Erfið fæðing breiðfylkingar um nýtt Ísland

Seint virðist það ætla að ganga að út úr ríkjandi þjóðfélagsólgu fæðist ný breiðfylking fyrir auknu lýðræði og gegn spillingunni. Margir tala og mótmæla, en samstaða fjöldans um lausnir er ekki fyrir hendi. Þó eru nokkrar kjarnahugmyndir í gangi sem myndað gætu ramma utan um skipulagða stjórnmálahreyfingu.

Má þar nefna kröfuna um breytingar á stjórnarskrá og kosningakerfi sem gera myndu lýðræðið virkara og sýna betur vilja kjósenda. Kjósendur fái fleiri kosti en bara eitt X í kosningum og fái oftar að taka sérstaka afstöðu til mikilvægra mála í þjóðaratkvæðagreiðslum (t.d. ef fimmtungur kjósenda skrifar undir slíkan vilja). Virkum aðskilnaði verði komið á milli framkvæmdavalds og löggjafarvalds og skýr lög verði sett gegn hvers konar spillingu í stjórnmálum og skýr lög með virku eftirlitskerfi gegn t.d. fákeppni og krosseignatengslum í viðskiptum.  Skýr lög gegn einkavinavæðingu og þar sem almannaþjónustan er vernduð gegn gróðahyggjunni. Jafnframt getur samstaða örugglega komið til um sanngjarnari skiptingu eigna og þá ekki síst um uppstokkun á kvótakerfinu.Hugsanlega er hægt að ná samstöðu um kröfuna um annað hvort þjóðstjórn eða utanþingsstjórn, en sú krafa yrði að vera mjög hávær og eindregin.

Um margt annað mun ekki nást samstaða meðal þeirra sem mótmæla hruninu og afleiðingum þess og aðgerðum vegna þess. Þjóðin er klofin í herðar niður hvað ESB og krónuna varðar. Hún er langt í frá sammála um hvernig skiptingin milli markaðarins og hins opinbera á að vera. Hún er örugglega ekki sammála um hvernig bregðast eigi við atvinnuleysinu með atvinnuuppbyggingu, t.d. með í huga græn sjónarmið.

Margir bíða fullir vonar eftir nýrri pólitískri breiðfylkingu. Kosningar mega ekki koma til of snemma, því það verður að gefa mögulegri breiðfylkingu færi á að fæðast og skipuleggja sig og það verður að koma í veg fyrir að gömlu flokkarnir fái skjól og frið til þess að stilla upp kosningalista (í stað þess að viðhafa prófkjör). Ef ekki fæðist ný breiðfylking þá verður að gefa fólki færi á að fara inn í gömlu flokkana til að hreinsa þar til. Í öllu falli er tími breytinga og uppstokkunar örugglega runninn upp og fremst á listanum eru virkara lýðræði, aðgerðir gegn spillingu og sanngjarnari skipting þjóðarauðsins.


mbl.is Hörður: Mótmælin rétt að byrja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnar Eiríksson

Sæll,

Ég hef enga trú á að það náist samstaða um mörg og stór mál.    Þess vegna líst mér vel á tillögu Egils Jóhannssonar  um "Sjálfseyðingarflokkinn" sem væri bara með eitt (tvö) mál á stefnuskránni, nefnilega að breyta kosningalögunum (og endurflytja mál Valgerðar Bjarnadóttur um  eftirlaun Alþingismanna (og e.t.v. endurskoða Lög um fjármál stjórnmálaflokka)).

Það geta ákaflega margir sameinast um þessi mál til þess eins að losa okkur úr viðjum flokkanna og þar sem nýji flokkurinn mundi hætta eftir unninn sigur í þessu(m) máli/málum gætu gömlu flokkarnir tekið upp þráðinn aftur - en nú bara eftir nýjum leikreglum!    Ég held að sumir gömlu flokkanna gætu samþykkt þetta því við vitum öll að þeir þurfa allir að fara í pólitíska hundahreinsun og það gera sumir þeirra sér grein fyrir líka!

Kveðja,

Ragnar Eiríksson   

Ragnar Eiríksson, 11.1.2009 kl. 21:09

2 identicon

Sæll Friðrik, ef ekki sprettur upp nýtt pólitískt afl af þessum hremmingum þá á þessi þjóð ekkert annað skilið en það stjórnkerfi sem nú ræður ríkjum; flokka sem ganga erinda þröngra hagsmuna á kostnað þeirra stærri; illa dönsk yfirvvöld sem hygla sér og sínum og hafa setið í krafti þess að gera sem flesta áhangendur einhverskonar spillingar. En það er illt að eiga við óbilgjarnan og athyglisvert að framlög eru aukin til víkingasveitar Björns Bjarnasonar en efnahagsbrotadeild býr við sömu fátæktina og fyrr. Það á ekki að gera neitt; núverandi valdhafar -og ekki skyldi mann dreyma um að nóg sé að skáka Sjálfstæðisflokknum út í kosningum til að gera hann valdalausan- ætla bara að bíða af sér storminn og eru nú þegar að binda svo um hnútana að auðmennirnir, spilltu embættismennirnir og einkavæddir vinirnir geti haldið áfram í sama farvegi og fyrir hrunið og það eina sem við, alþýðan, höfum grætt er nýtt blótsyrði: HELVÍTIS FOKKING FOKK.

Kveðja

Bárður

Bárður R: Jónsson (IP-tala skráð) 12.1.2009 kl. 04:59

3 Smámynd: Einar Indriðason

Til þess að náist samstaða um nýja stjórnarskrá, nýtt líðræði... þá þarf viðkomandi stjórnmálaafl að hafa EITT og EINUNIS EITT atriði á sinni stefnuskrá.

Viðkomandi stjórnmálaafl MÁ *EKKI* greiða atkvæði með eða móti neinu öðru máli.  Það MÁ EKKI blanda hlutum eins og evru eða ESB inn í.  Það *verður* að vera hlutlaust í slíkum málum.

Þannig, og bara þannig, er (hugsanlega) hægt að veiða fólk frá gömlu flokkunum.  Ef það er tryggt að önnur deiluefni verði útkljáð síðar.

Einar Indriðason, 12.1.2009 kl. 08:05

4 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Mjög athyglisvert að sjá VG-mann krefjast hreinsana í sínum flokki. Ekki mótmæli ég því og ekki er VG saklaust á nokkurn hátt. Til dæmis í Eftirlaunalagamálinu. Og ekki hefur mér fundist flokkurinn of trúverðugur hvað viðbrögð við Hruninu varðar; hefur tekið mjög popúlíska afstöðu (sagt það sem best hljómar). Það er þannig erfitt að vera beinlínis á móti helv.... IMF-láninu (aðrar "vinaþjóðir" þröngvuðu okkur þangað), því ef ekki er tekið slíkt lán þá kallar það einfaldlega á mun meiri niðurskurð ríkisútgjalda en þó er nú í kortunum. Nema tillagan sé einmitt að "svelta" sig til bata og þá til að hlífa kynslóðum framtíðarinnar við skuldum.

Hvað sem því líður þá hlógum við hjónin upphátt og innilega þegar við heyrðum öfgahægri fígúruna Jón Kristinn Snæhólm í Hrafnaþingi froðufella yfir VG, að "þeir væru á móti öllu" og segðu eins og "Litla gula hænan" "ekki ég, ekki ég". Eitthvað hefur gamla góða lestrarkennslusagan farið vitlaust ofan í Jón Kristinn, því það var einmitt Litla gula hænan sem vildi baka brauð (gera eitthvað) en hundurinn, kötturinn og svínið nenntu því ekki, en vildu gæða sér á brauðinu eftir á.Langar að rifja upp eftirfarandi skemmtilega útleggingu Gylfa Þorkelssonar frá því fyrir tæpu ári og vona ég að Jón Kristinn nái að læra söguna:

http://www.gylfithorkels.net/?a=f&i=242

"21.2.2008

Litla gula hænan og nútíminn

Lengi hefur það verið vinsæl iðja að endurflytja gömul meistarastykki. Á þetta jafnt við um tónlist, leikverk, óperur, bókmenntir. Sumir grípa til þess ráðs, væntanlega til að vera frumlegir, að „færa verkið til nútímans“. Nú er t.d. verið að sýna „La Traviata“ í Íslensku óperunni og mig minnir að ég hafi lesið það einhversstaðar að verkið væri sviðsett í bandarískri stórborg nútímans. Voða sniðugt. Það kom því ekkert mjög á óvart að sjá „Litlu gulu hænuna“, þetta sígilda bókmenntaverk, í nútímaútfærslu í Sunnlenska fréttablaðinu í gærkvöldi.

 Í nútímaútgáfunni er sagan svona:

 Litla gula hænan ákveður að baka brauð. En hún er störfum hlaðin og upptekin, eins og nútímahænur gjarnan eru, og fær sérfræðinga til að sjá um verkið fyrir sig og borgar þeim fyrir, að sjálfsögðu. Búið er að kasta bæði hundinum og kettinum út úr sögunni en í staðinn hefur svínunum fjölgað, þau eru orðin fjögur. Svínin eru auðvitað algerlega á móti áformum litlu gulu hænunnar og hrína hástöfum í mótmælaskyni. Litla gula hænan lætur það ekki á sig fá og lætur baka brauðið.

Þegar brauðið er tilbúið leyfir litla gula hænan svínunum að sjá það. Ilmurinn er ómótstæðilegur. Litla gula hænan ákveður að bjóða til veislu, en áður en að veislunni kemur laumast svínin inn í búrið, taka brauðið sem þau vildu ekki láta baka og fara með það út á torgið. Þar eru komnir þeir félagar Kasper, Jasper og Jónatan með myndavélar, hafa villst út úr Kardemommubæ. Svínin lyfta brauðinu á loft og segja: „Sjáið þið brauðið. Ilmurinn er indæll og bragðið eftir því! Þetta er alveg eins og brauðið sem við hefðum bakað (ef við hefðum eitthvað bakað).“ Kasper og Jasper fá glýju í augun og þeim dettur ekki í hug að spyrja svínin hvar þau fengu brauðið. Jónatan fær smá bakþanka og spyr litlu gulu hænuna til málamynda hvað henni finnist um að svínin séu að sýna öllum brauðið hennar.

 En svínin skælbrosa bara framan í myndavélarnar.

Í nútímaútgáfunni hafa orðið nokkrar grundvallarbreytingar frá upprunalegu útgáfunni. Í fyrsta lagi ætlar litla gula hænan ekki að borða brauðið sitt sjálf, heldur bjóða til veislu. Í öðru lagi láta svínin sér ekki nægja að vera á móti bakstrinum og velta sér upp úr drullupollinum meðan á bakstrinum stendur, heldur laumast þau, eins og þjófar á nóttu, til að sýna öllum brauðið og reyna að eigna sér heiðurinn af vel heppnuðum bakstri. Þetta er í fullu samræmi við sjálfhverfni nútímans og einkagróðasjónarmið „íslenska athafnamannsins“ sem telur það eina helstu dyggðina að græða sem mest á sem allra skemmstum tíma og með sem allra minnstri fyrirhöfn, vílar ekki fyrir sér „yfirtökur“ á eignum annarra og hirðir hvorki um heiður né sæmd.

 Hér er því það grundvallarsjónarmið, að einstaklingarnir eigi að njóta ávaxtanna af vinnu sinni, fótum troðið. Litla gula hænan getur að vísu boðið til veislu, en það er því miður búið að velta brauðinu upp úr drullu í svínastíunni".

Friðrik Þór Guðmundsson, 12.1.2009 kl. 13:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband