Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
3.2.2007 | 00:02
Sögulegur forsíðuuppsláttur
Forsíðuuppsláttur Morgunblaðsins á þessum föstudegi er á margan hátt sögulegur. Vegna myndauppstillingarinnar á þeim fimm karlkyns hæstaréttardómurum sem milduðu dóm yfir manni sem sannanlega hafði gerst sekur um alvarlega kynferðislega misnotkun á fimm stúlkubörnum.
Skilaboð ritstjórnar Morgunblaðsins voru lítt dulbúin gagnvart annars faglegum texta: Dómurunum var stillt þannig upp að ætla mátti að þar færu glæpamenn á ferð; eiginlega níðingar. Fyrirsögnin lýsti glæp þeirra: Milduðu dóminn.
Fyrir venjulega borgara, sem hafa sérstaka ímugust á barnaníðingum, þig og mig, er uppslátturinn og uppstillingin glæsileg. Gott á þessa dómara, sem tóku meðvitaða ákvörðun um að hrófla ekki við fordæmum, hvað þá að nýta refsiramman ögn betur og meir en kann að hafa tíðkast. Skilaboð ritstjórnar Morgunblaðsins voru að þeir hafi gert rangt í að láta fordæmin flækjast um of fyrir sér. Þeir hafi þá átt að skapa nýtt fordæmi.
Annað sjónarhorn er hins vegar faglegt; uppslátturinn og uppstillingin voru hlutdræg og eiginlega DV-leg; sem sé æsifréttaleg og raunar mjög ó-Moggaleg. Þetta er og hið sögulega í málinu. Í svona ljósi getur fréttin ekki talist "góð". Allavegana miðað við þá línu að fjölmiðlar eigi að greina frá fréttum en ekki taka þátt í þeim. Morgunblað fortíðarinnar hefði látið duga að skamma dómarana í leiðara, Staksteinum og Reykjavíkurbréfi.
Svo má velta fyrir sér hvort uppslátturinn hefði orðið hinn sami ef Jón Steinar Gunnlaugsson, fornvinur Styrmis ritstjóra, hefði verið einn af dómurunum fimm?
![]() |
Hæstiréttur styttir dóm yfir kynferðisglæpamanni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
23.1.2007 | 16:00
Beinskeyttur hagfræðingur
Guðmundur Ólafsson er beinskeyttur hagfræðingur og háskólalektor, sem talar mannamál og kallar hlutina sínum réttu nöfnum. Enginn kverúlant. Ég er núna að furða mig á því hversu lítil umræða er um ofboðslega beinskeyttan málflutning hans í Silfri Egils sl. sunnudag. Lét hann þó öflugar sprengjur falla, sem sumum ætti aldeilis að svíða undan.
1. (Útláns)vextir á Íslandi eru þeir mestu í heimi - mestu okurvextir "í sögu mannsandans".
2. Bankarnir eru böl - þeir eru frekir á fóðrum.
3. Krónan er mjög tæpur/hæpinn gjaldmiðill. Ástandið er óeðlilegt og krónan er viðskiptahindrun.
4. Íslensk fyrirtæki hafa vanist við að ríkið bjargi þeim (með gengisfellingum og slíku) - tími kominn til að "einkavæða einkareksturinn".
5. Verðlag á Íslandi er okur - við búum við hæsta verðlag í heimi. Landbúnaðarvörur veita "verðleiðsögn" - toga upp verðlag á annars óskyldum vörum.
6. Verslunin hefur hækkað hjá sér álagninguna: Var 19-22% fyrir tuttugu árum en 33-34% nú. Þetta gerðist einkum frá og með árunum 1998-2000, en á sama tíma lækkaði álagningin í Evrópu. Þessi þróun er falin; verslunarkeðjur eins og Hagar/Baugur geta látið hagnaðinn og framlegðina koma fram á öðrum sviðum en smásölunni, t.d. í heildsölunni og eignarhaldsfélögunum (með hækkun á leigu osfrv.) Tal um "bara 15% álagningu" er hlægilegt.
7. Tollar og umsýslugjöld eru út úr öllu korti á og fjármálaráðherra virðist engan áhuga hafa á því að breyta því, heldur hafa áfram hundruði manna að koma í veg fyrir "að við getum keypt ódýra vöru".
8. Hagar/Baugur eru með ráðandi stöðu og eru í raun sú Verðlagsstofnun sem við búum við. Baugur fær mikinn afslátt frá birgjum án þess að það komi fram í verðlagi þeirra.
9. Fólk býr við vinnuþrælkun á Íslandi og vinnuvikan hefur lengst úr 44 í 53 klukkustundir. Þetta er misnotkun á auðlindinni vinnuafl.
10. Tekjur ríkisins hafa vaxið ævintýralega mikið; frá 1994 til 2004 úr 700 þúsund krónum á mann í 1.100 þúsund krónur á mann. Hlutur tekna ríkisins í þjóðartekjum í heild hefur snarhækkað. Misrétti hefur aukist í landinu og ljóst að það er fyrst og fremst ríkið sem hefur staðið fyrir því, ekki (aðrir) launagreiðendur - aukning misréttis er: fjármálaráðherra.
Þarf að skipta um stefnu eða skipta um almenning?
19.1.2007 | 19:48
Klám, ofbeldi og svindl
Vinur minn hefur bent mér á að það sé hinn mesti misskilningur hjá mér og öðrum að það sé einhver þörf á alvöruþrunginni og gagnrýninni fréttamennsku. Það er að segja ef það eigi að fara eftir áhuga almennings, miðað við hvað hann horfir á og les. Þessu til sönnunar bendir hann mér á hvað mest lesið sé og sent af mbl.is:
Mun klámið ráða úrslitum? Stúlka lokuð inni í herbergi í tvö ár. Ástarþríhyrningur unglinga endaði með líkamsmeiðingum. Bresk fréttakona berar sig í beinni. Brandari sem klikkaði. Hugh Hefner ástfanginn. Diaz og Timberlake sögð hafa átt í hvössum orðaskiptum eftir verðlaunahátíð. Seinfeld reyndi að snuða fasteignasala.
Klám, ofbeldi, svindl og rifrildi stjarnanna, segir vinurinn. Og bætir við að stjórnmálamenn eigi að læra af þessu; þeir eigi að fara fáklæddir, helst berir, í ræðupúlt Alþingis og ráðast á andstæðingana með orðum og höggum. Vinur minn er fyndinn og háðskur. En að hlátrinum loknum hugsaði ég vissulega; Hefur fólk miklu meiri áhuga á gjörðum Silvíu Nætur en gjörðum Sivjar Friðleifs? Er kannski hið sannreynda mikla áhorf á sjónvarpsfréttir ekki til marks um alvarlega þenkjandi fólk heldur fólk sem bíður eftir fréttum af klámi, ofbeldi og stjörnum að rífast? Svari hver fyrir sig...
Stjórnmál og samfélag | Breytt 23.1.2007 kl. 16:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.1.2007 | 15:50
Eftirfylgni frétta ábótavant
- Liðlega helmingur reyndra blaða- og fréttamanna telur stéttina standa sig sæmilega í að fylgja fréttum eftir. Margir sjá batamerki eiga sér stað.
- Nær 40% reyndra blaða- og fréttamanna telja hins vegar að stéttin standi sig illa í eftirfylgni og hverfandi lítill hluti talar um góða frammistöðu.
Sjá nánar www.simnet.is/lillokristin
9.1.2007 | 15:25
Tímaþröng og vinnuálag
Meðal veigamestu áhersluatriða í viðurkenndum vinnubrögðum og siðareglum blaða- og fréttamanna á alþjóðavísu eru nákvæmni og vandvirkni. Í siðareglum Blaðamannafélags Íslands er ekki farið mörgum orðum yfir þetta, heldur einfaldlega sagt: Blaðamaður vandar upplýsingaöflun sína, úrvinnslu og framsetningu svo sem kostur er. Siðareglur erlendra blaðamannafélaga og alþjóðasamtaka þeirra eru víðast hvar nokkuð ítarlegri og kveða meðal annars á um vandvirkni og ábyrgð. Því til viðbótar er talað um sanngirni hvað ólík sjónarmið varðar og jafnvel er gerð sú krafa að menn kunni að greina kjarnann frá hisminu (sjá t.d. siðareglur Society of Professional Journalists). Augljóslega er ekki hægt að fullnægja þessum skilyrðum með því að kasta til hendinni og sópa út hálfunnum fréttum.
En þetta er samt veruleikinn sem blasir við íslenskum blaða- og fréttamönnum. Það virðist stundum vera litið á það sem náttúrulögmál að hver blaða- og fréttamaður eigi dag hvern að skila af sér sem allra flestum fréttum og ekki seinna en í gær. Ætla má að á hverjum degi séu reglur um vandvirkni og nákvæmni gróflega brotnar! Það er enda fast að því einróma álit reyndra blaða- og fréttamanna á Íslandi að stéttin búi við mikinn tímaskort við upplýsingaöflun, úrvinnslu og framsetningu frétta sinna.
Sjá nánar www.simnet.is/lillokristin
Stjórnmál og samfélag | Breytt 10.1.2007 kl. 00:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.1.2007 | 16:05
Veitum þeim aðhald
Það styttist í verðlækkunaraðgerðir með lækkun virðisaukaskatts á ýmsar nauðsynjavörur og niðurfellingu eða lækkun ýmissa annarra óbeinna skatta. Lesið svart á hvítu eiga þessar breytingar að hafa í för með sér áþreifanlega verðlækkun til hagsnóta fyrir neytendur. En ég er einn af þeim sem telja í ljósi reynslunnar að seljendur vöru og þjónustu muni reyna sitt ítrasta til að ná sem mestri af boðaðri lækkun í sinn vasa. Með því að hækka verð áður en það lækkar.
Er ég að segja að heildsalar og kaupmenn séu ósiðlegir? Ekki beint. Ég er einfaldlega að meðtaka að þessir aðilar gera allt til að hámarka hagnað sinn og hluthafa sinna. Ég er að meðtaka að hagnaðarvonin sé miklum mun áhrifameiri þáttur í ákvörðunum þessara aðila en viljinn til að selja vörur og þjónustu á sem lægsta verði. Það er enda tiltölulega viðurkennd hagsmunagæsla og gengur algjörlega upp þar sem almenningur og neytendur veita sömu aðilum lítið eða ekkert aðhald. Það er stólað á þrælslund og kæruleysi almennings.
Þetta blasir við: Ef skattabreytingar ríkisins skila sér ekki allar eða fast að því allar beint í vasa almennings og neytenda þá er um svik að ræða. Þjófnað. Alveg eins og með lækkun tekjuskatts ríkisins og hækkun persónuafsláttar. Ef einhver vinnuveitandinn ætlaði að taka eitthvað af þeim breytingum til sín, svo sem rukka starfsmann áfram sömu skattprósentuna en taka mismuninn til sín, þá væri það þjófnaður. Að vísu er verðlag frjálst og heildsölum og kaupmönnum í sjálfu sér frjálst að hækka álögur sínar. En það er frelsi sem stjórnvöld geta illa skýlt sér á bak við ef lækkunin skilar sér ekki í vasa almennings og neytenda. Áþreifanleg lækkun er loforð um kjarabætur, er framlag til aukinnar samfélagssáttar. Heildsalar og kaupmenn mega ekki komast upp með að svíkja það loforð, þótt aðrir en þeir hafi gefið það.
5.1.2007 | 13:10
Fjórða valdið
Í könnun minni voru tvær spurningar er lutu að Fjórða valdinu. Niðurstöður voru mjög athyglisverðar og bera með sér að fjórðavaldshugtakið sé verulega umdeilt sem slíkt, en alls ekki aðhalds- eða varðhundahlutverkið. Tæplega 49% svarenda sögðu já við fyrri spurningunni, en 41% sögðu nei.
Sjá nánar hér.
31.12.2006 | 13:37
Nálægðarvandinn - áhrif smæðar samfélagsins
Þegar blaða- og fréttamenn verða of tengdir umfjöllunarefni sínu, t.d. af persónulegum ástæðum eða hagsmunatengdum, er hætta á því að grundvallarreglur á borð við sanngirni, nákvæmni og óhlutdrægni víki. Í fámennum samfélögum eins og Íslandi, þar sem allir þekkja alla, verður hættan á þessu að teljast mikil. Með öðrum orðum er töluverð hætta á því að blaða- og fréttamenn verði of tengdir persónum í t.d. stjórnmálum og viðskiptum. Inn í spila félagsleg tengsl á ýmsum sviðum, svo sem í gegnum ætt, stjórnmálaflokk (einkum á tímum flokksmálgagnanna, íþróttafélag og fleira...
Sjá nánar www.simnet.is/lillokristin.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.12.2006 | 14:04
Dauði flokksblaðanna
Um 56% reyndra blaða- og fréttamanna eru á því að fagleg vinnubrögð séu orðin betri eftir dauða hinna svokölluðu flokksblaða (flokksmálgagna). En nærri því 30% telja að fagleg vinnubrögð hafi ekki batnað og um 15% eru tvístígandi.
Sjá www.simnet.is/lillokristin
22.12.2006 | 19:17
Bætt tækni og blaðamennska
"Tölvutæknin og netið hefur auðveldað blaðamönnum vinnuna. Sú breyting er gífurleg, eins og allir vita sem muna tímann fyrir tölvur og net. Meginbreytingin er sú að blaðamenn eiga nú mjög auðvelt með að afla sér upplýsinga um fjölmarga hluti sem áður voru faldir í skjalaskápum eða skrifborðsskúffum. Margir blaðamenn virðast nýta sér þetta vel, en auðvitað er það misjafnt eins og annað. Það er hins vegar eins með upplýsingar á netinu eins og aðrar upplýsingar, að það þarf að vinna faglega úr þeim í stað þess að birta þær meira og minna hráar eins og því miður virðist algengt.
Sjá www.simnet.is/lillokristin
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)