Vinstri sveifla - og Borgarahreyfingin

Það er í gangi eindregin vinstri sveifla í þjóðfélaginu, það fer ekki á milli mála. En það eru að mínu mati jafnframt ljóst að mjög margir kjósendur eru tvístígandi og óákveðnir um hvað þeir vilja gera og munu gera þegar í kjörklefann er komið. Allt fólkið á bakvið "Búsáhaldabyltinguna" hlýtur að velta fyrir sér hvort nóg sé fyrir þjóðina að yfirgefa nýfrjálshyggjuna en halda áfram að kjósa gömlu flokkana - hvort ekki þurfi róttækari uppstokkun en það.

 

Ég hef nefnt það hér áður, nokkrum sinnum meira að segja, að mér finnst að blásið hafi verið til kosninga of snemma. Mér sýnist þannig alveg ljóst að áhugafólk um ný framboð og uppstokkun og "hreinsanir" innan gömlu flokkanna hafi ekki haft tíma til að skipuleggja öflug framboð og stilla saman stefnustrengi. Að hafa kosningar of snemma þjónar bara hagsmunum gömlu flokkanna svokölluðu og gefur þeim meira að segja færi á meiri höftum hvað val frambjóðenda sinna varðar. Að óbreyttu sýnist mér að "uppstokkun" flokkakerfisins muni gersamlega mistakast; fjórflokkakerfið er komið á ný (Frjálslyndi flokkurinn að hverfa) og þeir vísar að nýjum flokkum sem komið hafa fram hafa ekki sýnst burðugir.

Búsáhaldabyltingin hefur ekki getið af sér nýja fjöldahreyfingu til framboðs og verður það að teljast með ólíkindum eftir svona hrikalegar samfélagshræringar. Stjórnmálasaga Íslands inniheldur sterk dæmi um öfluga "fimmtu flokka" eftir væringar milli persóna innan gömlu flokkanna (t.d. Borgaraflokkur Alberts, BJ hans Vilmundar eða Þjóðvaki Jóhönnu) - en samfélagsleg uppreisn undanfarinna mánaða ætlar kannski litlu sem engu að skila inn í flokkakerfið!

Þó sýnist mér von með Borgarahreyfinguna; að hún geti komið sterk inn, knúið fram breytingar. Einna athyglisverðasta "stefnumál" þeirrar framboðshreyfingar er að hún ætlar að leggja sig niður og hætta störfum þegar búið er að koma fáum en skýrum markmiðum fram eða ljóst þykir að þeim verði ekki náð. Að öðru leyti snýr stefnan að nokkrum þeim meginmarkmiðum sem að baki mótmælanna miklu voru. Þessi "fókuspunktar" eru:

Krafan um réttlæti, jafnrétti og lýðræði sameinar okkur:

1. Gripið verði til neyðarráðstafana í þágu heimila og fyrirtækja.

2. Landsmenn semji sína eigin stjórnarskrá.

3. Trúverðug rannsókn undir stjórn og á ábyrgð óháðra erlendra sérfræðinga á íslenska efnahagshruninu verði hrundið af stað og fari fram fyrir opnum tjöldum. Frysta eignir grunaðra auðmanna STRAX meðan á rannsókn stendur.

4. Lögfest verði fagleg, gegnsæ og réttlát stjórnsýsla.

5. Lýðræðisumbætur STRAX.

6. Borgarahreyfingin leggur sig niður og hættir störfum þegar þessum markmiðum hefur verið náð eða augljóst er að þeim verður ekki náð. 

 

 Borgarahreyfingin kynnir framboð sitt og stefnu kl. 14 í Iðnó í dag og ég ætla að fylgjast grannt með.


mbl.is Gæti orðið mesta vinstri sveifla sem sést hefur hér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Hinn nýji formaður D að öllum líkindum, vill nú ekki yfir höfuð meina að hér hafi verið í gangi nein stefna nýfrjálshyggju að sögn, hann er því ekki að yfirgefa neitt samkvæmt því!

Þú nefnir þessi þrjú dæmi um "Sterk fimmtu framboð" sem öll mótuðust út frá einstaklingum, sem fimmti flokkurinn. FF varð auðvitað til þannig líka kringum SVerri Hermanns og þótt ekki líti kannski vel út með flokkin í dag, þá hefur hann þó mun lífsseigari en hin nefndu þrjú framboðin, því má ekki gleymaSVo var það auðvitað Kvennaframboðið/Kvennalistin, sem heldur má ekki gleyma, þannig að þótt mönnum finnist "fjórflokkakerfið" enn ríkjandi eða sterkt, þá er það nokkuð farið að hljóma klisjukennt og Friðrik,sömuleiðis dálítið skrýtið líka að tala um "gömlu" fjórflokkana í jósi þess að meirihluti flokkanna sem nú eru á þingi eru rétt tíu ára eða rúnlega!Veit að þetta eru ekki stór atriði, en samt..

Magnús Geir Guðmundsson, 4.3.2009 kl. 15:20

2 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Já, Magnús Geir, þetta er að sönnu ekki "stórt" atriði; skilgreiningin á "gamla" fjórflokknum. Í grundvallaratriðum höfum við enn "gamla" kerfið með Samfylkinguna að mestu í plássi Alþýðuflokksins og VG að mestu í plássi Alþýðubandalagsins. Þetta má hártoga veit ég, en mér finnst þetta nógu nærri sanni til að segja að fjórflokkurinn hafi endurnýjað sig.

Væntanlegur nýr formaður Sjálfstæðisflokksins er hávært smiðshögg í þessu sambandi. Bjarni Benediktsson verðandi formaður og Bjarni Benediktsson fyrrverandi formaður eru ekki bara alnafnar heldur meira og minna sama genið. Það er viðeigandi að yngri Bjarninn taki við formannsstólnum þegar sonur þess eldri, Björn, er að hætta.Það er heldur ekki fráhvarf frá "hefðum" að verðandi formaðurinn hafi tengsl inn í eitt olíufélaganna.

Bjarni hinn yngri getur svo sem reynt að afneita nýfrjálshyggjunni, en það er afar ótrúverðugt - því allir vita af tilvist hennar undanfarin 10-20 ár með einka(vina)væðingu, sértækum skattaráðstöfunum, niðurskurði á almannaþjónustu, "Laizzes-faire" efnahagsstjórnun, algerri efnis- og neysluhyggju og áfram mætti lengi telja.

Friðrik Þór Guðmundsson, 4.3.2009 kl. 16:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband