Gagnrýnin hugsun og ábyrgð fjölmiðla

 "Gagnrýnin hugsun og ábyrgð fjölmiðla" er yfirskrift málefnafundar sem haldinn verður í Háskóla Íslands á morgun mánudag í hádeginu, í stofu 101 í Odda. Þar eins og víðar fjalla fag- og fræðimenn skólans um samfélagsbreytingarnar sem nú eiga sér stað, svo vitnað sé í orð Háskólarektors við brautskráningu hátt í fjögur hundruð stúdenta í gær.

Málefnafundurinn leitast við að varpa ljósi á ábyrgð fjölmiðla í samfélaginu og vægi gagnrýninnar hugsunar eða greiningar almennt. Ég verð að viðurkenna að á þennan fund er ég að benda ekki síst vegna þess að ég er einn þriggja fyrirlesara! Ég hygg þó að fundurinn hefði reynst þokkalega áhugaverður án innleggs frá mér (ég verð auðvitað að segja sem svo). 

 Staða fjölmiðla á Íslandi er viðkvæm þessar stundirnar. Annars vegar blasir við að þeir, samkvæmt eigin viðurkenningum, brugðust aðhaldshlutverki sínu í aðdraganda fjármálakrísunnar og bankahrunsins; voru meðvirkir og dönsuðu með í kringum gullkálfinn. Hins vegar blasa við áhrif krísunnar á stöðu fjölmiðlanna og getu þeirra til að tuska sig til og standa sig betur - í þeim hefur undanfarið mikill niðurskurður átt sér stað og margir af mestu reynsluboltum stéttarinnar hafa misst vinnuna.

Á málefnafundinum, sem Vilhjálmur Árnason mun stýra, flytja erindi þau Guðmundur Heiðar Frímannsson, prófessor við Háskólann á Akureyri, sem fjallar um gagnrýna umfjöllun: lýðræði, staðreyndir og skoðanir, Sigrún Davíðsdóttir, fréttaritari Ríkisútvarpsins í London, sem fjallar um fjölmiðlaumfjöllunina um Ísland í Englandi: hrifningu, undrun og tortryggni; og loks fæ ég (stundakennari við HÍ) að komast að með erindi sem ég í snöggheitum skírði "Vinnubrögð, siðareglur og frammistaða blaða- og fréttamanna".

Og er ég þessa stundina að semja erindið. Gaman væri að fá komment frá lesendum bloggsins míns um hvað þeim finnst um frammistöðu fjölmiðla í aðdraganda hrunsins og getu þeirra til að gera betur í næstu framtíð. Eru fjölmiðlar að standa sig við gagnrýna greiningu á þjóðafélagsástandinu og -þróuninni? Geta þeir gert betur?


mbl.is Leiðir út úr vandanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ertu að grínast? Geta þeir gert betur? Þeir voru mataðir eins og börn með smekk af eigendum sínum. Véfengdu aldrei neitt sennilega sökum vanmáttar á faginu. Núna er á bylgjunni t.d. vika þar sem allir eiga að vera jákvæðir. Fjölmiðlamenn minna mig á Noru eftir ibsen, allt svo skemmtilega hresst þangað til þeir sjálfir missa vinnunna og hvað gerist þá jú þeir skella sér í stjórnmál og segjast hafa fengið málið.

Anna María (IP-tala skráð) 1.3.2009 kl. 11:33

2 Smámynd: smg

Held að eitt af meinum Íslendinga sé að stökkva á hlutina og kokgleypa þá. Hjarðeðlið er of ríkt og þeir sem stjórna hjörðinni eru ekki alltaf að vega og meta kosti og galla, hugsa til framtíðar eða hlusta á ráðgjöf studda rökum.

smg, 1.3.2009 kl. 11:34

3 Smámynd: hilmar  jónsson

Metnaðarlausir og tækifærissinnaðir er það fyrsta sem mér dettur í hug.

hilmar jónsson, 1.3.2009 kl. 11:38

4 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Eru einhverjar jákvæðar raddir þarna úti?

Friðrik Þór Guðmundsson, 1.3.2009 kl. 11:53

5 identicon

Rétt er að benda á innskrif Friðriks Þórs með fyrirsögninni "Að fordæma eða leggjast eindregið gegn ...." á undan þessum skrifum hans og athugasemd þar við, sem fylgir hér að neðan, en ekki er annað að sjá en þarna sé verið að fjalla um "hugsun og ábyrgð" fjölmiðla.

"I know this doesn't really help the discussion of the Icelandic word fordæma but I think the Americans were condemning (modern usage) whaling, just more politely"

Í þessum orðum hér að ofan má greinilega sjá "mér finnst" partinn, sem blaðamenn bæði hjá Morgunblaðinu og Visi.is komust ekki frá þegar þeir sögðu frá yfirlýsingunni bandarísku, hér að ofan.

Ef ég er á móti hvalveiðum og er blaðamaður má ég þá "þýða" fréttir málstað "mínum" í hag?

Ef blaðamenn gera þetta í eins ómerkilegu máli og þessu hvað gera þeir þá þegar kemur að öðru mikilvægara, hvort heldur um er að ræða "þýðingu" eða hreina frásögn, innlenda eða erlenda?

Auðvitað eru blaðamenn "fólk" sem segir "ég held" og "mér finnst" og auðvitað vætlar þetta í skrif þeirra og frásagnir, þótt í vinnunni sé - á hverjum einasta degi.

En er ekki hættan þegar vogarskálin er ekki lengur í jafnvægi og fleiri "mér finnst-arar" úr einum skoðanahópi eru samankomnir í einni stétt?

Athyglivert er t.d. að sjá hvaða "uppgjafarfréttamenn" ætla nú að taka þátt í prófkjörum og fyrir hvaða flokka.

Hvað sagði Sigmundur Ernir fyrir ekki löngu, sama dag og hann var rekinn frá 365 miðlum, eða hvað það nú heitir í dag, "laus undan oki auðmanna", var það ekki?

En hvað ef hann hefði nú ekki verið rekinn þann daginn? Hefði hann þá haldið áfram að skrifa fréttir undir oki auðmanna? ........ og nú ætlar hann í framboð - og fyrir hvaða flokk?

Varðandi yfirlýsinguna "góðu" er ekki hægt að segja að Bandaríkjamenn hafi í raun verið að styðja okkur Íslendinga með því að senda frá sér svona kurteisa yfirlýsingu, aðeins til þess að "friða" Greenpísara á heimaslóð?

Veiðum hvali - björgum þorskinum (IP-tala skráð) 1.3.2009 kl. 11:27

Ok auðmanna og saltið í grautinn (IP-tala skráð) 1.3.2009 kl. 12:01

6 identicon

Eina sem manni dettur jákvætt í hug varðandi fjölmiðlafólkið , maður vonaði að það segði okkur eitthvað !  

Því miður , svo varð ekki !

Var ekki kastljósið , þar sem brotrekni seðlabankastjórinn mætti loksins í viðtal, bara dæmi um stöðu fjölmiðlafólksins í þessu ástandi ?  Þarna gerði seðlabankastjórinn ítrekað lítið úr fjölmiðlamanninum , sem var stjórnandi, og vildi að að hann tæki bara undir skoðanir seðlabankastjórans !  Hvers vegna er fjölmiðlafólk komið í þessa stöðu ? 

JR (IP-tala skráð) 1.3.2009 kl. 13:43

7 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Fjölmiðlum er mikill vandi á höndum og þar tel ég að fréttamenn standi ávalt frami fyrir því erfiða hlutverki að skoða mál frá öllum sjónarhornum. Spurningin um rétt og rangt er ekki nóg. Hliðar máls geta verið nokkrar og kannski ekki auðvelt að sjá. Það má líkja einu máli við kassa og á honum eru 4 hliðar, botn og lok.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 1.3.2009 kl. 18:24

8 Smámynd: Loopman

Halló Friðrik.

Hér er góð grein sem kom í blaði sem kallast The Independent.

Athyglisvert það sem þarna kemur fram í sambandi við hvað fjölmiðlar segja og segja ekki, og blogg og þannig.

Hér er kvót úr greininni:

Still, for Snorri Kristjansson, who runs the communications agency Nestor Media, there's much public disenchantment about the state of Iceland's media. "There seems to be a lack of will, or ability, to ask the right questions. The media isn't covering what people want and need to know."

Since few people expect real stories to be broken by traditional Icelandic media outlets, many turn to blogs. "The blog world has become an outlet for emotions and information missed by mainstream media," Hrafnsson says. "It fuelled the escalating protests and riots, and contributed to bringing about changes."

Loopman, 1.3.2009 kl. 22:36

9 Smámynd: Loopman

Ef Íslendingar sjá þetta og og þessi Snorri og þessi Hrafnsson sem ég giska á að sé Björn Ingi því það kemur ekki fram í greininni, þá voru og eru fjölmiðlarnir að klikka illilega.

Loopman, 1.3.2009 kl. 22:38

10 Smámynd: Jón Baldur Lorange

Varðandi ábyrgð fjölmiðla þá minni ég á kassíska ræðu John F. Kennedy um leyndarhyggju, fjölmiðla o.s.frv. Ég hef einmitt þessa ræðu sem tengil á bloggsíðunni minni. En væntanleg er þessi ræða þér vel kunn.

Það er greinilega hugsandi fólk í Háskólanum sem hefur upp á þér Friðrik Þór einum af fáum gagnrýnum og óháðum pennum í fjölmiðlastétt í dag.

Jón Baldur Lorange, 1.3.2009 kl. 23:58

11 Smámynd: Alma Jenny Guðmundsdóttir

Ágæti Friðrik ég vísa í samræðður okkar á milli hér á bloggsíðu þinni en ég gagnrýndi ríkisfjölmiðlana mjög hart þar - og þá helst Kastljós.  Nefndi ég þar bara eitt lítið dæmi um ,,afþreyingar-hugsunina" þar, að þrátt fyrir að hafa sent þeim beiðni um að taka fyrir ,,Vatnalagafrumvarpið" svonefnda, var sú beiðni ekki einu sinni virt svars.  Þú bentir mér á þá að það mál hefði ,,lokast" verið afgreitt á þinginu og kannski ekkert meira um það að segja, en..... þar var verið að fjalla um eignarhald á vatns-auðlindum þjóðarinnar - ,,olíu"-auðs okkar og þótti bara ekki nógu spennandi.  Þingið var þó að karpa um það mál meira en minna í tvo mánuði og oft fram á nótt, þar til ákveðið var að taka það af dagskrá.  Það mál situr sem sagt enn algerlega óafgreitt ennþá - eignarhald á vatni - jarðvarma sem fallvötnum!

Alma Jenny Guðmundsdóttir, 2.3.2009 kl. 02:25

12 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Það er kannski vert að taka fyrir túlkanir eða mistúlkanir skoðanakannana í fjölmiðlum, sem ég velti upp á mínu bloggi.  Í því samhengi skortir mikið upp á gagnrýna hugsun almennings og ábyrgðartilfinningu fjölmiðla, sem og stjórnmálamanna.

Jón Steinar Ragnarsson, 2.3.2009 kl. 02:29

13 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Þakka öll kommentin. Þetta var ágætis málefnafundur. Ég bæði gagnrýndi fjölmiðla og setti mig í vörn fyrir blaða- og fréttamenn, þetta síðarnefnda með vísan til vondra aðstæðna þeirra við að vinna vinnuna sína. Hér eru þeir punktar (og eru þó ekki tæmandi):

Tímaþröng og Vinnuálag. Nú sem aldrei fyrr búa blaða- og fréttamenn við vinnuálag, miklar framleiðnikröfur og eru iðulega í mikilli tímaþröng með afurðir sínar. Í könnun minni spurði ég sakleysislega hvort blaða- og fréttamenn hefðu yfirleitt nægan tíma til að sinna vandasömum málum og niðurstaðan var ákaflega afgerandi. 95% svarenda sögðu NEI. Mönnum er einfaldlega ekki gefinn nægur tíma, nægt svigrúm til að sinna almennilega vandasömum málum. Þetta eitt er út af fyrir sig nóg til að stöðva margt.

Mannekla og skortur á sérþekkingu. Ritstjórnir og fréttastofur fjölmiðla, sem lúta að fréttamennsku í víðum skilningi, eru almennt og yfirleitt undirmannaðar. Klárlega er engin hefð fyrir nema einum kannski tveimur blaða- og fréttamönnum við hverja umfjöllun og þar með upplýsingaöflun. Auðvitað eru undantekningar, en algengasta birtingamynd blaða- og fréttamanns í svokölluðum hörðum málum er einn maður, með 3-5 verkefni dagsins og skilafrestur skammt undan. Og nú hefur bæst við ímyndina meira en snertur af meðvirkni og skorti á sjálfstæðri gagnrýninni greiningu. Kannski á þetta best við um viðskiptablaðamenn, en þeir sem fjalla um stjórnmál eru fjarri því saklausir.

Nálægðarvandi:  Meirihluti svarenda í minni könnun telur að áhrifin af nálægðarvandanum séu að minnka, en eftir sem áður telur 63% svarenda að áhrifin séu enn mikil. Með öðrum orðum eru blaða- og fréttamenn enn að finna verulega fyrir því að búa í fámennu samfélagi, þar sem svo margir tengjast á einhvern hátt og þá oft erfitt að athafna sig ópersónulega og hlutlægt. Smæð samfélagsins gerir um leið að verkum að blaða- og fréttamenn tengjast stjórnmálamönnum, embættismönnum og forstjórum um of, enda leggst ofan á þetta að menn vilja hafa góða kontakta og kontaktmenn góða. Þetta er sem sagt alvöru vandamál; Íslendingar eru einsleit þjóð með sömu menninguna og tungumálið og allir þekkja alla eða því sem næst.

Fjölgun í stéttinni hefur ekki skilaði sér í fjölgun blaða- og fréttamanna með „bein í nefinu“, sérþekkingu og ríka aðhaldsþörf.  Ekki fer á milli mála að blaða- og fréttamönnum hefur fjölgað mikið á síðustu árum. Samkvæmt félagatali Blaðamannafélags Íslands eru skráðir félagar nú alls 635 og hafði félögum þá fjölgað um 147% frá árinu 1990, þegar þeir voru 257 talsins. Við þetta má bæta á sjötta tug félaga í Félagi fréttamanna og tala um nálægt 700 manna herskara blaða- og fréttamanna. Samt telja 72% svarenda minna að þessari miklu fjölgun hafi ekki fylgt bætt fagleg vinnubrögð. Við greiningu á svörunum má enda ljóst vera að þessi fjölgun nær ekki til svokallaðrar harðrar fréttamennsku á sviði stjórnmála og viðskipta. Það er miklu heldur að fjölgunin nái til mýkri mála og alls kyns léttmetis. Til afþreyingariðnaðarins. Aðeins meira um það á eftir.

Niðurskurður og eignarhald.  Það þarf ekki að fjölyrða um þær hremmingar sem fjölmiðlar ganga í gegnum núna, rétt eins og samfélagið allt. Nú hefur hins vegar um skeið, síðustu 1-2 árin, þessa dagana og eitthvað framvegis, riðið yfir bylgja niðurskurðar, uppsagna og fjölmiðladauða sem aldrei fyrr.  – Á móti kemur sókn Netfréttamiðlanna, sem sumir hverjir eru orðnir ansi öflugir. Þessu nátengt:

Atvinnuóöryggi og sjálfsritskoðun.  Eftir hrunið mikla og fyrrnefndan niðurskurð með uppsögnum er eðlilegt að menn kjósi að fara varlega í hvers kyns dirfsku og kostnaðarsama fréttaöflun. Það er ekki gott veganesti fyrir nýja sókn og heitstrengingar að óttast um vinnuna sína og kannski haga verkefnavali í samræmi við það.

Atgervisflótti . Nátengd niðurskurði og uppsögnum en líka sjálfstæð breyta er atgervisflóttinn. Undanfarin ár hefur herskari reyndra blaða- og fréttamanna einfaldlega yfirgefið fagið. Ýmsir eru komnir á aldur, en mjög margir hafa allt að því gefist upp á aðstæðunum og kosið að halda á önnur mið. Nokkuð margir hafa farið leið almannatengslanna. Glettilega margir í pólitík. Almennt víða þar sem launin eru betri og álagið skaplegra.

Rýr kjör.  Þótt einstök tilvik sé um vel há laun eða tekjur er almenna reglan sú að blaða- og fréttamenn eru ekki ofaldir í kjörum – þeim finnst það og þá kannski ekki síst í samhengi við vinnuálagið, vinnustundafjöldann.

Friðrik Þór Guðmundsson, 2.3.2009 kl. 17:13

14 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Sérstakar þakkir til Jóns Baldurs fyrir hlý orð...

Friðrik Þór Guðmundsson, 2.3.2009 kl. 17:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband