4.1.2009 | 14:03
Hvað má ekki segja okkur?
Mér til mikillar furðu virðist vera umtalsverð hætta á því að frestur til málshöfðunar líði án þess að ríkisstjórnin fyrir hönd þjóðarinnar höfði mál gegn Bretlandi fyrir að setja á okkur hryðjuverkalögin. Í aldeilis ógnvekjandi frétt Sjónvarpsins í gær kom fram að maðurinn sem á að vera að skoða málið fyrir okkar hönd, Páll Þórhallsson, sé búinn að vera í fríi í útlöndum í hálfan mánuð. Fréttamaðurinn náði eitthvað í skottið á honum og fékk upp úr honum að hann treysti sér ekki til að svara til um hvenær frestur til málshöfðunar renni út - hann sé ekki nógu vel að sér um það.
Ég hafði áður lesið eða heyrt að þessi frestur væri að renna út núna 7. janúar. Ég vona að Kristín Sigurðardóttir fréttakona Sjónvarpsins fylgi þessu fast eftir og að aðrar fréttastofur taki málið upp. Fram hefur komið að það séu "meiri líkur en minni" á því að Kaupþing höfði mál, en það er ekki nóg. Ég vil að mál verði einnig höfðað fyrir OKKAR hönd, þjóðarinnar. Ekki bara vegna peninganna (en auðvitað viljum við lágmarka tjón þjóðarinnar) heldur líka vegna þjóðarstoltsins.
Hins vegar hefur komið fram það álit Geirs Haarde forsætisráðherra að til greina komi að sleppa málshöfðun en semja þess í stað um betri lánskjör vegna lántökunnar upp í Icesave. Það finnst mér óviðunandi hugsanaháttur. Ég sætti mig ekki við þetta og trúi því ekki að þjóðin geri það. Hygg raunar að ef ekki verði farið í mál við Breta verði það eins og olía á eldinn þann sem brennur hérlendis.
Allt er þetta dularfullt og styrkir mig í þeirri trú að sitthvað búi undir sem okkur er ekki sagt frá. Það er eitthvað verulega svart þarna að baki sem illa þolir dagsljós. Á yfirborðinu eigum við að vera með gjörunnið mál gegn Bretlandi, en undir yfirborðinu leynist líklega eitthvað ullabjakk sem kannski gerir málið tapað. Við fáum ekki að vita af því.
Stefán Jón Hafstein var að reyna að velta þessu öllu upp í stórfróðlegri grein í Fréttablaðinu 27. desember síðastliðnum. Þar fjallaði hann um "Stóra planið", þar sem við ætluðum að "borga ekki" erlendar skuldir óreiðumanna, en vorum þvinguð til þess, með hryðjuverkalögunum og þrýstingi annarra "vinaþjóða". Hér er bútur úr greininni:
"Í gegnum skín plottið: Við borgum ekki. En það gat hann ekki sagt með þeim orðum - ekki eftir að snjallræðið klikkaði. Og aðrir ráðamenn geta ekki viðurkennt að hafa unnið samkvæmt því. En þannig hlýtur það að hafa verið. Má-kannski-segja-að-eftir-á-að-hyggja-hefðum-við-ef-till-vill-átt-að-vera-betur-vakandi" er virkilega slæm afsökun. En hún er sú eina sem eftir stendur því miklu verra er að viðurkenna tilvist Stóra plansins sem brást og leiddi þjóðina í ánauð. Það gengur einfaldlega ekki upp að fólk með tiltölulega heila hugsun, eins og stjórn Seðlabankans, í ríkisstjórn, eftirlitsstofnunum, í bönkunum og 63 Alþingismenn hafi ekki lagt upp neina aðgerðaáætlun. Það væri svo óendanlegt ábyrgðarleysi hjá svo mörgum, svo lengi, að brýtur gegn allri skynsemi. Þegar áramótaannálar fjölmiðlanna verða kynntir sjáum við að allt þetta ár glumdu viðvörunarbjöllur samfellt og blikkljós hringsnérust. Einhvers staðar, einhvern tíman var ákveðið að nota Dario Fo leiðina. Hver? Hvers vegna? Að hvers ráðum?
Hér þarf að halda til haga smávægilegri frétt á vísi.is, sem birtist fljótlega eftir að neyðarlögin voru sett. Jón Þór Sturluson aðstoðarmaður viðskiptaráðherra lýsti því að ráðuneytið hefði verið vel undirbúið og drög að neyðarlögunum legið fyrir í sumar". Þetta vakti af einhverjum ástæðum ekki mikla athygli. Það sannar þá tilgátu mína að þá þegar hafi Dario Fo leiðin verið hönnuð. Þetta styður frásögn Davíðs sem snemma árs hélt ásamt sínum mönnum til London og var svo brugðið við lýsingu Breta á íslensku bönkunum að þeir kölluðu ráðamenn saman við heimkomu og lásu yfir þeim skýrslu sína. Nánar tiltekið forystumönnum stjórnarflokkanna, ýmsum ráðherrum og embættismönnum"."
Eitthvað það hefur verið að gerast með bankastarfsemi "okkar" sem þolir ekki dagsljósið og við fáum ekki að vita um, en gerir málshöfðun gegn Bretum líkast til að engu. Ég vil fá að vita hvað þetta er. Ef ekki stendur til að höfða þetta mál þá vil ég vita ástæðurnar og frábið mér hálf-sannleik og lygi.
Getur verið að reiði almennings yfir því að höfða ekki málið sé skárri en væntanleg reiði almennings yfir því sem gerðist en okkur er ekki sagt frá?
Icesave-lánakjörin enn óljós | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkur: Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
Góð samantekt hjá þér. Við verðum að fá á hreint hvað það er sem ekki má segja okkur, enda eigum við skattgreiðendur eftir að borga þetta allt (og líklega börnin okkar líka)
palli litli (IP-tala skráð) 4.1.2009 kl. 14:17
Sammála þessu.
Fréttir sem við fáum af þessu risastóra máli sem varðar framtíð almennings á Íslandi eru nánast engar og þær sem birtast eru svo þvældar að það er ekki nokkur leið að skilja hvert menn eru að stefna og virðast þær vera skrifaðar til að slá ryki í augu almennings og þreyta okkur á málinu.
Hvað er verið að fela????
Og afhverju lagði Íslenska ríkið tugi miljarða í peningamarkaðssjóði bankanna eftir fall þeirra? er það eðlilegt að skattpeningar okkar séu notaðir til að hreinsa upp skít drullusokkanna? Hver bar ábyrgðina þar? SKATTGREIÐENDUR KANNSKI???
Þetta er sjúklegt ástand sem við búum við.
Er þetta það sem við viljum og eigum skilið?
Brynjar (IP-tala skráð) 4.1.2009 kl. 14:34
Samkvæmt Atla Gíslasyni þá gáfum við frá okkur málshöfðunarrétt í þessum samningum. Hann hefur heimildir fyrir því.
Staðan er því sú að Kaupþing (gamla) getur kært en ekki ríkið.
sandkassi (IP-tala skráð) 4.1.2009 kl. 14:53
Það er alveg pottþétt að þarna er eitthvað sem má ekki líta dagsins ljós. Darling Bretanna hefur engar áhyggjur af lögsókn Íslendinga, alls engar. Það að maðurinn sem á að vera að athuga þetta fyrir þjóðina sé bara í fríi í útlöndum segir sína sögu. Það verður engin málsókn.
Blönk (IP-tala skráð) 4.1.2009 kl. 14:53
Gunnar; ég fæ ekki skilið að búið sé að falla frá málshöfðunarréttinum, miðað við neðangreinda frétt frá 30. desember. hvar og hvenær sagði Atli eitthvað í þessa veruna?
"Vísir, 30. des. 2008 12:12
Geir útilokar ekki að falla frá málssókn á hendur Bretum
Forsætisráðherra útilokar ekki að íslensk stjórnvöld falli frá málsókn á hendur Bretum til að tryggja betri lánskjör vegna Icesave málsins. Hann segist þó ekki vilja blanda þessum málum saman.
Bretar og Hollendingar hafa boðist til lána Íslendingum rúmlega 600 milljarða króna til að greiða Icesave innistæðueigendum.
Lánskjör liggja ekki fyrir en hlé var gert á viðræðum milli annars vegar íslenskra og hins vegar breskra og hollenskra stjórnvalda fyrr í þessum mánuði. Ætlunin er að viðræður hefjist að nýju eftir tvær til þrjár vikur.
Geir H. Haarde, forsætisráðherra, segir að viðræður gangi vel en að enn eigi menn eftir að koma sér saman um heildarpakkann, það er að segja lánaskilmálana.
Samkvæmt breska dagblaðinu Financial Times er talið líklegt að Íslendingar falli frá málsókn á hendur Bretum vegna beitingu hryðjuverkalaga - gegn því að Bretar samþykki að beita ekki refsivöxtum á lán sitt til Íslendinga.
Eftir ríkisstjórnarfund í morgun vildi Geir ekki tjá sig um hvort fótur væri fyrir þessu og sagðist hann ekki vilja blanda þessum málum saman, að þessu sinni".Friðrik Þór Guðmundsson, 4.1.2009 kl. 14:58
Fín samantekt félagi. Maður kemst einna næst sannleikanum hér á blogginu. Hugleiðingar nokkurra bloggara liggja oft æði nálægt hinum raunverulega sannleik þó hann aldrei hafi verið staðfestur af ráðamönnum.
Annars bara gleðilegt ár til þín og þinna.
Guðni
Dunni, 4.1.2009 kl. 15:05
Getið þið ímyndað ykkur ástandið sem gæti skapast á alþjóðavettvangi ef við ynnum málið fyrir breskum dómstól? Hvað myndi til dæmis gerast í amerísku hagkerfi ef Bretar færu í mál út af Lehman Bros.? Þeir áttu góðar summur þar inni trúi ég.
Nei, ég á eki von á að okkur verði „leyft“ af þeim „stóru“ að fara í mál. Það skal eiga eftir að koma í ljós að við höfum verið „svínbeygð“ og þegar ég tala um svín á ég ekki við Bónus.
Þorsteinn Úlfar Björnsson (IP-tala skráð) 4.1.2009 kl. 15:27
já þetta var á Útvarpi Sögu í þætti sem ég heyrði endurfluttann á Aðfangadag, viðtali við Arnþrúði Karlsdóttur.
sandkassi (IP-tala skráð) 4.1.2009 kl. 16:28
nánar tiltekið í viðtali Arnþrúðar við Atla Gíslason.
sandkassi (IP-tala skráð) 4.1.2009 kl. 16:29
Þorsteinn Úlfar; Settu Kanar hryðjuverkalög á Breta vegna Lehman? Ég er að tala um skaðann af því að slík lög voru sett á okkur, bæði peningalegan og "andlegan" skaða þjóðarsálarinnar og orðstír út á við. Ég er út af fyrir sig ekki að hafna því að Ísland hafi átt að borga eitthvað vegna Icesave, eða í samræmi við alþjóðalög og -skuldbindingar þar að lútandi, að frádregnum stórum hluta vegna neyðarréttar í ljósi gjaldþrotaígildis þjóðarinnar. Ég aðskil þessi mál, en nettó-útkoman gæti verið 0 krónur!
Gunnar; ég er búinn að senda Atla erindi.
Friðrik Þór Guðmundsson, 4.1.2009 kl. 18:20
Hver sagði :"allt upp á borðið" var það ekki Þorgerður Katrín ?
Átti það kannski ekki að gilda um Icesave-gjörninginn ?
Ég ásamt fleirum hafna því taka ábyrgð á Icesave fyrr en búið er að frysta eigur Bjöggana !!! þær eru víst nokkrar ennþá.
ag (IP-tala skráð) 4.1.2009 kl. 18:40
gott mál.
sandkassi (IP-tala skráð) 4.1.2009 kl. 19:00
Þetta sýnir að stjórnvöld sofa á verðinu, hvort sem það er vísvitandi eða hreinlega af vankunnáttu. Að minnsta kosti klárlega merki um vanhæfni.
Sigurbjörg, 4.1.2009 kl. 19:46
Atli Gíslason:
Hvorki að alþjóðalögum né íslenskum lögum bar okkur skylda til að ábyrgjast nauðungarsamningana um Icesave, sbr. einnig (meðfylgjandi) skoðanir Bjargar Thorarensen, lagaprófessors. Til þess myndu vorum við þvinguð með hótunum um að við fengjum ekki fyrirgreiðslu frá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum, Evrópska efnahagssvæðið yrði sett í uppnám gegn okkur og loks að Bretar myndu beita neitunarvaldi gegn umsókn Íslands um ESB aðild. Fyrir mér eru þetta svik ríkisstjórnarinnar gegn íslensku þjóðinni. Afleiðingarnar hafa þegar séð dagsins ljós með stórfelldum niðurskurði í fjárlögum fyrir árið 2009 til félagsmála, heilbrigðismála, menntamála o.s.frv. Á þessu ári munum við greiða 87 milljarða vegna þessara svika og næstu 10 til 15 árin allt að 25% af tekjum ríkisins til að greiða fyrir glæpastarfsemi "óreiðumannanna". Um nánari skýringar vísa ég til viðtalsins við Arnþrúði sem ég vonast til að geta sent þér í vikunni. Með bestu kveðju, Atli Gíslason.
Friðrik Þór Guðmundsson, 4.1.2009 kl. 20:03
Gott að fá þetta frá Atla. Ég vil ekki virka of paranoijaður en þetta er allt farið að virka eins og Evrópusambandið standi á bak við hvernig við vorum svínbeygð til að taka við Icesavebikarnum og núna hugsanlega að gefa frá okkur möguleikanum á lögsókn. Kannski langsótt en er verið að neyða okkur í Evrópusambandið án samningsstöðu?
Ævar Rafn Kjartansson, 4.1.2009 kl. 20:10
sammála, þetta er eitthvað gruggugt!!
viddi, 4.1.2009 kl. 20:19
yes
sandkassi (IP-tala skráð) 4.1.2009 kl. 20:30
Ég held að það sé ekki verið að neyða okkur í ESB án samningsstöðu, þó getur það vel verið. Hins vegar hefur mig grunað í allt haust að lánið frá AGS, Bretum og Hollendingum hafi verið háð því að stjórnvöld myndu ekki höfða þetta mál. Paranoja, svartsýni, mér er nokk sama hvað fólk kallar það, en ég spyr bendir e-ð til e-s annars en að með lánunum frá Bretum, Hollendingum og AGS sé ákvæði um að stjórnvöld höfði ekki þetta mál. Stjórnvöld hafa a.m.k. ekki einu sinni viljað leyfa þingmönnum að sjá þá samningana!!! Það eru tveir dagar til stefnu og þá verður að nota til að þvinga stjórnvöld til að höfða þetta mál. Það var athygisvert að í fréttum Útvarspins var ekki minnst einu orði á þetta mál og ekki sagt frá blaðamannafundi Indefence-hópsins. Sjónvarpið sagði frá fundinum en talaði ekki við neinn og útskýrði ekki málið. Undarlega lítil áhersla á þetta gríðarlega mikilvæga mál. Samskipti Guðna og Halldórs fengu þrefalt lengri tíma í fréttatíma Sjónvarpsins.
Helga (IP-tala skráð) 4.1.2009 kl. 21:21
Voru sett lög á okkur? þjóðina? ríkið? Bretar áttu lög sem sett höfðu verið til að koma í veg fyrir fjármögnun hriðjuverkastarfsemi, þeir gripu til þessara laga gegn BÖNKUM vegna þess að þau höfðu tafarlausa virkni við stöðvun fjármagnsflutninga og frystu eignir. Ekki er álitamál að annar þessara banka bar ábyrgð á icesave.
Hinn?? Á ríkissjóður að leggja í mikinn kostnað fyrir þann banka í málaferlum sem alveg eins (líklega?) geta tapast?
Hver segir að ekki sé fótur fyrir þeim sögum að miklir fjármagnsflutningar hafi átt sér stað? Hvert var verið að flytja fé? (Tortolla, Ceyman?) Hafi þessir fjármunir verið eign þjóðarinnar (sem ég tel rétt að álykta) er þá ekki fagnaðarefni að þeir skidu frystir? Frystir er ekki sama og stolnir.
Íslensk stjórnvöld ráða ekki hvað kemur uppá yfirborðið í málaferlum erlendis þó svo þeir búi við þær aðstæður á Íslandi. Þess vegna verða málaferli að teljast ólíkleg.
sigurvin (IP-tala skráð) 4.1.2009 kl. 22:14
Sigurvin; Kaupþing fer væntanlega í mál vegna síns skaða og ég er ekki að tala um það. Aðgerðir Breta hafa skaðað okkur sem þjóð til hliðar við skaða bankanna. Hefur þú ekki fylgst með? Efast þú um þann skaða og miska sem Ísland hefur mátt þola vegna lagasetningar Breta? Vissir þú ekki að Ísland sem slíkt var sett á hryðjuverkalista með Al Kaida? Telur þú ekki að núverandi og komandi kynslóðir á Íslandi séu að taka á sig umframbyrðar vegna þessarar lagasetningar?
Ég er ekki í vafa. Nema bara að það kunna að leynast einhvers staðar vondar upplýsingar sem gera okkur ókleift að höfða málið og þá einhverjar slíkar upplýsingar sem skilgreindar eru sem of viðkvæmar fyrir okkur þau sem ekki sitjum við kjötkatlana.
Annars skora ég að ag, Helgu og Sigurvin að skrifa hér og almennt undir nafni.
Friðrik Þór Guðmundsson, 4.1.2009 kl. 22:35
Ég hef alltaf verið á þeirri skoðun að eðlilegast sé að fá úr þessu skorið fyrir dómstólum. Það er einfaldlega venjan í álitamálum sem þessum.
Það að ekki skuli hafa verið farin sú leið í stað samninga er óeðlilegt og bendir til þess að annarleg sjónarmið hafi ráðið ferðinni.
Eins hefur komið fram að EES samningurinn var settur að veði af samninganefndinni sem fór gegn Íslendingum í þessu máli. Okkur var sem sagt hótað að okkur yrði hent út úr Evrópska Efnahagssvæðinu ef við gengjum ekki að samningunum.
Samkvæmt skýrslu Seðlabanka Frakklands frá árinu 2000 sem kveður á um innistæðutryggingar þá er það mjög skýrt að ríkisábyrgð kemur ekki til í þeim tilfellum þar sem um er að ræða kerfislægt bankahrun eða hrun alls bankakerfisins eins og gerðist hér.
Þetta þíðir að samningurinn við Breta og Hollendinga er í andstöðu við lög Evrópusambandsins. Engu að síður er okkur hótað af samninganefndinni (sem frakkar fóru fyrir) að við verðum sett út úr EES.
Eins og ráðamenn hafa viðurkennt þá var samningurinn pólitískur en ekki lagalegur. Þetta þíðir að við ætlum að borga þetta í skiptum fyrir það að eiga möguleika á inngöngu í Evrópusambandið.
sandkassi (IP-tala skráð) 4.1.2009 kl. 23:06
Einmitt vegna þess að ég fylgist ágætlega með, þá "efast ég um þann skaða og miska sem Ísland hefur mátt þola vegna lagasetningar Breta" og ég tel einnig að "komandi kynslóðir taki á sig umframbyrðar" af allt öðrum ástæðum en þesarar lagasetningar. Ég hef ágætis sambönd í Bretlandi, dvaldi þar fyrir stuttu. Þeir sem hafa orðið fyrir skaða á orðspori sínu eru gráðugir íslenskir bankamenn og eigendur, ekki íslenska þjóðin.
Varðandi fjárhagslegt tjón þá hef ég hvergi séð að öll kurl séu komin til grafar hvað það varðar, eins og ég bendi á í fyrri færslunni.
Fréttin sem þú vísar í er í meginatriðum um huganlega málshöfðun gamla Kaupþings, með fjárstuðningi ríkisins og því getur varla talist óeðlilegt að ég minnist á það.
"Vissir þú ekki að Ísland sem slíkt var sett á hryðjuverkalista með Al Kaida?" Nei það vissi ég ekki. Hér er listinn. Eins og þú sérð er það Landsbankinn sem er á listanum, undir: Asset freezing measures not related to terrorist or country based financial sanctions.
sigurvin (IP-tala skráð) 4.1.2009 kl. 23:34
Það er viðurkennt meðal Breta að Gordon Brown notaði þetta útspil ma til að afla sér meiri stuðnings og eins til að láta minna bera á vandamálum Breta sem eru all mikil. En þær aðgerðir ullu okkur tjóni sem á eftir að vara ansi lengi. Ekki bara bönkunum heldur okkur almenningi. Hryðjuverkaþjóð. Þessi nafngift á eftir að loða við okkur ansi lengi ef ekkert verður gert. Því þarf ríkisstjórning að bregðast við!
Þessi ríkisstjórn tekur ekki á málum eins og þarf að gera. Ef þeir rifta ekki samningum og höfða mál verður þeirra minnst í sögunni sem lítilmenna. Kanski er eini möguleikinn að höfða til með því. Hver vill láta minnast sín í sögunni sem dusilmenni?
Sigurbjörg, 4.1.2009 kl. 23:40
"Einmitt vegna þess að ég fylgist ágætlega með, þá "efast ég um þann skaða og miska sem Ísland hefur mátt þola vegna lagasetningar Breta" "
Sigurvin, það eru ástæður fyrir því að mál sem þessi eru lögð fyrir dómstóla. Með fullri virðingu fyrir efasemdum Palla og Gunnu þá væri málsmeðferð dómstóla mjög eðlileg aðferð til þess að fá rétta niðustöðu í málið.
Við fylgjumst ágætlega með öllsömul og höfum haft lítið annað til að fylgjast með undanfarna 3 mánuði.
sandkassi (IP-tala skráð) 4.1.2009 kl. 23:47
Sigurvin (eða hvað þú nú heitir): Hefur þú lesið "Freezing order" með skjóli í hryðjuverkalögunum? Lestu þetta og segðu mér hvort þarna sé aðgerðunum bara beint að gráðugum bönkum og bankamönnum:
"Specified persons
3.—(1) The following are specified persons for the purposes of this Order—
(a) Landsbanki;
(b) the Authorities; and
(c) the Government of Iceland.
(2) If a specified person makes a written request, the Treasury must give it written reasons why it has been specified.
“frozen funds” has the meaning given in article 4(1);
“funds” means financial assets and economic benefits of any kind,
including (but not limited to)—
(a) gold, cash, cheques, claims on money, drafts, money orders and other
payment
instruments;
(b) deposits with relevant institutions or other persons, balances on
accounts, debts and debt obligations;
(c) publicly and privately traded securities and debt instruments,
including stocks and shares, certificates representing securities, bonds, notes, warrants, debentures and derivative products;
(d) interest, dividends or other income on or value accruing from or
generated by assets;
(e) credit, rights of set-off, guarantees, performance bonds or other
financial commitments;
(f) letters of credit, bills of lading, bills of sale; and
(g) documents providing evidence of an interest in funds or financial
resources;
Freezing prohibitions
4.—(1) The provisions of this article apply in relation to the following
funds (“frozen funds”)—
(a) funds owned, held or controlled by Landsbanki; and
(b) funds relating to Landsbanki and owned, held or controlled by—
(i) any of the Authorities; or
(ii) the Government of Iceland".
Friðrik Þór Guðmundsson, 5.1.2009 kl. 00:06
Frábært hjá þér Friðrik Þór! Ég er sem markaðsmaður mjög ósáttur við að
við förum ekki í mál við Breta. Tjónið sem terroristanafnbótin hefur valdið
okkur og mun valda okkur skiptir örugglega skrilljónum. Þið afsakið en það
er búið að skemmuleggja alla þá litlu tilfinningu sem maður hafði fyrir upphæðum
hér fyrir kreppuna. Manni fannst Kárahnjúkavirkjun dýr. En hún er bara smá klink
miðað við það sem við þurfum að borga á næstu árum í skaðabætur fyrir sukkið.
Eitt enn. Það er með ólíkindum að DO skuli komast upp með að segjast
vita hvað olli því að lögunum væri beitt… en vildi ekki segja okkur… bankaleynd!
Hvað er eiginlega í gangi á þessu landi? Er Seðlabankinn verndaður vinnustaður?
Birgir Þorsteinn Jóakimsson, 5.1.2009 kl. 00:15
Sæll, Friðrik Þór og þökk fyrir góða samantekt og rökvísi.
Er einhver tilgáta um hvað það sé sem menn vilja hylja?
LÁ
LYDUR ARNASON (IP-tala skráð) 5.1.2009 kl. 08:13
Já hún er mikil drullan í þessari ríkisstjórnarrotþró. Og svo eru menn hissa á að mótmælendur skuli vera aggressivir. Það verður ekkert gefið eftir í aðgerðum gegn ríkisstjórn, bönkum, embættismönnum og öðru glæpahyski sem eiga sök á kollsteypunni!
corvus corax, 5.1.2009 kl. 12:12
Lýður; ég vil síður vera með tilgátu um hvaða vondu upplýsingar það eru sem við megum ekki vita um. Kannski er um hreinan aulaskap stjórnvalda að ræða. Kannski stöndum við einfaldlega illa af því að "Stóra Planið" um að borga ekki "erlendar skuldir óreiðumanna" flokkast sem ólöglegt og siðlaust. Kannski telja einhverjir að málflutningur leiði óhjákvæmilega í ljós slíka yfirgengilega fjármagnsflutninga elítunnar að til uppreisnar kæmi á Íslandi. Ég veit ekki betur en aðrir því upplýsingar fást ekki...
Friðrik Þór Guðmundsson, 5.1.2009 kl. 13:53
þeir ætla ekki að kæra, einungis eigendur gamla Kaupþings ætla að kæra.
sandkassi (IP-tala skráð) 5.1.2009 kl. 21:56
Já, Gunnar, ég náð þessum hörmulega boðskap Geirs. Þetta er einfaldlega hneyksli. Og aumlegt að skýla sér á bak við að einhver óvissa sé með niðurstöðu slíkrar málshöfðunar og kostnað. Í mínum augum er um prinsippmál að ræða, sem við myndum vinna, jafnvel þótt málið tapaðist á endanum hvað peninga varðar! Að öllum líkindum værum við samt búin að lagfæra laskaðan orðstír.
Það vill svo til að einstaklingar geta höfðað málið og ætti hópur einstaklinga að sameinast um málshöfðun. Þyrfti ekki nema 5 til 10 sæmilega stæða einstaklinga til að greiða Enskri lögfræðistofu tryggingagjald og málið væri rúllað af stað. Dollaragengið þitt og Indefence hópurinn ættuð saman að skella ykkur á þetta.
Friðrik Þór Guðmundsson, 5.1.2009 kl. 22:59
já þessi hugmynd var að koma upp á síðunni minni, mér finnst þetta athugandi.
Mér þykja þetta afskaplega dapurleg tíðindi.
sandkassi (IP-tala skráð) 6.1.2009 kl. 00:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.