"Við vitum ekkert hvað hann er að gera"

"Já, hvað er hann að gera? Við vitum ekkert hvað hann er að gera," hrópaði Valgerður Bjarnadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, í Silfri Egils áðan og átti við hvað Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra væri að gera.

Valgerður er óbreyttur liðsmaður ríkisstjórnarinnar og fær ekkert að vita hvað heilbrigðisráðherra ríkisstjórnarinnar er að gera og heilbrigðismálin eru ekki rædd á Alþingi. Valgerður er sannarlega ekki eini velferðarkratinn sem hefur áhyggjur og vill stefnuumræðu.

Það stefnir í að heilbrigðismálin verði vonda málið í ríkisstjórnarsamstarfinu á næstunni. Samfylkingin, sem svarið hefur að halda sérkennum sínum í ríkisstjórninni (ólíkt síðasta samstarfsflokki Sjálfstæðisflokksins) - og hefur í ljósi þess meðal annars rætt Evrópumálin mikið, stendur nú frammi fyrir að því er virðist markvissum aðgerðum Sjálfstæðisflokksins við að auka veg einkarekstrar og einkavæðingar í heilbrigðisgeiranum. Nýjasta útspil ráðherrans var, að mér skilst, að reka Magnús Pétursson, forstjóra LSH og Jóhannes M. Gunnarsson framkvæmdastjóra lækninga, til að greiða fyrir breytingum í kerfinu.

Samfylkingin mun tapa miklu fylgi yfir til VG vegna heilbrigðismálanna, það virðist óhjákvæmilegt að óbreyttu. Yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar er á móti aukinni inkavæðingu og einkarekstri í heilbrigðismálum. Vænn skerfur af þessu fólki er velferðarkratar sem eru nú eins og Valgerður Bjarnadóttir forviða og áhyggjufullir. Enda blasir við að því nær sem ráðherra nálgast "Ameríska kerfið" þeim mun færri atkvæði fær Samfylkingin í næstu kosningum. Það vegur ekki upp á móti að tala um ESB og Evruna.

Hvað er hann að gera? Góð spurning, Valgerður. Fáðu Guðlaug Þór til að útskýra það skýrt og skilmerkilega, þannig að samstarfsflokkurinn þurfi ekki að velkjast í vafa. 


mbl.is VG segir heilbrigðisstofnanir í spennitreyju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Og ætli þær séu ekki andskoti margar "Valgerðarnar" í þessu stjórnarsamstarfi; sem viti ekki, skilji ekki og vilji naumast allt það sem á dynur?

Kveðja.

Guðmundur Brynjólfsson (IP-tala skráð) 16.3.2008 kl. 13:42

2 Smámynd: Halldór Sigurðsson

Virðist vera að ráðherra sé að einkavæða heilbrigðiskerfið

Halldór Sigurðsson, 16.3.2008 kl. 13:53

3 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Nokkru fyrir síðustu kosningar var Samfylkingin í lægð en VG í mikilli sókn. Í lokahrinunni tókst Samfylkingunni að snúa við blaðinu og vinna mikinn varnarsigur, sem skolaði flokknum í ríkisstjórn. En varnarsigurinn vannst hvorki á Evrópumálum né t.d. umhverfismálum sem mikið var talað um. Varnarsigurinn vannst á velferðaráherslum og því að fá hingað til lands í miðja kosningabaráttuna tvær skeleggar forystukonur Norrænna jafnaðarmannaflokka til að minna á að Samfylkingin stæði fyrir hefðbundinn Norrænan velferðarkratisma. Atkvæðin fengust, en hin boðaða áhersla ekki.

Nú horfir Samfylkingin framhjá einkavæðingaráformum og samþykkir þau þar með (nema Valgerður?). Talar um Evrópumál og Evru án þess að það skili sér í nokkru. Og mun tapa sérkennum sínum og fylginu sem bjargaðist fyrir horn í síðustu kosningum.

Friðrik Þór Guðmundsson, 16.3.2008 kl. 15:15

4 Smámynd: Júlíus Valsson

Guðlaugur Þór stendur þó við kosningaloforð sín öfugt við marga aðra þingmenn. Þess ber þó að geta, að menn eru stöðugt að rugla saman hugtökunum "einkavæðingu" og "einkarekstri". Ég held að engum heilvita manni detti í hug að einkavæða eilbrigðiskerfið á sama hátt og gert hefur verið t.d. í USA. Hins vegar hefur einkarekstur fyrir löngu sannað ágæti sitt fram yfir ríkisrekstur á mörgum sviðum, (þó svo ég sakni stundum Lyfjaverslunar ríkisins, suk!).

Júlíus Valsson, 16.3.2008 kl. 15:52

5 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Fara ekki yfir 70% af kostnaði við heilbrigðiskerfið í laun?

Í því ljósi þykir mér ekki einkennilegt að ráðherra þess málaflokks vilji hafa hönd í bagga með notkun fjárins.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 16.3.2008 kl. 16:31

6 Smámynd:  Úrsúla Jünemann

Það boðaði aldrei gott að fá heilbrigðisráðherra úr Sjálfstæðisflokknum, amk. ekki fyrir þá sem þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda. Kostnaðurinn sem sjúklingarnir bera sjálfir í dag hefur hækkað heldur betur. Það heitir víst því fallega orðið "að hagræða": að draga úr þjónustu og hækka kostnaðinn á móti.

Úrsúla Jünemann, 16.3.2008 kl. 16:58

7 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Júlíus: Einkarekstur hefur EKKI sannað yfirburði sína framyfir ríkisrekstur á sviði heilbrigðismála. Þvert á móti. Ég tel auðvitað ekki með sjálfseignarekstur sem hefur arð/hagnað ekki að höfuðmarkmiði sínu.

Úrsúla: Heilbrigðisráðherra vill bæði að fólk fari til einkafyrirtækja og borgi meira til ríkisfyrirtækja því honum finnst mikilvægast af öllu að sjúklingar "öðlist meiri kostnaðarvitund". Eins og fólk viti ekki að skattar séu í hærri kantinum á Íslandi af því við höfum komið upp sterku velferðarkerfi með öflugri almannaþjónustu. Fólk öðlast enga "holla" kostnaðarvitund við það að spyrja einkavæddan lækni hvað þjónustan muni kosta.

Heimir: Merkilegt framlag hjá þér. Ertu að gefa í skyn að misfarið sé með þessi 70%? Að það sé á einhvern hátt misfarið með fé það sem flokkast sem laun? Vill ráðherra hafa hönd í bagga með að lækka þessi laun eða hlutfall launakostnaðar? Það er erfitt að ráða í orð þín, Heimir. Ekki breytir einkarekstur þessu hlutfalli á nokkurn hátt.

Friðrik Þór Guðmundsson, 16.3.2008 kl. 17:11

8 Smámynd: Júlíus Valsson

Málið er, að mikill hluti heilbrigðiskerfisins er þegar einkarekinn og hefur verið það í allmörg ár. Hins vegar er allur samanburður mjög erfiður ekki síst vegna tregðu "kerfisins" að láta af hendi upplýsingar um raunverulegan kostnað. T.d. er enginn sem veit í dag eða a.m.k. vill svara því, hve mikið hver heimsókn sjúklings til heimilislæknis á ríkisrekinni heilsugæslustöð í Reykjavík kostar!! Ég er hræddur um að menn yrðu hissa ef þeir sæju raunverulegar tölur í þessu sambandi. Varðandi rekstur sjúkrahúsa þá hefur mér vitandi einungis eitt sjúkrahús hér á landi verið rekið með hagnaði þ.e. ekki með tapi á sínum tíma en það var Landakotsspítali, sem var rekinn sem sjálfseignastofnun. Því miður lögðu menn þetta ágæta sjúkrahús niður, líklega af hreinni öfund. Menn þurfa að endurreisa gamla Landakotskerfið og það strax.

Júlíus Valsson, 16.3.2008 kl. 17:40

9 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Jú, jú, Júlíus, þú getur auðvitað kallað rekstur sjálfeignarstofnana "einkarekstur". Ég myndi frekar setja það í einhvers konar milliflokk. Ef góðgerðarfélag rekur spítala og fær til þess pening frá ríkinu en stefnir að öðru leyti ekki að hagnaði eða að greiða einhverjum arð, þá er það einfaldlega ekki einkarekstur í mínum huga. Ær og kýr í einkarekstri er að skila hagnaði og borga hluthöfum arð. Einkarekinn spítali sem stefndi að sem mestum hagnaði og hefði það að markmiði sínu númer eitt að skila hluthöfum sínum sem allra mestan arð setur ekki velferð sjúklingana í fyrsta sætið heldur annað sætið eða þaðan af lægra. Budda eigendanna er alltaf númer eitt í einkarekstri sem stefnir á hagnað.

Friðrik Þór Guðmundsson, 16.3.2008 kl. 18:04

10 identicon

Allir þeir sem hafa þurft að sækja mikið til heilbrigðisþjónustunnar, tala nú ekki um okkur foreldra sem sitjum löngum stundum yfir börnum okkar á sjúkrahúsunum vita að ekki er allt  eins og það best væri á kosið á þessum stofnunum, fólkið er í flestum tilfellum alveg yndislegt og ekkert út á það að setja en drottin minn dýri hvað mikið skipulagsleysi ríkir þarna. Hvers vegna það er veit ég ekki, en svona getur ekki verið hagkvæmt, það getur ekki verið eðlilegt að barnið mitt taki yfir dýrt rúm á spítala í 12 tíma  einungis vegna þess að læknirinn kom ekki til að segja að við mættum fara, þetta var ekki einstakt tilfelli ef einhverjum hefur dottið það í hug, en nú er ég orðin svo sjóuð og reynslumeiri í þessu kerfi að ég fer til hjúkku og segi bara að ég sé farin með barnið og ef það sé eitthvað sérstakt sem læknirinn hafi að segja þá hafi hann símann minn   Ef Guðlaugur hefur kjarkinn til að gera breytingar sem gera þetta skilvirkara er það vel, en það verður líka að hafa þekkingu til að gera betur og betur sjá augu en auga stendur einhversstaðar, og það er nú bara ekki alltaf allt gáfulegt sem kemur frá "sérfræðingum" um þessi málefni  og ekki hef ég heyrt að það sé nokkuð hlustað á þá sem þurfa nota þessar stofnanir mest og hvað því fólki finnst þurfa að bæta, því verður jú ekki að hafa allan pakkann inni ef á að skoða og hagræða í heilbrigðisþjónustinni á einhvern hátt. Einkavæðing, einkarekstur eða hvað menn vilja kalla þetta, verður ekki til að bjarga neinu ef áfram verður samskiptavandi í kefinu eins og nú er, en það er það sem ég tel vera að hjá þessu batterý. Góðar stundir.

(IP-tala skráð) 17.3.2008 kl. 13:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband