Syndir feðranna: Breiðavíkursamtökin opna blogg

Breiðavíkursamtökin hafa opnað nýja bloggsíðu: brv.blog.is. Samtökin hafa verið opnuð öllu áhugafólki um barnaverndarmál og þá ekki síst vistunarúrræði hins opinbera á öllum tímum. Í nýrri stjórn BRV eru nú tveir fyrrum vistheimiladrengir (formaður og varaformaður) og þrír stuðningsmenn málefnisins "að utan". Ég er einn þeirra.

Mikil vinna er framundan og meðal margra annarra er það verkefni að koma heimasíðu samtakanna (www.breidavikursamtokin.is) í notendavænna form. Fram að því höfum við sett Moggabloggsíðu í gang. Ég hvet til umræðu þar, enda er ég umsjónarmaður bloggsins! Virkjum bloggið til styrktar umræðu um vistunarúrræði barnaverndaryfirvalda og sveitarfélaga í fortíð og nútíð, um allt land.

Upphafsávarp Bárðar R. Jónssonar, formanns BRV, á bloggsíðu samtakanna: 

 

Breiðavíkursamtökin - allt áhugafólk um barnavernd velkomið

bardurrjonsson Að rétt rúmlega ár sé liðið frá því Breiðavíkurmálin voru tekin fyrir í fjölmiðlum þykir mér ótrúlegt; mér finnst eins og þau hafi verið þar alla mína ævi eða allavega stærstan hluta hennar.


Það er ekkert undarlegt við það. Ég dvaldi á Breiðavík um tveggja ára skeið og þótt maður væri ekki að velta sér upp úr því mótar samt reynslan úr æsku lífið og Breiðavík vildi ég bara gleyma. Ég vissi alltaf að mikið óréttlæti hafði verið framið á okkur sem sendir höfðu verið til Breiðavíkur en taldi að þar sem heimurinn væri nú eins og hann er næðist aldrei fram neitt réttlæti í því efni. Kannski að þar verði breyting á.


Breiðavíkursamtökin voru svo stofnuð í framhaldi af umfjölluninni fjölmiðlunum. Þessi samtök Breiðavíkurdrengja voru ætluð öllum þeim sem höfðu dvalið á stofnunum, heimilum og einkaheimilum á vegum ríkisins og Barnaverndar. Það kom fljótt í ljós að þessi takmörkun þrengdi að félaginu og þótt það hafi gert mikið gagn með því að vera vettvangur til að hittast á hefur ekki gengið nógu vel að skilgreina viðfangsefnin og átta sig á því hvernig þessi hagsmunasamtök mjög svo ólíkra einstaklinga geta beitt sér í málum þeirra.


Á fyrsta aðalfundi Breiðavíkursamtakanna þann 17. maí, s.l. var því ráðist í að breyta lögum félagsins, opna þau fyrir öllum sem vilja leggja þessari baráttu lið og láta sig hag barna í fortíð og nútíð skipta máli. Eitt verkefni félags sem okkar er að gera sögu barnaverndar í íslensku samfélagi skil.


Annað verk sem liggur fyrir vinnst fyrst og fremst á pólitískum vettvangi en það snýst um væntanlegar bætur til þeirra sem dvöldu á þessum heimilum.

Breiðavíkurskýrslan markaði tímamót í íslenskri stjórnsýslu. Yfirvöld brugðust við henni með frumvarpi sem átti að taka fyrir á vorþingi en það virðist ljóst að því verður frestað fram á haustið; við hjá samtökunum erum sátt við það. Það þarf að vanda sig og það er ekki einfalt mál að greiða bætur til þessa hóps.


Á aðalfundinum var ég kosinn formaður samtakanna. Ég hafði ekki sóst sérstaklega eftir því embætti og eins og ég hef látið hafa eftir mér hefði mér verið sama þótt þessi mál hefðu aldrei komið upp á yfirborðið en mér rann blóðið til skyldunnar og þess vegna samþykkti ég að tala við Bergstein Björgúlfsson og Kristinn Hrafnsson þegar þeir unnu að myndinni Syndir feðranna, það var árið 2004/5. Margt hefur gerst eftir það.


Nú þreifar ný stjórn Breiðavíkursamtakanna sig áfram en með mér völdust í stjórn þeir Georg Viðar Björnsson, varaformaður og fráfarandi formaður, Friðrik Þór Guðmundsson, ritari, Þór Saari, gjaldkeri, og Ari Alexander Ergis Magnússon, stjórnarmaður og leikstjóri myndarinnar Syndir feðranna (ásamt Bergsteini). Ég vil bjóða þessa ágætu menn velkomna til starfa fyrir félagið og ég hlakka til samstarfsins við þá.

 

Bárður R. Jónsson, formaður Breiðavíkursamtakanna

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Baldur Kristjánsson

Þarft og gott framtak!

Baldur Kristjánsson, 24.5.2008 kl. 11:04

2 Smámynd: Berglind Nanna Ólínudóttir

Tek undir með Baldri, þarft og gott framtak. Friðrik, þú þarft samt að laga linkinn inn á Breiðavíkurbloggið hér að ofan, það er admin-aðgangs-linkur.

Bestu kveðjur og góða helgi! 

Berglind Nanna Ólínudóttir, 24.5.2008 kl. 17:27

3 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Takk fyrir kveðjurnar bæði og ábendinguna Berglind; held ég sé búinn að laga þetta!

Friðrik Þór Guðmundsson, 24.5.2008 kl. 19:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband