Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál
31.12.2008 | 16:56
Það átti að færa Kryddsíldina - það á að stokka upp
Eins reiður og ég er vegna Hrunsins og sammála almennum mótmælum þá hlýt ég að fordæma eyðileggingaþörfina sem þarna birtist. Að því sögðu verð ég að harma að Stöðvar tvö fólk hafi ekki séð hættuna fyrir og ákveðið að flytja Kryddsíldina burt frá Hótel Borg og Austurvelli.
Ég held að þetta flokkist ekkert undir að vera vitur eftir á hjá mér - ef vitað er að aðgerðir myndu standa yfir á þessum stað og þessum tíma. Mig grunar raunar að Stöðvar tvö fólk hafi ekkert haft á móti því að mótmælaaðgerðir myndu "krydda" Kryddsíldina, en þá er það fólk samsekt stjórnvöldum um að hafa vanmetið reiðina sem í gangi er hjá þeim róttækustu.
En auðvitað eiga stjórnvöldin mestu sökina á því hversu reitt fólk er. Þau hafa algjörlega misst allt samband við venjulegt fólk og halda að fólkið sé sátt við það sem þau gera. Sem er af og frá. Hjá fólki er mjög vel rökstuddur grunur um að allar "björgunaraðgerðir" miðist við að púkka undir útvalda en láta "óbreytta" fá reikninginn. Það er ímyndin og ekkert bendir til þess að hún sé röng.
Hitt er annað mál að reiði almennings hefur ekki, enn hið minnsta, fengið boðlegar og lýðræðislegar útrásarleiðir. Slíkt ýtir undir óánægju. Ef fram væru að koma "alvöru" nýir pólitískir valkostir og/eða að uppstokkun væri að eiga sér stað í "gömlu" flokkunum væri ástandið strax betra. En svo er ekki.
![]() |
Fólk slasað eftir mótmæli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 16:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (63)
21.12.2008 | 13:00
Leggjum (geð)sjúklingaskatt á auðjöfrana!
Það er sunnudagur, messutími og mál að predika.
Ríkisstjórn sem sker niður velferðarkerfi alþýðunnar og leggur viðbótarskatt á venjulegt fólk, en sleppir því að leggja á auðuga fólkið hátekjuskatt (og kallar hann bara "táknrænan"), sleppir því að leggja á auðuga fólkið stóreignaskatt og sleppir því að leggja á auðuga fólkið sérstakan fjármagnstekjuskatt, er ekki ríkisstjórnin mín. Svo mikið er víst.
Ríkisstjórn sem, vissulega af illri nauðsyn, sker niður framlög til velferðarkerfisins, ekki síst til aldraðra og öryrkja, og leggur á alþýðuna nýjan sjúklingaskatt, en dregur lappirnar við rannsókn á Hruninu og orsökum þess og hverjir báru þar ábyrgð og er of "kurteis" við auðjöfra landsins til að frysta eigur þeirra sem eru röklega grunaðir um að skaða þjóðina, er ekki ríkisstjórnin mín. Langt í frá.
En þá er það hin hliðin; Þjóð, sem ekki er undir núverandi kringumstæðum búin að segja "gömlu" stjórnmálaflokkurunum upp og stríð á hendur, og nú þegar búin að stofna til nýrra stjórnmálaeininga - er kannski ekki viðbjargandi. Fussar núna en kýs gamla stóðið í næstu kosningum. Því miður.
Heldur áfram að kaupa í Hagkaup og öðrum dýrari verslunum Baugsveldisins (1) í stað þess að loka þeim dyrum. Einmitt núna fyrir jólin.
Það er kannski rétt að minna fólk á að þegar það fer og verslar í Hagkaup og öðrum dýrari verslunum Baugsveldisins þá er það ekki bara að leggja blessun sína á snekkju- og einkaþotuliðið í Baugi, heldur að borga fyrir lúxusveislur þess. Predikun lokið.
(1) Þarna stóð Bónus, en við nánari umhugsun er kannski réttara að refsa Baugi annars staðar en í ódýrustu verslunum einokunarveldisins (2).
(2) Þessu var ekki breytt vegna ritskoðunar á vegum Baugsmanna!
![]() |
Sendaherrabústaðir verði seldir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 23:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
19.12.2008 | 10:56
Mark "Deep throat" Felt kvaddur
Merkilegur einstaklingur er látinn. Mark Felt var embættis- og stjórnmálamaður sem unni heitar rétti og hag almennings en rétt og hag spilltra stjórnmálamanna og athafnamanna.
Gagnvart gjörspilltum yfirmönnum sínum í pólitíkinni og fjármögnurum þeirra tók hann afstöðu með Jóni og Gunnu og hjálpaði blaðamönnunum Woodward og Bernstein hjá fjölmiðlinum Washington Post að fletta ofan af spillingu og leynimakki Nixons og kóna hans. Tryggði hið nauðsynlega lýðræðislega aðhald, sem ekki fékkst samkvæmt venjulegum rásum.
Bless, Felt.
Hvar eru "Feltar" Íslands? Hvar eru þeir sem þykir meira virði hagur almennings en hagur spilltra stjórnmála-, embættis- og athafnamanna - og koma mikilsverðum upplýsingum til trúverðugra blaða- og fréttamanna?
![]() |
Deep Throat" látinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
18.12.2008 | 13:52
Hvar á að skera 100 milljarða til viðbótar?
Er ekki dásamlegt að vera undir handleiðslu IMF og fá hingað "tilsjónarmann" þaðan? Hreint og beint yndislegt. Og þessir góðu yfirmenn okkar leyfa okkur að reka ríkissjóð með, hva, 150 milljarða króna halla. Sem betur fer höfum við svo frjálslynda yfirmenn.
Í alvöru talað - um fjárlögin; nú höfum við upplifað viðbrögð við þeim niðurskurði sem þó hefur verið ákveðinn. Hann er auðvitað vondur; velferðin skert, aldraðir og öryrkjar sviknir, nýr sjúklingaskattur lagður á, bændur skertir, framkvæmdum frestað o.s.frv.
Sumir segja að það sé alrangt að skila frá sér fjárlögum með halla og telja að það eigi að skera niður um 100 milljarða TIL VIÐBÓTAR. Jón Magnússon, þingmaður Frjálslyndra, sagði beint út á þingi að það ætti að skera niður um 100 milljarða í viðbót en hafnaði auknum skatttekjum upp í þá upphæð. Ég beið spenntur eftir tillögum hans um þessa 100 milljarða. Hann nefndi niðurskurð á fæðingarorlofssjóði og afnám sjómannaafsláttar.
Kannski eru þetta valkostirnir: Demba öllum vandanum yfir á núverandi kynslóðir í stað þess að dreifa honum og láta komandi kynslóðir taka þátt í honum. Það myndi þýða að VIÐ þyrftum að fara nokkurn veginn niður að hungursneyðarmörkum. Hvar á að taka 100 milljarðana (umfram það sem þegar hefur verið boðað)? Eigum við að afnema öll ríkisútgjöld til trúmála? Það eru ekki nema 5 milljarðar eða svo. Eigum við að loka spítölum og skólum? Leggja varðskipum, loka fangelsum, hætta að borga atvinnuleysisbætur og fæðingarorlof, afnema öll framlög til menningar og íþrótta, leggja niður Umboðsmenn barna og Alþingis, loka Sinfóníuhljómsveitinni?
Poul Thomsen, yfirmaður sendinefndar IMF, sagði á fundi með blaðamönnum í utanríkisráðuneytinu í dag að aðal viðfangsefni núna væri að fást við fjárlögin. Visir.is: "Thomsen segir að niðurskurður í núverandi fjárlögum sé hóflegur, en fyrir 2010 verði hann mun meiri".
Hafa menn tillögur - eða sætta menn sig við halla-fjárlög?
![]() |
Áætlunin gengur vel |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 13:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
17.12.2008 | 17:24
Pöntunarfélag alþýðu
Ekki veit ég hvort Jón Gerald Sullenberger sé rétti maðurinn til að ganga fram sem frelsandi engill, vera andlit mótmæla og stofna til lágvöruverslana á Íslandi. Jafnvel þótt hann hafi á einhverjum tímapunkti ákveðið að taka ekki þátt í misjafnlega löglegum gjörningum Baugs-manna og veislum á Thee Viking snekkjunni, þá gleymist það mér ekki að hann var fram að þeim tímapunkti fullur þátttakandi.
Ég myndi frekar vilja sjá almenning á Íslandi (alþýðuna) taka saman höndum. Fyrirfáeinum árum var lágvöruverslun að pakka saman og fara frá Höfn í Hornafirði og ég spurði Jón bróðir minn þar af hverju fólkið stofnaði ekki bara pöntunarfélag? Eins og í gamla daga, þegar verkalýðurinn brást við okurstarfsemi kaupmanna?
Ég spyr að hinu sama nú, fyrir landið allt. Gefum þessum kaupmönnum langt nef og stofnum pöntunarfélag. Nóg er af húsnæði undir lagera og einfalt skrifstofuhald. Gerum þetta sjálf í staðinn fyrir að treysta á Bónus og Jón Gerald.
![]() |
Jón Gerald mótmælir í Landsbanka |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
7.12.2008 | 19:48
ALLT fer undir teppið og við borgum ALLT
Því meir sem tíminn líður til einskis, því meir sem menn í ábyrgðarstöðum sverja af sér ábyrgð, þeim mun sannfærðari verð ég að sekir menn muni sleppa, að verðmæti okkar fari í súginn og að það verði setta á axlir alþýðu landsins í núverandi og komandi kynslóðum að borga - að axla ábyrgðina!
Hvarvetna finnst mér blasa við að þetta verði lexía málsins. Ráðagerðir um hvítbók, um sérstakan saksóknara, um rannsóknir á hinu og þessu - allt kemur þetta allt of seint til framkvæmda. "Útrásarvíkingarnir" munu sleppa og hafa haft nægan tíma til að fiffa með eignir og skuldir. Pólitískir ráðamenn sleppa við að axla ábyrgð. Ráðherrar þessarar og síðustu ríkisstjórna munu sleppa við ábyrgðina. Bankastjórn og bankaráð Seðlabankans munu sleppa. Stjórnendur og yfirstjórn Fjármálaeftirlitsins munu sleppa. Ekkert af þessu liði fær nema í mesta lagi áminningu. Enginn mun tapa pening og æru nema Jón og Gunna.
Engu mun skipta þótt fjölmiðlar geri sitt besta við að bæta upp fyrir sofandaháttinn undanfarinna ára. Harðar fréttir fjölmiðla virðast enda ekki hreyfa við sekum og ábyrgum aðilum hið minnsta.
Að þessum svartsýnu orðum sögðum held ég í jólabloggpásu!
2.12.2008 | 23:29
Þingmenn um fjölmiðla - fjölmiðlar um þingmenn
Nú auglýsir Skjár Einn að framundan sé þátturinn Málefnið. Í Málefninu á að fjalla um "framtíð Íslenskra fjölmiðla". Umsjónarmenn þessa dagskrárgerðar í fjölmiðlinum Skjá Einum um fjölmiðla eru tveir kjörnir þingmenn þjóðarinnar, sem þiggja laun fyrir löggjafarstörf, Illugi Gunnarsson, kjörinn þingmaður af lista Sjálfstæðisflokksins og Katrín Jakobsdóttir, kjörinn þingmaður af lista Vinstri grænna.
Það veitir ekki af umfjöllun um framtíð íslenskra fjölmiðla. Sjálfsagt eru þau ekki verst til þess fallin, lögfræðingurinn og þingmaðurinn Illugi og bókmenntafræðingurinn og þingmaðurinn Katrín. Og sjálfsagt má finna að því að hefðbundnir fjölmiðlamenn annist dagskrárgerð um framtíð íslenskra fjölmiðla. Einhvern veginn finnst mér það nú samt eins og þarna eigi blindur að leiða haltan. Hafa þingmenn ekki annars nóg að gera þótt þeir taki ekki dagskrárgerð af fólki sem vantar verkefni? Eru aðstoðarmenn þessara þingmanna kannski að sinna þingstörfunum sjálfum?
Það er gott að það eigi að fjalla um framtíð íslenskra fjölmiðla
Ég legg til að í næsta þætti fjalli tveir fjölmiðlamenn, blaða- og fréttamenn, um framtíð íslenskra stjórnmála. Það er líka ákaflega verðugt verkefni um atvinnugrein og fag sem eru í djúpri kreppu þessi misserin. Annar ofangreindra þingmanna væri kjörinn til að svara krefjandi spurningum um stjórn íslenska ríkisins síðustu tvo áratugina eða svo. Um hrikalega útkomu flokks hans í skoðanakönnunum (sem mætti útleggja sem "stórkostlegt rekstrartap"). Um lexíuna af nýfrjálshyggjunni og einkavinavæðingunni o.s.frv. Og auðvitað um þann skaða sem íslensk stjórnmál hafa orðið fyrir.
2.12.2008 | 19:40
100% hækkun Bílastæðasjóðs
Fékk um daginn bréf. Var ekki gluggapóstur en hefði allt eins getað verið það. Bréfið var augljóslega skrifað af manneskju (í stofnun) sem ekki er í sambandi við raunveruleikann. Manneskjan var að boða 100% hækkun á sinni "þjónustu".
Manneskjan að baki skrifunum ritaði fyrir hönd Bílastæðasjóðs Reykjavíkurborgar. Ég á heima á B-svæði bílastæða og í bréfinu kom fram að ekki einasta minnkar svæðið sem ég hef rétt til, heldur myndi árgjaldið hækka úr 3.000 krónum í 6.000 krónur. Ég hef nú um skeið beðið þess að málið kæmi upp í fréttum en án árangurs.
Bílastæðasjóður er á ábyrgð borgarinnar og þar er Sjálfstæðisflokkurinn við stjórnvölinn. Getur einhver góðhjörtuð sál reynt að hafa vit fyrir þessu fólki og segja því að eitthvað hljóti að vera bogið við 100% hækkun á þjónustu nú á þessum vondu tímum fyrir fólk og buddur?
1.12.2008 | 15:00
Baráttukveðjur til RÚV-ara
Ég sendi starfsmönnum RÚV hér með mínar heitustu baráttukveðjur vegna enn einnar uppsagnahrinunnar. Mér sýnist ljóst að allt of langt hafi að undanförnu verið gengið við niðurskurð og sparnað og að það muni verulega skerða getu fjölmiðilsins til að ástunda frétta- og dagskrárgerð. Einmitt þegar við þurfum hvað mest á öflugum fréttum og fréttatengdu efni að halda.
Ég nefni þetta með í huga að ekki er um einangraða uppsagnahrinu að ræða, heldur hafa niðurskurðar- og sparnaðaraðgerðir staðið yfir allt frá því fyrir ohf-væðingu. Mjög margir reyndir frétta- og dagskrárgerðarmenn eru horfnir af vettvangi og ljóst að fækkunin nú gerir það enn erfiðara en áður að standa undir væntingum um öfluga, sjálfstæða og óháða upplýsingagjöf til almennings. Þess utan hanga yfir höfðum manna óljós orð um frekari aðgerðir og undir þeim kringumstæðum liggur eins og mara á starfsfólkinu óttinn um atvinnuöryggið og þar með leggst á fólkið af vaxandi þunga sjálfsritskoðun og meðvirkni.
Þetta er afleitt ástand. Þótt við því sé að búast að RÚV þurfi að mæta versnandi árferði þá hygg ég að aðgerðir séu komnar langt upp fyrir það sem eðlilegt getur talist miðað við lögbundið hlutverk þessa fjölmiðils í almannaeigu. Tal um afnám afnotagjalds og brotthvarf RÚV af auglýsingamarkaði leggur þeim mun meiri skyldur á herðar stjórnvalda um að tryggja fjölmiðlinum í almannaeigu næg fjárframlög til sómasamlegs rekstrar.
![]() |
Starfsmenn Rúv boða til funda |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
28.11.2008 | 20:35
Fjölmiðlar í ólgusjó
Ég var búinn að nefna það að ástandið á fjölmiðlamarkaðinum ætti eftir að versna, en manni verður nú samt um og ó þegar verstu spár virðast ætla að rætast. "24 stundir" blaðið er horfið, Fréttablaðið að renna inn í Árvakur, Mogginn að riða til falls, starfsfólk Viðskiptablaðsins að reyna að taka við blaðinu af Bakka(varar)bræðrum og RÚV að segja upp fjölda frétta- og dagskrárgerðarmönnum.
Mér sýnist enda vonlítið að blaða- og fréttamenn geti almennilega staðið við heitstrengingar um ný og betri vinnubrögð eftir sofandahátt og meðvirkni síðustu ára. Þeir fyllast sennilega enn frekar en fyrr af ótta um atvinnu sína og af sjálfsritskoðun.
Þetta er afleit þróun.
![]() |
Unnið að fjárhagslegri endurskipulagningu Árvakurs |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 20:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)