Færsluflokkur: Lífstíll
21.3.2009 | 23:16
Aumingjarnir og nekt þeirra
Að vera góður við aumingja, kallar hann það, sjálfstæðismaðurinn í stól stjórnarformanns opinbera fyrirtækisins Neyðarlínunnar (112), sem lét fyrirtækið og þar með almenning styrkja Flokkinn hans.
Hvað ætli Ásgeir í Goldfinger hafi hugsað þegar hann lét nektardansstaðafyrirtækið Baltik styrkja sama Sjálfstæðisflokkinn um 300 þúsund króna hámarkið? Vera góður við aumingja? Vera góður við greiðvikna?
Af einhverjum ástæðum sé ég fyrir mér nakta keisara...
Enginn sóttist eftir styrk nema Sjálfstæðisflokkurinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
14.1.2009 | 13:09
Sófamótmælin og ný könnun
Þótt ég sé hvorki upphafsmaður né aðstandandi sófamótmæla þeirra sem ég hef fjallað um í síðustu færslum þá styð ég aðgerðina og aðferðarfræðina og hvet fólk til að vera með. Byrjar NÚNA klukkan 14. Bara senda póst með ykkar skilaboðum - að þessu sinni til heilbrigðisráðherra og/eða helstu starfsmanna heilbrigðisráðuneytisins. Sjá nánar tvær síðustu færslur.
Svo vil ég vekja athygli á því að ég var að byrja með nýja skoðanakönnun hér til hliðar á bloggsíðunni minni. Hún er um hlut einkareksturs í heilbrigðisþjónustunni. Hvet ég fólk til að svara, en mér er það auðvitað morgunljóst að könnunin er einungis marktæk vísbending um viðhorf lesenda míns bloggs og engra annarra. Það eru samt mikilsverðar upplýsingar!
Smá útskýring: Einkarekstur í heilbrigðisþjónustunni skiptist í grófum dráttum í tvennt; einkarekstur sjálfseignastofnana, sem ekki byggist fyrst og fremst að hagnaðarsjónarmiðum, heldur fyrst og fremst á því að reka almannaþjónustu gegn sanngjörnu endurgjaldi. Hér getum við nefnt öldrunarstofnanir í höndum "einkaaðila", sbr. Hrafnistu, Grund og fleiri.
Einkarekstur hagnaðarvonar er hins vegar kapítalískur rekstur sem á að koma út með hámarks gróða í þágu eigenda sinna. Þar eru sjúklingar og aldraðir féþúfa og þjónusta við þá fyrst og fremst rekstrarútgjöld.
Fordæma lokun St. Jósefsspítala | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 22:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
10.1.2009 | 12:46
Auðjöfrar á öræfaslóðum
Sama hvað Tryggvi Jónsson, fyrrverandi aðstoðarforstjóri Baugs, reynir að sprikla þá blasir það við öllu heiðvirðu fólki að hann laug að þjóðinni um störf sín og afskipti innan veggja Landsbankans af fyrirtækjum honum tengdum. Hann sagðist ekki hafa bein afskipti en hafði bein afskipti, í stöðu sem hann átti aldrei að vera í (hver fékk hann eiginlega í bankann? Hefur sú manneskja verið látin hætta?). Tryggvi er því miður dæmi um einn af þessum veruleikafirrtu auðjöfrum (kannski fyrrum - þetta var að stórum hluta pappírsbóla) sem ekki skynja og skilja þau siðalögmál sem hljóta að taka við af siðleysissukkinu.
Hann er vonandi byrjaður að læra lexíu sína. Og allir auðjöfrarnir sem kallast útrásarvíkingar og leiddu hrunið yfir okkur ættu að byrja að kynna sér siðalögmál hinnar endurreistu þjóðar. Ef þeir vilja hins vegar kaupa aflátsbréf í anda Bjarna Ármannssonar þá ættu þeir ekki að gera það að forskrift Bjarna.
Bjarni átti aldrei að skila peningunum til þrotabús gamla bankans síns. Þaðan renna 370 milljónirnar bara í mestmegnis erlenda kröfuhafa, sem höfðu ekkert lagalegt tilkall til peninganna og gat ekki endurkrafið Bjarna um þá. Gamli bankinn hafði ekki einu sinni snert af siðferðilegu tilkalli til peninganna sem Bjarni fékk. Engan veginn.
Dansmennirnir ríku í Hruna ættu að hugleiða, þegar þeir vilja skila peningum til baka og leita eftir sátt við þjóðina, að gefa þjóðinni peningana beint. Ef Bjarni hefði spurt mig um ráðstöfun þessara 370 milljóna (sem hann hefði auðvitað aldrei gert, come on), sem enginn hafði lagalegt tilkall tilþá hefði ég sagt við hann: Snertu hjörtu sem víðast og þar sem þörfin er mest.
Í hans sporum hefði ég valið 50 líknar- og góðgjörðarfélög og aðra aðila sem orðið hafa eða verða hvað mest fyrir barðinu á hruninu og gefið þeim peningana. Fjórir aðilar fái 20 milljónir hver (alls 80 milljónir), tólf aðilar fái 10 milljónir hver (120 milljónir) og 34 aðilar fái 5 milljónir hver. Það hefði ekki verið vandasamt að finna þessa 50 aðila og óþarfi að leita að þeim öllum nú.
Aðilar eins og Mæðrastyrksnefnd, Fjölskylduhjálp Íslands, Barnaheill, Hjálparstarf kirkjunnar, Breiðavíkursamtökin, Geðhjálp, SÁÁ, Krossgötur, Stígamót, Athvarf fyrir heimilislausa, Kvennaathvarf, Foreldrar langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, Styrktarfélag vangefinna, Sjálfsbjörg, Landsbjörg, Rjóður, Krabbameinsfélag Íslands, Hjartaheill, Heyrnarhjálp, SÍBS, Lífsvog, Tourette-samtökin, Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna, Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra, Parkinson-samtökin, Alnæmissamtökin, Vernd, Þroskahjálp, Blátt áfram og fleiri mætti nefna.
Hefði þetta ekki verið miklu flottara aflátsbréf? Aflátsbréfakaupendur í stellingum ættu að íhuga þetta.
Tryggvi hafði bein afskipti | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
13.10.2008 | 09:21
Við höldum með sigurvegurunum, er það ekki?
Okkur líkar best við þá sem eru bestir og vinna oftast og glæstu sigrana, er það ekki? Hjá sumum gætir tilhneigingar til að halda með þeim sem aldrei vinna, the underdogs, en sú árátta hefur sjálfsagt verið að hverfa á tímum nýfrjálshyggjunnar, efnishyggjunnar og einstaklingshyggjunnar (survival of the fittest/fattest). Í lífsins baráttu viljum við vera eins og sigurvegararnir Liverpool og Manchester United.
Enski boltinn hefur löngum átt hug og hjörtu landsmanna, einkum karlkyns en líka í vaxandi mæli kvenkyns. Af hundruðum liða í Englandi höfum við flest ákveðið að halda með þeim sem vinna oftast. Við viljum tapa sem sjaldnast og helst aldrei. Við viljum lágmark eina gullmedalíu hvert ár.
Deild Enska boltans hjá mbl. Is hefur undanfarnar vikur staðið fyrir liðskönnun okkar á meðal um stuðning við Ensk lið og nú áðan höfðu 11.673 greitt atkvæði í könnuninni (sem er fádæma mikið í net-könnunum hér á landi). Staðan hefur lítt breyst að undanförnu og er svona:
Hvert er þitt lið í ensku úrvalsdeildinni?
Liverpool 32,7%
Man.Utd 27,4%
Arsenal 15,6%
Chelsea 5,9%
Tottenham 4,8%
West Ham 3,3%
Newcastle 1,7%
Aston Villa 1,6%
Everton 1,5%
Man.City 1,5%
Það eru til fjölbýlishús með um 500 íbúa. Líkast til er þar að finna 163 Púlara, 137 Manútara, 78 Gönnera, 29 Clesíara, 24 Spursara, 17 Westhamara og síðan 52 sem halda með ýmsum öðrum liðum.
Efnt til knattspyrnumóts gætu Púlarar sent nær 15 (ellefu manna) lið, Manútarar 12, Gönnerar 7 lið, Chelsíarar 2 (og hálft) og Spursarar 2 lið. Ofsalega mikið um rauða boli!
75.7% halda með 3 liðum, þeim sigursælustu auðvitað. Mér finnst raunar merkilegt hve mínir menn, Spurs, njóta mikils fylgis hérlendis, miðað við kröfuna um helst dollu á hverju ári, sem áreiðalega er vænting stuðningsmanna þriggja til fjögurra efstu liðanna á listanum. Þrír af hverjum fjórum halda með dollu-liðunum. Mest er ég hissa yfir því að Chelsea hafi ekki hoggið stærri skörð í hlut þriggja efstu, eftir Eiðstímabilið. Ég er líka svolítið hissa að KR-búningur Newcastle hafi ekki skilað meiri árangri.
En það sem vekur einna mestu athyglina hjá mér er brotthvarf Lídsaranna. Miðað við það sem ég man er ég handviss um að Leeds United hafi hér fyrir bara 10-20 árum náð allavega fjórða sætinu með kannski 10%. Nú virðast fylgismenn liðsins hafa gufað upp að mestu. Af hverju ætli það sé? Jú, liðið varð gjaldþrota, féll um tvær deildir og vinnur núna aldrei dollur. Við höldum ekki með svoleiðis liðum. -
p.s. Hef falið reiði-pistlana mína í bili en ekki eytt þeim. Þeir eru og verða áfram til, en fá hvíld frá lesningu að sinni.
14.9.2008 | 12:07
Hugvekja: Þú skalt ekki stela
Þegar fólk stelur lambalæri í Bónus eða glingri úr Smáralind þá heitir það þjófnaður og brot á boðorðum Guðs og slíkt fólk ætti samkvæmt norminu helst að senda til Breiðavíkur til tuktunar hjá geðveikum brottreknum togaraskipstjórum. Þegar moldríkt fólk stelur hins vegar milljónum og milljörðum af samhluthöfum sínum þá heitir það viðskipti og samkvæmt norminu ætti helst að senda það til Bessastaða og hengja fálkaorðu á það fína slekti.
Meira er ekki um það að segja. Er það?
Hnuplað fyrir mörg hundruð þúsund í Smáralind | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
13.9.2008 | 10:55
Hvað kom eiginlega fyrir klipparana?
Það er mikið talað um stórhækkun verðlags matvörunnar og með réttu. Það vantar ekki umtalið og fréttirnar um þetta, en alveg hefur farið framhjá fjölmiðlum og saumaklúbbum hygg ég sú geysilega hækkun sem átt hefur sér stað á hárgreiðslustofum landsins á einu ári. Sjá síðustu færslu.
Þarna (raunar í athugasemdahlutanum) kemur fram að klippingin hefur stórhækkað; svo mikið að mig svimar (kr. frá ágúst 2007 til ágúst 2008):
Klipping karla, gjald | 2.755 | 3.605 |
Klipping kvenna, gjald | 4.068 | 6.128 |
Hvað á þetta að þýða? Reyndar fór ég í klippingu fyrir þremur dögum og þá var herraklippingin komin í 3.800 þannig að ósóminn hefur ekki stöðvast ennþá. Þetta þarfnast útskýringar. Efniskostnaður (aðföng) og slíkt er lítill liður í klippingunni, hið minnsta hjá körlum. Mér sýnist að á hárgreiðslustofum sé þetta aðallega spurning um launaliðinn. 30-40% hækkun á klippingu karla og 50% hækkun á klippingu kvenna á einu ári - ég vil fá skýringu. Óska eftir liðsinni fjölmiðla og almennings. Eða eru kannski einhverjir klipparar þarna úti sem vilja tjá sig?
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 11:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (30)
Ég tel mig geta talað um merkjanlega vísbendingu um trúarafstöðu gesta inn á bloggsíðu mína (hið minnsta þeirra áhugasömustu um trúmál yfirleitt). Helmingurinn lýsir sig vera kristinn, langflestir þeirra í Þjóðkirkjunni. Hlutfallslega fáir eru annarrar trúar en kristni en einhverrar hefðbundinnar/skipulagðrar trúar þó. Næstum þriðjungur lýsir yfir trúleysi sínu, efahyggjumenn eru 8% og þeir sem eru eitthvað allt annað en ofangreint mælast en eru fáir. Þessir þrír hópar ná til samans 44%.
Kristinn í Þjóðkirkjunni 41.2% (87 atkvæði)
Kristinn í Fríkirkjusöfnuði 3.8% ( 8 atkvæði)
Kristinn Kaþólsk(ur) 2.8% ( 6 atkvæði)
Kristinn í öðrum söfnuði 3.3% ( 7 atkvæði)
Ásatrúar 0.9% ( 2 atkvæði)
Múslimi 0.9% ( 2 atkvæði)
Búddatrúar 0.5% ( 1 atkvæði)
Önnur trú en ofangreint 2.4% ( 5 atkvæði)
Efahyggjumaður (Agnostic) 8.1% (17 atkvæði)
Trúlaus 30.8% (65 atkvæði)
Eitthvað allt annað 5.2% (11 atkvæði)
(211 hafa svarað)
Þetta er í sjálfu sér í ágætu samræmi við niðurstöður trúarlífsrannsóknar Guðfræðistofnunar, þar sem um helmingur taldi sig vera kristinn en um þriðjungur trúlausan.
Þessar upplýsingar eru fyrst og fremst gagnlegar fyrir mig. Mér finnst fínt að fá merkjanlega vísbendingu um að þeir sem lesa blogg mitt endurspegli samfélagið allt í grófum dráttum. Ég fékk svipaða vísbendingu í lesendakönnun um pólitíska afstöðu samkvæmt vinstri-hægri ásnum. Dæmi um gildi slíkra upplýsinga varð örugglega bloggvini Gunnari Th. Gunnarssyni eftirtektarvert. Hann ákvað að apa eftir könnun minni um pólitíska afstöðu í anda vinstri-hægri ásnum. Ég fékk 194 smellur, en hann hætti könnuninni með aðeins 80 smellur. Ég er til vinstri en hann er til hægri, en svo bar þó við, ef vísbendingarnar eru réttmætar, að við virðumst fá tiltölulega svipaða pólitíska breydd í gestum. Það finnast mér merkilegar vísbendingar. Hægrimenn eru að kíkja á hvað ég sé að skrifa og um hvað er talað hjá mér og vinstri menn eru að kíkja á hvað Gunnar er að segja og hvað er talað um hjá honum. Það er gott.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 10:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (47)
20.5.2008 | 02:14
Hverrar trúar ert þú - ef einhverrar?
Athugið: ENN OG AFTUR NÝ OG SPENNANDI KÖNNUN HÉR TIL HLIÐAR! NÚ UM TRÚMÁL!!
Mér leikur forvitni á að vita hvernig þið lesendur bloggsíðu minnar skilgreinið ykkur í trúmálum. Því hvet ég lesendur síðunnar til að taka þátt í könnuninni hér til hliðar og tjá sig eftir nennu og öðrum atvikum í athugasemdadálkinn við þessa hér færslu.
Forvitnilegt væri fyrir einhvern annan að vita hvort samsetningin yrði svipuð með sömu kosti...
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 11:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (29)
18.5.2008 | 11:32
Léttadrengi misþyrmt - sunnudagslesning
Um 20. ágúst 1924 var níu ára gamall drengur frá Sauðárkróki lánaður sem léttadrengur að bæ í Skagafirði og bar kunnugum saman um að þangað hefði drengurinn farið að öllu leyti heill heilsu, vel til fara og óskemmdur á fótum, í góðum holdum og í fullu fjöri. En næstu fimm vikurnar upplifði drengurinn ungi sannkallaða martröð.
Á bænum bjuggu hjón, sem við köllum Guðberg og Jóhönnu, hann 30 ára en hún 24 ára og vanfær af öðru barni þeirra, en fyrir var á heimilinu þriggja ára barn þeirra. Það var hart í ári, kuldatíð og annir miklar. Drengurinn skyldi létta hjónunum verkin.
Fimm vikum eftir komu drengsins var nágrannastúlka að nafni Margrét á ferð á hesti sínum nálægt bænum og rakst á drenginn, sem við köllum Jónas, þar sem hann lá á grúfu við þúfu út á víðavangi, rænulítill og illa á sig kominn. Vildi hann ekki fara heim til sín en samþykkti að fara heim með stúlkunni.
Heimilisfólk stúlkunnar sá þegar að ekki væri allt með felldu. Drengurinn var þrátt fyrir kuldakast illa klæddur að utanhafnarfötum; í einni prjónapeysu og utanhafnarbrókum sem gengnar voru af öðrum lærsaumi, með prjónahúfu á höfði. Drengurinn var blár í andliti af kulda, berhentur og bólginn á höndum, votur uppfyrir hné og skalf mjög. Hann var magur og vesældarlegur og var þegar háttaður ofaní rúm.
Missti allar tær á báðum fótum
Þegar Jónas var afklæddur varð fólkinu starsýnt á fætur hans, sem voru mjög skemmdir; bólgnir uppfyrir ökkla og settir kuldapollum og svörtum drepblettum. Tærnar á báðum fótum voru svartar, harðar og alveg dauðar, og lagði fljótlega af þeim ýldulykt.
Þarna var drengnum hjúkrað í tæpa viku og var hann framan af varla með réttu ráði. Hann komst í læknishendur í nokkra daga áður en hann var fluttur með strandferðaskipi á sjúkrahús, þar sem hann dvaldi í nokkra mánuði undir stöðugu eftirliti. Ekki var hægt að bjarga miklu; leysti af allar tær á báðum fótum og varð að taka af fremsta hluta nokkurra ristarbeinanna.
Mál var höfðað gegn hjónunum Guðbergi og Jóhönnu vegna misþyrmingarinnar. Báru læknar að ekkert hefði getað orsakað ásigkomulag drengsins nema kuldi, vosbúð og illur aðbúnaður.
Berðu á þær smjör drengur
Við rannsókn málsins kom fram sá framburður drengsins, að hjónin hefðu verið vond við hann og barið hann, þó fremur Guðbergur en Jóhanna. Í eitt skipti hefði hann og verið sveltur, en almennt verið svangur á þeim fimm vikum sem hann dvaldi hjá hjónunum.
Hjónin voru hneppt í gæsluvarðhald og lágu fljótlega fyrir játningar þeirra um meginatriði. Sögðust þau ekki hafa veitt því athygli hvort drengurinn væri heill á fótum fyrr en hálfum mánuði eftir að hann kom til þeirra, en þá varð konan þess vör að drengnum væri illt í fótunum. Skoðuðu þau hjónin fæturna og sögðu að þá hafi tærnar á báðum fótum verið orðnar bláleitar og svartar og harðar viðkomu. Prófaði Guðbergur hvort drengurinn fyndi til í tánum með því að klípa í þær, en drengurinn kvaðst ekkert finna til.
Sögðust þau þá hafa íhugað að leita ráða hjá hreppstjóra um lækningar, en úr því varð samt aldrei. Þeim duldist næstu daga ekki að drengnum versnaði; varð sjáanlega haltur og bjagaður í göngulagi. Hlífðist hann við að stíga í fæturna en beitti fyrir sig jörkunum utanfótar og hælunum.
Síðustu vikuna kvartaði drengurinn mjög yfir ástandi sínu, en ráð Guðbergs var þá að drengurinn skyldi bera nýtt smjör á fæturna, það hefði dugað sér vel gegn sprungum í iljum. Frúin sagði honum hins vegar að sækja hreint vatn í koppinn sinn til að þvo fæturna uppúr. Duldist það hjónunum þó ekki að ástand fótanna fór æ versnandi. Skömmu áður en drengurinn var tekinn frá þeim ræddu þau aftur um að koma drengnum til læknis, en ekkert varð úr framkvæmdinni frekar en áður.
Sveltur, barinn og sviptur sængum
Hjónin játuðu á sig sakarefnin í meginatriðum, þótt afar treglega hafi gengið að fá þau til að upplýsa nokkuð. Þau viðurkenndu að þrátt fyrir ástand drengsins hefði honum í engu verið hlíft við vosbúð eða útivist og að hann muni daglega hafa verið votur í fæturna. Jóhanna taldi þó að hún hefði fært drengnum þurra sokka á hverjum morgni.
Guðbergur játaði að hann hefði hýtt drenginn tvisvar með hrísvendi á berar lendar og barið hann einu sinni í höfuðið með hendinni. Var það á þriðju viku dvalartíma drengsins og gert í refsingarskyni, þar eð drengurinn hefði verið ódyggur og óhlýðinn. Ekki var þó talið sannað að nokkuð líkamstjón hefði leitt af þessari harðneskju.
Jóhanna játaði að hún hefði í eitt sinn, að undirlagi bóndans, svelt drenginn í refsingarskyni með því að gefa honum ekki mat eitt kvöldið. Hafði drengurinn þá ekki komið með hest sem hann var sendur eftir. Hann hafi að öðru leyti alltaf fengið nægan mat. Loks þótti það sannað með játningu Jóhönnu að rúmri viku fyrir brottför drengsins hafi hún tekið sængurfatnað allan úr rúmi drengsins (tvær hlýjar sængur sem hann kom með), en látið hann sofa á heydýnu með tvær einfaldar ábreiður ofaná sér. Sagðist hún hafa gert þetta af því drengurinn hefði vætt rúmið að nóttunni.
Engar bætur fyrir örkuml
Sök hjónanna þótti sönnuð og til þess tekið hve illa þau bjuggu að drengnum, þótt óvenjuleg kuldatíð ríkti og svo kalt "að kúm varð ekki alltaf beitt en jörð gránaði af jeljagangi". Hið megna skeytingarleysi var túlkað sem vísvitandi misþyrming. Undirréttardómari taldi samt duga að dæma hjónin í fimm daga fangelsi við vatn og brauð (þau höfðu þá setið í gæsluvarðhaldi í hálfan mánuð) og greiða sjúkrahúslegukostnað drengsins og málskostnað.
Hæstiréttur herti refsinguna upp í 10 daga fangelsi við vatn og brauð.
Athyglisvert er að drengnum voru engar örkumlabætur dæmdar; krafa um slíkt var ekki tekin til greina þar eð drengurinn hefði "not beggja fóta sinna þrátt fyrir missi tánna, svo að hann er sæmilega fær til gangs og hefir lestingin á fótum hans ekki spilt heilsu hans eða kröftum svo séð verði eða gert hann óhæfan til að afla sér lífsviðurværis með venjulegri vinnu"!
Ofangreint byggir á sönnu dómsmáli - fyrir Hæstarétti.
Lífstíll | Breytt 19.5.2008 kl. 01:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
16.5.2008 | 14:50
(Mogga)bloggarar III: Verið rödd en ekki kvak
Á fyrra tímabilinu skrifaði ég nokkuð títt og prufaði alls konar brögð og þemu í bloggfærslunum, meira að segja kökuuppskrift og hvaðeina. Stóð það átak yfir í vikutíma. Ég setti á tímabilinu ýmsa mismunandi pistla á bloggið. Inn rötuðu pistlar um Mýrarhúsaskólamálið, kristilegt siðgæði, Hannes Hólmstein, heilbrigðiskerfið, umhverfismál, Kópavogíska spillingu, Steiner-dóminn og einnig slengdi ég fram sleggjudómi um ferð 200 kennara til Kína og næstum því Tíbet. Allt var þetta með hinum ýmsu áherslum og þá ekki endilega algerlega mínum eigin!
Um það bil sem ég var kominn í 5. sætið og sá ekki fram á að fara ofar, nema með gríðarlegri viðbótarvinnu, slakaði ég á, skrifaði sjaldnar og skrifaði loks skipulega og málefnalega um þungt mál; losunarmálin (útstreymi gróðurhúsalofttegunda). Og þó ég hafi reynt að gera skrifin þau áhugaverð þá hrundu heimsóknirnar og æ færri tóku þátt í umræðunni. Með minni og málefnalegri skrifum tókst mér á bara nokkrum dögum að koma mér úr 5. sætinu niður í það 76. Þetta var sem sagt árangurinn af því að reyna að fá lesendur bloggsins til að lesa og ræða um losunarmálin!
Seinna tímabilið hófst 23. apríl og hefur því staðið yfir í 22-23 daga. Ég miðaði að þessu sinni við að jafnaði 1-2 færslur á dag, en að öðru leyti hef ég leikið mér að hinum ýmsu málefnum, tónum:
Ég vil skipta þessu seinna tímabili í þrennt. Fyrsta tímabilið: Ég get sagt að það skilaði mörgum heimsóknum að skrifa um Trukkarana og mótmæli þeirra (þau voru þá sæmilega fersk), um jarðgangavitleysuna í Árna Johnsen. Vel gekk líka að grínast með ölvun og ofbeldi aðkomufólks í miðborgina, en langbest í heimsóknum var að fjalla um trúmálaskrif Skúla Skúlasonar, því trúmálaumræða er greinilega mjög mikið lesin og kommenteruð á, einkum ef maður storkar lesendum með æsilegum skoðunum. Annað tímabilið: Frá ca. 28. apríl til 6. maí dró úr heimsóknum hjá mér, enda skrifaði ég í meira mæli en áður þá um almenna pólitík og prufaði syrpu af limru-skrifum (limrur höfða augljóslega ekki til fjöldans). Þriðja tímabilið: Frá um 8. maí fór síðan lesturinn/skoðunin hraðbyri uppávið á ný, en þá kom ég með grínaktugar færslur um stofnun Anti-Rúsínufélags Íslands (ARFI), fjölskyldublogg um afmæli sonar míns heitins, þóttist ætla að segja allt um veru mína hjá Kastljósi, fjallaði um kristilegt siðgæði og hið eldheita mál eftirlaunalög ráðherra og þingmanna. Þessi síðasta blanda kom mér á skömmum tíma úr 31. sæti í 8. sæti.
Besta trixið var síðan núna í lokin; að boða skipulögð skrif um ykkur bloggarana sjálfa og nafngreina súper-bloggarana. Mikill kippur koma á lesturinn/skoðunina og 6. sætið kom í höfn. Eftir miðnætti í kvöld verð ég að líkindum búinn að hrifsa 5. sætið á ný, af Jens Guð og þá er hringnum lokað, því ég geri mér ekki nokkrar vonir um að fara uppfyrir súper-bloggarana fjóra. Það er of mikið erfiði að reyna það. Hugsanlega gæti ég það með mjög tíðum færslum, sitja við tölvuna allan daginn og hamra inn en því nenni ég að sjálfsögðu ekki þótt ég gæti.
Málið er nefnilega ósköp einfalt. Þó ég segist vera að greina þennan blessaða lista þá skipta einstaka vísbendingar litlu máli; eina almennilega viðmiðunin er hvort þú hafir eitthvað fróðlegt/forvitnilegt/skemmtilegt að segja og hvort þú skapir með því innihaldsríka umræðu á þessum Almenningi. Ef ekki þá ertu bara framlenging á vitleysunni sem ríkti á malefnin.com og ert í raun og veru ekki að taka þátt í neinni þjóðfélagsumræðu. Og það eru einmitt skilaboðin mín til bloggara; verið rödd sem hlustað er á en ekki kvak sem enginn skilur og skilur ekkert eftir sig!
P.S. NÝ OG SPENNANDI KÖNNUN HÉR TIL HLIÐAR!
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 16:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (31)