24.2.2009 | 11:51
Hallarbylting helmingaskiptaflokkanna?
Hvernig líst þjóðinni á þann möguleika, sem nú er verið að hvísla um á göngum Alþingis, að eftir að Jón Magnússon yfirgaf Frjálslynda flokkinn og gekk heim til liðs við Sjálfstæðisflokkinn hafi myndast möguleiki á því að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn myndi nýja helmingaskiptastjórn? Fréttablaðið segist hafa heimildir fyrir þessu (sjá hér).
"Fréttablaðið hefur heimildir fyrir því að rætt sé um það innan þinghússins að staðan hafi breyst við vistaskipti Jóns. Allt í einu hafi sá möguleiki orðið raunhæfur að flokkarnir tveir tækju upp fyrra samstarf. Stjórnarþingmaður sem ekki vildi láta nafns síns getið segir allt hafa breyst þegar Jón gekk í Sjálfstæðisflokkinn. Síðan þá hafi Framsókn stoppað allt og stjórnin verið illa starfhæf".
Samkvæmt þessu virðast sum öfl innan þessara syndum hlöðnu flokka vilja grípa til samskonar úrræða og í Ráðhúsi Reykjavíkur; bara taka völdin með illu og þá valdanna vegna. Í borginni var Ólafur F. Magnússon dreginn fram, en þegar hann var ekki nógu góður þá var Óskar Bergsson dreginn fram. Getur hugsast að Framsóknarflokkurinn sé tilbúinn til að ana út á foraðið með Sjálfstæðisflokknum í þágu torkennilegra hagsmuna, þvert á fyrri orð um að verja núverandi starfsstjórn framyfir kosningar?
Að flokkarnir sem eiga allra mestu sökina á hruninu fallist í faðma á ný, taki völdin og taki upp á ný gamalkunn vinnubrögð við helmingaskiptin? Ráðstafa bönkum og embættum, svo dæmi séu tekin?
Púkinn í mér vonar að þeir leggi í þessa hallarbyltingu. Engillinn í mér tuðar eitthvað um að það væri ekki þjóðinni fyrir bestu.
Ekki rætt um Seðlabanka | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Fjölmiðlar, Spaugilegt, Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
Skil þig Friðrik! Sýni Framsókn nú sína gömlu takta (núverandi Reykjavíkurtakta!)- tapar hún a m k öllu því fylgi sem fékk í skoðanakönnunum út á "nýja andlitið"! En það er dýr skemmtun - meðan enn logar í rústunum.
Hlédís, 24.2.2009 kl. 12:11
Einhvernveginn finnst mér að enginn ráðamanna fjórflokkanna sjái í raun og veru ástæðu til breytinga.
Í orði eru þeir að gefa í skyn að þeir sjái nauðsyn á að breyta núverandi skipulagi en það mun helst eiga við einhverja aðra en þá. Gömlu flokkarnir ætla sér að halda í stólana sína og ráða því sjálfir hverjir eiga möguleika á að komast að til setu á alþingi. Allar breytingar í aðra átt eru ekki upp á borðinu eins og umræðan um stjórnlagaþing sýnir og munu ekki verða fyrr en hinn almenni flokksmaður gerir uppreisn og kemur eindregnum skilaboðum til sinna forystumanna um að nú sé komið nóg.
Burt með smákóngana og bitlingapólitíkina, fáum loks alvörustjórnmál og alvöru stjórnmálamenn inn á þing. Þá fyrst er von um að það skapist sátt í þessu þjóðfélagi og hægt verði að fara út í raunhæfar aðgerðir í átt til uppbyggingar.
Hjalti Tómasson, 24.2.2009 kl. 12:32
Ég held að blaðamaðurinn hafi tekið sér skálaleyfi. Mér segir svo hugur að hvorki Simmi og því síður Jón Magg séu svo skammsýnir. að reyna að mynda slíka stjórn enda gætu þeir þá átt von á Herði Torfa með búsáhöldin. Simmi er ekki kominn á þing og getur vart beðið eftir að fá umboð frá kjósendum.
Sigurður Þórðarson, 24.2.2009 kl. 14:11
Þú ert að tala um það sem ekki má gerast, hvorki fyrir kosningar né eftir kosningar, að flokkarnir sem stýrðu þjóðinni í áttina að strandstað í tólf ára slímsetu spillingarstjórnar komist aftur að völdum, annar hvor eða báðir.
Staðan er 14:2 og það verður að skipta mönnum útaf og fá aðra inn á næstu fjögur árin. Ég er ekki vinstri maður og ekki hægri maður, en ef þetta þýðir vinstri stjórn í fjögur ár, verður svo að vera.
Það er hart að standa í því að skrifa blaðagreinar eins og í Moggann í gær þar sem ég er að reyna að berjast fyrir frelsi og lýðræði við flokkinn sem ætti að vera fylgjandi frelsi og lýðræði í verki.
Síðan yrði það nú hlálegt ef Jón Magnússon bjargaði Sjálfstæðisflokknum, en það gæti ég trúað að sé draumur hans eftir að hann hrökklaðist úr þeim flokki á sínum tíma.
Það var engin smáræðis vandlæting sem samþingmenn Kristins H. Gunnarssonar í Frjálslynda flokknum sýndu þegar sleggjan vildi ekki samþykkja vantrauststillögu á Geir H. Haarde.
Ómar Ragnarsson, 24.2.2009 kl. 14:15
Ja, Siggi, skáldaleyfi hjá blaðamönnum þykir ekki fínt leyfi. En kannski.
Tek heilshugar undir með þér Ómar.
Friðrik Þór Guðmundsson, 24.2.2009 kl. 14:53
Þegar þessir helmingaskiptaflokkar eiga í hlut, er ekkert heilagt og þá er öllum, ég meina öllum brögðum beytt. Við sem ekki viljum þessa flokka aftur að stjórnborðinu, verðum að leggjast vel á árarnar og stand þétt hvert við annars bak.
Ómar
Ég veit að þú hefur miklar hugsjónir og háleit markmið með Íslandshreyfinga og fyrir það virði ég þig heils hugar.
Ég óttast að framboð, eins og Íslandsheyfingin, Borgarhreyfingin og Frjálslyndi flokkurinn, komi til með að draga úr því fylgi sem Samfylking og Vinstri grænir fengju annars og verði þar með vatn á millu þessara tveggja flokka, sérstaklega Sjálfstæðisflokksins.
Það gæti svo aftur aukið líkur á að helmingaflokkarnir næðu völdum eftir kosningar, sem er skelfilegt. Ég veit að þetta er svokölluð "gömul klisja" en því miður getur verið eitthvað til í henni sem getur valdið ógurlegum skaða fyrir Ísland.
Félagar í Íslandshreyfingunni gætu barist fyrir málefnum sem flokkurinn stendur fyrir, innan núverandi stjórnarflokka. Umhverfismál eru sífellt að fá aukið vægi, sem betur fer.
Hólmfríður Bjarnadóttir, 24.2.2009 kl. 20:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.