Þingmenn um fjölmiðla - fjölmiðlar um þingmenn

Nú auglýsir Skjár Einn að framundan sé þátturinn Málefnið. Í Málefninu á að fjalla um "framtíð Íslenskra fjölmiðla". Umsjónarmenn þessa dagskrárgerðar í fjölmiðlinum Skjá Einum um fjölmiðla eru tveir kjörnir þingmenn þjóðarinnar, sem þiggja laun fyrir löggjafarstörf, Illugi Gunnarsson, kjörinn þingmaður af lista Sjálfstæðisflokksins og Katrín Jakobsdóttir, kjörinn þingmaður af lista Vinstri grænna.

Það veitir ekki af umfjöllun um framtíð íslenskra fjölmiðla. Sjálfsagt eru þau ekki verst til þess fallin, lögfræðingurinn og þingmaðurinn Illugi og bókmenntafræðingurinn og þingmaðurinn Katrín. Og sjálfsagt má finna að því að hefðbundnir fjölmiðlamenn annist dagskrárgerð um framtíð íslenskra fjölmiðla. Einhvern veginn finnst mér það nú samt eins og þarna eigi blindur að leiða haltan. Hafa þingmenn ekki annars nóg að gera þótt þeir taki ekki dagskrárgerð af fólki sem vantar verkefni? Eru aðstoðarmenn þessara þingmanna kannski að sinna þingstörfunum sjálfum?

Það er gott að það eigi að fjalla um framtíð íslenskra fjölmiðla

Ég legg til að í næsta þætti fjalli tveir fjölmiðlamenn, blaða- og fréttamenn, um framtíð íslenskra stjórnmála. Það er líka ákaflega verðugt verkefni um atvinnugrein og fag sem eru í djúpri kreppu þessi misserin. Annar ofangreindra þingmanna væri kjörinn til að svara krefjandi spurningum um stjórn íslenska ríkisins síðustu tvo áratugina eða svo. Um hrikalega útkomu flokks hans í skoðanakönnunum (sem mætti útleggja sem "stórkostlegt rekstrartap"). Um lexíuna af nýfrjálshyggjunni og einkavinavæðingunni o.s.frv. Og auðvitað um þann skaða sem íslensk stjórnmál hafa orðið fyrir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnar Eiríksson

Sæll,

Það er satt, þetta eru þarflek mál að kryfja og þarf að velta við hverjum steini.     Varðandi þingmennina þá hafa þeir e.t.v. ekki verið svo dýrir að fá - þeir tala mikið og taka ábyggilega vel í að virkja málæðið.

Annað áhugavert efni að mér finnst er dagskrárgerð í útvarpi, sérstaklega á Rás 1 sem mér finnst líka vera í djúpri og sennilega dýpkandi kreppu.    Ekki veit ég hverjir ættu að spyrja en það gætu svosem verið brottviknir dagskrárgerðarmenn RUV.     Þar gæti verið fróðlegt að fá Pál Magnússon til að svara af hverju við þurfum að fá svo mikið að vita um ævi ástir og örlög tónskálda en heyrum sjaldan af öðru merkisfólki.    Þá væri ekki amarlegt að fá að vita af hverju leiknar eru symfóníur eða þess líki samfellt alla nóttina svo ekki er einusinni gert hlé fyrir fréttum og veðurfregnum!

Bara svona hugleiðing!

Ragnar

Ragnar Eiríksson, 3.12.2008 kl. 00:04

2 Smámynd: Kristján Sigurður Kristjánsson

Mig hefur lengi langað að sjá fastan þátt í sjónvarpi, td. á Skjá einum,  þar sem þingmenn hlaupi tveir og tveir í kapp skáhallt yfir Austurstræti frá dyrum Héraðsdóms að dyrum Apóteksins með buxurnar á hælunum, ég er ekki að spauga. Eitt er víst að ekki stæði á þingmönnum að taka þátt og yrði að skipta í þrjátíu riðla. Þegar úrslit væru ljós í þeirri keppni mætti hafa aðra keppni sömu leið. Þá yrðu tveir og tveir þingmenn, annar þingmaðurinn mundi halda í lappirnar á hinum eins og hann væri að aka hjólbörum og æki hinum en í stað hjóla gengi sá þingmaður á höndunum í kappi við annað par. Þetta yrði kallað tvímenningur. Önnur útfærsla af tvímenningi væri sú að einn þingmaður bæri annan á bakinu þessa sömu leið hlaupandi í kappi við aðra tvo. Þetta yrði kallað þingmannareið. Þetta yrði hið vinsælasta sjónvarpsefni og svokölluð lyftistöng fyrir innlenda dagskrárgerð.

Kristján Sigurður Kristjánsson, 3.12.2008 kl. 02:14

3 Smámynd: Dóra

Dóra, 3.12.2008 kl. 08:09

4 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

"Hafa þingmenn ekki annars nóg að gera þótt þeir taki ekki dagskrárgerð af fólki sem vantar verkefni? Eru aðstoðarmenn þessara þingmanna kannski að sinna þingstörfunum sjálfum?"

Friðrik Þór Guðmundsson, 3.12.2008 kl. 12:17

5 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Fróðleiksmoli:

Þann 1. janúar 2007 tók Baldur Guðlaugsson ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu við formennsku í framkvæmdanefnd um einkavæðingu af Jóni Sveinssyni hæstaréttarlögmanni. Þann 1. janúar 2007 október tók Kristinn Hallgrímsson hæstaréttarlögmaður jafnframt sæti Jóns í nefndinni.

Í nefndinni sitja einnig Illugi Gunnarsson hagfræðingur og Sævar Þ. Sigurgeirsson, löggiltur endurskoðandi.

Stefán Jón Friðriksson fjármálaráðuneyti og Þórhallur Vilhjámsson forsætisráðuneyti eru starfsmaður nefndarinnar.

Í Reykjavík, 15. febrúar 2007

Friðrik Þór Guðmundsson, 3.12.2008 kl. 15:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband