Færsluflokkur: Dægurmál

Við höldum með sigurvegurunum, er það ekki?

Okkur líkar best við þá sem eru bestir og vinna oftast og glæstu sigrana, er það ekki? Hjá sumum gætir tilhneigingar til að halda með þeim sem aldrei vinna, „the underdogs“, en sú árátta hefur sjálfsagt verið að hverfa á tímum nýfrjálshyggjunnar, efnishyggjunnar og einstaklingshyggjunnar (survival of the fittest/fattest). Í lífsins baráttu viljum við vera eins og sigurvegararnir – Liverpool og Manchester United.

Enski boltinn hefur löngum átt hug og hjörtu landsmanna, einkum karlkyns en líka í vaxandi mæli kvenkyns. Af hundruðum liða í Englandi höfum við flest ákveðið að halda með þeim sem vinna oftast. Við viljum tapa sem sjaldnast og helst aldrei. Við viljum lágmark eina gullmedalíu hvert ár.

Deild Enska boltans hjá mbl. Is hefur undanfarnar vikur staðið fyrir „liðskönnun“ okkar á meðal um stuðning við Ensk lið og nú áðan höfðu 11.673 greitt atkvæði í könnuninni (sem er fádæma mikið í net-könnunum hér á landi). Staðan hefur lítt breyst að undanförnu og er svona:

Hvert er þitt lið í ensku úrvalsdeildinni?

Liverpool             32,7%

Man.Utd             27,4%

Arsenal                15,6%

Chelsea                 5,9%

Tottenham           4,8%

West Ham            3,3%

Newcastle            1,7%

Aston Villa            1,6%

Everton                 1,5%

Man.City               1,5%


Það eru til fjölbýlishús með um 500 íbúa. Líkast til er þar að finna 163 Púlara, 137 Manútara, 78 Gönnera, 29 Clesíara, 24 Spursara, 17 Westhamara og síðan 52 sem halda með ýmsum öðrum liðum.

Efnt til knattspyrnumóts gætu Púlarar sent nær 15 (ellefu manna) lið, Manútarar 12, Gönnerar 7 lið, Chelsíarar 2 (og hálft) og Spursarar 2 lið. Ofsalega mikið um rauða boli!

75.7% halda með 3 liðum, þeim sigursælustu auðvitað. Mér finnst raunar merkilegt hve mínir menn, Spurs, njóta mikils fylgis hérlendis, miðað við kröfuna um helst „dollu“ á hverju ári, sem áreiðalega er vænting stuðningsmanna þriggja til fjögurra efstu liðanna á listanum. Þrír af hverjum fjórum halda með dollu-liðunum. Mest er ég hissa yfir því að Chelsea hafi ekki hoggið stærri skörð í hlut þriggja efstu, eftir Eiðstímabilið. Ég er líka svolítið hissa að KR-búningur Newcastle hafi ekki skilað meiri árangri.

En það sem vekur einna mestu athyglina hjá mér er brotthvarf Lídsaranna. Miðað við það sem ég man er ég handviss um að Leeds United hafi hér fyrir bara 10-20 árum náð allavega fjórða sætinu með kannski 10%. Nú virðast fylgismenn liðsins hafa gufað upp að mestu. Af hverju ætli það sé? Jú, liðið varð gjaldþrota, féll um tvær deildir og vinnur núna aldrei „dollur“. Við höldum ekki með svoleiðis liðum.  -

p.s. Hef „falið“ reiði-pistlana mína í bili en ekki eytt þeim. Þeir eru og verða áfram til, en fá hvíld frá lesningu að sinni.


Tjáningarfrelsið og trúarbrögðin

Þegar ég á sínum tíma varði birtingu Jótlandspóstsins á Múhammeðs-teiknimyndunum fékk ég sterk viðbrögð frá fólki sem taldi að ég væri á móti Múslimum og Íslam. Ég reyndi að útskýra mikilvægi tjáningarfrelsisins og trúfrelsisins og mikilvægi þess að stjórnvöld ritskoðuðu ekki frjálsa fjölmiðla, en það gekk bara svona og svona.

Kannski að samskonar boðskapur gangi betur í vandlætarana ef hann kemur frá dönskum heimspekingi? Ég vil altént gera orð Lars Grassme Binderup að mínum. meðal annars eftirfarandi:

"... Tjáningarfrelsið sé hins vegar svo mikilvægt að alls ekki megi setja því skorður til að hindra menn í að gagnrýna og jafnvel hæða trúarbrögð. Íbúar í lýðræðissamfélagi verði að sætta sig við að andstæðingar trúarbragða beiti oft harkalegum aðferðum, aldrei megi sætta sig við að hótað sé ofbeldi til að þagga niður í slíkum röddum. Auk þess ýti það undir tortryggni í garð minnihlutahópa ef þeim sé tryggð vernd gegn móðgunum gagnvart trú þeirra, fremur en t.d. kristnum. Hvaða hópur sem er geti þá í raun gengið á lagið, einnig guðleysingjar, og fullyrt að eitthvað í málflutningi annarra særi þá og þess vegna verði að setja honum skorður".


mbl.is Megum hæða trúarbrögð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslendingar eru Demókratar - vilja ekki Repúblíkana

art.obamaor.ap Það þarf ekkert að velkjast í vafa um það; Íslendingar halda, hvað Bandarísk stjórnmál varðar, með Demókrataflokknum. Ef bara Íslendingar væru að kjósa fyrir vestan myndi Repúblíkanaflokkurinn nánast þurrkast út. Og við erum nokkuð sammála Demókrötum; Obama hefur heldur meira fylgi en Hillary.

Í óvísindalegri könnun á afstöðu lesenda bloggsíðu minnar er niðurstaðan neðangreind, en hlutföllin hafa allan tímann haldist svipuð og ástæðulaust að halda þessari tilteknu könnun áfram

Lesandi bloggsins míns myndi í Bandarískum stjórnmálum styðja:
Demókrata - Obama 47,4%
Demókrata - Hillary 35,8%
Repúblíkana - McCain 4,2%
Repúblíkana - annað 2,1%
Ekkert af ofangreindu 10,5%
95 hafa svarað

 

Þessi niðurstaða er mjög samhjóða könnun Gallups nýlega. Þar var íslenska þjóðin spurð um hvern hún myndi vilja sem næsta forseta Bandaríkjanna. Í ljós kom að mjótt er á mununum milli Hillary Clinton (49%) og Barack Obama (48%) sem bítast um tilnefningu Demókrataflokksins hið vestra. Ljóst var þar einnig að Íslendingar vilja fá Demókrata í Hvíta húsið því einungis 3% sögðust myndu kjósa John McCain. Þetta er í raun sama niðurstaða og hjá mér miðað við að þeim sé sleppt sem myndu kjósa "ekkert af ofangreindu". Munurinn er þó meiri milli Obama og Hillary hjá mér, enda má búast við því að menn séu í ríkara mæli en áður að hengja hatt sinn á Obama, nú þegar hann er um það bil að ná tilnefningunni.

Mér finnast þessar niðurstöður segja heilmikla sögu. Meira að segja hægrimenn á Íslandi eru langflestir "liberal" og tengja sig frekar Demókrötum en Repúblíkönum.  Bush- og Cheney-ismi á aldeilis ekki upp á pallborðið hér á landi. Við viljum ekki svoleiðis öfga og mannkynsfyrirlitningu. Ekki satt?

 

P.S. ENN OG AFTUR NÝ OG SPENNANDI KÖNNUN HÉR TIL HLIÐAR! NÚ UM TRÚMÁL!! Smile


(Mogga)bloggarar III.b: Mistök lagfærð

 Mér urðu á hrapaleg mistök við vinnslu síðustu færslu minnar og sé mér ekki annað fært en að grípa hér til lagfæringar. Eftir allt sem á undan er gengið er með öllu óskiljanlegt að mér hafi orðið á svona klaufaleg mistök. Er ég enda sjálfum mér sárreiður.

Ég gleymdi sem sagt að tengja færsluna við frétt í því skyni að hámarka mögulegan lestur færslunnar. Eins og ég hafði boðað vegna umfjöllunarinnar um (Mogga)bloggið þá hugðist ég viljandi tengja þær færslur við mest lesnu innlendu frétt mbl.is hverju sinni, hver svo sem hún væri (og bið Moggabloggið afsökunar á þeirri táknrænu gjörð).

Ég verð því að grípa til endurbirtingar. En í stað þess að kópera og peista hingað inn dettur mér í hug að bara vísa ykkur á færsluna hér fyrir neðan - það er fljótlegra fyrir mig.

Kannski dugar þessi lagfæring mér til að komast yfir Jens Guð þrátt fyrir allt? Eru ekki örugglega allir að lesa um harmleikinn í Bakkatjörn?

 


mbl.is Harmleikur á Bakkatjörn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

(Mogga)bloggarar III: Verið rödd en ekki kvak

Nú er ég auðvitað stokkinn upp í 6. sætið; um leið og ég boðaði skrif um ykkur bloggarana sjálfa þá rauk lesturinn upp. Þetta er þriðja og síðasta færslan um (Mogga)bloggarana. Í fyrri blogg-tilraun minni, sem átti sér stað í mars sl., náði ég með átaki að koma mér úr sama og engu og upp í 5. sæti „vinsældarlista“ Moggabloggsins og í þessu síðara átaki mínu, öðru vísi uppbyggðu, er ég núna kominn upp í 6. sætið sem fyrr segir.

 

Á fyrra tímabilinu skrifaði ég nokkuð títt og prufaði alls konar „brögð“ og „þemu“ í bloggfærslunum, meira að segja kökuuppskrift og hvaðeina. Stóð það átak yfir í vikutíma. Ég setti á tímabilinu ýmsa mismunandi pistla á bloggið. Inn rötuðu pistlar um Mýrarhúsaskólamálið, kristilegt siðgæði, Hannes Hólmstein, heilbrigðiskerfið, umhverfismál, Kópavogíska spillingu, Steiner-dóminn og einnig slengdi ég fram sleggjudómi um ferð 200 kennara til Kína og næstum því Tíbet. Allt var þetta með hinum ýmsu áherslum og þá ekki endilega algerlega mínum eigin!

 

Um það bil sem ég var kominn í 5. sætið og sá ekki fram á að fara ofar, nema með gríðarlegri viðbótarvinnu, slakaði ég á, skrifaði sjaldnar og skrifaði loks skipulega og málefnalega um þungt mál; losunarmálin (útstreymi gróðurhúsalofttegunda). Og þó ég hafi reynt að gera skrifin þau áhugaverð þá hrundu heimsóknirnar og æ færri tóku þátt í umræðunni. Með minni og málefnalegri skrifum tókst mér á bara nokkrum dögum að koma mér úr 5. sætinu niður í það 76. Þetta var sem sagt árangurinn af því að reyna að fá lesendur bloggsins til að lesa og ræða um losunarmálin!

 

Seinna tímabilið hófst 23. apríl og hefur því staðið yfir í 22-23 daga. Ég miðaði að þessu sinni við að jafnaði 1-2 færslur á dag, en að öðru leyti hef ég leikið mér að hinum ýmsu málefnum, tónum:

 

Ég vil skipta þessu seinna tímabili í þrennt. Fyrsta tímabilið: Ég get sagt að það skilaði mörgum heimsóknum að skrifa um Trukkarana og mótmæli þeirra (þau voru þá sæmilega fersk), um jarðgangavitleysuna í Árna Johnsen. Vel gekk líka að grínast með ölvun og ofbeldi „aðkomufólks“ í miðborgina, en langbest í heimsóknum var að fjalla um trúmálaskrif Skúla Skúlasonar, því trúmálaumræða er greinilega mjög mikið lesin og kommenteruð á, einkum ef maður storkar lesendum með æsilegum skoðunum. Annað tímabilið: Frá ca. 28. apríl til 6. maí dró úr heimsóknum hjá mér, enda skrifaði ég í meira mæli en áður þá um almenna pólitík og prufaði syrpu af limru-skrifum (limrur höfða augljóslega ekki til fjöldans). Þriðja tímabilið: Frá um 8. maí fór síðan lesturinn/skoðunin hraðbyri uppávið á ný, en þá kom ég með grínaktugar færslur um stofnun Anti-Rúsínufélags Íslands (ARFI), fjölskyldublogg um afmæli sonar míns heitins, þóttist ætla að segja „allt“ um veru mína hjá Kastljósi, fjallaði um kristilegt siðgæði og hið eldheita mál eftirlaunalög ráðherra og þingmanna. Þessi síðasta blanda kom mér á skömmum tíma úr 31. sæti í 8. sæti.  

 

Besta „trixið“ var síðan núna í lokin; að boða skipulögð skrif um ykkur bloggarana sjálfa og nafngreina súper-bloggarana. Mikill kippur koma á lesturinn/skoðunina og 6. sætið kom í höfn. Eftir miðnætti í kvöld verð ég að líkindum búinn að hrifsa 5. sætið á ný, af Jens Guð – og þá er hringnum lokað, því ég geri mér ekki nokkrar vonir um að fara uppfyrir súper-bloggarana fjóra. Það er of mikið erfiði að reyna það. Hugsanlega gæti ég það með mjög tíðum færslum, sitja við tölvuna allan daginn og hamra inn – en því nenni ég að sjálfsögðu ekki þótt ég gæti.

 

Málið er nefnilega ósköp einfalt. Þó ég segist vera að greina þennan blessaða lista þá skipta einstaka vísbendingar litlu máli; eina almennilega viðmiðunin er hvort þú hafir eitthvað fróðlegt/forvitnilegt/skemmtilegt að segja og hvort þú skapir með því innihaldsríka umræðu á þessum Almenningi. Ef ekki þá ertu bara framlenging á vitleysunni sem ríkti á malefnin.com og ert í raun og veru ekki að taka þátt í neinni þjóðfélagsumræðu. Og það eru einmitt skilaboðin mín til bloggara; verið rödd sem hlustað er á en ekki kvak sem enginn skilur og skilur ekkert eftir sig!

 

P.S. NÝ OG SPENNANDI KÖNNUN HÉR TIL HLIÐAR! 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband