Færsluflokkur: Fjölmiðlar
25.10.2008 | 17:23
Lekinn og auma Breska ljónið
Birting Kastljóss á samtali fjármálaráðherranna Darlings og Árna Matt var stórkostlegur viðburður, bæði pólitískt og í fjölmiðlasögunni. Gjörbreytti stöðunni í "kalda stríðinu" milli Íslands og Bretlands. Eins og venjulega er sumum meira umhugað um hver hafi lekið en um efnivið lekans, en við því er að búast. Kvörtun Breta yfir lekanum er hins vegar ákaflega grátbrosleg.
Geir Haarde hefur greint frá þessari kvörtun Bretanna og virtist taka mátulegt mark á þeirri armæðu. Enda er það með ólíkindum fífldjarft að kvarta yfir lekanum eftir að þeir höfðu notað samtalið til að setja hryðjuverkalögin á Ísland. Mér finnst það raunar lítt skiljanlegt af hverju einhver þurfti að leka; af hverju þessu samtali var ekki varpað formlega út af stjórnvöldum hér strax eftir hryðjuverkalögin fyrir tveimur vikum eða svo. Kannski vildu menn passa upp á einhverja diplómatíu fyrst von var á Breskri sendinefnd til Íslands að ræða málin, en það er linkindarleg tillitsemi.
Mér er alveg sama hver lak þessu. Menn eins og Björn Bjarnason og Össur Skarphéðinsson hafa fagnað lekanum og ég fagna líka, ekki bara með þjóðarhag í huga, heldur líka að fjölmiðlum (Kastljósi) hafi tekist að ná í þetta.
Og fleira mætti gjarnan leka, sem veitir almenningi upplýsingar og skýrir stöðu og þróun mála. Áfram fjölmiðlar! Blaða- og fréttamenn mega gjarnan bæta sem mest og best fyrir sofandaháttinn sl. 2-3 ár, þegar við þurftum mest á aðhaldshlutverki þeirra að halda gagnvart stjórnvöldum og stórfyrirtækjunum.
25.10.2008 | 14:24
Bætur, Bretar, Bankar og Brown
Ég fagna því að almennir innistæðueigendur Icesave-reikninga í Bretlandi fæi peninga í hendur. Líkast til koma greiðslurnar úr sjóðum Breta, en Íslenska ríkisábyrgðin lánuð okkur. Deilt er um hversu há sú fjárhæð á að vera; sumir tala um 600 milljarða en aðrir tala um lægri upphæð og fer það eftir túlkun á lögunum - um þetta er deilt.
Íslenska ríkið (við) á auðvitað að standa við alþjóðlegar skuldbindingar, en jafn ljóst er að Bretar verða, þeir beinlínis verða, að standa ábyrgir orða sinna og gjörða. Hið minnsta Kaupþing og helst líka Íslenska ríkið (við öll) á að fara í mál við Breta og Brown og krefjast stórfelldra upphæða vegna hryðjuverkalaganna, Kaupþings og annars skaða. Skaðinn þar var án efa langt umfram þessa allt að 600 milljarða. Við erum skyldug til að leggja út í þessi málaferli og eins og málið liggur fyrir er ólögmætið borðleggjandi hjá Brown og Co.
Málið á að sækja mjög stíft, af fullri hörku. Hins vegar gætu menn fallist á dómsátt þar sem skuldajöfnun á sér stað á skaðabótunum og á ábyrgðarhluta Íslenska ríkisins (okkar) vegna Icesave-reikninganna. Ef það væri ekki á sléttu þá lægi mismunurinn okkar megin. Að vonum yrðu Brown og Co. heldur fúlir því þá væru það í raun þeir sem greiddu Icesave-reikningseigendunum (einstaklingum, sveitarfélögum, spítulum, lögreglufélögum og þeim öllum). En ég myndi ekki missa svefn yfir því.
Eigendur Icesave-reikninga fá greitt innan tíu daga | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
24.10.2008 | 09:11
Darling og Brown lugu - okkur til ómetanlegs tjóns
Þá er það eins klárt og hægt er; Árni fjármálaráðherra sagði ekkert í viðkomandi símtali 7. október sem réttlætti orð og túlkun Darlings, fjármálaráðherra Breta, daginn eftir, að honum hefði verið sagt af Íslenskum yfirvöldum að ekki stæði til að standa við skuldbindingar sínar. Darling laug 8. október og síðar sama dag froðufelldi Brown hjá BBC og setti hryðjuverkalögin.
Ef ekki má tala um hreina og beina lygi blasir hið minnsta við að Darling hafi túlkað samtal sitt við Árna 7. október á allra versta mögulega veg (án þess þó að það hafi verið sagt sem hann sagði að var sagt). Ef Darling var hugsanlega með einhverja þýðingu á ummælum Davíðs í Kastljósi sama kvöld og símtalið átti sér stað, 7. október, þegar hann og Brown gripu til óyndisúrræða sinna þá hið minnsta sagði hann það ekki. "They told us" sagði hann og ekkert kemur þá annað til greina en símtalið við Árna - og þar sagði Árni ekkert í líkingu við það sem Darling lýgur upp á hann.
Það á ekki að semja um afarkosti við Breta. Það á að semja um tryggingasjóðsgreiðsluna (16 þúsund pundin), samkvæmt alþjóðlegum skuldbindingum (þótt fúlt sé að borga óreiðuskuld Bjögganna) og ekki penný meir. Þetta á að greiða með hagstæðu láni frá góðu fólki, ekki með áþvinguðu láni frá Bretum.
Spurning mín frá fyrri færslu stendur hins vegar enn; Hvaða heildarupphæðir eru fyrirliggjandi um annars vegar greiðslu samkvæmt þessum tryggingasjóðsskuldbindingum til Breta/Icesave og hvað eru Bretar að heimta? Mismunurinn þarna á milli er nefnilega fjárkúgunin; handrukkunin.
Samtal Árna og Darlings | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
22.10.2008 | 10:06
Ekki gleyma Framsóknarflokknum
Íslendingar eru hvarvetna óvelkomnir erlendis (einkum þó í Bretaveldi), mæta reiði og andstyggð, er meinuð innganga eða vísað burt. Slíkur er orðstír okkar um þessar mundir vegna útrásarsnillinganna, viðskiptabanka þeirra (sjóða!) og getu- og eftirlitsleysis stjórnvalda. Bretar hafa ekki aðeins fryst Landsbanka og Íslenska ríkið, heldur lagt venjulega Íslendinga í klakabönd.
Í öllum ömurlegheitunum fær stjórnarandstaðan eðlilega að tjá sig og eins og gefur að skilja hefur hún fátt gott um ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar að segja. Þó vakti óþarflega litla athygli þegar Guðni Ágústsson formaður Framsóknarflokksins sagði á þingi á dögunum að ekki ætti að skipta um ríkisstjórn; efna til stjórnarkreppu og kosninga. Guðni veit sem er, þótt hann gagnrýni út og suður, að Framsóknarflokkurinn þolir illa of mikið dagsljós þegar aðdragandi kreppunnar á Íslandi er skoðaður.
Það er enda full ástæða til að gleyma ekki þætti Framsóknarflokksins. Sá flokkur sat linnulaust í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum frá 23. apríl 1995 til 24. maí 2007 eða í rúm 12 ár. Rétt er að halda til haga eftirfarandi:
Halldór Ásgrímsson var utanríkisráðherra og leiðtogi nr. 2 nánast allan tímann (á eftir Davíð) og um skeið forsætisráðherra.
Finnur Ingólfsson, iðnaðarráðherra og viðskiptaráðherra 23. apríl 1995 - 31. des. 1999.
Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra frá 31.12.1999 til 15. júní 2006. Meðan hún var bankamálaráðherra (í 6 og hálft ár) var bönkunum gefnar algerlega frjálsar hendur en Fjármálaeftirlitið mátti hafa hendur sínar bundnar. Bindiskylda bankanna var afnumin.
Jón Sigurðsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra frá 15. júní 2006 til 24. maí 2007.
Valgerður, Jón, Halldór og Davíð Oddsson stýrðu efnahags- og bankamálum á veigamestu útrásartímunum og hönnuðu hið ófullnægjandi eftirlitskerfi.
Óvelkomnar í gæludýraverslun í Glasgow | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjölmiðlar | Breytt s.d. kl. 10:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (26)
21.10.2008 | 09:57
Það horfir enginn á Ingva Hrafn
Ég er að leita að umræðum einhvers staðar, já bara einhvers staðar, um "viðtal" Ingva Hrafns Jónssonar við Jón Ásgeir í Baugi á Hrafnaþingi ÍNNs í gærkvöldi. Það virðist enginn hafa horft á viðtalið nema kannski ég, sem villtist þangað (eins og maður villist stundum óvart inn á Omega og stekkur jafnharðan burt). Því minnist ég á þetta að Jón Ásgeir sagði við Hrafninn að Davíð Oddsson hefði stolið 48 milljörðum frá Stoðum (eða Baugi). "Hnuplað".
Nú er ÍNN að sönnu ekki merkileg sjónvarpsstöð, stórfurðuleg reyndar, og það skrítnasta af öllu skrítnu þar er Hrafnaþing hins ofstækisfulla Ingva Hrafns. En hvað um það, þarna átti sér stað einskonar "viðtal"; þ.e. samtal kunningja. Það hófst ekki almennilega fyrr en Ingvi Hrafn var búinn að pissa duglega utan í Jón Ásgeir með því að láta áhorfendur (þá sem hugsanlega voru hinum megin skjásins) vita að hann, Ingvi Hrafn, þekkti nú aldeilis Jóhannes, föður Jóns og að sá væri góður maður, og að margt hefði verið rætt og skrafað um þegar þeir feðgar hefðu komið að veiða hjá honum í Langá, það væri sko gaman.
En þegar Ingva Hrafni hugnaðist loks að setja sjálfan sig í annað sætið þá spurði hann Jón Ásgeir margra vinalegra spurninga, sem flestar áttu það sameiginlegt að vera löðrandi í gildismati Ingva Hrafns og tón hans; svona "Er nokkuð að marka það sem skíthælar segja um þig og ykkur?".
Hvað sem því líður dugði mærðartónninn til að Jón Ásgeir segði vini sínum ljótar sögur. Sú ljótasta (þ.e. óhugnanlegasta) var að Seðlabankinn (í persónu Davíðs Oddssonar) hefði ekki bara unnið skemmdarverk á Glitni og Baugi, heldur beinlínis farið inn í Stoðir og stolið ("hnuplað") þaðan 48 milljörðum króna. Davíð og félagar voru með beinum hætti ásakaðir um að brjóta hegningarlög.
Sá þetta enginn eða heyrði á ÍNN? Er enginn að tala um þetta? Er búið að kalla á lögguna? Horfir kannski ENGINN á Hrafnaþing? Þetta er vissulega hálfgerður sirkus, þessi stöð, en hefur hún aldeilis ekkert áhorf? Eða hefur hún smávegis áhorf en enginn tekur mark á innihaldinu?
19.10.2008 | 11:29
Já, en.... HVERS VEGNA??
Fréttaskýring Agnesar Bragadóttur í Sunnudagsmogganum er afar athyglisverð og lærdómsrík, en skilur eftir sig að minnsta kosti eina stóra spurningu: Hvers vegna í ósköpunum? Þetta hlýtur að vera fyrri hluti og von á seinni hlutanum bráðlega, þar sem leitast verður við að svara þessari stóru spurningu.
Niðurstaða fyrri hlutans er nefnilega klár; Fulltrúar Seðlabanka Evrópu og Bandaríkjanna, Alþjóðagreiðslubankans í Basel (Sviss) og seðlabanka Bretlands, Danmerkur og Svíþjóðar höfðu samráð um að kafsigla og yfirgefa Ísland. Meintir "vinir" sviku litla Ísland.
Heimildamannasafn Agnesar mynda enda einhliða sjónarhorn; þetta eru viðmælendur úr Íslenska bankaheiminum og að sögn viðmælendur meðal stjórnvalda og eftirlitsstofnana á Íslandi. Allt innlendir meintir sökudólgar; bankamenn sem fóru offari og stjórnvöld og eftirlitsstofnanir sem brugðust með því að grípa ekki tímanlega til aðgerða og viðhafa almennilegt eftirlit.
Ég dreg þessa heimildarmenn í sjálfu sér ekki í efa. Þeir horfa á málin frá sínu sjónarhorni og segja sjálfsagt samviskusamlega frá. En það vantar algerlega hina hlið málsins; sjónarhorn fyrrnefndra alþjóðastofnana og fyrirtækja. Það HLÝTUR að koma í framhaldinu. Þarna er enda enginn sem útskýrir hvers vegna ákveðið var með samráði að fara svona illa með litla Ísland.
Það örlar reyndar á margframkominni mögulegri skýringu; að Íslenska bankakerfið hafi verið allt of stórt og lausafjárstaða þess allt of lítil. "Bankamenn sjá það nú" og að þeir hefðu átt að hægja á sér 2006!
En það útskýrir ekki af hverju þessar alþjóðastofnanir tóku fyrst vel í beiðni um hjálp en höfðu svo samráð og snarsnérust við. Hví? Hví?? Hinir Evrópsku og Bandaríski seðlabankar ákváðu að yfirgefa Íslendinga "sem hafi orðið Íslenska bankakerfinu að falli". Hvers vegna í ósköpunum?
Hvers lags eiginlega var þetta skuggalega samráð "vina" okkar, bankaheimsins og stjórnvalda viðkomandi ríkja? Ekki taka seðlabankar svona afdrifaríka ákvörðun um að yfirgefa og sökkva Íslandi án samráðs við og blessunar pólitíska valdsins í þessum ríkjum!?
Í seinni hluta fréttaskýringarinnar hlýtur Agnes/Mogginn að krefja þessa aðila um svör og það hreinskilin og heiðarleg svör - ekki almennt bla bla. Hvernig stendur á þessari árás á Ísland? Ísland var í vanda, en meðvituð ákvörðun virðist hafa verið tekin með samráði um að hjálpa ekki Íslandi heldur láta landið fara í þrot. Gerði Ísland eitthvað af sér sem var ófyrirgefanlegt? Réttlæti offors og græðgi 20-30 auðjöfra á Íslandi að allri þjóðinni yrði með samtakamætti steypt í glötun?
Þekkjandi Agnesi þá hlýtur hún að vera þegar byrjuð á seinni hlutanum. Er það ekki?
Þeir felldu bankana | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjölmiðlar | Breytt s.d. kl. 11:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (98)
17.10.2008 | 21:49
"You have been warned"
"You have been warned", endaði Simon Watkins hjá Financial Mail í Bretlandi grein í mars, fyrir 7 mánuðum - hann varaði við áhættunni sem fylgdi ávöxtun hjá Íslensku bönkunum - óöruggustu bönkum af öllum í hinum þróuðu ríkjum heimsins. "Given that (Landsbanki og Kaupþing) have taken billions in UK retail deposits, it may be a sobering thought for savers to consider where they are putting their cash".
Iceland's banks top 'riskiness league'
Simon Watkins, Financial Mail16 March 2008, 12:36pm
... More risky is Alliance & Leicester, whose price was about 342 points last week, again reflecting its high dependence on wholesale financial markets, which have become frozen in recent months. But the real horrors are in Iceland.
Credit insurance for debts at Iceland's biggest bank, Landsbanki, is priced at 610 points while that for Kaupthing is priced at a hair-raising 856. Given that these two have taken billions in UK retail deposits, it may be a sobering thought for savers to consider where they are putting their cash. These banks are now seen as the most unsafe in the developed world.
Of course, no one can be sure that disaster looms for anyone, but the figures on credit default swaps show clearly where investment professionals think the big risks are.
You have been warned.
Kemur ekki atkvæðagreiðslunni í SÞ beint við, en spurning hver eigi að vorkenna hverjum?
Bretar vorkenna Íslendingum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjölmiðlar | Breytt s.d. kl. 21:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
17.10.2008 | 15:07
Leiftursókn í gangi gegn Íslandi
Við höfum ekkert með "varnir" Breta að gera - þeim er ekki treystandi að óbreyttu. Raunar er ekki einleikið hversu Ísland er grátt leikið af ekki bara Bretum, heldur mjög mörgum öðrum. Viðmót gagnvart Íslenskum ríkisborgurum er víða kuldalegt og lokað á þá, jafnvel á Norðurlöndum. Hvernig í ósköpunum stendur á þessu? Hvað höfum við gert til að eiga þetta skilið?
Þetta er orðið meira en svo að dugi að benda á flottræfilshátt og hákarla-kapítalisma auðjöfra. Ekki dugir heldur að segja sem svo að Íslensk stjórnvöld hafi klúðrað gagnsókn í áróðursstríði. Leiftursóknin gegn Íslandi virðist eiga sér dýpri rætur en svo. Er Ísland kjörið skotmark útrásar öfundar og reiði? Höfum við sýnt af okkur einhvern slíkan hroka, yfirlæti og dramb sem verðskuldar fyrirlitningu - og sjáum það bara ekki? Eða erum við alsaklausir og þessar pælingar bara paranoia?
Fjármálasnillingar okkar fóru kannski offari, stjórnvöld stóðu sig kannski ekki í stykkinu, en venjulegir Íslenskir ríkisborgarar og saklaus Íslensk fyrirtæki eiga ekki skilið þá framkomu sem þeim hefur verið auðsýnd víða erlendis. Nema að við höfum gert eitthvað af okkur sem þjóð sem okkur er einfaldlega ómögulegt að koma auga á. Svarið við þessu andstreymi erlendis er ekki linkind og rándýr eftirgjöf. Ekki heldur gagnvart innlendum sökudólgum.
Vill ekki Bretana | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
15.10.2008 | 13:59
Ekki bara tvö pör af frambjóðendum
Það er kannski ósköp eðlilegt þannig séð, en samt. Allar fréttir hérlendis um forsetakosningarnar í Bandaríkjunum gefa sterklega til kynna að kjósendur vestra hafi bara um að velja annað hvort parið; Obama-Biden eða McCain-Palin. Staðreyndin er sú að ekki færri en átta pör eru í framboði, þar af tvö sósíalísk!
Ralph Nader "neytendafrömuður" er enn að og býður sig nú fram með einhverjum sem heitir Matt Gonzales og þeir skrá sig sem óháða frambjóðendur. Frambjóðendur fyrir "Socialism & Liberation Party" eru Gloria La Riva í forsetann og Eugene Puryear. Fyrir "Socialist Workers Party" bjóða sig fram James E. harris og kona með kunnuglegt eftirnafn; Alyson Kennedy. Á vegum "Libertarian Party" koma Bob Barr og Wayne A. Root. Flokkur að nafni "Constitution Party" býður fram Chuck Baldwin og Darrell L. Castle og loks má nefna frambjóðendur "Green Party", tvær konur; Cynthia McKinney og Rosa Clemente.
Enginn af þessum "minni spámönnum" fær að komast að í sjónvarpskappræðum og fjölmiðlar vestra virðast hunsa þá að mestu. Frægastur er auðvitað Ralph Nader, sem oft hefur boðið sig fram og er gjarnan skammaður fyrir að taka atkvæði af Demókrataflokknum. En hvert þessara "sér"framboða er líklegt til að fá slatta af atkvæðum (en hlutfallslega fá) og einhver tækifæri til áróðurs og áhrifa á málflutning hinna stóru. Vildi bara nefna þetta.
Síðustu sjónvarpskappræðurnar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
6.10.2008 | 23:29
Hvar er stjórnarformaður Landsbankans?
Það er búið að tala grilljón sinnum við stjórnarformann Glitnis og stjórnarformann Kaupþings-banka, en hvar er stjórnarformaður Landsbankans og hvert er álit hans á bankakrísunni og neyðarlögunum?Jú, við sáum son stjórnarformannsins hoppa og skoppa upp og niður tröppur að hitta ráðherra, en hvar er pabbinn, stjórnarformaðurinn?
Fyrir helgina var gjaldeyrisþurrð í Landsbankanum. Það er búið að taka völdin af bankanum (og öðrum) með neyðarlögum. Björgólfur Guðmundsson segir ekkert! Væntanlega neitar hann að tala við fjölmiðla - frekar en að þeir reyni ekki að tala við hann! Samt er mögulega að hrynja yfir bankann hans mál sem er margfalt stærra og alvarlegra en aðaláhugamál stjórnarformannsins; að gera upp eldgamlar Hafskips-sakir.
Landsbankinn er aðalbanki minn. Þar á ég sætan lítinn sparnað (móðurarf) í krónum og dollurum. Það dugar mér ekki að heyra forsætisráðherra segja innistæður tryggar. Ég vil heyra í stjórnarformanni bankans sem ég treysti aurunum fyrir. Hann hlýtur að geta tekið sér pásu frá því að ritrýna sagnfræðilegar bækur.
Verður Landsbankinn til sem slíkur í fyrramálið? Verða einhverjir peningar í bankanum? Eru þeir kannski farnir eitthvað annað?
Neyðarlög sett í dag | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |