Sögulegur forsíðuuppsláttur

Forsíðuuppsláttur Morgunblaðsins á þessum föstudegi er á margan hátt sögulegur. Vegna myndauppstillingarinnar á þeim fimm karlkyns hæstaréttardómurum sem milduðu dóm yfir manni sem sannanlega hafði gerst sekur um alvarlega kynferðislega misnotkun á fimm stúlkubörnum.

Skilaboð ritstjórnar Morgunblaðsins voru lítt dulbúin gagnvart annars faglegum texta: Dómurunum var stillt þannig upp að ætla mátti að þar færu glæpamenn á ferð; eiginlega níðingar. Fyrirsögnin lýsti glæp þeirra: Milduðu dóminn.

Fyrir venjulega borgara, sem hafa sérstaka ímugust á barnaníðingum, þig og mig, er uppslátturinn og uppstillingin glæsileg. Gott á þessa dómara, sem tóku meðvitaða ákvörðun um að hrófla ekki við fordæmum, hvað þá að nýta refsiramman ögn betur og meir en kann að hafa tíðkast. Skilaboð ritstjórnar Morgunblaðsins voru að þeir hafi gert rangt í að láta fordæmin flækjast um of fyrir sér. Þeir hafi þá átt að skapa nýtt fordæmi.

Annað sjónarhorn er hins vegar faglegt; uppslátturinn og uppstillingin voru hlutdræg og eiginlega DV-leg; sem sé æsifréttaleg og raunar mjög ó-Moggaleg. Þetta er og hið sögulega í málinu. Í svona ljósi getur fréttin ekki talist "góð". Allavegana miðað við þá línu að fjölmiðlar eigi að greina frá fréttum en ekki taka þátt í þeim. Morgunblað fortíðarinnar hefði látið duga að skamma dómarana í leiðara, Staksteinum og Reykjavíkurbréfi.

Svo má velta fyrir sér hvort uppslátturinn hefði orðið hinn sami ef Jón Steinar Gunnlaugsson, fornvinur Styrmis ritstjóra, hefði verið einn af dómurunum fimm?


mbl.is Hæstiréttur styttir dóm yfir kynferðisglæpamanni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lára Stefánsdóttir

Þessi frétt sló mig einmitt og þá veltir maður fyrir sér hvort ritstjórnarstefna Morgunblaðsins sé að breytast verulega. Hefur blaðið tekið þá afstöðu að draga fram dóma í brotum gegn börnum með svo afdrifaríkum hætti? Sama frétt birtist á síðu tvö í DV og þá minna áberandi. Hvaða skoðun hafa menn almennt á því að draga fram þessa hluti með þessum hætti.

Lára Stefánsdóttir, 3.2.2007 kl. 01:33

2 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Það hefur einmitt mátt sjá votta fyrir því að ritsjórnarstefna moggans hafi aðlagast breyttri heimsmynd, og er það vel. Mbl.is veigrar sér t.d. ekki við að fjalla á beinskeyttan hátt um vitleysuna sem er farin að viðgangast vestanhafs, en áður fyrr hefði slíkt kannski þótt vera of mikil ögrun við stóra bróður í vestri.

Guðmundur Ásgeirsson, 3.2.2007 kl. 02:33

3 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Það er rétt að halda því til haga að sjálf fréttin var algerlega æsingar- og sleggjudómalaus. Hún var há-fagleg að því undanskyldu að dómararnir umræddu voru ekki spurðir, en það er auðvitað vitað mál að dómarar hafa þá vinnureglu að tjá sig ekki í fjölmiðlum hvort eð er. Morgunblaðsmenn eru að forminu til ekki að fella neinn gildisdóm með því sem sagt er. En uppsetningin felur í sér löðrandi skilaboð, sem væntanlega verða útfærð í leiðara. Ég hygg að Mogginn sé réttum megin við strikið í þessari frétt og það verður forvitnilegt að sjá hvort nýjir tónar verði slegnir við framsetningu frétta í öðrum málaflokkum. Ég hugsa þó að þessi málaflokkur hafi töluverða sérstöðu.

Friðrik Þór Guðmundsson, 3.2.2007 kl. 03:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband