Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Ég vil fyrsta sætið

Ég hef ákveðið að bjóða mig fram í fyrsta sætið í Reykjavíkurkjördæmi norður.

Gallinn er sá að ég finn ekki flokk við mitt hæfi.

Líklega verð ég því að draga framboð mitt til baka.


Fésbók og blogg

Ég var að skrá mig inn í Fésbókarvíddina. Ég er svolítið kvíðinn að ganga út í hið óþekkta og myndi þiggja öll góð ráð um hvað beri að forðast, þannig að þessi vídd taki ekki af mér öll völd og tíma. Ég er nervös að þurfa kannski í tíma og ótíma að vera að hafna "vinum" og gleyma að svara ávörpum til mín og svekkja þannig fólk og gleyma fólki sem ég vil vera í vinskap við o.s.frv.

Ég ætla að stíga hægt og varlega inn í þessa veröld. Bloggið hefur eiginlega verið mér nóg, en ég hef fylgst með frúnni dunda við sína Fésbók og séð að hún er í sambandi við meðal annars ættingja mína í USA og vini Stulla sonar okkar heitins o.s.frv. og það höfðar auðvitað til mín.

En jafnframt vil ég ekki að Fésbók ásamt bloggi taki of mikla orku og tíma. Ég þarf að sinna annarri vinnu og áhugamálum; kennslu, skriftum, músík, afastrák og fjölskyldu hans, enska boltanum, lesa bækur og margt fleira mætti telja upp. Inn á milli verður maður víst að sofa og borða. Og taka sér smókpásu úr því maður er enn með þá synd í farteskinu.


Gleðileg jól

Við hérna í Miðstrætinu óskum öllum gleðilegra jóla, sama hvaða trúarbrögðum eða trúleysi þið tilheyrið.

Við óskum ykkur einnig farsældar á komandi ári og ekki síst að við öll fáum að njóta betri stjórnvalda og manneskjulegri stjórnvaldsaðgerða. Nóg er af jólasveinum samt.


mbl.is Nærri 3.000 jólakveðjur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugvekja: Til vinstri snú - frjálshyggjan kvödd

 Mynd 481793

Fylgið er að flytjast til vinstri - það er í grófum dráttum niðurstaðan. Könnun Fréttablaðsins gefur nokkuð ákveðna vísbendingu um að kjósendur hafi þann þroska til að bera að sjá að þungamiðja ábyrgðarinnar á því hvernig komið er fyrir Íslandi liggi hjá ríkisstjórnum síðustu 12-13 ára, en ekki fyrst og fremst hjá núverandi ríkisstjórn (þótt hún eigi sitt). Það er enginn að "flýja" yfir til Framsóknar um björgun!

 Samfylkingin og Vinstri hreyfingin grænt framboð hafa stóraukið fylgi sitt, en Sjálfstæðisflokkurinn að tapa stórt og Framsóknarflokkurinn fær ekki hina minnstu búbót. Þetta er marktæk vinstri sveifla, þótt skekkjumörkin séu há í svona könnun. Mér finnst fram koma sterk vísbending umbæði vinstri sveiflu og að fólk sé að tjá sig um gegndarlausa og eftirlitssnauða frjálshyggju síðustu tvo áratugina. Að þótt hún hafi verið fín um hríð þá hafi hún á endanum reynst hin mesta böl og að nú sé komið að því að fara "back to basics" fyrir Ísland, sem er mátuleg skynsöm markaðshyggja samfara sterku velferðarkerfi jafnaðarmennskunnar. Hvorki villta "vestrið" né njörvað "austrið".

Þessi þróun var byrjuð að fæðast fyrir síðustu þingkosningar með vinstri sveiflu yfir til VG, en á síðustu stundu fór sú sókn meira yfir á Samfylkinguna. Nú eru skilaboðin afdráttarlaus; bæði "rauða" VG og "bleika" Samfylkingin fá marktækt aukinn stuðning. Skilaboðin eru skýr: Í yfirstandandi krísu og eftirfylgjandi aðgerðum eiga að gilda prinsipp jafnaðarmennskunnar, frelsi, jafnrétti og bræðralag. Ekkert Oddssonar-Friedman frjálshyggjusukk.


mbl.is Minnihluti styður stjórnina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugvekja: Liðin sem ég elska og hata

Í fótboltanum heldur maður með sínu liði, maður á að hata erkifjendurna og maður má ekki vera félagsskítur. Þessi einarða afstaða er annars mikið til bundin við íþróttirnar, því á öðrum sviðum lífsins leyfist manni að skipta um skoðun og hollustu. Í pólitík er maður þannig ekki endilega félagsskítur þótt maður flakki á milli flokka í kjörkassanum. En það er samt talið vera gegn „anda“ stjórnmálanna.

Sumir halda reyndar „pólitískt“ með sínu fótboltaliði. Eftir því sem mér skilst þá eiga vinstrimenn ekki að halda með KR – því það hafi verið og sé auðvalds-liðið. Eins og Real Madrid á Spáni. Á Ítalíu telst AC Milan vera hægra-lið Berlusconis og Lazio er sagt vera lið Fasistanna. Hvað Enska boltann varðar er ljóst að Íslendingar halda með sigurvegurunum. Þrír af hverjum fjórum halda með Liverpool, Man. Utd eða Arsenal – hinn fjórðungurinn heldur með skrítnum undirmálsliðum eins og Tottenham eða WBA, skilst mér. Fyrir marga er þarna um trúarbrögð að ræða og kirkjur þessara trúarbragða eru til muna betur sóttar en kirkjur hefðbundinna trúarbragða.

Ég get ekki alveg farið eftir formúlunni; Ég er félagshyggjumaður en held með KR, meintu auðvaldsliði. En ég hata ekki Val. Í Enska boltanum held ég með öðru meintu auðvaldsliði, Tottenham, en ég hata ekki Arsenal (þótt ég voni að þeir tapi sérhverjum leik).

Í pólitík er ég löngu búinn að yfirgefa einstrengingslegar skoðanir og hollustu. Ég myndi vilja hafa persónukjör; fá að pikka út einstaklingana á listunum, en ekki flokkana. Ég myndi vilja fá að velja skynsama, öfgalausa einstaklinga af öllum listum, því í pólitíkinni er „mitt lið“ ekki endilega best. Landið eitt kjördæmi og persónukjör. Af (nú) 63 frambjóðendum myndi ég örugglega velja minnst 3-4 úr þeim flokki sem mér er annars verst við. Af því að þar er líka þrátt fyrir allt að finna gott og skynsamt fólk. Fólk sem vill samfélaginu vel en ekki bara sjálfu sér.

Sem félagshyggjumaður myndi ég áreiðanlega velja fleiri einstaklinga sem eru „til vinstri“. En slík hugtök þýða ekki það sama og þau gerðu hér áður fyrr. Í velferðarsamfélögum eins og á Íslandi er löngu ljóst að þriðja leiðin varð fyrir valinu; að taka það besta úr hægrinu og vinstrinu og búa til manneskjulegt blandað hagkerfi. Reyndar hafa öfgafullir frjálshyggjumenn verið að reyna að breyta þessu, en þeim verður ekki kápan úr því klæðinu úr þessu, enda hefur nýfrjálshyggjan beðið alvarlegt skipbrot og verður dæmd samkvæmt því.

Þannig myndi maður kannski vilja hafa það í fótboltanum; fá að búa til eigið lið úr þeim leikmönnum allra liða sem spila besta og fallegasta boltann. Mitt Íslenska lið yrði ekki uppfullt af KR-ingum. Mitt Enska lið hefði meira að segja einn eða tvo Arsenalmenn í hópnum, svei mér þá. En þá yrði ég af einhverjum talinn svikari og félagsskítur. O jæja.

Í viðskiptum? Ég vil fá gamla góða Alþýðubankann aftur. Og það er tímabært á ný fyrir alþýðuna og landsbyggðarfólkið að stofna pöntunarfélög og samvinnufélög. Í alvöru talað.


"Varst þú á Breiðavík?"

BreiðavíkÉg er í stjórn Breiðavíkursamtakanna (BRV), er ritari þeirra og gjarnan fundarstjóri og eitthvað sást ég tilsýndar í fréttum RÚV þegar greint var frá félagsfundi BRV og megnri óánægju félagsmanna með bótahugmyndir fyrirliggjandi frumvarpsdraga forsætisráðuneytisins. Þó var ég ekkert sérstaklega viðbúinn því þegar gamall vinur minn hringdi í mig og spurði hvort ég hefði verið á Breiðavík og væri að berjast fyrir bótum.

BRV voru á síðasta aðalfundi opnuð fyrir aðild allra áhugamanna um þessi mál; Breiðavík og önnur vistheimili hins opinbera og þá voru líka tilgangur og markmið samtakanna víkkuð út. Við þau tímamót voru "utanaðkomandi" stuðningsmenn kjörnir í stjórnina og þá meðal annars ég. Við þessir "utanaðkomandi" erum því fyrst og fremst að hjálpa til í sjálfboðaliðavinnu og erum aldeilis hvorki að falast eftir bótum eða öðrum greiðslum. Eins hygg ég að gildi um liðveislu Ragnars Aðalsteinssonar lögfræðings, þótt ég viti ekki fyrir víst hvort hann á endanum fái einhverjar krónur upp í t.d. kostnað við hina miklu vinnu sem hann er að inna af hendi fyrir samtökin.

Við erum sem sagt virkir áhugamenn um að þessi mál verði krufin til mergjar og gerð upp með mannsæmandi hætti fyrir þau fyrrum börn og unglinga sem sættu nauðung og harðræði á téðum vistheimilum. Og það undrar mig ekki að Breiðavíkurdrengirnir og önnur fyrrum vistbörn skuli reiðast og sárna vegna þeirra bótaupphæða sem frumvarpsdrögin forsætisráðherra gera ráð fyrir að óbreyttu. Formaður samtakanna, Bárður R. Jónsson, líkti þessum upphæðum við flatskjá eða örlítið betri notaðan bíl. Vitaskuld eru peningarnir ekki aðalatriðið og í raun verður skaðinn seint bættur. En bætur á að greiða og þær eiga að vera mannsæmandi og skipta einhverju máli fyrir líf þessa fólks. Þær verða að sönnu að gera líf þessa fólks bærilegra; auka lífsgæðin.

Er sómi af því að segja nú: Hérna er notuð meðalbifreið og vertu nú ánægð(ur)?

Samanburðurinn við bætur í kynferðisbrotamálum leiðir fyrst og fremst athyglina að því hversu þær bætur eru ömurlega lágar. Og raunar hef ég lengi talað um hversu trygginga- og bótalöggjöf á Íslandi er nánasarleg; virðist til muna hagfelldari gerendum og tryggingafélögum en þolendum. Ég segi alls ekki að "Ameríska kerfið" (í einkamálum) sé betra, en eitthvað má nú hífa þessar almennu bætur upp. Og í tilfelli Breiðavíkurbarna blasir við að ríki og sveitarfélög hér geta varla fundið sóma í því að gera til mikilla muna verr við þessi "börn" en Norðmenn gerðu í sambærilegum málum.

Við Kristín kynntumst því á eigin skinni hversu fáránlega lágar bætur á Íslandi geta verið. Þegar 17 ára sonur okkar dó vegna flugslyss taldi tryggingafélag viðkomandi flugfélags nóg að gert með 1.5 milljón króna greiðslu og þá að útfararkostnaði meðtöldum! Tryggingafélagið mat 17 ára einstaklinginn til um það bil 1.1 milljón króna. Tryggingafélagið hrósaði sjálfsagt happi að sonurinn var ekki í launaðri vinnu og var ekki með fjölskyldu á sínu framfæri; það dró verulega úr verðmæti hans að því er virðist. Og kannski hefur tryggingafélagið hrósað happi yfir því að sonurinn dó; því hefði hann lifað hefði hann búið við mikla örorku og þá hefði tryggingafélagið mátt greiða tugir milljóna. Okkur tókst nú að tosa bæturnar nokkuð upp, sem ekki breytir því, að tryggingafélagið taldi verðmæti drengsins dáins á við tveggja ára notaða Toyota-bifreið (á þeim tíma). Við okkur blasti það sama og blasir nú við Breiðavíkurbörnum: Peningarnir eru ekki aðalatriðið en þetta er beinlínis móðgun og löðrungur í ofanálag. Þetta er ekki mannsæmandi.

Fáránleikinn í tilviki frumvarpsdraganna áðurnefndu birtist meðal annars í þessu: Það hefur verið ákveðið að ættingjar (erfingjar) látinna Breiðavíkurbarna (sem mörg tóku eigið líf). Hvernig á að meta viðkomandi til stiga?

Það þarf að gera til mikilla muna betur en forsætisráðuneytið hefur að óbreyttu í hyggju. Viðbrögðin meðal almennings síðustu daga benda eindregið til að ráðuneytisfólk sé lokað inn í fílabeinsturni og skynji ekki hvernig staðan er. Þjóðin stendur eindregið með þessum fyrrum vistbörnum og hneykslast á nánasarskap stjórnvalda. Fjölmiðlafréttir og bloggfærslur benda eindregið til þess og athyglisvert að bæði Morgunblaðið og 24 stundir rita leiðara í þessa áttina í dag.  Forsætisráðuneytið er ósköp einmana í þessari umræðu og "leka"útspil forsætisráðherra honum ekki til sóma.


mbl.is Bæturnar hærri í Noregi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lilló, Sturla Þór og Ukulele

Ofurbarnið Sturla Þór Traustason var um daginn í fyrstu yfir-nótt pössuninni hjá okkur ömmu. Það gekk vonum framar og gafst tími til að þjálfa piltinn í Ukulele spili. Á myndinni er hann að æfa sviðsframkomu, svona í leiðinni. Árangurinn frábær auðvitað.

Lillo, Stulli og Ukulele


Sonar saknað - Sturla Þór eldri 25 ára

 Sturla Þór

 Hann á 25 ára afmæli í dag - og hvílík veisla, hefði hann lifað. Ég sakna þín á hverjum degi Stubburinn minn. Glæpsamlegt flugfélag svipti þig og fimm önnur lífinu og frábær samfélagslega rekin heilbrigðisþjónusta var næstum búin að bjarga lífi þínu, gegn öllum líkindum. 

Við fórum að leiðinu þínu áðan og ég hengdi KR merki á krossinn þinn - það ætti að tryggja heimasigur gegn Grindavík í dag.

Að öðru leyti og að sinni geri ég að mínum orðum færslu mömmu þinnar í morgun (roggur.blog.is):

 

"Í dag 10. maí hefði Sturla okkar orðið 25 ára. Í dag förum við að leiðinu hans og leggjum á það blóm. Höldum upp á daginn með köku og kaffi. Sturla á það sannarlega skilið. Við viljum minnast hans með gleði og rifja upp minningar. Það gefur deginum óneitanlega gleðiblæ að nú hefur Sturlubarnið bæst við fjölskylduna. Hann minnir á frænda sinn um sumt. Er ákafur og kraftmikill. Veit hvað hann vill og er handsterkari en hægt er að reikna með hjá svona litlu barni. Gleðigjafi og gullmoli".


Guðrún Sigurveig Jónsdóttir - mamma

Guðrún Sigurveig Jónsdóttir (Búdda) fæddist í Reykjavík 12. júlí 1934. Hún andaðist á Landspítalanum, Fossvogi, 7. febrúar síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Jón Guðmundsson yfirtollvörður (Guðlaugssonar og Ingibjargar Bjarnadóttur) og Kristrún Jóna Jónsdóttir (Indriðasonar og Sigurveigar Jónatansdóttur). Systkini Guðrúnar, börn Jónu með Pétri Guðbergi Gíslasyni, eru Pétur Pétursson heildsali, 1. október 1918, d. 17. maí 1996 og Helga Pétursdóttir Rósantsson húsmóðir, f. 21. nóvember 1921, nú búsett í Bandaríkjunum.

Eiginmaður Guðrúnar Sigurveigar var Guðmundur Trausti Friðriksson, rafmagnsverkfræðingur og framkvæmdastjóri, f. 11. júní 1920, d. 28. september 1997. Börn þeirra eru:1) Jón, rafeindavirki og fiskvinnslustarfsmaður, f. 17. janúar 1954, búsettur á Höfn í Hornafirði. Sonur hans og Ingigerðar Arnardóttur er Örn Arnar tölvunarfræðingur, f. 10. apríl 1971. Synir hans og Elínar Hjálmsdóttur eru Steinar Ingi, f. 19. júlí 1997, Ágúst Orri, f. 6. desember 2000 og Hlynur Örn, f. 3. desember 2002. 2) Pétur vatnsveituverkstjóri, f. 21. desember 1954, búsettur í Seattle í Bandaríkjunum, kvæntur Virginiu Wood Fridriksson, tónlistarmanni og kaupmanni. Börn þeirra eru Spencer Thor, f. 8. júlí 1995 og Sonja Björk, f. 20. mars 1997. 3) Friðrik Þór, fréttamaður, f. 22. september 1956, búsettur í Reykjavík, kvæntur Kristínu Dýrfjörð leikskólastjóra og lektor. Börn þeirra eru Trausti Þór viðskiptafræðingur, f. 13. nóvember 1979, unnusta Íris Svavarsdóttir, sonur þeirra Sturla Þór, f. 25. september 2007, og Sturla Þór, f. 10. maí 1983, d. 1. janúar 2001. 4) Kristrún Jóna, ferðaskrifstofustarfsmaður, f. 24. ágúst 1959, búsett í Jacksonville í Bandaríkjunum, gift Joel Colburn, tónskáldi og rithöfundi. 5) Drengur Guðmundsson, f. 23. maí 1969, andaðist innan sólarhrings.

Guðrún Sigurveig, kölluð Búdda frá barnæsku, var komin af harðduglegu fólki, sunnlensku í föðurætt og suður-þingeysku í móðurætt. Jón tollari, faðir hennar, kvæntist í upphafi fjórða áratugar síðustu aldar ekkjunni Jónu Kristrúnu og gekk tveimur börnum hennar, Pétri og Helgu (Dollu), í föðurstað og Guðrún bættist 1934 í barnahópinn. Fjölskyldan settist að í Meðalholti 11 og bjó þar lengi. Árið 1951 fór hin þá 18 ára gamla Guðrún ásamt Helgu systur sinni til þjónustustarfa í Bandaríkjunum. Fyrir vestan kynntist Guðrún árið 1953 og giftist eiginmanni sínum, Guðmundi Trausta og fæddust synirnir Jón og Pétur í Elisabeth í New Jersey. 1955 komu þau hjónin heim til Íslands er Guðmundur hóf störf sem borgaralegur starfsmaður Public Works hjá varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli. Fljótlega bættust við börnin Friðrik Þór og Kristrún Jóna og fyrsta langtímaheimili fjölskyldunnar var að Glaðheimum 24 og síðar að Brúnalandi 8, bæði í Reykjavík. Guðrún var fyrst og fremst húsmóðir alla tíð og afar eljusöm í því hlutverki. Á áttunda áratugnum skildust leiðir Guðmundar og Guðrúnar, án þess þó að til lögskilnaðar hafi komið. Upp úr því tók hún upp heimilislíf hjá heiðurshjónunum Jarþrúði Pétursdóttur (Jöru) og Antoni Líndal Friðrikssyni (Tona) og fjölskyldu þeirra að Efstasundi 70. Þær Jara urðu miklar vinkonur og studdu hvor aðra í gegnum þykkt og þunnt, en báðar glímdu við erfið veikindi.

Útför Guðrúnar fer fram frá Fríkirkjunni í Reykjavík í dag og hefst athöfnin klukkan 15.

Ótal gleði- og ánægjustundir standa fyrir hugskotsjónum okkar í dag, þegar við systkinin kveðjum mömmu. Þær yfirskyggja tilfallandi stundir veikinda og annarra erfiðleika. Það sem hvað mest einkenndi mömmu, fyrir utan ytri og innri fegurð, var lífsgleði, innileiki, snyrtimennska og gjafmildi – hún hugsaði yfirleitt meira um hag annarra en sjálfs síns. Maður finnur það ekki síst nú hversu djúpt hún hefur snert okkur og aðra sem kynntust henni.

Pabbi og mamma gáfu okkur afar skemmtilega og sérstæða æsku. Pabbi nam og starfaði í 15 ár í Bandaríkjunum. Úti hitti hann mömmu, sem betur fer, árið 1953. Hún var 19 ára Au Pair stúlka, en hann 33ja ára mikilsmetinn verkfræðingur hjá RCA Victor. Þau héldu heim til Íslands tveimur árum síðar, tveimur drengjum ríkari. Pabbi starfaði frá 1955 í 31 ár hjá varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli, en fjölskyldan bjó þó mestmegnis í Reykjavík. Í barnahópinn bættust fljótlega við piltur og stúlka og bjó fjölskyldan fyrst í Meðalholti 11 en síðan í Silfurtúni (í Garðabæ). Hún fluttist 1962 í Glaðheima 24 og var þar í 8 ár, en frá 1970 varð Brúnaland 8 að heimahögunum. Og þetta voru ógleymanleg ár ævintýraferða um allt land og þá ekki síst til lax- og silungsveiða. Við brunum enn í græna hermannajeppanum í hugum okkar og bleiki kagginn hennar mömmu; Chevrolet Bel Air. Þá hafði mamma ómælda gleði af hestamennsku um langt árabil. Vegna starfa pabba á Vellinum hafði fjölskyldan algera sérstöðu meðal nágrannanna, því við klæddumst öðruvísi, borðuðum öðruvísi mat, áttum öðruvísi leikföng – og við vorum fyrsta fjölskyldan í borginni til að setja upp loftnet og byrja að horfa á Kanasjónvarpið. Allt þetta auðveldaði okkur að eignast vini og allt þetta jók á sjálfstæði okkar á þessum mest mótandi tímum. Barnæskan í Glaðheimunum og unglingsárin í Fossvoginum voru enda mikil hamingjuár og þótt leiðir pabba og mömmu hefðu síðar skilið þá leiddi það þó til þess að við fengum að kynnast fjölskyldu Jöru og Tona og dætur þeirra urðu okkur mjög nánar persónulega.

Eðlilega leitar hugurinn fyrst og fremst til æskuáranna, því seinni part ævinnar mátti mamma þola ýmsa erfiðleika vegna sjúkdóma og umferðarslyss sem dró verulega úr hreyfanleika hennar til starfa og leiks. En hvað sem því líður þá hvarf aldrei sá kjarni sem einkenndi mömmu; innri fegurð hennar, karakter, gjafmildi og innileiki. Hún var alltaf afar sjálfstæð í hugsun og gjörðum, vildi aldrei vera öðrum háð, vildi engum skulda, vildi allt fyrir aðra gera og hugsaði seinast um eigin hag. Við kveðjum mömmu með miklum söknuði, en jafnframt gleðjumst við yfir því að hún hafi fengið hvíld og tækifærið til að fara í ættar- og vinaveisluna miklu fyrir handan, þar sem taka á móti henni fyrst af öllum pabbi hennar og mamma, Pétur bróðir hennar, eiginmaður hennar og pabbi okkar, Jara og Toni, Sturla Þór og Begga og fleiri ástvinir sem fyrr kvöddu. Við vitum að þau fagna henni innilega, því nú verður góð veisla enn betri.

Jón (Onni), Pétur (Diddó), Friðrik Þór (Lilló) og Kristrún Jóna (Rúna).

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband