Færsluflokkur: Fjölmiðlar

Stórfengleg fyrirsögn og bráðfyndin leiðrétting

Í gær mátti sjá í Morgunblaðinu hreint út sagt kostulega og tvíræða fyrirsögn - "Enn einn í formannsslag" að mig minnir. Í dag á bls. 9 leiðréttir Mogginn síðan viðkomandi frétt og hef ég sjaldan skemmt mér eins mikið yfir lestri dagblaðs, allavega undanfarið, í öllum hremmingunum.

Líkingamálið í ofangreindri fyrirsögn er auðvitað hárbeitt. Í fréttinni var sagt frá því að ekki hefðu enn aðrir en Bjarni Benediktsson tilkynnt um framboð í formannsembættið hjá Sjálfstæðisflokknum. Orðalagið á fyrirsögninni er lúmskt: Vísar ekki bara til þess að enn sé Bjarni einn um hituna, heldur vísar hún líka til tengsla Bjarna við fyrirtækið N1 - að fulltrúi olíufyrirtækisins sé í framboði.

En leiðréttingin í dag eyðileggur fréttina og þar með fyrirsögnina. Þar er greint frá því, sem farið hefur framhjá blaðamanni Moggans, að Bjarni er ekki einn um að hafa tilkynnt framboð. Maður að nafni Jóhannes Birgir Jensson hefur líka tilkynnt framboð. Hver í ósköpunum er það? Von að spurt sé.

Þetta segir Wikipedia: "Jóhannes Birgir Jensson (fæddur 14. ágúst 1975) er íslenskur tölvunarfræðingur sem hefur beitt sér fyrir aukningu íslensks efnis á Project Gutenberg og haft umsjón með fjölmörgum ritum sem hafa birst þar eða eru í vinnslu hjá Distributed Proofreaders. Hann er jafnframt annar tveggja stofnenda World Football Organization, samtaka sem hafa byggt upp gagnagrunn yfir knattspyrnu um heim allan. World Football Organization er skráð bæði í Michigan í Bandaríkjunum og á Íslandi".

Þegar Jóhannes tilkynnti framboð sagði hann meðal annars: "Orðstír Íslands er nú í molum erlendis, ákvarðanir sem formaðurinn kom að vega þar þungt, handvöldum mönnum voru látnir bankarnir í té fyrir lítið fé og því næst var almenningur gerður að ábyrgðarmanni þeirra einkaaðila sem fóru á lánafyllerí. Víxillinn er fallinn og bök Íslendinga eru nú við það að brotna".  (Sjá hér)

Það er því ljóst að það stefnir í spennandi formannskosningu.


Einelti Baugsmiðla ríður ekki við einteyming

Davíð Oddsson.Það verður ekki skafið af Baugsmiðlum að einelti þeirra í garð Davíðs Oddssonar er ákaflega einbeitt og skipulögð. Nú hefur Baugsmiðillinn tímaritið Time sett Davíð á lista "yfir 25 einstaklinga sem eiga sök á fjármálakreppunni".

Hvernig dettur Baugsmiðlinum og kommúnistamálgagninu Time í hug að gera þennan óskunda? Er ritstjórn tímaritsins Time ekki búin að lesa grein Halls Hallssonar í Mogganum í dag? Hlustaði ritstjórn tímaritsins Time ekki á skeleggan málflutning Sveins Anda Sveinssonar í Kastljósinu í gær?

Er ekki hægt að koma vitinu fyrir svona siðlausa og hlutdræga blaða- og fréttamenn? Ég bara spyr!


mbl.is Davíð Oddsson á vafasömum lista
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bréfritarinn Davíð

Davíð Oddsson.Þann 3. júní 1999 birtist í Degi opnufréttaskýringu mín um, þá landsfrægar orðnar, bréfaskriftir Davíðs Oddssonar forsætisráðherra. Nú hefur enn eitt bréfið bæst í hópinn og kannski eru þau miklu fleiri. Ég var að rifja upp þessa næstum 10 ára gamla grein mína (sem þá var vegna stutts en mergjaðs bréfs til biskups Íslands) og langar til að endurbirta hana hér.


 "Bréfið sem Davíð Oddsson skrifaði biskupi Íslands vegna smásögu Arnar Bárðar Jónssonar, fræðslustjóra Þjóðkirkjunnar, vakti mikla athygli og umræðu um stjórnunarstíl forsætisráðherra. Nú hefur Erni Bárði verið gert að stíga upp úr sæti sínu sem ritari Kristnihátíðarnefndar, en þar á forsætisráðherra sæti.

 Harka í framgöngu við þá sem Davíð Oddssyni mislíkar við af einhverjum ástæðum þykir hafa einkennt stjórnunarstíl hans allt frá því hann tók við borginni í upphafi níunda áratugarins. Má ef til vill segja að fyrsta opinbera vísbendingin hafi komið árið 1982 þegar Davíð  sagði upp ræstingarkonu úr starfi fyrir að hafa hringt til útlanda úr einkasíma á skrifstofu borgarstjórans. Á borgarstjórarárunum hvessti líka milli hans og Guðrúnar Pétursdóttur og fleiri andstæðinga ráðhúsbyggingarinnar. Frá þessum árum má einnig nefna þau viðbrögð borgarstjórans  að taka heitt og kalt vatn, rafmagn, slökkvilið og sorphirðu af Kópavogskaupstað, þegar vinstri meirihlutinn þar  ákvað árið 1989 að segja upp samningi um Fossvogsbrautina. Þetta kallaði Jónas Kristjánsson ritstjóri "ofbeldishneigðan" stjórnunarstíl.

 Smásagan dýra

 Nýjasta tilefni umræðna um stjórnunarstíl Davíðs er bréfið sem hann skrifaði biskupi Íslands vegna smásögu Arnar Bárðar Jónssonar, fræðslustjóra Þjóðkirkjunnar, en hún var birt í Lesbók Morgunblaðsins. Erni Bárði hefur verið gert að stíga upp úr sæti sínu sem ritari Kristnihátíðarnefndar, en í nefndinni á sæti forsætisráðherra sæti. Sú skýring hefur verið gefin  af Karli Sigurbjörnssyni biskupi að ástæða þessarar mannaskiptingar sé sú að "á biskupsstofu er kominn maður til starfa sem hefur umsjón með öllu sem viðkemur kristnihátíðinni," en þar á biskup við séra Bernharð Guðmundsson.

 Flestir viðmælenda blaðsins draga í efa að þetta sé allur sannleikur málsins og vísa til bréfsins sem Davíð sendi biskupi vegna fyrrnefndrar smásögu. Davíð fannst að sér vegið með sögunni og myndskreytingu hennar (sagan var lítt dulbúin gagnrýni á auðlindasölu og/eða á gagnagrunnsmál Íslenskrar erfðagreiningar) og skrifaði biskupi Íslands svohljóðandi bréf, undir bréfshaus forsætisráðuneytisins:

 "Það er athyglisvert að í kynningu á "smásögu" þar sem forsætisráðherranum er lýst sem landráðamanni (manni sem selur fjallkonuna) og landsölumanni er gefið til kynna að sendingin sé á vegum fræðslustarfs kirkjunnar. Davíð Oddsson."

 Biskup lýsti vanþóknun sinni á myndskreytingunni með smásögu Arnar Bárðar, en sagði söguna skondna og að hann gæti ekki borið ábyrgð á tómstundagamni samstarfsmanns síns. Í viðtali við fjölmiðla hefur biskup ekki viljað segja nánar frá samtölum sínum við forsætisráðherra um þetta mál.

 Óvænt og á óvart

 Örn Bárður Jónsson gaf ekki færi á sér við smíði þessarar greinar, en orðalagið sem haft er eftir honum í DV bendir til að brotthvarf hans sem ritari Kristnihátíðarnefndar hafi komið honum mjög á óvart. Hann segir: "Ég get staðfest að biskupinn tilkynnti mér á fimmtudaginn að ég væri ekki lengur ritari Kristnihátíðarnefndar en því starfi hef ég gegnt undanfarin ár."

 Orðalagið bendir til þess að tilkynning biskups hafi verið án fyrirvara og því komið Erni Bárði á óvart. Um leið liggur fyrir að Bernharður er ekki nýr í þeim verkefnum sem hann nú sinnir og því rökréttara að þessi breyting hefði komið löngu fyrr en nú, ef hún stóð til á annað borð.

 Karl biskup lýsir því yfir í DV að Erni hafi ekki verið vikið úr þessu starfi, heldur hafi hann vikið fyrir Bernharði á eðlilegan hátt. Séra Geir Waage er á sama máli. "Ég tek fullt mark á þeim orðum biskups að með þessu hafi hann verið að skapa séra Bernharði verkefni. Þetta er augljóst og ég sé engin tengsli milli þessarar breytingar og þessa smásögumáls," segir séra Geir. Örn Bárður hefur sjálfur ekki viljað tjá sig um mál þetta.

 Bréfið til Sverris

 Davíð hefur áður stundað gagnrýnar bréfaskriftir með góðum árangri. Á síðasta ári var gert opinbert bréf sem hann ritaði Sverri Hermannssyni þáverandi Landsbankastjóra í febrúar 1996, eftir að Sverrir hafði hafnað vaxtalækkunarboðskap ríkisstjórnarinnar, Seðlabankans og Þjóðhagsstofnunar og sagt að það væri eins og að "éta óðs manns skít" að fylgja fordæmi Íslandsbanka í þeim efnum.

 Þá skrifaði forsætisráðherra Sverri Hermannssyni bréf, sem hljóðar svo: "Sverrir. Mér finnst þú fara offari. Ég gæti belgt mig út og sagt að þessir snillingar í Landsbankanum hafi tapað 11 þúsund milljónum á síðustu árum og þyrftu því að vaxtapína landið. Þeir tækju ekki eftir því þegar strákur á þeirra snærum týndi fyrir þeim 900 milljónum!! ­ og viðskiptavinum væri vafningalaust sendur reikningur. Þetta mun ég ekki segja, en ef þið lagið ekki þvæluna, sem þið gerðuð í síðasta vaxtaóðagoti, er það endanlegt dæmi þess að þið vitið ekki hvað þið eruð að gera og þá mun ég sjá til þess fyrr en nokkurn grunar að menn komi að bankanum sem viti hvað þeir eru að gera. Ég vil fá svar frá þér ­ annað en skæting í fjölmiðlum ­ strax ­ því ég mun ekki sitja lengur kyrr."

 Strax daginn eftir að þetta bréf var sent lækkaði Landsbanki Íslands vexti sína. Aðspurður um þetta bréf segir Sverrir Hermannsson nú að hann hafi satt að segja orðið hissa þegar hann fékk bréfið. "En ég er hættur að vera hissa fyrir nokkru. Þetta bréf mun hafa verið skrifað í fljótræði og í bræðikasti, en annars hef ég ekki leitað eftir skýringu," segir Sverrir. Aðspurður hvort Davíð hafi ekki orðið ofan á í málinu viðurkennir Sverrir að svo hafi verið. "Það var hart tekist á um vaxtamál og félagar mínir beygðu," segir Sverrir.

 "Ansi tippilsinna"

 En hvað sýnist Sverri þá um bréfið til biskups og brotthvarf Arnar Bárðar frá Kristnihátíðarnefnd? "Ef þetta er vegna skrifa hans í grínstíl í Lesbók Morgunblaðsins eru menn orðnir ansi tippilsinna og orðið nokkuð vandlifað í henni veröldinni," segir Sverrir, sem um leið upplýsir blaðamanninn að tippilsinna þýði ofurviðkvæmur.

 Fræg er bréfasending Davíðs til Heimis Steinssonar þáverandi útvarpsstjóra, en Davíð sendi útvarpsstjóra hvasst bréf í apríl 1993 þegar Heimir hafði framið þann verknað að reka Hrafn sem dagskrárstjóra frá RÚV. Sjálfstæðismenn brugðust hart við og voru ekki lengi að láta Ólaf G. Einarsson, þáverandi menntamálaráðherra, ganga í að ráða Hrafn sem framkvæmdastjóra RÚV.

 Heimir sagðist hafa metið "þetta bréf mikils" og þótt "vænt um að Davíð Oddsson skyldi segja mér hvað honum lá á hjarta vegna þessa máls. Bréfið, sem var skrifað eftir að umrætt mál var um garð gengið, var hins vegar einkabréf og sent mér sem trúnaðarmál, svo ég mun ekki gefa upp efni þess," sagði Heimir á sínum tíma. Ekki þarf að orðlengja það hvors vilji varð ofan á, forsætisráðherrans eða útvarpsstjórans.

 "Glæpur minn..."

 Davíð var ekki löngu síðar sagður hafa komið að málum þegar Arthúr Björgvin Bollason var rekinn úr starfi skipulags-  og dagskrárráðgjafa útvarpsstjóra hjá RÚV fyrir að skrifa forystu bændasamtakanna og lýsa þar yfir að þorri starfsmanna RÚV skammaðist sín fyrir þætti Baldurs Hermannssonar (Í hlekkjum hugarfarsins) um m.a. bændur. Þá sagði Arthúr: "Heimir er skapmaður og hann setti ofan í við mig, en nefndi ekki uppsögn fyrr en á fundi okkar í gær, þegar hann hafði sjálfur verið kallaður á fund Davíðs Oddssonar. Það kom fram hjá útvarpsstjóra að brottrekstrarsökin var að í bréfinu talaði ég um valdníðslu menntamálaráðherra. Glæpur minn var sá að styggja þá sem ekki má styggja." Samkvæmt þessari frásögn skipaði Davíð útvarpsstjóra að reka Arthúr.  Og Arthúr  var látinn fara.

 Enn er óupptalið bréf sem Davíð sendi til að snupra embættismanninn Þórð Ólafsson, þáverandi forstöðumann Bankaeftirlitsins, árið 1993, þegar ríkisstjórnin sleit skyndilega þingfundi og ákvað að setja háar fjárhæðir  í að styrkja Landsbankann. Þetta var gert í án þess að beðið væri eftir niðurstöðum sérstakrar nefndar sem þó var sett á laggirnar til að fjalla um málefni Landsbankans.

 Þórður lýsti því efnislega yfir í Tímanum og DV að þessar aðgerðir væru illa ígrundaðar, klastur og vitleysa. Davíð varð ofsareiður og sendi Þórði bréf eftir að hafa skammað hann í síma. Þórður neitaði að draga gagnrýni sína efnislega til baka, en viðurkenndi að orðalag hefði verið heldur hvatskeytislegt hjá sér. Þórður er nú kominn í stjórnunarstöðu hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Hann vildi alls ekki tjá sig um mál þetta í samtali við Dag.

 Snemma á forsætisráðherraferli Davíðs, eða sumarið 1991, skammaði hann einnig opinberlega Guðmund Malmquist, forstjóra Byggðastofnunar. Guðmundur hafði gerst sekur um að tala óvarlega í morgunþætti útvarps um afskipti stjórnmálamanna af byggðamálefnum, eftir að Ríkisendurskoðun hafði gefið út skýrslu um stöðu Byggðastofnunar. Davíð brást hart við í fjölmiðlum, en eftir að Guðmundur hafði viðurkennt á sig "misráðið orðalag" og beðið Davíð formlega afsökunar féll málið niður og Guðmundur hélt stól sínum.

 Harðara yfirbragð

 Sagt er að Davíð ráði því sem hann vill í forystu Sjálfstæðisflokksins. Það var þó ekki alltaf þannig. Þegar Davíð hafði velt Þorsteini Pálssyni úr formannsstól (með 53% atkvæða gegn 47%), leitt flokkinn til sigurs í þingkosningum 1991 og myndað ríkisstjórn á fjórum dögum, fékk hann ekki alveg öllu ráðið í þingflokknum. Þá vildi Davíð til dæmis fá Björn Bjarnason, sem formann utanríkismálanefndar, en í atkvæðagreiðslu tók þingflokkurinn völdin af honum og Eyjólfur Konráð Jónsson var valinn með 15 atkvæðum gegn 11. "Þetta kemur hægt og rólega. Við erum að vinna í þingflokknum," var haft eftir "Davíðsmanni" þegar þetta hafði gerst. Og sú vinna bar skjótt árangur í þægari þingflokki.

 Reyndar má segja að spá Þorsteins Pálssonar frá þessum tíma hafi ræst. Eftir að hann féll fyrir Davíð í formannskjörinu sagði Þorsteinn opinberlega "að vinnubrögð í kringum framboð Davíðs" væru þess eðlis að niðurstaða formannskjörs hlyti að túlkast sem ósk landsfundarins "um harðara yfirbragð á Sjálfstæðisflokknum en áður"."

 


mbl.is Davíð segir ekki af sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í djúpköfun með áttavita

KompásliðiðÞað er opinberlega viðurkennt að fjölmiðlar gegni gríðarlega mikilvægu hlutverki í hinni lýðræðislegu umræðu. Sömuleiðis er það skjalfest opinber stefna að fjölmiðlar eigi að vera virkir við að veita stjórnvöldum, stórfyrirtækjum og öðrum aðhald með gagnrýninni umfjöllun - með því að spyrja gagnrýninna spurninga, leita upplýsinga og staðfestinga og færa þær upplýsingar fram til almennings.

Á Íslandi hefur "djúpköfun" í blaða- og fréttamennsku þó aldeilis ekki notið forgangs hjá fjölmiðlaeigendum og þeir hinir sömu almennt og yfirleitt boðið blaða- og fréttamönnum upp á vinnuálag, tímaþröng og beina og óbeina ritskoðun. Blaða- og fréttamenn hafa þrátt fyrir þetta oft gert góða hluti og Kompás-menn ekki síst (á sumum sviðum hið minnsta).

Niðurlagning Kompáss-þáttanna var hrikaleg ákvörðun Ara Edwald, Jóns Ásgeirs og félaga. En rímar út af fyrir sig við stefnu sjónvarpsstöðvar þar sem afþreyingin er númer eitt, tvö og þrjú. Fréttir og fréttaskýringar hafa fengið að hanga í fjórða sætinu, en hafa nú verið settar enn neðar og má allt eins telja líklegt að fréttir Stöðvar tvö séu jafnframt í niðurskurðarsigtinu.

Ég er ánægður með það sem Jóhannes og félagar í Kompási lýsa yfir, að þeir ætli að halda áfram með þáttinn, þótt þeir fái ekki að halda nafni þáttarins. Ekki kemur fram HVAR þeir ætla að halda áfram með þáttinn; kannski á Skjá einum, kannski ÍNN, hvað sem því líður er nú tilefni sem aldrei fyrr til gagnrýninnar djúpköfunar. Nú með meiri áherslu á að afhjúpa leyndardóma viðskiptalífsins (þótt það kunni að bitna á áherslunni á barnaníðinga um sinn). Og nú án sjálfsritskoðunar í ljósi eignarhaldsins á fjölmiðlinum þar sem þættirnir voru sýndir...


mbl.is Fá ekki að nota Kompásnafnið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Baugur glímir við draug

 Það var skuggalegt að hlusta á viðtal RÚV við Jón Ásgeir Jóhannesson forstjóra Baugs og útrásar-auðjöfur í hádeginu í dag; hafa þar eftir ónafngreindum heimildarmanni úr innsta hring Sjálfstæðisflokksins, að Davíð Oddsson hefði gert það að skilyrði fyrir brotthvarfi sínu úr stól seðlabankastjóra að "Baugur færi fyrst".

Maður er næstum því orðinn vanur stríðinu milli Jóns Ásgeirs og Davíðs og ætti því ekki að kippa sér upp við svona ávirðingar, en tímasetning atburða, svo sem kröfu skilanefndar Landsbankans um greiðslustöðvun, er með þeim hætti að manni stendur ekki á sama. 

Það gefur augaleið að það er út í hött, ef rétt er, að ákvörðun bankans, hugsanleg afleiðing meintrar kröfu Davíðs, setji í uppnám "50 þúsund störf í Bretlandi" og færi "hrægömmum" eignir Baugs ytra fyrir lítið. Ef notabene nokkuð er að marka orð Jóns Ásgeirs yfirleitt.

Jón Ásgeir mun aldrei get sannað fullyrðingu sína upp úr heimildarmanni í "innsta hring" Sjálfstæðisflokksins, nema sá hinn sami staðfesti þetta eða að auðjöfurinn hafi tekið símtalið upp. Að því leyti verður að afskrifa þessi ummæli. En skelfilega væri þægilegt ef Davíð stæði bara upp eins og maður og færi frá.

Ella er lítið að marka ásakanir Sjálfstæðismanna um hatur og heift af hálfu Samfylkingarinnar. Það getur nefnilega ekki talist neitt nema hatur, heift og hefnd að sitja áfram, enda snýst brotthvarf Davíðs ekki (lengur) um Samfylkinguna; þetta snýst um traust og trúverðugleika og þá ekki síst gagnvart erlendum lykilstofnunum.

Jón Ásgeir má gjarnan hverfa með öllu til Bretlands og það skilyrðislaust.


mbl.is Baugur í greiðslustöðvun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flokkur "í tætlum" - vegna þjóðarviljans

Þá eru dagar ríkisstjórnar Geirs H. Haarde (loks) taldir. Í beinni útsendingu. Geir tilkynnti þjóðinni þetta áðan og sagði að brotnað hefði á kröfu Samfylkingarinnar um að taka við forsætisráðuneytinu (fram að kosningum). Mest varð ég hugsi yfir orðum Geirs um að Samfylkingin væri "í tætlum" og þyldi ekki fjarveru formanns síns. Þetta er auðvitað fráleit lýsing.

Burt séð frá meintu náðarvaldi (karisma) Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur þá eru "tætlur" Samfylkingarinnar augljóslega fyrst og fremst fólgnar í því að grasrót flokksins, óbreyttir flokksmenn, gripu í taumana í Þjóðleikhúskjallaranum og kröfðust breytinga. Grasrótin endurómaði þar háværan þjóðarvilja. Geir talaði eins og að grasrótin eigi undir öllum kringumstæðum bara að gera það sem foringinn segir og hlýða. En flokksstarfið í Samfylkingunni er augljóslega ekki "Davíðskt".

Og flokksstarfið er heldur ekki "Davíðskt" innan Sjálfstæðisflokksins (lengur). Þar er líka að finna "tætlur", til að mynda djúpstæðan ágreining um Evrópumálin og ekki síður flokkadrætti hinna ýmsu arma um eftirmann Geirs. Þar er líka að finna sterkar raddir fyrir því að fyrir löngu hafi átt að "hreinsa til" í Seðlabankanum - en hollusta Geirs gagnvart Davíð Oddssyni hefur sætt furðu hjá æði mörgum í hinni almennu umræðu. Segja má að undanfarið hafi Sjálfstæðisflokkurinn verið í "tætlum" vegna nærveru Davíðs, hafi Samfylkingin verið í "tætlum" vegna fjarveru Ingibjargar!

Ofan á þrískiptingu valdsins má tala um fjórða vald fjölmiðla, fimmta vald fyrirtækjanna, sjötta vald samtaka almennings og ég leyfi mér nú að bæta við sjöunda valdinu - valdi hins almenna borgara. Almenningur hefur nú með mótmælum og öðrum aðgerðum komið ríkisstjórn frá, sem ekki naut trausts og trúverðugleika. Þetta er sögulegt í meira lagi. Búið er að hreinsa til í Fjármálaeftirlitinu og engin starfsstjórn mun taka við sem ekki hreinsar til í Seðlabankanum. Að öllum líkindum mun myndast breið samstaða um breytingar á stjórnarskrá í áttina að lýðræðislegra þjóðfélagi. Að öllum líkindum mun myndast samstaða um bæði siðferðilegri stjórnmál og viðskipti. Deila má um eitt og annað í þessari atburðarrás, en ég tel óhætt að óska þjóðinni til hamingju með árangurinn.


mbl.is Stjórnarsamstarfi lokið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggari leiðir til handtöku svartliða fyrir munnsöfnuð!

 Í stórskemmtilegri frétt Fréttablaðsins í dag (öftustu opnu) greinir Jakob Bjarnar Grétarsson blaðamaður frá því að svartliðinn Þorri Jóhannsson hafi í gær verið handtekinn af lögreglu og færður til yfirheyrslu, vegna tölvupósts sem hann skrifaði mér og ég birti hér á bloggi mínu (enda hafði hann reynt að birta efnið hér). Ég held að það sé rétt sem fram kemur í greininni að þetta sé í fyrsta skiptið sem maður er færður á lögreglustöð til yfirheyrslu vegna tölvupósts (sem síðan leiddi til netskrifa). Sérkennilegt að hafa stuðlað að því.

Ég fjalla um netpóst þennan hér fyrir neðan, en þar kemur fram að ég hafi fengið nafnlausan tölvupóst með töluvert skrautlegu orðalagi og beinum hótunum í garð ráðamanna og að mér fannst óbeinni hótun í minn garð. Égvildi ekki kæra málið formlega, en lét Stefán Eiríksson lögreglustjóra vita af innihaldinu með tölvupósti til hans persónulega. Stefán er vaskur maður og hefur metið það svo að um alvöru hótanir í garð ráðamanna væri að ræða.

Ég vísa til færslunnar fyrir neðan, en vil að öðru leyti bæta því við að nokkru eftir samskiptin við Stefán komst ég að því hver hefði sent mér þessi nafnlausu skrif og reyndist það vera maður sem mér er lítillega kunnugur og ég tel ekki ástæðu til að ætla að hafi fyrir alvöru meint það sem túlka má sem hótanir. Ég hef síðan átt í samskiptum við Þorra (um tölvupóst) og hann þvertekur fyrir illindi í minn garð persónulega og fyrir að hafa í alvöru ætlað að gera ráðamönnum eitthvað.

En að Herði Torfa.  Er verið að snúa út úr hans orðum? Bæði og. Upptakan af samtali blaðamanns Mbl.is við Hörð gefur eftirfarandi: "Af hverju er maðurinn að draga þetta út í... allt í einu, veikindi sín". Þessi ummæli hefur blaðamaðurinn snurfussað svo: „Hvað er hann að draga veikindi sín fram í dagsljósið núna?". Þetta er ekki nákvæmlega haft eftir og má deila um hvort fínpússning blaðamannsins breyti nokkru. Mér finnst hún þó nógu nákvæm til að hafna því, líka í ljósi annarra ummæla hans í samtalinu, að þarna hafi blaðamaðurinn eða aðrir verið að snúa út úr orðum Harðar. Hann á ekki að ströggla með þetta, heldur bæði útskýra betur við hvað hann átti og biðjast afsökunar.Þá verður honum enda fljótt fyrirgefið.


mbl.is Greinilega snúið út úr ummælum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svartir Baugsliðar slátra Kompási

Kannski mestu Anarkisma-Svartliðarnir séu Ari Edwald og Jón Ásgeir Jóhannesson? Þeir ganga nú um með brauki og bramli og rífa niður lýðsræðisstofnanir - því gagnrýnin fréttamennska í fjölmiðlum er einn af hornsteinum lýðræðisins. Ari og Jón, íklæddir svörtu, grýta nú eggjum, banönum og gangstéttarhellum að fjölmiðlamönnum og slasa lýðræðið.

Illi heilli eru einkareknir ljósvakafjölmiðlar landsins í höndum hins svarta Baugsveldis og nær allir einkareknir prentmiðlar líka. Sennilega finnur fólk þessa svarta veldis fyrir því að of öflugar fréttastofur undirstofnana sinna kunni nú að vera farnar að finna fyrir of mikilli sjálfstæðisþörf - og sjálfsritskoðun þá að minnka. Sennilega finnst hinum andlitshuldu (þeir sína aldrei sitt rétta andlit) svörtu Baugsverjum því tímabært að grýta uppsagnareggjum í fréttamenn "sína" og fótumroða sjálfstæða hugsun. Þegar búið er að reka Sigmund, Sölva, Jóhannes og Kristinn Hrafns; hvað hugsa hinir? Þegar búið er með ofbeldi að slátra Kompási - taka hinir upp gagnrýna hugsun og sjálfstæð vinnubrögð? Eða fara þeir eins og aðrar "ljóskur" að leita að mönnum sem bjarga köttum úr trjám og síðan að segja frá dásamlegum vörum og þjónustu Baugsveldisins? Það skyldi þó ekki vera.

Kompás mátti ekki slátra. Þó ég hefði valið aðrar áherslur þar - meira flett ofan af viðskiptamógúlum - þá hefur þetta verið ómissandi þáttur fyrir gagnrýna umræðu. Ég er rasandi reiður að hinir andlitshuldu svartklæddu Baugsliðar hafi nú grýtt þáttinn í hel.

Ég skora á blaða- og fréttamenn landsins að taka höndum saman gegn þessum svörtu öflum.


Nú skunda ég á Austurvöll

Er hissa á því að ekki sé "live" útsending með myndatökuvélum á Austurvelli. Er að fara í skó og skunda á Austurvöll...

Samfylkingin ibbar smá gogg

Ekki fer á milli mála að það hafa myndast brestir í stjórnarsamstarfið. Brestirnir heyrast í tengslum við útkomu auka-landsfundar Sjálfstæðisflokksins og nú hefur Samfylkingin boðað einhvers konar fundarhöld til að ... hvað var það kallað ... skerpa stefnu sína? Össur lætur litla kínverja springa af og til og alls ekki virðist óréttmætt að gera ráð fyrir kosningum í ár.

Þær kosningar eiga ekki að koma of snemma, það hef ég sagt fyrr. Í fyrsta lagi í maí/júní, en jafnvel ekki fyrr en í september/október. Annars vegar er brýnt að óánægju- og reiðialdan í samfélaginu fái að formast í nýrri (nýjum) pólitískri breiðfylkingu (flokki), sem nái að skipuleggja sig og taka þátt í kosningum af myndugleika. Ef það gerist hins vegar ekki þá verður óánægt og reitt fólk að fá gott tækifæri og tíma til að hreinsa til í "gömlu" flokkunum með lýðræðislegum hætti; koma í veg fyrir uppstillinga-áráttu þeirra sem verma nú valdasætin og knýja fram lýðræðislegt val á nýrri forystu meðsem opnustum prófkjörum. Þetta hef ég tuðað um áður og tuða enn.

Ég leyfi mér og að bæta því við að ríkisstjórnin ætti fram að þeim kosningum fyrst og fremst að hegða sér eins og starfsstjórn og einbeita sér að lausn brýnustu vandamála. Þessi ríkisstjórn á ekki að efna til verulega umdeildra kerfisbreytinga, eins og að auka einkarekstur í heilbrigðisþjónustunni. Og sem slík starfsstjórn ætti hún að hleypa að fólki sem áunnið hefur sér traust meðal hins reiða almennings, í lykilembætti og úttektir. Menn eins og Þorvaldur Gylfason, Vilhjálmur Bjarnason, Ragnar Önundarson, Lilja Mósesdóttir (fleiri mætti nefna); þau eiga að vera í stöðu til að hafa bein og formleg áhrif á ákvarðanir stjórnvalda.

Starfsstjórnin og Alþingi ættu og að dusta rykið af fjölmiðlalagafrumvarpi því sem þverpólitísk samstaða náðist um (en menntamálaráðherra treysti sér ekki til að knýja í gegn (ég er EKKI að tala um Davíðs-frumvörpin)), endurskoða það og laga að aðstæðum og gera svo að lögum. Þar sem aðaltakmarkið væri að efla sjálfstæði ritstjórna fjölmiðla og gera rekstur fjölmiðla bæði gagnsærri og auðveldari. Bæði nú og á komandi mánuðum og árum er brýn nauðsyn að hafa hina lýðræðislegu umræðu öfluga og aðgengilega - og óbrenglaða af utanaðkomandi og ólýðræðislegum öflum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband