... um hræringarnar sem SEINNA leiddu til hrunsins mikla

Þóra Kristín er vel að verðlaunum sínum komin sem einn af alltof fáum blaðamönnum sem alvöru töggur er í. Merkilegt að það gerist þegar henni hefur skolað inn á Morgunblaðið, en ekki fyrr, þegar hún starfaði á fjölmiðlum sem boðað hafa vaskari framgöngu en hið íhaldssama Morgunblað.

Þóra Kristín er þannig einn af mörgum flóttamönnum úr fréttamannastétt af miðlum 365/JÁJ, en Stöð 2 og Fréttablaðið keppast nú um að losa sig við reynda og öfluga blaða- og fréttamenn. Þóra Kristín kom einmitt af Stöð 2, sem er eini fjölmiðillinn sem skrifað hefur það í vinnureglur sínar að fréttastofan/ritstjórnin EIGI að auðsýna stjórnvöldum aðhald. 

Þóra Kristín er vissulega í okkar fremstu röð. En ég er áreiðanlega ekki einn um þá skoðun að fyrir stéttina í heild kom síðasta ár út með falleinkunn fyrir fjölmiðla. Það er enda svo gott sem samdóma álit blaða- og fréttamanna þegar þeir hafa fundað undanfarið; fjölmiðlar brugðust í aðdraganda hrunsins mikla. Kannski hefði þá verið réttast að sleppa verðlaunum að þessu sinni. En samt. Alltaf er eitthvað vel gert og að þessu sinni sýnist mér að aðal blaðamannaverðlaunin lúti að faglegri notkun á nýjum fréttamiðli; Netmiðlinum. Og það er fínt. Til hamingju Þóra Kristín.

Ég hefði viljað sjá verðlaunin í ár ganga til blaða- og fréttamanns sem birti yfirgripsmikla fréttaskýringaröð á mannamáli um hræringarnar sem SEINNA leiddu til hrunsins mikla. Greinaflokk frá síðasta vori og sumri. En slíkt birtist ekki. Ummæli erlendra sérfræðinga voru birt og síðan andmælin, punktur. 

Sigurjón M. Egilsson á Mannlífi og Bylgjunni hlaut verðlaun fyrir bestu rannsóknarblaðamennsku ársins í fyrra fyrir „vandaðar og ítarlegar greinar um íslenskt efnahagsástand í Mannlífi, þar sem mál voru krufin með ítarlegri hætti en títt er í íslenskum fjölmiðlum". Þetta hljómar vel. Ég vænti þess að greinar þessar hafi birst eftir 8. október? Þarf að gá að því. Ég man þetta ekki nógu vel.

Er farinn að hlakka til næstu blaðamannaverðlauna. Þá verða áreiðanlega tilnefnd tilþrif í anda nýrra tíma innan stéttarinnar; þegar blaða- og fréttamenn höfðu lært af mistökum sínum, sváfu ekki lengur á verðinum, en hjóluðu í ráðamenn og auðjöfra eins og gammar!

Og ég vil sjá sérstök verðlaun til Hauks Holm fyrir alskeggið. Vona að það reynist táknrænt; stéttin fari úr jakkafötunum, taki af sér bindið og bretti upp ermarnar.


mbl.is Þóra Kristín blaðamaður ársins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Friðrik!

 Ég hef lengi verið þeirrar skoðunnar að blaðamannaverðlaunin, með fullri virðingu fyrir sumum sem hafa slysast til að fá þau, séu algjör skammarverðlaun. Og hafa verið lengi. Því miður. Og eru náttúrlega hjákátleg hér í fámenninu eins og mörg verðlaun sem taka mið af því hvernig þetta er erlendis í milljóna samfélögum.

En það sem gerir þau sérstaklega slæm er að þau miðast við furðulegar hugmyndir um blaðamennsku sem kristallast fyrst og fremst í kennisetningum Bigga vinar þíns Guðmundssonar sem mér til skelfingar fæst við að kenna blaðamennsku. Þær kennisetningar byggjast á einhverjum undarlegum og illa skilgreindum hugmyndum um rannsóknarblaðamennsku, óljósum hugmyndum um samfélagslegt mikilvægi greinarinnar - en samt að starfið sé einhvers konar fínimennska í bland (eins og sýnir sig í að þumbast endalaust við að verja þessar fáránlegu siðareglur sem fjölmargir hafa sýnt fram á að halda ekki vatni.) Biggi þessi lítur svo á að sé fréttin skemmtileg þá falli hún undir það að teljast skemmtiatriði og því einskonar atlaga að greininni. Afþreyingarvæðing eða hvað menn vilja nú kalla þetta. Pufff. Því kemur ekki á óvart að sme hafi fengið verðlaun fyrir Mannlíf sem nýverið var lagt niður því fáir nenntu að lesa. En það virðist einmitt vera eftirsóknarvert í kokkabókum Bigga. 

Þeim mun lengri þeim mun betri þykja fréttir á þeim bænum. Þess vegna fékk nú bók verðlaun einhvern tíma og þegar um var spurt á spjallasvæði blaðamanna hverju þetta undarlega val sætti brást ritstjórinn Biggi við með því að loka spjallsvæðinu! Þannig er nú málfrelsið metið á þeim bænum. Það er enginn skilningur á því að það er kúnst að skrifa inn í formið og takmarkað pláss. Eiríkur spurði einhvern tíma í forundran þegar einhver spekin kom frá BÍ um rannsóknarblaðamennsku: Bíddu, hvaða blaðamennska er ekki rannsóknar? Og hefur lög að mæla. Fá svör við því. Þess vegna miðast þetta rugl um rannsóknarblaðamennsku einkum og sér í lagi við að fréttin sé nógu löng. Þeim mun lengri, þeim mun betri, í kokkabókum ykkar fræðinganna.

Þóra Kristín má svo sem alveg heita vel að verðlaunum komin en þetta er svolítið eins og að vera að keppa á einhverjum leikum, fá verðlaun fyrir hundrað metra hlaupið en við hliðna er verið að veita verðlaun fyrir sigurvegara í 200 metra hlaupinu og þar er verið að hengja gullpening um hálsinn á Magnúsi Paul Korntop. Það hljóta að vera blendnar tilfinningar. Ekki nema von að þú sért ruglaður þegar þú skoðar rökstuðninginn með verðlaun fyrir bestu rannsóknarblaðamennskuna "... voru krufin með ítarlegri hætti en títt er í íslenskum fjölmiðlum". Sem sagt, textinn með verðlaunum til handa Smes er án dæma um hvað sé svona vel gert! Er þetta nú boðlegt? Þeir sem velja verðlaunahafana geta ekki einu sinni sett saman skammlausan texta. Heldur einhver svona almenn moðsuða. Og það þótti einstalkega lofsvert að sme tókst að endurflytja efni greina sinna á Bylgjunni. Í mínum bókum er það virðingarvert og heitir að kunna að skítnýta vinnu sína. En að það geri fréttir og greinar betri... hvaða búllshitt er verið að bjóða manni uppá?

Annars gef ég skít fyrir þessa kjaftaska sem eru að tuða um að fjölmiðlar hafi brugðist. Þvílíkt dómadags rugl. Þetta hefur allt komið fram meira og minna. Fjölmörg dæmi eru þar um. Menn nenntu bara ekki að lesa. Þorvaldur Gylfason er búinn að skrifa árum saman í Fréttablaðið. En honum hefur nú einkum verið hrósað fyrir að vara við. M.ö.o. þetta hefur allt birst með einum eða öðrum hætti. Þöngulhausarnir sem veina: Af hverju sögðu þið okkur ekki neitt? Vissu einfaldlega ekki neitt því þeir nenntu ekki að lesa.

Og siðapostulinn, rithöfundalaunþeginn, upplesari fyrir útrásarlýð en samt umbótamaðurinn (ætli hann vilji fá nýtt fólk inn til að þiggja rithöfundalaun?) Einar Már, sem heggur í þessum knérum, að fjölmiðlar hafi brugðist... hvaðan heldur hann að hann hafi þessa mynd af auðkýfingunum fyrrverandi í snekkjum og þotum? Heldur Einar Már að þau skrif öll hafi verið með einstakri velþóknun þeirra sem um var fjallað? Neinei, menn hafa þetta náttúrlega bara eins og hentar.

M.ö.o. ég æli á þetta fjas um að fjölmiðlar hafi brugðist og legg til að þessi kjánalegu Blaðamannaverðlaun, sem eru stéttinni til háðungar - enda þar meðalmennskan í hávegum höfð, verði lögð niður hið fyrsta.

Kveðja,
Jakob

Jakob Bjarnar (IP-tala skráð) 23.2.2009 kl. 20:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband