Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál
28.11.2008 | 12:44
Hárbeittur og hættulegur niðurskurðarhnífur hjá RÚV OHF
Í raun og sann hefur staðið yfir nær linnulaus niðurskurður hjá RÚV allt frá ohf-væðingunni í fyrra - og var "stofnunin" þó í þokkalega þéttri spennitreyju fyrir þau tímamót. Við ohf-væðinguna hættu fjölmargir góðir frétta- og dagskrárgerðarmenn og enn fleiri hafa yfirgefið fjölmiðilinn síðan og enn virðist þeim eiga að fækka.
Mér sýnist að staðan sé að verða ansi krítísk þegar horft er á upplýsinga- og fræðsluskyldu þessa fjölmiðils í almannaeigu. Væntanlega er þó markmiðið ekki að reka frétta- og dagskrárgerðarþjónustu með algerum lágmarks mannskap. Samfélagið þarf á því að halda að sameinaðar fréttastofur RÚV séu öflugar, en ekki máttlausar og mannskapurinn logandi hræddur um atvinnuöryggi sitt - sífellt að passa sig að stuða ekki valdaöflin og sífellt að ástunda sjálfsritskoðun vegna þess. Því meiri gagnrýni sem ríkir á einkarekna fjölmiðla vegna hugsanlegra áhrifa eigenda þeirra þeim mun mikilvægara er það almenningi að eiga traustan bakhjarl í sjálfstæðri og óháðri fréttastofu og dagskrárgerð á vegum fjölmiðils í almannaeigu. Hin lýðræðislega umræða krefst þess.
Hver var ávinningurinn af ohf-væðingunni? Hvernig hefur ríkið uppfyllt loforð um fjármögnun? Hvað voru frétta- og dagskrárgerðarmenn margir fyrir þau tímamót og hvað verða þeir margir eftir nýjasta niðurskurðinn?
![]() |
Boðað til starfsmannafundar hjá RÚV |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
26.11.2008 | 14:08
Hver er munurinn á fullveldisafsali til IMF og ESB?
Ég er að vísu ekki með svarið á reiðum höndum og væri gaman að fá hér upp skoðanaskipti um þetta. Mér finnst þessi "fárviðrisskýrsla" IMF vera ofboðslega auðmýkjandi. Mér finnst eins og að þarna sé talað um óvita eða óþekka krakka. Eins og að einhver Barnaverndarnefnd sé að skrifa skýrslu um ástand á óregluheimili, þar sem fimm áföll dundu yfir; 1. foreldrarnir drykkfelldir, 2. karlinn lamdi konuna (eða öfugt), 3. börnin stálu úr búð, 4. elsta dóttirin, enn ólögráða, komin í neyslu og farin að selja sig og 5. elsti sonurinn, enn ólögráða, orðinn handrukkari.
Svo er að skilja að okkur hafi verið nauðugur einn kostur, að fá svimandi upphæðir að láni hjá IMF og einstökum ríkjum. Þessir okkar lánveitendur kúguðu okkur til að semja um Icesave og undirgangast á þriðja tug skilmála. Samt hef ég ekki séð þessu líkt við fullveldisafsal. Er ekki IMF að skrifa auðmýkjandi skýrslur um okkur og erum við ekki að beygja okkur og bukta fyrir þeim og einstökum kúgunarríkjum? Hefur fullveldisafsal þá ekki átt sér stað?
Ef svarið er já, væri gott og gagnlegt að heyra og lesa: Hver er munurinn á þessu fullveldisafsali og hinu sem gagnrýnendur reikna með að eigi sér stað ef Ísland gengur í ESB? Ég er ekki ESB-sinni, en mér finnst rétt að svar við þessu fáist. Er munurinn kannski fyrst og fremst sá að IMF óskar ekki eftir fiskkvóta í íslenskri efnahagslögsögu?
![]() |
Hið fullkomna fárviðri |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
24.11.2008 | 22:45
Frekar að boða "30-menningana" næst!
Flottur fundur í Háskólabíói. Fundarstjórinn boðaði næsta fund í desember og sagði að þá yrðu fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar og lífeyrissjóðanna boðaðir til að svara spurningum. Ég er svolítið hissa - ég átti nú frekar von á því að það væri örugglega komið að "30-menningunum", útrásarvíkingunum svokölluðu, aðal sökudólgunum. Ég hef miklu miklu miklu fleiri spurningar til þeirra en verkalýðsforkólfa.
Kannski kemur þó að þeim þarnæst. Þeir þurfa kannski lengri fyrirvara, þrátt fyrir einkaþotur, að koma frá útlöndum, sumir kannski frá Luxemborg og Cayman og Tutola eyjunum. En kannski er borin von að þeir þori að koma.
Ég komst ekki á fund þennan en gat fylgst með honum að megninu til í sjónvarpinu. Mér fannst afar sársaukafullt fyrir augun að sjá Árna Johnsen beint fyrir aftan ræðupúltið, vambmikinn holdgerving spillingarinnar, fúlan á svip og á köflum að því kominn að dotta, svei mér þá. Ekki falleg "auglýsing" fyrir ríkisstjórnina. En góð áminning.
![]() |
Þetta er þjóðin |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
23.11.2008 | 15:52
Rangir málsaðilar handteknir!
Af hverju er ekki búið að draga megnið af "30-menningunum" til opinberrar rannsóknar og þriðju gráðu yfirheyrslu, ásamt massífum húsleitum og frystingu eigna tiltekinna einkahlutafélaga og eigenda þeirra upp í tjón þessara voluðu "snillinga"?
Af hverju er þess í stað áhersla lögð á að handtaka og sekta fólk sem ofbýður og mótmælir?
Ég mótmæli þessu!
![]() |
Lárus Welding: Rangt að reglur hafi verið brotnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
21.11.2008 | 13:21
Líka vantrauststillögu á stjórnarandstöðuna
Það er gott mál að stjórnarandstaðan hafi lagt fram vantrauststillögu á ríkisstjórnina. Ég á ekki von á því að hún verði samþykkt, en allt í lagi með það; út úr þessu kemur hið minnsta nauðsynleg umræða um frammistöðu ríkisstjórnarinnar. En eina tillögu vantar.
Samhliða þessari tillögu þyrfti að liggja fyrir vantrauststillaga á stjórnarandstöðuna. Hún hefur líka brugðist. Og hluti hennar á hið minnsta jafn mikla sök á óförum lands og þjóðar í efnahags- og viðskiptamálum og núverandi ríkisstjórn; sem sé Framsóknarflokkurinn. Ef til vill má leysa þetta með því að í væntanlegum vantraustsumræðum gangi menn út frá því að vantraust sé rætt á bæði í senn, þessa ríkisstjórn og ríkisstjórnirnar á undan.
Það er morgunljóst að flytja mætti margar vantrauststillögur fram til umræðu og afgreiðslu. Ekki bara gegn ríkisstjórninni og stjórnarandstöðunni, heldur líka gegn Seðlabankanum, Fjármálaeftirlitinu, yfirmönnum bankakerfisins, auðjöfrunum og fleirum. Fjölmiðlar ættu líka skilið að fá á sig vantrauststillögu, en þeir að minnsta kosti vita að því, hafa viðurkennt skömm sína og vanmátt og eru vonandi byrjaðir að bæta sitt ráð. Stór hluti þjóðarinnar á líka vantraust skilið fyrir að dansa með gullkálfinum til dýrðar í æðisgenginni en undirstöðulausri efnis- og græðgishyggju, en nokkuð ljóst er að óbreyttir landsmenn eru einmitt þeir einu sem verða almennilega látnir axla ábyrgð með því að taka á sig skellinn. Þjóðinni verður refsað með skuldafangelsi, en Geir, Solla, Valgerður Sverris, Halldór Ásgríms, Davíð Oddsson, Jónas Fr. Jónsson, Jón Sigurðsson, Sigurður Einarsson, Jón Ásgeir Jóhannesson, Bjarni Ármannsson, Björgólfur Guðmundsson, Björgólfur Thor, Þorsteinn Már Baldvinsson, Lárus Welding, Kjartan Gunnarsson og fleiri slíkir menn; munu allir sleppa.
Enda sýnist mér að allar boðaðar rannsóknir verði í skötulíki. Ég les það út úr þeirri staðreynd að hersveitir rannsóknar- og ákæruvaldsins fóru ekki strax af stað með húsleitir og yfirheyrslur þegar augljós og rökstuddur grunur blasti við öllum (öðrum) um voðaverk sem stórsköðuðu land og þjóð.
Ekki einu sinni fréttir af þessum dularfullu meintu fjársvikum í kringum Stím ehf virðast kalla á viðbrögð. Þvílíkt og annað eins!Ef lögguna vantar kæru til að geta byrjað þá skal ég hjálpa til með þessu opna kærubréfi til efnahagsbrotadeildar Ríkislögreglustjóra og til skattrannsóknarstjóra:
Reykjavík 21. nóvember 2008.
Undirritaður, sem einn eigenda Glitnis, óskar hér með eftir tafarlausri opinberri rannsókn á hlutabréfaviðskiptum Glitnis og Stíms ehf. Miðað við upplýsingar sem fram hafa komið opinberlega liggur borðleggjandi fyrir rökstuddur grunur um brot á hegningar- og skattalögum. óskað er tafarlausrar rannsóknar, þar sem byrjað verður á að tryggja að rannsóknargögnum verði ekki spillt.
Friðrik Þór Guðmundsson.
![]() |
Vantrauststillaga komin fram |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
20.11.2008 | 20:09
Fjölmiðlar og niðurskurður
Afþreying er hvað fjölmiðlarekstur varðar svo gott sem andstæðan við fræðslu og upplýsingagjöf (fréttir). Þegar markaðslögmál eru ríkjandi og það kreppir að, fjölmiðill þarf að draga saman seglin og segja upp fólki, er tilhneigingin sú að spara á sviði fræðslu og frétta (alvarlegum, þungum sviðum) frekar en á sviði afþreyingar.
Við fjölmiðlun er gjarnan talað um information (upplýsingar/fræðsla), infotainment (sambland af upplýsinga- og skemmtanagildi) og entertainment (skemmtanagildi - afþreying). Víða um heim hafa ekki síst sjónvarpsstöðvar með fréttastofur verið að færast æ meir frá klassískum fréttum (information) yfir í blönduna (infotainment) og margir fréttasjúkir kvartað yfir því og þá ekki síst þeir sem telja fjölmiðla og einkum sjónvarpsstöðvar vera virkasta og kannski æskilegasta vettvanginn fyrir beina lýðræðislega umræðu og upplýsingaveitu.
Um þessar mundir ríkir fáokun á íslenska fjölmiðlamarkaðinum, þar er kreppa og þar er verið að skera niður.
![]() |
365 verður Íslensk afþreying |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 22:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
20.11.2008 | 13:38
Davíð beinlínis verður að upplýsa um vitneskju sína
Mér finnst mjög gott til þess að vita að hið minnsta einn maður í samfélaginu, Davíð Oddsson, viti upp á hár af hverju fantarnir Brown og Darling ákváðu að beita hryðjuverkalögunum gegn Íslandi. og ég er afskaplega ánægður með að viðskiptanefnd þingsins hafi ákveðið að kalla Davíð til sín til að "grilla" hann um þessa vitneskju og vænti ég biðja um afrit af öllum gögnum sem staðfesta þá vitneskju.
Það gengur auðvitað ekki að Davíð fari með þessa hálfkveðnu vísu og málið stoppi þar. Miklir hagsmunir eru í húfi, meðal annars vegna væntanlegra dómsmála Íslands og Kaupþings gegn Bretlandi vegna einmitt hryðjuverkalaganna og afleiðinga þeirra. Davíð hlýtur að upplýsa um vitneskju sína - hún annað hvort styrkir eða veikir væntanlega málshöfðun. Hér er ég auðvitað að gera ráð fyrir því að ráðamenn hafi ekki afsalað sér réttinum til málshöfðunar með samkomulaginu um Icesave.
Það er alveg sama hvort vitneskja Davíð komi sér illa fyrir einhvern einstakling eða einhverja. Hagsmunir lands og þjóðar eru hagsmunum einstaklinga ofar.
Viðskiptanefnd þingsins verður líka að ganga fast eftir þessum upplýsingum og ekki leyfa seðlabankastjóranum að komast upp með loðin svör eða frekari hálfkveðnar vísur. Ef viðskiptanefndin spyr almennilega þá getur þessi undirmaður/embættismaður ekki hliðrað sér frá svörum. Ef það sem hann nefnir er háð þagnarskyldu eða annars konar leynd þá var það beinlínis siðlaust af honum að nefna þessar upplýsingar í varnarræðu sinni. Og ekki vill seðlabankastjórinn vera siðlaus er það?
Ekki kemur fram í viðtengdri frétt hvenær Davíð á að mæta fyrir nefndina en ég vona að það verði mjög fljótt, því umræddar upplýsingar eru mjög brýnar landi og þjóð.
Jafnframt er mjög brýnt að land og þjóð fái hið fyrsta nákvæmar útlistanir á áhrifum og afleiðingum skilmála Alþjóða gjaldeyrissjóðsins (IMF) á daglegt líf hér á landi. Mér sýnist ljóst að búið sé að njörva Ísland svo niður að miklu nærtækara sé að tala um fullveldisafsal á þessu sviði en hugsanlegt fullveldisafsal með inngöngu í ESB!
![]() |
Davíð kallaður fyrir þingnefnd |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
18.11.2008 | 10:37
Kveðjuræða Davíðs
Það er augljóst mál að Davíð er (loks) á förum. Þrátt fyrir öll beinu og óbeinu völdin hans er deginum ljósara að "svona tala (embættis)menn ekki" - nema þá helst að þeir hafi engu að tapa. Ég dreg þá ályktun að hann hafi fyrir ræðuna fengið orð í eyra um að honum væri ekki lengur sætt í embætti. Því burt séð frá innihaldinu að öðru leyti þá er þessi ræða augljóst uppgjör manns sem leyfir sér að setja til hliðar þá staðreynd að hann er annars vegar embættismaður en ekki pólitíkus og hins vegar undirmaður (samkvæmt skipuriti!) þeirra sem hann húðskammar.
Eins og með ýmsa aðra pótintáta sér maðurinn ekki nokkra sök hjá sjálfum sér en ýmsa hjá öðrum. Hann skautar framhjá því að 90% landsmanna hafa misst alla tiltrú á hann og vilja hann burt frá kjötkötlunum. Mjög margir sjá í honum allra stærstu sökina á Hruninu - og það er ekki út af neinni lausafjárstöðu bankanna heldur vegna þess samfélagskerfis sem hann bjó til manna mest og lengst. Að því víkur Davíð ekki í ræðu sinni, en hann hefur svosem lengi varað við sumum viðskipta- og bankamönnum. Og hafi Davíð varað ráðamenn við allt frá því í febrúar þá hlýtur hann að hafa skilað því eitthvað einkennilega frá sér, því ella hefði væntanlega verið á hann hlustað.
Fjölmiðlalagakafli kveðjuræðunnar er kapítuli út af fyrir sig, óráðstal manns sem lifir í eigin gallalausa heimi. Fjölmiðlafrumvörpin sem Davíð og Halldór stóðu fyrir voru einfaldlega ekki brúkleg. Stjórnvöld gerðu síðan ekkert með þverpólitíska niðurstöðu fjölmiðlanefndar og hættu bara við allt saman (og þar með Davíð). Þess utan er hvað eignarhald fjölmiðla varðar sú gerbreytta staða uppi núna, að 365 er komið upp í bæli með Árvakri.
Það er skelfilegt að þjóðin þurfi að fá þetta í hausinn á þessum verstu tímum. Að þjóðin þurfi að búa við veruleikafirrtan (aðal)Seðlabankastjóra. Og ríkisstjórn sem leynir eða segir í besta falli hálf-sannleik. Hörmulegt.
Ræðan bendir þó til þess að einn af sökudólgunum sé á útleið.
![]() |
Fjölmiðlar í heljargreipum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
17.11.2008 | 10:47
Drög að umsókn? Já eða nei!
Í viðtengdri Moggafrétt segir: "Utanríkisráðuneyti Íslands hefur þegar lagt drög að umsókn um aðild að Evrópusambandinu í byrjun næsta árs, eftir því sem fram kemur á fréttavefnum euobserver". Fyrirsögn með fréttinni er með spurningamerki, en fréttin fór inn kl. 9:38. Nú klukkutíma seinna hefur enginn sagt af eða á hvort frétt euobserver sé rétt.
Það eru grafalvarlegir hlutir að gerast. Sameinuð ríki Evrópu, önnur ríki og IMF hafa þvingað okkur með ofbeldi til að semja um Icesave reikningana (jú, meðal annars vegna kennitöluflakks og mismununar af okkar hálfu), stjórnvöld vilja ekki segja okkur frá skilmálum IMF fyrir láni og þessi undarlega frétt í Mogga segir að utanríkisráðherra, ef ekki ríkisstjórnin öll, hefur þegar lagt fram umsóknardrög til ESB (reyndar segir bara "lagt", ekki einu sinni "fram", hvað þá "til").
Það verður að greiða úr þessari flækju og það verða fjölmiðlar að gera strax áðan. Morgunblaðið verður að útskýra þessa frétt sína ekki seinna en áðan. Við þurfum að fá að vita um smáatriði Icesave-samninganna og IMF-skilmálanna ekki seinna en í síðustu viku!
Það er morgunljóst að stjórnvöldum er ekki treystandi til að vinna að málefnum Íslands að tjaldabaki. Mér sýnist að ekki sé einasta þörf á utanþingsstjórn, heldur að hún verði skipuð óháðum erlendum sérfræðingum! Bara ekki frá ESB, auðvitað. Suður-Ameríka kemur fyrr upp í hugann. Hugo Chavez er kannski til í slaginn.
![]() |
Drög lögð að umsókn um ESB-aðild? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
14.11.2008 | 11:53
Hversu hár verður reikningurinn?
Auga gefur leið að samkomulag við Breta og Hollendinga getur aðeins falið í sér væna eftirgjöf af stefnunni "við látum ekki kúga okkur" og "við borgum ekki erlendar skuldir óreiðumanna". Það er kannski óhjákvæmilegt, en ég ætla að vona að ekki hafi verið tomma gefin eftir í því að höfða mál gegn Bretum vegna hryðjuverkalaganna hvað óþarft tjón Íslands og Kaupþings varðar.
Það er beinlínis skylda okkar að fara með þessi hryðjuverkalög og brot þeirra á meðalhófsreglunni til alþjóðlegra dómstóla. Ég hef ekkert á móti því að áhættusæknir sparifjáreigendur í Bretlandi og Hollandi fái tilskilið lágmark upp í innistæður sínar og þá fyrst og fremst með sölu á eignum gamla Landsbankans þar í löndum. Ég get auðvitað ekki stutt það, að kröfuhöfum sé mismunað, en gild hagræn rök og neyðar(réttar)ástand á Íslandi, ásamt hryðjuverkalögunum, standa gegn því að ofurbyrði verði lögð á Íslensku þjóðina.
Hvað sem öðru líður þá er lágmarkskrafa að í boðuðu samkomulagi hafi Bretar fengið hið minnsta löðrung, en vonandi fullgilt kjaftshögg. Ef málið er á hinn veginn þá mun samkomulagið ekki boða gott fyrir ríkisstjórn Geirs Haarde.
![]() |
Ríkisstjórnin boðar blaðamannafund |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |