Færsluflokkur: Spaugilegt

Næturhjal

 

Þú sagðir víst að nóttin væri

vindasöm og hrein.

“Úr afkimunum þyrlast þá

þjóðar sálar mein.”

 

Þú sagðir og að óravíddir

öllum blöstu við.

“Er þó allt svo nándar nærri,

því nóttin er upphafið.”

 

Ég sagði við þig ,,Nótt er nótt

með niðaskugga,

og gífurtal um gæðin þá

er gömul tugga.”

 

“Ekki máttu,” mæltir þú,

“mátt og hug þinn skorða,

af tilviljun ég svona tók

táknum prýtt til orða.”

 

Ég sagði þér að slaka á.

“Senn nú fer að rofa

og fíflin ein á fótum enn.”

                                                       Þá fórstu loks að sofa.

 


Aumingjarnir og nekt þeirra

Að vera góður við aumingja, kallar hann það, sjálfstæðismaðurinn í stól stjórnarformanns opinbera fyrirtækisins Neyðarlínunnar (112), sem lét fyrirtækið og þar með almenning styrkja Flokkinn hans.

Hvað ætli Ásgeir í Goldfinger hafi hugsað þegar hann lét nektardansstaðafyrirtækið Baltik styrkja sama Sjálfstæðisflokkinn um 300 þúsund króna hámarkið? Vera góður við aumingja? Vera góður við greiðvikna? 

Af einhverjum ástæðum sé ég fyrir mér nakta keisara...


mbl.is Enginn sóttist eftir styrk nema Sjálfstæðisflokkurinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Blindfull frétt um brennivín

Svona frétt, sem mbl.is býður hér upp á, er allt of algeng; stirðbusalegt og illskiljanlegt stofnanamál skrifræðismanna í ráðuneytum tekið hrátt upp og birt. Fréttin um meginefnið skilar sér alls ekki til meginþorra almennings. Fréttamaðurinn klikkaði enda illilega á þjónustuhlutverki sínu við lesendur - þú ættir að huga að þessu, Ólafur.

"... er ákvæðum reglugerðarinnar um álagningu stofnunarinnar á áfengi og tóbaki breytt til samræmis við þær breytingar sem gerðar voru á lögum um verslun með áfengi og tóbak, á síðastliðnu haustþingi". Hu? A, hva?

"Samkvæmt lögunum skal álagning Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins á áfengi með 22% eða lægra hlutfall af vínanda að rúmmáli vera 18% en álagning áfengis með meira en 22% hlutfall af vínanda að rúmmáli skal vera 12%".  Eh? Prósent hvað? Er lesandinn fullur eða sá sem "skrifaði" fréttina - eða bara skrifræðissinninn?

Er brennivín að hækka eða lækka? Yfir línuna eða hvað? En tóbak? Halló?!


mbl.is Breytingar hjá ÁTVR
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hallarbylting helmingaskiptaflokkanna?

Hvernig líst þjóðinni á þann möguleika, sem nú er verið að hvísla um á göngum Alþingis, að eftir að Jón Magnússon yfirgaf Frjálslynda flokkinn og gekk heim til liðs við Sjálfstæðisflokkinn hafi myndast möguleiki á því að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn myndi nýja helmingaskiptastjórn? Fréttablaðið segist hafa heimildir fyrir þessu (sjá hér).

"Fréttablaðið hefur heimildir fyrir því að rætt sé um það innan þinghússins að staðan hafi breyst við vistaskipti Jóns. Allt í einu hafi sá möguleiki orðið raunhæfur að flokkarnir tveir tækju upp fyrra samstarf. Stjórnarþingmaður sem ekki vildi láta nafns síns getið segir allt hafa breyst þegar Jón gekk í Sjálfstæðisflokkinn. Síðan þá hafi Framsókn stoppað allt og stjórnin verið illa starfhæf".

Samkvæmt þessu virðast sum öfl innan þessara syndum hlöðnu flokka vilja grípa til samskonar úrræða og í Ráðhúsi Reykjavíkur; bara taka völdin með illu og þá valdanna vegna. Í borginni var Ólafur F. Magnússon dreginn fram, en þegar hann var ekki nógu góður þá var Óskar Bergsson dreginn fram. Getur hugsast að Framsóknarflokkurinn sé tilbúinn til að ana út á foraðið með Sjálfstæðisflokknum í þágu torkennilegra hagsmuna, þvert á fyrri orð um að verja núverandi starfsstjórn framyfir kosningar?

Að flokkarnir sem eiga allra mestu sökina á hruninu fallist í faðma á ný, taki völdin og taki upp á ný gamalkunn vinnubrögð við helmingaskiptin? Ráðstafa bönkum og embættum, svo dæmi séu tekin?

Púkinn í mér vonar að þeir leggi í þessa hallarbyltingu. Engillinn í mér tuðar eitthvað um að það væri ekki þjóðinni fyrir bestu.


mbl.is Ekki rætt um Seðlabanka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég vil fyrsta sætið

Ég hef ákveðið að bjóða mig fram í fyrsta sætið í Reykjavíkurkjördæmi norður.

Gallinn er sá að ég finn ekki flokk við mitt hæfi.

Líklega verð ég því að draga framboð mitt til baka.


Hrikalegar innanflokkserjur!

Ef rétt er með farið hjá Árna Johnsen - og hefur hann orð pólsks stólpípusérfræðings fyrir því - þá hefur einhver pólitískur andstæðingurinn ástundað það að eitra fyrir honum.

Það gefur augaleið að sá pólitíski andstæðingur hlýtur þá að vera innan hans eigin flokks, þar sem hann er einangraður, ekki vel liðinn og virk fráfæling á atkvæði.

Pólitískir andstæðingar hans úr öðrum flokkum vilja honum vitaskuld ekki svo illt. Þeir vilja hann hressan og yfirlýsingaglaðan í toppslag hjá Sjálfstæðisflokknum, helst leiða lista þeirra. Ég er að tala um "motive" eins og sagt er í lögguþáttunum. Enginn hinna flokkanna "græðir" á forföllum Árna Johnsen. Bara Sjálfstæðisflokkurinn!

Reyndar er möguleiki að þetta tengist ekki pólitík. Kannski samkynhneigðir að verki eða fyrrum samfangar mannsins?

Rétt er líka að minnast á annan læknisfræðilegan möguleika, sem gæti hafa farið framhjá erlendum stólpípusérfræðingi. Að þetta sé sjálfsofnæmi. 

Ég óska Árna svo sannarlega bót meina sinna. Í alvöru talað. Vil hafa hann hressan og yfirlýsingaglaðan slást um og fá fyrsta sætið í Suðurkjördæmi.


mbl.is DV: Eitrað fyrir Árna Johnsen
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stórfengleg fyrirsögn og bráðfyndin leiðrétting

Í gær mátti sjá í Morgunblaðinu hreint út sagt kostulega og tvíræða fyrirsögn - "Enn einn í formannsslag" að mig minnir. Í dag á bls. 9 leiðréttir Mogginn síðan viðkomandi frétt og hef ég sjaldan skemmt mér eins mikið yfir lestri dagblaðs, allavega undanfarið, í öllum hremmingunum.

Líkingamálið í ofangreindri fyrirsögn er auðvitað hárbeitt. Í fréttinni var sagt frá því að ekki hefðu enn aðrir en Bjarni Benediktsson tilkynnt um framboð í formannsembættið hjá Sjálfstæðisflokknum. Orðalagið á fyrirsögninni er lúmskt: Vísar ekki bara til þess að enn sé Bjarni einn um hituna, heldur vísar hún líka til tengsla Bjarna við fyrirtækið N1 - að fulltrúi olíufyrirtækisins sé í framboði.

En leiðréttingin í dag eyðileggur fréttina og þar með fyrirsögnina. Þar er greint frá því, sem farið hefur framhjá blaðamanni Moggans, að Bjarni er ekki einn um að hafa tilkynnt framboð. Maður að nafni Jóhannes Birgir Jensson hefur líka tilkynnt framboð. Hver í ósköpunum er það? Von að spurt sé.

Þetta segir Wikipedia: "Jóhannes Birgir Jensson (fæddur 14. ágúst 1975) er íslenskur tölvunarfræðingur sem hefur beitt sér fyrir aukningu íslensks efnis á Project Gutenberg og haft umsjón með fjölmörgum ritum sem hafa birst þar eða eru í vinnslu hjá Distributed Proofreaders. Hann er jafnframt annar tveggja stofnenda World Football Organization, samtaka sem hafa byggt upp gagnagrunn yfir knattspyrnu um heim allan. World Football Organization er skráð bæði í Michigan í Bandaríkjunum og á Íslandi".

Þegar Jóhannes tilkynnti framboð sagði hann meðal annars: "Orðstír Íslands er nú í molum erlendis, ákvarðanir sem formaðurinn kom að vega þar þungt, handvöldum mönnum voru látnir bankarnir í té fyrir lítið fé og því næst var almenningur gerður að ábyrgðarmanni þeirra einkaaðila sem fóru á lánafyllerí. Víxillinn er fallinn og bök Íslendinga eru nú við það að brotna".  (Sjá hér)

Það er því ljóst að það stefnir í spennandi formannskosningu.


Áfall fyrir konur!

Það eru skuggalegar lýsingar sem þeir Hilmar Ragnarsson og Þórhallur Örn Guðlaugsson, fyrrum stjórnarmenn í Tali, viðhafa um viðskiptasiðferðið í Teymi, meirihlutaeiganda símafyrirtækisins Tals. Svo virðist sem forráðamenn Teymis hafi verið að slá Íslandsmet í viðskiptasóðaskap - og eins og menn vita kalla viðskiptamenn Íslands ekki allt ömmu sína þessi misserin.

Hilmar og Þórhallur Örn hafa bara aldrei upplifað annað eins á sinni samanlögðu 50 ára viðskiptavegferð. Það vantar reyndar nánari lýsingu á þessum viðskiptasóðaskap og því verður maður bara að ímynda sér alls kyns subbugang - og verður flökurt af, því "útrásarvíkingarnir" og bankamógúlarnir hafa ekki beint verið penir í sínum vinnubrögðum, en komast samkvæmt þessu vart með tærnar þar sem Teymis-subburnar hafa hælana.

Eins og þetta sé ekki nógu slæmt þá er hitt verra, að stjórnarformaður subbunnar Teymis er kona. Æðsti stefnumótandi sóðaskaparins er kvenkyns. Í fararbroddi ósómans eru kvenleg gildi.

Þetta er áfall. Fram að þessu hef ég einlæglega trúað því að aukin framganga kvenna í stjórnmálum og viðskiptum myndi örugglega draga úr spillingu á Íslandi. Konur hljóta að vera í öngum sínum!


mbl.is „Aldrei kynnst eins miklum viðskiptasóðaskap"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einelti Baugsmiðla ríður ekki við einteyming

Davíð Oddsson.Það verður ekki skafið af Baugsmiðlum að einelti þeirra í garð Davíðs Oddssonar er ákaflega einbeitt og skipulögð. Nú hefur Baugsmiðillinn tímaritið Time sett Davíð á lista "yfir 25 einstaklinga sem eiga sök á fjármálakreppunni".

Hvernig dettur Baugsmiðlinum og kommúnistamálgagninu Time í hug að gera þennan óskunda? Er ritstjórn tímaritsins Time ekki búin að lesa grein Halls Hallssonar í Mogganum í dag? Hlustaði ritstjórn tímaritsins Time ekki á skeleggan málflutning Sveins Anda Sveinssonar í Kastljósinu í gær?

Er ekki hægt að koma vitinu fyrir svona siðlausa og hlutdræga blaða- og fréttamenn? Ég bara spyr!


mbl.is Davíð Oddsson á vafasömum lista
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ofdekraður auðmaður frá síðustu öld

Kjartan Gunnarsson.Það er kannski ástæða til að bjóða Kjartan Gunnarsson fyrrum framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins velkominn í 21. öldina? Hann segir: „Í stjórnmálaumræðum tuttugustu aldarinnar hafði hugtakið „hreinsanir“ ávallt skýra og afmarkaða merkingu sem enginn heiðvirður maður vill láta kenna sig við". Það er rétt að undirstrika við Kjartan að HANS HUGARHEIMUR er ekki lengur við líði.

Ég neita að leyfa helbláum "komma"höturum að eigna sér einkaskilgreiningu á orðinu "hreinsanir" og ætla öðrum að notast við hana og enga aðra. 

Orðið "hreinsanir" var vissulega misnotað á 20. öldinni, þegar bæði kommúistar í austri og hægriöfgamenn í vestri stóðu að pólitískum "hreinsunum" - og viðmiðunin var oftar en ekki pólitískur og persónulegur geðþótti.

Þegar í dag er á Íslandi talað um "hreinsanir" í stofnunum er átt við að skipta út óhæfum og vanhæfum einstaklingum, sem eiga stóran hlut í því að hafa komið þjóðinni á kaldan klaka og skellt hafa framtíðarkynslóðum okkar í ömurlegan skuldaklafa. Skipta út mönnum sem ekki njóta trausts og eiga sannarlega að vera gera eitthvað annað. Eiga ekki lengur að starfa fyrir þessa þjóð í ábyrgðarmiklum embættum.

Kjartan Gunnarsson, ofdekraður auðmaður, stjórnarmaður í Landsbanka Björgólfanna, ætti að koma sér í 21. öldina hið bráðasta.


mbl.is Pólitískar hreinsanir og ofsóknir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband