12.1.2009 | 14:31
Össur segir fjölmiðlum fyrir verkum
Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra hefur nú skammað fjölmiðla fyrir að flytja ekki jákvæðar fréttir úr ranni ráðuneytis síns. Fjölmiðlar eru samkvæmt honum sekir um að hafa ekki áhuga á því sem hann er að sýsla með sprotafyrirtæki og almennt að vilja ekki greina frá nokkru sem jákvætt er í kjölfar bankahrunsins.
Aðalatriðið hjá Össuri er að fjölmiðlar hafa auðsýnt lítinn áhuga á plönum sem hann kynnti fyrir helgina; frumherjastyrkjum "til að aðstoða unga frumkvöðla með brilljant hugmyndir". Ég held að Össuri sé hollt að hafa það ríkulega í huga að enn eru þetta bara plön. Þetta er ekki komið til framkvæmda. Enn er þetta bara loftbóla og þjóðin fer varlega í kringum loftbólur núorðið. Þetta er vissulega fín hugmynd og athyglisvert að til séu fjármunir til að setja í þetta, á sama tíma og sjúklingum er vísað á dyr og/eða þeir rukkaðir um stórfé. En Össur; ég er viss um að áhugi fjölmiðla stóraukist þegar styrkveitingar þessar eru almennilega komnar á koppinn og "brilliant hugmyndirnar" að verða eða orðnar að veruleika. Eins og þú segir sjálfur: Fjölmiðlar eiga að ... "draga upp raunsanna mynd af veruleikanum í kringum okkur". Stefnumörkun ráðherra um að ætla að veita styrki á í dag nokkurn veginn skilið eindálk og sirka níundu síðu - og auglýsingu frá ráðuneytinu skammt frá.
Ég held að Össur hljóti að skilja það, sem fyrrum blaðamaður og ritstjóri, að fjölmiðlar, rétt eins og almenningur, eru ekki gjarnir á að láta plata sig öllu meir með froðusnakki. Ég er viss um að frumherjaplön Össurar eru meira en froðusnakk, er viss um að hann meinar fullt með þessu og ætlar sér góða hluti. Við skulum öll fylgjast með þessum styrkjum og skoða umsóknirnar og brilliant hugmyndirnar. Þegar það er komið á blað, og öðrum sýnilegt en bara ráðherra, má fyrir alvöru fara að tala um jákvæðar fréttir.
Fjölmiðlar, eins og almenningur, er þessa dagana ekki mikið gefnir fyrir að taka orðum og gjörðum ráðherra fyrirfram sem snilld. Það er rétt hjá Össuri að tilhneigingin er fremur að horfa á dökku hliðarnar þegar stjórnvöld eru annars vegar. Hvers vegna ætli það sé?
Össur: Eftirtektarverð hjarðhegðun fjölmiðla | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Fjölmiðlar, Sjónvarp, Viðskipti og fjármál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.