Raddir þeirra sem Allsherjarnefnd hafnaði

Mikið er rætt um umfjöllun Kastljóss um afar sérkennilega afgreiðslu Allsherjarnefndar Alþingis á umsókn tengdadóttur Jónínu Bjartmarz um íslenskan ríkisborgararétt, eftir 15 mánaða dvöl á landinu. Lögin eru nokkuð skýr, reglurnar nokkuð mótaðar. Það leiddi til þess að fjölmargir umsækjendur fengu höfnun. Í þeim hópi hefði tengdadóttirin lent miðað við hin þekktu fordæmi. En Allsherjarnefnd kaus af einhverjum óuppgefnum ástæðum að segja já við umsókn stúlkunnar með sama lögheimilið og ráðherra umhverfismála, á sama tíma og nei var sagt við fjölda annarra. Kannski var stúlkan um leið með öflug nöfn á tilskyldum meðmælendalista. 

Fjölmiðlar flytja tíðindi og þetta eru tíðindi. Það er ekki aðalmálið hvaðan upplýsingarnar koma eða hvort einhver hafi komið þeim á framfæri við fjölmiðilinn og ekki heldur aðalmálið á hvaða tímapunkti það gerist. Ef upplýsingarnar eru réttar þá eru í þeim fólgnar mikilsverð tíðindi sem ber að greina þjóðinni fram – af tilhlýðilegri hlutlægni, eins og kostur er. Ráðherrar og þingmenn hafa ítrekað undirstrikað og áréttað mikilvægt hlutverk fjölmiðla sem aðhald fyrir stjórnvöld.

Nefna má það sjónarhorn Nefndar menntamálaráðherra um fjölmiðla í skýrslu árið 2005 að fjölmiðlar gegni „lykilhlutverki í lýðræðislegu þjóðfélagi sem vettvangur fyrir ólík viðhorf til stjórnmála og menningar í víðum skilningi, og sem vettvangur fyrir öflun upplýsinga og miðlun þeirra“. Niðurstöður þessarar þverpólitísku fjölmiðlanefndar stjórnvalda um mikilvægi fjölmiðla voru ekkert síður eindregnar en niðurstöður í umdeildari fjölmiðlaskýrslu frá árinu áður (apríl 2004), þar sem meðal annars sagði: „Fjölmiðlar gegna margskonar hlutverki í nútíma lýðræðisríki. Þeir upplýsa, fræða og móta skoðanir almennings. Þá skemmta þeir, eru vettvangur fyrir auglýsingar og tilkynningar Þeir eru farvegur fyrir skoðanir yfirvalda, hagsmunahópa og almennings. Þeir veita yfirvöldum á hverjum tíma aðhald; stjórnvöldum jafnt og öðrum valdastofnunum samfélagsins.... Aðhaldshlutverk fjölmiðla snýr ekki aðeins að stjórnvöldum og kjörnum fulltrúum heldur einnig að hagsmunasamtökum og félögum, þar á meðal fyrirtækjum í atvinnulífinu. Það er lýðræðisleg skylda fjölmiðla að birta þær upplýsingar um störf þessara aðila sem þeir vita sannar og réttar óháð því hvort þær koma sér vel eða illa fyrir þá sem um er fjallað. Það er í þágu almannahagsmuna að fjölmiðlar séu sem óháðastir í störfum sínum þannig að ekki leiki grunur á að ákvörðun um birtingu upplýsinga og umfjöllun um einstök mál ráðist af tengslum fjölmiðlanna við valda- eða hagsmunaöfl í samfélaginu“. 

Þetta eru skilaboðin á tyllidögum frá ráðherrum (umhverfismála og annarra) og þingmönnum. Sama fólkið og sveigði reglurnar og sem nú fullt af vandlætingu og neitar að upplýsa hvers vegna reglurnar voru sveigðar. Full þörf er á því að ný vídd komi inn í þetta mál: Raddir þeirra á annan tug einstaklinga sem fengu höfnun frá allsherjarnefnd. Við þekkjum raddir fólks sem gift er íslendingum, en vísað hefur verið úr landi – af því það er ekki 24 ára. Fólk sem átti ekki lögheimili sameiginlegt með ráðamanni. 

Er ekki talað um meðalhóf og jafnræði í stjórnarskránni?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Satt og rétt.  Ég vil vita hvaða sérstöku aðstæður þarna voru á ferðinni og ég vil að einhver sem að málinu kom, leynt eða ljóst, útskýri það fyrir þjóðinni.

Um leið tek ég fram að mér þykir íslenska löggjöfin alltof ströng og vil að allir fái sömu meðferð og þessi stúlka.  Vonandi verður þetta fordæmi. 

Björgvin Valur (IP-tala skráð) 28.4.2007 kl. 11:46

2 Smámynd: Baldur Kristjánsson

Sammála, þetta fyrirkomulag á undanþágum er út í hött...Kv. B

Baldur Kristjánsson, 28.4.2007 kl. 20:16

3 identicon

Lýðræðisleg skylda,  ó já 

"Það er lýðræðisleg skylda fjölmiðla að birta þær upplýsingar um störf þessara aðila sem þeir vita sannar og réttar óháð því hvort þær koma sér vel eða illa fyrir þá sem um er fjallað. Það er í þágu almannahagsmuna að fjölmiðlar séu sem óháðastir í störfum sínum þannig að ekki leiki grunur á að ákvörðun um birtingu upplýsinga og umfjöllun um einstök mál ráðist af tengslum fjölmiðlanna við valda- eða hagsmunaöfl í samfélaginu“. "

Mér sýnist að Kastljósið hafi nú minnst fjallað um störf Alsherjarnefndar heldur fyrst og fremst reyndt að draga Umhvefisráðherra inn í málið með ósmekklegum hætti.  Það er staðreynd málsins og óumdeild.  Dettur einhverjum í hug að VG, Frjálslyndir og Samfylking hafi látið spila með sig í þessu máli.  Ó nei,  af einhverjum illgjörnum og sóðalegum  hvötum tekur starfsfólk ríkisútvarpsins þátt í rógsherferð gegn ráðherra.  Ráðherra sem hefur ekkert með málið að gera nema etv. það sem allar tengdmæður myndu gera, þ.e.  gefa góð ráð við gerð umsóknar.  Annað held að hún hafi ekki gert.   Hafið skömm Kastljósfólk fyrir svona háttsemi.  Gleymið ekki að Allsherjarnefnd hefur þetta vald samkvæmt lögum,  það er staðreynd.

Valbjörn (IP-tala skráð) 29.4.2007 kl. 14:13

4 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Valbjörn. Forsprakkar Allsherjarnefndar gáfu ekki kost á viðtali, annars hefði það fólk setið fyrir svörum. Af einhverjum ástæðum mundi það fólk málið allt í einu illa og vildi ekki ræða málið. Jónína samþykkti viðtal, en svaraði ekki lykilspurningunni. Raddir hinna raunverulegu þolenda eru byrjaðar að koma fram - raddir þeirra sem hafa EKKI fengið ríkisborgararétt, en uppfyllt sömu og fleiri skilyrði til þess en umrædd stúlka frá Gvatemala. Bæði sanngirni og jafnræði eiga að ráða för þegar undanþágur eru veittar.

Friðrik Þór Guðmundsson, 29.4.2007 kl. 20:14

5 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Ríkisborgararéttur með undanþágu - til að losna við óþægindi af námsdvöl og -ferðalögum. Slíkt er pólitíska ástandið í Gvatemala!

Friðrik Þór Guðmundsson, 1.5.2007 kl. 11:59

6 Smámynd: Valbjörn Steingrímsson

Sæll Friðrik,  Guðmundur Magnússon bloggar ágætlega um þetta mál.  Sjá neðar............ 

Brotalamir

Umfjöllun Kastljóss í kvöld um mál stúlkunnar frá Guatemala, sem fékk íslenskan ríkisborgararétt eftir óvenju skamma dvöl í landinu, var málefnaleg. Skoðun mín á þessu máli er hin sama og áður: það er aðfinnsluvert að undirnefnd allsherjarnefndar Alþingis, sem veitti undanþáguna, virðist ekki fylgja nægilega skýrum starfsreglum. Það virðist vera allnokkurt rými fyrir geðþóttaákvarðanir.  Vilja menn hafa það þannig áfram, og uppskera áframhaldandi deilur um einstök mál, eða hreinlega taka þennan kaleik af Alþingi?

Ég sé ekki að Jónína Bjartmarz verði kölluð til ábyrgðar í þessu máli. Það hefur ekkert komið fram sem bendir til þess að hún hafi misbeitt stöðu sinni. Hafi þingmennirnir þrír, sem veittu undanþáguna, viljað þóknast ráðherra er það á þeirra ábyrgð en ekki hennar.

Þetta mál bendir til þess að brotalamir séu á því skipulagi sem við höfum til að taka ákvarðanir um ríkisborgararétt. Það þarf að endurskoða. En gætum okkar á fúafeni skinhelginnar. Hvað er langt síðan það var lofað og prísað í öllum fjölmiðlum og öllum flokkum að veita Bobby Fischer ríkisborgararétt utan við öll lög og reglur?

En munurinn kannski bara sá að þá voru ekki kosningar framundan?http://gudmundurmagnusson.blog.is/blog/gudmundurmagnusson/

Mín skoðun Friðrik er sú að þið Kastljósfólk hafið á mjög ódrengilegan hátt reynt að gera ráðherra tortryggilegan án þess að hafa neitt í höndum sem bendlar viðkomandi við málið.  Það verður ekki hrakið nema gögn verði lögð fram um annað.



Valbjörn Steingrímsson, 1.5.2007 kl. 21:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband