Færsluflokkur: Fjölmiðlar

Hvað kom eiginlega fyrir klipparana?

Það er mikið talað um stórhækkun verðlags matvörunnar og með réttu. Það vantar ekki umtalið og fréttirnar um þetta, en alveg hefur farið framhjá fjölmiðlum og saumaklúbbum hygg ég sú geysilega hækkun sem átt hefur sér stað á hárgreiðslustofum landsins á einu ári. Sjá síðustu færslu.

Þarna (raunar í athugasemdahlutanum) kemur fram að klippingin hefur stórhækkað; svo mikið að mig svimar (kr. frá ágúst 2007 til ágúst 2008):

Klipping karla, gjald2.7553.605
Klipping kvenna, gjald4.0686.128

Hvað á þetta að þýða? Reyndar fór ég í klippingu fyrir þremur dögum og þá var herraklippingin komin í 3.800 þannig að ósóminn hefur ekki stöðvast ennþá. Þetta þarfnast útskýringar. Efniskostnaður (aðföng) og slíkt er lítill liður í klippingunni, hið minnsta hjá körlum. Mér sýnist að á hárgreiðslustofum sé þetta aðallega spurning um launaliðinn. 30-40% hækkun á klippingu karla og 50% hækkun á klippingu kvenna á einu ári - ég vil fá skýringu. Óska eftir liðsinni fjölmiðla og almennings. Eða eru kannski einhverjir klipparar þarna úti sem vilja tjá sig?


Skelfilegar fréttir - dagvara hækkaði um 20,5%

 Mynd 459933

Eftir allt sem á undan er gengið, ekki síst VASK-lækkunina fyrir einu og hálfu ári, eru fréttir um yfir 20% hækkun á dagvöru, óhjákvæmilegum neysluvörum heimilanna, skelfilegar. Við flljótlega skoðun á hækkunum einstakra vöruliða (www.hagstofa.is) virðist mér ljóst að miklar hækkanir stafa ekki eingöngu af gengi krónunnar og auknum flutningskostnaði. Hvað skýrir t.d. miklar hækkanir á innlendum landbúnaðarvörum? Mætti ég fá meira að heyra

 

Verð á nokkrum vörutegundum   Ágúst20072008
Hveiti, kg85112
Hrísgrjón, kg220365
Franskbrauð, kg384316
Pylsubrauð, 5 stk.99136
Cornflakes, kg587561
Cheerios hringir, kg613637
Dilkakjöt, læri, kg1.1251.221
Dilkakjöt, kótelettur, kg1.6051.657
Nautakjöt, gúllas, kg1.8181.816
Svínakjöt, kótelettur, kg1.2581.422
Nautakjöt, hakkað, kg1.2281.251
Vínarpylsur, kg8921.008
Ýsuflök, kg8981.130
Ýsa slægð og hausuð, kg535592
Stórlúða, kg1.9932.040
Harðfiskur, kg5.2795.817
Nýmjólk, l7691
Skyr, kg237260
Egg, kg409463
Smjör, kg403471
Kartöflur, kg111204
Tómatar, kg204258
Papríka, kg259388
Blómkál, kg298341
Epli, kg133213
Appelsínur, kg119204
Bananar, kg157217
Strásykur, kg137138
Kaffi, innlent, kg907918
Kaffi, erlent, kg744811
Coca-Cola, 2 l, flaska166183
Vindlingar, Winston, 20 stk., pk.600616
Bensín (95 oktan) á þjónustustöðvum, 1 l127.3172.2
Áskrift Morgunblaðsins, mánaðargjald2.6502.950
Áskriftargjöld Stöðvar 269.21363.73

 


mbl.is Minni neysla en meiri eyðsla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta Eimskipafélag er Avion/Atlanta en ekki

Gamli Hafskipsforstjórinn að bjarga gamla óskabarni þjóðarinnar? Nei, svo er ekki (hvað sem öðru líður). Þetta tiltekna Eimskipafélag er, eins og Vilhjálmur Bjarnason, formaður Félags fjárfesta, hefur bent á, að stofni til félagið sem áður hét Avion group og sem áður var flugfélagið Atlanta.

 Björgólfur Guðmundsson er einn aðaleigandi Eimskips.

Í sjálfu sér ekki nema von að margir fjölmiðlamenn og almenningur flaski á þessu. Nafnabreytingar og kennitöluhræringar geta ruglað margan manninn og ært óstöðugan. Skipafélagið gamla er ekki að lenda í þessum hremmingum, heldur fjárfestingafélag undir þessu klassíska nafni sem ku vera að mestu í eigu Magnúsar Þorsteinssonar, viðskiptafélaga Björgólfs gamla. 

En með smá vinnu og staðfestingu sjá menn þetta.

eimskip atlanta


mbl.is Björgólfsfeðgar tilbúnir að bjarga Eimskip
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skrifa Moggaritstjórar hugsanir Þórs Sigfússonar?

Hér er á ferðinni ein stórlega gölluð frétt hjá Mogganum, því miður. Með öðrum orðum er ekkert í fréttinni sjálfri sem réttlætir fyrirsögnina. Hvergi í fréttinni kemur nefnilega fram að fjölmiðlakóngurinn styðji framboð McCain og Palin. Ekki nema fyrir liggi að leiðarahöfundar New York Post endurspegli óhjákvæmilega afstöðu eiganda síns - sem á alls ekki að vera sjálfgefið.

Fyrirsögnin fullyrðir að Murdoch (sá hættulegi einokunarsinni) styðji McCain (þótt hann hafi stutt Obama gegn Clinton). Í fréttinni er hins vegar hvergi vitnað í slíka yfirlýsingu frá honum. Það er hins vegar vitnað í slíka yfirlýsingu í leiðara fyrrnefnds blaðs í eigu Murdoch.

Allir þeir, sem leggja áherslu á og vilja virða sjálfstæði ritstjórna gagnvart eigendum sínum hljóta að gretta sig yfir þessum trakteringum. Skrifa leiðarahöfundar Moggans kannski eingöngu í samræmi við skoðanir eigenda sinna eða hafa þeir sjálfstæðar skoðanir sem stundum eru á skjön við skoðanir eigenda blaðsins? Ef Moggamenn skrifa bara í samræmi við vilja eigenda blaðsins þá er það nýtt fyrir mér. Get ég þá bókað að leiðarar Moggans séu í raun afstaða Forsíðu ehf, Útgáfufélagsins Valtýs hf og Björns Hallgrímssonar ehf, sem saman eiga yfir 60% í Mogganum? Endurspegla leiðarar Moggans í raun afstöðu Þórs Sigfússonar stjórnarformanns, Stefáns P. Eggertssonar varaformanns og kannski Kristins Björnssonar meðstjórnanda og fyrrum (?) olíumógúls?

Ekki það að ég efist um að milljarðamæringur og einokunarsinni eins og Murdoch styðji það framboð sem er hverju sinni lengst til hægri. Það bara segir ekkert um það í fréttinni. Fyrirsögnin væri réttari: "Leiðarahöfundar New York Post, sem er í eigu fjölmiðlakóngsins Murdoch, styðja McCain". Of löng fyrirsögn, ég veit það, en réttari.


mbl.is Murdoch styður framboð McCain og Palin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Árni Johnsen stefnir Agnesi - ærunnar vegna!

 Agnes Bragadóttir.Tveir "gamlir" Moggablaðamenn stefna nú í dómstólaslag, en Árni Johnsen þingmaður og fyrrum blaðamaður (og félagi í Blaðamannafélaginu) hefur stefnt Agnesi Bragadóttur blaðamanni fyrir meint meiðyrði (ærumeiðingar) í morgunþættinum Í bítið á Bylgjunni hinn 9. júlí sl. Agnes viðhafði þar mjög sterka gildisdóma um Árna, skóf ekkert ofan af hlutunum frekar en oft áður í viðlíka viðtölum og fór mikinn.

Agnes kallaði Árna meðal annars dæmdan glæpamann, sem ekki hefði iðrast gjörða sinna, hann hafi verið mútuþægur og gerst sekur um umboðssvik - hann væri hneyksli og hálfgert stórslys. Þetta kallar Árni meiðyrði og vill fá 5 milljón króna miskabætur, en það er athyglisverð upphæð núna í umræðunni um að Breiðavíkurdrengjum þykja plön um 375 þúsund króna til tveggja milljóna króna bætur til sín vegna skepnuskapsins og nauðungarinnar á Breiðavík vera ófullnægjandi. Árni er samkvæmt þessu um það bil þrefalt til fjórfalt skaddaðri eftir Agnesi en meðal Breiðavíkurdrengur - og hana nú!

Nú mætti ýmislegt segja um stöðu blaðamanna eins og Agnesar til að koma fram með skoðanir opinberlega, sem áhrif kunna að hafa á traust þeirra og trúverðugleika í blaðamannastarfinu. Agnes er bæði í senn skeleggur álitsgjafi með sterkar persónulegar skoðanir  og verðlaunaður blaðamaður. Fer þetta saman? Það er vitaskuld ekki hægt að taka lýðræðisleg mannréttindi af blaðamönnum, að fá að tjá sínar persónulegu skoðanir. Því aðeins er það vandasamt blaðamönnum að þessi tjáning getur haft áhrif á traust þeirra og trúverðugleika í blaðamannastarfinu. Mér hefur sjálfum fundist Agnes fara á stundum full geyst í yfirlýsingum og skoðunum þegar hún hefur verið kölluð til að gefa álit og þá útfrá þeirri hugsun að litríkar persónulegar skoðanir hennar kunni að rýra trúverðugleika hennar við það sem hún er best í; blaða- og fréttamennsku. Ég finn þetta á sjálfum mér; ég er að tjá mig persónulega hér á blogginu og víðar og verð sífellt að ritskoða sjálfan mig til að gera mig ekki ótrúverðugan sem blaðamann og vanhæfan í of mörgum málum. Tel mig reyndar hafa farið yfir mörkin í sumum tilvikum og gæti því verið skotmark í sumum málaflokkum hvað umfjöllun varðar; ég hafi gert mig vanhæfan. Því jafnvel þótt ég rembist eins og rjúpan upp við staurinn við að starfa með óhlutdrægum hætti þá er ég sem blaðamaður veikur fyrir skotum á nokkrum sviðum vegna tjáningar minnar sem persónu, svo sem í trúmálum (vegna baráttu minnar fyrir aðskilnaði ríkis og kirkju) og jafnvel kannski í heilbrigðismálum (vegna eindreginnar gagnrýni minnar á niðurskurð á því sviði og biðlistana). Þá hef ég hikstalaust gert mig vanhæfan til að fjalla um Breiðavíkurmál sem blaðamaður með því að taka sæti í stjórn Breiðavíkursamtakanna. Um leið er ég hræddur um að ég yrði að taka með einhverjum fyrirvara umfjöllun Agnesar sem blaðamanns um tiltekin mál sem hún hefur tjáð sem mjög sterkt um sem álitsgjafinn og persónan Agnes. Og það er ekki gott því Agnes er góður og almennt trúverðugur blaðamaður, að líkindum einn af okkar allra bestu blaðamönnum. Hún verður að passa upp á að "kjafturinn" skaði ekki þann orðstír.

En allt þetta gildir ekki um þetta tiltekna mál Árna Johnsen. Meðal annars með í huga hvernig dómstólar hafa dæmt og skilgreint leyfilega gildisdóma þá fæ ég ekki annað sé en að málið sér gjörtapað fyrir Árna. Fyrir það fyrsta segir Agnes þarna almennt séð og yfirleitt bara það sem satt er og rétt. Árni var dæmdur fyrir glæpi, mútuþægni og umboðssvik. Hann iðraðist ekki eða hið minnsta mjög takmarkað. Árni ER "hálfgert stórslys" og (gjörðir hans) hneyksli. Ekkert í því sem Agnes sagði er beinlínis rangt og allt er það leyfilegur gildisdómur af gefnu tilefni. Ef Sigurður Líndal mátti ljúga upp á mig í skjóli leyfilegs gildisdóms má Agnes segja satt um Árna Johnsen. Það blasir við.

Jú, jú, oft má satt kyrrt liggja og ekki er beinlínis pent að sparka í liggjandi menn. En mál Árna Johnsen á einmitt ekki að liggja kyrrt og hann er allsendis ekki liggjandi maður. Árni gæti allt eins farið í mál við þá mörgu kjósendur sem strikuðu hann út af lista í síðustu þingkosningum - og tapað því máli jafn glæsilega.


mbl.is Agnesi Bragadóttur stefnt fyrir meiðyrði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Varst þú á Breiðavík?"

BreiðavíkÉg er í stjórn Breiðavíkursamtakanna (BRV), er ritari þeirra og gjarnan fundarstjóri og eitthvað sást ég tilsýndar í fréttum RÚV þegar greint var frá félagsfundi BRV og megnri óánægju félagsmanna með bótahugmyndir fyrirliggjandi frumvarpsdraga forsætisráðuneytisins. Þó var ég ekkert sérstaklega viðbúinn því þegar gamall vinur minn hringdi í mig og spurði hvort ég hefði verið á Breiðavík og væri að berjast fyrir bótum.

BRV voru á síðasta aðalfundi opnuð fyrir aðild allra áhugamanna um þessi mál; Breiðavík og önnur vistheimili hins opinbera og þá voru líka tilgangur og markmið samtakanna víkkuð út. Við þau tímamót voru "utanaðkomandi" stuðningsmenn kjörnir í stjórnina og þá meðal annars ég. Við þessir "utanaðkomandi" erum því fyrst og fremst að hjálpa til í sjálfboðaliðavinnu og erum aldeilis hvorki að falast eftir bótum eða öðrum greiðslum. Eins hygg ég að gildi um liðveislu Ragnars Aðalsteinssonar lögfræðings, þótt ég viti ekki fyrir víst hvort hann á endanum fái einhverjar krónur upp í t.d. kostnað við hina miklu vinnu sem hann er að inna af hendi fyrir samtökin.

Við erum sem sagt virkir áhugamenn um að þessi mál verði krufin til mergjar og gerð upp með mannsæmandi hætti fyrir þau fyrrum börn og unglinga sem sættu nauðung og harðræði á téðum vistheimilum. Og það undrar mig ekki að Breiðavíkurdrengirnir og önnur fyrrum vistbörn skuli reiðast og sárna vegna þeirra bótaupphæða sem frumvarpsdrögin forsætisráðherra gera ráð fyrir að óbreyttu. Formaður samtakanna, Bárður R. Jónsson, líkti þessum upphæðum við flatskjá eða örlítið betri notaðan bíl. Vitaskuld eru peningarnir ekki aðalatriðið og í raun verður skaðinn seint bættur. En bætur á að greiða og þær eiga að vera mannsæmandi og skipta einhverju máli fyrir líf þessa fólks. Þær verða að sönnu að gera líf þessa fólks bærilegra; auka lífsgæðin.

Er sómi af því að segja nú: Hérna er notuð meðalbifreið og vertu nú ánægð(ur)?

Samanburðurinn við bætur í kynferðisbrotamálum leiðir fyrst og fremst athyglina að því hversu þær bætur eru ömurlega lágar. Og raunar hef ég lengi talað um hversu trygginga- og bótalöggjöf á Íslandi er nánasarleg; virðist til muna hagfelldari gerendum og tryggingafélögum en þolendum. Ég segi alls ekki að "Ameríska kerfið" (í einkamálum) sé betra, en eitthvað má nú hífa þessar almennu bætur upp. Og í tilfelli Breiðavíkurbarna blasir við að ríki og sveitarfélög hér geta varla fundið sóma í því að gera til mikilla muna verr við þessi "börn" en Norðmenn gerðu í sambærilegum málum.

Við Kristín kynntumst því á eigin skinni hversu fáránlega lágar bætur á Íslandi geta verið. Þegar 17 ára sonur okkar dó vegna flugslyss taldi tryggingafélag viðkomandi flugfélags nóg að gert með 1.5 milljón króna greiðslu og þá að útfararkostnaði meðtöldum! Tryggingafélagið mat 17 ára einstaklinginn til um það bil 1.1 milljón króna. Tryggingafélagið hrósaði sjálfsagt happi að sonurinn var ekki í launaðri vinnu og var ekki með fjölskyldu á sínu framfæri; það dró verulega úr verðmæti hans að því er virðist. Og kannski hefur tryggingafélagið hrósað happi yfir því að sonurinn dó; því hefði hann lifað hefði hann búið við mikla örorku og þá hefði tryggingafélagið mátt greiða tugir milljóna. Okkur tókst nú að tosa bæturnar nokkuð upp, sem ekki breytir því, að tryggingafélagið taldi verðmæti drengsins dáins á við tveggja ára notaða Toyota-bifreið (á þeim tíma). Við okkur blasti það sama og blasir nú við Breiðavíkurbörnum: Peningarnir eru ekki aðalatriðið en þetta er beinlínis móðgun og löðrungur í ofanálag. Þetta er ekki mannsæmandi.

Fáránleikinn í tilviki frumvarpsdraganna áðurnefndu birtist meðal annars í þessu: Það hefur verið ákveðið að ættingjar (erfingjar) látinna Breiðavíkurbarna (sem mörg tóku eigið líf). Hvernig á að meta viðkomandi til stiga?

Það þarf að gera til mikilla muna betur en forsætisráðuneytið hefur að óbreyttu í hyggju. Viðbrögðin meðal almennings síðustu daga benda eindregið til að ráðuneytisfólk sé lokað inn í fílabeinsturni og skynji ekki hvernig staðan er. Þjóðin stendur eindregið með þessum fyrrum vistbörnum og hneykslast á nánasarskap stjórnvalda. Fjölmiðlafréttir og bloggfærslur benda eindregið til þess og athyglisvert að bæði Morgunblaðið og 24 stundir rita leiðara í þessa áttina í dag.  Forsætisráðuneytið er ósköp einmana í þessari umræðu og "leka"útspil forsætisráðherra honum ekki til sóma.


mbl.is Bæturnar hærri í Noregi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nefndir Alþingis opna sig fyrir almenningi

Þingmenn eru nú að ræða um stóriðju og virkjanir.Viðhengd frétt, um stuðning ríkisstjórnarinnar við álverið á Bakka, er einna merkilegust fyrir þær sakir að þar er hvergi minnst á Þórunni Sveinbjarnardóttur umhverfisráðherra, "grænasta" ráðherra ríkisstjórnarinnar. Lesandinn verður þá að gera ráð fyrir að Þórunn sé líka stuðningsmaður álversins, sem getur svo sem vel verið, en kemur þá áreiðanlega ýmsum á óvart.

Ekki kemur fram hvort Þórunn hafi verið fjarstödd viðkomandi utandagskrárumræðu eða einfaldlega ekki tekið til máls. Vitað er að einstakir ráðherrar hafa mjög ólíkar áherslur í þessum efnum og er ég viss um að fleiri en ég spyrji: "En hvað með Þórunni"? Hugsanlega vill hún ekki tjá sig opinberlega um afstöðu sína til álversins til að gera sig ekki vanhæfa ef og þegar kemur til úrskurðarmála síðar, en slík sjónvarmið hafa hins vegar ekki stöðvað ráðherrann frá eindreginni afstöðu gegn öðrum verksmiðjuáformum, um olíuhreinsistöð á Vestfjörðum.

Annars ætlaði ég miklu heldur að tjá mig um merkilega frétt á bls. 12 í Mogganum (pappírsútgáfu) í dag, en hana fann ég ekki hér á mbl.is. "Starfið í þingnefndunum opnað" segir í fyrirsögn og fram kemur sú tímamótaákvörðun að opna eigi fundi fastanefnda þingsins fyrir fjölmiðlum og almenningi. Raunar bara suma fundina og eftir geðþótta nefndarmanna, en mikilvægt skref hefur verið stigið engu að síður. Þingnefndafundir hafa fram að þessu farið fram fyrir luktum dyrum (stundum með fjölmiðlamenn hangandi fyrir utan). Nú er komin upp sú velþegna stefna að "almenningur hafi aðgang að meðferð mála hvað nefndirnar varðar" (segir Sturla Böðvarsson forseti Alþingis). Ég fagna þessari opnun, en vænti þess að allir eða flestir nefndafundir verði opnir. 


mbl.is Stjórnin styður álver á Bakka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

(Fyrrum) ritstjóri í valdsmannslegum vanda

Guðjón FriðrikssonÞað er ekki gott að vera Matti Joh í dag. Þessi fyrrum Moggaritstjóri er að birta gamlar dagbækur sínar á Netinu og þær virðast uppfullar af misáreiðanlegu slúðri. Og sýna ekki fyrst og fremst daglegt amstur ritstjóra heldur plottfundi og samtöl valdsmanns í samfélaginu. Meðal annars upplýsir Matti að Geir Hallgrímsson heitinn fyrrum forsætisráðherra hafi viljað gera Styrmir Gunnarsson Moggaritstjóra að formanni Sjálfstæðisflokksins!

Aftur á móti fjallar viðhengd frétt um ömurlega útreið Matta vegna dagbókarskrifa hans um Guðjón Friðriksson, þar sem Matti virðist hafa tileinkað sér einhverja slúðurkenningu um að Guðjón hafi farið illa með nemanda sem skrifaði ritgerð um Matta og ljóðin hans. Frásögn Matta virðist vera uppspuni frá rótum og Matti trúað því of auðveldlega að Guðjón hafi verið að "dissa" hann og ljóðin hans. Viðkomandi (fyrrum) nemandi getur ekkert staðfest af því sem Matti skrifaði og Guðjón virðist hvergi hafa komið nærri málum. Guðjón var hafður fyrir rangri sök.

En Guðjón gerir ólíkt Matta ekki of mikið úr sjálfum sér og "sættist" við fyrrum ritstjórans með því að fá að skrifa athugasemd við dagbókarfærsluna, raunar eftir að Matti baðst afsökunar. Kannski er það besta lausnin, nú þegar fyrir liggur og fólk veit að dagbókarfærslunum þarf að taka með fyrirvara.

Eðlilega kemur til umræðu hvort Matti hafi með þessari og fleiri birtum dagbókarfærslum sínum gengið í berhögg við siðareglur blaðamanna. Það er hægt að færa gild rök fyrir því að svo sé. Hins vegar sýnist mér vandséður tilgangurinn með því að láta á það reyna frammi fyrir siðanefnd. Aftur á móti eru fengin ágæt skólabókardæmi í þessu og fleiri dagbókartilvikum Matta Joh um áreiðanleika, traust og trúnað.


mbl.is Matthías Johannessen: Málið er úr sögunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ritstjórar eða stjórnmálamenn - það er spurningin

Alltaf er betur og betur að koma í ljós að fyrrum ritstjórar Morgunblaðsins til fjölmargra ára, Styrmir og Matthías, voru að minnsta kosti í jöfnum mæli ritstjórar og pólitíkusar. Í stað þess að vera varðhundar almennings gagnvart stjórnmálamönnum (eins og fjölmiðlungar eiga gjarnan að vera) voru þeir ekki síður varðhundar valdsins og gerendur í stórum og smáum málum.

Hvað voru menn eins og Davíð Oddsson, Halldór Ásgrímsson og Svavar Gestsson að gera á skrifstofum ritstjóranna og bera þar fram slúður og sleggjudóma sína? Ekki var það til að koma einhverju fréttnæmu á framfæri, því ekki var skrifað um það sem Matti nú segir frá. Eða hvað?

Dagbækur Matthíasar eru án efa forvitnileg lesning, en ekki sagnfræði. Sjálfsagt er þetta skemmtilegra en hans að mínu mati hrútleiðinlegu ljóð. En ef ég leggst í að lesa þetta, sem ég sjálfsagt verð að gera tilneyddur, þá les ég þetta ekki sem dagbók fjölmiðlamanns, heldur sem pólitískar bollaleggingar. Og tek innihaldinu með viðeigandi fyrirvara.


mbl.is Svavar dregur dagbækur í efa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Látið okkar kæra vin taka viðtalið

Grein Vals Ingimundarsonar í Mogganum í dag er holl lesning. Fólk ætti að eiga hana og geyma. Ekki síst áhugamenn um fjölmiðla og fréttamat, um hvernig utanaðkomandi öfl geta og reyna að stýra vinnubrögðum og áherslum fjölmiðla. Í þessu tilviki Bandarísk yfirvöld.

Samkvæmt Vali var Bandarískum yfirvöldum í mun að fá stuðning Íslands við innárásina í Írak. Fram kemur að útsendarar þeirra hafi nálgast bæði Styrmi Gunnarsson ritstjóra Morgunblaðsins og Boga Ágústsson fréttastjóra Sjónvarpsins og leitast við að fá rétta tegund af umfjöllun. Var boðið upp á viðtal við Colin Powell sem gulrót góðra samskipta og áhrifa - og jafnvel gengu Kanarnir svo langt að stinga upp á hvaða undirmenn (blaða- og fréttamenn) Styrmis og Boga ættu að taka hin eiginlegu viðtöl. Kanarnir voru augljóslega með sérlega vinveitta blaða- og frétamenn í huga. Því miður kemur ekki fram hverjir það voru sem þeir stungu upp á. Gaman væri að fá það fram, en það er samt önnur saga. Og auðvitað er snefill af möguleika að Kanarnir hafi ekki verið að hugsa svona heldur bara nefna þá sem þeir teldu hina faglegustu og færustu til verksins.

Blaða- og fréttamenn verða alltaf að hafa svona þrýsting á bak við eyrað (so to speak!). Að öðru leyti er umfjöllunin fyrst og fremst söguleg - og herinn sem betur fer löngu farinn. Halldór farinn og Davíð "farinn". Og stuðningur Íslands við Íraksstríðið enginn. Og Kanarnir og heimurinn bráðum loks (Hallelujah!) lausir við Bush. 


mbl.is Stuðningur við innrás lá fyrir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband