Fjölbýlishúsið og stigagangurinn

Mig langar hér og nú til að rifja upp færslu mína frá því á síðasta ári, sem ég skrifaði sem "paródíufrétt" um átök í fjölbýlishúsi, eftir að stigagangurinn og aðrar sameignir höfðu verið "einkavæddar". Auðjöfurinn sem keypti sameignirnar er nú með allt niður um sig og tímabært að íbúar fjölbýlishússins endurheimti sínar gömlu eignir.

Færslan/Paródíufréttin var svona:

"Það brutust út slagsmál í stigagangi fjölbýlishúss á dögunum. Það kom upp mjög alvarlegur ágreiningur um sameign hússins. Stjórn húsfélagsins hafði öllum að óvörum selt sameignina.

Íbúar fjölbýlishússins fengu, hver í sinni séreign hússins, tilkynningu frá formanni húsfélagsins að stjórnin hefði ákveðið að selja einum íbúðareigendanna, auðmanninum í penthousinu, allar sameignir fjölbýlishússins. Stigagangana, tröppurnar, þvottahúsið, hjólageymsluna og svo framvegis. Hér eftir væru umferð og athafnir á þessum hlutum fasteignarinnar bönnuð nema með leyfi nýja eigandans, svo sem að komast til íbúða sinna. Tekið yrði sérstakt gjald fyrir að hýsa póstkassa og geyma hjól. Í kjölfarið heyrðust sögur af miklum plönum nýja eigandans með fyrrum sameignina; hann ætlaði að efna þar til ýmiss konar verslunar og þjónustu - og skemmtihalds fram á rauða nótt.

Einnig heyrðust fréttir af því að auðmaðurinn í penthousinu, nýi "sameignar"eigandinn, ætti í viðræðum við fjársterkan aðila í næstu blokk um að kaupa af sér téðan stigagang - með góðum söluhagnaði auðvitað. Sem gefur augaleið; hann fékk jú eignina frá stjórn húsfélagsins á afar, afar, afar góðu verði.

Þegar þetta heyrðist gerðu íbúar fjölbýlishússins loks vart við sig, þeir stormuðu stigagangana (borguðu auðvitað nýja eigandanum umferðartoll), drógu formann húsfélagsins fram og börðu hann. Sem að vísu breytti engu. Formaðurinn fékk glóðarauga, en hló alla leið til bankans".

http://lillo.blog.is/blog/lillo/entry/149671

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún Þóra Hjaltadóttir

Ég fatta ekki hvernig þetta er hægt. Ég hélt að íbúar hefðu aðgegni að íbúð sinni án þess að þurfa að greiða fyrir það. Ekki er nú öll vitleysan eins.

Guðrún Þóra Hjaltadóttir, 14.10.2008 kl. 12:34

2 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Altso, það er von að þú hváir Guðrún Þóra. En umrædd slagsmál í fjölbýlishúsi er/var ekki alvöru frétt, heldur hæðnis-grín. Næsta skref er að þú hugsir: Hvernig var hægt að sleppa einkavinavæðingunni svona eftirlitslaust úr böndunum.

Bankar og aðrar sameignir voru seldar einkavinum fyrir slikk. Nú fá íbúar fjölbýlishússins (Íslands) eignir sínar aftur en sjálfsagt líka kostnaðinn sem einkavinirnir skilja eftir sig.

Friðrik Þór Guðmundsson, 14.10.2008 kl. 12:45

3 Smámynd: Elías Halldór Ágústsson

Fullt af fólki hefur í alvöru talað um að selja Gvendarbrunnana og einkavæða gatnakerfið.

Lausnin á vandamáli fjölbýlishússins er að breyta blokkaríbúðinni í helli með aðstoð sleggju og kaðalstiga.

Elías Halldór Ágústsson, 14.10.2008 kl. 13:17

4 Smámynd: Guðrún Þóra Hjaltadóttir

Það er rétt hjá þér Friðrik, þessi einkavinavæðing er gjörsamlega glórulaus. Ég fatta ekki hugsun "sjálfstæðimanna" með allri einkavinavæðingunni. Kvótinn var nú eitt sem þeir komu í hendur valinna manna.

Guðrún Þóra Hjaltadóttir, 14.10.2008 kl. 14:34

5 Smámynd: Lísa Björk Ingólfsdóttir

Er ekki kvótinn fallinn að mestu aftur í hendur ríkissins þar sem hann var veðsettur í bönkum "sameignareiganda".  Það má þá kannski fara að gefa hann aftur?  Tja - nema almenningur ákveði að það sé kominn tími til að skipta um ríkisstjórn.

Lísa Björk Ingólfsdóttir, 14.10.2008 kl. 16:45

6 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Fyrr frýs í helvíti en að ráðandi öfl láti fólkið í landinu fá fiskinn sinn aftur. Sorrý.

Friðrik Þór Guðmundsson, 14.10.2008 kl. 17:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband