Færsluflokkur: Menntun og skóli

Draugarnir í heiðarselinu (lokahluti)

Leið nú nokkur stund og kom þá loksins Guðmundur Guðlaugsson og má nærri geta hversu fegin Kristín varð. Ekkert er um það vitað hvort sveitungar Kristínar lögðu trúnað á sögu hennar og sumir sjálfsagt afgreitt þetta sem illan draum eða ofsjónir.

Þegar ég komst í tæri við frásögn þessa kom mér fyrst í hug stolt yfir að hafa fundið þarna alvöru ættar-drauga. Á mig runnu tvær grímur við að lesa hversu snautlega þeir hrukku undan þegar píslin hún Kristín vísaði þeim út. Hefðu þeir að ósekju mátt brjóta eitt húsgagn eða tvö til að undirstrika yfirnáttúrlega nærveru sína. En þetta er aðeins grínaktugir þankar.  Hitt vekur meiri athygli mína að Guðmundur þessi Guðlaugsson er sagður hafa verið í náinni frændsemi við Neðranesfeðgana. Ekki kemur fram hvers konar frændsemi þar átti við, en hún sem sé sögð náin.  Hermundarstaðir voru 7-8 kílómetra frá Helgavatnsseli, sem var norðanmegin inni í Þverárdalnum langt til heiða. Þangað áttu yfirleitt engir aðrir en íbúarnir leið, nema þá fjárleitarmenn. Reyndar segist svo til að það sé aðeins sem næst hálfs annars tíma gangur lausum manni frá Hermundarstöðum að selinu, en á hinn bóginn var myrkur að skella á þegar Guðmundur hefur haldið af stað til Kristínar.

Ef menn vilja á annað borð trúa því að draugar séu til eða einhvers konar andar eða sálir á flakki, þá sýnist mér nærtækast að draga þá ályktun að Helgi og Ásmundur hafi ekkert erindi átt við Kristínu út af fyrir sig. Öllu eðlilegri skýringu væri að finna í náinni frændsemi þeirra við Guðmund. Það verður reyndar að taka það fram að ég hef ekki getað staðfest um hvers konar frændsemi var að ræða. En hvað um það, það kemur glögglega fram að Guðmundur var miklum mun seinni á ferð en til stóð og hefur hann ef til vill lent í einhverjum erfiðleikum í myrkrinu á leiðinni. Kannski voru feðgarnir frændur hans einfaldlega að fylgja honum þannig að hann kæmist heill á leiðarenda. Það er mér ekki fráhverft að tileinka mér þessa útgáfu, frekar en að þeir feðgar hafi fyrirvaralaust farið að hvekkja einmana kvenpísl upp á heiði, sem þeir áttu ekkert sökótt við!

Draugarnir í heiðarselinu (5. hluti af 6)

Þegar fram á vöku leið, án þess að Guðmundar yrði vart, þótti henni ekki lengur frestandi að fara í fjósið til þess að gefa kúnni og mjalta hana. En sem hún var að tygjast í fjósið, heyrðist henni bæjardyrahurðinni hrundið upp. Hvarflaði því þá fyrst að henni, að lokunni hefði verið illa rennt í kenginn, er Guðmundur gekk viðstöðulaust inn og varð henni í bili ekki til þess hugsað, hve öndvert það var góðum siðum, að hann kæmi þannig í bæinn eftir sólsetur, án þess að guða á glugga.

Þessu næst heyrðist henni gengið inn göngin nokkuð hvatskeytlega, og í næstu andrá, er borðstofuhurð hrundið upp. Birtast í gættinni tveir menn, sem hún þykist þegar kenna, og eigi góðir gestir í híbýlum heiðarbúanna. Voru þetta engir aðrir en hinir látnu Neða-Nes-feðgar, Helgi og Ásmundur sonur hans. Varð henni ærið hverft við þessa sýn, og litla stund mátti hún sig hvergi hræra. Var skelfing hennar slík, að henni lá við öngviti andspænis þessum óboðnu gestum. En brátt sigraði þó viljastyrkurinn.

Hún reis upp með yngsta barn sitt á handleggnum, gekk á móti komumönnum og kastaði á þá orðum. Ekki er í minnum, hvað henni varð á munni, enda hefur hún kannski ekki munað það glöggt eftir á. En brottu vísaði hún þeim heldur ómjúklega og skar ekki utan af. Við þetta hörfuðu gestirnir undan, en Kristín fylgdi þeim eftir fram göngin og allt að bæjardyrahurðinni, sem raunar var lokuð eins og hún vænti. Hurfu komumenn þar, en konan stóð eftir í myrkum göngunum. Setti þá að henni hræðslu svo megna, að hún varð að beita öllu, sem hún átti til, er hún sneri aftur til baðstofunnar, svo ofboð næði ekki tökum á henni."


Draugarnir í heiðarselinu (4. hluti af 6)

            Um það bil í 20 kílómetra fjarlægð í sjónlínu norðaustur frá Neðranesi var á þessum tíma heiðarbýlið Helgavatnssel í talsverðri einangrun upp á heiði. Þar bjuggu Jón Brandsson og kona hans Kristín Jónsdóttir. Hún var nokkru eldri en hann og ekki mikil fyrir mann að sjá, grönn vexti og gufuleg við fyrstu sín, en gekk ótrauð til verka og var seig þegar á reyndi. Þau fluttu í selið 1868, en þar hafði Jón áður búið með móður sinni.

Grípum aftur niður í frásögnina í Tímanum: "Jón átti erindi niður í sveitir að vetrarlagi og bjóst við að vera að heiman um nætur sakir. Var þá ekki fleira fólk í selinu en þau hjónin og börnin, og leitaði Jón á náðir Hermundarstaðafólks um liðveizlu eins og oft áður. Hafði svo talazt til, að Guðmundur Guðlaugsson (sonur bóndans á Hermundarstöðum - innskot FÞG), að menn ætla, skryppi frameftir til Kristínar og yrði hjá henni unz Jón kæmi heim. Benda líkur til þess, að þetta hafi verið veturinn 1876-1877, en þá var Guðmundur seytján ára gamall.            

Jón hóf ferð sína eins og hann hafði ráð fyrir gert, trúlega árla dags, og átti Guðmundur að komaupp að Helgavatnsseli, þegar á daginn liði. Kristín varð eftir með sonu sína þrjá, og mun hinn elzti, Brandur, þá hafa verið 10 ára, en Pétur, sem yngstur var, þriggja ára, ef rétt er til getið um árið. Sinnti hún verkum að venju, og leið svo fram dagurinn allt til rökkurs, að ekki bólaði á Guðmundi á Hermundarstöðum. Brátt færðist náttmyrkrið yfir heiðina. Skaut þá húsfreyja loku fyrir bæjardyrahurð, því að hún mun illa hafa kunnað einverunni eftir að kvöldsett var orðið.

Draugarnir í heiðarselinu (3. hluti af 6)

Árið 1967 birtist í Sunnudagsblaði Tímans frásögnin "Konan í heiðarselinu", sem byggði m.a. á ofangreindri heimild, sögn Guðjóns Jónssonar frá Hermundarstöðum og Árbók Ferðafélags Íslands 1953.  Hefst nú bein tilvitnun í hluta þeirrar Tímagreinargreinar, þótt það kosti nokkrar endurtekningar:

"... í Neðra-Nesi í Stafholtstungum hafði lengi búið bóndi, er hét Helgi Jónsson, sonur Jóns Jónssonar, sem um skeið bjó á Hofsstöðum, og Guðrúnar Helgadóttur frá Hafþórsstöðum í Norðurárdal. Hann var einn hinn efnaðasti bóndi í sveitinni, ráðsettur og gætinn, en nokkuð dulur og myrkur í skapi á köflum. Hann var leitarforingi Stafholtstungnamanna á afrétt og réttarstjóri löngum í Fiskivatnsrétt, vörpulegur maður og karlmenni hið mesta og svo vel íþróttum búinn, að hann var vart talinn eiga sinn jafningja um Borgarfjörð og þótt víðar væri leitað. Var mælt, að hann hefði stokkið yfir tíu álna breiða gröf alvotur, og í glímu stóðst honum enginn snúning.

 

                Helgi í Neðra-Nesi átti mörg börn með konu sinni, Katrínu Ásmundsdóttur, og voru þau uppkomin orðin upp úr 1860 (þetta er rangt - innskot FÞG). Hafði hann þá misst konu sína og hugðist festa ráð sitt að nýju. Nú gerðist það vorið 1866, er hann var á ferð sjóleiðis af Brákarpolli inn Borgarfjörð, að hann fékk aðsvif og féll útbyrðis. Náðist hann þó, en aðþrengdur mjög, og er mál manna, að hann yrði ekki samur eftir þetta. Hann gekk þó að eiga konuefni sitt í lok júlímánaðar um sumarið og var manna glaðastur í brúðkaupsveizlunni. En aðeins tólf dögum síðar hvarf hann. Hafði fólk tekið sér hádegisblund eins og þá var venja, en sjálfur gekk Helgi suður að Hvítá, kvaðst ætla að skoða slægjur og lézt myndi koma brátt aftur. Þegar fólkið vaknaði, var Helgi ókominn, og fór þá sonur hans einn, Ásmundur, að hyggja að honum. Gekk hann um stund með Hvítá, unz hann kom þar, sem Hörðuhólar heita. Sá hann þá orf föður síns í ánni, og var orfhællinn eða ljárinn fastur á steini. Þótti sýnt að Helgi hefði drukknað þarna, og kom upp sá kvittur, að hann hefði gengið í ána í þunglyndiskasti eða einhvers konar ráðleysu.

                 En ekki er ein báran stök. Rúmum tveim árum síðar, fám dögum fyrir jólin 1868, drukknaði Ásmundur, sonur Helga, efnismaður talinn og atgervi búinn, niður um ís á Þverá, og lék einnig orð á, að það hefði ekki með óvilja verið."

Gagnrýnin hugsun og ábyrgð fjölmiðla

 "Gagnrýnin hugsun og ábyrgð fjölmiðla" er yfirskrift málefnafundar sem haldinn verður í Háskóla Íslands á morgun mánudag í hádeginu, í stofu 101 í Odda. Þar eins og víðar fjalla fag- og fræðimenn skólans um samfélagsbreytingarnar sem nú eiga sér stað, svo vitnað sé í orð Háskólarektors við brautskráningu hátt í fjögur hundruð stúdenta í gær.

Málefnafundurinn leitast við að varpa ljósi á ábyrgð fjölmiðla í samfélaginu og vægi gagnrýninnar hugsunar eða greiningar almennt. Ég verð að viðurkenna að á þennan fund er ég að benda ekki síst vegna þess að ég er einn þriggja fyrirlesara! Ég hygg þó að fundurinn hefði reynst þokkalega áhugaverður án innleggs frá mér (ég verð auðvitað að segja sem svo). 

 Staða fjölmiðla á Íslandi er viðkvæm þessar stundirnar. Annars vegar blasir við að þeir, samkvæmt eigin viðurkenningum, brugðust aðhaldshlutverki sínu í aðdraganda fjármálakrísunnar og bankahrunsins; voru meðvirkir og dönsuðu með í kringum gullkálfinn. Hins vegar blasa við áhrif krísunnar á stöðu fjölmiðlanna og getu þeirra til að tuska sig til og standa sig betur - í þeim hefur undanfarið mikill niðurskurður átt sér stað og margir af mestu reynsluboltum stéttarinnar hafa misst vinnuna.

Á málefnafundinum, sem Vilhjálmur Árnason mun stýra, flytja erindi þau Guðmundur Heiðar Frímannsson, prófessor við Háskólann á Akureyri, sem fjallar um gagnrýna umfjöllun: lýðræði, staðreyndir og skoðanir, Sigrún Davíðsdóttir, fréttaritari Ríkisútvarpsins í London, sem fjallar um fjölmiðlaumfjöllunina um Ísland í Englandi: hrifningu, undrun og tortryggni; og loks fæ ég (stundakennari við HÍ) að komast að með erindi sem ég í snöggheitum skírði "Vinnubrögð, siðareglur og frammistaða blaða- og fréttamanna".

Og er ég þessa stundina að semja erindið. Gaman væri að fá komment frá lesendum bloggsins míns um hvað þeim finnst um frammistöðu fjölmiðla í aðdraganda hrunsins og getu þeirra til að gera betur í næstu framtíð. Eru fjölmiðlar að standa sig við gagnrýna greiningu á þjóðafélagsástandinu og -þróuninni? Geta þeir gert betur?


mbl.is Leiðir út úr vandanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Látið okkar kæra vin taka viðtalið

Grein Vals Ingimundarsonar í Mogganum í dag er holl lesning. Fólk ætti að eiga hana og geyma. Ekki síst áhugamenn um fjölmiðla og fréttamat, um hvernig utanaðkomandi öfl geta og reyna að stýra vinnubrögðum og áherslum fjölmiðla. Í þessu tilviki Bandarísk yfirvöld.

Samkvæmt Vali var Bandarískum yfirvöldum í mun að fá stuðning Íslands við innárásina í Írak. Fram kemur að útsendarar þeirra hafi nálgast bæði Styrmi Gunnarsson ritstjóra Morgunblaðsins og Boga Ágústsson fréttastjóra Sjónvarpsins og leitast við að fá rétta tegund af umfjöllun. Var boðið upp á viðtal við Colin Powell sem gulrót góðra samskipta og áhrifa - og jafnvel gengu Kanarnir svo langt að stinga upp á hvaða undirmenn (blaða- og fréttamenn) Styrmis og Boga ættu að taka hin eiginlegu viðtöl. Kanarnir voru augljóslega með sérlega vinveitta blaða- og frétamenn í huga. Því miður kemur ekki fram hverjir það voru sem þeir stungu upp á. Gaman væri að fá það fram, en það er samt önnur saga. Og auðvitað er snefill af möguleika að Kanarnir hafi ekki verið að hugsa svona heldur bara nefna þá sem þeir teldu hina faglegustu og færustu til verksins.

Blaða- og fréttamenn verða alltaf að hafa svona þrýsting á bak við eyrað (so to speak!). Að öðru leyti er umfjöllunin fyrst og fremst söguleg - og herinn sem betur fer löngu farinn. Halldór farinn og Davíð "farinn". Og stuðningur Íslands við Íraksstríðið enginn. Og Kanarnir og heimurinn bráðum loks (Hallelujah!) lausir við Bush. 


mbl.is Stuðningur við innrás lá fyrir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Syndir feðranna: Breiðavíkursamtökin opna blogg

Breiðavíkursamtökin hafa opnað nýja bloggsíðu: brv.blog.is. Samtökin hafa verið opnuð öllu áhugafólki um barnaverndarmál og þá ekki síst vistunarúrræði hins opinbera á öllum tímum. Í nýrri stjórn BRV eru nú tveir fyrrum vistheimiladrengir (formaður og varaformaður) og þrír stuðningsmenn málefnisins "að utan". Ég er einn þeirra.

Mikil vinna er framundan og meðal margra annarra er það verkefni að koma heimasíðu samtakanna (www.breidavikursamtokin.is) í notendavænna form. Fram að því höfum við sett Moggabloggsíðu í gang. Ég hvet til umræðu þar, enda er ég umsjónarmaður bloggsins! Virkjum bloggið til styrktar umræðu um vistunarúrræði barnaverndaryfirvalda og sveitarfélaga í fortíð og nútíð, um allt land.

Upphafsávarp Bárðar R. Jónssonar, formanns BRV, á bloggsíðu samtakanna: 

 

Breiðavíkursamtökin - allt áhugafólk um barnavernd velkomið

bardurrjonsson Að rétt rúmlega ár sé liðið frá því Breiðavíkurmálin voru tekin fyrir í fjölmiðlum þykir mér ótrúlegt; mér finnst eins og þau hafi verið þar alla mína ævi eða allavega stærstan hluta hennar.


Það er ekkert undarlegt við það. Ég dvaldi á Breiðavík um tveggja ára skeið og þótt maður væri ekki að velta sér upp úr því mótar samt reynslan úr æsku lífið og Breiðavík vildi ég bara gleyma. Ég vissi alltaf að mikið óréttlæti hafði verið framið á okkur sem sendir höfðu verið til Breiðavíkur en taldi að þar sem heimurinn væri nú eins og hann er næðist aldrei fram neitt réttlæti í því efni. Kannski að þar verði breyting á.


Breiðavíkursamtökin voru svo stofnuð í framhaldi af umfjölluninni fjölmiðlunum. Þessi samtök Breiðavíkurdrengja voru ætluð öllum þeim sem höfðu dvalið á stofnunum, heimilum og einkaheimilum á vegum ríkisins og Barnaverndar. Það kom fljótt í ljós að þessi takmörkun þrengdi að félaginu og þótt það hafi gert mikið gagn með því að vera vettvangur til að hittast á hefur ekki gengið nógu vel að skilgreina viðfangsefnin og átta sig á því hvernig þessi hagsmunasamtök mjög svo ólíkra einstaklinga geta beitt sér í málum þeirra.


Á fyrsta aðalfundi Breiðavíkursamtakanna þann 17. maí, s.l. var því ráðist í að breyta lögum félagsins, opna þau fyrir öllum sem vilja leggja þessari baráttu lið og láta sig hag barna í fortíð og nútíð skipta máli. Eitt verkefni félags sem okkar er að gera sögu barnaverndar í íslensku samfélagi skil.


Annað verk sem liggur fyrir vinnst fyrst og fremst á pólitískum vettvangi en það snýst um væntanlegar bætur til þeirra sem dvöldu á þessum heimilum.

Breiðavíkurskýrslan markaði tímamót í íslenskri stjórnsýslu. Yfirvöld brugðust við henni með frumvarpi sem átti að taka fyrir á vorþingi en það virðist ljóst að því verður frestað fram á haustið; við hjá samtökunum erum sátt við það. Það þarf að vanda sig og það er ekki einfalt mál að greiða bætur til þessa hóps.


Á aðalfundinum var ég kosinn formaður samtakanna. Ég hafði ekki sóst sérstaklega eftir því embætti og eins og ég hef látið hafa eftir mér hefði mér verið sama þótt þessi mál hefðu aldrei komið upp á yfirborðið en mér rann blóðið til skyldunnar og þess vegna samþykkti ég að tala við Bergstein Björgúlfsson og Kristinn Hrafnsson þegar þeir unnu að myndinni Syndir feðranna, það var árið 2004/5. Margt hefur gerst eftir það.


Nú þreifar ný stjórn Breiðavíkursamtakanna sig áfram en með mér völdust í stjórn þeir Georg Viðar Björnsson, varaformaður og fráfarandi formaður, Friðrik Þór Guðmundsson, ritari, Þór Saari, gjaldkeri, og Ari Alexander Ergis Magnússon, stjórnarmaður og leikstjóri myndarinnar Syndir feðranna (ásamt Bergsteini). Ég vil bjóða þessa ágætu menn velkomna til starfa fyrir félagið og ég hlakka til samstarfsins við þá.

 

Bárður R. Jónsson, formaður Breiðavíkursamtakanna

Engar bætur til Breiðavíkurdrengja - að sinni

Aðeins 5 dagar eftir af þinghaldi og enn hefur ekkert sést bóla á frumvarpi um bætur til handa Breiðavíkurdrengjum, ekkert frumvarp enn "til kynningar" hvað þá til samþykktar á vorþingi. Mér skilst þó að ennþá sé verið að reyna að koma saman einhverjum texta og einhverjum bótafjárhæðum og má altént búast við frumvarpi á haustþingi. Er það ekki?

Það er svo sem enginn að flýta sér heil ósköp, en ég veit að Breiðavíkurdrengirnir vilja heyra og lesa beinum orðum hvað sé að gerast. Ekki endilega um fjárhæð bótanna (sumir þó) heldur vilja þeir fá á tilfinninguna að þeir séu ekki gleymdir AFTUR og örlög þeirra. Vafasamt er að væntanleg fjárhæð bótanna bæti upp fyrir skaðann, enda erum við fyrst og fremst að tala um viðurkenningu hins opinbera og reisn einstaklinganna, sem svo illa var farið með.

Á aðalfundi Breiðavíkursamtakanna, sem fram fór um síðustu helgi, voru samtökin víkkuð út hvað markmið varðar og þau opnuð fyrir aðild allra sem áhuga hafa á barnaverndarmálum fyrr og síðar. Samtökin eru ekki bundin við Breiðavík og munu í framtíðinni meðal annars beina sjónum sínum að vistheimilum og öðrum stofnunum á borð við Kumbaravog, Reykjahlíð og fleiri. Eins og Spanó-nefndin svokallaða. Ég hlakka til að starfa með Breiðavíkurdrengjunum að því að sinna hagsmunum barna og unglinga, en á aðalfundinum var ég kjörinn í stjórn þeirra. Það er mér mikill heiður og ég tek þessari áskorun alvarlega.

Forsætisráðherra mætti gjarnan taka áhyggjur Breiðavíkurdrengjanna alvarlega og staðfesta opinberlega áður en þinghaldi lýkur áætlun sína um frumvarpsflutning. 


mbl.is Annasamir dagar á Alþingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslendingar eru Demókratar - vilja ekki Repúblíkana

art.obamaor.ap Það þarf ekkert að velkjast í vafa um það; Íslendingar halda, hvað Bandarísk stjórnmál varðar, með Demókrataflokknum. Ef bara Íslendingar væru að kjósa fyrir vestan myndi Repúblíkanaflokkurinn nánast þurrkast út. Og við erum nokkuð sammála Demókrötum; Obama hefur heldur meira fylgi en Hillary.

Í óvísindalegri könnun á afstöðu lesenda bloggsíðu minnar er niðurstaðan neðangreind, en hlutföllin hafa allan tímann haldist svipuð og ástæðulaust að halda þessari tilteknu könnun áfram

Lesandi bloggsins míns myndi í Bandarískum stjórnmálum styðja:
Demókrata - Obama 47,4%
Demókrata - Hillary 35,8%
Repúblíkana - McCain 4,2%
Repúblíkana - annað 2,1%
Ekkert af ofangreindu 10,5%
95 hafa svarað

 

Þessi niðurstaða er mjög samhjóða könnun Gallups nýlega. Þar var íslenska þjóðin spurð um hvern hún myndi vilja sem næsta forseta Bandaríkjanna. Í ljós kom að mjótt er á mununum milli Hillary Clinton (49%) og Barack Obama (48%) sem bítast um tilnefningu Demókrataflokksins hið vestra. Ljóst var þar einnig að Íslendingar vilja fá Demókrata í Hvíta húsið því einungis 3% sögðust myndu kjósa John McCain. Þetta er í raun sama niðurstaða og hjá mér miðað við að þeim sé sleppt sem myndu kjósa "ekkert af ofangreindu". Munurinn er þó meiri milli Obama og Hillary hjá mér, enda má búast við því að menn séu í ríkara mæli en áður að hengja hatt sinn á Obama, nú þegar hann er um það bil að ná tilnefningunni.

Mér finnast þessar niðurstöður segja heilmikla sögu. Meira að segja hægrimenn á Íslandi eru langflestir "liberal" og tengja sig frekar Demókrötum en Repúblíkönum.  Bush- og Cheney-ismi á aldeilis ekki upp á pallborðið hér á landi. Við viljum ekki svoleiðis öfga og mannkynsfyrirlitningu. Ekki satt?

 

P.S. ENN OG AFTUR NÝ OG SPENNANDI KÖNNUN HÉR TIL HLIÐAR! NÚ UM TRÚMÁL!! Smile


Léttadrengi misþyrmt - sunnudagslesning

Um 20. ágúst 1924 var níu ára gamall drengur frá Sauðárkróki lánaður sem léttadrengur að bæ í Skagafirði og bar kunnugum saman um að þangað hefði drengurinn farið að öllu leyti heill heilsu, vel til fara og óskemmdur á fótum, í góðum holdum og í fullu fjöri. En næstu fimm vikurnar upplifði drengurinn ungi sannkallaða martröð.

 

Á bænum bjuggu hjón, sem við köllum Guðberg og Jóhönnu, hann 30 ára en hún 24 ára og vanfær af öðru barni þeirra, en fyrir var á heimilinu þriggja ára barn þeirra. Það var hart í ári, kuldatíð og annir miklar. Drengurinn skyldi létta hjónunum verkin.

 

Fimm vikum eftir komu drengsins var nágrannastúlka að nafni Margrét á ferð á hesti sínum nálægt bænum og rakst á drenginn, sem við köllum Jónas, þar sem hann lá á grúfu við þúfu út á víðavangi, rænulítill og illa á sig kominn. Vildi hann ekki fara heim til sín en samþykkti að fara heim með stúlkunni.

 

Heimilisfólk stúlkunnar sá þegar að ekki væri allt með felldu. Drengurinn var þrátt fyrir kuldakast illa klæddur að utanhafnarfötum; í einni prjónapeysu og utanhafnarbrókum sem gengnar voru af öðrum lærsaumi, með prjónahúfu á höfði. Drengurinn var blár í andliti af kulda, berhentur og bólginn á höndum, votur uppfyrir hné og skalf mjög. Hann var magur og vesældarlegur og var þegar háttaður ofaní rúm.

 

Missti allar tær á báðum fótum

 

Þegar Jónas var afklæddur varð fólkinu starsýnt á fætur hans, sem voru mjög skemmdir; bólgnir uppfyrir ökkla og settir kuldapollum og svörtum drepblettum. Tærnar á báðum fótum voru svartar, harðar og alveg dauðar, og lagði fljótlega af þeim ýldulykt.

 

Þarna var drengnum hjúkrað í tæpa viku og var hann framan af varla með réttu ráði. Hann komst í læknishendur í nokkra daga áður en hann var fluttur með strandferðaskipi á sjúkrahús, þar sem hann dvaldi í nokkra mánuði undir stöðugu eftirliti. Ekki var hægt að bjarga miklu; leysti af allar tær á báðum fótum og varð að taka af fremsta hluta nokkurra ristarbeinanna.

 

Mál var höfðað gegn hjónunum Guðbergi og Jóhönnu vegna misþyrmingarinnar. Báru læknar að ekkert hefði getað orsakað ásigkomulag drengsins nema kuldi, vosbúð og illur aðbúnaður.

 

Berðu á þær smjör drengur

 

Við rannsókn málsins kom fram sá framburður drengsins, að hjónin hefðu verið vond við hann og barið hann, þó fremur Guðbergur en Jóhanna. Í eitt skipti hefði hann og verið sveltur, en almennt verið svangur á þeim fimm vikum sem hann dvaldi hjá hjónunum.

 

Hjónin voru hneppt í gæsluvarðhald og lágu fljótlega fyrir játningar þeirra um meginatriði. Sögðust þau ekki hafa veitt því athygli hvort drengurinn væri heill á fótum fyrr en hálfum mánuði eftir að hann kom til þeirra, en þá varð konan þess vör að drengnum væri illt í fótunum. Skoðuðu þau hjónin fæturna og sögðu að þá hafi tærnar á báðum fótum verið orðnar bláleitar og svartar og harðar viðkomu. Prófaði Guðbergur hvort drengurinn fyndi til í tánum með því að klípa í þær, en drengurinn kvaðst ekkert finna til.

 

Sögðust þau þá hafa íhugað að leita ráða hjá hreppstjóra um lækningar, en úr því varð samt aldrei. Þeim duldist næstu daga ekki að drengnum versnaði; varð sjáanlega haltur og bjagaður í göngulagi. Hlífðist hann við að stíga í fæturna en beitti fyrir sig jörkunum utanfótar og hælunum.

 

Síðustu vikuna kvartaði drengurinn mjög yfir ástandi sínu, en ráð Guðbergs var þá að drengurinn skyldi bera nýtt smjör á fæturna, það hefði dugað sér vel gegn sprungum í iljum. Frúin sagði honum hins vegar að sækja hreint vatn í koppinn sinn til að þvo fæturna uppúr. Duldist það hjónunum þó ekki að ástand fótanna fór æ versnandi. Skömmu áður en drengurinn var tekinn frá þeim ræddu þau aftur um að koma drengnum til læknis, en ekkert varð úr framkvæmdinni frekar en áður.

 

Sveltur, barinn og sviptur sængum

 

Hjónin játuðu á sig sakarefnin í meginatriðum, þótt afar treglega hafi gengið að fá þau til að upplýsa nokkuð. Þau viðurkenndu að þrátt fyrir ástand drengsins hefði honum í engu verið hlíft við vosbúð eða útivist og að hann muni daglega hafa verið votur í fæturna. Jóhanna taldi þó að hún hefði fært drengnum þurra sokka á hverjum morgni.

 

Guðbergur játaði að hann hefði hýtt drenginn tvisvar með hrísvendi á berar lendar og barið hann einu sinni í höfuðið með hendinni. Var það á þriðju viku dvalartíma drengsins og gert í refsingarskyni, þar eð drengurinn hefði verið ódyggur og óhlýðinn. Ekki var þó talið sannað að nokkuð líkamstjón hefði leitt af þessari harðneskju.

 

Jóhanna játaði að hún hefði í eitt sinn, að undirlagi bóndans, svelt drenginn í refsingarskyni með því að gefa honum ekki mat eitt kvöldið. Hafði drengurinn þá ekki komið með hest sem hann var sendur eftir. Hann hafi að öðru leyti alltaf fengið nægan mat. Loks þótti það sannað með játningu Jóhönnu að rúmri viku fyrir brottför drengsins hafi hún tekið sængurfatnað allan úr rúmi drengsins (tvær hlýjar sængur sem hann kom með), en látið hann sofa á heydýnu með tvær einfaldar ábreiður ofaná sér. Sagðist hún hafa gert þetta af því drengurinn hefði vætt rúmið að nóttunni.

 

Engar bætur fyrir örkuml

 

Sök hjónanna þótti sönnuð og til þess tekið hve illa þau bjuggu að drengnum, þótt óvenjuleg kuldatíð ríkti og svo kalt "að kúm varð ekki alltaf beitt en jörð gránaði af jeljagangi". Hið megna skeytingarleysi var túlkað sem vísvitandi misþyrming. Undirréttardómari taldi samt duga að dæma hjónin í fimm daga fangelsi við vatn og brauð (þau höfðu þá setið í gæsluvarðhaldi í hálfan mánuð) og greiða sjúkrahúslegukostnað drengsins og málskostnað.

 

Hæstiréttur herti refsinguna upp í 10 daga fangelsi við vatn og brauð.

 

Athyglisvert er að drengnum voru engar örkumlabætur dæmdar; krafa um slíkt var ekki tekin til greina þar eð drengurinn hefði "not beggja fóta sinna þrátt fyrir missi tánna, svo að hann er sæmilega fær til gangs og hefir lestingin á fótum hans ekki spilt heilsu hans eða kröftum svo séð verði eða gert hann óhæfan til að afla sér lífsviðurværis með venjulegri vinnu"!

 

Ofangreint byggir á sönnu dómsmáli - fyrir Hæstarétti. 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband