglýsingamarkaði voru orðnar ansi háværar. Ætli það sé tilviljun?

Þegar búið er að svara þessum spurningum samviskusamlega er eðlilegt að ræða setningu nýrra fjölmiðlalaga. Og ný fjölmiðlalög hljóta að þurfa að bæta samkeppnisumhverfi frjálsu fjölmiðlanna, ekki draga úr því...

Jakob Bjarnar (IP-tala skráð) 6.11.2008 kl. 23:49

16 identicon

Já... sem sagt: Þetta er býsna gott hjá Ómari fyrir utan lokahnykkinn. Hvaða ekkisens rugl er þetta um einhver fjölmiðlalög? Hér er allt að fara til fjandans en samt finnur fólk sér nægan tíma í að þrugla um slíkt. Er verið að banna einhverjum að stofna fjölmiðil? Hér ríkja samkeppnislög og það er nákvæmlega engin þörf fyrir sértæk lög um fjölmiðla. Þeir sem því trúa gera það á forsendum mannfyrirlitningar. Ef eitthvað stenst ekki - þá eru nægar aðferðir til að benda á það - þá dæmir það sem ekki stenst sig sjálft. Og þar með hittir það þann fyrir sjálfan sem reynir að misnota fjölmiðla. Snjall bisnessmaður myndi ekki láta það henda sig að eyðileggja eign sína með því að verða uppvís af misnotkun á fjölmiðli sínum. Endilega stofnaðu fjölmiðil Friðrik!

Kveðja,

Jakob

Jakob Bjarnar (IP-tala skráð) 6.11.2008 kl. 23:55

17 identicon

Ps. Á það hefur svo sem verið bent áður en það virðist engin takmörk fyrir því hvað virðist þurfa að tyggja hlutina ofan í fólk. Þessi Berlusconi-samlíking gengur engan veginn upp. Á því er einn risastór meinbugur sem er sá að Berlusconi er og var valdamikill pólitíkus. Þannig að hugsanlega má segja að fjölmiðlar hans hafi reynt að slá skjaldborg um stjórnvaldsaðgerðir. Meðan rétt er sem Friðrik segir: Fjölmiðlar ættu fyrst og fremst að vera í automatískri stjórnarandstöðu eðli málsins samkvæmt.

Jakob Bjarnar (IP-tala skráð) 7.11.2008 kl. 00:01

18 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Sæll Jakob Bjarnar. Ég þakka þér fyrir innlitið og innleggin, þótt illt sé að samþykkja að maður fari með heimskulega umræðu. Ég er engin fjölmiðlalaga-agíter almennt og hvað samþjöppun eignarhalds og meint áhrif eigenda á ritstjórnir varðar þá hef ég oft og iðulega skrifað gegn atvinnurógi á stéttina og mótmælt því að blaða- og fréttamenn séu strengjabrúður eigenda fjölmiðlanna. Þetta veistu, auðvitað.

En þú kemur ekki inn á þann möguleika sem a.m.k. var uppi á teningnum að Jón Ásgeir verði/yrði áhrifamesti eigandinn innan Árvakurs líka (þótt lítið hefði breyst 365 megin, vissulega). Þá væri sú staða einfaldlega uppi að einn áhrifamikill aðili væri mestráðandi í rekstri allra einkarekinna fjölmiðla á Íslandi (nema kannski Viðskiptablaðsins). Eitthvað er Jón Ásgeir að draga í land og er það vel, en slík staða, sem ég lýsti, er ekki góð, séð frá mörgum sjónarhornum. Þótt ég leggi mig í líma við að vitna um heiðarleika, prinsipp og sjálfstæði blaða- og fréttamanna og ritstjórna, þá er þessi staða samt ekki góð. Ég og þú vitum að Jón Ásgeir valsar ekki inn á ritstjórnir og gefur skipanir og kannski gerir hann ekki mikið meira en ráða ritstjóra eftir sínu nefi, en staðan er samt ekki góð.

Þegar ég tala um fjölmiðlalög þá er það reyndar ekki fyrst og fremst með eignarhaldshlutföll í huga (þau mega vera sæmilega rúm). Ég er miklu heldur að tala um fjölmiðlalög sem hnykkja á tjáningarfrelsi og styrkja sjálfstæði ritstjórna. Ákvæði sem ýta undir dirfsku blaða- og fréttamanna (óskammfeilni, stjórnarandstöðu, gagnrýna hugsun). Mér finnst það ekkert ótilhlýðilegt að lög segi eigendum fjölmiðla að óeðlileg afskipti af ritstjórn og ritstjórnarefni varði við lög! 

Samkeppnisstofnun virðist ekki vera aðgerðafús á fjölmiðlamarkaðinum, annars. Nema hún geri athugasemd við þessar nýjustu breytingar 365/Árvakurs (sem Jón Ásgeir er að draga úr). En þú og ég við vitum það báðir að apparöt eins og Samkeppnisstofnun, Fjármálaeftirlit og Ríkisendurskoðun eru miklum takmörkunum háð hvað virkni varðar og getu til að standa undir nafni, í samfélagi þar sem á svo mörgum mörkuðum "samkeppni" einskorðast við 1-3 blokkir.

Þetta með Berlusconi veit ég mætavel og útskýri nánar í kommenti hérna rétt fyrir ofan. Berlusconi eru auðvitað miklu lengra kominn á þessari braut. 

Gott að heyra í þér.

Friðrik Þór Guðmundsson, 7.11.2008 kl. 00:53

19 Smámynd: Kolbrún Jónsdóttir

Jæja, en snjall bisness maður veit líka hvernig hægt er að hafa áhrif aftanfrá...  Jakob hefur greinilega ekki kynnt sér áhrif Bush á Fox fréttastöðina... 

Hér er einn heilaþveginn á ferð. Synd, mikil synd.

Kolbrún Jónsdóttir, 7.11.2008 kl. 00:58

20 identicon

Sæl Kolbrún!

Talandi um að vera heilaþveginn. Fox er Fox. Trúr þú því að þeir sem sjá Fox umbreytist umsvifalaust í froðufellandi repúblíkana? Það er kannski ekki niðurstaða kosninga vestanhafs? Þú greinilega hefur ekki grænan grun um hvað ég er að tala um hérna. Þó ég sé ekki sammála Ingva Hrafni á ÍNN þá þýðir það ekki að ég vilji koma böndum á hann af því að ég hafi svo ægilegar áhyggjur af því að hann muni í gegnum sjónvarpsstöð sína umturna öllum áhorfendum í Sjálfstæðismenn. Með einhverjum bjánalegum fjölmiðlalögum. Þeir sem það halda, þeir sem það boða - hljóta því að tala fyrir þessum fjölmiðlalögum á forsendum mannfyrirlitningar. ÍNN er í hundrað prósenta eigu Ingva og fjölskyldu. Þetta sem þú ert að tala fyrir heitir fasismi. Það er bara þannig.

Kær kveðja,

Jakob

Jakob Bjarnar (IP-tala skráð) 7.11.2008 kl. 01:18

21 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Ég styð ekki bjánaleg fjölmiðlalög. Ég styð fjölmiðlalög sem ýta undir tjáningarfrelsið og efla sjálfstæði ritstjórna. Alls ekki bjánaleg fjölmiðlalög!

Ef fram kemur "frumvarp til bjánalegra fjölmiðlalaga" þá leggst ég gegn þeim...

Friðrik Þór Guðmundsson, 7.11.2008 kl. 01:22

22 identicon

Sæll Friðrik!

Jón Ásgeir þetta og Jón Ásgeir hitt. Þetta er að verða einhver mantra. Virðist vera að virka þetta sem skrímsladeildin með Bíbí í broddi fylkingar er búinn að hamast og hamra á árum saman. Ég heyri menn ekki tuða þetta um Bjögga sem mér skylst að Kristinn Hrafnsson hafi komið inn á í fínu erindi sínu á fundinum. Eini maðurinn sem hefur sannarlega orðið uppvís af tilburðum til að hafa áhrif á miðla og jafnvel söguritun. Með misjöfnum árangri - sannast sagna.

Menn ættu kannski að snúa spurningunni við. Kannski er ekki vandamálið hversu Jón Ásgeir virðist reiðubúinn að leggja mikið fé í fjölmiðlarekstur heldur hversu tregir aðrir eru til þess. Hvar eru þessir frjálshyggjugosar sem sjá andskotann í Jóni Ásgeiri? Jú, þeir eru sannarlega til í að leggja fé í fjölmiðla. Bara ekki úr eigin vasa. Þeir vilja að almenningur borgi fjölmiðlana fyrir sig. Sérðu einhverja mótsögn í teóríunni?

Kveðja,

Jakob

Kveðja,

Jakob

Jakob Bjarnar (IP-tala skráð) 7.11.2008 kl. 01:35

23 identicon

Ps. Lög um þetta og lög um hitt. Ég hef ekki enn heyrt eina einustu haldbæru röksemd fyrir því að það þurfi einhver sértæk lög um fjölmiðla. Engin. Þetta er bara spurning um almennar leikreglur í samfélaginu. Þeir sem halda að það þurfi einhver sérstök lög um fjölmiðla eru einfaldlega að misskilja eðli þeirra.

Jakob Bjarnar (IP-tala skráð) 7.11.2008 kl. 01:38

24 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Erindi Kristins var stórgott (af hverju varstu þarna ekki Jakob Bjarnar?) og ítarlegt. Mér fannst mögnuð lýsing hans á veikingu lýðræðisins á Íslandi; þunn súpa væri orðin gruggugt vatn. Um fjölmiðlamenn sagði hann: Við stöndum ekki vörð um lýðræðið og veitum fyrirtækjum ekki nægt aðhald. Við sváfum á verðinum og brunaboðarnir fóru ekki í gang þrátt fyrir eldana; einkavæðinguna, bankasölurnar, Írak, brottför Varnarliðsins og fleira.

Vitaskuld ganga blaða- og fréttamenn "Baugsmiðla" ekki að störfum sínum dáleiddir af Jóni Ásgeiri. Bjögginn var miklu líklegri til að "dáleiða" menn! Kristinn kallaði á samtakamátt og samstarf til eflingar stéttarinnar og ég vildi að ég gæti trúað því að slíkt gæti gerst. En eins og einhver sagði á fundinum (rifjaði upp); að ná blaða- og fréttamönnum saman er eins og að reyna að smala köttum.

Ég er sammála um að athyglinni hafi verið misskipt milli Bjöggans og Jóns Ásgeirs. Það er hárrétt hjá þér að ritskoðunartilburðir Bjöggans eru þó þekkt stærð, en Jón Ásgeir ekki beint staðinn að beinum áhrifum á ritstjórnir. Á þessa ritskoðunartilburði Bjöggans hef ég marg bent. En prísað mig um leið sælan að 365 og Árvakur voru ekki í eigu sama aðilans (þú komst ekki inn á það atriði, frændi). Mín mantra hefur einmitt miklu frekar hafa Bjöggann í texta sínum en Jón Ásgeir. Hitt er rétt að Jón Ásgeir hefur fengið miklu meiri gagnrýni á sig en Bjögginn í fjölmiðlaumræðunni. Kannski vegna þess að Bjögginn var hæstráðandi í bara einum fjölmiðli.

"... ekki enn heyrt eina einustu haldbæru röksemd fyrir því að það þurfi einhver sértæk lög um fjölmiðla"? Ja, þá þýðir kannski lítið að ræða fjölmiðlalög ef þú heyrir ekki röksemdirnar eða vilt ekki viðurkenna þær sem haldbærar. Ég vildi að ég gæti haft þessa miklu tiltrú þína, á að "almennar leikreglur" eigi að duga til. Kannski er yfirstandandi hrun hverskyns leikreglna í þjóðfélaginu að hafa þessi áhrif á mann; að á íslandi þurfi yfirleitt sértækra ráðstafana við af því að hið almenna dugar ekki?

Friðrik Þór Guðmundsson, 7.11.2008 kl. 12:50

25 identicon

"Ps. Lög um þetta og lög um hitt. Ég hef ekki enn heyrt eina einustu haldbæru röksemd fyrir því að það þurfi einhver sértæk lög um fjölmiðla. Engin. Þetta er bara spurning um almennar leikreglur í samfélaginu. Þeir sem halda að það þurfi einhver sérstök lög um fjölmiðla eru einfaldlega að misskilja eðli þeirra." Jakob

Það leynast nú stundum gullmolar á blogginu, en ég hló upphátt þegar ég las molann hér að ofan.

Kannski avr Jakob alinn upp í Austur-Þýskalandi hér í den ,en það er nokkuð víst að pistill frá jakobi um "eðli" fjölmiðla væri "fróðlegur"......

Ég hélt að flestum væri það kunnugt að fjölmiðlar skipa alveg sérstakan sess í lýðræðisþjóðfélögum, en það er greinilega ekki svo.

Sumir tala um frjálsa fjölmiðla sem einn að grundvöllum lýðræðisins, en það eru kannski bara vitleysingar að mati Jakobs?

Eða er kannski Jakob eithvað að misskilja "eðlið"???

Ætli Jakob telji að núverandi ástand fréttamiðlanna hér sanni kenningu hans?

magus (IP-tala skráð) 8.11.2008 kl. 03:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband