5.9.2008 | 13:52
"Varst þú á Breiðavík?"
Ég er í stjórn Breiðavíkursamtakanna (BRV), er ritari þeirra og gjarnan fundarstjóri og eitthvað sást ég tilsýndar í fréttum RÚV þegar greint var frá félagsfundi BRV og megnri óánægju félagsmanna með bótahugmyndir fyrirliggjandi frumvarpsdraga forsætisráðuneytisins. Þó var ég ekkert sérstaklega viðbúinn því þegar gamall vinur minn hringdi í mig og spurði hvort ég hefði verið á Breiðavík og væri að berjast fyrir bótum.
BRV voru á síðasta aðalfundi opnuð fyrir aðild allra áhugamanna um þessi mál; Breiðavík og önnur vistheimili hins opinbera og þá voru líka tilgangur og markmið samtakanna víkkuð út. Við þau tímamót voru "utanaðkomandi" stuðningsmenn kjörnir í stjórnina og þá meðal annars ég. Við þessir "utanaðkomandi" erum því fyrst og fremst að hjálpa til í sjálfboðaliðavinnu og erum aldeilis hvorki að falast eftir bótum eða öðrum greiðslum. Eins hygg ég að gildi um liðveislu Ragnars Aðalsteinssonar lögfræðings, þótt ég viti ekki fyrir víst hvort hann á endanum fái einhverjar krónur upp í t.d. kostnað við hina miklu vinnu sem hann er að inna af hendi fyrir samtökin.
Við erum sem sagt virkir áhugamenn um að þessi mál verði krufin til mergjar og gerð upp með mannsæmandi hætti fyrir þau fyrrum börn og unglinga sem sættu nauðung og harðræði á téðum vistheimilum. Og það undrar mig ekki að Breiðavíkurdrengirnir og önnur fyrrum vistbörn skuli reiðast og sárna vegna þeirra bótaupphæða sem frumvarpsdrögin forsætisráðherra gera ráð fyrir að óbreyttu. Formaður samtakanna, Bárður R. Jónsson, líkti þessum upphæðum við flatskjá eða örlítið betri notaðan bíl. Vitaskuld eru peningarnir ekki aðalatriðið og í raun verður skaðinn seint bættur. En bætur á að greiða og þær eiga að vera mannsæmandi og skipta einhverju máli fyrir líf þessa fólks. Þær verða að sönnu að gera líf þessa fólks bærilegra; auka lífsgæðin.
Er sómi af því að segja nú: Hérna er notuð meðalbifreið og vertu nú ánægð(ur)?
Samanburðurinn við bætur í kynferðisbrotamálum leiðir fyrst og fremst athyglina að því hversu þær bætur eru ömurlega lágar. Og raunar hef ég lengi talað um hversu trygginga- og bótalöggjöf á Íslandi er nánasarleg; virðist til muna hagfelldari gerendum og tryggingafélögum en þolendum. Ég segi alls ekki að "Ameríska kerfið" (í einkamálum) sé betra, en eitthvað má nú hífa þessar almennu bætur upp. Og í tilfelli Breiðavíkurbarna blasir við að ríki og sveitarfélög hér geta varla fundið sóma í því að gera til mikilla muna verr við þessi "börn" en Norðmenn gerðu í sambærilegum málum.
Við Kristín kynntumst því á eigin skinni hversu fáránlega lágar bætur á Íslandi geta verið. Þegar 17 ára sonur okkar dó vegna flugslyss taldi tryggingafélag viðkomandi flugfélags nóg að gert með 1.5 milljón króna greiðslu og þá að útfararkostnaði meðtöldum! Tryggingafélagið mat 17 ára einstaklinginn til um það bil 1.1 milljón króna. Tryggingafélagið hrósaði sjálfsagt happi að sonurinn var ekki í launaðri vinnu og var ekki með fjölskyldu á sínu framfæri; það dró verulega úr verðmæti hans að því er virðist. Og kannski hefur tryggingafélagið hrósað happi yfir því að sonurinn dó; því hefði hann lifað hefði hann búið við mikla örorku og þá hefði tryggingafélagið mátt greiða tugir milljóna. Okkur tókst nú að tosa bæturnar nokkuð upp, sem ekki breytir því, að tryggingafélagið taldi verðmæti drengsins dáins á við tveggja ára notaða Toyota-bifreið (á þeim tíma). Við okkur blasti það sama og blasir nú við Breiðavíkurbörnum: Peningarnir eru ekki aðalatriðið en þetta er beinlínis móðgun og löðrungur í ofanálag. Þetta er ekki mannsæmandi.
Fáránleikinn í tilviki frumvarpsdraganna áðurnefndu birtist meðal annars í þessu: Það hefur verið ákveðið að ættingjar (erfingjar) látinna Breiðavíkurbarna (sem mörg tóku eigið líf). Hvernig á að meta viðkomandi til stiga?
Það þarf að gera til mikilla muna betur en forsætisráðuneytið hefur að óbreyttu í hyggju. Viðbrögðin meðal almennings síðustu daga benda eindregið til að ráðuneytisfólk sé lokað inn í fílabeinsturni og skynji ekki hvernig staðan er. Þjóðin stendur eindregið með þessum fyrrum vistbörnum og hneykslast á nánasarskap stjórnvalda. Fjölmiðlafréttir og bloggfærslur benda eindregið til þess og athyglisvert að bæði Morgunblaðið og 24 stundir rita leiðara í þessa áttina í dag. Forsætisráðuneytið er ósköp einmana í þessari umræðu og "leka"útspil forsætisráðherra honum ekki til sóma.
Bæturnar hærri í Noregi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Fjölmiðlar, Sjónvarp, Vinir og fjölskylda | Facebook
Athugasemdir
Eins og ég hef skrifað um á blogginu mínu þá styð ég Breiðavíkursamtökin heils hugar. Ég tek undir allt það sem þú skrifar í færslunni þinni hvort sem það er um Breiðavíkurdrengina eða þína erfiðu og bitru reynslu. Megi Guð gefa þér og fjölskyldu þinni styrk til að takast á við þessar hörmungar allar. kv.
Bergur Thorberg, 5.9.2008 kl. 14:07
Þakka þér fyrir Bergur.
Friðrik Þór Guðmundsson, 5.9.2008 kl. 14:43
Ég styð Breiðuvíkursamtökin heils hugar og gott að menn eins og þú eru með þeim í þessu ferli.
Hún hljómar kannski lítilfjörlega spurningin sem ég hef en vona að það særi engan þó svo ég komi þessu að.
Hvernig er rétt beyging á orðinu Breiðavík?
Ég hefði haldið að það væri:
Hér er Breiðavík, um Breiðuvík, frá Breiðuvík til Breiðuvíkur.
Ég sé það nánast aldrei stafsett þannig og því langar mig að vita hvað er rétt í þessu. Þú ert svo vel ritfær að mér datt í hug að nota tækifærið og spyrja þig :)
Hanna, 5.9.2008 kl. 17:01
Það er von að þú velkist í vafa um þetta. En mér er sagt að nafnið sé tilkomið út frá landnámsmanni sem hét eða var nefndur Breiði og þar af leiðandi eigi a-ið að vera allsráðandi. Hygg að málfarsráðunautur RÚV hafi sagt þetta og ég tek fyrir satt. Hins vegar er til BreiðUvík á Snæfellsnesi.
Sjá (hlusta) og:
http://dagskra.ruv.is/streaming/ras1/?file=4328595/1
Friðrik Þór Guðmundsson, 5.9.2008 kl. 17:10
úbs; linkurinn á RÚV-þáttinn virðist orðinn úreltur. Sorrý. En þú getur fræðst meira af mörgum síðum ef þú gúgglar:
Breiði+Breiðavík
Friðrik Þór Guðmundsson, 5.9.2008 kl. 17:12
Takk fyrir þetta. Þetta skýrir málið.
Ég veit að það er til gata í GrafaRvogi sem heitir Breiðavík og þeir sem þar búa, búa í Breiðuvík nr. so and so og það hefur verið að sitja í mér.
Takk aftur fyrir skýringuna :)
Hanna, 5.9.2008 kl. 17:18
Er algerlega ósammála þessari málsmeðferð að ætla að greiða þessu fólki peninga í bætur vegna þess óskapnaðar sem það varð fyrir. Það verður aldrei hægt að komast að samkomulagi varðandi upphæð í þessu máli. Er milljón nóg, eru 10 milljónir nóg, eru tuttugu milljónir nóg...? Þetta verður einfaldlega ekki metið til fjár og því eru fjármunur röng aðferð til bóta.
Þetta er skilgreindur og þekktur fjöldi einstaklinga og ríkið á einfaldlega að skipa félagsráðgjafa sem "þjónustufulltrúa" með víðar heimildir fyrir þennan hóp og beina aðstoð þar í gegn sem væri klæðskerasaumuð að þeim einstaklingum sem um ræðir, fjölskyldum þeirra og öðrum sem að máli koma.
Sjá nánar á blogginu mínu:
Sigurður Viktor Úlfarsson, 5.9.2008 kl. 17:49
Ég virði þín sjónarmið fullkomlega Sigurður Viktor, þótt okkur kunni að greina á um þetta. Það er vissulega hálfpartinn heimspekileg vangavelta hvernig eigi að bæta skaðann og meðferðina. Peningar eru ekki lausn allra mála, en hins vegar eru peningarnir viðurkennd og alþjóðleg mælistika, til góðs eða ills. Við notum þennan hlut, pening, til svo æði margra og ólíkra samskipta, í hvers kyns skiptum á vöru og þjónustu.
Mér finnst nær að einblína ekki á peninginn sem slíkan heldur á það sem honum er ætlað að gera; hvað hann á að leiða af sér. Peningurinn er bara milliliður; það sem fæst fyrir hann skiptir máli - að hann nýtist til að gera líf viðkomandi einstaklinga bærilegra og auki lífsgæðin með hverjum þeim hætti sem hentar hverjum einstaklingi.
Hið sama má segja um þolendur í alls konar brotamálum, t.d. kynferðisbrotamálum. Samkvæmt þínum orðum er það út í hött að dæma slíkum þolendum bætur. Svona getur boltinn rúllað áfram - og enginn fær peningabætur. Bubbi Mortherns, meiddur á æru vegna "Bubbi fallinn", fengi bara félagsráðgjöf.
Kannski við ættum raunar bara að afnema peninga og taka upp á ný vöruskipti. Ríkið hefur boðið Breiðavíkurdrengjunum vörur allt frá einum flatskjá fyrir hina minnst sköðuðu upp í notaða Toyotu fyrir hina mest sköðuðu. Norska leiðin svokallaða fól þó í sér tveggja herbergja íbúð í kjallara. Hvernig lýst þér á þennan samanburð Sigurður Viktor?
Ég tek undir að það er afstætt í Breiðavíkurmálinu hvaða bætur geta talist sanngjarnar og réttmætar. En það er hægt að máta ýmsar upphæðir við samhengi hlutanna. Við slíka mátun Breiðavíkursamtakanna var niðurstaðan að flíkin væri allt, allt of lítil út frá öllum sjónarhornum.
Þú mátt síðan ekki gleyma því að boðið um geðlæknis- eða sálfræðiþjónustu og félagsþjónustu var lagt fram burt séð frá hugsanlegum bótum. Í heitstrengingum sínum í fyrra var hvoru tveggja lofað en ekki bara öðru.
Friðrik Þór Guðmundsson, 5.9.2008 kl. 22:56
Ég minnist þess ekki að þegar umræðan um bætur til handa börnum sem misnotuð voru á norskum "meðferðarheimilum" kom upp fyrir u.þ.b. 3 árum að norskur almenningur gagnrýndi upphæðirnar sem til einstaklingana runnu.
Eftir samþykktum Stórþingsins fengu margir þolendur illrar meðferðar á þessum svokölluðum meðferðarstofnunum greiddar bætur sem komu þeim vel og hjálpuðu þessu fólki að finna sig í samfélagi við annað fólk. Sum sveitafélaganna voru reyndar fyrri til með að aðstoða fórnarlöm illmennanna sem áttu að gæta þeirra barna og unglinga sem hvergi áttu höfði sínu að halla í samfélaginu.
Nú, þremur árum eftir norsku umræðuna, sitja íslensk stjórnvöld á rökstólum við að finna út hvað sú temmilegar bætur til handa þeim sem enn lifa eftir meðferð illmennanna í Breiðuvík. Og svo virðist vera sem niðurstaðan sem "lak" út úr gamla betrunarhúsinu við Lækjartorg sé stórnvöldum til skammar og og Breiaðvíkurdrengjunum og þeirra stuðningsmönnum til skapraunar.
Forsætisráðherra lýðveldisins, sem er hálf-norskur, hefði betur litið ti frænda sinna handan hafsins og lært eitthvað af þeim áður en hann ropaði "trúnaðarbrestinum" út úr sér í sjónvarpinu.
Ef einhver hefur brugðist trausti einhvers á þeirri vegleysu sem umræðan er komin í á Íslandi er það forsætisráðherrann. Hann brást trausti þjóðarinnar þegar hann sakaði Breiðavíkursamtökin um trúnaðarbrest eftir að hafa lekið út innihaldi frumvarpsdraganna um smánarlegar bætur þeim til handa.
Norðmen eru sjaldan rausnarlegir í styrkjum ti og bótuml sinna eigin þegna sem á hjálp þurfa að halda. En í samanburði við íslensk stjórnvöld eru Norsararnir höfðingjar. Það er alveg ljóst að við erum ekki bestir og mestirí heiminum í heiminum þó við stærum okkur á tyllidögum af því að vera ríkasta og hamingjusamasta þjóð í sólkerfinu.
Dunni, 5.9.2008 kl. 23:22
Það var enginn landnámsmaður sem hér Breiður í Breiðavík/Breiðuvík. Ef svo hefði verið þá værum við að tala um Breiðsvík, eða er það ekki.
Breiðavík heitir að mér er sagt eftir víkin sem er breið og ætti því að vera Breiðavík um Breiðuvík.
En af einhverjum ástæðum er það orðin málvenja eð hefð að hafa þetta eins í öllum föllum. Allavega er mér sagt það af mér fróðari mönnum að hér hafi aldrei verið neinn Breiður (nema þá ég)
Birna Mjöll Atladóttir, 5.9.2008 kl. 23:48
Sæll Friðrik
Það efast enginn um að ríkið stendur í mikilli skuld við þessa menn. En væri ekki athugandi að reisa þeim eða útvega góðar þjónustuíbúðir með félags og heilbrigðisþjónustu og gera þeim þannig ævirestina þægilega. Íbúðirnar má nota eftir að þeir falla frá. Skuldin verður aldrei gridd að fullu hvort heldur með peningum eða öðru.
Varðandi nafnið á víkinni og beyinguna er margt óljóst. Landnámsmaðurinn í útvíkum (þ.m.t. Breiðxvík) hét Þórólfur spör (!?) og enginn Breiður þar í grennd. Svo vill hins vegar til að landnámsmaður vestan við Breiðuvík á Snæfellsnesi hét Sigmundur og sonur hans Breiður. Svo má geta þess að Rauðasandur (oft nefndur Rauðisandur í seinni tíð) er af sumum talinn nefndur eftir Ármóði rauða Þorbjarnarsyni er þar nam land.
kv
sigurvin (IP-tala skráð) 6.9.2008 kl. 00:14
Takk fyrir góðan pistil Dunni.
Sigurvin; ég vísa til þess sem ég setti inn kl. 22:56 að ofan.
Birna Mjöll; Lestu betur. Ég sagði Breiði, ekki Breiður. Norskt, þar sem jökull kallaðist Brede. Einhversstaðar á ég póst um þetta, ef á þarf að halda.
Friðrik Þór Guðmundsson, 6.9.2008 kl. 01:45
Takk fyrir góð skrif Friðrik. Þessar upphæðir hljóta að vera eins og blaut tuska í andlitið á þessum mönnum. Þetta er dæmi sem fær mann til að skammast sín fyrir að vera íslendingur.
Auðvitað verða þessar hörmungar ekki metnar til fjár en eins og þú segir réttilega en hvað annað gæti komið til greina? Ábyrgðin er ríkisins þar sem drengirnir voru þarna á þess vegum. Það á að greiða þessum mönnum mannsæmandi bætur sem duga til að auka lífsgæði þeirra. Allt annað er okkur til vansa sem þjóð.
Rut Sumarliðadóttir, 6.9.2008 kl. 10:04
Tryggingafélögin eru til skammar og er hér eitt enn dæmið um samráð.
Ég þakka þér fyrir hönd okkar allra, sem byggjum þetta samfélag, fyrir að hjálpa þessum mönnum að leita réttar síns.
Halla Rut , 6.9.2008 kl. 11:52
Hafðu þökk fyrir þennan pistil og við þurfum öll að halda áfram. Varðandi fébætur þá hafa þær verið notaðar hér á landi frá landnámi.
Það er mjög auðveldlega hægt að reikna út bætur til þessarra einstaklinga með því að reikna út ,,meðallaun" almennings - sem höfðu tækifæri til þess að mennta sig draga tekjur hvers einstaklings frá, sem sviptir voru menntun af hinu opinbera og mismunurinn greiddur út sem miskabætur!!!!
M.a.s. forsætisráðherra hefur margoft fjallað um gildi menntunar fyrir hvern einstakling í landinu og hlýtur það eins að eiga við þá einstaklinga sem voru sviptir þessum grundvallar-rétti sínum, þ.e. grunnskólamenntun og voru vistaðir á slíkum geymslustöðum.
Alma Jenny Guðmundsdóttir, 6.9.2008 kl. 13:49
Fróðlegur og góður pistill ásamt athugasemdum. Takk.
Edda Agnarsdóttir, 7.9.2008 kl. 11:32
Ég vona að bætur til Breiðavíkurdrengjanna verði það háar að þeim verði kleyft að borga þeim bætur sem þeir hafa brotið á með ránum ofbeldi og innbrotum sem enn standa óbætt.
Kristján Sigurður Kristjánsson, 8.9.2008 kl. 19:43
Megir þú ná góðum bata, Kristján. Þið hin fáið hjartans þakkir fyrir innleggin.
Friðrik Þór Guðmundsson, 8.9.2008 kl. 21:52
Þeirra ofbeldi rán og þjófnaður eru semsagt fyrir utan sviga. Þeir sem hafa orðið fyrir barðinu á þeim eru semsagt geðveikir að gera kröfu líkt og þeir gera. Ég er ekki með nokkrum hætti að réttlæta þá meðferð og afarkosti sem þeir máttu sæta. En með því að draga suma út fyrir sviga gefur því undir fótinn að líka megi draga þá sem stóðu að illri meðferð þeirra út fyrir sama sviga.
Þar með er réttlæti komið fyrir því að sumir eigi skilið að sæta illri meðferð án bóta.
Hverjir?
Kristján Sigurður Kristjánsson, 8.9.2008 kl. 22:11
ES:
"Þeirra ofbeldi..............." Til að forðast misskilning er auðvita aðeins átt við þá sem slíkt hafa haft í frammi.
Dálítið er snúið, eða skondið að fá það framan í sig að vera lýstur geðveikur frá manni sem hefur mátt sæta sama stimpli fyrir að fylgja ekki orþodox.
Kristján Sigurður Kristjánsson, 8.9.2008 kl. 23:25
Geðveiki var ekki mitt orð, Kristján Sigurður, heldur þitt. En hvað um það, ekki nenni ég að rífast við þig og ekki heldur að taka þetta skítakomment út.
Breiðavíkurdrengirnir voru sendir af ríki og sveitarfélögum sem börn á Breiðavík og komu þaðan stórskemmdir. Þrátt fyrir árvissar aðvaranir sálfræðings (sem kom á staðinn og vó piltana og mat) um nauðsyn félagslegrar eftirfylgni eftir dvölina vondu var þeim kastað á götuna og þeir látnir kljást einir við þá djöfla sem þeir tóku með sér að vestan. Ríki og sveitarfélög bjuggu til slíkar aðstæður að á örfáum árum var 75% þessara drengja komnir á sakaskrá. Það er því hárrétt hjá þér að þeir brutu flestir af sér eftir nauðungarvistina og allar hörmungarnar fyrir vestan.
Fyrir það tóku líka flestir hinna brotlegu út refsingu. Voru dæmdir í fangelsi og til að greiða fórnarlömbum sínum eftir atvikum bætur. Það fór eftir hefðbundnum leiðum. Þetta lærðu þeir ekki síst á Breiðavík; til að komast að á að þjösnast á öðrum. Ríki og sveitarfélög kenndu þeim það. Meðan við hin lærðum að lesa, skrifa og leggja saman.
Sumir Breiðavíkurdrengjanna tóku út harðar refsingar fyrir afbrot eftir Breiðavík. En veistu, Kristján Sigurður, þrátt fyrir allt hef ég ekki fundið dæmi um verulega alvarleg afbrot með ofbeldi hjá Breiðavíkurdrengjum nema í algerum undantekningartilvikum. Aðallega koma tvö eða þrjú nöfn þar upp, en þau kunna að vera örlítið fleiri. Miðað við ofbeldis-fabrikkuna fyrir vestan má heita merkilegt að það skuli ekki vera meira. Hin dæmin eru miklu fleiri, um menn sem sukkuðu frá sér alla orku til góðra jafnt sem slæmra verka.
Á því er ekki nokkur vafi að saklaust fólk hefur orðið fyrir barðinu á afbrotum margra Breiðavíkurdrengja; ránum, ofbeldi og innbrotum. Þú talar, Kristján Sigurður, eins og menn telji að það fólk eigi ekki eða hafi ekki átt rétt á bótum. En hugleiddu þetta; á hverjum einasta (virkum) degi er verið að dæma afbrotamenn til að borga samfélaginu (með fangelsisdvöl og sektum) og borga fórnarlömbum (með bótakröfudómum). Á hverjum einasta (virkum) degi eru tryggingafélög að bæta skaða eftir lögbrot. Að líkindum er skaðinn sem þú ert að tala um minna vangreiddur en þú heldur.
Skuld þeirra sem bjuggu til viðkomandi afbrotamenn, sem búnir voru til fyrir vestan, er hins vegar algerlega ógreidd. Ólíkt þeim Breiðavíkurdrengjum sem lentu á glapstigum hafa ríki og sveitarfélög ekki tekið út sína refsingu.
Einn Breiðavíkurdrengjanna hefur tvisvar eða þrisvar framið húsbrot hjá mér (ekki nýlega). Stal engu verðmætu heldur var á götunni og var að leita að matvælum og hlýjum fatnaði (og kannski áfengi (sem ekki var til staðar)). En hann er alveg skuldlaus við mig.
Gaman að spjalla, Kristján Sigurður. Við þessir stórskrítnu kunnum sko að spjalla.
Friðrik Þór Guðmundsson, 9.9.2008 kl. 00:03
Ég má til að bæta einu "skítakommenti" við með þínu leyfi að sjálfsögðu þú átt alltaf kost á að fjarlægja það, og ef þú nennir því ekki er það þitt mál.
Já geðveiki sagði ég. Manni sem óskað er "góðs bata" fyrir skoðanir sínar þjáist vart af fingurmeini eða tannpínu svona fljótt á litið amk. nema það komi fram textanum sérstaklega.
Það er mín skoðun eftir áralanga umhugsun að sá sem beitir ofbeldi sé alltaf að lokum ábyrgur fyrir því sjálfur. Menn eiga alltaf val um að beita ekki ofbeldi. Í bókinni "Býr Íslendingur hér" er sagt frá hroðalegu ofbeldi sem fangar beittu samfanga sína í fangabúðum Nazista. Voru Nazistarnir einir ábyrgir fyrir því? Voru þessir fangar kanske "stórskemmdir"? Af hverju beitti Leifur Möller ekki ofbeldi þar sem ofbeldi borgar sig í allflestum tilvikum?
"En hugleiddu þetta; á hverjum einasta (virkum) degi er verið að dæma afbrotamenn til að borga samfélaginu (með fangelsisdvöl og sektum) og borga fórnarlömbum (með bótakröfudómum)."
Hvur segir að þessar "bætur" skili sér til fórnarlambanna, í nær öllum tilvikum er hinn seki ekki borgunarmaður og verður aldrei. Og hvað ef að þessi "tvö eða þrjú nöfn" verða borgunarmenn fyrir baráttu Breiðavíkursamtakanna?
Að lokum lýsi ég stuðningi við samtökin og óska þeim til hamingju með öflugan talsmann.
Kristján Sigurður Kristjánsson, 9.9.2008 kl. 02:07
Ummæli þurfa að vera hálfu verri en þín til að fjarlægjast og ég hef bara einu sinni á bloggferlinum fjarlægt komment. Svo gaf ég kannski smá tilefni, þótt ekki hefði ég geðveikis-stimpil í huga. Með bata átti ég einfaldlega við að þér myndi líða betur; mér fannst að þeim hlyti að líða eitthvað illa sem setti fram komment á borð við það fyrsta hjá þér. Mér fannst felast í því einhver mikil vanlíðan. Ég var að tala um það, en ekki geðveiki.
Já, Nasistarnir báru einir ábyrgð á því sem þú nefnir. Þótt sjálfsagt hafi verið til vondir gyðingar í útrýmingarbúðunum. Utan búðanna voru þeir þá bara vondir menn við aðra menn en ekki vondir gyðingar við aðra gyðinga.
Mikið rétt, ekki skila sér allar dæmdar bætur. Áreiðanlega skulda þessi "tvö eða þrjú nöfn" einhverjar dæmdar og aðfararhæfar bætur. Það væri áreiðanlegt gott ráð, ef þokkalegar sanngirnisbætur fást fyrir svívirðuna á Breiðavík, að viðkomandi gerðu það í bataferli sínum að gera upp óuppgerðar skuldir. Í fyrsta og öðru kommentinu þínu talaðir þú eins og allur Breiðavíkurhópurinn, samtals um 150 einstaklingar (þar af á fjórða tug látnir) væru skuldugir fórnarlömbum og viðbrögðin mín voru eftir því. Við höfum færst nær hvorum öðrum, sem betur fer, og geðheilsa okkar batnar og batnar.
Að lokum þakka ég fyrir stuðning og hamingjuóskir.
Friðrik Þór Guðmundsson, 9.9.2008 kl. 03:00
Sá steinn sem þið eruð að reyna að losa verður ekki leystur nema hreyfa alla skriðuna. Málið snýst um mannskilning löggjafans. Íslenski löggjafinn stendur á þrem stoðum; fasisma að einum þriðja, kommúnisma að einum þriðja og borgaralegum gildum að einum þriðja. Fasismi og kommúnismi eru fyrir heildina, heildin er föst stærð sem farnaður einstaklingana skiptir ekki máli. Þetta kemur skýrt fram í dómaframkvæmd vegna ofbeldisbrota. Það skiptir engu máli fyrir heildina þó að einn ræfill beiti annan ræfil ofbeldi yfirborðið er kyrrt. Við erum kanske samherjar eftir allt. Ríki Pinoshits í Chile var til fyrirmyndar hvað þetta varðar efnahagsuppgangurinn undir hans stjórn var undur þó hann hafi myrt ótaldar þúsundir. Harmur 150 einstaklinga á mælikvarða Íslands er jafn léttvægur. Einstaklingar eins og Friðrik Þór Guðmundsson ýfa yfirborðið og geta verið til meiri vandræða en 1500 "Breiðavíkurdrengir" til samans. Því miður er ekki hægt að láta þá hverfa sporlaust. Þegar nær fjörtíu einstaklingar fórust á vestfjörðum var einn slíkur sem misst hafði öll börnin sín. Hann gáraði yfirborðið. Hann var samstundis lýstur geðveikur. Sem betur fer var hann lemstraður eftir atburðinn og lenti í slysum fljótlega svo almenningur og stjórnvöld gátu andað léttar, einn og magnvana hreyfði hann engum steini kanske ekki einu sinni þeim steini sem lá á hjarta hans
Kristján Sigurður Kristjánsson, 9.9.2008 kl. 13:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.