3.3.2009 | 20:16
Fráleitur fyrirsláttur - komið með gögnin!
Nú hafa bæði Björgólfur Thor Björgólfsson og fyrrum starfsmaður hans Halldór J. Kristjánsson sent frá sér yfirlýsingar vegna umfjöllunar Kastljóss í gærkvöldi, þar sem hagnýtt voru svör við fyrirspurnum mínum til Breskra yfirvalda vegna Icesave-málsins og fullyrðinga Björgólfs þar að lútandi. Yfirlýsingarnar eru algerlega innantómt froðusnakk, því miður. Endurtekning á fyrri fullyrðingum án þess að bæta hinu minnsta við. Meira að segja kallar Björgólfur undirmenn sína, fyrrum bankastjórana, fram sem gild vitni - hann gæti allveg eins vitnað í jólasveininn.
Enda brást Kastljós við með því að standa við hvert orð og það geri ég auðvitað líka, hvað fyrirspurnir mínar varðar, sem Björgólfur Thor leyfir sér að dæma margræðar og óskýrar. Þessu er auðvitað vísað algerlega til föðurhúsanna: Það er ekki á nokkurn hátt hægt að misskilja þessar fyrirspurnir og í svörunum á engan hátt reynt að skjóta sig á bakvið einhvern óskýrleika, heldur svarað með skýrum hætti.
Björgólfur og félagar hafa haft það í hendi sér að stíga fram með þau gögn sem þeir (í gegnum talsmanninn Ásgeir Friðgeirsson) segjast hafa í höndunum um formleg eða óformleg tilboð að lausn. Í umræddum Kompás-þætti fullyrðir Björgólfur að Hector Sands forstjóri Breska Fjármálaeftirlitsins (FSA) hafi verið "á öllum símafundum" um málið. Fyrir mína parta tel ég útilokað að margir símafundir hafi átt sér stað með m.a. forstjóra FSA án þess að nokkurt sé fært til bókar.Gögn sem Ásgeir fyrrnefndur sagði að væru til og væru skýr hafa ekki verið framreidd.
Ég hlýt að gera ráð fyrir því að fjölmiðlar hjóli núna í t.d. Hector Sands og óski eftir vitnisburði hans.
Hér að neðan eru yfirlýsingar Kastljóss, Björgólfs og Halldórs.
Í Kastljósi í gær kom fram að engin gögn væru til í breska fjármálaeftirlitinu og breska fjármálaráðuneytinu um sérstaka flýtimeðferð til að koma Icesave reikningum Landsbankans yfir í breska lögsögu. Vísað var í orð Björgólfs Thors í Kompásþætti frá því fyrr í vetur þar sem hann sagði að hann Landsbankanum hefði verið boðin þessi flýtimeðferð. Björgólfur Thor sendi frá sér yfirlýsingu í dag þar sem hann segir þessa umfjöllun hafa verið ónákvæma og villandi og að orð hans hafi verið rangtúlkuð. Þá segir hann að fyrirspurnin til breskra yfirvalda hafi verið margræð og orðalag óskýrt og svörin útiloki ekki að tilboð um flutning á Icesave í breska lögsögu hafi komið fram.
Vegna yfirlýsingar Björgólfs vill kastljós taka fram að ummæli hans í Kompásþættinum voru afar skýr. Hann fullyrti þar að breska fjármálaeftirlitið hefði, sunnudaginn 5 oktober, komið fram með nýja stefnu og boðið flýtimeðferð til að koma Icesave í breska lögsögu gegn 200 milljón punda tryggingu. Engin gögn finnast um það boð hjá breska fjármálaeftirlitinu, þrátt fyrir að stofnunin taki sérstaklega fram að leitað hafi verið í pappírsgögnum og rafrænum gögnum. Þá hafnar Kastljós því að spurningin til breska fjármálaeftirlitsins hafi verið ónákvæm. Kastljós stendur í einu og öllu við frétt sína frá því í gær. Yfirlýsingu Björgólfs Thors má lesa í heild sinni á vefnum okkar og einnig fyrirspurnina til breskra yfirvalda á ensku. Hér fyrir neðan má lesa yfirlýsingu frá Björgólfi Thor Björgólfssyni og Halldóri J Kristjánssyni, fyrrum bankastjóra Landsbankans vegna sama máls.
Yfirlýsing Björgólfs Thor Björgólfssonar:
Sælir Sigmar og Þórhallur.
Vísað er til frásagnar Kastljóss í gærkvöldi af viðtali við mig i Kompásþætti á Stöð 2 sl. haust. Ljóst er að frásögnin er ónákvæm og auk þess villandi. Með framsetningunni er augljóslega látið í það skína að ég hafi farið með rangt mál, og virðist það vera beinlínis inntak frásagnarinnar. Þessi ranga framsetning kom einnig fram í fréttum Sjónvarpsins þegar greint var frá umfjöllun Kastljóss um málið. Á vef RUV finnst sú frétt undir fyrirsögninni Orð Björgólfs Thors standast ekki".
Það er rangt sem fram kom að ég hafi í Kompásviðtalinu sagt að Landsbankinn hafi gert samkomulag við breska fjármálaeftirlitið (FSA) um að taka Icesave innlánareikningana með flýtimeðferð inn í dótturfélag bankans í Bretlandi og þar með komið ábyrgðum á þeim reikningum í lögsögu breskra yfirvalda. Í kynningu á innslagi Kastljóss er fullyrt um samkomulag, í umfjölluninni sjálfri er þrisvar sinnum talað um samkomulag og þar er mér m.a. lagt í munn að hafa fullyrt um samkomulag og í fréttum Sjónvarpsins er einnig staðhæft að ég hafi talað um samkomulag. Hið rétt er að ég talaði aldrei um samkomulag. Ég talaði um að viðræður hefðu átt sér stað við FSA og í samtölum stjórnenda bankans við starfsmenn þess hefði komið fram að ef Landsbankinn gæti greitt 200 milljónir sterlingspunda til Bretlands á mánudeginum væri FSA reiðubúið að veita flýtimeðferð (e. fast track) á Icesave reikningunum inn í breskt dótturfélag bankans. Landsbankanum var því boðin flýtimeðferð gegn því að greiða 200 milljónir sterlingspunda en þar sem bankinn fékk ekki fyrirgreiðslu varð ekkert úr mögulegu samkomulagi. Þetta hafa fyrrum bankastjórar Landsbankans greint frá m.a. í tilkynningu frá 14. október sl. og í fjölmiðlaviðtölum. Nærtækast er að benda á viðtal við Sigurjón Þ. Árnason í Kastljósi í haust þar sem þetta kom skýrt fram. Í þeim alþjóðlegu viðskiptum sem ég hef stundað síðasta áratuginn er mikill munur á tilboðum og hugmyndum að lausn og samningum og samkomulagi.
Þessi grundvallar munur á orðum mínum og röngum fullyrðingum Kastljóss er mjög mikilvægur, einkum þegar svar FSA og breska fjármálaráðuneytisins er skoðað í heild. Mikilvægt er að hafa í huga að bresk upplýsingalöggjöf er þannig úr garði gerð að þú færð það sem þú biður nákvæmlega um og er hefðin sú að túlka allar óskir mjög þröngt. Fyrirspurn íslenska blaðamannsins er margræð eins og sjá má:
"Can you confirm or deny that ín the days and weeks prior to the Freezing Order an understanding had been reached between UK (FSA and/or HM Treasury) and Landsbanki (now former) owners that if Landsbanki and/or Iceland would put 200 million GBP into the relevant Deposit Insurance Fund (or as a guarantee in some other form) then the FSA/HM Treasury would hasten changes made to the status of Landsbanki branch and UK take over the rest of the guarantees? In other words; If Landsbanki got a 200 million GBP loan from the Icelandic Government (Federal reserve bank or otherwise) to this effect then Iceland would not have to worry anymore about Icesave deposit guarantees?
In an answer to this query it would be essential to receive copies of relevant documentation that confirm this, unless this can be categorically denied".
Þarna eru fleiri en ein spurning og orðalag óskýrt. Nægir að nefna að vísað er til samnings við fyrrum eigendur Landsbankans og greiðslur til Tryggingarsjóðs Innistæðueigenda. Ekki kemur á óvart að Bretar kannist ekki við slíkt þar sem hluthafar Landsbankans komu ekki að viðræðum við FSA, viðræður snérust ekki um greiðslur í tryggingasjóð og enginn formlegur samningur var gerður. Eins og við er að búast þegar spurt er með fyrrgreindum hætti þá segir í svari FSA að ...no such agreement was entered into." Þetta svar segir hins vegar ekkert um það hvort Landsbankanum hafi staðið til boða að flytja innlánareikningana með hraði til Bretlands. Segir aðeins eins og satt er að aldrei komst á slíkt samkomulag. Í svari fjármálaráðuneytisins segir: Since there was no understanding such as you describe, I can confirm that the Treasury does not hold any relevant information." Þarna vísar ráðuneytið til þess að ekki hafi verið sá skilningur sem lýst er í fyrirspurninni en svarið útilokar ekki að Landsbankinn hafi átt í viðræðum þeim sem fyrr er lýst við FSA.
Þar sem ég segi aldrei að samkomulag hafi verið gert heldur aðeins það sem bankastjórar Landsbankans hafa sagt, að boð um flýtimeðferð var lagt fram gegn greiðslu fjármuna til Bretlands, er niðurstaða umfjöllunar Kastljóss og fréttastofu Sjónvarps í gærkvöld röng. Af svörum FSA og breska fjármálaráðuneytisins er ekki hægt að ráða að orð mín standist ekki. Svör bresku aðilanna útloka alls ekki að slíkt tilboð hafi komið fram.
Fyrrgreind umfjöllun hefur verið meiðandi og er þess farið á leit við Kastljós og fréttastofu Sjónvarps að villandi og ónákvæm umfjöllun um orð mín verði leiðrétt í kvöld á sama vettvangi og í gærkvöldi. Hið rétta er að svör FSA og breska fjármálaráðuneytisins segja ekkert til um hvort orð mín standist eður ei. Hins vegar hafa stjórnendur Landsbankans staðfest þau með formlegum yfirlýsingum sínum.
Virðingarfyllst,
Björgólfur Thor Björgólfsson
Yfirlýsing Halldórs J. Krisjánssonar.
Vegna umfjöllunar Kastljós í Sjónvarpinu í kvöld (2. mars 2009) um þann möguleika að Icesave innlánareikningar Landsbankans yrðu fluttir í dótturfélag bankans í Bretlandi er rétt taka fram eftirfarandi:
Eins og fram kemur í yfirlýsingu fyrrum stjórnenda Landsbankans frá 14. október 2008 átti Landsbankinn í viðræðum við breska fjármálaeftirlitið (FSA) um að Icesave innlánareikningar bankans í Bretlendi yrðu færðir með flýtimeðferð (e. fast track) yfir í dótturfélag hans þar í landi. Var Landsbankanum boðið upp á þann möguleika gegn 200 milljón sterlingspunda greiðslu bankans til Bretlands vegna útstreymis af Icesave reikningum og tiltekinna annarra ráðstafanna. Landsbankinn kom upplýsingum um þennan möguleika til fulltrúa stjórnvalda. Þar sem Landsbankinn fékk ekki fyrirgreiðslu Seðlabankans eins og óskað var þann 6. október til að greiða umræddar 200 milljónir sterlingspunda varð formlegt samkomulag um þetta efni aldrei að veruleika. Kann það að skýra svör breskra aðila við spurningum íslenskra blaðamanna.
Upplýsingum þessum var komið til umsjónarmanna Kastjóss fyrr í dag en þær ekki birtar.
Fyrir hönd fyrrverandi stjórnenda Landsbankans
Halldór J Kristjánsson
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Fjölmiðlar, Sjónvarp, Viðskipti og fjármál | Breytt 4.3.2009 kl. 00:30 | Facebook
Athugasemdir
Fyrir hvað stendur J-ið hjá Halldóri?
Stendur það kannski fyrir "jólasveinn"?
Santa (IP-tala skráð) 3.3.2009 kl. 21:43
Það er með eindæmum hversu æra þessra manna er þeim augljóslega lítils virði.
Núna misskildi ég Björgólf Thor í sjónvarpsviðtalinu forðum. Það hlaut að vera. (o:
Guðmundur Gunnarsson (IP-tala skráð) 3.3.2009 kl. 21:46
Hafa þessir menn ekki alltaf unnið svona? Munurinn er bara sá að nú er flestir hættir að trúa þeim - og sérstaklega Keisarinn í nýju fötunum - sem voru stjórnvöld. Þó allar viðvörunarbjöllur hafi hringt, og sjálfur Davíð Oddsson hafi varað lærling sinn Geir oftsinnis við, þá létu stjórnvöld nægja að spjalla við bankastjóra einkabankanna og eigendur þeirra, sem sögðu að hér væri bankakerfið traustara en víðast hvar annarsstaðar. Og þeim var trúað enda virðist Fjármálaeftirlitið alltaf hafa bakkað þá upp sem hlýtur að vera eitt af því sem verður rannsakað.
En gott hjá þér Friðrik Þór að trúa ekki og halda áfram að grafa.
Jón Baldur Lorange, 3.3.2009 kl. 21:52
9. mars árið 1986, nánar tilltekið á sunnudegi, í settum skiptarétti Reykjavíkur, að horni 51. strætis og Lexinton Avenue í New York og haldinn var þar af Markúsi Sigurbjörnssyni, með undirrituðum votti vegna rannsóknar á gjaldþroti Hafskips h.f. sagði Gunnar Þorvaldur Andersen (fyrrum starfsm. Hafskips) eftirfarandi, aðspurður, hvort hann hafi "[átt] samræður við einhverja starfsmenn eða fyrirsvarsmenn Hafskips" varðandi tiltekin fjálmál þess fræga - af endemum - félags:
"Já já" ............
......... "ég hringdi í BJörgólf [Guðmundsson] og Ragnar Kjartansson 7. febrúar og sagði upp. Mér var þetta eiginlega ofboðið ég get, ég gat ekki setið þegjandi og tekið þátt í þessu, þessum þjófnaði sem ég áleit þetta vera, blekkja hluthafana með fölsuðum skýslum".
(bls. 994 - Hæstaréttarmálið nr. 19/1991 - 7. hefti - almennt efni A - bls. 938 - 1120)
Falla epli langt frá eikum .............?
Upprifjun (IP-tala skráð) 3.3.2009 kl. 22:20
Þakka Jón.
Ég sé hvað sem öðru líður ástæðu til að endurtaka það sem ég hef áður sagt: Ég hef enga löngun til að draga það sérstaklega fram að Björgólfur og félagar hafi klikkað í Icesave-málinu og hafi síðan reynt að koma syndinni yfir á ráðherra og Seðlabanka. EF hægt er að sína fram á að það hafi hins vegar einmitt verið svona möguleiki uppi en ráðherrar og Seðlabankinn klúðrað milljörðunum þá er það jafn merkileg og mikilvæg niðurstaða.
Langar ekki fleiri þarna úti að grafa? Ætlar einhver fjölmiðlamaður að ná kommenti eða helst viðtali við Hector Sands hjá FSA?
Friðrik Þór Guðmundsson, 3.3.2009 kl. 22:22
"Upprifjun": Allt í fína að vitna í opinber gögn. Ég hefði hins vegar sleppt lokaorðunum þínum. Þau voru óþörf viðbót.
Friðrik Þór Guðmundsson, 3.3.2009 kl. 22:26
Þú ert til fyrirmyndar, Friðrik Þór.
Svavar Alfreð Jónsson, 3.3.2009 kl. 23:32
Það fer að verða áleitin spurning hvort útvarpsstjóri hafi annað agenda en að segja fréttir?
Arnþór Jónsson (IP-tala skráð) 3.3.2009 kl. 23:42
„Íslenskir málshættir eru oftast stuttar og gagnorðar málsgreinar, mjög oft ein setning hver, sem menn bregða fyrir sig í daglegu tali eða rituðu máli, gjarnan sem skírskotun til almennt viðurkenndra sanninda um ýmis fyrirbæri mannlegs lífs…Þeir eru oftast höfundarlausir eins og mestallur orðaforði tungunnar. Málsháttur helst meira og minna í föstum skorðum og honum er ætlað að fela í sér meginreglu eða lífspeki. Þessi stöðugleiki er einkenni málsháttarins bæði á ferli sínum manna á meðal á hverjum tíma og eins þótt hann erfist frá kynslóð til kynslóðar“.(Íslenskir Málshættir, með skýringum og dæmum, Sölvi Sveinsson, 1995.)
Upprifjun (IP-tala skráð) 3.3.2009 kl. 23:49
"After his father was felled by a business scandal, Thor Bjorgolfsson went to find his fortune and redeem the family name. He's now Iceland's first billionaire.
Grudges die hard in Iceland--even after 19 years. Bjorgolfur Thor Bjorgolfsson still remembers the morning the police arrived at his home and took away his father for questioning. By 8 p.m., when there was no sign of his dad, Bjorgolfsson turned on the TV and discovered that his father and other executives from Hafskip, Iceland's second-largest shipping line, had been detained. They were later charged with 450 criminal counts, from embezzlement to fraud. Word tore through the tiny country--it has fewer than 300,000 residents--as Hafskip's collapse became a national scandal.
Ever since that night in 1986 Bjorgolfsson has been on a quest to redeem his family's reputation. "Respect is the number one thing that occupies my mind," says Thor (pronounced "tore"), as he is universally known. "Power, money, that's just the road to respect," he explains, before paraphrasing a well-known Icelandic verse: "After all, money disappears, friends die, and you die yourself, but your reputation remains." That pursuit has led him to the U.S., Russia, Bulgaria and eventually back to Iceland for a triumphant homecoming, when he seized control of the nation's oldest bank and installed his father as its chairman.
Like his Viking ancestors, Thor got mad, got even--and got very rich. It took the 38-year-old less than a decade to become Iceland's first billionaire (net worth: $1.4 billion), with stakes in four of the nation's ten largest public companies and in Bulgarian and Czech telecom outfits. "
_______________________________________________________
Frásögnin hér að ofan er hluti greinar Forbes frá árinu 2005 (feitletrun bætt inn):
Thor's Saga
Luisa Kroll, 03.28.05
http://www.forbes.com/global/2005/0328/078.html
Friðrik H (IP-tala skráð) 4.3.2009 kl. 00:38
Frábær rannsókn hjá þér Friðrik Þór.
Predikarinn - Cacoethes scribendi , 4.3.2009 kl. 00:47
Glaesilegt framtak. En thad er til skammar ad enginn hafi gert thetta fyrr. Thad maetti segja ad her farir thu i hop med Sigruni i speglinum.
Gognin sanna ad thad var ekkert "understanding" i gangi, ord Bjorgolfs segja ad thad hafi ekkert samkomulag (e.agreement) hafi verid, adeins eitthvad sem maetti thyda sem "understanding". En thad er einmitt thad sem gognin sanna, ad thad var hvorki "agreement" ne "understanding".
ps. af hverju er ekki buid ad kaera neinn vegna bankahrunsins?
Gustaf Hannibal (IP-tala skráð) 4.3.2009 kl. 16:59
Visir.is birtir í dag frétt upp úr gögnum frá Landsbankanum, sem eiga að sýna að einhverjar viðræður hafi átt sér stað um umrædda "lausn".
http://visir.is/article/20090304/VIDSKIPTI06/83079011
Ég verð að segja að þetta er ákaflega rýrt í roðinu. Og breytir engu af því sem ég hef sagt og Bresk yfirvöld hafa svarað mér. Engu. Enginn hefur notabene haldið því fram að enginn hafi talað um möguleika eins og þennan; eftir stendur að á afdrifaríkum sunnudegi var Björgólfur ekki með NEITT í höndunum til að sýna Seðlabankanum og ráðherrum svart á hvítu hvað til boða stæði. Þú mætir ekki með þessi snifsi og ætlast til að fá 200 milljón pund af almannafé hið snarasta.
Visir.is ætti að fylgja þessu grimmt eftir; spyrja hvernig þetta kemur heim og saman við svörin til mín og spyrja nánar um samskiptin sem þessi bréf eiga að vera til marks um. Eins og ég hef margsagt; það er í sjálfu sér ekkert ómerkilegri niðurstaða og frétt ef í ljós kemur að Bresk yfirvöld ljúga eða fara á svig við sannleikann og að Seðlabankinn og ríkisstjórn Íslands hafi klúðrað áþreifanlegu og gullnu tækifæri. Þessi tvö bréf í visir.is koma okkur ekki að slíkum leiðarenda - það þarf eitthvað mun haldbetra til.
Friðrik Þór Guðmundsson, 4.3.2009 kl. 17:45
Þakka þér fyrir þetta. Það er alltaf mjög upplýsandi að lesa skrif þin.
Kristlaug M Sigurðardóttir, 5.3.2009 kl. 00:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.