Færsluflokkur: Fjölmiðlar

Gagnrýnin hugsun og ábyrgð fjölmiðla

 "Gagnrýnin hugsun og ábyrgð fjölmiðla" er yfirskrift málefnafundar sem haldinn verður í Háskóla Íslands á morgun mánudag í hádeginu, í stofu 101 í Odda. Þar eins og víðar fjalla fag- og fræðimenn skólans um samfélagsbreytingarnar sem nú eiga sér stað, svo vitnað sé í orð Háskólarektors við brautskráningu hátt í fjögur hundruð stúdenta í gær.

Málefnafundurinn leitast við að varpa ljósi á ábyrgð fjölmiðla í samfélaginu og vægi gagnrýninnar hugsunar eða greiningar almennt. Ég verð að viðurkenna að á þennan fund er ég að benda ekki síst vegna þess að ég er einn þriggja fyrirlesara! Ég hygg þó að fundurinn hefði reynst þokkalega áhugaverður án innleggs frá mér (ég verð auðvitað að segja sem svo). 

 Staða fjölmiðla á Íslandi er viðkvæm þessar stundirnar. Annars vegar blasir við að þeir, samkvæmt eigin viðurkenningum, brugðust aðhaldshlutverki sínu í aðdraganda fjármálakrísunnar og bankahrunsins; voru meðvirkir og dönsuðu með í kringum gullkálfinn. Hins vegar blasa við áhrif krísunnar á stöðu fjölmiðlanna og getu þeirra til að tuska sig til og standa sig betur - í þeim hefur undanfarið mikill niðurskurður átt sér stað og margir af mestu reynsluboltum stéttarinnar hafa misst vinnuna.

Á málefnafundinum, sem Vilhjálmur Árnason mun stýra, flytja erindi þau Guðmundur Heiðar Frímannsson, prófessor við Háskólann á Akureyri, sem fjallar um gagnrýna umfjöllun: lýðræði, staðreyndir og skoðanir, Sigrún Davíðsdóttir, fréttaritari Ríkisútvarpsins í London, sem fjallar um fjölmiðlaumfjöllunina um Ísland í Englandi: hrifningu, undrun og tortryggni; og loks fæ ég (stundakennari við HÍ) að komast að með erindi sem ég í snöggheitum skírði "Vinnubrögð, siðareglur og frammistaða blaða- og fréttamanna".

Og er ég þessa stundina að semja erindið. Gaman væri að fá komment frá lesendum bloggsins míns um hvað þeim finnst um frammistöðu fjölmiðla í aðdraganda hrunsins og getu þeirra til að gera betur í næstu framtíð. Eru fjölmiðlar að standa sig við gagnrýna greiningu á þjóðafélagsástandinu og -þróuninni? Geta þeir gert betur?


mbl.is Leiðir út úr vandanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að fordæma eða leggjast eindregið gegn - er munur þar á?

 Bæði Mogginn (mbl.is) og visir.is (Fréttablaðið?) hafa greint frá því, væntanlega eftir ígrundaða "löggilta" þýðingu, að Bandarísk stjórnvöld FORDÆMI þá ákvörðun nýrrar ríkisstjórnar Íslands að falla ekki frá ákvörðun þeirrar sem sat þar á undan um veiðar á hundrað og fimmtíu langreyðum og hundrað hrefnum í sumar.

Ég er enginn sérstakur hvalveiðisinni. Vil að við höfum rétt til að nýta þær auðlindir sem hér eru, ef því fylgir enginn skaði, eins og útrýmingarhætta. En jafnframt blasir við mér að ef hvalveiðarnar valda meiri skaða á öðrum sviðum en sem nemur hag þess að veiða hvali, þá ber okkur að viðhafa skynsemi. Í þessu sambandi munar því miklu að lesa rétt út úr pólitískum og diplómatískum skilaboðum stjórnvalda annarra þjóða.

Í viðkomandi yfirlýsingu Bandarískra stjórnvalda eru þau ekki að fordæma (condemn) neitt. Þau eru að leggjast eindregið gegn ákvörðuninni um hvalveiðarnar (strongly oppose). Hörð andstaða er einfaldlega allt annað en fordæming; þarna er ekki bara stigsmunur á heldur eðlismunur að mínu mati. Ég get illa skilið af hverju menn á ritstjórnum mbl.is og visir.is setja villandi hugtak í fyrirsögn hjá sér.

Svona er textinn frá U.S. Department of State:

 

U.S. Opposes Iceland's Decision To Establish Large Commercial Whaling Quota
Bureau of Public Affairs
Office of the Spokesman
Washington, DC
February 27, 2009


The United States strongly opposes the Government of Iceland’s announcement on February 18, 2009, of its decision to uphold the former Government’s issuance of a quota for 150 fin and 100 minke whales to be harvested in Icelandic waters. We are deeply concerned that stocks of fin and minke whales are not adequate to support this harvest. We also believe this action will undermine the ongoing “future of the International Whaling Commission” efforts, of which Iceland is a participant. We call upon the Government of Iceland to rescind this decision and to focus on the long-term conservation of whale stocks, rather than on the short-term interests of its whaling industry.

http://www.state.gov/r/pa/prs/ps/2009/02/119874.htm
mbl.is Japanar leyfa hrefnuinnflutning
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stopp á skattsvikarana - næst er það kyrrsetning eignanna

Loks sér maður tekið á skattaskálkaskjólunum og vonandi rennur þetta frumvarp vel og greiðlega í gegnum þingið.

Skoðið þetta dómsmál hér og segið mér hvort ekki sé ástæða til inngripa inn í skattalöggjöfina með einhverjum sanngjörnum hætti. Skúffufyrirtæki að nota Ísland nýfrjálshyggjunnar til að losna við að greiða eðlilegan skatt. Lúxemborgískt hlutafélag var eini hluthafi „Íslenska“ einkahlutafélagsins Dunedin Finance ehf.  Að tillögu stjórnar hins íslenska einkahlutafélags hafi verið ákveðið árið 2003 að greiða 2.5 milljarða króna  „arð“ og vildi ekki einu sinni borga vesælan 5% staðgreiðsluskatt. Því miður vakti þetta dómsmál enga athygli í fjölmiðlum.

Næst og fljótlega vill maður sjá aðgerðir rannsakenda og frystingu eigna manna sem rökstuddur grunur er um að hafi gripið til lögbrota í aðdraganda hrunsins. Hvað dvelur orminn langa?

ATH NÝ SKOÐANAKÖNNUN HÉR TIL HLIÐAR - UM RITSTJÓRA MORGUNBLAÐSINS. 

 


mbl.is Tekið á skattaparadísum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um seðlabankastjórann og flokkafylgið

Arnór Sighvatsson og Svein Harald Øygard á blaðamannafundi...Er Svein Harald Øygard ólöglegur seðlabankastjóri, af því hann er ekki Íslenskur ríkisborgari? Lögfræðingurinn Sigurður Líndal virðist telja svo vera (sjá hér). Þótt Norðmaðurinn sé settur en ekki skipaður. Það er vísað í stjórnarskrá Íslands.

Stjórnarskráin talar reyndar bara um skipan í slík embætti, en ekki setningu, en Sigurði finnst að hið sama eigi að gilda um hvoru tveggja.

Það er auðvitað alvarlegt mál ef um stjórnarskrárbrot kann að vera að ræða. En þá væri blessuð úrelta stjórnarskráin okkar svo sannarlega að flækjast fyrir góðum ásetningi. Ég veit ekki með ykkur, en mér er það mikill léttir að ekki einasta séu bankastjórarnir margumræddu og innlendu farnir frá, heldur finnst mér það kjörráð að fá tímabundið erlendan sérfræðing í aðalstól bankans. Fram að skipan eftir auglýsingu og til að auka traust Seðlabankans. Traustið er einmitt stóra málið þessa dagana. hvað sem því líður verður að ætla að menn hafi skoðað vel grundvöllinn að þessari setningu Norðmannsins með 20. grein stjórnarskrárinnar í huga.

Kosningar og kannanir

Það eru tveir mánuðir til kosninga og í morgun birtu bæði Morgunblaðið og Fréttablaðið skoðanakannanir um fylgi flokka. Þær eru merkilega samhljóða (jafnvel þótt önnur þeirra birtist í "Baugsmiðli", sbr. vandlætingu DO).  Þær bæta hvor aðra upp og gefa til samans ágæta vísbendingu um stöðuna.

Samfylkingin mælist með um 31% fylgi og gæfi það 20-21 þingmann. VG mælist með um 24.5% og gæfi það 16 þingmenn. Þessir stjórnarflokkar og vinstri flokkar til samans eru því sem stendur með fylgi upp á um 55% og 36-37 þingmenn: Gætu myndað ríkisstjórn án Framsóknar eða annarra.

Sjálfstæðisflokkurinn mælist með um 27%, sem gæfi 18 þingmenn. Þetta er svipað fylgi og þegar flokkurinn fékk sögulegt afhroð árið 1987. En einn stór munur er á stöðunni þá og nú; þá bauð Borgaraflokkur Alberts Guðmundssonar sig fram og náði miklu fylgi af Sjálfstæðisflokknum. Nú er Sjálfstæðisflokkurinn óklofinn og afhroðið því til muna meira, yrðu þetta niðurstöður kosninga. 

Framsónarflokkurinn náði sér á gott skrið eftir "uppgjörið" og kosningu nýs formanns, en fylgið er aftur byrjað að dala. Sögulegt lágmark flokksins var rúmlega 11% fylgi síðast og flokkurinn mælist nú í rúmlega slíku fylgi, með um 12.5% og 8 þingmenn. Frjálslyndir mælast um eða rétt undir mörkum þess að ná þingmanni inn. Flokkur sá hefur yfirleitt komið betur út í kosningum en könnunum, en hremmingar flokksins undanfarið hafa verið með fádæmum og erfitt að ímynda sér annað en að hann sé að liðast í sundur og eyða sjálfum sér.

Ný framboð fylgislaus?

Það sem þess utan er stórmerkilegt við þessar kannanir er að ekkert tiltakanlegt fylgi mælist við "aðra". Íslandshreyfingu, Borgarahreyfingu, Samstöðu og hvað það allt heitir. Jafnvel þótt slík framboð séu ekki formlega orðin til (utan Íslandshreyfingarinnar) þá ættu samkvæmt reynslunni að vera til nógu margir sem myndu velja "annað" ef byrinn væri nógu mikill orðinn. Miðað við reiðina og uppreisnina í samfélaginu ættu að vera nógu margir fyrir hendi í svona könnunum sem segðu: ætla engan gömlu flokkanna að kjósa; mun skila auðu eða kjósa aðra. Þetta segir hyggjuvitið mér að minnsta kosti; þetta ætti að mælast. Nógu miklar fréttir hafa borist um framboðshugleiðingar t.d. Borgarahreyfingarinnar/Samstöðu til að framkalla fylgi í svona könnunum. Það gerist hér ekki.

Ef könnuðirnir eru ekki sekir um falsanir þá virðast þessi framboðsplön mótmæla-aflanna ekki fá byr með sér. Fólk virðist ætla að flykkjast aftur til gömlu flokkanna. Kannski spilar inn í að þeir hafa eða ætla augljóslega að endurnýja sig - hreinsa til. Og auðvitað spilar inn í að engir þungavigtarmenn hafa komið fram sem gerir ný framboð freistandi. Engir. Það gæti þó auðvitað breyst.

Er ríkisstjórnin að gera eitthvað?

En það eru tveir mánuðir til kosninga og margt getur gerst. Í aðdraganda síðustu kosninga var t.d. VG með mjög sterka stöðu í könnunum, en missti á endasprettinum mikið fylgi til Samfylkingarinnar. Það gerist að líkindum ekki núna en öðruvísi sveiflur gætu komið til. Ef þannig birtist ekki á næstunni skýr mynd af því að starfsstjórn vinstriflokkanna sé að gera eitthvað af viti og koma góðum málum í framkvæmd - þá hrynur fylgið af báðum stjórnarflokkunum. 

Myndi það hafa slík áhrif ef í ljós kæmi að Norðmaðurinn sé hingað kominn og inn í Seðlabankann í blóra við stjórnarskrá? Ekki held ég það. Ég held að þjóðin (kjósendur) meti meira að við séum að fá erlendan sérfræðing tímabundið en hitt, að gamla þreytta stjórnarskráin segi að það megi ekki.

ATH NÝ SKOÐANAKÖNNUN HÉR TIL HLIÐAR - UM RITSTJÓRA MORGUNBLAÐSINS.  


mbl.is Nýr seðlabankastjóri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viðtalið

Afneitun og megalómanía.

Að sinni segi ég bara þetta (er að hlaupa á fund): Davíð réðst hvað eftir annað á Sigmar spyril. Davíð túlkaði hvað eftir annað krítískar spurningar Sigmars sem árás á sig. Hlutverk fréttamanna er að spyrja krítískra spurninga, sem þeir taka saman eftir ýmsum heimildum. Davíð kaus að gera Sigmar sjálfan að árásarmanni. Hvað skal þá segja um lýsingar Davíðs á öllum öðrum meintum árásarmönnum?

Uppfærsla:

Ég er búinn að horfa á þáttinn aftur og verð að segja að sú tilfinning sem rís hæst er hryggð. Þetta var ein allsherjar hryggðarmynd. Það er að segja framkoman hjá seðlabankastjóranum.

Fyrst vil ég þó nefna annað, því umræðan um Davíð umpólast alltaf; hún fer að mestu fram milli eindreginna aðdáenda Davíðs og eindreginna andstæðinga. Því er mikilvægt að þetta komi fram: Mér finnst afbragðsgott að Davíð hafi skrifað löggunni bréf út af Kaupþingi og sjeiknum og kallað þannig fram rannsókn og breytingar. Mér finnst það stórmerkilegt, miðað við að gögnin Davíðs verði birt til staðfestingar (fjölmiðlar vísi til upplýsingalaga og fái viðkomandi ræður, bréf, fundargerðir) að hann hafi hvað eftir annað varað við hættunni (þótt hann hafi opinberlega fyrst og fremst birt jákvæðar skýrslur um stöðu bankanna). Mér finnst stórbrotið að í hruninu hafi Seðlabankanum tekist að halda greiðslukerfinu í gangi. Það er og vissulega hárrétt að Davíð hefur undanfarin ár gagnrýnt suma auðjöfranna harðlega- þá sem eru honum ekki að skapi, ekki hina. En gagnrýni samt.

Og það er út af fyrir sig rétt hjá honum að fjölmiðlar hafa ekki komið auga á eða séð ástæðu til að spyrja forsætisráðherra sérstaklega að því hvernig það getur verið betra að ræða við IMF með bráðabirgða-seðlabankastjóra sér við hlið heldur en núverandi seðlabankastjóra. Þeirrar spurningar þarf auðvitað að spyrja. Enn vil ég nefna að ég fordæmi hvers kyns ásakanir í garð Davíðs um geðröskun hvað þá geðveiki og hef gert það áður.

Hins vegar held ég að skapgerðarbresturinn "mikilmennskubrjálæði" hafi varla farið framhjá mörgum eða hin algera afneitun á nokkra eigin sök. Með semingi og án tiltrúar leyfði hann sér að varpa fram að ef til vill hefði á tímabili átt að leggja meiri áherslu á gengið en minni á verðbólguna. Það var allt of sumt.

Aðeins Seðlabankinn stóð sig samkvæmt þessu í stykkinu; allir aðrir brugðust herfilega. Málflutningur Davíðs var að sönnu ein samfelld árás á Geir Haarde og ríkisstjórn hans: Flokkssystkin Davíðs hlustuðu ekki á meintar viðvaranir hans eða brugðust ekki við. Forsætisráðherra er verkstjóri ríkisstjórnarinnar og yfirmaður efnahagsmála (hálfgerður undirtitill er: efnahagsmálaráðherra). Viðbrögð við viðvörunum í efnahagsmálum voru á könnu Geirs, sem brást. Meira að segja gamli vinurinn Björn Bjarnason óð um í villu og ætlaði að fækka rannsóknarmönnum efnahagsbrotalögreglunnar - hafði sýnilega ekki frétt af viðvörununum. Það er auðvitað skelfilegt ef og þegar Björn annað hvort heyrir ekki í Davíð eða tekur ekki mark á honum.

Afneitun, mikilmennskubrjálæði, hroki, vandlæting og að því er virðist megn andúð á bæði fyrri og núverandi ríkisstjórn. Þetta minnir mig á ótrúlega margt úr alka-fræðunum; Nei, nei, ég er ekki alki. Jú, ég drekk mig oft fullan, en það er af því að konan er ómöguleg, börnin eru frek og leiðinleg, hundurinn hatar mig, vinir mínir hafa yfirgefið mig, yfirmaðurinn minn vill ekki hækka mig í stöðu og vill ekki hækka launin mín, veðrið á Íslandi er svo vont, það kann enginn að meta mig (nema ég), ég er misskilinn snillingur umkringdur vitleysingjum, barþjónninn er eini alvöru vinur minn - en ég er ekki alki.

Firringin endurspeglaðist einna skýrast í algerlega tilefnislausum árásum Davíðs á Sigmar. Það eru alþekkt en lúaleg vinnubrögð ráðamanns í viðtali að snúa út úr spurningum og ráðast á spyrilinn, koma höggi á hann, slá hann út af laginu, persónugera í honum hlutdrægni og andúð. Þetta gerði Davíð sig sekan um í viðtalinu hvað eftir annað, ásamt þreytta frasanum um "leyfðu mér að klára að svara spurningunni". Það er ekki nokkur fótur fyrir því að spurningar Sigmars hafi verið persónulega hlutdrægar. Og aldeilis ekki flokkslega nema síður sé. Hann reyndi að súmmera margframkomin gagnrýnisatriði fjölda nafngreindra einstaklinga og sérfræðinga niður í kjarnyrtar spurningar (og notaði þá samtektarorð eins og "sumir"), en taldist þá af viðmælandanum vera að ráðast á sig. Sorglegt!

Kannski Davíð hafi svarað spurningunni manna best; hvers vegna ríkisstjórnin telur betra að hafa bráðabirgða-seðlabankastjóra með sér í IMF-viðræðunum en núverandi formann bankastjórnar Seðlabankans?

 


mbl.is Fjármagnsflutningar Kaupþings höfðu mikil áhrif á Bretana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hallarbylting helmingaskiptaflokkanna?

Hvernig líst þjóðinni á þann möguleika, sem nú er verið að hvísla um á göngum Alþingis, að eftir að Jón Magnússon yfirgaf Frjálslynda flokkinn og gekk heim til liðs við Sjálfstæðisflokkinn hafi myndast möguleiki á því að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn myndi nýja helmingaskiptastjórn? Fréttablaðið segist hafa heimildir fyrir þessu (sjá hér).

"Fréttablaðið hefur heimildir fyrir því að rætt sé um það innan þinghússins að staðan hafi breyst við vistaskipti Jóns. Allt í einu hafi sá möguleiki orðið raunhæfur að flokkarnir tveir tækju upp fyrra samstarf. Stjórnarþingmaður sem ekki vildi láta nafns síns getið segir allt hafa breyst þegar Jón gekk í Sjálfstæðisflokkinn. Síðan þá hafi Framsókn stoppað allt og stjórnin verið illa starfhæf".

Samkvæmt þessu virðast sum öfl innan þessara syndum hlöðnu flokka vilja grípa til samskonar úrræða og í Ráðhúsi Reykjavíkur; bara taka völdin með illu og þá valdanna vegna. Í borginni var Ólafur F. Magnússon dreginn fram, en þegar hann var ekki nógu góður þá var Óskar Bergsson dreginn fram. Getur hugsast að Framsóknarflokkurinn sé tilbúinn til að ana út á foraðið með Sjálfstæðisflokknum í þágu torkennilegra hagsmuna, þvert á fyrri orð um að verja núverandi starfsstjórn framyfir kosningar?

Að flokkarnir sem eiga allra mestu sökina á hruninu fallist í faðma á ný, taki völdin og taki upp á ný gamalkunn vinnubrögð við helmingaskiptin? Ráðstafa bönkum og embættum, svo dæmi séu tekin?

Púkinn í mér vonar að þeir leggi í þessa hallarbyltingu. Engillinn í mér tuðar eitthvað um að það væri ekki þjóðinni fyrir bestu.


mbl.is Ekki rætt um Seðlabanka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

... um hræringarnar sem SEINNA leiddu til hrunsins mikla

Þóra Kristín er vel að verðlaunum sínum komin sem einn af alltof fáum blaðamönnum sem alvöru töggur er í. Merkilegt að það gerist þegar henni hefur skolað inn á Morgunblaðið, en ekki fyrr, þegar hún starfaði á fjölmiðlum sem boðað hafa vaskari framgöngu en hið íhaldssama Morgunblað.

Þóra Kristín er þannig einn af mörgum flóttamönnum úr fréttamannastétt af miðlum 365/JÁJ, en Stöð 2 og Fréttablaðið keppast nú um að losa sig við reynda og öfluga blaða- og fréttamenn. Þóra Kristín kom einmitt af Stöð 2, sem er eini fjölmiðillinn sem skrifað hefur það í vinnureglur sínar að fréttastofan/ritstjórnin EIGI að auðsýna stjórnvöldum aðhald. 

Þóra Kristín er vissulega í okkar fremstu röð. En ég er áreiðanlega ekki einn um þá skoðun að fyrir stéttina í heild kom síðasta ár út með falleinkunn fyrir fjölmiðla. Það er enda svo gott sem samdóma álit blaða- og fréttamanna þegar þeir hafa fundað undanfarið; fjölmiðlar brugðust í aðdraganda hrunsins mikla. Kannski hefði þá verið réttast að sleppa verðlaunum að þessu sinni. En samt. Alltaf er eitthvað vel gert og að þessu sinni sýnist mér að aðal blaðamannaverðlaunin lúti að faglegri notkun á nýjum fréttamiðli; Netmiðlinum. Og það er fínt. Til hamingju Þóra Kristín.

Ég hefði viljað sjá verðlaunin í ár ganga til blaða- og fréttamanns sem birti yfirgripsmikla fréttaskýringaröð á mannamáli um hræringarnar sem SEINNA leiddu til hrunsins mikla. Greinaflokk frá síðasta vori og sumri. En slíkt birtist ekki. Ummæli erlendra sérfræðinga voru birt og síðan andmælin, punktur. 

Sigurjón M. Egilsson á Mannlífi og Bylgjunni hlaut verðlaun fyrir bestu rannsóknarblaðamennsku ársins í fyrra fyrir „vandaðar og ítarlegar greinar um íslenskt efnahagsástand í Mannlífi, þar sem mál voru krufin með ítarlegri hætti en títt er í íslenskum fjölmiðlum". Þetta hljómar vel. Ég vænti þess að greinar þessar hafi birst eftir 8. október? Þarf að gá að því. Ég man þetta ekki nógu vel.

Er farinn að hlakka til næstu blaðamannaverðlauna. Þá verða áreiðanlega tilnefnd tilþrif í anda nýrra tíma innan stéttarinnar; þegar blaða- og fréttamenn höfðu lært af mistökum sínum, sváfu ekki lengur á verðinum, en hjóluðu í ráðamenn og auðjöfra eins og gammar!

Og ég vil sjá sérstök verðlaun til Hauks Holm fyrir alskeggið. Vona að það reynist táknrænt; stéttin fari úr jakkafötunum, taki af sér bindið og bretti upp ermarnar.


mbl.is Þóra Kristín blaðamaður ársins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Tefja, bíða, drolla og hangsa" og "Ef ég og hefði ég"...

fúll Það er skemmtilegt að fylgjast með þingmönnum Sjálfstæðisflokksins í stjórnarandstöðu. Það er svo rosalega langt síðan maður hefur upplifað þann veruleika. Næstum því 20 ár, að hugsa sér. Ég hugsa að þeir hljóti að hafa þurft að fara á námskeið. Í fljótu bragði virðist mér þeir standa sig ágætlega, en viti ekki samt alveg í hvorn fótinn eigi að stíga. Feykjast á milli þess að saka stjórnina um að stela frá sér málum og hugmyndum (sem væntanlega er gott fyrir utan stuldinn sjálfan) og þess að finna stjórninni allt til foráttu vegna vondra mála og hugmynda.

Stjórnarþingmenn stríddu þingmönnum Sjálfstæðisflokksins svolítið í gær. Katrín Júlíusdóttir sakaði þá um að  hlaupast undan umræðunni og hugsa bara um að "verja strákana sína í kerfinu". Árni Páll Árnason sagði vörumerki Sjálfstæðisflokksins að tefja, bíða, drolla og hangsa. Þetta eru auðvitað fyrst og fremst skylmingar. Ég er viss um að stjórnarandstöðuþingmennirnir kunni meira en þetta.

Annað kom fram á Alþingi í gær sem vakti athygli mína. Fyrst er að nefna að í alræmdu viðtali við Geir H. Haarde í Hardtalk á BBC bar hann spurður hvers vegna hann hefði ekki talað (beint) við Gordon Brown forsætisráðherra Bretlands. "Maybe I should have" var efnislegt svar Geirs og finnst mörgum sem ég hef heyrt í að þetta hafi verið mjög neyðarlegt.

En á þingi í gær sagði Geir allt, allt annað og færði mun efnislegri og skeleggari svör. Þar sagði hann (heimild: mbl): "Ég gerði tilraun til að ná í hann 9. október en talaði í staðinn við fjármálaráðherrann. Ég hafði talað við hann 5. október, fyrir hrunið. Reyndi að ná í hann auðvitað daginn eftir að hrunið varð, en úr því gat ekki orðið".

 Þetta er auðvitað miklu betra, sómasamlegra og efnismeira svar en í Hardtalk. Af hverju sagði Geir þetta ekki þar?


mbl.is Hart deilt á stjórnarandstöðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skilaboð Birgis til Davíðs um leynd og undanþágur

Birgir Ármannsson.   Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur skyndilega ákveðið að gerast skeleggur, eftir að hafa læðst með veggjum um langt árabil. Hann hefur nú ákveðið að hjóla í forsætisráðherra (úr því hann er ekki lengur sjálfstæðismaður) og krefjast upplýsinga. Hann hefur meira að segja sett sig í blaðamennskulegar stellingar og ætlar að kæra neitun um upplýsingagjöf til Úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Gott hjá honum.

Birgi finnst að undanþáguákvæði í upplýsingalögum eigi ekki við þegar forsætisráðherra neitar að afhenda afrit af "upphaflegum athugasemdum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um seðlabankafrumvarp forsætisráðherra". Undanþáguákvæðið er svona: "Heimilt er að takmarka aðgang almennings að gögnum þegar mikilvægir almannahagsmunir krefjast, enda hafi þau að geyma upplýsingar um... samskipti við önnur ríki eða fjölþjóðastofnanir". Nú blasir raunar við að ekki bara er um samskipti við fjölþjóðastofnun að ræða heldur jafnframt fjölþjóðastofnun sem óskaði sérstaklega eftir trúnaði um viðkomandi gögn. Það hefur ráðherrann sýnt fram á. Við blaðamenn höfum oft mátt glíma við svona undanþáguákvæði og að sjálfsögðu leitast við að túlka þau þröngt en upplýsingaréttinn vítt. Ég óska Birgi velfarnaðar frammi fyrir nefndinni. Honum gengur kannski betur þar en mörgum blaðamanninum.

Um leið sendir Birgir fyrrum formanni sínum, Davíð Oddssyni, skýr skilaboð: Túlkaðu upplýsingarétt almennings vítt og liggðu ekki á upplýsingum að óþörfu - hafðu almannahagsmuni að leiðarljósi.

Davíð hefur sem kunnugt er neitað að upplýsa um vitneskju sína um hvers vegna Bretar settu á okkur hryðjuverkalög. Nú er til afgreiðslu hjá Úrskurðarnefndinni mál DV þar sem seðlabankastjórinn hefur neitað að svara spurningum og afhenda minnisblöð um Icesave og fleira. Davíð hefur neitað að upplýsa almenning um þessi gríðarlegu hagsmunamál almennings. Hann hefur meira að segja neitað að upplýsa viðskiptanefnd Alþingis.

Samt sem áður hefur Davíð sjálfur lagt línuna hversu mikilvægur upplýsingaréttar almennings er. Hans forskrift var og væntanlega er enn að upplýsingalögin og undanþáguákvæði þeirra eigi alltaf að túlka fyrirspyrjendum í hag hvenær sem það er mögulega hægt. Stofnun eða embættismaður eigi alltaf að spyrja sig fyrst hvort virkilega sé nokkur þörf á því að halda upplýsingum leyndum, jafnvel þrátt fyrir undanþáguákvæði.

Þessi frjálslynda afstaða Davíð var lögð til grundvallar þegar hann varð á sínum tíma við beiðni Þórs Jónssonar um afrit af bréfi sínu (DO) til Sverris Hermannssonar Landsbankastjóra á sínum tíma. Davíð hefði þar getað sett upp hundshaus og borið fyrir sig undanþáguákvæði en kaus að gera það ekki - túlkaði málið fyrirspyrjanda í hag. Hann á að gera það í dag líka.

Og að sjálfsögðu á forsætisráðherra núverandi að gera það líka; gera sitt ýtrasta til að verða við vilja Birgis Ármannssonar. Fyrst er það auðvitað kurteisi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn að vísa til upplýsingalaga og fá þessa fjölþjóðastofnun til að falla frá beiðni sinni um trúnað.

En hefur Birgi Ármannssyni dottið í hug að leita til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sjálfs um afrit af þessu gagni? Ég myndi gera það í hans sporum. En honum finnst kannski skemmtilegra að kljást við forsætisráðherra?


mbl.is Birgir fær ekki gögn frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Argasta einelti gegn auðjöfrunum

Það er auðvitað ekkert annað en argasta einelti hvernig fólk veitist að auðjöfrum landsins, mönnum eins og Jóni Ásgeiri Jóhannessyni og Björgólfs-feðgunum. Nú þykir fréttnæmt og grimmt lesið að Jón Ásgeir hafi sett íbúð á Manhattan á sölulista. Og í annarri víðlesinni frétt er verið að fetta fingur út í þá mótuðu stefnu bankamógúlanna að víkja frá reynsluboltum í bönkunum en setja inn í staðinn "vel menntaða en reynslulitla unga karlmenn". Í enn annarri þrautlesinni frétt eru menn að hlakka yfir því að hugsanlega verði sölu Baugs á Högum til Gaums rift.

Er ekki kominn tími á að stofna samtökin "Verndum auðjöfrana"? Eineltið er orðið yfirgengilegt. Eins og það hafi ekki verið nógu mikið áfall fyrir þessa menn að missa allt úr handaskolunum í rekstri fyrirtækja sinna þá er nú verið að velta sér upp úr því að þessir menn séu neyddir til að selja kofa sína, rellur, báta, skrjóða og glingur.

Fremstir ganga fjölmiðlarnir, ekki síst Baugsmiðlarnir sjálfir, sem launa þannig eigendum sínum lambið gráa - og hreykja sér síðan á hæsta steini með tilnefningum til blaðamannaverðlauna.

Ég hef ákveðið að setja starfsemi félags míns, Anti-rúsínufélagsins, á ís og undirbúa stofnun samtakanna "Verndum auðjöfrana". Þetta einelti gengur of langt. Eins og að auðjöfrarnir hafi gert eitthvað af sér! Ég veit t.d. til þess að sumir þeirra hafi margoft hvíslað því að ráðamönnum að veruleg hætta væri á því að bankarnir hryndu!

p.s. hugvekja á morgun um nýjustu fréttir af fótalausa, nýrnaskemmda, heyrnarskerta, tannlausa, einangraða, eignalausa og réttindalausa pólverjanum (sjá færslur hér neðar).


mbl.is Selja íbúð á Manhattan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband