1.9.2008 | 13:10
(Fyrrum) ritstjóri í valdsmannslegum vanda
Það er ekki gott að vera Matti Joh í dag. Þessi fyrrum Moggaritstjóri er að birta gamlar dagbækur sínar á Netinu og þær virðast uppfullar af misáreiðanlegu slúðri. Og sýna ekki fyrst og fremst daglegt amstur ritstjóra heldur plottfundi og samtöl valdsmanns í samfélaginu. Meðal annars upplýsir Matti að Geir Hallgrímsson heitinn fyrrum forsætisráðherra hafi viljað gera Styrmir Gunnarsson Moggaritstjóra að formanni Sjálfstæðisflokksins!
Aftur á móti fjallar viðhengd frétt um ömurlega útreið Matta vegna dagbókarskrifa hans um Guðjón Friðriksson, þar sem Matti virðist hafa tileinkað sér einhverja slúðurkenningu um að Guðjón hafi farið illa með nemanda sem skrifaði ritgerð um Matta og ljóðin hans. Frásögn Matta virðist vera uppspuni frá rótum og Matti trúað því of auðveldlega að Guðjón hafi verið að "dissa" hann og ljóðin hans. Viðkomandi (fyrrum) nemandi getur ekkert staðfest af því sem Matti skrifaði og Guðjón virðist hvergi hafa komið nærri málum. Guðjón var hafður fyrir rangri sök.
En Guðjón gerir ólíkt Matta ekki of mikið úr sjálfum sér og "sættist" við fyrrum ritstjórans með því að fá að skrifa athugasemd við dagbókarfærsluna, raunar eftir að Matti baðst afsökunar. Kannski er það besta lausnin, nú þegar fyrir liggur og fólk veit að dagbókarfærslunum þarf að taka með fyrirvara.
Eðlilega kemur til umræðu hvort Matti hafi með þessari og fleiri birtum dagbókarfærslum sínum gengið í berhögg við siðareglur blaðamanna. Það er hægt að færa gild rök fyrir því að svo sé. Hins vegar sýnist mér vandséður tilgangurinn með því að láta á það reyna frammi fyrir siðanefnd. Aftur á móti eru fengin ágæt skólabókardæmi í þessu og fleiri dagbókartilvikum Matta Joh um áreiðanleika, traust og trúnað.
Matthías Johannessen: Málið er úr sögunni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Fjölmiðlar, Menning og listir, Vísindi og fræði | Facebook
Athugasemdir
Samkvæmt þessu bloggi (http://gislibal.blog.is/blog/gislibal/) hefur fremur verið farið mannavilt en að um uppspuna frá rótum sé að ræða, eins og þú segir.
Ágúst Ásgeirsson, 1.9.2008 kl. 13:48
Já, sjálfsagt hefur eitthvað svona átt sér stað einhvers staðar. En það virðist uppspuni frá rótum að um Guðjón hafi verið að ræða og það er einmitt málið. Ef kennari gerir svona þá er það vont, en verra ef saklaus maður er bendlaður við hina vondu gjörð.
Friðrik Þór Guðmundsson, 1.9.2008 kl. 13:53
Við skulum ekki gleyma því að Matti var ekki bara ritstjóri hann var og er skáld gott.
Svo hann á mjög auðvelt með að skálda.
Jens Sigurjónsson, 1.9.2008 kl. 14:25
já já maðurinn fór með rangt mál.
sandkassi (IP-tala skráð) 1.9.2008 kl. 14:29
Meginniðurstaða er að þessar dagbækur eru óáreiðanlegar og að því er virðist að hluta dagbækur Gróu gömlu á Leiti. Gott að vita það
Jón Ingi Cæsarsson, 2.9.2008 kl. 08:17
Mér skilst nú á öllu að sagan sé rétt að öðru leyti en því að Guðjón var ranglega dreginn inn í hana í stað annars manns. Annars ætla ég ekki að þrasa um hálmstrá og Guðjón hefur tekið afsökunarbeiðni Matthíasar. Málið er úr sögunni og milli þeirra verða engir eftirmálar, samanber færslur á síðunni www.matthias.is í dag. Þar er líka meiri fróðleikur og nýr vegna dagbókanna.
En hvernig færðu það út, Friðrik, sbr. síðustu klausuna í blogginu, að Matthías hafi gengið í berhögg við siðareglur blaðamanna? Þú veist hann er ekki starfandi blaðamaður, hefur ekki verið það frá árslokum 2000. Skiptir máli að þessi tiltekna dagbókarfærsla hafi átt sér stað 1998 þótt ekki hafi hún verið birt fyrr en nú?
Hvað með frjálslegar bollaleggingar starfandi blaðamanna hér á blogginu? Eru þær óháðar siðareglunum?
Ágúst Ásgeirsson, 2.9.2008 kl. 13:01
Losna blaðamenn og ritstjórar undan trúnaði gagnvart viðmælendum og heimildarmönnum sínum þegar þeir hætta störfum?
Lára Hanna Einarsdóttir, 2.9.2008 kl. 14:41
Ágúst; Ekki er ég nú beint harður á þessu með Matta og siðareglurnar, sagði einfaldlega að færa mætti rök fyrir einu og öðru. Nánast ekkert hefur um langt skeið reynt á 1. grein siðareglna okkar:
"1. grein
Blaðamaður leitast við að gera ekkert það, sem til vanvirðu má telja fyrir stétt sína eða stéttarfélag, blað eða fréttastofu. Honum ber að forðast hvaðeina sem rýrt gæti álit almennings á starfi blaðamanns eða skert hagsmuni stéttarinnar. Blaðamaður skal jafnan sýna drengskap í skiptum sínum við starfsfélaga".
Hvort Matti sé sekur um vanvirðuna eða hafa rýrt álit á blaðamannastéttinni er auðvitað álitamál og raunar mætti draga ótvíræðari ályktanir um Árna Johnsen - en báðir eru í Blaðamannafélaginu þótt hættir séu á fjölmiðli. Ofan á þetta kemur 2. grein siðareglnanna:
"2. grein
Blaðamanni er ljós persónuleg ábyrgð á öllu sem hann skrifar. Hann hefur í huga að almennt er litið á hann sem blaðamann þó að hann komi fram utan síns eiginlega starfssviðs, í riti eða ræðu. Blaðamaður virðir nauðsynlegan trúnað við heimildarmenn sína".
Matti er í Blaðamannafélaginu og hlýtur því að undirgangast siðareglurnar áfram, enda mun stéttin og almenningur áfram líta á hann sem blaðamann. Í Guðjónsmálinu er siðareglubrot ekki augljóst og reynir enda ekki á það, með því að "þolandinn" hefur fengið "leiðréttingu" og er sáttur. Hins vegar vitum við að Matti gæti hafa talist brotlegur vegna annarrar færslu, þar sem hann nafngreindi heimildarmann sem búast mátti við trúnaði áfram.
Frjálslegar bollaleggingar blaðamanna á t.d. bloggi eru EKKI undanþegnar siðareglunum, Ágúst: "Blaðamanni er ljós persónuleg ábyrgð á öllu sem hann skrifar. Hann hefur í huga að almennt er litið á hann sem blaðamann þó að hann komi fram utan síns eiginlega starfssviðs, í riti eða ræðu". Mig má því kæra til siðanefndar ef ég geng of langt. Ég meðtek þessari skerðingu á tjáningarfrelsi mínu og geri ekki athugasemd við hana, þótt ég leggi áherslu á að ég eigi að hafa minn rétt til skoðana sem einstaklingur. Minn hausverkur er að tjá persónulegar skoðanir mínar án þess að það rýri traust og trúverðugleika minn sem blaðamaður. Og þetta er mér léttara þegar ég starfa ekki á tilteknum fjölmiðli - ef ég væri fastur blaðamaður á fjölmiðli þætti mér ekkert óeðlilegt ef yfirmenn mínir bæðu mig um að ganga hægt um gleðinnar dyr á t.d. blogginu, því þá erum við líka að tala um traust og trúverðugleika viðkomandi fjölmiðils. Þannig að starfandi blaðamenn verða að fara varlega en þá fyrst og fremst til að glata ekki tiltrúnni. Það hef ég á bak við eyrað í hvert sinn sem ég blogga. Væntanlega eins og Moggablaðamenn sem skrifa "Viðhorf" í blaðið.
Hygg að ofangreint svari líka spurningunni þinni Lára Hanna. Mitt svar er nei. Það þarf þá að aflétta trúnaðinum sérstaklega.
Friðrik Þór Guðmundsson, 2.9.2008 kl. 15:11
Trúnaður fyrnist ekki fyrir það fyrsta. Í öðru lagi þá eru það brot sem fyrnast, og þau eru nýlega framin.
Það að bera fram falskar ásakannir er mjög alvarlegt brot og á Matthías engar málsbætur í því efni. Mig varðar ekkert um að hann hafi farið mannavillt, það gerir brotið einungis alvarlegra í mínum augum.
Ég fæ ekki séð að maðurinn sé neitt að taka sig saman í andlitinu ef marka má matthias.is, heldur þvert á móti vex honum ásmegin.
Athugasemdir og útskýringar hafa jú verið settar fram á forsíðu í dag, en eftir stendur mjög margt í þessu gagnasafni sem ber þess merki að honum sé skemmt, og iðrun er ekki til á hans bæ að því er mér virðist.
Á Matthias því enga samúð hjá mér, skáld eða ekki skáld.
sandkassi (IP-tala skráð) 2.9.2008 kl. 18:24
Þakka þér að taka tíma í svara innleggi mínu svo rækilega. Ég er nokkuð klár á siðareglunum, en hef sem betur fer aldrei þurft að standa frammi fyrir nefndinni. Var bara að velta fyrir mér hvort Matthías væri undanþeginn þótt í félagi okkar sé þar sem hann er hættur störfum og á eftirlaun komin.
Auðvitað gerir almenningur líklega engan greinarmun á honum sem blaðamanni eða lífeyrisþega og því hefur þú eflaust á réttu að standa varðandi ábyrgð hans gagnvart reglunum.
Það er enginn að segja að það sé ekki alvarlegt brot að bera mann ranglega sökum, eins og mér sýnist e.t.v. hinn frábæri trommari Gunnar Waage lesa út úr texta mínum.
Ágúst Ásgeirsson, 3.9.2008 kl. 15:49
Ekkert að þakka Ágúst og ekki þykist ég hafa hin endanlegu og kórréttu svör í þessu máli. Ég er nokkuð klár á því að félagar í BÍ sem eru ekki starfandi eða farnir á eftirlaun hafa móralskt séð frjálsari hendur en hinir, sem eru virkir og verða að passa betur upp á traust sitt og trúverðugleika. Hins vegar hefði ég haldið að enginn blaðamaður, núverandi eða fyrrverandi, tæki upp á því að koma upp um heimildarmenn sína, sem treyst hafa á trúnað, án þeirra samþykktar.
Friðrik Þór Guðmundsson, 3.9.2008 kl. 16:08
afsakaðu Ágúst, engan vegin var þessi sneið til þín, mér fannst innlegg þitt þarft og gott. Ég var að gagnrýna Matthias.
Mér þykir það hræðilegt þegar að gerð er atlaga að æru fólks, og bregst ég yfirleitt harkalega við slíku ef að rangt er farið með. En engan vegin var þetta meint til þín.
sandkassi (IP-tala skráð) 4.9.2008 kl. 00:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.