Færsluflokkur: Spaugilegt
5.12.2008 | 12:01
Samtökin "Davíð heim"
Vill ekki einhver stofna með mér samtökin "Davíð heim"?
Ekki heim til mín þó!
Í samtökunum geta verið tvær deildir. Þeir sem vilja Davíð aftur "heim" í pólitíkina eru í annarri deildinni, en þeir sem vilja að hann fari á eftirlaun heim til sín og klappi skógarköttum og semji ljóð og leikrit í hinni deildinni. Skemmtinefnd getur skipulagt reiptog milli deilda. Davíð dæmir auðvitað.
Á meðan getur venjulegt fólk tekist á við þjóðarvandann.
Man ekki eftir símtali við Davíð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
14.10.2008 | 12:23
Fjölbýlishúsið og stigagangurinn
Mig langar hér og nú til að rifja upp færslu mína frá því á síðasta ári, sem ég skrifaði sem "paródíufrétt" um átök í fjölbýlishúsi, eftir að stigagangurinn og aðrar sameignir höfðu verið "einkavæddar". Auðjöfurinn sem keypti sameignirnar er nú með allt niður um sig og tímabært að íbúar fjölbýlishússins endurheimti sínar gömlu eignir.
Færslan/Paródíufréttin var svona:
"Það brutust út slagsmál í stigagangi fjölbýlishúss á dögunum. Það kom upp mjög alvarlegur ágreiningur um sameign hússins. Stjórn húsfélagsins hafði öllum að óvörum selt sameignina.
Íbúar fjölbýlishússins fengu, hver í sinni séreign hússins, tilkynningu frá formanni húsfélagsins að stjórnin hefði ákveðið að selja einum íbúðareigendanna, auðmanninum í penthousinu, allar sameignir fjölbýlishússins. Stigagangana, tröppurnar, þvottahúsið, hjólageymsluna og svo framvegis. Hér eftir væru umferð og athafnir á þessum hlutum fasteignarinnar bönnuð nema með leyfi nýja eigandans, svo sem að komast til íbúða sinna. Tekið yrði sérstakt gjald fyrir að hýsa póstkassa og geyma hjól. Í kjölfarið heyrðust sögur af miklum plönum nýja eigandans með fyrrum sameignina; hann ætlaði að efna þar til ýmiss konar verslunar og þjónustu - og skemmtihalds fram á rauða nótt.
Einnig heyrðust fréttir af því að auðmaðurinn í penthousinu, nýi "sameignar"eigandinn, ætti í viðræðum við fjársterkan aðila í næstu blokk um að kaupa af sér téðan stigagang - með góðum söluhagnaði auðvitað. Sem gefur augaleið; hann fékk jú eignina frá stjórn húsfélagsins á afar, afar, afar góðu verði.
Þegar þetta heyrðist gerðu íbúar fjölbýlishússins loks vart við sig, þeir stormuðu stigagangana (borguðu auðvitað nýja eigandanum umferðartoll), drógu formann húsfélagsins fram og börðu hann. Sem að vísu breytti engu. Formaðurinn fékk glóðarauga, en hló alla leið til bankans".
http://lillo.blog.is/blog/lillo/entry/149671
17.6.2008 | 01:05
Lilló, Sturla Þór og Ukulele
Ofurbarnið Sturla Þór Traustason var um daginn í fyrstu yfir-nótt pössuninni hjá okkur ömmu. Það gekk vonum framar og gafst tími til að þjálfa piltinn í Ukulele spili. Á myndinni er hann að æfa sviðsframkomu, svona í leiðinni. Árangurinn frábær auðvitað.
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 01:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
12.6.2008 | 10:05
Er Svarthöfði þá "Idol" trúleysingja?
Það uppátæki trúleysingjanna í Vantrú, að láta "Svarthöfða" (úr Star wars) marsera kolsvartan og illúðlegan á eftir skraut- og kjólklæddri skrúðgöngu þjóðkirkjupresta, var auðvitað fyrst og fremst bráðfyndið og meinlaust grín. Hinir geistlegu verða að geta tekið svona gríni, enda verða þeir að viðurkenna að þessi skrautkjólasýning er í nútímanum... segjum skopleg.
En spurningar vakna um leið hvort lesa megi eitthvað sérstakt og annað en grín út úr uppátæki trúleysingjanna. Hvert er svarið við spurningunni: Af hverju Svarthöfði? Af hverju þessi kolsvarti og grimmi fulltrúi illra afla Stjörnustríðanna?
Jú, jú, þarna vafra skrautklæddir prestar og biskupar um í kjólum, með skrítna kraga og annað pjatt og punt, þeir ganga um með mismunandi djúpan hátíðar- og helgislepjusvip og þar er aðallega verið að halda í heiðri gamlar hefðir - "kristna arfleifð". En ef frá eru taldir stöku geistlegir menn, sem hóta á stundum helvítisvist í brennisteinsfnyki, þá eru prestarnir og biskuparnir almennt og yfirleitt góðir menn og konur, sem vilja vel. Ekki einu sinni "Svartstakkarnir" í Þjóðkirkjunni geta í alvöru talist "harðir" og hótandi (sumir, kannski). Pjattið og puntið er vel meint þótt gamaldags og úr sér gengið sé. Á milli mismunandi yfirdrifinna embættisverka eru prestarnir og biskuparnir fyrst og fremst venjulegir og oftast vel yfir meðallagi góðir og hjálplegir borgarar.
En af hverju er Svarthöfði Stjörnustríðanna mótvægi trúleysingjanna í gríninu? Er ekki hætt við að þegar hláturinn þagnar þá standi Svarthöfði eftir sem ímynd eða "Idol" trúleysingjanna í Vantrú? Ótvíræður fulltrúi illra afla? Andskotans í neðra? Er ekki hætt við því að Svarthöfði verði "lógó" trúleysingja, svona óvart, í hugum margra?
Trúleysingjar segja stundum að trúaðir dýrki draug eða drauga-þrenningu reyndar. Þegar kirkjuþing kemur saman í haust eiga trúleysingjarnir frekar, í áróðursskyni, að senda draug á vettvang. Til dæmis hinn góða Casper. Þeir (ég er ekki á meðal þeirra) vilja væntanlega ekki að eftir standi, að þegar fólk hugsar um trúleysi þá komi hinn illi Svarthöfði upp í hugann, er það?
Svarthöfði vakti lukku | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
16.5.2008 | 20:32
(Mogga)bloggarar III.b: Mistök lagfærð
Mér urðu á hrapaleg mistök við vinnslu síðustu færslu minnar og sé mér ekki annað fært en að grípa hér til lagfæringar. Eftir allt sem á undan er gengið er með öllu óskiljanlegt að mér hafi orðið á svona klaufaleg mistök. Er ég enda sjálfum mér sárreiður.
Ég gleymdi sem sagt að tengja færsluna við frétt í því skyni að hámarka mögulegan lestur færslunnar. Eins og ég hafði boðað vegna umfjöllunarinnar um (Mogga)bloggið þá hugðist ég viljandi tengja þær færslur við mest lesnu innlendu frétt mbl.is hverju sinni, hver svo sem hún væri (og bið Moggabloggið afsökunar á þeirri táknrænu gjörð).
Ég verð því að grípa til endurbirtingar. En í stað þess að kópera og peista hingað inn dettur mér í hug að bara vísa ykkur á færsluna hér fyrir neðan - það er fljótlegra fyrir mig.
Kannski dugar þessi lagfæring mér til að komast yfir Jens Guð þrátt fyrir allt? Eru ekki örugglega allir að lesa um harmleikinn í Bakkatjörn?
Harmleikur á Bakkatjörn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Spaugilegt | Breytt 17.5.2008 kl. 23:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (34)
16.5.2008 | 14:50
(Mogga)bloggarar III: Verið rödd en ekki kvak
Á fyrra tímabilinu skrifaði ég nokkuð títt og prufaði alls konar brögð og þemu í bloggfærslunum, meira að segja kökuuppskrift og hvaðeina. Stóð það átak yfir í vikutíma. Ég setti á tímabilinu ýmsa mismunandi pistla á bloggið. Inn rötuðu pistlar um Mýrarhúsaskólamálið, kristilegt siðgæði, Hannes Hólmstein, heilbrigðiskerfið, umhverfismál, Kópavogíska spillingu, Steiner-dóminn og einnig slengdi ég fram sleggjudómi um ferð 200 kennara til Kína og næstum því Tíbet. Allt var þetta með hinum ýmsu áherslum og þá ekki endilega algerlega mínum eigin!
Um það bil sem ég var kominn í 5. sætið og sá ekki fram á að fara ofar, nema með gríðarlegri viðbótarvinnu, slakaði ég á, skrifaði sjaldnar og skrifaði loks skipulega og málefnalega um þungt mál; losunarmálin (útstreymi gróðurhúsalofttegunda). Og þó ég hafi reynt að gera skrifin þau áhugaverð þá hrundu heimsóknirnar og æ færri tóku þátt í umræðunni. Með minni og málefnalegri skrifum tókst mér á bara nokkrum dögum að koma mér úr 5. sætinu niður í það 76. Þetta var sem sagt árangurinn af því að reyna að fá lesendur bloggsins til að lesa og ræða um losunarmálin!
Seinna tímabilið hófst 23. apríl og hefur því staðið yfir í 22-23 daga. Ég miðaði að þessu sinni við að jafnaði 1-2 færslur á dag, en að öðru leyti hef ég leikið mér að hinum ýmsu málefnum, tónum:
Ég vil skipta þessu seinna tímabili í þrennt. Fyrsta tímabilið: Ég get sagt að það skilaði mörgum heimsóknum að skrifa um Trukkarana og mótmæli þeirra (þau voru þá sæmilega fersk), um jarðgangavitleysuna í Árna Johnsen. Vel gekk líka að grínast með ölvun og ofbeldi aðkomufólks í miðborgina, en langbest í heimsóknum var að fjalla um trúmálaskrif Skúla Skúlasonar, því trúmálaumræða er greinilega mjög mikið lesin og kommenteruð á, einkum ef maður storkar lesendum með æsilegum skoðunum. Annað tímabilið: Frá ca. 28. apríl til 6. maí dró úr heimsóknum hjá mér, enda skrifaði ég í meira mæli en áður þá um almenna pólitík og prufaði syrpu af limru-skrifum (limrur höfða augljóslega ekki til fjöldans). Þriðja tímabilið: Frá um 8. maí fór síðan lesturinn/skoðunin hraðbyri uppávið á ný, en þá kom ég með grínaktugar færslur um stofnun Anti-Rúsínufélags Íslands (ARFI), fjölskyldublogg um afmæli sonar míns heitins, þóttist ætla að segja allt um veru mína hjá Kastljósi, fjallaði um kristilegt siðgæði og hið eldheita mál eftirlaunalög ráðherra og þingmanna. Þessi síðasta blanda kom mér á skömmum tíma úr 31. sæti í 8. sæti.
Besta trixið var síðan núna í lokin; að boða skipulögð skrif um ykkur bloggarana sjálfa og nafngreina súper-bloggarana. Mikill kippur koma á lesturinn/skoðunina og 6. sætið kom í höfn. Eftir miðnætti í kvöld verð ég að líkindum búinn að hrifsa 5. sætið á ný, af Jens Guð og þá er hringnum lokað, því ég geri mér ekki nokkrar vonir um að fara uppfyrir súper-bloggarana fjóra. Það er of mikið erfiði að reyna það. Hugsanlega gæti ég það með mjög tíðum færslum, sitja við tölvuna allan daginn og hamra inn en því nenni ég að sjálfsögðu ekki þótt ég gæti.
Málið er nefnilega ósköp einfalt. Þó ég segist vera að greina þennan blessaða lista þá skipta einstaka vísbendingar litlu máli; eina almennilega viðmiðunin er hvort þú hafir eitthvað fróðlegt/forvitnilegt/skemmtilegt að segja og hvort þú skapir með því innihaldsríka umræðu á þessum Almenningi. Ef ekki þá ertu bara framlenging á vitleysunni sem ríkti á malefnin.com og ert í raun og veru ekki að taka þátt í neinni þjóðfélagsumræðu. Og það eru einmitt skilaboðin mín til bloggara; verið rödd sem hlustað er á en ekki kvak sem enginn skilur og skilur ekkert eftir sig!
P.S. NÝ OG SPENNANDI KÖNNUN HÉR TIL HLIÐAR!
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 16:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (31)