Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Já, en.... HVERS VEGNA??

 Kaupþing, Landsbankinn og Glitnir

Fréttaskýring Agnesar Bragadóttur í Sunnudagsmogganum er afar athyglisverð og lærdómsrík, en skilur eftir sig að minnsta kosti eina stóra spurningu: Hvers vegna í ósköpunum? Þetta hlýtur að vera fyrri hluti og von á seinni hlutanum bráðlega, þar sem leitast verður við að svara þessari stóru spurningu.

Niðurstaða fyrri hlutans er nefnilega klár; Fulltrúar Seðlabanka Evrópu og Bandaríkjanna, Alþjóðagreiðslubankans í Basel (Sviss) og seðlabanka Bretlands, Danmerkur og Svíþjóðar höfðu samráð um að kafsigla og yfirgefa Ísland. Meintir "vinir" sviku litla Ísland.

Heimildamannasafn Agnesar mynda enda einhliða sjónarhorn; þetta eru viðmælendur úr Íslenska bankaheiminum og að sögn viðmælendur meðal stjórnvalda og eftirlitsstofnana á Íslandi. Allt innlendir meintir sökudólgar; bankamenn sem fóru offari og stjórnvöld og eftirlitsstofnanir sem brugðust með því að grípa ekki tímanlega til aðgerða og viðhafa almennilegt eftirlit.

Ég dreg þessa heimildarmenn í sjálfu sér ekki í efa. Þeir horfa á málin frá sínu sjónarhorni og segja sjálfsagt samviskusamlega frá. En það vantar algerlega hina hlið málsins; sjónarhorn fyrrnefndra alþjóðastofnana og fyrirtækja. Það HLÝTUR að koma í framhaldinu. Þarna er enda enginn sem útskýrir hvers vegna ákveðið var með samráði að fara svona illa með litla Ísland.

Það örlar reyndar á margframkominni mögulegri skýringu; að Íslenska bankakerfið hafi verið allt of stórt og lausafjárstaða þess allt of lítil. "Bankamenn sjá það nú" og að þeir hefðu átt að hægja á sér 2006!

En það útskýrir ekki af hverju þessar alþjóðastofnanir tóku fyrst vel í beiðni um hjálp en höfðu svo samráð og snarsnérust við. Hví? Hví?? Hinir Evrópsku og Bandaríski seðlabankar ákváðu að yfirgefa Íslendinga "sem hafi orðið Íslenska bankakerfinu að falli". Hvers vegna í ósköpunum?

Hvers lags eiginlega var þetta skuggalega samráð "vina" okkar, bankaheimsins og stjórnvalda viðkomandi ríkja? Ekki taka seðlabankar svona afdrifaríka ákvörðun um að yfirgefa og sökkva Íslandi án samráðs við og blessunar pólitíska valdsins í þessum ríkjum!?

Í seinni hluta fréttaskýringarinnar hlýtur Agnes/Mogginn að krefja þessa aðila um svör og það hreinskilin og heiðarleg svör - ekki almennt bla bla. Hvernig stendur á þessari árás á Ísland? Ísland var í vanda, en meðvituð ákvörðun virðist hafa verið tekin með samráði um að hjálpa ekki Íslandi heldur láta landið fara í þrot. Gerði Ísland eitthvað af sér sem var ófyrirgefanlegt? Réttlæti offors og græðgi 20-30 auðjöfra á Íslandi að allri þjóðinni yrði með samtakamætti steypt í glötun?

Þekkjandi Agnesi þá hlýtur hún að vera þegar byrjuð á seinni hlutanum. Er það ekki?


mbl.is Þeir felldu bankana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"You have been warned"

 "You have been warned", endaði Given that (Landsbanki og Kaupþing) have taken billions in UK retail deposits, it may be a sobering thought for savers to consider where they are putting their cash

Iceland's banks top 'riskiness league'

 

... More risky is Alliance & Leicester, whose price was about 342 points last week, again reflecting its high dependence on wholesale financial markets, which have become frozen in recent months. But the real horrors are in Iceland.

Credit insurance for debts at Iceland's biggest bank, Landsbanki, is priced at 610 points while that for Kaupthing is priced at a hair-raising 856. Given that these two have taken billions in UK retail deposits, it may be a sobering thought for savers to consider where they are putting their cash. These banks are now seen as the most unsafe in the developed world.

Of course, no one can be sure that disaster looms for anyone, but the figures on credit default swaps show clearly where investment professionals think the big risks are.

You have been warned.

 Kemur ekki atkvæðagreiðslunni í SÞ beint við, en spurning hver eigi að vorkenna hverjum?


mbl.is Bretar vorkenna Íslendingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leiftursókn í gangi gegn Íslandi

Við höfum ekkert með "varnir" Breta að gera - þeim er ekki treystandi að óbreyttu. Raunar er ekki einleikið hversu Ísland er grátt leikið af ekki bara Bretum, heldur mjög mörgum öðrum. Viðmót gagnvart Íslenskum ríkisborgurum er víða kuldalegt og lokað á þá, jafnvel á Norðurlöndum. Hvernig í ósköpunum stendur á þessu? Hvað höfum við gert til að eiga þetta skilið?

Þetta er orðið meira en svo að dugi að benda á flottræfilshátt og hákarla-kapítalisma auðjöfra. Ekki dugir heldur að segja sem svo að Íslensk stjórnvöld hafi klúðrað gagnsókn í áróðursstríði. Leiftursóknin gegn Íslandi virðist eiga sér dýpri rætur en svo. Er Ísland kjörið skotmark útrásar öfundar og reiði? Höfum við sýnt af okkur einhvern slíkan hroka, yfirlæti og dramb sem verðskuldar fyrirlitningu - og sjáum það bara ekki? Eða erum við alsaklausir og þessar pælingar bara paranoia?

Fjármálasnillingar okkar fóru kannski offari, stjórnvöld stóðu sig kannski ekki í stykkinu, en venjulegir Íslenskir ríkisborgarar og saklaus Íslensk fyrirtæki eiga ekki skilið þá framkomu sem þeim hefur verið auðsýnd víða erlendis. Nema að við höfum gert eitthvað af okkur sem þjóð sem okkur er einfaldlega ómögulegt að koma auga á. Svarið við þessu andstreymi erlendis er ekki linkind og rándýr eftirgjöf. Ekki heldur gagnvart innlendum sökudólgum.


mbl.is Vill ekki Bretana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einn inn annar væntanlega út

Steingrímur Ari Arason er enn einn frjálshyggjumaðurinn til að fá stöðu innan heilbrigðis- og tryggingageirans og eru þeir nú orðnir svo fjölmennir á þeim slóðum að ekkert annað getur blasað við en aukin frjálshyggjuvæðing velferðarþjónustunnar. Þótt frjálshyggjan hafi beðið eftirminnilegt skipbrot.

Með tilkomu Guðlaugs Þórs Þórðarsonar og Sjálfstæðisflokksins í heilbrigðisráðuneytið og eftirgjöf Samfylkingarinnar er þessi málaflokkur æ meir undir stjórn Guðlaugs Þórs, Péturs Blöndal, Ástu Möller, Benedikts Jóhannessonar og nú Steingríms Ara Arasonar. Sumir fagna þessari þróun en ég hygg að fleiri og æ fleiri beri ugg í brjósti.

Aftur á móti virðist innvígður og innmúraður Valhallar-lögfræðingur vera á útleið afar fljótlega. Komið hefur í ljós og frá því sagt á visir.is (hér), að Baldur Guðlaugsson ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytisins hafi ekki einasta verið hluthafi í Landsbankanum (gamla, hans Bjögga), heldur hafi Baldur selt þessa hlutafjáreign sína mánuði áður en bankinn "sökk".  Hjá visir.is kemur fram sú fullyrðing Baldurs að hann ekki haft meiri upplýsingar en þær sem markaðurinn hafði. 

Þetta er augljóslega rangt. Hann reynir að passa orðalagið, en það tekst ekki að klóra yfir fölsunina. Nú vita allir um Bresku skýrsluna sem stungið var undir stól eftir sérstaka kynningu hérlendis - það var kolsvört skýrsla og hún var eftir því sem fram hefur komið kynnt Landsbankamönnum, mönnum frá fjármálaráðuneytinu og handfylli af öðrum. Þessar upplýsingar höfðu baldur og félagar en markaðurinn ekki.

Ég fæ ekki betur séð en að innherjaupplýsingar hafi verið misnotaðar. Þessa sölu beri að afturkalla. Og að einhver eigi að axla ábyrgð.


mbl.is Steingrímur Ari forstjóri sjúkratryggingastofnunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kirkjan í upphæðum

Þeir sem þekkja til mín vita að ég hef í gegnum árin verið óspar á gagnrýni á Þjóðkirkjuna (Ríkiskirkjuna) og önnur trúfélög skipulagðra trúarbragða. Ekki síst þegar ég var í forsvari fyrir Samtök um aðskilnað ríkis og kirkju. Nú er komið upp mál fyrir dómi sem ýtir undir þá ímynd að kirkjan sé "í upphæðum" - Kirkjan telur sig eiga rétt á meira en 100 milljónum króna vegna afnota Landsvirkjunar af vatnsréttindum í landi Valþjófsstaðar. Ætli Landsvirkjun þyrfti ekki að breyta þessum vatnsréttindum í vínréttindi til að afvegaleiða hempufólkið?

Í sjálfu sér þarf enginn að efast um að Þjóðkirkjan eigi eins og aðrir landeigendur kröfur á Landsvirkjun ef og þar sem Landsvirkjun er að sölsa undir sig eigur og réttindi. En í þessu máli ætti Þjóðkirkjan að óska eftir frestun á frekari málflutningi vegna málsins meðan mesta ólgan og krísan er að líða hjá. Svo gæti farið að krafa Þjóðkirkjunnar verði krafa á "gjaldþrota" ríki. Að ríkið, sem er þjóðin, megi til með að nota fjármuni sína í annað en að borga fyrir vatnsréttindi. Þjóðkirkjan mætti einnig íhuga að ríkið getur náð þessum fjármunum auðveldlega til baka, t.d. með því að lækka sóknargjöldin og/eða skerða framlög í fjárlögum. Held að það væri reyndar óvitlaust, en Þjóðkirkjan ætlar út í nýjar fjáröflunarleiðir!

Ég sit í stjórn Breiðavíkursamtakanna. Eins og menn muna vafalaust deildu samtökin hart á ríkisvaldið (forsætisráðuneytið) fyrir nánasarlegar tillögur um bætur í drögum að frumvarpi. Undir eðlilegum kringumstæðum væru samtökin nú að herja á Geir og félaga um stórbætt frumvarp og hraða afgreiðslu á boðlegum bótum. En samtökin átta sig fullkomlega á því að slík barátta verður líkast til að bíða um sinn, jafnvel hið minnsta í 2-3 mánuði og hugsanlega til vorþings Alþingis. Bótamálið er jafn brýnt og áður, en samtökin kunna sig og víkja tímabundið meðan við tökum öll saman á Kreppuskrímslinu ógurlega. Óskandi væri að Þjóðkirkjan kynni sig líka.


mbl.is Kirkjan krefur ríkið um milljónir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

".... getur þolað töluverð áföll" - 14. ágúst sl.

Þessi frétt Fjármálaeftirlitsins frá 14. ágúst síðastliðnum er merkileg söguleg heimild. "Niðurstöður álagsprófsins sýna að eiginfjárstaða bankanna er sterk og getur þolað töluverð áföll" er þarna haft eftir forstjóra FME. Þolað töluverð áföll, sagt og skrifað. Ætli eitthvað hafi vantað í þetta álagspróf?

14.08.2008

Íslensku bankarnir standast álagspróf FME

Fjórir stærstu viðskiptabankarnir standast allir álagspróf Fjármálaeftirlitsins sem eftirlitið framkvæmir með reglubundnum hætti. Álagsprófið gerir ráð fyrir að fjármálafyrirtæki standist samtímis áföll í formi tiltekinnar lækkunar á hlutabréfum, markaðsskuldabréfum, vaxtafrystum/virðisrýrðum útlánum og fullnustueignum og áhrifa af lækkun á gengi íslensku krónunnar án þess að eiginfjárhlutfallið fari niður fyrir lögboðið lágmark.

Vakin er athygli á að álagsprófið miðast við stöðuna á viðkomandi tímapunkti. Eiginfjárhlutföll bankanna í lok annars ársfjórðungs 2008 endurspegla þegar áhrif af óróa á fjármálamörkuðum á seinni hluta ársins 2007 og fyrri hluta þessa árs, þ.e. áður en áhrifin af álagsprófinu eru reiknuð. Til viðbótar hinu formlega álagsprófi framkvæmir Fjármálaeftirlitið ýmis álagspróf eftir því sem ástæða þykir til.
  
Jónas Fr. Jónsson, forstjóri FME: "Niðurstöður álagsprófsins sýna að eiginfjárstaða bankanna er sterk og getur þolað töluverð áföll.  Stjórnendur og hluthafar bankanna þurfa að leggja áherslu á að viðhalda sterkri eiginfjárstöðu og jafnvel efla hana, en eiginfjárþörfina þarf reglulega að endurmeta með hliðsjón af mismunandi áhættuþáttum í rekstri og stefnu hvers fyrirtækis."


Fjölbýlishúsið og stigagangurinn

Mig langar hér og nú til að rifja upp færslu mína frá því á síðasta ári, sem ég skrifaði sem "paródíufrétt" um átök í fjölbýlishúsi, eftir að stigagangurinn og aðrar sameignir höfðu verið "einkavæddar". Auðjöfurinn sem keypti sameignirnar er nú með allt niður um sig og tímabært að íbúar fjölbýlishússins endurheimti sínar gömlu eignir.

Færslan/Paródíufréttin var svona:

"Það brutust út slagsmál í stigagangi fjölbýlishúss á dögunum. Það kom upp mjög alvarlegur ágreiningur um sameign hússins. Stjórn húsfélagsins hafði öllum að óvörum selt sameignina.

Íbúar fjölbýlishússins fengu, hver í sinni séreign hússins, tilkynningu frá formanni húsfélagsins að stjórnin hefði ákveðið að selja einum íbúðareigendanna, auðmanninum í penthousinu, allar sameignir fjölbýlishússins. Stigagangana, tröppurnar, þvottahúsið, hjólageymsluna og svo framvegis. Hér eftir væru umferð og athafnir á þessum hlutum fasteignarinnar bönnuð nema með leyfi nýja eigandans, svo sem að komast til íbúða sinna. Tekið yrði sérstakt gjald fyrir að hýsa póstkassa og geyma hjól. Í kjölfarið heyrðust sögur af miklum plönum nýja eigandans með fyrrum sameignina; hann ætlaði að efna þar til ýmiss konar verslunar og þjónustu - og skemmtihalds fram á rauða nótt.

Einnig heyrðust fréttir af því að auðmaðurinn í penthousinu, nýi "sameignar"eigandinn, ætti í viðræðum við fjársterkan aðila í næstu blokk um að kaupa af sér téðan stigagang - með góðum söluhagnaði auðvitað. Sem gefur augaleið; hann fékk jú eignina frá stjórn húsfélagsins á afar, afar, afar góðu verði.

Þegar þetta heyrðist gerðu íbúar fjölbýlishússins loks vart við sig, þeir stormuðu stigagangana (borguðu auðvitað nýja eigandanum umferðartoll), drógu formann húsfélagsins fram og börðu hann. Sem að vísu breytti engu. Formaðurinn fékk glóðarauga, en hló alla leið til bankans".

http://lillo.blog.is/blog/lillo/entry/149671

 


Frysta skal eigur "snillinganna"

Reiðin er vondur húsbóndi, sagði lögfræðingur sem sendi mér tölvupóst í dag og er ósáttur við blammeringar mínar í garð samflokksmanna sinna, Geirs og Davíðs. Þetta er allveg satt og auðvitað á maður að "telja upp að 10" - vandamálið er bara að ég er búinn að telja og telja og er kominn hið minnsta upp í sex hundruð sextíu og sex, en er enn fjúkandi reiður.

Reiðin út í Geir og Davíð kemst þó ekki í hálfkvist miðað við reiði mína í garð "snillingana", þessa 20-30 sem Vilhjálmur Bjarnason hefur talað um. Reiðin minnkar ekki við að lesa um að „Bílskúrssölur“ séu nú hafnar á eigum íslenskra banka erlendis. Nú les maður um kaup ING í Bretlandi á Edge og Heritable bönkunum þar í landi, sem voru í eigu Kaupþings og Landsbankans, sölu á Kaupþingi í Svíþjóð, sem kunni að enda í höndum sænska seðlabankans, fáist ekki kaupendur og að dótturfyrirtæki Glitnis í Finnlandi sé til sölu. Útrás "snillinganna" er á brunaútsölu.

Hvar eru "snillingarnir"? Flognir burt á einkaþotunum? Hvað tóku þeir með sér?

Það verður tafarlaust að frysta eigur "snillinganna", ef ekki fyrir okkur þá upp í svikin við sparifjáreigendur útlendinganna sem þeir sviku. Þetta er mín krafa og undir hana tók starfsmaður Seðlabankans sem ég hitti áðan. Erlendis eru menn farnir að frysta eigur þessara manna og fyrirtækja þar og þetta eigum við að gera hér.

Já, reiðin er vondur húsbóndi. En sá húsbóndi þarf ekki þar af leiðandi að hafa rangt fyrir sér. Meðan "snillingarnir" koma ekki fram og tala beint við þjóðina þá verður reiðin áfram húsbóndinn, hversu vondur sem hann er.


mbl.is Ísland á „bílskúrssölu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvar er stjórnarformaður Landsbankans?

Það er búið að tala grilljón sinnum við stjórnarformann Glitnis og stjórnarformann Kaupþings-banka, en hvar er stjórnarformaður Landsbankans og hvert er álit hans á bankakrísunni og neyðarlögunum?Jú, við sáum son stjórnarformannsins hoppa og skoppa upp og niður tröppur að hitta ráðherra, en hvar er pabbinn, stjórnarformaðurinn?

Fyrir helgina var gjaldeyrisþurrð í Landsbankanum. Það er búið að taka völdin af bankanum (og öðrum) með neyðarlögum. Björgólfur Guðmundsson segir ekkert! Væntanlega neitar hann að tala við fjölmiðla - frekar en að þeir reyni ekki að tala við hann! Samt er mögulega að hrynja yfir bankann hans mál sem er margfalt stærra og alvarlegra en aðaláhugamál stjórnarformannsins; að gera upp eldgamlar Hafskips-sakir

Landsbankinn er aðalbanki minn. Þar á ég sætan lítinn sparnað (móðurarf) í krónum og dollurum. Það dugar mér ekki að heyra forsætisráðherra segja innistæður tryggar. Ég vil heyra í stjórnarformanni bankans sem ég treysti aurunum fyrir. Hann hlýtur að geta tekið sér pásu frá því að ritrýna sagnfræðilegar bækur.

Verður Landsbankinn til sem slíkur í fyrramálið? Verða einhverjir peningar í bankanum? Eru þeir kannski farnir eitthvað annað?


mbl.is Neyðarlög sett í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fróðlegur Kompás-þáttur um Hafskipsmálið

 Kompásþátturinn í kvöld um Hafskipsmálið var hinn fróðlegasti og flest í honum rímaði ágætlega við ritdóm minn og langa færslu á dögunum. Sérstaklega þetta með bókina hans Örnólfs Árnasonar sem Björgólfi þótti ekki nógu "góð". Reyndar hef ég bætt því við að Björgólfur ætti að snúa sér að öðru en Hafskip og það er nú aldeilis að reynast réttmæt ábending nú, þegar Björgólfsbanki riðar til falls (líklega kennir hann fjölmiðlum um það). 

Bók Örnólfs er önnur bókin sem telja má víst að Björgólfur gamli hafi ritskoðað með beinum hætti, en honum tókst ekki að kaupa dagblað til að leggja niður. Hvað um það; Kompás-þátturinn hafði sem betur fer nokkurn veginn réttan fókus; þar var fjölmiðlum og stjórnarandstæðingum ekki kennt um allt (Þótt Matti Bjarna vilji áfram vaða í þeirri villu), heldur sjónunum beint réttilega að "huldumönnunum": Loksins, loksins. Reyndar hefði mátt segja nánar frá en gert var hversu Hafskipsmenn sjálfir áttu sök að máli. En þarna mátti þó finna þefinn af, skulum við segja, trúlegri sökudólgum; Jóhannes Nordal leysir Halldór Halldórsson af, Hörður Sigurgestsson leysir Ólaf Ragnar af, Gunnlaugur Claessen leysir Jón Baldvin a, Markús Sigurbjörnsson leysir Svavar Gestsson af: aðalliðið er tekið við af varaliðinu. Eimskipafélagið og embættismenn sökktu Hafskip en ekki fjölmiðlar og stjórnarandstæðingar. Og ég held raunar að menn eins og Mattarnir Bjarna og Mathiesen hafi vitað meir um hvað var að gerast en þeir láta eða létu síðar uppi.

Ég vil sjá bókina eða handritið hans Örnólfs Árnasonar. Eftir Kompás-þáttinn getur Örnólfur ekki annað en upplýst um bókina eða helst gefið hana út einhvern veginn. Annars verður að draga þá ályktun að hann hafi, ótrúlegt nokk, verði keyptur til þagnar.

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband