Prófkjör og persónukjör

Við val stjórnmálaflokka á því, hvaða fólk skuli raðast á framboðslista sína, er hægt að viðhafa ýmsar aðferðir, en sú lélegasta er að fela uppstillingarnefnd á vegum valdakjarnans hlutverkið. Ýmsir gallar fylgja lýðræðislegri leiðum, eins og opnum, hálfopnum og lokuðum prófkjörum, en þá galla má halda í skefjum með (leik)reglum. Í því andrúmslofti sem nú ríkir hljóta stjórnmálaflokkarnir að hafa lýðræðisástina í forgrunni.

Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík hefur nú ákveðið að viðhafa prófkjör við val á lista fyrir næstu kosningar. Þátttaka í prófkjörinu er "heimil öllum fullgildum meðlimum sjálfstæðisfélaganna í kjördæminu sem þar eru búsettir og náð hafa 16 ára aldri prófkjörs­dagana". Einnig þeim "stuðningsmönnum Sjálfstæðisflokksins, sem eiga munu kosningarrétt í kjördæminu við kosningarnar og undirritað hafa inntökubeiðni í sjálfstæðisfélag í kjördæminu fyrir lok kjörfundar". Þetta skilgreinist sem lokað prófkjör (bara fyrir skráða flokksmenn), en er að mínu viti algert lágmark.

Vitaskuld blasir við að í prófkjörum kunna þeir að standa betur að vísi sem rúmt auraráð hafa og góð tengsl inn í t.d. íþróttafélög og slíkt. En það standa alltaf einhverjir betur að vígi en aðrir og erfitt að eiga við það, utan að setja þá strangar reglur um peningastyrki og auglýsingaaustur.  En ávallt og einkum nú ætti það að vera, ef eitthvað er, fráfæling að horfa upp á frambjóðanda í prófkjöri eyða áberandi meiri pening í baráttu sína en aðrir frambjóðendur. Það sem virkar vel á suma virkar illa á aðra.

Það eru gallar á öllum kerfum. Lýðræðislegast væri auðvitað að kjósendur hefðu aukið val í sjálfum kosningunum; fengju þar að raða fólki á þeim lista sem þeir haka við. Jafnvel velja af mismunandi listum. En augljós "galli" fylgir þessu: Þá væru ekki bara flokkar að slást um atkvæði kjósenda, heldur flokksfólk innbyrðis að slást á sama tíma. Kjóstu minn flokk, en þar af kjóstu mig en ekki X samflokksmann minn. En slíka galla má líka yfirstíga í þágu aukins lýðræðis.

Ég bíð spenntur eftir ákvörðunum fleiri flokka um hvernig þeir ætla að ákveða framboðslista sína.


mbl.is Prófkjör um miðjan mars
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Nú er að sjá hvort lýðræðisástin hefur náð lengra en á varir þeirra sem nú stjórna. Síðast raðaði VG á listana sína og Samfylkingin fleygði út og stakk inn á sína "prófkjörslista" eftir hentugleikum?

Svo er líka spurning hversu lýðræðisleg krafan um helmingaskipti kynjanna er.

Ragnhildur Kolka, 7.2.2009 kl. 13:45

2 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Það þýðir auðvitað ekkert að tala um helmingaskipti kynjanna á meðan frambærilegar konur gefa ekki kost á sér.

Lýðræðislegasti kosturinn væri sjálfsagt sá að allir sem eru til í tilnefningu verði settir á X-langan lista viðkomandi flokks sem kjósendum í prófkjöri yrði gert að stilla upp eftir sinni óskaröð. 

En er ekki stærsta vandamálið einfaldlega hverjir megi þátt í prófkjörinu?

Kolbrún Hilmars, 7.2.2009 kl. 18:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband