Færsluflokkur: Fjölmiðlar

Fróðlegur Kompás-þáttur um Hafskipsmálið

 Kompásþátturinn í kvöld um Hafskipsmálið var hinn fróðlegasti og flest í honum rímaði ágætlega við ritdóm minn og langa færslu á dögunum. Sérstaklega þetta með bókina hans Örnólfs Árnasonar sem Björgólfi þótti ekki nógu "góð". Reyndar hef ég bætt því við að Björgólfur ætti að snúa sér að öðru en Hafskip og það er nú aldeilis að reynast réttmæt ábending nú, þegar Björgólfsbanki riðar til falls (líklega kennir hann fjölmiðlum um það). 

Bók Örnólfs er önnur bókin sem telja má víst að Björgólfur gamli hafi ritskoðað með beinum hætti, en honum tókst ekki að kaupa dagblað til að leggja niður. Hvað um það; Kompás-þátturinn hafði sem betur fer nokkurn veginn réttan fókus; þar var fjölmiðlum og stjórnarandstæðingum ekki kennt um allt (Þótt Matti Bjarna vilji áfram vaða í þeirri villu), heldur sjónunum beint réttilega að "huldumönnunum": Loksins, loksins. Reyndar hefði mátt segja nánar frá en gert var hversu Hafskipsmenn sjálfir áttu sök að máli. En þarna mátti þó finna þefinn af, skulum við segja, trúlegri sökudólgum; Jóhannes Nordal leysir Halldór Halldórsson af, Hörður Sigurgestsson leysir Ólaf Ragnar af, Gunnlaugur Claessen leysir Jón Baldvin a, Markús Sigurbjörnsson leysir Svavar Gestsson af: aðalliðið er tekið við af varaliðinu. Eimskipafélagið og embættismenn sökktu Hafskip en ekki fjölmiðlar og stjórnarandstæðingar. Og ég held raunar að menn eins og Mattarnir Bjarna og Mathiesen hafi vitað meir um hvað var að gerast en þeir láta eða létu síðar uppi.

Ég vil sjá bókina eða handritið hans Örnólfs Árnasonar. Eftir Kompás-þáttinn getur Örnólfur ekki annað en upplýst um bókina eða helst gefið hana út einhvern veginn. Annars verður að draga þá ályktun að hann hafi, ótrúlegt nokk, verði keyptur til þagnar.

 

 

 


Uggvænlegar hræringar í fjölmiðlabransanum

fjölmiðlar í krísuÉg ætla rétt si svona að skrásetja eftirfarandi núna, sem ástæða er til að fjalla nánar um eftir svefn: Áhrifa greiðslustöðvunar Stoða (og hræringa þar á undan) er greinilega byrjað að gæta á fjölmiðlaflóru 365.

Fréttablaðið er horfið inn til Árvakurs (Moggans) og hliðarráðstafanir þess líta dagsins ljós fljótlega; Annað fríblaðið hlýtur að víkja. Fréttablaðið er sterkara "lógó" en 24 stundir. Líklega "sameinast" fríblöðin tvö og hagræðing mun vafalaust skila einhverju góðu fólki á götuna í atvinnumálum.

DV er augljóslega í hættu. Enn meiri hættu ef það blað fylgdi FBL yfir til Árvakurs, því Björgólfur kynni að hafa yfirþyrmandi áhuga á því að leggja blaðið niður. En blaðið er hugsanlega framarlega sem fórnarkostnaður hjá núverandi eigendum hvort eð er.

Ætli menn að baki Stoðum reyni ekki mest að halda í og starfrækja Stöð2-Bylgjuna.

Vona að þessir fjölmiðlar lifi af krísuna. Það væri afskaplega dapurlegt að missa kannski tvo fjölmiðla af þeim sem nú prýða fjölmiðlaflóruna. Við tæki einsleitari fjölmiðlaumfjöllun, meiri samþjöppun og minni samkeppni. Svona geta hlutirnir snúist við; það er ekki langt síðan maður hafði áhyggjur af því að Baugsmiðlaveldið ætlaði að sölsa Moggann undir sig.

Það er reyndar merkilegt að skoða eignasafn Stoða; maður spyr sig í ljósi ráðstafana á undanförnum mánuðum: Voru "fórnanlegar" eignir settar undir Stoðir en öðrum eignum komið í betra skjól?


Hver er besti blaðamaðurinn - eða týpan?

Nú hef ég sett inn þriðja hópinn í þríleik mínum - könnun á hver af nánar upptöldum blaða- og fréttamönnum lesendur bloggsins míns telja bestan eða þess konar blaða- og fréttamann sem næst kemst því að vera sú blaðamannstýpa sem mest höfðar til þeirra.

Eins og með síðasta hóp hef ég tekið þá sem urðu efstir af hópi 2 og bætt við nokkrum nýjum nöfnum til að mynda hóp 3, þann síðasta - úrslitahópinn. Óvísindaleg könnun, allt til gamans gert, og allt það. 

Kjósið endilega - það er gaman að kjósa og gagn af því! Já, ég veit að alltaf mætti hafa önnur nöfn þarna, en ég vona að enginn pirrist yfir því að ráði eða móðgist. Það er enginn stórisannleikur í þessu. Bara svona samkvæmisleikur meðan Róm brennur. 

Staðan í hópi 2 varð (efstu menn, 186 atkvæði):

Jakob Bjarnar Grétarsson 21,0%

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir 12,4%

Bogi Ágústsson 11,3%

Björg Eva Erlendsdóttir 9,7%

Sigmar Guðmundsson 9,7%

 

  Jakob Bjarnar er mun virtari og þekktari blaðamaður en ég hafði gert mér í hugarlund! Helvíti gott hjá honum. Vona að flutningurinn til Árvakurs leggist sæmilega í hann.

Viðbót 4. október;

Lokastaðan í könnuninni (8 efstu):

Af eftirtöldum, hver finnst þér besti blaða- og fréttamaðurinn?

 

Bogi Ágústsson (RÚV-Sjónvarp) 13.8%

Broddi Broddason (RÚV-Útvarp) 13.5%

Agnes Bragadóttir (Mogginn) 12.9%

Jakob Bjarnar Grétarsson (Fréttablaðið) 10.6%

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir (mbl.is) 10.0%

Björg Eva Erlendsdóttir (24 stundir) 8.5%

Sigmar Guðmundsson (RÚV-Sjónvarp) 7.4%

Andrés Magnússon (Viðskiptablaðið) 5.3%

340 svöruðu.

 

 Jakob byrjaði með gusti en sprengdi sig fyrir lokasprettinn. Þá náðu Bogi, Broddi og Agnes að sigla fram úr spútnikkinum. Þetta er annars geysilega flott blanda af blaða- og fréttamönnum. Til lukku Bogi (þótt um óvísindalega könnun sé að ræða).


Lækka ofurlaun forstjóranna?

 Þorsteinn Már Baldvinsson, stjórnarformaður Glitnis, og...

Í fréttum af björgunaraðgerðum yfirvalda Bandaríkjanna kom fram hjá Nancy Pelosi þingforseta að í sérsmíðuðu lagafrumvarpi þar að lútandi væri meðal annars gert ráð fyrir því að snarlækka laun toppa þeirra fjármálafyrirtækja sem verið væri að bjarga með almannafé.

Sukkinu er lokið, heyrði maður í undirtóninum; þið lækkið í launum og þeir sem vilja hætta fá enga væna starfslokasamninga. 

Ég bíð eftir slíkum upplýsingum frá fjölmiðlum sem þeir hafa eftir landsfeðrunum hér, sem eðli málsins samkvæmt eiga að teljast samfélagslega sanngjarnari en kollegarnir fyrir vestan.

Til skoðunar hlýtur að koma hvort ekki eigi að rifta starfslokasamningum fyrri bankastjóra sem ósanngjörnum og óréttmætum; þ.e. að þeir hafi tekið mið af árangurstengingum. Það hefur vissulega gengið bærilega hjá bönkunum undanfarin ár, með útrás erlendis og okri innanlands. En stoðirnar voru þá ekki styrkari en þetta. Við fyrsta andstreymi hrundi spilaborgin. Og þá var orgað eftir skjóli hjá Hinu Opinbera. Skattgreiðendum. 

 


mbl.is Ríkið eignast 75% í Glitni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Löggan heltekin af slagsmálum?

 Jóhann R. Benediktsson

Viðtalið við Jóhann R. Benediktsson, fráfarandi lögreglustjóra á Suðurnesjum er kostulegt og hressandi að fá upplýsingar um það í gegnum fjölmiðla hvernig ástandið er. Lýsingar á því hvernig menn skulu þéra og bukta sig og beygja í námunda við Björn dómsmálaráðherra og gott ef ekki Harald ríkislögreglustjóra eru grátbroslegar. Svo er að heyra að Björn og Haraldur lifi og starfi í fílabeinsturni. Skrifast áreiðanlega á með Zetu.

Það er sjaldgæft að fá svona "veislu" um rannsóknar- og ákæruvald þjóðarinnar og réttarkerfið yfirleitt og það frá topp-rannsakanda. Venjulegir embættismenn segja ekki múkk og storka ekki ráðherrum. Ég er viss um að víða sé að finna hundsvekkta embættismenn sem dauðlangar til að tjá sig, en gera það ekki.

Í tilefni nýrrar bókar um Hafskipsmálið dettur mér enda í hug að ýmsir af þeim tugum embættismanna réttarkerfisins og sérfræðingar á þeim vegum sem eiga að hafa hundelt Hafskipsmenn og bankamenn og Baugsmenn sömuleiðis fari nú brátt að öðlast dirfsku til að standa upp og rífa kjaft, eins og Jóhann. Menn sem hafa ekki sett fram sína sýn á Hafskipsmálið eins og Hallvarður Einvarðsson, Jónatan Þórmundsson, Ragnar H. Hall, Páll A. Pálsson, Markús Sigurbjörnsson, Þórir Oddsson, Bragi Steinarsson, Gestur Jónsson, Jóhann H. Níelsson, Viðar Már Matthíasson, Jón Þorsteinsson, Valdimar Guðnason, Jón Skaftason, Atli Hauksson og Stefán Svavarsson (biðst afsökunar ef einhverjir þarna eru látnir). Kannski eru margir þessara manna bundnir þagnarskyldu og telja sig ekki getað tjáð sig og á meðan koma söguskýringar aðallega úr einni átt.

Um leið og ég las viðtalið sá ég líka fyrir mér fína klósettið með gull-zetuna frá tíð Sólveigar í ráðuneytinu. Fjölmiðlar mega gjarnan fiska upp og veita almenningi upplýsingar um þennan furðuheim Fílabeinstirninga. Að vísu gætu þeir fengið á sig ásakanir um "ofsóknir" og "fjölmiðlafár", en sú hætta er alltaf fyrir hendi.


mbl.is Lögregla í sandkassaleik
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Falin myndavél, fjölmiðlar og friðhelgin

Þegar metnar eru þær skorður sem friðhelgi einkalífs setur tjáningarfrelsinu skiptir grundvallarmáli hvort hið birta efni, myndir eða texti, geti talist þáttur í almennri þjóðfélagsumræðu og eigi þannig erindi til almennings.Í Bubbamálinu var ekki talið að leynileg myndataka af honum reykjandi í bíl sínum ætti erindi til almennings sem liður í slíkri umræðu. Nú er tekist á um það hvort "Benjamínsmál" Kompáss varði almenning það miklu að tjáningarfrelsið trompi friðhelgina.

Í Kastljósi í gærkvöldi tókust lögmenn Kompáss og Benjamíns þessa, meints handrukkara, á um þessi mörk og verður fróðlegt að fylgjast með umfjöllun dómstóla og niðurstöðunni. Fjölmiðlar um heim allan nota óhefðbundnar aðferðir við upplýsinga- og myndaöflun. Í sinni ýktustu mynd eru "Papparassa" ljósmyndarar á ferð, en þeir eru hvorki gott dæmi né fyrirmynd við mat á gildi óhefðbundinna aðferða, því ég er að tala um upplýsingaöflun um mál sem sannanlega varða almenning miklu (en ekki hvað fyrirfólk og stjörnur eru að gera í einkalífi sínu). 

Í þessu máli takast á tjáningarfrelsið og friðhelgi einkalífsins og stóra spurningin er hvort málefnið uppgefna - handrukkarar - sé það brýnt fyrir almenning og umræðuna að upplýsingaöflun með óhefðbundnum hætti sé réttlætanleg og óumflýjanleg.

Nefna má í þessu sambandi mál sem fór fyrir siðanefnd Blaðamannafélags Íslands fyrir nokkrum árum; myndataka og umfjöllun "Ísland í bítið" um erótíska nuddkonu. Hin leynilega myndataka var talin réttlætanleg af siðanefndinni. Hún sagði: "Siðanefnd er sammála lögmanni kærenda um að að öðru jöfnu hefðu hin óhefðbundnu vinnubrögð við efnisöflun hjá kærendum getað falið í sér brot á siðareglum BÍ. Á hinn bóginn ber að líta til þess að um er að ræða starfsemi sem erfitt er að afla upplýsinga um en óhjákvæmilega kallar á umfjöllun fjölmiðla, starfsemi þar sem ólíklegt var að hefðbundin vinnubrögð fréttamanns hefðu skilað fullnægjandi árangri". 

Reyndar "brenglaði" Ísland í bítið myndir og hljóð hvað nuddkonuna varðar en Kompás ekki, en grunnur afstöðu siðanefndar lá þó í mikilvægi málefnisins og því að hefðbundnar leiðir til upplýsingaöflunar væru erfiðar ef ekki ómögulegar.

Hugleiða má hvort Kompáss hefði átt að "brengla" myndina af handrukkaranum meinta og þá nefna ekki nafn hans, en ég hygg að vegna aðdraganda málsins og umfjöllunar annarra þá hafði það ekki endilega verið raunhæft eða þjónað tilgangi lengur. 

Ég hygg að í grundvallaratriðum hafi Kompáss-aðferðin verið réttlætanleg (að því gefnu að umsjónarmenn voru ekki að leikstýra atburðarásinni). Umræða um ofbeldi og handrukkun er brýn fyrir almenning og hefðbundnar aðferðir ekki auðsóttar.


mbl.is Starfar ekki lengur hjá World Class
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hafskip: Sagan sem ekki er sögð (seinni hluti)

Í fyrri hluta færslunnar um Hafskipsbókina benti ég á þann óplægða akur Hafskipsmálsins, sem er hlutur ríkjandi stjórnvalda (og ríkjandi viðskiptavelda) í því hvernig fór. Dr. Gunnlaugur Þórðarson benti réttilega á að "opinbera rannsóknarvaldið" væri "angi af framkvæmdavaldinu" (bls. 123). Með öðrum orðum voru þeir allir fulltrúar framkvæmdavaldsins, embættismennirnir og sérstaklega ráðnu sérfræðingarnir sem komu að rannsókn Hafskipsmálsins.

Þetta voru menn á borð við Þórð Björnsson, Hallvarð Einvarðsson, Jónatan Þórmundsson, Þórir Oddsson, Braga Steinarsson, Jón Skaftason, Ragnar H. Hall, Markús Sigurbjörnsson, Gest Jónsson, Jóhann H. Níelsson, Viðar Má Matthíasson, Símon Á. Gunnarsson, Valdimar Guðnason, Jón Þorsteinsson og marga, marga fleiri. Samkvæmt hinni hefðbundnu söguskýringu hlupu allir þessir menn fyrst og fremst eftir "æsifréttum" fjölmiðlanna og lykilræðum stjórnarandstæðinga. Samkvæmt þessari hefðbundnu söguskýringu höfðu yfirmenn þeirra (ráðherrarnir, ríkisstjórnin) engin áhrif á áherslur þeirra eða aðgangshörku. Ráðherrar gáfu samkvæmt þessu enga heimild fyrir því að embættismennirnir tjáðu sig frjálslega í fjölmiðlum eða beittu hörðustu aðferðum við handtökur og þar fram eftir götunum. Við sem þekkjum ráðherrasögu þjóðarinnar hljótum að lyfta brúnum. Eitt símtal eða spjall við forsætisráðherra eða dómsmálaráðherra hefði dugað til að stöðva yfirlýsingar og taka upp mildari meðferð á meintum sakamönnum. Það eitt að t.d. Hallvarður Einvarðsson eða skiptaráðendurnir voru ekki "mildaðir" eða beinlínis þaggað niður í þeim segir mér heilmikla sögu, þekkjandi ráðherraræðið á Íslandi.

Sama á við um það þegar forráðamenn Hafskips voru handteknir og færðir í gæsluvarðhald og fyrir dómara, gjarnan með blaðamenn mætta og sjónvarpsvélar í gangi. Ég get tekið heilshugar undir að þetta voru að því er virðist allharkalegar og óþarflega grófar aðgerðir. Mér finnst mjög freistandi að ætla að slík aðferðarfræði hafi verið borin undir æðstu ráðamenn. Sem þá lögðu sína blessun á hörkuna. Ég get ekki séð að það sé óleyfileg ályktun að gefnum tilefnum. Hins vegar finnst mér ekki mikið um kvartanir yfir einangruninni og aðbúnaðinum í gæsluvarðhaldinu; þá meina ég að þetta var sá aðbúnaður sem öðrum grunuðum mönnum var boðið upp á og því ekki nema réttmætt að "hvítflibbar" sætu við sama borð og ófínari menn. Annað hvort allir eða enginn! Og annað hvort voru lagafyrirmæli um að grunaðir menn ættu rétt á að lögmenn þeirra væru viðstaddir yfirheyrslur, eða ekki.

Réttarkerfið í heild sinni var hannað og mannað af Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum og tengdum öflum. Allir þræðir þar voru á höndum þessara aðila. Þar og í samfélaginu öllu, ekki síst í viðskiptunum, ríki helmingaskipta-andinn. Helmingaskiptaflokkarnir voru við völd og skipafélög "þeirra" voru annars vegar Eimskip og hins vegar skipadeild SÍS. Hafskip var óþægur þriðji aðili. Tengdur Alberti Guðmundssyni og öðrum sjálfstæðismönnum, sem ekki voru innvígðustu og innmúruðustu forsprakkar flokksins. Albert var ekki í uppáhaldi hjá Valhallarklíkunni, flokkseigendafélaginu. Margir sjálfstæðismenn vildu áreiðanlega koma höggi á hann. Þeirra á meðal slíkir menn innan Kolkrabbans. Ég veit ekkert um ónafngreinda heimildamenn HP og annarra fjölmiðla eða "lekendur" gagna. Veit að þeirra á meðal voru óánægðir starfsmenn Hafskips (Gunnar Andersen, Björgvin Björgvinsson og sjálfsagt fleiri). Veit ekki hver"Jón "Deep throat" Jónsson" var. Veit bara að ég tel fulla ástæðu til að álykta að meðal heimildamanna fjölmiðla hafi innmúraða menn verið að finna.

Er eitthvað óeðlilegt við það að telja meiri líkur á því en minni að lykilmenn í Sjálfstæðisflokknum og Kolkrabbanum hafi komið duglega að "upphafi og endalokum" Hafskips? Ekki virðast þeir a.m.k. hafa lyft litla putta til að bjarga skipafélaginu og Alberti; Geir Hallgrímsson, Matthías Á. Mathiesen, Matthías Bjarnason, Sverrir Hermannsson, Ragnhildur Helgadóttir, Þorsteinn Pálsson og forystumennirnir í þingliðinu.  Það segir mér heilmikla sögu, þekkjandi ráðherraræðið á Íslandi.

Í þessu sambandi er mjög fróðlegt að lesa í bókinni hvar Hafskipsmálinu er líkt við Baugsmál nútímans. Þar er talað um þann kjarna að ráðist hafi verið að fyrirtæki með offorsi, en þegar upp var staðið hafi sakarefni flestöll gufað upp. Í þessu sambandi er það ekki síst athyglisvert (sem ekki er gert neitt úr í bókinni) að í Baugsmálinu var rannsóknar- og ákæruvaldið sagt stýrast af hatursfullu framkvæmdarvaldinu - en í Hafskipsmálinu á rannsóknar- og ákæruvaldið að hafa stýrst af fjölmiðlum og stjórnarandstæðingum! 

Sagan um aðkomu Valhallar, helmingaskiptastjórnarinnar og Kolkrabbans er ósögð. Bókin ætlaði sér ekki að segja þá sögu og það kemur hreinskilnislega fram.

Mig langar til að nefna þá hugleiðingu bókarinnar að ef til vill hafi Hafskip alls ekki verið gjaldþrota. Mér dettur ekki í hug að halda því fram að Hafskip hafi óhjákvæmilega orðið að fara í gjaldþrot. Hins vegar blasir við að fyrirtækið var í gríðarlegum vanda (N-Atlantshafssiglingarnar, gengisþróunin, lítið eigið fé, rekstur Eddunnar, verkfall BSRB, missir flutninga fyrir Varnarliðið og áfram mætti telja). Fyrstu fréttir fjölmiðla snérust einkum um þessa erfiðleika (í frásögnum sem líkja má við fréttir núdagsins um fyrirtæki í erfiðleikum). Ekki fer á milli mála að róinn var lífróður hvað sem aðkomu fjölmiðla og stjórnmálamanna líður. Það var verið að reyna að bjarga "sökkvandi" fyrirtæki og til þess voru viðræður við Eimskip og SÍS (meðal annars að kröfu Útvegsbankans). Kannski hefði verið unnt að forðast gjaldþrot, en upp úr þeim reddingum hefði aldrei komið eiginlegt Hafskip. En Hafskip fór í gjaldþrot - og það var að kröfu lánadrottna (ekki fjölmiðla eða stjórnarandstæðinga). Og það voru til eignir, vissulega; en að tala um að 70% hafi fengist upp í kröfur er MJÖG villandi (og allar framsettar tölur á þáverandi verðlagi, en ekkert framreiknað og það finnst mér mjög miður). Því þá eru menn að bera saman kröfur í búið frá ársbyrjun 1986 (á verðlagi þá) og síðan innkomnar tekjur við skiptalok árið 1993. Þá eru menn ekki að taka með í reikninginn verðþróun í 7-8 ár. Á þetta benti skiptaráðandi með óbeinum hætti þegar hann mat að um 20% hefðu fengist upp í kröfur. En um þessar reiknikúnstir er óþarfi að fjölyrða meira að sinni.

(ATH. Hér felli ég niður smá kafla vegna réttmætrar athugasemdar frá Stefáni Gunnari; misskilningur sem hann segir kannski megi rekja til þess að hann hafi ekki verið nægilega skýr í umræddum tilvitnuðum texta)

Ég vil ekki gera lítið úr áhrifamætti fjölmiðla þess tíma. Í bókinni liggja ALLIR fjölmiðlar landsins undir ámæli, sumir í stórum stíl. Auðvitað gera fjölmiðlar mistök; villur og ónákvæmni eru þar daglegt brauð (í mismiklum mæli). Það gilti þá og gildir enn. Fjölmiðlar voru þá og eru nú undirmannaðir, hjá þeim ríkir oftast vinnuálag og tímaþröng, fjármagnsskortur og takmörkuð sérhæfing. Blaðamenn geta undir þessum kringumstæðum ekki alltaf varast gögn og heimildir sem varasamar geta reynst. Fjölmiðlar voru þannig örugglega ekki saklausir af mistökum á sínum tíma og þeir eru ekki saklausir í dag. Áfellisdómur um fjölmiðla í Hafskipsmálinu er því ekkert síður áfellisdómur yfir þá í dag vegna annarra mála. Þeir eiga áreiðanlega eftir að fá á sig ákúrur vegna umfjöllunar um t.d. Eimskip, XL og fleiri slík mál. Við skulum hafa það á bakvið eyrað. Það er voðalega auðvelt að taka við þeirri ábendingu höfundar bókarinnar (bls. 58) að fjölmiðlar hafi í Hafskipsmálinu átt að vera hófstilltari og ekki vera með upphlaup og ásakanir. Stjórnarandstæðingar hvers tíma geta líka auðveldlega tekið við slíkum hollráðum og fundist þau réttmæt.

Niðurstaða: Bókin er prýðilegt yfirlit yfir það sem áður hefur komið fram, en veltir engum steinum og skilur fjölmargar spurningar eftir ósvöruðum. Í bókinni er prýðilega skýr en hlutdræg lýsing á atburðarás, en stórir þættir verða útundan.

p.s. Margt fleira mætti segja og kannski nýtast athugasemdaumræður í það. Ef einhverjar umræður þá vakna. Mér sýnist reyndar ekki mikill áhugi ríkjandi á málinu, en sjáum til.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Hafskip: Sagan sem ekki er sögð (fyrri hluti)

Bók Stefáns Gunnars Sveinssonar um Hafskipsmálið er hið þokkalegasta YFIRLIT yfir "Hafskipsmálið" svokallaða. Aðal ókostur bókarinnar felst þó kannski einmitt í því að hér er eingöngu um yfirlit að ræða - engum steinum er velt, engin ný gögn til staðar eða sannanir. Höfundurinn getur þess enda skilmerkilega að hann hafi verið beðinn um að gera yfirlit og "skýra allt það sem áður hefur komið fram" um málið (feitletrun mín).

"Hlutlægni má hins vegar krefjast af fræðimönnum, ekki síst þegar þeir koma fram á opinberan ritvöll".

 Sagði Ragnar heitinn Kjartansson í Morgunblaðinu 3. júlí 1991. Þremenningarnir frá Hafskip, sem eru verkbeiðendur Stefáns Gunnars, eiga samkvæmt Stefáni Gunnari ekki á nokkurn hátt að hafa reynt að hafa áhrif á skrif hans og ætla ég ekki að efa það. Stefán segir hins vegar heiðarlega og hreinskilnislega að hann sé ekki hlutlaus í (fræði)skrifum sínum og tiltekur að hann hafi samúð með Hafskipsmönnum, verkbeiðendunum. Bókin ber enda þess greinilegt vitni; atburðarásinni er stýrt yfir í óhjákvæmilega samúðarfulla niðurstöðu. Í stuttu máli að svo gott sem ALLIR hafi verið vondir við Hafskipsmenn og Útvegsbankastjóra og þeir sjálfir einir haft rétt fyrir sér, fyrir utan nokkrar samúðarfullar raddir sem studdu þá eftir allt bramboltið.

Í þeim tveimur ritdómum sem birst hafa um bókina um og eftir helgi (sem ég hef  séð) er bent á það sama og ég hugsaði við lesturinn og eftir hann: Þarna er sagan alls ekki öll sögð. Páll Baldvin Baldvinsson segir þetta efnislega í Fréttablaðinu fyrir helgi og Jón Þ. Þór segir þetta í DV í dag:

"Stefán rekur upphafið með hefðbundnum hætti til frétta- og greinaskrifa í Helgarpóstinum og sýnir síðan hvernig málið vatt smám saman upp á sig. Þetta er hin hefðbundna skýring og henni get ég ekki hafnað með rökum. Ég á hins vegar afar erfitt með að trúa því, að tiltölulega lítið vikublað (sem ekki naut sérlega mikils álits á sínum tíma) hefði eitt og sér getað valdið öllum þessum óvinafagnaði. Það hljóta önnur og sterkari öfl að hafa staðið að baki. Mörgum fleiri spurningum er ósvarað að lestri loknum og víst er að hér eru mörg rannsóknarefni", segir Jón í DV-ritdóminum í dag.

 Nákvæmlega. Mér dettur ekki í hug að skrif Helgarpóstsins (HP) (sem nær eingöngu voru skrif Halldórs Halldórssonar) hafi ekki haft áhrif, þó nú væri. En mér finnst þessi "hefðbundna" skýring ekki halda vel vatni, að benda fyrst og fremst á Helgarpóstinn og aðra fjölmiðla og síðan gera ógnarmikið úr þætti stjórnarandstöðuþingmanna,einkum Ólafs Ragnars Grímssonar, Jóns Baldvins Hannibalssonar og Svavars Gestssonar.

Þannig kýs höfundur að líta á upphaf og að stórum hluta endalok Hafskipsmálsins: Skrif í HP og öðrum fjölmiðlum og ákveðnar ræður ofangreindra þingmanna. En það vantar gjörsamlega inn í þetta mikilvæga vídd og það eru rannsóknarefnin sem Jón talar um. Þessi söguskýring gengur út frá því að fjölmiðlar og þingmenn í stjórnarandstöðu-minnihluta hafi haft úrslitaáhrif á hvernig fór. Að allra helst hafi orð þessara aðila haft áhrif á embættismenn og aðra rannsakendur á sínum tíma. Með öðrum orðum að HP og aðrir fjölmiðlar og ÓRG og félagar hafi drifið rannsakendur og saksóknarana til offors og æðis.

Víddin sem vantar (en er þó imprað á nánast innan sviga) er þessi: Að völdum sat ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Þessir flokkar höfðu framkvæmdavaldið og yfirmenn embættismanna réttarkerfisins voru undirmenn ráðherra þessara flokka. Jón Helgason var dómsmálaráðherra en ekki Ólafur Ragnar Grímsson. Steingrímur Hermannsson var forsætisráðherra en ekki Jón Baldvin Hannibalsson. Matthías Á. Mathiesen og síðar Matthías Bjarnason voru ráðherrar bankamála, en ekki Svavar Gestsson. Albert Guðmundsson og síðar Þorsteinn Pálsson voru ráðherrar fjármála, en ekki Guðmundur Einarsson. Að völdum sat "helmingaskiptastjórn" þeirra flokka sem um áratugaskeið höfðu mannað yfirmannastöður réttarkerfisins "sínum" mönnum. Þessir menn höfðu auðvitað, ef einhverjir, úrslitaáhrif á áherslur og kraft opinberrar rannsóknar á Hafskipsmálinu. Jú, jú, rannsakendur og saksóknarar áttu og eiga að vera sjálfstæðir, en bein og óbein áhrif yfirboðaranna í ráðherrastólunum eru borðleggjandi Íslenskt einkenni og hefur verið alla tíð.

En samkvæmt bókinni og hinni hefðbundnu söguskoðun þá hlupu embættismennirnir, undirmenn ráðherranna, fyrst og fremst eftir duttlungum fjölmiðlanna og (lítilvægra) þingmanna í stjórnarandstöðu. Ráðherrum framkvæmdarvaldsins er að flestu leyti lýst sem áhrifalausum og hjálparvana áhorfendum. Fjölmiðlaumfjöllun hafði örugglega áhrif á almenningsálitið og ræður stjórnarandstöðuþingmanna kunna að hafa verið óþægilegar í sameiningaviðræðum við Eimskip, jafnvel rýrt eignir Hafskips óbeint, en hvað voru valdamennirnir við kjötkatlana að gera?

Menn geta spurt sig: Gátu ráðherrarnir imprað á því við rannsakendur og saksóknara að annað hvort gæta hófs við meðferð málsins - eða beitt fullri hörku? Við skulum ekki gleyma því að það var umfram allt stjórnarmeirihlutinn sem setti á laggirnar sérstaka rannsóknarnefnd þingsins til að fara í saumana á málinu. Í bókinni eru miklu varpað yfir á þessa nefnd.

Imprað er á innanflokksátökum innan Sjálfstæðisflokksins. Talað um öfl þar sem vildu "klekkja á Alberti". Þessum steini er þó ekki velt, bara lyft pínulítið. Og öðrum stórum steini er bara alls ekki lyft, hvað þá velt: Hver var hlutur Eimskips í atburðarásinni? Hafði "Kolkrabbinn" engin úrslitaáhrif á það hvernig fór? Ég leyfi mér að efast um að "Kolkrabbinn" hafi verið aðgerðarlaus og tel mér óhætt að fullyrða að hann hafi einmitt verið í góðu sambandi við lykilmenn hjá framkvæmdarvaldinu. Og jafnvel hjálpað við að koma upplýsingum til fjölmiðla (ég var blaðamaður á HP 1986 og 1987 en veit alls ekkert um heimildarmenn Halldórs ritstjóra umfram þá sem nafngreindir voru og kom ekkert að skrifunum sjálfum - þau voru alfarið á borði HH lengstum). Þessi saga er ósögð og höfundi þessarar bókar var ekki ætlað að segja hana.

Að rekja upphaf og að stórum hluta endalok Hafskipsmálsins til fjölmiðla og stjórnarandstæðinga er ákveðið sjónarhorn. Það er sjónarhorn þar sem kosið er að horfa framhjá veigamiklum breytum. Má ekki tala um upphaf og endalok í öðrum atriðum: Í gífurlegum rekstrarerfiðleikum Hafskips, í Norður-Atlantshafssiglingunum ("heljarstökk út í óvissuna"), til reksturs Eddunnar með Eimskip, til þess að árið 1984 var ár mikilla áfalla í skiprekstri almennt, til síðharðnandi samkeppni skipafélaganna, til aðgerðarleysis Útvegsbankans í eftirliti sínu með þessum viðskiptavini, til "þungs hugar" starfsmanna Hafskips á borð við Gunnars Andersen og Björgvins Björgvinssonar, til þess er stjórn SÍS hafnaði sameiningu við Hafskip eða til þess er Eimskip setti "óskiljanlega" fyrirvara við sameiningu við sig? Og auðvitað til þess að framkvæmdavaldið kom ekki til bjargar?

(hér verð ég af óviðráðanlegum ástæðum að stoppa í bili. Sé ekkert því til fyrirstöðu að birta það sem komið er, en skelli mér í niðurlagið síðar í dag)


Hafskip: Rannsakandi með ákveðnar skoðanir

 Forsíða bókarinnar.

Viðbrögð við þessari frétt Morgunblaðsins hljóta að vera blendin og vitaskuld þurfa forvitnir að lesa bókina. Ég velti fyrir mér orðunum sem höfð eru eftir verktakanum, Stefáni, að hann "hafi ákveðnar skoðanir á viðfangsefninu sem hann telji að ekki eigi að leyna". Hvað þýðir það? Eins veltir maður fyrir sér hvaða gildi það hefur þegar "verkbeiðendurnir" (kostunarmenn bókarinnar) byðja verktakann að vera hlutlægur - svona ríkir og áhrifamiklir menn.

Notabene ég er ekki að draga fagmennsku verktakans í efa; ég þarf auðvitað að lesa bókina.  Ég vona svo sannarlega að verktakinn taki ekki þátt í því að skrifa Íslandssöguna eftir fyrirfram gefinni forskrift (ég leyfi mér að ganga út frá því að svo hafi hann ekki gert). En ár eftir ár hafa Hafskipsmenn, verkbeiðendurnir, unnið að því að breyta Íslandssögunni hvað Hafskipsmálin varðar. Til dæmis með villandi samanburði á kröfum og eignum hvað gjaldþrot Hafskips varðar.

Hitt er annað mál að ég treysti rannsakendum yfirvalda ágætlega til að klúðra rannsóknum, nálgast þær með hlutdrægum hætti, fara offari á köflum og ég treysti stjórnmálamönnum allveg til að fara framúr sjálfum sér í málflutningi. Ég treysti stjórnmálamönnum og forsprökkum Eimskipafélags "Kolkrabbans" fullkomlega til að eiga stóran þátt í örlögum Hafskips. En ég treysti líka "verkbeiðendum" allveg til að breyta gangi sögunnar. Einhverjir þeirra hafa ritskoðað og lýst yfir vilja til að kaupa fjölmiðil gagngert til að leggja hann niður. Ég nefni engin nöfn!

Ég sakna eins í þessari frétt Moggans; fram kemur að "verkbeiðendur" hafi beðið verktakann Stefán sérstaklega um að rannsaka "þátt fjölmiðla" í Hafskipsmálinu. Í frétt þessari kemur ekkert fram um "þátt fjölmiðla". Þetta vantar í fréttina. Kannski var þáttur fjölmiðla ekki svo mikill, umfram það að segja fréttir af málinu? Þarna er fyrst og fremst lýst aðkomu lögreglurannsakenda og stjórnmálamanna.

En ég þarf auðvitað að lesa bókina.

ATH NÝ SKOÐANAKÖNNUN UM FORSTJÓRA SJÚKRATRYGGINGASTOFNUNAR HÉR TIL HLIÐAR 


mbl.is Rannsókn Hafskipsmáls gagnrýnd í nýrri bók
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góður og slæmur samruni hjá RÚV

 Óðinn Jónsson ræðir við fréttamenn eftir starfsmannafund RÚV í dag.

Samruni fréttastofa RÚV, Sjónvarps og Útvarps, kemur í sjálfu sér ekki á óvart og þarf alls ekki að vera óskynsamleg ráðstöfun. Sérstaklega ekki ef fréttaflutningur og úrvinnsla getur styrkst enn meir hjá þessum fréttamiðlurum, sem almenningur taldi fyrir að væru hinar virtustu og traustustu í landinu. Kostirnir verða vonandi ofan á, en gallar eru fyrir hendi.

Stærsti gallinn er auðvitað sá að nú fáum við áhorfendur/áheyrendur/lesendur einni sjálfstæðri ritstjórn færri að moða úr. Þótt þessar fréttastofur hafi verið náskyldar og oft samráð þar á milli, þá var líka samkeppni á milli þeirra, holl samkeppni og metnaður að vera á undan og með betri fréttir en kollegarnir á hinum enda gangsins. Líklegir og mögulegir kostir geta að sönnu vegið þetta upp, þ.e. ef markmið Páls Magnússonar og félaga er ekki beinlínis það eitt að spara pening og þess vegna draga úr metnaði við upplýsingaöflun og úrvinnslu. Raunar á ég bágt með að trúa því að á þeim vettvangi verði skorið meira niður eftir hreinsanirnar við OHF-væðinguna og uppsagnir í maí og júní. Eftir slíkar hræringar væri beinlínis siðlaust að nota þennan samruna til annars en að stórefla fréttaþjónustuna og tryggja áfram virðinguna og traustið.

Ekki vil ég mikið segja um að Óðinn Jónsson hafi frekar en Elín Hirst verið valinn til að verða fréttastjóri nýju sameinuðu fréttastofunnar. Þekki þau bæði bara af góðu einu faglega séð. Elín er sjálfsagt ekkert of hress með þetta, en ég held að hún standi traustum fótum eftir sem áður.

ATH NÝ SKOÐANAKÖNNUN UM FORSTJÓRA SJÚKRATRYGGINGASTOFNUNAR HÉR TIL HLIÐAR


mbl.is Fréttastofur RÚV sameinaðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband