Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
18.5.2007 | 22:33
Norrænu Kratakonurnar
Ég hallast að því að hvað mestu örlagavaldarnir að baki þeirri stjórn sem nú er verið að mynda séu tvær útlenskar konur. Sem sé formenn (-konur) Jafnaðarmannaflokka Svíþjóðar og Danmerkur, sem hingað komu til lands á landsfund Samfylkingarinnar.
Mona Sahlin og Helle Thorning Schmidt hafi með öðrum orðum komið eins og sprengja inn í kosningabaráttuna og komið af stað þeim efnahvörfum sem urðu og leiddu til grundvallar viðsnúnings á vinstri væng Íslenskra stjórnmála. Til viðbótar þeirri viturlegu ákvörðun Samfylkingarinnar að leggja höfuðáherslu á velferðarmál í stað þess að tönglast á umhverfismálunum, sem reyndust ofmetinn atkvæðatrekkir. Norrænu velferðarkonurnar urðu ómetanleg birtingarmynd þess velferðarmódels sem vinstra fólk þráir. Nú er spurning hvort Samfylkingin muni þessa mynd og áherslur í samstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn.
Þegar Samfylkingin hélt landsfund og skartaði Norrænu Kratakonunum mældist flokkurinn í 18-19% fylgi, en VG var að mælast í 27-28% hygg ég. Kannanir þóttu ekki síst sýna að konur hefðu svo þúsundum skiptir flutt sig frá Samfylkingunni yfir til VG. Framsókn var að mælast í 7-8%, Frjálslyndir og Íslandshreyfingin í 4-5% og Sjálfstæðisflokkurinn í 38-39%. En þá urðu pólitísku efnahvörfin. Leið Samfylkingarinnar lá þráðbeint upp, en VG niður. Undir lokin hygg ég að VG hafi síðan farið að tapa fylgi yfir til Framsóknar. Frá ofangreindri stöðu í könnunum til kosninganna sjálfra fóru í námunda við 13 prósentustig af VG. Um það bil 8-9 prósentustig bættust við Samfylkinguna og 5-6% við Framsókn.
Ég gæti trúað því að Mona Sahlin og Helle Thorning Schmidt hafi snúið svona tvöfalt til þrefalt fleiri kjósendum en Jóhannes í Bónus fékk til að strika Björn Bjarnason út. Ég tel að ef ekki hefði komið til þessi viðsnúningur þá væri ekki verið að mynda þá stjórn sem nú er að fæðast.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
16.5.2007 | 15:37
Byr í segl sögulegra sátta!
Ég hef sett hér fram þá kenningu að núverandi stjórnarsamstarf verði hugsanlega framlengt og styrkt með inntöku Frjálslyndra. Það hefur svo gott sem enginn tekið mig alvarlega, fyrr en nú að ég sé að Reynir Traustason gerir það í Orðrómi Mannlífs. Þar segir:
Á Austurstrætisfundinum, í höfuðstöðvum Björgólfs Guðmundssonar í gærkvöld, þar sem saman komu Davíð Oddsson, Friðrik Sophusson og Hannes Hólmsteinn Gissurarson er víst talið að saman komu stuðningsmenn áframhaldandi stjórnarsamstarfs en umfram allt halda Vinstri grænum utan ríkisstjórnar til að forðast efnhagslega ringulreið. En þungavigtin gerir sér grein fyrir þeim vanda sem felst í einungis eins þingsætis meirihluta. Hugmyndin sem upp er komin nú er sú að kippa um borð í ríkisstjórnina fyrrverandi sjálfstæðismönnunum Guðjóni A. Kristjánssyni og Jóni Magnússyni úr Frjálslynda flokknum og ná þannig sögulegum sáttum. Davíð var á sínum tíma mjög andvígur meðferðinni á Guðjóni A. innan Sjálfstæðisflokksins, sem var færður niður á lista, og vill fá hann heim aftur. Þá eru kærleikar frá fornu fari á milli Jóns Magnússonar og Friðriks Sophussonar og mögulegt að byggja brú þar...
Eitthvað virðist kenning mín núna vera minna vitlaus en hún var. Spurningin er þá aðallega hvað eigi að gera við og hverju megi búast við af hálfu Kristins H. Gunnarssonar.
28.4.2007 | 11:40
Raddir þeirra sem Allsherjarnefnd hafnaði
Mikið er rætt um umfjöllun Kastljóss um afar sérkennilega afgreiðslu Allsherjarnefndar Alþingis á umsókn tengdadóttur Jónínu Bjartmarz um íslenskan ríkisborgararétt, eftir 15 mánaða dvöl á landinu. Lögin eru nokkuð skýr, reglurnar nokkuð mótaðar. Það leiddi til þess að fjölmargir umsækjendur fengu höfnun. Í þeim hópi hefði tengdadóttirin lent miðað við hin þekktu fordæmi. En Allsherjarnefnd kaus af einhverjum óuppgefnum ástæðum að segja já við umsókn stúlkunnar með sama lögheimilið og ráðherra umhverfismála, á sama tíma og nei var sagt við fjölda annarra. Kannski var stúlkan um leið með öflug nöfn á tilskyldum meðmælendalista.
Fjölmiðlar flytja tíðindi og þetta eru tíðindi. Það er ekki aðalmálið hvaðan upplýsingarnar koma eða hvort einhver hafi komið þeim á framfæri við fjölmiðilinn og ekki heldur aðalmálið á hvaða tímapunkti það gerist. Ef upplýsingarnar eru réttar þá eru í þeim fólgnar mikilsverð tíðindi sem ber að greina þjóðinni fram af tilhlýðilegri hlutlægni, eins og kostur er. Ráðherrar og þingmenn hafa ítrekað undirstrikað og áréttað mikilvægt hlutverk fjölmiðla sem aðhald fyrir stjórnvöld.
Nefna má það sjónarhorn Nefndar menntamálaráðherra um fjölmiðla í skýrslu árið 2005 að fjölmiðlar gegni lykilhlutverki í lýðræðislegu þjóðfélagi sem vettvangur fyrir ólík viðhorf til stjórnmála og menningar í víðum skilningi, og sem vettvangur fyrir öflun upplýsinga og miðlun þeirra. Niðurstöður þessarar þverpólitísku fjölmiðlanefndar stjórnvalda um mikilvægi fjölmiðla voru ekkert síður eindregnar en niðurstöður í umdeildari fjölmiðlaskýrslu frá árinu áður (apríl 2004), þar sem meðal annars sagði: Fjölmiðlar gegna margskonar hlutverki í nútíma lýðræðisríki. Þeir upplýsa, fræða og móta skoðanir almennings. Þá skemmta þeir, eru vettvangur fyrir auglýsingar og tilkynningar Þeir eru farvegur fyrir skoðanir yfirvalda, hagsmunahópa og almennings. Þeir veita yfirvöldum á hverjum tíma aðhald; stjórnvöldum jafnt og öðrum valdastofnunum samfélagsins.... Aðhaldshlutverk fjölmiðla snýr ekki aðeins að stjórnvöldum og kjörnum fulltrúum heldur einnig að hagsmunasamtökum og félögum, þar á meðal fyrirtækjum í atvinnulífinu. Það er lýðræðisleg skylda fjölmiðla að birta þær upplýsingar um störf þessara aðila sem þeir vita sannar og réttar óháð því hvort þær koma sér vel eða illa fyrir þá sem um er fjallað. Það er í þágu almannahagsmuna að fjölmiðlar séu sem óháðastir í störfum sínum þannig að ekki leiki grunur á að ákvörðun um birtingu upplýsinga og umfjöllun um einstök mál ráðist af tengslum fjölmiðlanna við valda- eða hagsmunaöfl í samfélaginu.
Þetta eru skilaboðin á tyllidögum frá ráðherrum (umhverfismála og annarra) og þingmönnum. Sama fólkið og sveigði reglurnar og sem nú fullt af vandlætingu og neitar að upplýsa hvers vegna reglurnar voru sveigðar. Full þörf er á því að ný vídd komi inn í þetta mál: Raddir þeirra á annan tug einstaklinga sem fengu höfnun frá allsherjarnefnd. Við þekkjum raddir fólks sem gift er íslendingum, en vísað hefur verið úr landi af því það er ekki 24 ára. Fólk sem átti ekki lögheimili sameiginlegt með ráðamanni.
Er ekki talað um meðalhóf og jafnræði í stjórnarskránni?
Stjórnmál og samfélag | Breytt 1.5.2007 kl. 11:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
22.4.2007 | 15:41
Meinleg villa í fréttinni
Hygg að Morgunblaðið verði að leiðrétta þessa frétt. Þarna er sagt að Samfylkingin hafi haft fjóra kjördæmakjörna þingmenn og sé samkvæmt könnuninni að missa tvo þeirra. Hið rétta er að Samfylkingin var með 3 kjördæmakjörna og Jón Gunnarsson fjórði var í uppbótarsæti. Þetta sést skilmerkilega á kosningar.is. Samfylkingin er því "aðeins" að missa einn kjördæmakjörinn og gæti hæglega fengið uppbótarmann þarna aftur. Uppsláttarfyrirsögnin er því ekki rétt.
![]() |
Sjálfstæðisflokkur bætir við sig tveimur þingmönnum í Suðurkjördæmi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
9.4.2007 | 11:57
Klám, ofbeldi og kvikmyndastjörnur
Spennan í pólitíkinni magnast og á flestum hreyfingum og mælingum er hægt að sjá rökrænt samhengi með einum eða öðrum hætti (Ég er ekkert að fara að fjalla hér um klám, ofbeldi og kvikmyndastjörnur. En af því að þetta eru umfjöllunarefni sem virðast ná athygli hvað flestra þá datt mér sisvona í hug að setja þau í fyrirsögn...).
Sem sagt; pólitísk spenna magnast. Stjórnmálafræðingurinn í mér finnur flöt á flestu sem er að gerast; stöðu Sjálfstæðisflokksins, hruni Framsóknarflokksins, sókn VG, lægð Samfylkingarinnar, örvæntingu Frjálslyndra, takmörkuðu flugi Íslandshreyfingarinnar og sérdeilis vonlausu framboði í nafni aldraðra. En stjórnmálafræðingurinn í mér hefur ekki tekist að finna sennilega og sjálfsagða skýringu á ofboðslegri neikvæðni stórs hluta kjósenda, ekki síst kvenna, í garð Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, formanns Samfylkingarinnar. Ég er ekki að segja þetta henni til varnar; ég bara fæ ekki komið auga á áþreifanleg orð eða atvik sem skýra þetta undarlega hrun manneskjunnar í vinsældum og virðingu.
Pæliði í því: Hún var ofboðslega vinsæll borgarstjóri sem tók Sjálfstæðisflokkinn trekk í trekk í nefið og skákaði sjálfum Davíð Oddssyni (en glímdi líka við skugga hans). Vinsældir hennar á þeim tíma voru næstum því ógnvænlegar og einkum héldu konur vart vatni af hrifningu. Svo færði hún sig yfir í landsmálin og seinna gerðist það að persónusamkeppnin við Davíð var ekki lengur til trafala. Í stjórnarandstöðu hefur hún auðvitað ekki borið ábyrgð á umdeildum stjórnarathöfnum og í sjálfu sér er ekki hægt að segja að stjórnarandstaðan hafi verið léleg almennt. Ingibjörg Sólrún hefur að vísu haldið nokkrar skrítnar ræður, að mati margra, og henni hefur verið nuddað upp úr orðum eins og að kjósendur treysti ekki Samfylkingunni. En samt. Hún hefur ekki sagt meiriháttar vitleysu eins og að maður fari ekki alltaf heim með sætustu stelpunni (eða stráknum). Eiginlega hafa hennar verstu áföll verið fólgin í innbyrðis átökum við Össur Skarphéðinsson. Ekki missa menn niðrumsig við að taka eina eða tvær lotur við hann er það? Miklu heldur að hún hafi misst flugið við að fara ekki gegn Össuri við fyrsta tækifæri á sínum tíma; fresta formannsslagnum.
Vill einhver þarna úti hjálpa villuráfandi stjórnmálafræðingi að koma auga á skynsamlegar skýringar á því að vinsælasti stjórnmálaleiðtogi þjóðarinnar er allt í einu orðinn sá allra óvinsælasti og það án þess að bera ábyrgð á umdeildum stjórnarathöfnum? Erum við kannski ekki að tala um stjórnmál per se? Erum við að tala um illa áru? Vonda lykt? Að konur séu konum verstar? Hmmm.
17.3.2007 | 13:36
Handalögmál í sameign fjölbýlishúss
Það brustust út slagsmál í stigagangi fjölbýlishúss á dögunum. Það kom upp mjög alvarlegur ágreiningur um sameign hússins. Stjórn húsfélagsins hafði öllum að óvörum selt sameignina.
Íbúar fjölbýlishússins fengu, hver í sinni séreign hússins, tilkynningu frá formanni húsfélagsins að stjórnin hefði ákveðið að selja einum íbúðareigendanna, auðmanninum í penthousinu, allar sameignir fjölbýlishússins. Stigagangana, tröppurnar, þvottahúsið, hjólageymsluna og svo framvegis. Hér eftir væru umferð og athafnir á þessum hlutum fasteignarinnar bönnuð nema með leyfi nýja eigandans, svo sem að komast til íbúða sinna. Tekið yrði sérstakt gjald fyrir að hýsa póstkassa og geyma hjól. Í kjölfarið heyrðust sögur af miklum plönum nýja eigandans með fyrrum sameignina; hann ætlaði að efna þar til ýmiss konar verslunar og þjónustu - og skemmtihalds fram á rauða nótt.
Einnig heyrðust fréttir af því að auðmaðurinn í penthousinu, nýji "sameignar"eigandinn, ætti í viðræðum við fjársterkan aðila í næstu blokk um að kaupa af sér téðan stigagang - með góðum söluhagnaði auðvitað. Sem gefur augaleið; hann fékk jú eignina frá stjórn húsfélagsins á afar, afar, afar góðu verði.
Þegar þetta heyrðist gerðu íbúar fjölbýlishússins loks vart við sig, þeir stormuðu stigagangana (borguðu auðvitað nýja eigandanum umferðartoll), drógu formann húsfélagsins fram og börðu hann. Sem að vísu breytti engu. Formaðurinn fékk glóðarauga, en hló alla leið til bankans.
14.3.2007 | 10:33
Að "lækka samviskusamlega"
10.3.2007 | 13:58
Svo má bull bæta að vera sjarmerandi
Makalaus skrif á bls. 58 í Fréttablaðinu í dag. Þar er sagt frá kvennaferð til London og ekki annað að skilja en að konurnar, þekkt nöfn, hafi allar sem ein kiknað í hnjáliðunum við að sjá og heyra í einu eintaki af útrásarkörlum landsins opinbera snilli sína. Í frásögn blaðamannsins hdm segir frá því að konurnar hafi farið á "glæsihótel" að hlusta á Hannes Smárason. Síðan segir:
".. en það var sjálfur forstjórinn, Hannes Smárason sem mætti á svæðið. Mjög góður rómur var gerður að máli Hannesar og því hvernig hann kom fyrir, enda talaði hann blaðalaust og var mjög alúðlegur. Hafði ein viðstaddra á orði að þarna hefði Hannes breytt áliti um 100 kvenna á sér á svipstundu".
Hvaða álit höfðu þær annars á Hannesi fyrir, spyr ég? Að hann gæti ekki talað blaðlaust og verið alúðlegur? Eða eitthvað þaðan af verra? Kjaftfor flugdólgur kannski? Kvenfjandsamleg karlremba? Það fylgir reyndar ekki sögunni hvað Hannes sagði sem var svo gríðarlega jarðskekjandi að 100 konur skiptu um skoðun. Af hverju er ekki sagt frá þvílíku afreki betur, þannig að við hinir dauðlegu getum lært af? Er nóg að tala blaðlaust og vera alúðlegur eða skiptir máli hvað sagt er? Ég spyr konur að þessu: Eru umbúðirnar svona mikilvægar en innihaldið aukaatriði. Læknar sjarmi bull? Svo má bull bæta að vera sjarmerandi?
Ef karlahópur hlýddi á t.d. Rannveigu Rist eða Guðfinnu Bjarnadóttur og haft væri eftir einum þeirra að konan hefði komið á óvart, talað blaðlaust og verið alúðlegt og breytt áliti 100 karla á henni - myndi maður ekki heyra hávær ramakvein?
10.2.2007 | 12:04
Að mynda "tárvota miðaldra menn"
Sigurður Ásbjörnsson hefur skrifað athugasemd vegna síðustu færslu minnar og kveðst efast um vinnubrögð Kastljóssins í Breiðavíkurmálinu. Sigurður, drengur góður, útskýrir þó ekki efasemdir sínar að öðru leyti en því að gefa í skyn að Kastljós hafi lagt áherslu á að mynda tárvota miðaldra menn frekar en að svara ýmsum lykilspurningum.
Kæri Sigurður. Heldur finnst mér kaldrifjað að smækka fórnarlömb Breiðavíkurhrottanna niður í tárvota miðaldra menn. Þegar ég nefndi í fyrri pistli mínum tárin og endurfundina þá var ég ekki að lýsa áhersluatriðum Kastljóss, heldur afar fréttnæmum og nánast sögulegum tíðindum, ofan á aðrar veraldlegri upplýsingar í málinu, sem vissulega hefur verið fjallað um, bæði í Kastljósi, af fréttastofum RÚV og af miðlum á borð við DV og Stöð 2. Að þessir miðaldra menn hafi gerst tárvotir frammi fyrir alþjóð er nefnilega stórmerkilegur atburður og ekki mörg ár síðan svo gott sem útilokað var að slíkt gæti gerst. Þessi tár gáfu mörg tonn af upplýsingum og sömuleiðis endurfundir þessara manna og faðmlög eftir áratuga aðskilnað en sameiginlegar martraðir. Og þessi tonn af upplýsingum, þessi áhrifamiklu óbeinu upplýsingar um hryllilegar misgjörðir, þessi hrikalega sterku skilaboð úr fortíðinni, eru ekki ómerkilegri upplýsingar en ýmsar tölur og beinharðar staðreyndir sem RÚV og aðrir áðurnefndir miðlar hafa verið að draga fram í dagsljósið.
Kæri Sigurður; sást þú bara "tárvota miðaldra menn"? Fór það kannski í taugarnar á þér að viðkomandi menn hafi ekki getað haldið aftur af tárunum og sagt þess í stað frá á klínískan og tilfinningalausan hátt, eins og sannir karlmenn eiga að sögn að gera?
Til samans hafa þessir miðlar unnið þarft verk og flestöllum spurningum þínum svarað af einum eða öllum þeirra og þá ekki síst af frétta- og dagskrárgerðarfólki Kastljóss og fréttastofu Sjónvarps. Eftir notabene frumkvæði fórnarlambanna sjálfra og þeirra Bergsveins Björgólfssonar og Kristins Hrafnssonar vegna heimilamyndarinnar um Breiðavíkurmálið.
Eða hvaða spurningum af þínum eftirfarandi hefur á skort að hafi verið settar fram og svara leitað: Hvenær varst þú í Breiðavík? Hvers vegna varstu þar? Hvernig var vistin? Var engin munur á starfsfólkinu? Viðhöfðu allir sömu svívirðingar og misþyrmingar? Hvað gerðirðu þegar þú losnaðir þaðan? Hvernig gekk þér að fóta þig í tilverunni? Fékkstu einhverja aðstoð? Gerirðu þér grein fyrir hvers konar (ef einhverja) hjálp þú þarfnast í dag? Hefurðu haldið sambandi við þá sem dvöldust með þér í Breiðavík? Veistu um örlög þeirra? Geturðu nú þetta mörgum árum síðar gefið stjórnvöldum ráð um það hvernig beri að fara með má ykkar sem dvöldust í Breiðavík? Gerirðu þér grein fyrir því hvers konar hjálp þið þurfið helst á að halda?
Hafandi séð alla þætti Kastljóss um málið og fylgst með upplýsingaöfluninni og tekið þátt í henni mótmæli ég því að frétta- og umsjónarfólkið hafi lagt áherslu á að mynda tárvota miðaldra menn á kostnað einhverra ótilgreindra annarra vinnubragða af meintum faglegri sortum. Þessar spurningar hafa verið settar fram og svara leitað, kæri Sigurður. Um vistina, um aðbúnaðinn, um hrottaskapinn, um mismunandi starfsfólk, um stóru strákana gagnvart þeim minni, um afleiðingarnar, um þöggunina, um hjálparskortinn og um mögulegar lausnir... Það er mín skoðun að fréttastofa Sjónvarps og Kastljóss hafi staðið sig afar vel í þessu máli og dreg ég þá á engan hátt úr frammistöðu annarra eða áherslum.
9.2.2007 | 21:51
Farþegi í BreiðAvíkurmálinu?
Ég er ekki allveg að fatta þessar hnútur í garð Kastljóssins frá annars ágætu DV fólki og Heimi og Sirrý. Viðbrögð þeirra síðastnefndu voru vitaskuld út í hött og ekki takandi mark á, en verra þótti mér að lesa þá einkunn Sigurjóns M. Egilssonar að Kastljósið væri "farþegi í Breiðuvíkurmálinu". Ég get svo sem skilið að Sigurjón vilji eigna DV einhvern heiður og allt í lagi með það, en farþega-lýsingin er afar óverðskulduð. Umfjöllun Kastljóss alla þessa viku hefur verið ítarleg og þrotlaus vinna þar að baki. Nefna má tárin áhrifamiklu sérstaklega, en ekki síður var það áhrifamikið þegar uppundir tugur fórnarlamba ofbeldisins kom saman í útvarpshúsinu til magnþrungins endurfundar. Kastljósshópurinn hefur unnið mikið og faglegt starf í þessu máli og á hrós skilið og nefni ég sérstaklega Þóru og Þórhall.
Ég vil ekki gera þetta aukaatriði um farþega að stærra máli en aðrir hafa gert, en bæti því við að ef Kastljós er farþegi þá er DV það líka - því DV startaði EKKI þessu máli. Allt eins mætti benda á fórnarlömbin sjálf og kannski ekki síst Kristinn Hrafnsson og Bergsvein Björgólfsson - en það voru einmitt þeir sem komu "Breiðavíkurbörnunum" út úr þykkri skelinni. Hvað með þá Sigurjón?
Svo annað aukaatriði: Það er BreiðaAvík en ekki BreiðUvík. Víkin er ekki breið í umfangsmerkingu, heldur nefnd eftir manni að nafni Breiði skilst mér. Heyrt að Breiði komi úr norsku sem Brede sem er jökull - og sú merking gæti líka átt við t.d. Breiðamerkursand o.s.frv. - sandinn við jökulinn, en ekki sandbreiða. Nóg af aukaatriðum.