Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál
12.9.2008 | 13:27
Skelfilegar fréttir - dagvara hækkaði um 20,5%
Eftir allt sem á undan er gengið, ekki síst VASK-lækkunina fyrir einu og hálfu ári, eru fréttir um yfir 20% hækkun á dagvöru, óhjákvæmilegum neysluvörum heimilanna, skelfilegar. Við flljótlega skoðun á hækkunum einstakra vöruliða (www.hagstofa.is) virðist mér ljóst að miklar hækkanir stafa ekki eingöngu af gengi krónunnar og auknum flutningskostnaði. Hvað skýrir t.d. miklar hækkanir á innlendum landbúnaðarvörum? Mætti ég fá meira að heyra?
Hveiti, kg | 85 | 112 |
Hrísgrjón, kg | 220 | 365 |
Franskbrauð, kg | 384 | 316 |
Pylsubrauð, 5 stk. | 99 | 136 |
Cornflakes, kg | 587 | 561 |
Cheerios hringir, kg | 613 | 637 |
Dilkakjöt, læri, kg | 1.125 | 1.221 |
Dilkakjöt, kótelettur, kg | 1.605 | 1.657 |
Nautakjöt, gúllas, kg | 1.818 | 1.816 |
Svínakjöt, kótelettur, kg | 1.258 | 1.422 |
Nautakjöt, hakkað, kg | 1.228 | 1.251 |
Vínarpylsur, kg | 892 | 1.008 |
Ýsuflök, kg | 898 | 1.130 |
Ýsa slægð og hausuð, kg | 535 | 592 |
Stórlúða, kg | 1.993 | 2.040 |
Harðfiskur, kg | 5.279 | 5.817 |
Nýmjólk, l | 76 | 91 |
Skyr, kg | 237 | 260 |
Egg, kg | 409 | 463 |
Smjör, kg | 403 | 471 |
Kartöflur, kg | 111 | 204 |
Tómatar, kg | 204 | 258 |
Papríka, kg | 259 | 388 |
Blómkál, kg | 298 | 341 |
Epli, kg | 133 | 213 |
Appelsínur, kg | 119 | 204 |
Bananar, kg | 157 | 217 |
Strásykur, kg | 137 | 138 |
Kaffi, innlent, kg | 907 | 918 |
Kaffi, erlent, kg | 744 | 811 |
Coca-Cola, 2 l, flaska | 166 | 183 |
Vindlingar, Winston, 20 stk., pk. | 600 | 616 |
Bensín (95 oktan) á þjónustustöðvum, 1 l | 127.3 | 172.2 |
Áskrift Morgunblaðsins, mánaðargjald | 2.650 | 2.950 |
Áskriftargjöld Stöðvar 2 | 69.213 | 63.73 |
![]() |
Minni neysla en meiri eyðsla |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 13:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
10.9.2008 | 16:54
Þetta Eimskipafélag er Avion/Atlanta en ekki
Gamli Hafskipsforstjórinn að bjarga gamla óskabarni þjóðarinnar? Nei, svo er ekki (hvað sem öðru líður). Þetta tiltekna Eimskipafélag er, eins og Vilhjálmur Bjarnason, formaður Félags fjárfesta, hefur bent á, að stofni til félagið sem áður hét Avion group og sem áður var flugfélagið Atlanta.
Í sjálfu sér ekki nema von að margir fjölmiðlamenn og almenningur flaski á þessu. Nafnabreytingar og kennitöluhræringar geta ruglað margan manninn og ært óstöðugan. Skipafélagið gamla er ekki að lenda í þessum hremmingum, heldur fjárfestingafélag undir þessu klassíska nafni sem ku vera að mestu í eigu Magnúsar Þorsteinssonar, viðskiptafélaga Björgólfs gamla.
En með smá vinnu og staðfestingu sjá menn þetta.
![]() |
Björgólfsfeðgar tilbúnir að bjarga Eimskip |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 17:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
9.9.2008 | 13:23
Skrifa Moggaritstjórar hugsanir Þórs Sigfússonar?
Hér er á ferðinni ein stórlega gölluð frétt hjá Mogganum, því miður. Með öðrum orðum er ekkert í fréttinni sjálfri sem réttlætir fyrirsögnina. Hvergi í fréttinni kemur nefnilega fram að fjölmiðlakóngurinn styðji framboð McCain og Palin. Ekki nema fyrir liggi að leiðarahöfundar New York Post endurspegli óhjákvæmilega afstöðu eiganda síns - sem á alls ekki að vera sjálfgefið.
Fyrirsögnin fullyrðir að Murdoch (sá hættulegi einokunarsinni) styðji McCain (þótt hann hafi stutt Obama gegn Clinton). Í fréttinni er hins vegar hvergi vitnað í slíka yfirlýsingu frá honum. Það er hins vegar vitnað í slíka yfirlýsingu í leiðara fyrrnefnds blaðs í eigu Murdoch.
Allir þeir, sem leggja áherslu á og vilja virða sjálfstæði ritstjórna gagnvart eigendum sínum hljóta að gretta sig yfir þessum trakteringum. Skrifa leiðarahöfundar Moggans kannski eingöngu í samræmi við skoðanir eigenda sinna eða hafa þeir sjálfstæðar skoðanir sem stundum eru á skjön við skoðanir eigenda blaðsins? Ef Moggamenn skrifa bara í samræmi við vilja eigenda blaðsins þá er það nýtt fyrir mér. Get ég þá bókað að leiðarar Moggans séu í raun afstaða Forsíðu ehf, Útgáfufélagsins Valtýs hf og Björns Hallgrímssonar ehf, sem saman eiga yfir 60% í Mogganum? Endurspegla leiðarar Moggans í raun afstöðu Þórs Sigfússonar stjórnarformanns, Stefáns P. Eggertssonar varaformanns og kannski Kristins Björnssonar meðstjórnanda og fyrrum (?) olíumógúls?
Ekki það að ég efist um að milljarðamæringur og einokunarsinni eins og Murdoch styðji það framboð sem er hverju sinni lengst til hægri. Það bara segir ekkert um það í fréttinni. Fyrirsögnin væri réttari: "Leiðarahöfundar New York Post, sem er í eigu fjölmiðlakóngsins Murdoch, styðja McCain". Of löng fyrirsögn, ég veit það, en réttari.
![]() |
Murdoch styður framboð McCain og Palin |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 13:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.7.2008 | 11:26
Niðurskurðar- og sparnaðartillögur mínar: leiðari
Fjárlög ársins í ár gera ráð fyrir 434 milljarða króna ríkisútgjöldum. Á sama tíma er ljóst að efnahagslegur samdráttur er að hellast yfir landsmenn. Svo er að sjá að yfirvöld finni helst sparnaðarleiðir í velferðarmálum (sbr. spítalar) og öryggismálum (sbr. lögregla og landhelgisgæsla). Mig langar að beina augum yfirvalda að öðrum sparnaðarpóstum.
Fyrir það fyrsta legg ég til að útgjöld til trúmála verði skorin niður um þó ekki væri nema 20-30 prósent; mest hjá Þjóðkirkjunni vegna forréttinda hennar, en minna hjá öðrum trúfélögum og til Háskólasjóðs (þangað sem renna sóknargjöld fólks utan trúflokka). Í alla þessa pósta eiga í ár að renna 4.650 milljónir króna (liðlega 4.6 milljarðar). Tökum 1.2 milljarða af þessu og setjum helminginn í spítalana en spörum restina. Skerum Þjóðkirkjufjárlög, sóknargjöld, Jöfnunarsjóð sókna, Kirkjumálasjóð, kristnisjóð og slíka pósta um allt að 30%. Ég er notabene ekki á móti fjárveitingum til trúfélaga, en fórnarlundin á að segja til sín í kreppunni og þessi óeiginlega tvö- til þrefalda tíund mætti gjarnan frekar renna til velferðarmála; stytta biðlista og borga birgjum heilbrigðisstofnana til að spara vanskila- og dráttarvexti.
Skerum Alþingisútgjöld um 10% - þar fást 245 milljónir. Skerum "Varnarmál" um 20% - þar fást 106 milljónir. Skerum sendiráð um 20% - þar fást 384 milljónir. Skerum "greiðslur vegna mjólkurframleiðslu" niður um 10% - þar fást 500 milljónir. Skerum "greiðslur vegna sauðfjárframleiðslu" um 10% - þar fást 365 milljónir. 50 milljónir í viðbót vegna Bændasamtaka Íslands. Skerum "styrki vegna stjórnmálasamtaka" niður um 20% - þar fást 74 milljónir. Skerum niður "landkynningarskrifstofur erlendis" um 50% - þar fást 82 milljónir. Skerum niður "markaðssókn í íslenska ferðaþjónustu" um 50% - þar fást 15 milljónir. Skerum niður" markaðssókn Íslands í Norður-Ameríku" um 50% - þar fást 24 milljónir.
Skerum niður skúffufé ráðherranna og ríkisstjórnarinnar um 65-70%; þar fást 60 milljónir vegna ráðherranna og 125 milljónir vegna ríkisstjórnarinnar.
Endurskoðum útgjöld eins og: Ritun biskupasögu (14 milljónir), útboðs- og einkavæðingaverkefni (15 milljónir), ráðgjöf vegna breytinga í heilbrigðis- og tryggingamálum (30 milljónir), viðhald stafkirkju í Vestmannaeyjum (3 milljónir), landþurkun (4.5 milljónir), námsleyfi lögfræðinga (3.7 milljónir), Hollvinasamtök varðskipsins Óðins (5 milljónir), Hið íslenska reðursafn (800 þúsund), heiðurslaun listamanna - Erró (1.8 milljón), heiðurslaun listamanna - Guðbergur Bergsson (1.8 milljón), Hvítasunnukirkjan á Íslandi, Kirkjulækjarkot (2 milljónir), Krossinn, unglingastarf (2 milljónir), Klúbbur matreiðslumeistara (3 milljónir), niðurrif frystihúss í Flatey (10 milljónir), Spákonukot á Skagaströnd (5 milljónir), Vestmannaeyjabær - "handritin heim" (5 milljónir), ár kartöflunnar 2008 (1.5 milljón), umhverfissamtökin Blái herinn (1.2 milljón).
Ég er viss um að ég móðgi þarna suma, en ég hef þó fundið ærið fé til að stytta biðlistana, borga birgjunum, ráða nokkrar löggur og laga eina þyrlu Landhelgisgæslunnar. Þetta er bara spurning um forgang á samdráttartímum.
17.7.2008 | 13:01
Gettu betur - hver verður forstjóri Landspítalans?
Hér með efni ég til spádómskeppni og heiti 5.000 króna verðlaunum. Sá sigrar sem giskar rétt á hver verður ráðinn/skipaður nýr forstjóri Landspítalans Háskólasjúkrahúss (LSH).
Að sönnu ekki há verðlaunaupphæð, en ég er fremur tekjulítill sem stendur - og aðalvinningurinn er auðvitað að sigra. Ef fleiri en einn koma með rétt svar verður dregið úr réttum svörum. Þátttakendur eru og beðnir um rökstuðning fyrir spá sinni (má vera stuttur). Verður það læknir eða embættismaður? Verður það núverandi starfsmaður eða utanaðkomandi? Verður það kona eða karl? Verður það samflokksmaður heilbrigðisráðherra eða annars flokks/ópólitískur? Verður það einkavæðingarsinni eða hollvinur almannaþjónustunnar?
Koma svo! Þau sem sóttu um eru:
Anna Lilja Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Landspítala.
Anna Linda Bjarnadóttir, sjálfstætt starfandi lögmaður.
Björn Zoëga, starfandi forstjóri Landspítala.
Stefán E. Matthíasson, læknir, sjálfstætt starfandi sérfræðingur.
Eydís K. Sveinbjarnardóttir, sviðsstjóri Landspítala.
Guðmundur Björnsson, læknir, meðeigandi og stjórnarformaður Janus-endurhæfingar.
Helgi Þorkell Kristjánsson, aðstoðardeildarstjóri innkaupadeildar Icelandair Tech. Services.
Hulda Gunnlaugsdóttir, forstjóri Aker-háskólasjúkrahússins í Ósló.
Kristján Oddsson, yfirlæknir stjórnsýslusviðs landlæknisembættisins.
María Heimisdóttir, sviðsstjóri Landspítala.
Már Kristjánsson, sviðsstjóri lækninga-, slysa- og bráðasviðs Landspítala.
Ragnheiður Haraldsdóttir, sviðsstjóri í heilbrigðisráðuneytinu.
Sjöfn Kristjánsdóttir, læknir, sjálfstætt starfandi sérfræðingur.
Valgerður Bjarnadóttir, sviðsstjóri Landspítala.
Úrslit 29. ágúst 2008: Heilbrigðisráðherra hefur valið Huldu "Þá Norsku" Gunnlaugsdóttur til starfans. Hulda fékk af 23 gildum atkvæðum hér flest atkvæði eða 8. Ég er búinn að draga milli þeirra sem giskuðu rétt og upp úr hattinum kom nafn Ingvars Guðmundssonar. Honum er velkomið að rukka mig um vinninginn. Mér er hugstæðari vinningur eða tap spítalans og sjúklinganna, en það á eftir að koma í ljós!
![]() |
14 sóttu um starf forstjóra LSH |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt 29.8.2008 kl. 19:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (34)
28.6.2008 | 19:37
Gráðugir millar og bankar hundskist til að hemja sig
Jón Ásgeir og Jóhannes pabb´ans virðast staðráðnir í að "fara í mál við ríkið" vegna dómsmálanna gegn Baugi. Mig langar til að upplýsa þá feðga um að "ríkið" er ég og þú - Jón og Gunna; alþýða þessa lands. Fólkið sem verlsar í búðunum þeirra. Ríkið er ekki Davíð og Björn Bjarna, heldur skattgreiðendur. Ef Jón og Jóhannes vilja "refsa" Davíð og félögum fyrir meinta aðför að sér þá gera þeir það ekki með máli gegn Jóni og Gunnu. Orðum um að skaðabótunum yrði skilað aftur til skattgreiðenda ber að hafa að engu, enda í hæsta máta ótrúverðugt.
Þetta liggur því fyrir: Jón Ásgeir og Jóhannes vilja að Íslenskur almenningur borgi sér skaðabætur. Ég hygg að íslenskur almenningur ætti að taka þessar greiðslur sínar út fyrirfram með því að versla sem því nemur minna hjá Baugi. Byrja í dag.
Já, ég er í vondu skapi. Afskaplega vondu skapi og þá einkum vegna fyrri fréttar í dag þess eðlis að íslensku viðskiptabankarnir eru hugsanlega að koma Íbúðalánasjóði fyrir kattarnef. Bankafíflin eru búin að kæra út og suður í tilraun sinni til að knésetja Íbúðalánasjóð, af því þeir vilja ekki að Íbúðalánasjóður flækist fyrir þeirri fyrirætlan sinni að blóðsjúga íbúðarkaupendur og sitja einir að því í sinni samtryggingu. Ég fæ hroll að sjá þennan Guðjón Rúnarsson heimta niðurlagningu Íbúðarlánasjóðs. Af því að ég veit að Íslensku bankarnir hafa engan áhuga á "eðlilegum markaðslögmálum" heldur vilja fá að okra á sem flestum í samkeppni við sem fæsta.
Ef eitthvað kjaftæði í Evrópu segir að starfsemi Íbúðalánasjóðs sé í andstöðu við reglur og samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, þá er lausnin að segja upp samningnum en ekki afhenda viðskiptabönkunum Íbúðalánasjóð. Mig langar til að biðja bankana um að taka gráðuga, spillta og skítuga putta sína af Íbúðalánasjóði. Burt með ykkur!
Hvað ætli líði langur tími þar til þetta lið heimtar niðurlagningu Landsspítalans á grundvelli þess að hann eigi ekki að ástunda samkeppni við einkasjúkrahús?
![]() |
Mun flytja einhver félög Baugs til annarra landa |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt 2.7.2008 kl. 11:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
6.6.2008 | 13:31
Frjálshyggjuvæðing heilbrigðismála brátt fullkomnuð
Margt ágætt má um Benedikt Jóhannesson segja og vissulega má gera umbætur i heilbrigðis og tryggingageirum landsins. En frjálshyggjuáherslan er orðin æpandi, að minnsta kosti í eyrum jafnaðarmanna.
Ákveðið hefur verið að Benedikt Jóhannesson, formaður stjórnar sjúkratryggingastofnunar sem tekur til starfa í haust, verði starfandi stjórnarformaður stofnunarinnar uns forstjóri hefur verið skipaður.
I ríkisstjórn með aðild Samfylkingarinnar eru forystumenn heilbrigðismála Guðlaugur Þór Þórðarson, Árni Mathiesen, Vilhjálmur Egilsson, Ásta Möller, Petur Blöndal og Benedikt Jóhannesson. Nu vantar bara að bæta Hannesi Hólmsteini í hópinn. Þá er frjálshyggjuvæðing þessarar almannaþjónustu fullkomnuð.
![]() |
Benedikt starfandi stjórnarformaður sjúkratryggingastofnunar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt 7.6.2008 kl. 12:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
29.5.2008 | 11:04
Aðgerðamiðstöð í boði alvöru skúrksins
Er "bensínstöð Olís við Suðurlandsveg" aðgerðamiðstöð trukkaranna? Eru olíufélögin að berjast með trukkurunum fyrir lægra bensínverði? Ættu trukkararnir ekki að loka "bensínstöð Olís við Suðurlandsveg" með mótmælum frekar en að heiðra skálkinn?
Ég stend með trukkurunum í baráttunni fyrir lægra bensínverði. En ég mótmæli aðferðafræði þeirra. Hvað bensínverð varðar hafa þeir eitthvað ruglast á skúrkum. Þeir eiga að safna liði við Austurvöll og fara þaðan á bensínstöðvarnar og loka þeim. Til að mótmæla verðhækkunum og álagningu olíufélaganna og hækkun olíuframleiðsluríkjanna á heimsmarkaðsverði. Þarna er skúrkarnir.
Aftur á móti geta trukkararnir mótmælt á Austurvelli þegar stjórnvöld ætla að leggja umhverfisskatt á eldsneytið, eins og örugglega er fyrirhugað og tíðast t.d. á hinum Norðurlöndunum. Trukkararnir missa þá að vísu stuðning græningja, en það er kannski lítil fórn fyrir lægra eða ekki-hærra bensínverð.
Til að reyna að komast út úr ógöngum sínum tala trukkararnir núna um allt önnur mál en lagt var upp með. Tala um eftirlaunalögin og baráttuna fyrir þá sem minnst mega sín. Verður hnykkt á þessu með kröfum um að hætta við framboð í Öryggisráð SÞ og fyrir því að koma "kistilega siðgæðinu" aftur inn í skólafrumvörpin? Stofna flokk, kannski?
Bara eitt að lokum: Sjálfsagt finnst mörgum þetta sniðugt með líkkisturnar. Ekki mér. Fyrir mér tákna líkkistur ástvinamissi. En það er bara ég.
![]() |
Fyrst og fremst táknræn athöfn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |