Færsluflokkur: Fjölmiðlar
16.1.2009 | 13:33
Mannlíf í "útgáfuhlé" - fjölmiðlar í lífróðri
Ekki er nú mikið bloggað um þau stórtíðindi að tímaritið Mannlíf hafi verið sett í "útgáfuhlé", sem mér sýnist miðað við stöðuna á fjölmiðlamarkaðinum þýða niðurlagningu um nokkurt skeið. Þetta er enn eitt dæmið um þann ólgusjó sem fjölmiðlar eru í og gerir blaða- og fréttamönnum sífellt erfiðara um vik að vinna vinnu sína almennilega. Einmitt núna þegar þjóðin þarf hvað mest á gagnrýninni fjölmiðlun að halda.
Mannlíf hefur í gegnum árin alltaf verið með beittar og gagnrýnar greinar á síðum sínum (þótt áherslan á það hafi verið mismikil eftir ritstjórum). DV tilheyrir sama útgáfuaðilanum og hefur þurft að skera niður hjá sér (fjöldi blaðsíðna) þótt kraftur sé í blaðinu. Dagblaðið 24 stundir er horfið, búið að skera niður og sameina fréttastofur RÚV, fréttastofur Stöðvar 2 og Bylgjunnar hafa farið í gegnum hagræðingu með fækkun, Mogginn rær lífróður og fleira mætti nefna.
Blaða- og fréttamenn kjósa þessa dagana fyrir árlega tilnefningu til blaðamannaverðlauna. Margir gera það áreiðanlega með hálfum hug vegna fjármálakreppunnar og almennrar viðurkenningar á að fjölmiðlar hafi brugðist í aðdraganda kreppunnar. En ýmislegt var ágætlega gert samt. Og blaða- og fréttamenn hafa stigið á stokk og lofað að gera betur. Það verður hins vegar ansi erfitt við sífelldan niðurskurð og "útgáfuhlé". Hugsanlega finnst í vaxandi mæli mótvægi í netmiðlum. Vonandi. Hins vegar ætti ríkið einnig að íhuga að finna leiðir til að létta undir með rekstri fjölmiðla (með sanngjörnum hætti), enda er hlutur fjölmiðla í hinni lýðræðislegu umræðu viðurkenndur og talinn mikilvægur.
Ég vona alltént að ekki fari fleiri fjölmiðlar undir græna torfu eða í "útgáfuhlé".
Mannlíf fer í útgáfuhlé | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjölmiðlar | Breytt 17.1.2009 kl. 02:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
15.1.2009 | 11:59
Það sem Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir sagði aðallega...
Ruglið í kringum aðvörunina/hótunina frá ráðherra, sem Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir nefndi í aðdraganda ræðu sinnar á borgarafundinum, hefur að ósekju leitt alla athygli fjölmiðla og almennings frá því sem hún sagði í sinni eiginlegu, skrifuðu og úthugsuðu ræðu. Það er í sjálfu sér mest Sigurbjörgu sjálfri að kenna, enda var þetta framhjáhlaup hennar illa ígrundað (rétt eins og aðvörunarorð vinkonunnar, hvernig sem þau voru annars meint).
Ég tel ljóst að Sigurbjörg er markeruð af samskiptum sínum við tiltekna ráðamenn. Hún sagði á kolrangan hátt frá sögunni um aðvörunina og mátti vera ljóst af framhaldinu að rökstuddur grunur myndi falla á Guðlaug Þór. Það var alls ekki óeðlileg ályktun, þótt fólk hafi gjarnan mátt stilla fullyrðingum um slíkt í hóf í ljósi óvissunnar.
En yfir litlu verður Vöggur feginn. Núna keppast sjálfstæðismenn við að pissa í skóinn sinn og fá yl af þessu aðvörunarmáli. Hótunin kom frá ISG hrópa þeir og maður heyrir feginleikann í röddinni og gleðigrátstafinn í kverkunum.
En menn tala ekki um það sem á eftir kom í innleggi Sigurbjargar - ræðunni sjálfri; þessari skrifuðu og skipulögðu. Þar var Sigurbjörg ekki að fjalla um ISG, heldur um Guðlaug Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra sem vinnur eftir Landsfundasamþykkt Sjálfstæðisflokksins en ekki stjórnarsáttmála, ráðherra sem hunsar reglur um mannaráðningar, ráðherra sem ætlar sér að einkavinavæða heilbrigðisþjónustuna og mismuna þeim sem þurfa á henni að halda. Þessu skyldu menn ekki gleyma í öllum hamaganginum og gutl-hávaðanum af kólnandi hlandinu í skóm sjálfstæðismanna. Öllu þessu lýsti stjórnsýslufræðingurinn úthugsað og af yfirlögðu ráði - og lagði starfsheiður sinn undir. Um þessi aðvörunarorð tala sjálfstæðismenn ekki og fjölmiðlar ekki heldur.
Minni á skoðanakönnun hér til hliðar á blogg-síðunni minni; afstaðan til einkareksturs í heilbrigðisþjónustunni.
Ráðlegging eða boð? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
12.1.2009 | 14:31
Össur segir fjölmiðlum fyrir verkum
Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra hefur nú skammað fjölmiðla fyrir að flytja ekki jákvæðar fréttir úr ranni ráðuneytis síns. Fjölmiðlar eru samkvæmt honum sekir um að hafa ekki áhuga á því sem hann er að sýsla með sprotafyrirtæki og almennt að vilja ekki greina frá nokkru sem jákvætt er í kjölfar bankahrunsins.
Aðalatriðið hjá Össuri er að fjölmiðlar hafa auðsýnt lítinn áhuga á plönum sem hann kynnti fyrir helgina; frumherjastyrkjum "til að aðstoða unga frumkvöðla með brilljant hugmyndir". Ég held að Össuri sé hollt að hafa það ríkulega í huga að enn eru þetta bara plön. Þetta er ekki komið til framkvæmda. Enn er þetta bara loftbóla og þjóðin fer varlega í kringum loftbólur núorðið. Þetta er vissulega fín hugmynd og athyglisvert að til séu fjármunir til að setja í þetta, á sama tíma og sjúklingum er vísað á dyr og/eða þeir rukkaðir um stórfé. En Össur; ég er viss um að áhugi fjölmiðla stóraukist þegar styrkveitingar þessar eru almennilega komnar á koppinn og "brilliant hugmyndirnar" að verða eða orðnar að veruleika. Eins og þú segir sjálfur: Fjölmiðlar eiga að ... "draga upp raunsanna mynd af veruleikanum í kringum okkur". Stefnumörkun ráðherra um að ætla að veita styrki á í dag nokkurn veginn skilið eindálk og sirka níundu síðu - og auglýsingu frá ráðuneytinu skammt frá.
Ég held að Össur hljóti að skilja það, sem fyrrum blaðamaður og ritstjóri, að fjölmiðlar, rétt eins og almenningur, eru ekki gjarnir á að láta plata sig öllu meir með froðusnakki. Ég er viss um að frumherjaplön Össurar eru meira en froðusnakk, er viss um að hann meinar fullt með þessu og ætlar sér góða hluti. Við skulum öll fylgjast með þessum styrkjum og skoða umsóknirnar og brilliant hugmyndirnar. Þegar það er komið á blað, og öðrum sýnilegt en bara ráðherra, má fyrir alvöru fara að tala um jákvæðar fréttir.
Fjölmiðlar, eins og almenningur, er þessa dagana ekki mikið gefnir fyrir að taka orðum og gjörðum ráðherra fyrirfram sem snilld. Það er rétt hjá Össuri að tilhneigingin er fremur að horfa á dökku hliðarnar þegar stjórnvöld eru annars vegar. Hvers vegna ætli það sé?
Össur: Eftirtektarverð hjarðhegðun fjölmiðla | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
3.1.2009 | 22:42
Um fjölmiðla og eigendur þeirra
Meðal þess sem Einar Már Guðmundsson nefndi í ræðu sinni á Austurvelli í dag var að Sigmundur Ernir (og félagar hans á Stöð 2 og öðrum "Baugsmiðlum") ættu að segja við Jón Ásgeir Jóhannesson (aðaleiganda miðlanna) að taka þá ábyrgð sem hann beri.
Undir þetta má taka upp að vissu marki, en það fer eftir hvað meint er með "segja við". Er átt við að þeir eigi að tala við hann persónulega og skipa honum að taka ábyrgð? Er átt við það að þeir eigi að segja þetta við hann í fréttaupptöku og þá sem hluta af frétt? Er átt við að starfsfólkið eigi að fara í verkfall og stöðva fjölmiðilinn sem það vinnur hjá þar til Jón Ásgeir hefur tekið ábyrgð? Eða er átt við "óbeina" aðkomu að slíkum skilaboðum með flutningi á gagnrýnum fréttum um meintar sakir Jóns Ásgeirs, þar sem reiddar eru fram fréttir og fréttaskýringar með óyggjandi upplýsingum, þess eðlis að Jón Ásgeir hljóti að taka ábyrgð? Hér er úr vöndu að ráða.
Auðvitað eru faglegir fjölmiðlamenn tvístígandi gagnvart eigendum þeirra fjölmiðla sem þeir starfa á. Ef þeir flytja fréttir af eigendum sínum þá eru þeir vanhæfir til þess og þeim ekki trúað. Ef þeir flytja ekki fréttir af eigendum sínum eru þeir undir hæl eigenda sinna. Menn eru því á milli steins og sleggju. Geta sig varla hrært og eru gagnrýndir hvað sem þeir gera. Er betra að vera vanhæfur? Er verra að vera undir hæl eigendanna?
Ég hygg að allt of mikið sé gert úr meintri þrælslund blaða- og fréttamanna gagnvart eigendum fjölmiðlanna. Ég held að of mikið sé jafnframt gert úr ritskoðunartilburðum eigendanna sjálfra. Stór hluti vandans er sjálfsritskoðun - það er fagmönnum erfitt að fjalla krítískt um eigendur síns fyrirtækis. Milli steins og sleggju sem fyrr segir. Baugsmiðlar eiga erfitt með að fjalla um Baug. Viðskiptablaðið gat illa fjallað um Bakkavararbræður. Morgunblaðið á erfitt með að fjalla um sína eigendur. RÚV er líka í vandræðum; t.d. að fjalla um menntamálaráðherra og makann hans.
Fjölmiðlum í svona stöðu væri það góður kostur að geta leitað út fyrir ritstjórnirnar og í smiðju óháðra og ótengdra fjölmiðlaverktaka um einstök verkefni sem eru eigendum viðkomandi fjölmiðla of náin. Ég sting upp á því.
Mótmælt á Austurvelli | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
2.1.2009 | 12:01
Hvað nánar tiltekið fæst með ofbeldi og eyðileggingu?
Miklar umræður sköpuðust við síðustu færslu mína um Kryddsíldarævintýrið við Hótel Borg. Það er gott. Í færslunni var ég almennt að taka undir gildi og nauðsyn mótmælanna, en frábiðja mér ofbeldi og eyðileggingu og taldi þannig óréttmætt að rjúfa viðkomandi dagskrárgerð, enda væri þar verið að spyrja stjórnmálamenn krítískra spurninga.
Það er óbreytt. Ég hef nú horft á mikinn fjölda mynda og lesið ótal frásagnir af atburðunum við Hótel Borg og það hefur ekki breytt grundvallarskoðun minni á því sem fram fór, þótt ég hafi heldur færst nær túlkun mótmælenda hvað ofbeldi af hálfu lögreglunnar varðar. Fæ ekki betur séð en að piparúðaárásin hafi verið hlutfallslega of sterk viðbrögð miðað við aðstæður.
Þetta breytir hins vegar ekki þeirri skoðun minni að hluti mótmælendanna (ég hef sérstaklega nefnt þá sem ég kalla Anarkistana) gekk of langt. Græjur voru skemmdar og saklaust fólk var meitt. Ég tel að þegar slíkt gerist þá sé veruleg hætta á því að mótmælin missi stuðning og ekki er það gott. Innan um heiðvirt og gott fólk sem býr við réttmæta reiði eru einstaklingar sem virðast hafa ofbeldi og skemmdarverk að sínu skærasta leiðarljósi. Það er ekki gott.
En það má vissulega ræða hvaða aðferðir eru líklegar til að opna augu stjórnvalda best og mest. Getur verið að leið hinna svarklæddu og andlitshuldu Anarkista sé einmitt best? Verða bílar og hús að brenna og fólk að lemstrast og deyja? Er það tilfellið? Gott væri að fá upplýsingar um það hvort stjórnvöld hafi einhvers staðar breytt um stefnu vegna róttækra aðgerða og ofbeldis af hálfu þeirra hlutfallslega fáu mótmælenda sem lengst ganga. Er það að gerast í Grikklandi núna? Gerðist það í Frakklandi vegna aðgerðanna í úthverfum Parísar? Er þessi róttæka aðferðarfræði með öðrum orðum einhvers staðar að skila árangri þannig að augu stjórnvalda opnast og stefna þeirra breytist? Eða næst meiri og betri árangur með annarskonar og friðsamlegri aðferðum?
Notabene, ég er ekki að tala um heildstæðar uppreisnir innan þjóðfélaga, byltingar. Hvorki aðgerðirnar hér né t.d. í Grikklandi eru uppreisn eða bylting. Fjarri því. Enginn vafi er á því að mikil reiði er ríkjandi í samfélaginu vegna Hrunsins Mikla og spillingarmála sem tengjast því, en það er langur vegur frá því að þorri þegna landsins vilji umbylta ríkjandi samfélagsskipan. Það vill skipta um fólk, já, en ekki stjórnskipan. Krafan um kosningar er kannski einmitt staðfesting á viljanum til að halda í fulltrúalýðræðið og þingræðið. Eða hvað haldið þið?
Gas Gas Gas á gamlársdag | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
31.12.2008 | 16:56
Það átti að færa Kryddsíldina - það á að stokka upp
Eins reiður og ég er vegna Hrunsins og sammála almennum mótmælum þá hlýt ég að fordæma eyðileggingaþörfina sem þarna birtist. Að því sögðu verð ég að harma að Stöðvar tvö fólk hafi ekki séð hættuna fyrir og ákveðið að flytja Kryddsíldina burt frá Hótel Borg og Austurvelli.
Ég held að þetta flokkist ekkert undir að vera vitur eftir á hjá mér - ef vitað er að aðgerðir myndu standa yfir á þessum stað og þessum tíma. Mig grunar raunar að Stöðvar tvö fólk hafi ekkert haft á móti því að mótmælaaðgerðir myndu "krydda" Kryddsíldina, en þá er það fólk samsekt stjórnvöldum um að hafa vanmetið reiðina sem í gangi er hjá þeim róttækustu.
En auðvitað eiga stjórnvöldin mestu sökina á því hversu reitt fólk er. Þau hafa algjörlega misst allt samband við venjulegt fólk og halda að fólkið sé sátt við það sem þau gera. Sem er af og frá. Hjá fólki er mjög vel rökstuddur grunur um að allar "björgunaraðgerðir" miðist við að púkka undir útvalda en láta "óbreytta" fá reikninginn. Það er ímyndin og ekkert bendir til þess að hún sé röng.
Hitt er annað mál að reiði almennings hefur ekki, enn hið minnsta, fengið boðlegar og lýðræðislegar útrásarleiðir. Slíkt ýtir undir óánægju. Ef fram væru að koma "alvöru" nýir pólitískir valkostir og/eða að uppstokkun væri að eiga sér stað í "gömlu" flokkunum væri ástandið strax betra. En svo er ekki.
Fólk slasað eftir mótmæli | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjölmiðlar | Breytt s.d. kl. 16:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (63)
19.12.2008 | 10:56
Mark "Deep throat" Felt kvaddur
Merkilegur einstaklingur er látinn. Mark Felt var embættis- og stjórnmálamaður sem unni heitar rétti og hag almennings en rétt og hag spilltra stjórnmálamanna og athafnamanna.
Gagnvart gjörspilltum yfirmönnum sínum í pólitíkinni og fjármögnurum þeirra tók hann afstöðu með Jóni og Gunnu og hjálpaði blaðamönnunum Woodward og Bernstein hjá fjölmiðlinum Washington Post að fletta ofan af spillingu og leynimakki Nixons og kóna hans. Tryggði hið nauðsynlega lýðræðislega aðhald, sem ekki fékkst samkvæmt venjulegum rásum.
Bless, Felt.
Hvar eru "Feltar" Íslands? Hvar eru þeir sem þykir meira virði hagur almennings en hagur spilltra stjórnmála-, embættis- og athafnamanna - og koma mikilsverðum upplýsingum til trúverðugra blaða- og fréttamanna?
Deep Throat" látinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
7.12.2008 | 19:48
ALLT fer undir teppið og við borgum ALLT
Því meir sem tíminn líður til einskis, því meir sem menn í ábyrgðarstöðum sverja af sér ábyrgð, þeim mun sannfærðari verð ég að sekir menn muni sleppa, að verðmæti okkar fari í súginn og að það verði setta á axlir alþýðu landsins í núverandi og komandi kynslóðum að borga - að axla ábyrgðina!
Hvarvetna finnst mér blasa við að þetta verði lexía málsins. Ráðagerðir um hvítbók, um sérstakan saksóknara, um rannsóknir á hinu og þessu - allt kemur þetta allt of seint til framkvæmda. "Útrásarvíkingarnir" munu sleppa og hafa haft nægan tíma til að fiffa með eignir og skuldir. Pólitískir ráðamenn sleppa við að axla ábyrgð. Ráðherrar þessarar og síðustu ríkisstjórna munu sleppa við ábyrgðina. Bankastjórn og bankaráð Seðlabankans munu sleppa. Stjórnendur og yfirstjórn Fjármálaeftirlitsins munu sleppa. Ekkert af þessu liði fær nema í mesta lagi áminningu. Enginn mun tapa pening og æru nema Jón og Gunna.
Engu mun skipta þótt fjölmiðlar geri sitt besta við að bæta upp fyrir sofandaháttinn undanfarinna ára. Harðar fréttir fjölmiðla virðast enda ekki hreyfa við sekum og ábyrgum aðilum hið minnsta.
Að þessum svartsýnu orðum sögðum held ég í jólabloggpásu!
2.12.2008 | 23:29
Þingmenn um fjölmiðla - fjölmiðlar um þingmenn
Nú auglýsir Skjár Einn að framundan sé þátturinn Málefnið. Í Málefninu á að fjalla um "framtíð Íslenskra fjölmiðla". Umsjónarmenn þessa dagskrárgerðar í fjölmiðlinum Skjá Einum um fjölmiðla eru tveir kjörnir þingmenn þjóðarinnar, sem þiggja laun fyrir löggjafarstörf, Illugi Gunnarsson, kjörinn þingmaður af lista Sjálfstæðisflokksins og Katrín Jakobsdóttir, kjörinn þingmaður af lista Vinstri grænna.
Það veitir ekki af umfjöllun um framtíð íslenskra fjölmiðla. Sjálfsagt eru þau ekki verst til þess fallin, lögfræðingurinn og þingmaðurinn Illugi og bókmenntafræðingurinn og þingmaðurinn Katrín. Og sjálfsagt má finna að því að hefðbundnir fjölmiðlamenn annist dagskrárgerð um framtíð íslenskra fjölmiðla. Einhvern veginn finnst mér það nú samt eins og þarna eigi blindur að leiða haltan. Hafa þingmenn ekki annars nóg að gera þótt þeir taki ekki dagskrárgerð af fólki sem vantar verkefni? Eru aðstoðarmenn þessara þingmanna kannski að sinna þingstörfunum sjálfum?
Það er gott að það eigi að fjalla um framtíð íslenskra fjölmiðla
Ég legg til að í næsta þætti fjalli tveir fjölmiðlamenn, blaða- og fréttamenn, um framtíð íslenskra stjórnmála. Það er líka ákaflega verðugt verkefni um atvinnugrein og fag sem eru í djúpri kreppu þessi misserin. Annar ofangreindra þingmanna væri kjörinn til að svara krefjandi spurningum um stjórn íslenska ríkisins síðustu tvo áratugina eða svo. Um hrikalega útkomu flokks hans í skoðanakönnunum (sem mætti útleggja sem "stórkostlegt rekstrartap"). Um lexíuna af nýfrjálshyggjunni og einkavinavæðingunni o.s.frv. Og auðvitað um þann skaða sem íslensk stjórnmál hafa orðið fyrir.
1.12.2008 | 15:00
Baráttukveðjur til RÚV-ara
Ég sendi starfsmönnum RÚV hér með mínar heitustu baráttukveðjur vegna enn einnar uppsagnahrinunnar. Mér sýnist ljóst að allt of langt hafi að undanförnu verið gengið við niðurskurð og sparnað og að það muni verulega skerða getu fjölmiðilsins til að ástunda frétta- og dagskrárgerð. Einmitt þegar við þurfum hvað mest á öflugum fréttum og fréttatengdu efni að halda.
Ég nefni þetta með í huga að ekki er um einangraða uppsagnahrinu að ræða, heldur hafa niðurskurðar- og sparnaðaraðgerðir staðið yfir allt frá því fyrir ohf-væðingu. Mjög margir reyndir frétta- og dagskrárgerðarmenn eru horfnir af vettvangi og ljóst að fækkunin nú gerir það enn erfiðara en áður að standa undir væntingum um öfluga, sjálfstæða og óháða upplýsingagjöf til almennings. Þess utan hanga yfir höfðum manna óljós orð um frekari aðgerðir og undir þeim kringumstæðum liggur eins og mara á starfsfólkinu óttinn um atvinnuöryggið og þar með leggst á fólkið af vaxandi þunga sjálfsritskoðun og meðvirkni.
Þetta er afleitt ástand. Þótt við því sé að búast að RÚV þurfi að mæta versnandi árferði þá hygg ég að aðgerðir séu komnar langt upp fyrir það sem eðlilegt getur talist miðað við lögbundið hlutverk þessa fjölmiðils í almannaeigu. Tal um afnám afnotagjalds og brotthvarf RÚV af auglýsingamarkaði leggur þeim mun meiri skyldur á herðar stjórnvalda um að tryggja fjölmiðlinum í almannaeigu næg fjárframlög til sómasamlegs rekstrar.
Starfsmenn Rúv boða til funda | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |