Færsluflokkur: Mannréttindi

Erlenda eftirlitsmenn endilega til Íslands!

Ég fagna því að hingað til lands komi sendinefnd Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, ÖSE, til að fylgjast með málefnum og framkvæmd í kringum komandi þingkosningar. Það er full þörf á því að óháðir erlendir sérfræðingar skoði kosningalöggjöfina og hugsanlegar breytingar á henni, svo sem persónukjör, og kynni sér fjölmiðla og eignarhald á þeim. Gott væri að fá upplýst álit þessara aðila á okkar gjörsamlega úreltu stjórnarskrá.

Ástæða væri til að fá fram álit þessara eða annarra alþjóðlegra eftirlitsaðila á framkvæmd rannsókna hérlendis á ástæðum bankahrunsins og fjármálakrísunnar, bæði hjá rannsóknarnefnd þingsins og sérstökum saksóknara, sem í gær í fréttum opinberaði raunar hversu fáránlega takmarkað það embætti hefur getað komist af stað.

Hvað viljið þið annars, lesendur góðir, af eftirfarandi:

Trúverðug rannsókn á íslenska efnahagshruninu fari af stað undir stjórn óháðra erlendra sérfræðinga og fari fram fyrir opnum tjöldum. Frysta skal eignir grunaðra auðmanna STRAX meðan á rannsókn stendur.

Alvarleg skuldastaða heimilanna verði tafarlaust lagfærð með því að færa vísitölu verðtryggingar fram fyrir hrun hagkerfisins (til janúar 2008).

Leitað verði leiða út úr myntvanda Íslands með myntbandalagi við aðrar þjóðir eða, ef þess þarf, einhliða upptöku annars gjaldmiðils.

Halla á ríkissjóði verði mætt með endurskoðun skattkerfisins, m.a. með fjölgun skattþrepa, hátekjuskatti og breytingum á virðisaukaskatti, frekar en niðurskurði í heilbrigðis- og velferðarþjónustu.

ICESAVE-reikningar Landsbankans og aðrar skuldir bankanna erlendis verði ekki greiddar fyrr en álit óháðra sérfræðinga liggur fyrir um skyldur Íslands, m.t.t. þess að sennilega hafi verið um svikamyllu að ræða en ekki eðlilega bankastarfsemi.

Þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram um mál sem varða þjóðarhag óski 7% þjóðarinnar þess.

Bera skal alla samninga sem framselja vald undir þjóðaratkvæðagreiðslu.

Rofin verði öll óeðlileg hagsmunatengsl milli viðskiptaheims og þingheims.

Vægi atkvæða í alþingiskosningum verði jafnt.

Tryggð verði skipting valdsins milli löggjafarvalds og framkvæmdavalds, m.a. með því að ráðherrar sitji ekki á þingi. Ráðherrar, þingmenn og æðstu embættismenn framkvæmdavaldsins gegni embætti í mesta lagi í átta ár eða tvö kjörtímabil samfellt.

Öllum skal tryggður réttur til grunnlífskjara sem nauðsynleg eru til verndar heilsu og lífsviðurværi þeirra sjálfra og fjölskyldu þeirra. Grunnlífskjör teljast vera nauðsynleg næring, hreint vatn, klæði, húsnæði, læknishjálp og félagsleg þjónusta, svo og réttur til öryggis vegna atvinnuleysis, veikinda, fötlunar, fyrirvinnumissis, elli eða annars sem skorti veldur og menn geta ekki við gert.

Allar náttúruauðlindir verði í þjóðareigu og óheimilt að framselja þær nema tímabundið og þá aðeins með viðurkenndum gagnsæjum aðferðum þar sem fyllsta jafnræðis og arðs er gætt.

Hæfi umsækjenda um störf hæstaréttar- og héraðsdómara verði metið af hlutlausri fagnefnd skipaðri af Alþingi eftir tilnefningu Hæstaréttar.  Ráðherra beri að velja dómara úr hópi þeirra sem fagnefndin telur hæfasta.

Ráðið verði í stöður innan stjórnsýslunnar á faglegum forsendum.

Fastanefndir þingsins verði efldar. Nefndarfundir verði almennt haldnir í heyranda hljóði.

Settar verði siðarreglur fyrir alþingismenn, ráðherra og æðstu embættismenn framkvæmdavaldsins og til þess ætlast að þeir m.a. geri grein fyrir öllum eignum og skuldum, stjórnarsetu í fyrirtækjum og upplýsi jafnharðan um allar breytingar á þessu sviði. Þingmenn, ráðherrar og embættismenn beri ábyrgð á gjörðum sínum.

Stjórnlagaþing fólksins í haust. Persónukjör í alþingiskosningum. Afnema 5% þröskuld þingframboða.

Aðskiljum ríki og kirkju!

 


mbl.is Eftirlitsmenn fari til Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áróður hafinn gegn stjórnarskrárbreytingum

Nú er hafinn massífur áróður gegn því að fólkið fái að koma að því að breyta úreltri Stjórnarskrá lýðveldisins Ísland. Ekki einasta stendur Sjálfstæðisflokkurinn harður gegn aðkomu almennings (en vill að Alþingi sitji að verkinu) heldur er mikið nú gert með að Stjórnlagaþing muni kosta pening.

Reiknimeistarar og skrifræðissinnar fjármálaráðuneytisins hafa fundið það út að Stjórnlagaþing muni kosta á bilinu 1-2 milljarða króna. Fjölmiðlar hafa hamast á efri tölunni eins og um sé að ræða lög á bók. Ég fæ ekki séð að nokkur fjölmiðill eða aðrir sem tjáð hafa sig um þennan meinta kostnað hafi rýnt ofan í forsendur útreikninganna. Hvað er þannig reiknað með að stjórnlaga-"þingmenn" fái í laun og í hversu langan tíma? Hvað er á bak við þennan útreikning á sérfræðinga- og ferðakostnaði?

Er hugsanlegt að skrifræðissinnarnir smyrji þarna óþarflega miklu á kostnaðinn? Ég er ekki búinn að skoða það enn, en ætla svo sannarlega að gera það. Það á ekki að hræða fólk að óþörfu. Og það á ekki að líta á Stjórnlagaþing sem einhverja óþarfa lúxus-vöru. Það þarf að hreinsa til í Stjórnarskránni, taka út úrelt ákvæði og setja inn ný sem auka á lýðræði og draga úr spillingunni

Hvers konar kostnaður við slík þjóðþrifaverk mun á endanum marg-borga sig, því aukið lýðræði með minni spillingu mun minnka spillingar-kostnaðinn. Þess utan blasir við að lýðræðið kostar pening og það er ekki óþarfa lúxus-vara

Ég fæ ekki betur séð en að Borgarahreyfingin, stjórnmála-armur Búsáhaldabyltingarinnar, sé eina framboðsaflið í landinu sem fyrir alvöru og af einlægni er að berjast fyrir nýrri undirstöðu undir lýðræðið á Íslandi. Sannið til - það er byrjað og það verður haldið áfram að krukka í frumvarp á þingi um stjórnarskrárbreytingar. Það er byrjað að væla yfir kostnaðinum. Það er byrjað að væla yfir tímaskorti. Það er byrjað að væla yfir meintum ókostum við óraðða lista. Áfram verður vælt. Mætum þessu væli með mótmælayfirlýsingu 25. apríl.


mbl.is Stjórnlagaþing gæti kostað 2 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Breiðavíkurbörnin loks beðin afsökunar

 Breiðavík.    Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra hefur nú fyrir hönd hins opinbera loks gert það sem fyrrum vistbörnin á Breiðavík og víðar hafa lengi beðið eftir og forveri hennar, Geir H. Haarde, heyktist á að gera; biðja þau afsökunar á þeirri ómannúðlegu meðferð sem þau voru látin sæta.

Þetta eru merk tímamót í málinu. Sjálfsagt halda ýmsir að bótagreiðslur séu þessum fyrrum vistbörnum efst í huga, en auðvitað eru númer eitt, tvö og þrjú viðurkenningin á því að óhæfuverk hafi átt sér stað og að beðist sé afsökunar á því. 

Þetta er gott veganesti fyrir Breiðavíkurbörnin og önnur fyrrum vistbörn á vegum hins opinbera, sem í kvöld koma saman á félagsfundi Breiðavíkursamtakanna að ræða sín mál. Þar verður afsökunarbeiðni forsætisráðherrans vafalaust vel fagnað. 


mbl.is Afsökunarbeiðni vegna Breiðavíkur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Blaðamenn fá á sig þrefaldan brotsjó

Ofan á þá skömm, að hafa "flotið sofandi að feigðarósi" fyrir hrun efnahagslífsins, sofið við sitt úthlutaða aðhaldshlutverk, hafa blaðamenn nú fengið þrjár nýjar blautar tuskur í andlitið. Svo alvarleg eru þessi áföll að þau kalla á sérstakar aðgerðir og ályktanir af hálfu Blaðamannafélags Íslands, Félags fréttamanna og Fjölmiðlasambands Íslands.

Af þessum blautu tuskum nefni ég fyrst uppsagnir 80 til 100 blaðamanna undanfarið. Blaðamönnum er sagt upp eins og öðrum í samdrætti, en ólíkt þeim vinnuveitendum sem láta starfsaldur, reynslu og orðstír ráða nokkru þá virðast vinnuveitendur á fjölmiðlasviðinu helst segja upp "dýrum" blaðamönnum, þ.e. reyndum mönnum með uppsafnaða þekkingu, en halda frekar í ódýra og reynslulitla. Þetta bætist ofan á þann atgervisflótta sem fyrir var.

Næsta blauta tuska er dómurinn í Viku-málinu, þar sem klámbúllukóngurinn Ásgeir Þór Davíðsson hafði það af, með dyggri hjálp fyrrum blaðamannsins Sveins Andra Sveinssonar, að nauðga og misþyrma tjáningarfrelsinu svo enn bergmálar í sölum réttvísinnar. Í meiðyrðamáli "Geira feita" gegn Vikunni er skrásetjarinn (blaðamaðurinn) gerður ábyrgur fyrir ummælum viðtalsefnisins, fatafellunnar Lovísu, af því að ummæli af segulbandi voru ekki höfð 100% eftir henni (bara um 98%!). Efnislega var rétt haft eftir fatafellunni, en eins og gengur og gerir snyrti blaðamaðurinn talmál viðmælandans og fjarlægði móðurmálslegar ambögur. Þessi eðlilegi prófarkalestur mun að óbreyttu kosta blaðamanninn hundruð þúsunda króna og setja heila stétt í fjötra viðmælenda sinna. Blaðamenn verða samkvæmt þessu að fara að ritstýra fólki sem er í viðtali. Það er síðan salt í sár blaðamennskunnar að í þessu máli gerði klámbúllukóngurinn dómsátt við einmitt þá manneskju sem viðhafði ummælin, fatafelluna, en blaðamaðurinn var skilinn eftir í skítnum. Raunar má í þessu sambandi tala umört vaxandi fjölda dómsmála gegn fjölmiðlamönnum allra síðustu ár (sjá hér)

Þriðja blauta tuskan felst í óljósum ábendingum, sem fram koma í Fréttablaðinu (hér á visir.is) að einhverjir fjölmiðlamenn hafi "fengið sérstaka fyrirgreiðslu í bankakerfinu" fyrir hrunið. Ábending hafi komið innan úr bankakerfinu til rannsóknarnefndar þingsins um að einhver eða einhverjir úr þessum hópi hafi fengið óeðlilega fyrirgreiðslu hjá bönkunum - "þar á meðal forstjóra, ritstjóra og fréttastjóra, auk upplýsinga um einstaka blaða og fréttamenn sem fjallað hafa um viðskipti og efnahagsmál". Þetta eru skelfilegar vísbendingar sem þarf að rannsaka og leiða í ljós sannleikann, því enginn blaðamaður á að þiggja mútur. Ef þetta reynist rétt þá voru viðkomandi ekki "sofandi á verðinum" fyrir hrunið heldur bara með lokuð augun og vasana fulla.

Stétt blaðamanna þarf að grípa til gagnsóknar út á við og uppstokkunar inn á við.


Vinstri sveifla - og Borgarahreyfingin

Það er í gangi eindregin vinstri sveifla í þjóðfélaginu, það fer ekki á milli mála. En það eru að mínu mati jafnframt ljóst að mjög margir kjósendur eru tvístígandi og óákveðnir um hvað þeir vilja gera og munu gera þegar í kjörklefann er komið. Allt fólkið á bakvið "Búsáhaldabyltinguna" hlýtur að velta fyrir sér hvort nóg sé fyrir þjóðina að yfirgefa nýfrjálshyggjuna en halda áfram að kjósa gömlu flokkana - hvort ekki þurfi róttækari uppstokkun en það.

 

Ég hef nefnt það hér áður, nokkrum sinnum meira að segja, að mér finnst að blásið hafi verið til kosninga of snemma. Mér sýnist þannig alveg ljóst að áhugafólk um ný framboð og uppstokkun og "hreinsanir" innan gömlu flokkanna hafi ekki haft tíma til að skipuleggja öflug framboð og stilla saman stefnustrengi. Að hafa kosningar of snemma þjónar bara hagsmunum gömlu flokkanna svokölluðu og gefur þeim meira að segja færi á meiri höftum hvað val frambjóðenda sinna varðar. Að óbreyttu sýnist mér að "uppstokkun" flokkakerfisins muni gersamlega mistakast; fjórflokkakerfið er komið á ný (Frjálslyndi flokkurinn að hverfa) og þeir vísar að nýjum flokkum sem komið hafa fram hafa ekki sýnst burðugir.

Búsáhaldabyltingin hefur ekki getið af sér nýja fjöldahreyfingu til framboðs og verður það að teljast með ólíkindum eftir svona hrikalegar samfélagshræringar. Stjórnmálasaga Íslands inniheldur sterk dæmi um öfluga "fimmtu flokka" eftir væringar milli persóna innan gömlu flokkanna (t.d. Borgaraflokkur Alberts, BJ hans Vilmundar eða Þjóðvaki Jóhönnu) - en samfélagsleg uppreisn undanfarinna mánaða ætlar kannski litlu sem engu að skila inn í flokkakerfið!

Þó sýnist mér von með Borgarahreyfinguna; að hún geti komið sterk inn, knúið fram breytingar. Einna athyglisverðasta "stefnumál" þeirrar framboðshreyfingar er að hún ætlar að leggja sig niður og hætta störfum þegar búið er að koma fáum en skýrum markmiðum fram eða ljóst þykir að þeim verði ekki náð. Að öðru leyti snýr stefnan að nokkrum þeim meginmarkmiðum sem að baki mótmælanna miklu voru. Þessi "fókuspunktar" eru:

Krafan um réttlæti, jafnrétti og lýðræði sameinar okkur:

1. Gripið verði til neyðarráðstafana í þágu heimila og fyrirtækja.

2. Landsmenn semji sína eigin stjórnarskrá.

3. Trúverðug rannsókn undir stjórn og á ábyrgð óháðra erlendra sérfræðinga á íslenska efnahagshruninu verði hrundið af stað og fari fram fyrir opnum tjöldum. Frysta eignir grunaðra auðmanna STRAX meðan á rannsókn stendur.

4. Lögfest verði fagleg, gegnsæ og réttlát stjórnsýsla.

5. Lýðræðisumbætur STRAX.

6. Borgarahreyfingin leggur sig niður og hættir störfum þegar þessum markmiðum hefur verið náð eða augljóst er að þeim verður ekki náð. 

 

 Borgarahreyfingin kynnir framboð sitt og stefnu kl. 14 í Iðnó í dag og ég ætla að fylgjast grannt með.


mbl.is Gæti orðið mesta vinstri sveifla sem sést hefur hér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvers vegna sleppa Bresku fólin?

Ég leyfi mér hér að að fordæma þá makalausu ósvinnu að Bresk stjórnvöld verða ekki látin "finna fyrir tevatninu" með málssókn gegn þeim fyrir hönd þjóðarinnar. Í rauninni alveg burt séð frá því hvort slíkt mál hefði unnist eða ekki.

Davíð oddsson hefur rétt fyrir sér þegar hann sagði í Kastljósviðtali að það hefði verið skammarlegt og óskiljanlegt að hryðjuverkalögin Bresku hafi verið látin ná til íslenska ríkisins og stofnana þess (en einskorðuðust ekki við einkabanka). Það, að dularfullir fjármagnsflutningar hafi ef til vill og líklega átt sér stað, hjá einkaaðilum, réttlætir ekki þann óþverraskap sem Bresk stjórnvöld auðsýndu okkur. Ekki heldur nokkuð í orðum hvorki Árna Mathiesen fjármálaráðherra (þáverandi) í símtali eða orð seðlabankastjórans í Kastljósviðtalinu í október geta réttlætt þessa misgjörð.

Hugsanlega yrði þetta í sameiningu geta talist nægileg réttlæting hjá Breskum dómstólum. En ekki hérlendis og ekki í alþjóðasamfélaginu. Það var ekkert að því að kyrrsetja eigur eða innistæður hjá einkabankanum Landsbanka, en árásirnar á Kaupþing og lýðveldið Ísland voru óréttmætar og ættu að teljast ólöglegar.

Ef málið hefði tapast hjá Breskum dómstólum þá hefði það samt unnist: Allur umheimurinn hefði séð ruddaskapinn og lesið rétt út úr niðurstöðunni.


mbl.is Hætt við málssókn gegn Bretum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skilaboð Birgis til Davíðs um leynd og undanþágur

Birgir Ármannsson.   Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur skyndilega ákveðið að gerast skeleggur, eftir að hafa læðst með veggjum um langt árabil. Hann hefur nú ákveðið að hjóla í forsætisráðherra (úr því hann er ekki lengur sjálfstæðismaður) og krefjast upplýsinga. Hann hefur meira að segja sett sig í blaðamennskulegar stellingar og ætlar að kæra neitun um upplýsingagjöf til Úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Gott hjá honum.

Birgi finnst að undanþáguákvæði í upplýsingalögum eigi ekki við þegar forsætisráðherra neitar að afhenda afrit af "upphaflegum athugasemdum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um seðlabankafrumvarp forsætisráðherra". Undanþáguákvæðið er svona: "Heimilt er að takmarka aðgang almennings að gögnum þegar mikilvægir almannahagsmunir krefjast, enda hafi þau að geyma upplýsingar um... samskipti við önnur ríki eða fjölþjóðastofnanir". Nú blasir raunar við að ekki bara er um samskipti við fjölþjóðastofnun að ræða heldur jafnframt fjölþjóðastofnun sem óskaði sérstaklega eftir trúnaði um viðkomandi gögn. Það hefur ráðherrann sýnt fram á. Við blaðamenn höfum oft mátt glíma við svona undanþáguákvæði og að sjálfsögðu leitast við að túlka þau þröngt en upplýsingaréttinn vítt. Ég óska Birgi velfarnaðar frammi fyrir nefndinni. Honum gengur kannski betur þar en mörgum blaðamanninum.

Um leið sendir Birgir fyrrum formanni sínum, Davíð Oddssyni, skýr skilaboð: Túlkaðu upplýsingarétt almennings vítt og liggðu ekki á upplýsingum að óþörfu - hafðu almannahagsmuni að leiðarljósi.

Davíð hefur sem kunnugt er neitað að upplýsa um vitneskju sína um hvers vegna Bretar settu á okkur hryðjuverkalög. Nú er til afgreiðslu hjá Úrskurðarnefndinni mál DV þar sem seðlabankastjórinn hefur neitað að svara spurningum og afhenda minnisblöð um Icesave og fleira. Davíð hefur neitað að upplýsa almenning um þessi gríðarlegu hagsmunamál almennings. Hann hefur meira að segja neitað að upplýsa viðskiptanefnd Alþingis.

Samt sem áður hefur Davíð sjálfur lagt línuna hversu mikilvægur upplýsingaréttar almennings er. Hans forskrift var og væntanlega er enn að upplýsingalögin og undanþáguákvæði þeirra eigi alltaf að túlka fyrirspyrjendum í hag hvenær sem það er mögulega hægt. Stofnun eða embættismaður eigi alltaf að spyrja sig fyrst hvort virkilega sé nokkur þörf á því að halda upplýsingum leyndum, jafnvel þrátt fyrir undanþáguákvæði.

Þessi frjálslynda afstaða Davíð var lögð til grundvallar þegar hann varð á sínum tíma við beiðni Þórs Jónssonar um afrit af bréfi sínu (DO) til Sverris Hermannssonar Landsbankastjóra á sínum tíma. Davíð hefði þar getað sett upp hundshaus og borið fyrir sig undanþáguákvæði en kaus að gera það ekki - túlkaði málið fyrirspyrjanda í hag. Hann á að gera það í dag líka.

Og að sjálfsögðu á forsætisráðherra núverandi að gera það líka; gera sitt ýtrasta til að verða við vilja Birgis Ármannssonar. Fyrst er það auðvitað kurteisi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn að vísa til upplýsingalaga og fá þessa fjölþjóðastofnun til að falla frá beiðni sinni um trúnað.

En hefur Birgi Ármannssyni dottið í hug að leita til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sjálfs um afrit af þessu gagni? Ég myndi gera það í hans sporum. En honum finnst kannski skemmtilegra að kljást við forsætisráðherra?


mbl.is Birgir fær ekki gögn frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tvö ár frá Breiðavíkur-sprengjunni

Nú eru liðin 2 ár frá því að Kastljós og DV vörpuðu sannkallaðri samfélagslegri sprengju inn í þá tiltölulega slétta og fellda tilveru okkar á Íslandi. Miðaldra karlmenn stigu fram úr skuggaveröldum sínum og sögðu frá því hvernig skilningsvana opinber yfirvöld stóðu að því að berja þá og svívirða sem börn og unglinga hálfri öld fyrr.

"Breiðavíkurdrengirnir" áunnu sér aðdáun samlanda sinna. Umfjöllunin um þá leiddi til blaðamannaverðlauna. Rannsóknarnefnd var sett á laggirnar og heit strengd. Sanngirnisbótum var lofað.

Og hvað hefur þá gerst? Svo gott sem ekki neitt. Fyrri ríkisstjórn lagði fram frumvarp um að borga drengjunum um það bil flatskjár-virði af bótum og kannski rúmlega það ef þeir gætu sannfært geðlækna nógu vel um skaða sinn. Með miklum gráti og ógurlegum gnístri tanna mætti hífa sanngirnisbæturnar upp í bíl-virði.

Ofbeldinu hafði sum sé ekki linnt. Spurning með næstu ríkisstjórn.


Prófkjör og persónukjör

Við val stjórnmálaflokka á því, hvaða fólk skuli raðast á framboðslista sína, er hægt að viðhafa ýmsar aðferðir, en sú lélegasta er að fela uppstillingarnefnd á vegum valdakjarnans hlutverkið. Ýmsir gallar fylgja lýðræðislegri leiðum, eins og opnum, hálfopnum og lokuðum prófkjörum, en þá galla má halda í skefjum með (leik)reglum. Í því andrúmslofti sem nú ríkir hljóta stjórnmálaflokkarnir að hafa lýðræðisástina í forgrunni.

Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík hefur nú ákveðið að viðhafa prófkjör við val á lista fyrir næstu kosningar. Þátttaka í prófkjörinu er "heimil öllum fullgildum meðlimum sjálfstæðisfélaganna í kjördæminu sem þar eru búsettir og náð hafa 16 ára aldri prófkjörs­dagana". Einnig þeim "stuðningsmönnum Sjálfstæðisflokksins, sem eiga munu kosningarrétt í kjördæminu við kosningarnar og undirritað hafa inntökubeiðni í sjálfstæðisfélag í kjördæminu fyrir lok kjörfundar". Þetta skilgreinist sem lokað prófkjör (bara fyrir skráða flokksmenn), en er að mínu viti algert lágmark.

Vitaskuld blasir við að í prófkjörum kunna þeir að standa betur að vísi sem rúmt auraráð hafa og góð tengsl inn í t.d. íþróttafélög og slíkt. En það standa alltaf einhverjir betur að vígi en aðrir og erfitt að eiga við það, utan að setja þá strangar reglur um peningastyrki og auglýsingaaustur.  En ávallt og einkum nú ætti það að vera, ef eitthvað er, fráfæling að horfa upp á frambjóðanda í prófkjöri eyða áberandi meiri pening í baráttu sína en aðrir frambjóðendur. Það sem virkar vel á suma virkar illa á aðra.

Það eru gallar á öllum kerfum. Lýðræðislegast væri auðvitað að kjósendur hefðu aukið val í sjálfum kosningunum; fengju þar að raða fólki á þeim lista sem þeir haka við. Jafnvel velja af mismunandi listum. En augljós "galli" fylgir þessu: Þá væru ekki bara flokkar að slást um atkvæði kjósenda, heldur flokksfólk innbyrðis að slást á sama tíma. Kjóstu minn flokk, en þar af kjóstu mig en ekki X samflokksmann minn. En slíka galla má líka yfirstíga í þágu aukins lýðræðis.

Ég bíð spenntur eftir ákvörðunum fleiri flokka um hvernig þeir ætla að ákveða framboðslista sína.


mbl.is Prófkjör um miðjan mars
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er ástæða til að halda sigurhátíð?

 Raddir fólksins stefna fólki á Austurvöll í dag, ekki fyrst og fremst til að mótmæla, eins og hingað til, heldur til að halda sigurhátíð. Er það tímabært? Hefur einhver sigur unnist? Svarið er bæði já og nei. Það vantar bara viðeigandi forskeyti á undan orðinu sigur. Það vantar t.d. forskeytið "áfanga-". Að öðru leyti er varla hægt að horfa framhjá stórfenglegum - áfangasigrum - fólksins.

Egill Helgason fjallar um þetta á Eyjubloggi sínu og segir: "Mér er alveg fyrirmunað að skilja hví Raddir fólksins boða til sigurhátíðar í dag. Lítið hefur gerst nema að ein ríkisstjórn er fallin. Önnur hefur ekki einu sinni tekið við. Nánast á hverjum degi berast fréttir af nýjum hneykslismálum í banka- og fjármálakerfinu. Maður sér ekki að sé mikið verið að taka á fjárglæframönnunum sem settu Ísland á hausinn. Atvinnuleysi eykst og kjörin versna. Er virkilega tilefni til að fagna sigri?"

Við Egil vil ég segja: Settu fyrrnefnt forskeyti á viðeigandi stað og þá getur þú fagnað eins og flestir aðrir. Fólkið er 5:0 yfir í hálfleik og spillingarliðið er nokkrum mönnum undir vegna rauðra spjalda. Réttnefndur sigur er í öruggu sjónmáli.

Er það ekki? Það Íslands- og jafnvel heimssögulega hefur gerst (miðað við langlundargerð Íslendinga) að fólk stormaði út á göturnar og flæmdi í burtu óvinsæla ríkisstjórn. Það er ekki lítil gjörð. Það stefnir í nýja ríkisstjórn sem endurspeglar mun betur (samkvæmt könnunum) vilja fólksins. Það er ekkert slor (þótt vissulega verði að líta á hana sem tímabundna starfsstjórn þar til annað kemur í ljós). Það er búið að bóka kosningar. Eins og fólkið vildi. Það er búið að bóka stjórnlagaþing, endurskoðun stjórnarskrárinnar, með í farteskinu að auka lýðræði og til að mynda auka hlut þjóðaratkvæðagreiðslna. Það er búið að stöðva aðhaldsleysis-nýfrjálshyggjuna. Eins og fólkið vildi. Það er búið að senda Sjálfstæðisflokkinn í frí eftir 18 ára stanslausa stjórnarsetu - eins og fólkið vildi. Það er búið að skipa sérstakan saksóknara og sérstaka rannsóknarnefnd (hvítbókarnefnd) til að fara í saumana á bankahruninu. Eins og fólkið vildi.

Vissulega mætti sumt vera fastara í hendi, eins og aðgerðir gegn "snillingunum" í bönkunum og eignarhaldsfélögunum, sem eru höfuðpaurar hrunsins. Eins mætti vilji fólksins hafa endurspeglast betur í myndun nýrrar breiðfylkingar um framboð. Eitt og annað mætti vera skýrara. En fólkið er búið að vinna svo margar orrustur og slík yfirburðastaða í stríðinu að "sigurhátíð" er í góðu lagi - meðan huglægt forskeyti er á réttum stað.

Að þessari sigurhátíð lokinni verður fólkið hins vegar að gera upp við sig hvað það vill gera næst. Mynda breiðfylkingu um framboð? Þá er nú aldeilis farið að liggja á. Það er verið að mynda nýja ríkisstjórn og í samkomulaginu verður kveðið á um kosningar, að líkindum í apríl.Viðkomandi "gömlu" flokkar virðast vilja hafa kosningarnar í fyrra fallinu. Það er slæmt að því leyti að þá gefst lítill tími til að undirbúa framboð; hjá öllum. Gömlu flokkarnir hlaupa út í uppstillingu í stað prófkjörs og það er ekki beint í anda virks lýðræðis. Ný framboð hafa skemmri tíma til að skipuleggja kosningastarfið - og munu líka eiga erfitt með að ástunda lýðræðislegt val á framboðslista. Það er ekki í anda þeirra lýðræðiskrafna sem uppi hafa verið. Væntanlega eiga Hörður Torfason og Gunnar Sigurðsson ekki að raða upp lista. Það væri ekki mikill sigur.


mbl.is Stjórnin mynduð á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband