Færsluflokkur: Fjölmiðlar
28.11.2008 | 20:35
Fjölmiðlar í ólgusjó
Ég var búinn að nefna það að ástandið á fjölmiðlamarkaðinum ætti eftir að versna, en manni verður nú samt um og ó þegar verstu spár virðast ætla að rætast. "24 stundir" blaðið er horfið, Fréttablaðið að renna inn í Árvakur, Mogginn að riða til falls, starfsfólk Viðskiptablaðsins að reyna að taka við blaðinu af Bakka(varar)bræðrum og RÚV að segja upp fjölda frétta- og dagskrárgerðarmönnum.
Mér sýnist enda vonlítið að blaða- og fréttamenn geti almennilega staðið við heitstrengingar um ný og betri vinnubrögð eftir sofandahátt og meðvirkni síðustu ára. Þeir fyllast sennilega enn frekar en fyrr af ótta um atvinnu sína og af sjálfsritskoðun.
Þetta er afleit þróun.
Unnið að fjárhagslegri endurskipulagningu Árvakurs | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjölmiðlar | Breytt s.d. kl. 20:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.11.2008 | 12:44
Hárbeittur og hættulegur niðurskurðarhnífur hjá RÚV OHF
Í raun og sann hefur staðið yfir nær linnulaus niðurskurður hjá RÚV allt frá ohf-væðingunni í fyrra - og var "stofnunin" þó í þokkalega þéttri spennitreyju fyrir þau tímamót. Við ohf-væðinguna hættu fjölmargir góðir frétta- og dagskrárgerðarmenn og enn fleiri hafa yfirgefið fjölmiðilinn síðan og enn virðist þeim eiga að fækka.
Mér sýnist að staðan sé að verða ansi krítísk þegar horft er á upplýsinga- og fræðsluskyldu þessa fjölmiðils í almannaeigu. Væntanlega er þó markmiðið ekki að reka frétta- og dagskrárgerðarþjónustu með algerum lágmarks mannskap. Samfélagið þarf á því að halda að sameinaðar fréttastofur RÚV séu öflugar, en ekki máttlausar og mannskapurinn logandi hræddur um atvinnuöryggi sitt - sífellt að passa sig að stuða ekki valdaöflin og sífellt að ástunda sjálfsritskoðun vegna þess. Því meiri gagnrýni sem ríkir á einkarekna fjölmiðla vegna hugsanlegra áhrifa eigenda þeirra þeim mun mikilvægara er það almenningi að eiga traustan bakhjarl í sjálfstæðri og óháðri fréttastofu og dagskrárgerð á vegum fjölmiðils í almannaeigu. Hin lýðræðislega umræða krefst þess.
Hver var ávinningurinn af ohf-væðingunni? Hvernig hefur ríkið uppfyllt loforð um fjármögnun? Hvað voru frétta- og dagskrárgerðarmenn margir fyrir þau tímamót og hvað verða þeir margir eftir nýjasta niðurskurðinn?
Boðað til starfsmannafundar hjá RÚV | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
25.11.2008 | 13:17
Borgaraleg óhlýðni G. Péturs
Ég var auðvitað að vona að G. Pétur Matthíasson fyrrverandi fréttamaður Sjónvarpsins hefði verið með leyfi RÚV í farteskinu þegar hann ákvað að birta á bloggi sínu umrætt myndskeið af tilraun hans og Þóru Kristínar Ásgeirsdóttur, fyrrum fréttamanns Stöðvar 2, til að taka viðtal við Geir H. Haarde með "alvöru" krítískum spurningum. Það eru auðvitað vonbrigði að svo hafi ekki verið og að ég hygg borðleggjandi að G. Pétur hafi því gerst brotlegur við siðareglur blaða- og fréttamanna og innanhússreglur RÚV.
Ég hygg hins vegar að G. Pétur skili þessum gögnum ósköp glaður og sáttur í bragði. Hann hefur áreiðanlega tekið ákvörðun um borgaralega óhlýðni með þessum gjörningi sínum og víst er að myndskeiðið sýndi okkur ágætlega ofan í hrokafullan hugarheim forsætisráðherra - því það var akkúrat ekkert óeðlilegt við krítíska og krefjandi spurningu G. Péturs sem Geir stöðvaði og fór í fýlu út af. Það er ætlast til þess að blaða- og fréttamenn spyrji harðra og krítískra spurninga; þeir eiga að grípa þær spurningar sem liggja í loftinu og þótt menn spyrji hart er það ekki endilega vegna persónulegra skoðana, heldur eru "devil´s advocate" spurningar mjög algengar í fréttamennskunni.
Myndskeiðið sýnir ágætlega að ráðamönnum er meinilla við að svara krefjandi og hörðum spurningum. Þá dreymir kannski um dásamlega en liðna tíð þegar ráðherrar voru þéraðir af sjónvarpsfréttamönnum, sem báru bara upp spurningar sem ráðherrarnir sjálfir höfðu gaukað að þeim!
Mér finnst aukinheldur rétt að fólk hafi það í huga að ráðherrar Sjálfstæðisflokksins hafa gjarnan níðst á G. Pétri í gegnum árin. Davíð gaf tóninn í þeim efnum, lagði línuna; hreytti ónotum í G. Pétur fyrir þá sök eina að fyrr á ferli sínum hafði G. Pétur starfað á Þjóðviljanum! Ég var vitni að því og ég held að Geir hafi þarna ekki viljað vera minni maður en Dabbi Pabbi.
Skamm, skamm G. Pétur fyrir að nota efni í eigu RÚV í heimildarleysi. Þú braust siðareglur! En takk.
Krafa um að viðtali við Geir verði skilað | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
24.11.2008 | 22:45
Frekar að boða "30-menningana" næst!
Flottur fundur í Háskólabíói. Fundarstjórinn boðaði næsta fund í desember og sagði að þá yrðu fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar og lífeyrissjóðanna boðaðir til að svara spurningum. Ég er svolítið hissa - ég átti nú frekar von á því að það væri örugglega komið að "30-menningunum", útrásarvíkingunum svokölluðu, aðal sökudólgunum. Ég hef miklu miklu miklu fleiri spurningar til þeirra en verkalýðsforkólfa.
Kannski kemur þó að þeim þarnæst. Þeir þurfa kannski lengri fyrirvara, þrátt fyrir einkaþotur, að koma frá útlöndum, sumir kannski frá Luxemborg og Cayman og Tutola eyjunum. En kannski er borin von að þeir þori að koma.
Ég komst ekki á fund þennan en gat fylgst með honum að megninu til í sjónvarpinu. Mér fannst afar sársaukafullt fyrir augun að sjá Árna Johnsen beint fyrir aftan ræðupúltið, vambmikinn holdgerving spillingarinnar, fúlan á svip og á köflum að því kominn að dotta, svei mér þá. Ekki falleg "auglýsing" fyrir ríkisstjórnina. En góð áminning.
Þetta er þjóðin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
21.11.2008 | 13:21
Líka vantrauststillögu á stjórnarandstöðuna
Það er gott mál að stjórnarandstaðan hafi lagt fram vantrauststillögu á ríkisstjórnina. Ég á ekki von á því að hún verði samþykkt, en allt í lagi með það; út úr þessu kemur hið minnsta nauðsynleg umræða um frammistöðu ríkisstjórnarinnar. En eina tillögu vantar.
Samhliða þessari tillögu þyrfti að liggja fyrir vantrauststillaga á stjórnarandstöðuna. Hún hefur líka brugðist. Og hluti hennar á hið minnsta jafn mikla sök á óförum lands og þjóðar í efnahags- og viðskiptamálum og núverandi ríkisstjórn; sem sé Framsóknarflokkurinn. Ef til vill má leysa þetta með því að í væntanlegum vantraustsumræðum gangi menn út frá því að vantraust sé rætt á bæði í senn, þessa ríkisstjórn og ríkisstjórnirnar á undan.
Það er morgunljóst að flytja mætti margar vantrauststillögur fram til umræðu og afgreiðslu. Ekki bara gegn ríkisstjórninni og stjórnarandstöðunni, heldur líka gegn Seðlabankanum, Fjármálaeftirlitinu, yfirmönnum bankakerfisins, auðjöfrunum og fleirum. Fjölmiðlar ættu líka skilið að fá á sig vantrauststillögu, en þeir að minnsta kosti vita að því, hafa viðurkennt skömm sína og vanmátt og eru vonandi byrjaðir að bæta sitt ráð. Stór hluti þjóðarinnar á líka vantraust skilið fyrir að dansa með gullkálfinum til dýrðar í æðisgenginni en undirstöðulausri efnis- og græðgishyggju, en nokkuð ljóst er að óbreyttir landsmenn eru einmitt þeir einu sem verða almennilega látnir axla ábyrgð með því að taka á sig skellinn. Þjóðinni verður refsað með skuldafangelsi, en Geir, Solla, Valgerður Sverris, Halldór Ásgríms, Davíð Oddsson, Jónas Fr. Jónsson, Jón Sigurðsson, Sigurður Einarsson, Jón Ásgeir Jóhannesson, Bjarni Ármannsson, Björgólfur Guðmundsson, Björgólfur Thor, Þorsteinn Már Baldvinsson, Lárus Welding, Kjartan Gunnarsson og fleiri slíkir menn; munu allir sleppa.
Enda sýnist mér að allar boðaðar rannsóknir verði í skötulíki. Ég les það út úr þeirri staðreynd að hersveitir rannsóknar- og ákæruvaldsins fóru ekki strax af stað með húsleitir og yfirheyrslur þegar augljós og rökstuddur grunur blasti við öllum (öðrum) um voðaverk sem stórsköðuðu land og þjóð.
Ekki einu sinni fréttir af þessum dularfullu meintu fjársvikum í kringum Stím ehf virðast kalla á viðbrögð. Þvílíkt og annað eins!Ef lögguna vantar kæru til að geta byrjað þá skal ég hjálpa til með þessu opna kærubréfi til efnahagsbrotadeildar Ríkislögreglustjóra og til skattrannsóknarstjóra:
Reykjavík 21. nóvember 2008.
Undirritaður, sem einn eigenda Glitnis, óskar hér með eftir tafarlausri opinberri rannsókn á hlutabréfaviðskiptum Glitnis og Stíms ehf. Miðað við upplýsingar sem fram hafa komið opinberlega liggur borðleggjandi fyrir rökstuddur grunur um brot á hegningar- og skattalögum. óskað er tafarlausrar rannsóknar, þar sem byrjað verður á að tryggja að rannsóknargögnum verði ekki spillt.
Friðrik Þór Guðmundsson.
Vantrauststillaga komin fram | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
20.11.2008 | 20:09
Fjölmiðlar og niðurskurður
Afþreying er hvað fjölmiðlarekstur varðar svo gott sem andstæðan við fræðslu og upplýsingagjöf (fréttir). Þegar markaðslögmál eru ríkjandi og það kreppir að, fjölmiðill þarf að draga saman seglin og segja upp fólki, er tilhneigingin sú að spara á sviði fræðslu og frétta (alvarlegum, þungum sviðum) frekar en á sviði afþreyingar.
Við fjölmiðlun er gjarnan talað um information (upplýsingar/fræðsla), infotainment (sambland af upplýsinga- og skemmtanagildi) og entertainment (skemmtanagildi - afþreying). Víða um heim hafa ekki síst sjónvarpsstöðvar með fréttastofur verið að færast æ meir frá klassískum fréttum (information) yfir í blönduna (infotainment) og margir fréttasjúkir kvartað yfir því og þá ekki síst þeir sem telja fjölmiðla og einkum sjónvarpsstöðvar vera virkasta og kannski æskilegasta vettvanginn fyrir beina lýðræðislega umræðu og upplýsingaveitu.
Um þessar mundir ríkir fáokun á íslenska fjölmiðlamarkaðinum, þar er kreppa og þar er verið að skera niður.
365 verður Íslensk afþreying | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjölmiðlar | Breytt s.d. kl. 22:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
18.11.2008 | 10:37
Kveðjuræða Davíðs
Það er augljóst mál að Davíð er (loks) á förum. Þrátt fyrir öll beinu og óbeinu völdin hans er deginum ljósara að "svona tala (embættis)menn ekki" - nema þá helst að þeir hafi engu að tapa. Ég dreg þá ályktun að hann hafi fyrir ræðuna fengið orð í eyra um að honum væri ekki lengur sætt í embætti. Því burt séð frá innihaldinu að öðru leyti þá er þessi ræða augljóst uppgjör manns sem leyfir sér að setja til hliðar þá staðreynd að hann er annars vegar embættismaður en ekki pólitíkus og hins vegar undirmaður (samkvæmt skipuriti!) þeirra sem hann húðskammar.
Eins og með ýmsa aðra pótintáta sér maðurinn ekki nokkra sök hjá sjálfum sér en ýmsa hjá öðrum. Hann skautar framhjá því að 90% landsmanna hafa misst alla tiltrú á hann og vilja hann burt frá kjötkötlunum. Mjög margir sjá í honum allra stærstu sökina á Hruninu - og það er ekki út af neinni lausafjárstöðu bankanna heldur vegna þess samfélagskerfis sem hann bjó til manna mest og lengst. Að því víkur Davíð ekki í ræðu sinni, en hann hefur svosem lengi varað við sumum viðskipta- og bankamönnum. Og hafi Davíð varað ráðamenn við allt frá því í febrúar þá hlýtur hann að hafa skilað því eitthvað einkennilega frá sér, því ella hefði væntanlega verið á hann hlustað.
Fjölmiðlalagakafli kveðjuræðunnar er kapítuli út af fyrir sig, óráðstal manns sem lifir í eigin gallalausa heimi. Fjölmiðlafrumvörpin sem Davíð og Halldór stóðu fyrir voru einfaldlega ekki brúkleg. Stjórnvöld gerðu síðan ekkert með þverpólitíska niðurstöðu fjölmiðlanefndar og hættu bara við allt saman (og þar með Davíð). Þess utan er hvað eignarhald fjölmiðla varðar sú gerbreytta staða uppi núna, að 365 er komið upp í bæli með Árvakri.
Það er skelfilegt að þjóðin þurfi að fá þetta í hausinn á þessum verstu tímum. Að þjóðin þurfi að búa við veruleikafirrtan (aðal)Seðlabankastjóra. Og ríkisstjórn sem leynir eða segir í besta falli hálf-sannleik. Hörmulegt.
Ræðan bendir þó til þess að einn af sökudólgunum sé á útleið.
Fjölmiðlar í heljargreipum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
17.11.2008 | 10:47
Drög að umsókn? Já eða nei!
Í viðtengdri Moggafrétt segir: "Utanríkisráðuneyti Íslands hefur þegar lagt drög að umsókn um aðild að Evrópusambandinu í byrjun næsta árs, eftir því sem fram kemur á fréttavefnum euobserver". Fyrirsögn með fréttinni er með spurningamerki, en fréttin fór inn kl. 9:38. Nú klukkutíma seinna hefur enginn sagt af eða á hvort frétt euobserver sé rétt.
Það eru grafalvarlegir hlutir að gerast. Sameinuð ríki Evrópu, önnur ríki og IMF hafa þvingað okkur með ofbeldi til að semja um Icesave reikningana (jú, meðal annars vegna kennitöluflakks og mismununar af okkar hálfu), stjórnvöld vilja ekki segja okkur frá skilmálum IMF fyrir láni og þessi undarlega frétt í Mogga segir að utanríkisráðherra, ef ekki ríkisstjórnin öll, hefur þegar lagt fram umsóknardrög til ESB (reyndar segir bara "lagt", ekki einu sinni "fram", hvað þá "til").
Það verður að greiða úr þessari flækju og það verða fjölmiðlar að gera strax áðan. Morgunblaðið verður að útskýra þessa frétt sína ekki seinna en áðan. Við þurfum að fá að vita um smáatriði Icesave-samninganna og IMF-skilmálanna ekki seinna en í síðustu viku!
Það er morgunljóst að stjórnvöldum er ekki treystandi til að vinna að málefnum Íslands að tjaldabaki. Mér sýnist að ekki sé einasta þörf á utanþingsstjórn, heldur að hún verði skipuð óháðum erlendum sérfræðingum! Bara ekki frá ESB, auðvitað. Suður-Ameríka kemur fyrr upp í hugann. Hugo Chavez er kannski til í slaginn.
Drög lögð að umsókn um ESB-aðild? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
12.11.2008 | 12:08
Nú er Davíð orðinn skaðvaldur
Það kemur ekki á óvart að "stjórn Seðlabankans" ætli ekki að "tjá sig" um þau ummæli Sigurðar Einarssonar í Kaupþingi að Davíð Oddsson hafi hótað því að "taka bankann niður" ef hann myndi gera upp í evrum.Hitt kann að koma á óvart og vera marktækur fyrirboði að félög innan Sjálfstæðisflokksins - í höfuðvíginu sjálfu - séu farin að ræða Davíð sem skaðvald fyrir a.m.k. flokkinn.
Um "þögn" Seðlabankastjórnarinnar má lesa hér á netútgáfu Morgunblaðsins, en læst er fyrir bloggumræðu stórmerkileg frétt í pappírs-Mogganum í dag frétt af fundi í stjórn Varðar, kjördæmisráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík. Stjórnarfundurinn var á mánudag og var þar fjallað um stöðu flokksins. Frétt Morgunblaðsins er ekki áberandi en undiralda hennar er áberandi; Sjálfstæðismenn í trúnaðarstörfum fyrir flokkinn eru í alvöru farnir að ræða að Davíð Oddsson (seta hans í bankastjórn Seðlabankans) sé orðinn flokknum skaðvaldur. Sagt og skrifað: Skaðvaldur. "Óvenjulega hreinskiptnar og opnar umræður fóru fram" á fundinum, um stöðu flokksins segir Morgunblaðið. Hreinskiptar og opnar - er í mínum eyrum breytt orðalag um að fundarmenn hafi verið trítilóðir vegna þróunar mála hjá flokknum og fundið höfuðmeinið þar sem blóðið fossast út: Þar sem Davíð stendur. "Nauðsynlegt væri að breyting yrði þar á".
Ég hef sagt hér áður að engin ástæða sé til að einskorða blammeringar vegna hrunsins við Davíð, en skilaboð stjórnar Varðar eru skýr. Sjálfur Flokkurinn telur hann skaðvald og vill hann burt úr Seðlabankanum. Þetta eru í mínum eyrum merkilegri fréttir en að forseti landsins hafi fabúlerað á fundi með erlendum stjórnarerindrekum.
Margir komu að hruninu. Ég vil orða það svo að stór hluti þjóðarinnar hafi verið á allsherjar fylleríi eftir "frelsisvæðinguna". Allir voru fullir, fjölmargir mátulega þéttkenndir en sumir algerlega ölóðir. Davíð bauð brennivínið.
Stjórn Seðlabanka ætlar ekki að tjá sig | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
10.11.2008 | 15:14
Hvað segir Inga Jóna hans Geirs?
Nú er deilt um gjörðir Hannesar Smárasonar hjá FL group. Agnes Bragadóttir blaðamaður Moggans hefur upplýst um að því er virðist borðleggjandi lögbrot Hannesar. Þetta hlýtur að sæta lögreglurannsókn.
Í því sambandi vantar ekki vitnin með vitneskjuna. Fyrst þrír og svo aðrir þrír stjórnarmenn FL sögðu sig úr stjórn FL að sögn vegna misgjörða og lögbrota Hannesar. Svo hrökklaðist forstjórinn, Ragnhildur Geirsdóttir, frá með 120 milljón króna þagnar-plástur fyrir munninum, ef ég skil Agnesi rétt.
Áréttað: Stjórnarmenn í FL Group gengu úr stjórn, að því er virðist í mótmælaskyni, vitandi af hegningarlagabroti - en gerðu ekkert annað með það. Fóru ekki til löggunnar með vitneskju sína. Meðal þessara stjórnarmanna var eiginkona þáverandi fjármálaráðherra, núverandi forsætisráðherra, Inga Jóna Þórðardóttir. Er þetta boðlegt? Þarf ekki að spyrja þessar manneskjur um hvers vegna þær hylmdu yfir lögbrot? Er ekki rétt að fjalla um þetta örlítið, en láta frekar eiga sig að fjalla um sömu eiginkonu og setu hennar í einhverju uppstríluðu listaapparati sem litlu sem engu skiptir?
Kannski fjölmiðlar sjái ekki ástæðu til að taka þetta fyrir. En rannsóknar- og ákæruvaldið hlýtur að hafa á þessu svakalegan áhuga. Er það ekki Björn?
Hannes vísar ásökunum á bug | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |