Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Menn ársins: Breiðavíkurdrengirnir

"Drengirnir" sem komu út úr áratuga þykkri skel sinni, vörpuðu af sér okinu og sýndu okkur hvað í þjóðarspeglinum sést ef vandlega er horft. Að undir yfirborðinu og á bak við tjöld meintra góðverka leynast stundum grimm eyðileggingaröfl.

Skyndilega var vonda veröldin, sem Baldur Hermannsson hafði áður lýst af fyrri öldum, komin að mörkum nútímans. Fullorðnir menn og konur misþyrmdu og misbuðu ungum drengjum. Stórir drengir misþyrmdu og misbuðu ungum drengjum. Enginn heyrði neyðarópin.

Sumum fannst nóg um þegar drengirnir, nú miðaldra, komu hver á fætur öðrum í sjónvarp og aðra fjölmiðla, sumir í tárum. Ekki mér. Þetta sturtubað var þjóðinni ákaflega nauðsynlegt og nú þarf að rýna undir fleiri teppi.

Mér hefur virst að Freyja muni fá útnefninguna á Rás 2 og það er fínt mál. Hún er líka að standa sig frábærlega og á allt gott skilið, enda er hún líka að sýna okkur undir fallega yfirborðið á sinn hátt. Mig langar raunar til að líka hennar líkamlegu fötlun við þá andlegu fötlun sem margir Breiðavíkurdrengjanna hafa mátt glíma við frá Breiðavíkur-fangelsuninni og misþyrmingunum þar.


Uppsláttarfrétt um Breiðavíkurmálin

Það voru ekki mjög margir sem mættu á aldeilis stórgóðan fund í Háskólabíói í gær um Breiðavíkurmálin. Hugsanlega brást Barnaverndarstofu bogalistin við kynningu á fundinum, en hún blés til hans í tilefni afmælis barnaverndar á Íslandi. Hvað sem því líður komu fram tíðindi á fundi þessum sem ég slæ hér með upp.

Fyrst er að nefna að Kristján Sigurðsson (forstöðumaður Breiðavíkur 1955-56 og forstjóri Upptökuheimilis ríkisins frá 1970) upplýsti (í svari við fyrirspurn frá mér) að Upptökuheimilið og barnaverndaryfirvöld í Reykjavík hefðu hætt að senda drengi á Breiðavík 1970 eftir að séra Sigurður Sigurðarson (síðar vígslubiskup) kom að máli við Kristján. Kristján fór ekki nánar út í hvað Sigurður hefði sagt, sem leiddi til svo stórrar ákvörðunar, en þetta eru ný og mikilvæg tíðindi, því hingað til hefur séra Sigurður ekki viljað gera mikið úr því að eitthvað hafi verið að fyrir vestan, þegar hann starfaði þar. En þarna virðist séra Sigurður hafa gert sér ferð til Kristjáns gagngert til að bjarga drengjum frá .... einhverju. Gott væri að séra Sigurður upplýsti nánar um þessar viðvaranir.

Í öðru lagi svaraði Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu (BVS), fyrirspurn (aftur frá mér, ég var óðamála, já, já) um viðbrögð við úrbótatillögum og óskum um auknar fjárveitingar BVS í nútímanum. Tilefni spurningarinnar var að í 14 ár skilaði Símon Jóh. Ágústsson tillögum í skýrslum sínum til menntamálaráðuneytisins, tillögum um úrbætur og sérstaklega um nauðsyn góðrar eftirfylgni með drengjunum að vist lokinni fyrir vestan - ella færi "meðferðin" fyrir bí. Tillögum og skýrslum Símons var augljóslega stungið í skúffu, jafnvel ólesnum, utan hvað úrbætur voru gerðar hvað dauða hluti varðar, byggingar og slíkt. Ég spurði því Braga hvort verið gæti að í nútímanum væri tillögum og óskum BVS stungið í skúffu. Mér að óvörum svaraði Bragi "já". Hann upplýsti að á 12 ára ferli BVS hefði það aldrei gerst fyrr en nýverið og þá einu sinni, að sérstakar óskir og tillögur BVS hefðu mætt samþykki yfirvalda, mælt í fjárveitingum vænti ég. Ég vil ekki túlka fyrir Braga, en mín túlkun er sú að einnig í dag er gert minna fyrir börn í erfiðleikum en sérfræðingar telja nauðsyn á. Ég ætla ekkert að halda því fram að "Breiðavík sé til í dag" en í kjölfar þessara svara Braga er rétt að fjölmiðlar og þingmenn skoði ástæður þess að yfirvöld setja tillögur barnaverndaryfirvalda til hliðar - og afleiðingar.


Glæpur, hefnd og fégræðgi?

"... menn svífast einskis til að ná völdum og bola þeim burtu sem voga sér að vera ekki sammála auðjöfrunum og er þeta orðið aðalsmerki sumra fégráðugra manna".

Þetta eru lokaorð Kristjáns Guðmundssonar fyrrverandi skipstjóra, í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag. Grein Kristjáns er rosaleg og raunar furðulegt að hún sé ekki meira rædd á blogginu en raun ber vitni. Í greininni sakar Kristján Björgólfana svokölluðu, Hafskipsmennina með "rússagullið" um vafasamar "hefndaraðgerðir", um glæpsamlega ósvífni, um brot á reglum lífeyrissjóðs starfsmanna gamla Eimskipafélagsins, um takta að hætti einræðisherra, um bolabrögð í krafti auðmagns - og gefur þjóðinni og ráðamönnum hennar síðan utanundir með því að segja sem svo að það þori enginn að vera á öðru máli en "ráðandi öfl í Landsbankanum".

 Kristján hefur rétt fyrir sér. Það dirfist enginn að andmæla. Það er stórhættuleg staða lýðræðislegri umræðu. Sterk vísbending um það er að ég læt hér staðar numið - í skjóli Kristjáns.


BSRB segir það sem flestallir vilja

BSRB eru heildarsamtök launafólks í almannaþjónustu og ekkert óeðlilegt við það að slík samtök tjái sig um markaðs- og einkavæðingu almannaþjónustunnar. Í þeirri ályktun sem hér um ræðir er BSRB aukin heldur að segja nokkurn veginn það sem allflestir eru orðnir sammála um: Að samningarnir milli REI og Geysir Green verði endurskoðaðir og málið allt krufið til mergjar. Ég myndi vilja bæta við kröfu um opinbera lögreglurannsókn!

Það sem er hins vegar fullkomlega óeðlilegt er að nafnlausir skíthælar á borð við "Dharma" komist upp með það að kommentera með þeim hætti sem hann gerir við þessa frétt mbl.is. Viðkomandi hugleysingi eys í skjóli nafnleyndar aur yfir formann BSRB, kallar hann "spilltan hottintotta" og "hryðjuverkamann" með "skítlegt eðli" og áfram mætti upp telja. Auðvitað má segja sem svo að "Dharma" dæmi fyrst og fremst sjálfan sig með slíkum ummælum - og dómurinn er: "Dharma" er huglaus drullumakari.

Það sem er líka óeðlilegt er að bæði "Dharma" og Sigurður Viktor Úlfarsson tala eins og Ögmundur sé algerlega einráður innan BSRB og að aðrir starfsmenn BSRB og t.d. formenn og stjórnir aðildarfélaganna séu algerlega undir hans hæl. Hvernig dettur mönnum í hug önnur eins vitleysa? Í stjórn BSRB eru 30 einstaklingar með rætur í öllum stjórnmálaflokkum og menn tala eins og Ögmundur hafi dáleitt allt þetta fólk til að lúta vilja sínum í einu og öllu, fyrir utan síðan starfsfólk BSRB; vitiborna hagfræðinga, lögfræðinga, félagsfræðinga o.s.frv. Mikill er máttur mannsins, segi ég nú bara. Hann getur þá væntanlega ekki hafa náð því að verða formaður þessara fjölmennu samtaka um langt árabil nema með því að heilaþvo og þjösnast á öllu þessu fólki úr öllum þessum flokkum! Maður með slíkt náðarvald ætti ekki að einskorða sig við Ísland - hann ætti að yfirtaka heiminn svi mér þá!!


mbl.is BSRB vill að borgaryfirvöld ógildi samninga REI og GGE
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hafskipsmenn rannsaka

Fregnir hafa borist um að fyrrum forráðamenn Hafskips séu að láta rannsaka tilurð og rannsókn Hafskipsmálsins svokallaða. Tugir sérfræðinga séu á fullu í því með ærnum kostnaði, væntanlega í boði Landsbanka Íslands eða Björgólfs Guðmundssonar persónulega, en Björgólfur var sem kunnugt er sakfelldur í þessu stóra máli.

Þetta er auðvitað gott og blessað svo langt sem það nær. En jafnframt er deginum ljósara að það verður erfitt fyrir hinn gríðarlega fjölda sérfræðinga að komast að niðurstöðu sem greiðandanum, Björgólfi, mislíkar. Hvað ef niðurstaðan verður að allt hafi verið með felldu að rannsókn málsins og niðurstöður dómstólanna? Á þá bara að borga meira fyrir aðra niðurstöðu?

Og hvað svo? Á næst að rannsaka t.d. Hæstaréttarmálið nr. 214/1969 Hafskip gegn G. Albertssyni til að fá út þá niðurstöðu að undirréttur og Hæstiréttur dirfðust að sýkna G. Albertsson af skaðabótakröfu Hafskips? Bara svo eitt dæmi sé tekið.

Hitt er annað mál að það er vissulega tímabært að upplýsa með óyggjandi hætti hvort að samkeppnisaðilinn Eimskip, sem þá var hjartað í gamla Kolkrabbanum, hafi með óeðlilegum og jafnvel saknæmum afskiptum stuðlað að falli Hafskips og komist yfir eigur síðarnefnda skipafélagsins fyrir slikk.

Aftur á móti leyfi ég mér að biðja hinn stóra hóp rándýrra sérfræðinga að bera saman sambærilegar krónur þegar leitast er við að endurmeta hvort Hafskip hafi de facto verið gjaldþrota. Það liðu mörg ár frá því að kröfur voru lagðar fram í þrotabúið og að búið var gert upp með greiðslum upp í kröfur. Vegna verðbólgubálsins sem ríkti er þetta nauðsynlegt og tal hingað til um að 70% hafi fengist upp í kröfur er talnablekking.


Sigurður svínbeygði Svein

Ég hef verið beðinn um að útskýra nánar niðurlag færslu minnar hér að neðan um Svein Andra Sveinsson og Sigurð Líndal.

 

Gott og vel. Sveinn Andri sá um meiðyrðamál mitt gegn Sigurði Líndal og það tapaðist í undirrétti. Gréta Baldursdóttir héraðsdómari komst að þeirri niðurstöðu að orð Sigurðar í bréfi til fjölmiðla („Í kvöldfréttum í gær sagði Stöð II frá efni skýrslunnar sem auk þess voru ekki réttar.  Ljóst virðist því að einhver vandamanna - og er varla öðrum til að dreifa en Friðriki Þór Guðmundssyni- hefur brotið trúnað og látið Stöð II í té framangreindar upplýsingar.” ) hefðu ekki legið fyrir utan mörk tjáningarfrelsisins, heldur hafi verið um að ræða gildisdóm þar sem stefndi lagði mat sitt á staðreyndir sem hann taldi vera fyrir hendi.

 

Þegar ég síðan ætlaði að ná tali af Sveini Andra og ræða við hann um áfrýjun málsins var Sveinn Andri gufaður upp, í rúma tvo mánuði svaraði hann ekki símtölum mínum, ekki tölvupóstum, sinnti ekki skilaboðum og vildi augljóslega ekkert við mig tala, af einhverjum óútskýrðum og gjörsamlega óskiljanlegum ástæðum. Hann hefur ekki viljað gefa mér þessar skýringar fyrr eða síðar og ekki heldur úrskurðarnefnd (siðanefnd) Lögmannafélagsins og var enda skammaður fyrir þetta allt af nefndinni.

 

Ég get því aðeins lagt mat mitt á ástæðurnar. Og leitað í smiðju Grétu héraðsdómara til að vera viss um að ég sé réttu megin við mörk tjáningarfrelsisins. Við skoðun á staðreyndum málsins get ég ekki annað en dregið þá ályktun að einhver hafi haft þau áhrif á Svein Andra að brjóta á mér, skjólstæðingi sínum, hunsa óskir mínar um áfrýjun umrædds dóms. Ég staðfæri niðurstöðu undirréttardómarans og segi: Einhver áhrifamikill aðili, og er varla öðrum til að dreifa en Sigurði Líndal, náði heljartökum á Sveini Andra. Þetta er minn gildisdómur, þar sem ég legg mat mitt á staðreyndir sem ég tel vera fyrir hendi.

 Ergo: Sigurður svínbeygði Svein. Ég má segja það. Það er gaman að þessu!

Sveinn Andri úrskurðaður aðfinnsluverður

Sveinn Andri Sveinsson hæstaréttarlögmaður er aðallega kunnur af því að standa sig af fremsta megni við að verja forherta glæpamenn og ekki síst kynferðisbrotamenn. Hann gaf sér þó tíma til þess árið 2005 að taka að sér fyrir mig meiðyrðamál sem ég sá mig knúinn til að höfða gegn Sigurði Líndal lagaprófessor, af því að Líndal sakaði mig opinberlega um grafalvarlegt trúnaðarbrot – en slíkt er blaða- og fréttamönnum óþolandi og atvinnumöguleikum þeirra hættulegt.

 

Úrskurðarnefnd (siðanefnd) Lögmannafélagsins hefur nú úrskurðað eftirfarandi: “Sú háttsemi kærða, Sveins Andra Sveinssonar, hrl., að svara ekki skilaboðum og fyrirspurnum kæranda, Friðriks Þórs Guðmundssonar, sem lutu að möguleikum á áfrýjun héraðsdóms, áður en áfrýjunarfresturinn rann út er aðfinnsluverð. Sú háttsemi kærða, að svara seint og á ófullnægjandi hátt tilmælum úrskurðarnefndar lögmanna um að gera grein fyrir máli sínu um erindi kæranda, er aðfinnsluverð”.

 

Sveinn Andri hefur með öðrum orðum verið faglega húðskammaður fyrir frammistöðu og framkomu sína í málinu sem hann tók að sér fyrir mig gegn gjaldi.

 

Sigurður Líndal er ekki hver sem er í samfélaginu og fyrirfram ljóst að við ramman reip væri að draga að höfða mál gegn honum – þessum fræðilega uppalanda flestra lögmanna og dómara landsins. Ég kannaði hug nokkurra nafntogaðra lögmanna og Sveinn Andri var sá eini sem virtist þora í Sigurð. Mál var höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur og hin umstefndu ummæli Sigurðar: Hann sagði opinberlega að einhver aðstandenda hefði lekið skýrslu um Skerjafjarðarslysið í fjölmiða og væri þar vart um annan að ræða en Friðrik Þór Guðmundsson. Sigurður laug blákalt upp á mig og neitaði í kjölfarið að draga ummæli sín til baka og biðja mig afsökunar. Líndal vék sérstaklega úr vegi til að koma á mig höggi; annars hefði öllum þáttum Skerjafjarðarmálsins verið lokið þar og þá.

 

Héraðsdómarinn komst að þeirri niðurstöðu að sýkna Sigurð, þar sem um leyfilegan gildisdóm væri að ræða. Með öðrum orðum hafi hann mátt viðra þessa skoðun sína – burt séð frá sannleiksgildi hennar. Dómarinn túlkaði lögin á hagfelldasta hátt fyrir lagaprófessorinn. Kannski var við því að búast.

 

Ég felldi mig ekki við þessa niðurstöðu en féllst á þá tillögu Sveins Andra að nýta þriggja mánaða áfrýjunarfrestinn, leggjast undir feld og hugsa málið. Mín afstaða var þó mótuð og þegar tæpir tveir mánuðir voru liðnir hófust tilraunir mínar til að ná sambandi við Svein Andra til að ræða við hann um áfrýjun dómsins til Hæstaréttar. En einhverjir óútskýrðir og undarlegir hlutir höfðu gerst. Af ókunnum ástæðum greip Sveinn Andri til þess óyndisráðs að svara mér ekki. Hann hunsaði tölvupósta mína, tók ekki símtölum mínum, sinnti ekki skilaboðum frá mér og neitaði að ræða við mig þegar ég vék eitt sinn að honum á göngum héraðsdóms. Staða mín var ekki góð; áfrýjunarfrestur að renna út, en verklok af hálfu Sveins Andra ekki komin til og mér óheimilt að leita annað. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir og meðal annars ákall til kollega Sveins Andra á lögmannsstofunni, leið áfrýjunarfresturinn með tilheyrandi réttarspjöllum.

 

Ég veit ekki hvað kom eiginlega fyrir Svein Andra. Ég gat ekki látið fagleg svik hans óátalin og vísaði þeim til siðanefndar lögmanna. En það er ekki aðalatriðið, heldur hitt að ég hef enn engar skýringar fengið á téðum svikum. Mér er því næst að nýta mér áðurnefndan Líndals-dóm til að fella gildisdóm. Sá dómur er þá alltént sigur fyrir málfrelsið og þá út af fyrir sig huggun. Mér leyfist að segja: Einhver greip Svein Andra heljartökum í málinu og kom honum til að svíkja skjólstæðing sinn og er þar vart um annan að ræða en Sigurð Líndal.


Felldi Kastljós Jónínu, Framsókn og ríkisstjórnina?

Hinn mæti maður, Jón Kristjánsson, fyrrum ráðherra, skrifar furðulega grein í Sunnudagsblað Fréttablaðsins. Grein Jóns er hér. Leggur Jón út frá grafalvarlega ranglátum úrskurði siðanefndar BÍ í svonefndu Jónínumáli (sem er rangnefni). Grein Jóns er mjög vond, eins og úrskurðurinn.

Jón fellur í þann fúla pytt, eins og siðanefndin, að gera Helga Seljan og Kastljósinu almennt upp annarlega hvatir við umfjöllunina um veitingu ríkisborgararéttar til tengdadóttur Jónínu Bjartmarz. En Jón gengur lengra og hann gengur svo langt að hann fellur fram af hömrum og endar í urð og grjóti.

Jón meira og minna kennir Kastljósi um ófarir Framsóknarflokksins í síðustu þingkosningum. Hann segir það "mjög líklegt að málatilbúnaður Kastljóssins hafi haft áhrif á úrslit alþingiskosninganna og innbyrðis röð þingmanna Framsóknarflokksins og sé ein af ástæðum þess að flokkurinn hefur nú ekki þingmann í Reykjavík".

Þvílík endemis vitleysa. Jón: Það er Framsókn sjálf sem gerði út af við sig gagnvart kjósendum. Niðurlægingin 2006 var ekki Kastljósi að kenna. Neyðarlegt brotthvarf Halldórs Ásgrímssonar var ekki Kastljósi að kenna. Og mæling Framsóknar í eins stafa prósentutölu vel fyrir kosningarnar var ekki Kastljósi að kenna. Loks: Umfjöllun Kastljóss um mál stúlkunnar sem fékk ríkisborgararéttinn beindist ekki að Framsókn umfram stjórnvöld yfirleitt. Það var ekki Jónína Bjartmarz sem var í kastljósi Kastljóss, heldur allsherjarnefnd Alþingis og þar af þriggja manna undirnefnd fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Samfylkingarinnar. Í raun og veru mælir ekki margt gegn því að Jónína reyndi að hjálpa tengdadóttur sinni sem mest hún mátti, en það var allsherjarnefndar og þingsins að tryggja eðlilega afgreiðslu.

Og hvað sem úrskurði siðanefndar líður þá hygg ég að flestallir séu sammála um það að afgreiðsla allsherjarnefndar hafi EKKI verið eðlileg. Það er rétt að árétta og undirstrika í því sambandi að siðanefndin tók undir fréttagildi málsins og "sýknaði" umfjöllunina að mestu leyti - hin vonda "sakfelling" beindist að einum þætti af fjórum (þeim fyrsta) og að einum fréttamanni af þremur (Sigmar Guðmundsson og Jóhanna Vilhjálmsdóttir fjölluðu líka um málið, drógu það í land og að niðurstöðu). Fréttastofa Sjónvarpsins var kærð líka en að sjálfsögðu "sýknuð". Og það er líka rétt að halda til haga að siðanefndin horfði einfaldlega framhjá fjölmörgu í langhundinum hennar Jónínu sem kallaðist kæra til siðanefndar.

Jón, ó Jón. Nú þegar þú ert hættur í pólitík ættir þú að leyfa gamla ritstjóranum í þér að ráða ferð og sem slíkur ættir þú að rifja upp fagleg grundvallaratriði blaða- og fréttamennsku (EKKI flokksblaðamennsku þó). Gamli ritstjórinn í þér veit að frétt er frétt, þegar hún gerist eða kemur upp á yfirborðið (það á t.d. ekki að grafa fréttir vegna þess að kosningar eru skammt undan!). Fjölmiðlar eiga að veita stjórnvöldum aðhald og það geri Kastljós með mjög vel viðunandi hætti í þessu - og um það eru flest allir sammála nema helst Framsóknarmenn.

Um siðanefndina vil ég segja: Úrskurðir hafa oft verið gagnrýndir og stundum hefur maður verið sammála og stundum ósammála. En þessi úrskurður hefur algera sérstöðu og lýtur að algerum grundvallaratriðum fagsins. Þetta er vondur, óvandaður og hættulegur úrskurður. Það er full þörf á því að gera undantekningu á annars ágætri reglu um að siðanefndarmenn tjái sig ekki um úrskurði sína. Nú verður að koma skýring, nánari rökstuðningur. Það er höfuðnauðsyn. Ég vil skilja hugrenningar siðanefndarinnar, því úrskurðurinn er óskiljanlegur. Ég krefst skýringa - ellegar afsagnar siðanefndar. Í fúlustu alvöru. Um leið vil ég fá upplýst hvernig endurskoðun siðareglna miðar og hlakka til að sjá hvort fram muni koma einhver þau atriði sem koma munu í veg fyrir sambærilegt slys og nú hefur átt sér stað.

 


Siðanefnd fer villur vega

Siðanefnd blaðamannafélagsins fór villur vega í gær – að því er virðist lét nefndin froðufellandi fyrrum ráðherra rugla sig í ríminu og trúa því að umsjónarmaður Kastljóss hafi gengið um með óvildarhug í garð viðkomandi fyrrum ráðherra, hafi viljandi farið með rangfærslur gagngert til að gera viðkomandi ráðherra tortryggilegan og í því skyni „látið undir höfuð leggjast að afla grundvallarupplýsinga í viðkvæmu máli“. Siðanefndin fór þá ólíkindaleið að taka kærumálflutning fyrrum ráðherrans sem lög á bók en rök Kastljóss voru að engu höfð og lutu þau þó að grundvallarreglum fagsins.

Hvað er siðanefnd að hugsa? Fyrst er þó að árétta að siðanefndin að mínu viti umfjöllunina í heild og telur þannig hlut Sigmars Guðmundssonar og Jóhönnu Vilhjálmsdóttur í lagi og umfjöllunina og niðurstöðurnar í heild; hin dapra niðurstaða lýtur eingöngu að fyrsta þættinum 26. apríl. Samanburður milli texta þess þáttar og umfjöllunar siðanefndar vekur upp furðu. Siðanefndin segir þannig Kastljós/Helga ekki hafa aflað upplýsinga, sem þó eru sérstaklega tíunduð í viðkomandi umfjöllun. Siðanefndin segir einnig Kastljós/Helga hafa fullyrt um hluti sem ekki var gert! Það er eins og siðanefndin hafi bara lesið greinargerð kærandans, ráðherrans fyrrverandi.

Fréttamál þróast. Í þessu tilfelli var ítarlegra upplýsinga aflað með stuðningi í gögnum og áreiðanlegum heimildum. Siðanefnd virðist taka undir formælingar ráðherrans fyrrum um fjórar alvarlegar staðreyndavillur – sem siðanefnd dirfist að kalla „rangfærslur“ (fær orðalagið væntanlega frá ráðherranum fyrrverandi) – og úrskurðar í raun út frá því. Þetta eru einfaldlega RANGFÆRSLUR hjá siðanefndinni og hún á að skammast sín. Að hámarki má tala um eina staðreyndavillu og hún breytti engu um aðalatriði málsins og hún beindist ekki að neinu leyti að kærandanum, ráðherranum fyrrverandi.

Kastljós/Helgi, rétt reins og Sigmar og Jóhanna, og við hin, stóð sig vel í vandasömu máli, aflaði góðra upplýsinga og hafði áreiðanleg gögn og heimildir sér að baki. Umfjöllunin var réttmæt og að langstærstum hluta áreiðanleg – t.d. stendur óhaggað eftir að Allsherjarnefnd þingsins sveigði af hefðbundinni braut umsókna um ríkisborgararétt til að þóknast tilteknum umsækjanda og gætti þá ekki jafnræðis milli umsækjenda. Og við hliðina á þessari vitneskju er ráðherraúrskurður siðanefndarinnar grafalvarlegur.


mbl.is Kastljós mótmælir harðlega niðurstöðum og vinnubrögðum Siðanefndar BÍ
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af klikkuðum Kleppurum

Ég var að víxlskoða gardur.is, islendingabok.is og fleira í tilefni af 100 ára afmæli Kleppsspítalans og komst að því að í legstaðaskrá eru 121 einstaklingar grafnir sem höfðu sitt síðasta (lög)heimili að Kleppsspítalanum (þar af aðeins ein manneskja með heilbrigðisstarfsmannatitil). Þetta er væntanlega vænn hluti af geðröskuðu íslendingunum, sem faldir  voru frá sjónum heilbrigða fólksins, en einnig er vert að minnast um 75 einstaklinga skráða á geðveikrahælið að Arnarholti á Kjalarnesi.  

Flestallt af þessu fólki er án starfstitils, enda “starf” þeirra væntanlega að vera sjúklingur. Hjá mörgu af þessu fólki, um 20 manns, er fæðingardagur ekki skráður, líklega ekki vitaður, og dánardagur rúnaður af við tiltekinn mánuð á tilteknu ári. Ekki beint gætt að nákvæmni. Í flestum þessara tilfella er hægt að lagfæra skráninguna með því að lesa saman við Íslendingabók eða með öðrum aðferðum. En líklega þarf áhugasama aðstandendur til þess og þeir eru kannski af skornum skammti.

 Ég votta þessum “klikkuðu” meðbræðrum okkar virðingu mína. Fólki eins og “Andvana barni Elísabetar” sem fæddist og dó í nóvember 1963 og Paul Gotfred Hansen, sem ég veit ekki annað um en að hann dó á Kleppi í janúar 1926. Með heimili að Arnarholti var Willy nokkur Fenenga, sem þrátt fyrir sérstætt nafn og að hafa lifað í 67 ár kemur ekki upp “gúgglaður”, en finnst í Íslendingabók sem Willy W. R. Fenenga, fæddur 1919, dáinn 1986, sonur Ingunnar Júlíu Guðmundsdóttur, fædd 1900 og dáin 1923 frá fjögurra ára syninum Willy. Hver var þessi maður með þetta sérkennilega nafn og hvers vegna var hann að Arnarholti?  Aldur: “Ekki vitað”, er ómöguleg skráning. Það þarf að sýna eftirfarandi fólki þá virðingu að lagfæra skráningu þess í Legstaðaskrá. Þessara “klikkuðu” meðbræðra okkar, sem að óbreyttu hafa bara ónákvæma nálgun á dánarstund: 
Árni Þorsteinsson--00-00-1945 Fossvogskirkjugarður
Einar Jónsson--00-02-1943 Fossvogskirkjugarður
Erlendur Pétursson--00-09-1951 Fossvogskirkjugarður
Gísli Guðmundsson--00-03-1942 Fossvogskirkjugarður
Guðbjartur Sigurðsson--00-01-1948 Fossvogskirkjugarður
Guðlaug Högnadóttir--00-08-1930 Hólavallagarður við Suðurgötu
Guðlaug Magnúsdóttir--00-11-1920 Hólavallagarður við Suðurgötu
Guðmundína Sigurðardóttir--00-09-1927 Hólavallagarður við Suðurgötu
Guðrún Eiríksdóttir--00-06-1924 Hólavallagarður við Suðurgötu
Gunnar Jóhannesson--00-07-1926 Hólavallagarður við Suðurgötu
Hafliði Gunnarsson--00-05-1929 Hólavallagarður við Suðurgötu
Halldór Jónsson--00-12-1945 Fossvogskirkjugarður
Hans Guðmundur Nílsen--00-10-1933 Fossvogskirkjugarður
Jakobína G Jakobsdóttir--00-09-1927 Hólavallagarður við Suðurgötu
Jenný Jónsdóttir--00-08-1941 Fossvogskirkjugarður
Magnús Jónsson Waage----00-01-1922 Hólavallagarður við Suðurgötu
María Friðlaugsdóttir--00-09-1935 Fossvogskirkjugarður
Nikulás Egilsson--00-03-1941 Fossvogskirkjugarður
Paul Gotfred Hansen--00-01-1926 Hólavallagarður við Suðurgötu
Sigríður Jónsdóttir--00-05-1940 Fossvogskirkjugarður
Stefanía Jónatansdóttir--00-09-1935 Fossvogskirkjugarður
Steinunn Magnúsdóttir--00-12-1922 Hólavallagarður við Suðurgötu
Þórdís Gísladóttir--00-09-1922 Hólavallagarður við Suðurgötu
Þórður Randversson--00-03-1939 Fossvogskirkjugarður
Þorsteinn Ólafsson--00-03-1934 Fossvogskirkjugarður

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband