Auðjöfrar á öræfaslóðum

Sama hvað Tryggvi Jónsson, fyrrverandi aðstoðarforstjóri Baugs, reynir að sprikla þá blasir það við öllu heiðvirðu fólki að hann laug að þjóðinni um störf sín og afskipti innan veggja Landsbankans af fyrirtækjum honum tengdum. Hann sagðist ekki hafa bein afskipti en hafði bein afskipti, í stöðu sem hann átti aldrei að vera í (hver fékk hann eiginlega í bankann? Hefur sú manneskja verið látin hætta?). Tryggvi er því miður dæmi um einn af þessum veruleikafirrtu auðjöfrum (kannski fyrrum - þetta var að stórum hluta pappírsbóla) sem ekki skynja og skilja þau siðalögmál sem hljóta að taka við af siðleysissukkinu.

Hann er vonandi byrjaður að læra lexíu sína. Og allir auðjöfrarnir sem kallast útrásarvíkingar og leiddu hrunið yfir okkur ættu að byrja að kynna sér siðalögmál hinnar endurreistu þjóðar. Ef þeir vilja hins vegar kaupa aflátsbréf í anda Bjarna Ármannssonar þá ættu þeir ekki að gera það að forskrift Bjarna.

Bjarni átti aldrei að skila peningunum til þrotabús gamla bankans síns. Þaðan renna 370 milljónirnar bara í mestmegnis erlenda kröfuhafa, sem höfðu ekkert lagalegt tilkall til peninganna og gat ekki endurkrafið Bjarna um þá. Gamli bankinn hafði ekki einu sinni snert af siðferðilegu tilkalli til peninganna sem Bjarni fékk. Engan veginn.

Dansmennirnir ríku í Hruna ættu að hugleiða, þegar þeir vilja skila peningum til baka og leita eftir sátt við þjóðina, að gefa þjóðinni peningana beint. Ef Bjarni hefði spurt mig um ráðstöfun þessara 370 milljóna (sem hann hefði auðvitað aldrei gert, come on), sem enginn hafði lagalegt tilkall tilþá hefði ég sagt við hann: Snertu hjörtu sem víðast og þar sem þörfin er mest.

Í hans sporum hefði ég valið 50 líknar- og góðgjörðarfélög og aðra aðila sem orðið hafa eða verða hvað mest fyrir barðinu á hruninu og gefið þeim peningana. Fjórir aðilar fái 20 milljónir hver (alls 80 milljónir), tólf aðilar fái 10 milljónir hver (120 milljónir) og 34 aðilar fái 5 milljónir hver. Það hefði ekki verið vandasamt að finna þessa 50 aðila og óþarfi að leita að þeim öllum nú.

Aðilar eins og Mæðrastyrksnefnd, Fjölskylduhjálp Íslands, Barnaheill, Hjálparstarf kirkjunnar, Breiðavíkursamtökin, Geðhjálp, SÁÁ, Krossgötur, Stígamót, Athvarf fyrir heimilislausa, Kvennaathvarf, Foreldrar langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, Styrktarfélag vangefinna, Sjálfsbjörg, Landsbjörg, Rjóður, Krabbameinsfélag Íslands, Hjartaheill, Heyrnarhjálp, SÍBS, Lífsvog, Tourette-samtökin, Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna, Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra, Parkinson-samtökin, Alnæmissamtökin, Vernd, Þroskahjálp, Blátt áfram og fleiri mætti nefna.

Hefði þetta ekki verið miklu flottara aflátsbréf? Aflátsbréfakaupendur í stellingum ættu að íhuga þetta.


mbl.is Tryggvi hafði bein afskipti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

,,,Sammála síðasta ræðumanni.........

Res (IP-tala skráð) 10.1.2009 kl. 13:24

2 identicon

Hverju orði sannara varðandi Tryggva.  Síðan eru þessir dónar að reyna að bulla sig út úr vitleysunni.

Hefði hugsanlega gefið Bjarna smá kredit ef hann hefði gefið peningana til góðgerðamála eins og þú bendir svo réttilega á.

Hefur einhver spurt hvers vegna hann gerði ekkert í að reyna að vara við og að aðstoða þá við að stoppa yfirvofandi hrun bankana og þjóðarbúsins ef honum var það svona augljóst 2006?

 Nei - hann fór aðeins í það að bjarga eigin skinni og peningum. 

Ja sveiattan! 

joð (IP-tala skráð) 10.1.2009 kl. 13:46

3 Smámynd: Jón Ragnar Björnsson

Líklega er þetta bara byrjunin hjá Bjarna.

Ef hann ætlar að fá fólk til að trúa því að þetta hafi verið eitthvað annað en ódýrt auglýsingaglamur, þarf hann að skila þjóðinni margfalt meiru.

Líknarstofnanirnar sem þú nefnir, Friðrik, eiga að fá næstu 500 millurnar sem Bjarni ætlar að skila til þjóðar sinnar.

Jón Ragnar Björnsson, 10.1.2009 kl. 13:47

4 identicon

Brjarni hefði auðvitað aldrei getað skilað 370 milljónunum þannig. Hann skilaði nefninlega bara um 240 eða svo, restin kom úr ríkissjóði sem endurgreiðsla frá skattinum, eins og kom fram í Fréttablaðinu fyrir nokkrum dögum. Þannig að hann í raun tók rúmar 100 millur úr ríkissjóði og skilaði erlendum kröfuhöfum. Svona í sem einföldustu máli...

Brjánn Jónasson (IP-tala skráð) 10.1.2009 kl. 15:13

5 Smámynd: corvus corax

Hafa menn ekki áttað sig á því ennþá að það er ekki hægt að ætlast til þess að Tryggvi segi satt um eitt eða neitt. Hann laug endalaust fyrir dómi og er þar að auki glæpahundur eins og allir hinir fjárglæframennirnir.

corvus corax, 10.1.2009 kl. 15:15

6 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Alveg rétt; 240 millur skal það heita. Áskorunin sem slík stendur þó auðvitað. Varatillaga mátti vera; að peningarnir yrðu notaðir til að borga dómsmálið gegn Breskum stjórnvöldum sem ríkisstjórnin treysti sér ekki að fara í. Ég segi: Jafnvel þótt málið hefði ekki lagatæknilega unnist þá var hægt að vinna með því stórfelldan móralskan sigur á heimsvísu.

Var að koma inn frá mótmælunum (fór fyrir fundarlok því ég hafði skóað mig óskynsamlega og er að koma úr veikindum). Fullt af fólki en hefði mátt vera meira. Uppgangur þó, eftir jólatruflunina. Albaníu-Þorvaldur var góður og passaði sig á að viðhafa ekki sértæk Lenínísk-Hoxhaísk slagorð, heldur var með harðan en almennan málflutning sem hitti í mark. Lilja Mósesdóttir líka góð.

Ég gerði mér sérstakt far um að rölta um í mannfjöldanum og skoða mótmælendurna. Varla að það sæist andlitshulinn einstaklingur. Þetta var fólk á öllum aldri og augljóslega úr öllum kimum samfélagsins (nema frá Samtökum Spilltra Auðjöfra(SPA)). Enginn "skríll" þarna á ferð.

Friðrik Þór Guðmundsson, 10.1.2009 kl. 15:48

7 identicon

Bjarni notaði tækifærið sitt illa. Hann átti og á að skila öllum peningunum til ríkisins. Hann á ekki að leika góðan jólasvein heldur að koma auðmjúkur (ef hann skilur það orð) og skila þessum peningum. Hann á þá ekki, hann tók þá: Eða eins og hann sagði "ég setti upp verð og því var tekið" . Það þarf einnig að taka fram í dagsljósið stjórnir bankanna sem létu skipa sér fyrir verkum eins og hundum.

Anna María (IP-tala skráð) 10.1.2009 kl. 16:47

8 identicon

Sæll Friðrik. 

Að gefa 50 líknar- og góðgjörðarfélögum og öðrum aðilum sem orðið hafa eða verða hvað mest fyrir barðinu á hruninu 240 milljónir yrði lýðsskrum af alversta tagi af hendi Bjarna Ármannssonar.

Peningana fékk hann frá Gamla Glitni og að sjálfsögðu skilar Bjarni peningunum aftur til Gamla Glitnis. Þó væri ekki nema til þess að sýna fram á að starfslokasamningur Bjarna hafi verið út úr korti og hefði aldrei átt að eiga sér stað.

Að ætlast til þess að Bjarni skili peningum, sem fengnir eru með siðlausum samningum, til góðgerðafélaga (þó að þau eigi allt gott skilið) lýsir tvöföldu siðgæði og er ekki til þess fallið að innleiða heilbrigðara siðferði.

Vonandi hvíla þau "siðalögmál sem hljóta að taka við af siðleysissukkinu" á jöfnuði, sanngirni og réttlæti en ekki á tækifærismennsku og "flottum" aflátsbréfum.

Árni (IP-tala skráð) 10.1.2009 kl. 17:38

9 identicon

Leyfi mér að taka undir við þig.

Þetta eru hörmuleg mál.

oliagustar (IP-tala skráð) 10.1.2009 kl. 17:47

10 Smámynd: Alma Jenny Guðmundsdóttir

Það sem var athyglisvert í máli Bjarna í umræddu Kastljóss-viðtali var að hann ásamt fleirum bjuggu til nýtt kerfi!!!!   Síðar notaði hann orðið kerfisvilla ef ég man rétt.

 Einn siðblindast maður á Íslandi.  Hann talar um ,,kerfið" eins og algerlega sjálfstæðan hlut til að leika sér með.

Kerfið - sem hann talar svo fjálglega um er:  Heilbrigðiskerfið, skattakerfið, félagslega kerfið, menntakerfið o.s.frv. - sem sagt það sem heita grunnstoðir samfélags - kalla hann og hans líkar, stjórnmálamenn og Forseti Íslands, kerfi og kerfisvillu.  Af hverju nefni ég stjórnmálamenn og Forseta Íslands, jú þeir studdu þessar ,,kerfisbreytingar" með miklu stolti og af dæmalausri siðspillingu og græðgi.

Alma Jenny Guðmundsdóttir, 10.1.2009 kl. 18:03

11 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Já, það var einmitt Bjarni sem "bjó til" ofurlaunakerfið á Íslandi, var fremstur í flokki þegar kaupaukakerfin voru innleidd hér. Þetta átti að heita árangurstenging, en virkaði vitaskuld bara í eina átt. Og ýtti að sjálfsögðu undir bókhaldslegan "árangur" að sýna hluthöfum.

Friðrik Þór Guðmundsson, 10.1.2009 kl. 19:26

12 Smámynd: Hlédís

Er rétt munað, að DO hafi "mótmælt harðlega" fyrir fáeinum árum, er laun og sporslur bankastjóra urðu skyndilega himinhá - lallað í Kaupþing og tekið út 4-hunduð-þúsundkall - en skömmu síðar hafi Seðlabankastjóralaun verið stórhækkuð - af því hve bankastjórar væru of(ur)launaðir?!

Hlédís, 10.1.2009 kl. 22:14

13 Smámynd: Loopman

Sagan segir að ástæða þess að Bjarni endurgreiddi þetta sé einfaldlega sú að hann var aldrei búinn að fá peningana frá bankanum. Sem merkir að hann hefði þurft að sækja þetta í þrotabú, og þess vegna gott PR move að "endurgreiða" þetta til að líta vel út.

Ég veit fyrir víst að Landsbankinn var það illa staddur 1. desember 2007 að hann gat ekki borgað starfsmönnum sínum kauprétt sem þeir voru búnir að selja. Hvernig voru hinir bankarnir þá.

Loopman, 11.1.2009 kl. 00:25

14 identicon

Athyglisvert sem Loopman segir. að "endurgreiða" og kaupa sér vinsældir með peningum sem hann hefði aldrei fengið. Klækjarefur er hann.

Húnbogi Valsson (IP-tala skráð) 11.1.2009 kl. 03:04

15 Smámynd: Magnús Jónsson

Friðrik: góð færsla hjá þér, Tryggvi laug hann á að reka umsvifalaust, hann hafði milligöngu um fund manna og bar það af sér en játar svo burt með manninn, men eiga að segja satt.

Hvað Bjarna varðar, þá fannst mér gott að sjá að einhver stóð loksins upp og sagði ég gerði mistök, hvað sem mönnum kann svo að finnast um skil á peningum þá fannst mér viðtalið, vera heiðarlegt af hans hálfu og sína þá hlið sem hann sá og hrærðist í, vonandi eiga fleiri eftir að stíga fram og varpa ljósi á hvað skeði og hvað hefði mátt betur fara, það hefur skort stórlega í umræðunni að hið rétta kæmi fram, til dæmis upphrópinn  um miljarðanna 7, sem voru í raun kaupréttarsamningur upp á 6,650 miljarðar og síðan sala á 7 miljarða hagnaður 350 miljónir, hvað sem mönnum finnst svo um þannig gerning þá á að fara rétt með.  

Magnús Jónsson, 11.1.2009 kl. 10:51

16 Smámynd: Heidi Strand

Fjárhirðirinn vill nú vera góða hirðirinn.
Bjarni hefur tækifæri til að bæta fyrir mistök sin með að skila öllum þeim peningum sem hann skammtaði sér.

Heidi Strand, 11.1.2009 kl. 11:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband