6.9.2009 | 11:35
Sunnudagshugleiðing: Um banka og heri
Tómas Jefferson, sá mikilsvirti frumkvöðull í Bandaríkjunum og lýðræðissinni, sagði: "Banking establishments are more dangerous than standing armies."
Þetta er umhugsunarefni dagsins...
27.7.2009 | 00:23
Moggabloggari #1
Eftir alls konar trakteríngar, stæla, tilraunir, stólpakjaft, ögranir, hreinskilni, krassandi fyrirsagnir, heitar umræður - you name it - tókst mér loks að ná langþráðu markmiði, að komast í fyrsta sætið á "vinsældarlista" Moggabloggsins. Hafði áður náð silfri og bronsi nokkrum sinnum.
Rétt að taka fram að ég hef ekki talað gegn eigin sannfæringu (eða blekkt í þeim skilningi), en stundum skrifað með örlitlum ýkjum og í krassandi stíl. Ég segi þetta lesendum ekki til vansa (hvað lestrarsmekk varðar); en þeir vilja gjarnan krassandi stíl og heitar umræður. Það er prýðilegt. Mér tókst líka að forðast klám, kynlíf, útlendar stórstjörnur og ofbeldi að mestu. Held ég hafi ekki nefnt Mækul Jakkson á nafn.
Kannski ég fari núna í smá sumarfrí...
50 vinsælustu bloggarnir síðastliðna 7 daga
1. | Friðrik Þór Guðmundsson | lillo.blog.is | 12.034 | 16.792 | 1.590 | 1.460 |
2. | Jenný Anna Baldursdóttir | jenfo.blog.is | 11.071 | 18.578 | 1.362 | 1.218 |
3. | Einar Sveinbjörnsson | esv.blog.is | 10.208 | 16.045 | 1.302 | 1.104 |
4. | Lára Hanna Einarsdóttir | larahanna.blog.is | 7.776 | 12.792 | 957 | 878 |
5. | Áslaug Ósk Hinriksdóttir | aslaugosk.blog.is | 7.680 | 11.995 | 900 | 831 |
6. | Hilmar Hafsteinsson | hilhaf.blog.is | 6.744 | 8.466 | 896 | 809 |
7. | Ómar Ragnarsson | omarragnarsson.blog.is | 6.690 | 10.539 | 869 | 791 |
8. | Páll Vilhjálmsson | pallvil.blog.is | 6.211 | 10.426 | 742 | 682 |
9. | Jón Valur Jensson | jonvalurjensson.blog.is | 5.971 | 10.217 | 743 | 676 |
10. | Arnar Guðmundsson | gumson.blog.is | 5.619 | 8.025 | 725 | 599 |
11. | Ólína Þorvarðardóttir | olinathorv.blog.is | 5.270 | 10.748 | 692 | 648 |
5.4.2009 | 14:08
"Mér finnst að fjölmiðlar eigi að skoða...."
Á því er ekki nokkur vafi að hlutverk fjölmiðla í samfélagsumræðunni er gríðarlega mikilvægt. Undir eðlilegum kringumstæðum eru fjölmiðlar í lykilhlutverki við að afla upplýsinga og miðla þeim og þá ekki síst í því skyni að veita stjórnvöldum og öðrum valdaöflum virkt aðhald. Jafnframt má það ljóst heita að fjölmiðlar á Íslandi hafi ekki staðið undir þessum mikilvæga hlutverki og þurfa að standa sig til mikilla muna betur.
En þetta hlutverk fjölmiðla má ekki draga úr samskonar hlutverki almennings og einstakra "spilara" innan og utan kerfisins. Það viðkvæði er allt of algengt að menn varpa ábyrgðinni á upplýsingaöflun í þágu almennings yfir á fjölmiðlana. Sérstaklega um þessar mundir. Staða fjölmiðla er afleit eftir hrunið. Fjölmiðlar berjast í bökkum, skera niður og segja upp sínu besta og reyndasta fólki. Nú sem aldrei fyrr verður almenningur sjálfur að safna upplýsingum og miðla þeim. Viðhorfið um að fjölmiðlar eigi að skoða þetta og hitt gengur aðeins upp að vissu marki. Almenningur og félög og samtök hans hafa einnig mikilvægu hlutverki að gegna í þessum efnum. Það er ekkert sem stöðvar Jón og Gunnu frá því t.d. að beita upplýsingalöggjöfinni og sækja sér upplýsingar sjálf. Sá hluti almennings, sem telur sig ekki kunna að biðja "kerfið" um gögn og upplýsingar ætti að kynna sér leiðbeiningaskyldu stjórnvalda. Þess utan er "þarna úti" urmull vel hæfra og greindra einstaklinga sem ekkert stöðvar nema þeir sjálfir. Þeir eiga ekki að bíða eftir fjölmiðlum.
1.4.2009 | 14:57
Ömurleg tregða - stjórnarskráin er villandi úrelt
Það er beinlínis ömurlegt að horfa upp á sjálfstæðismenn rembast við að hindra breytingar á stjórnarskránni og það má vera ljóst hverjum kjósanda að flokkurinn sá hefur engan áhuga á að auka vald fólksins. Engan. En stjórnarskránni þarf að breyta. Hún beinlínis villir sýn.
Í góðri bók Gunnars Helga Kristinssonar stjórnmálafræðiprófessors, íslenska stjórnkerfið, er lærdómsríkur texti sem sýnir vel hversu villandi og úrelt stjórnarskráin okkar er orðin. Lesið vel og vandlega:
"Í þekktu riti um forsetakerfi og þingræði halda Shugart og Carey (1992) því fram að á Íslandi sé um að ræða "mikil formleg völd forseta yfir löggjöf og ríkisstjórnarmyndun". Gera má ráð fyrir að þeir hafi dregið þessa ályktun af lestri íslensku stjórnarskrárinnar".
Í stjórnarskránni var árið 1944 að mestu látið duga að seta "forseti" inn fyrir "konungur" og síðan hafa menn einfaldlega túlkað stöðu forsetans til valdaleysis. Annað stendur í hinni úreltu og villandi stjórnarskrá - og kannski von að erlendir fræðimenn ruglist í ríminu.
Stjórnarskrárfrumvarp úr nefnd | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
30.3.2009 | 07:58
Ég stræka á fundi þegar strákarnir spila
Það er ég viss um að "kerlingar af báðum kynjum" innan allra stjórnmálaflokka séu nú í óða önn að skipuleggja pólitíska fundi næsta miðvikudag, akkúrat þegar Skotland er að taka á móti Íslandi í fótboltanum.
Ég hef oft orðið gramur yfir því þegar "kerlingar af báðum kynjum" finna aldrei betri fundartíma en kl. 3 á laugardögum, þegar Liverpool, Manchester United, Arsenal, Chelsea og Tottenham eru að spila. Ég þykist vita að sömu "kerlingar af báðum kynjum" hafi ekki hugmynd um að það er landsleikur í fótbolta næsta miðvikudagskvöld og eru um það bil að boða til áríðandi fundar akkúrat þá.
Hef ég ekki rétt fyrir mér?
„Eigum ágæta möguleika“ | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
29.3.2009 | 23:35
Skrítið fólk er (oftast) skemmtilegt
Ég hef yfirleitt gaman af skrítnu fólki, í merkingunni fólki sem er ekki eins og fólk er flest!
Ég hef sömuleiðis gaman af því að tala við fólk sem er ekki sömu skoðunar og ég. Ég ber þannig virðingu fyrir svo gott sem öllum sem ekki eru sömu skoðunar og ég í pólitík.
En þegar kosningar nálgast er eins og losni úr búrum og hælum sérkennilegur flokkur einstaklinga, sem ástundar skítkast og annan óþverraskap undir nafnleynd - vegur að fólki úr launsátri og eitrar andrúmsloftið með stæku hatri. Þetta er alls ekki bundið við eina stjórnmálaskoðun eða einn stjórnmálaflokk. Og mig grunar að þetta séu tiltölulega fáir veikir einstaklingar sem noti mörg dulnefni. Reyndar þora sumir að koma með ansi mergjaðan óþverraskap undir nafni - það er þó skárra.
Ég skora á alla bloggara sem fá þessi nafnlausu skítakomment við færslur sínar að henda öllum viðbjóði út og setja bann á IP-tölur viðkomandi. Ég hef aðeins tvisvar séð mig knúinn til að gera slíkt, en mig grunar að það gæti orðið oftar núna í aðdraganda kosninga.
28.3.2009 | 10:22
Hinir ríkustu sitja eftir hjá Íhaldinu
Könnun Capacent-Gallup sýnir að lágtekjufólk er í óðaönn að yfirgefa þá tálsýn að Sjálfstæðisflokkurinn sé þeirra flokkur. Er að vakna upp við þann vonda draum að Sjálfstæðisflokkurinn meinar ekki lengur neitt með slagorðinu "stétt með stétt".
Það eru einkum auðmenn og hinir best settu í samfélaginu sem áfram treysta á völd og styrk Sjálfstæðisflokksins. Ekki venjulega fólkið. Ekki fólkið sem hefur fengið upp í kok á hruninu og klúðrinu sem gerðust vegna þess grunns sem Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn lögðu og hrundi vegna andvararleysis og sofandaháttar Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar.
Vaxandi hópur kjósenda finnur atkvæði sínu skjól hjá Borgarahreyfingunni. Fylgið vex frá könnun til könnunar. Síðasta könnun sýnir að Borgarahreyfingin er þegar komin með 5% lágmarkið hjá körlum (sjá mynd). Hreyfingin á enn eftir að sanna sig fyrir konum landsins, þar sem fylgið mælist aðeins 1.8%. Þarna er verk að vinna. Ef konur landsins gefa Borgarahreyfingunni meiri gaum og Borgarahreyfingin gefur konum meiri gaum þá verður 5% markinu fljótlega náð og hreyfingin fær á bilinu 1-4 þingmenn.
Tekjuháir færa sig um set | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
25.3.2009 | 19:47
Ég mótmæli þessu, mbl.is
Hin annars ágæta vefsíða mbl.is er að pirra mig þessa dagana, með "fídus" sem er mér mjög á móti skapi og mér finnst eiginlega skerða mannréttindi mín. Mér finnst að verið sé að grípa frammí fyrir frelsi mínu til athafna, það er eins og einhver standi mér við hlið og kippi í mig til að þvinga mig til gjörða sem ég vil ekki.
Jú ég er að tala um að þegar ég "skrolla" niður forsíðuna á mbl.is, með bendilinn á miðri síðu, eins og gengur og gerist, þá er augljóslega búið að innstilla einhvern "fídus" og skrollunin stöðvast á auglýsingu. Skrollunin hættir að virka og ég er píndur til að festa augun á einhverri fjandans auglýsingu af því að bendillinn stoppar þar og vill ekkki fara lengra.
Núna á einhverri fjandans Immiflex lyfja-auglýsingu. Ég hef vitaskuld tekið þá ákvörðun að kaupa aldrei, aldrei, aldrei í lífinu Immiflex. Þið athugið það þarna hjá auglýsingadeild mbl.is og markaðsdeild viðkomandi lyfjafyrirtækis. Þessi þvingun reitir mig til reiði. Ég efast um að ég sé einn um það.
Losið mig úr þessum skroll-höftum!
Morgnunblaðið hefur sent mér eftirfarandi nótu:
"Hér er ekki um að ræða vísvitandi aðgerðir af okkar hálfu til að bendillinn stoppi við ákveðna auglýsingu. Þetta eru hins vegar vandræði í Firefox sem tengist flash-útgáfunni sem þessi auglýsing var búin til í.
Það hefur verið rætt við hönnuðinn og hann mun lagfæra auglýsinguna.
Þakka þér fyrir að benda á þetta. Það er ekki alltaf sem við áttum okkur á svona vandræðum. Sérstaklega þegar þetta virkar vel í flestum vöfrum".
Viðkomandi hönnuður hefur og sent mér bréf og vil ég af því tilefni taka það skýrt fram, að hann var bara að vinna vinnuna sína samviskusamlega og ekki þátttakndi í neinu djögullegu plotti! Ástæða er til að biðja hann afsökunar ef hann hefur orðið yfir óþægindum vegna þessa.
Mér fannst ákaflega eðlilegt, ótæknivæddum manninum, að draga þá ályktun að þetta væri viljandi auglýsinga-trick. Rétt eins og auglýsingamiðinn sem er límdur utan á prentaða Moggann, örugglega ÖLLUM til leiðinda (nema auglýsingamönnum og þeim sem kom með hugmyndina). Í umræðum um þessa færslu hefur sannleikurinn verið leiddur fram. Þetta varðar Firefox-vafrarann og Flash-playera og annað sem dauðlegir menn botna ekki í. Hér er ekki um djöfullegt plott auglýsenda og markaðsdeilda að ræða. Það er komið fram. Vegna óháttvíss komments frá einhverjum "Hilmari", sem ég hef fjarlægt, vil ég bæta við að færslan stafaði af almennum pirringi út í auglýsingar og auglýsendur, en ekki af geðveiki eða illvilja. Sorrý.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 26.3.2009 kl. 11:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (26)
23.3.2009 | 21:39
Nú streyma loks upplýsingarnar út
Mér finnst yndislegt að fylgjast með fjölmiðlunum þessa dagana, sem mér sýnist að hafi tileinkað sér sem aldrei fyrr einbeittan vilja til að gegna aðhaldshlutverki sínu. Þeir eru farnir að krefjast svara, ýta á eftir þeim - og fá þau. Ekki sakar að því er virðist breytt afstaða stjórnvalda til upplýsingalaganna, til samspilsins milli þagnarskyldu og almannahagsmuna.
Umfjöllun Morgunblaðsins um sölu Landsbankans og Búnaðarbankans 2002-2003 er himnasending. Hinn mæti blaðamaður, Þórður Snær Júlíusson, hefur krafist og fengið aðgang að hvorki meira né minna en fundargerðum Einkavæðingarnefndar - sem ríkissöluöflin hafa vafalaust talið að yrðu innmúruð að eilífu. Augljóslega horfir núverandi forsætisráðherra öðrum augum á upplýsingarétt fjölmiðla og almennings en forverar hennar - og það hjálpar auðvitað. Umfjöllun Þórðar Snæs er massíf og ég er lengi að lesa - og stundum þarf maður að lesa á milli línanna - en ég hygg að óhætt sé að segja að einkavæðing Landsbankans og Búnaðarbankans hafi verið einmitt það spillingarfen sem margir hafa haldið fram, en hinir innvígðu mótmælt. Einkavæðing bankanna var gjörspillt helmingaskiptasukk, það er nú staðfest, stimplað og þinglýst.
Í sömu andrá má minnast á umfjöllun RÚV um skýrslu Seðlabankans, sem lesin var upp fyrir ráðherra í febrúar 2008, skýrsla sem Seðlabankastjóri tók saman fölur af áfalli eftir að hafa hitt erlenda banka og matsfyrirtæki og rætt við þau um stöðu íslensku bankanna og ekki síst Icesave. Skýrslan var skrifuð um ferðina en Seðlabankinn synjaði óskum fréttastofu RÚV um aðgang að henni. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál snéri þeirri ákvörðun við. Í báðum ofangreindum málum hefur verið lagt það mat á upplýsingabeiðnirnar að almannahagsmunir séu brýnni en undanþáguákvæði frá því að gefa umbeðnar upplýsingar.
Ég er ansi hress með fjölmiðlana þessar stundirnar. Allavega suma þeirra.
Pólitísk tengsl áhyggjuefni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
21.3.2009 | 23:16
Aumingjarnir og nekt þeirra
Að vera góður við aumingja, kallar hann það, sjálfstæðismaðurinn í stól stjórnarformanns opinbera fyrirtækisins Neyðarlínunnar (112), sem lét fyrirtækið og þar með almenning styrkja Flokkinn hans.
Hvað ætli Ásgeir í Goldfinger hafi hugsað þegar hann lét nektardansstaðafyrirtækið Baltik styrkja sama Sjálfstæðisflokkinn um 300 þúsund króna hámarkið? Vera góður við aumingja? Vera góður við greiðvikna?
Af einhverjum ástæðum sé ég fyrir mér nakta keisara...
Enginn sóttist eftir styrk nema Sjálfstæðisflokkurinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |