10.11.2008 | 12:01
Skömmustulegir fjölmiðlar
Áfram hriktir í stoðum fjölmiðla landsins og nú hefur Viðskiptablaðið (í eigu Bakkavararbræðra/Exista) ákveðið að draga saman seglin og koma út bara einu sinni í viku (eins og áður fyrr) (sjá hér). Það er kannski við hæfi að einmitt viðskiptablöð landsins og -kálfar dragi saman seglin (!?) um leið og blaða- og fréttamenn einmitt þessara tegundar umfjöllunar horfa stíft í eigin barm.
Mér finnst margt benda til þess, að þótt fjölmiðlar landsins séu að reyna að standa sig í umfjöllun um "kreppuna" þá séu þeir enn ansi vanmáttugir. Ég til dæmis skil ekki hvers vegna ekki er betur gengið í tafirnar á afgreiðslu IMF og hvað býr þar að baki. Og Agnes hefur enn ekki farið í saumana á samsæri/samráði alþjóðlegu stofnananna (seðlabankanna) gegn Íslandi. Hún hefur hins vegar dustað rykið af gamalli vitneskju sinni um meint lögbrot Hannesar Smárasonar hjá FL Group. Í því sambandi er afar athyglisvert að stjórnarmenn í FL Group gengu úr stjórn, að því er virðist í mótmælaskyni, vitandi af hegningarlagabrotinu - en gerðu ekkert annað með það. Fóru ekki til löggunnar með vitneskju sína. Meðal þessara stjórnarmanna var eiginkona þáverandi fjármálaráðherra, núverandi forsætisráðherra. Er þetta boðlegt? Þarf ekki að spyrja þessar manneskjur um hvers vegna þær hylmdu yfir lögbrot? Er ekki rétt að fjalla um þetta örlítið, en láta frekar eiga sig að fjalla um sömu eiginkonu og setu eiginkonunnar í einhverju listaapparati?
Eins og margir aðrir í samfélaginu eru fjölmiðlamenn nú heldur skömmustulegir yfir því að hafa sofið á verðinum í aðdraganda hrunsins mikla. Skömmustulegastir af öllum fjölmiðlamönnum hljóta einmitt að vera mennirnir með mestu sérþekkinguna á viðskiptalífinu; blaða- og fréttamenn viðskiptablaðanna og -kálfanna. Allir voru menn meðvirkir með útrásinni, góðærinu; en Þeir mest. Einhverjir þeirra voru beinlínis jákvæðir þátttakendur í veislunni. Einnig hljóta ritstjórar og fréttastjórnar manna mest að vera að stara í eigin barm.
Sjálfur finn ég fyrir skömm, því ég brást líka. Mest allt árið 2007 og hálft árið 2008 reyndi ég (í hálfri rannsóknarstöðu hjá Kastljósi) að fylgjast með viðskiptalífinu og meta og greina ýmsar ábendingar og fullyrðingar sem bárust um t.d. Baug, Straum-Burðarás, FL Group og fleira. hvað rakst á annars vegg, fullyrðingar voru ósamhljóða, staðfestingar fengust ekki, pappírsslóðin var óljós og dulin og staðfestandi gögn almennt af skornum skammti. Samt hefði ég átt að gera betur og breytir litlu þótt um mjög flókin mál sé að ræða og gífurlega ruglingsleg krosseignatengsl. Ætli megi ekki segja að mönnum hafi fallist hendur og kosið að fjalla um auðunnari mál.
Mogginn hefur viðurkennt annmarkana í umfjöllun sinni, en samt bent á ýmis "varnaðarorð" í aðdraganda hrunsins, sem enginn hafi þó hlustað á. Gallinn við þetta sjónarhorn Moggans er að í raun fjallaði Mogginn ekki sjálfstætt um yfirvofandi krísu. Mogginn greindi frá neikvæðum viðhorfum og spám erlendra banka, greiningardeilda og matsfyrirtækja og fjallaði um þetta í viðhorfagreinum (leiðurum, Reykjavíkurbréfum) en gerði enga sjálfstæða úttekt - sendi engar Agnesur í málið. Því nefni ég þetta, að mér virðist sem fjölmiðlar almennt séu enn við þetta sama heygarðshorn - í besta falli.
Og ekki lagast staðan við það að sumir fjölmiðlanna eru að hverfa, aðrir að draga saman seglin og segja fólki upp og kannski besta (dýrasta!) fólkið að fjúka fyrst. Kannski er óttinn við eigendurna og atvinnuöryggið aldrei meiri en nú og ekki er það gott vegarnesti í átak til betri frammistöðu!
Framtíðarsýn í greiðslustöðvun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Fjölmiðlar, Sjónvarp, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 12:04 | Facebook
Athugasemdir
Þess vegna er engin almennileg rannsókn það eru svo margir tengdir þarna inni og vegna þess þurfum við erlenda glæparannsakendur sem eru með fjársvik sem aðalgrein. Kaupr Jón Ásgeir ekki bara blaðið eða fær lepp úr baugsmafíuni til að gera það
Guðrún (IP-tala skráð) 10.11.2008 kl. 12:11
Fjölmiðlar eiga líka sök, ekki spurning. En það hefur hingað til enginn talað um þátt lífeyrissjóðanna, verkalýshreyfingarinnar og samtaka atvinnulífsins. Þetta er allt partur af sama partýpakkanum!
Ævar Rafn Kjartansson, 10.11.2008 kl. 12:20
Leitt að heyra þetta með Viðskiptablaðið. Sjálfur er ég áskrifandi og mun sannarlega sakna blaðsins. Mér fannst á köflum eins og þetta var eina blaðið á Íslandi þar sem stundaður var alvöru "journalismi".
H.T. Bjarnason (IP-tala skráð) 10.11.2008 kl. 14:31
Við erum í sjálfu sér öll meðsek að því leyti að við vorum meðvirk: Kóuðum með góðærinu, útrásinni, kaupmáttaraukningunni o.s.frv. En samt er það allt, allt annað en að hafa valdið hruninu. Það gerðu hvorki fjölmiðlar né almenningur. Það gerði verkalýðshreyfingin ekki. Það gerðu athafnamennirnir og stjórnvöld - og Bretarnir spörkuðu í okkur liggjandi.
Og það er haldið áfram að kúga okkur, sparka í okkur: "Íslendingar hafa formlega sótt um fjárhagslega aðstoð til framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Talsmaður hennar, Johannes Laitenberger, segir að slík aðstoð verði ekki veitt fyrr en Íslendingar og ákveðin ríki ESB komast að samkomulagi um endurgreiðslur til þeirra sem áttu inni á reikningum íslensku bankanna" (mbl).
"Fjármálaráðherrar ESB-ríkjanna reyndu síðastliðinn þriðjudag að þvinga Árna Mathiesen, fjármálaráðherra, til þess að undirrita plagg frá framkvæmdastjórn ESB með gersamlega óaðgengilegum kostum um ábyrgðir og endurgreiðslur vegna skuldbindinga gjaldþrots íslensku bankanna" (DV).
Og fréttir berast af einhverjum (áhættusæknum!) Hollendingum sem ætla að koma til landsins að heimta peningana sína. Hefur enginn sagt þeim að Ísland er í neyð og getur ekki "borgað óreiðuskuldir" útrásarbankanna?
Friðrik Þór Guðmundsson, 10.11.2008 kl. 14:37
Hið hverfandi Viðskiptablað segir:
„Dow Jones fréttaveitan greinir frá því að bresk yfirvöld séu uggandi yfir Icesave reikningunum þar í landi eins og margoft hefur komið fram – og á því strandi aðstoð Evrópusambandsins.
„Framlag Evrópusambandsins yrði þó smávægilegt,“ hefur Dow Jones eftir Johannes Laitenberger, talsmanni framkvæmdastjórnarinnar sem bætir því að aðstoðin yrði í raun „pólitískur greiði.““
Eitt þúsund evrur?
Hvernig skuldum við svo „skuldir“ Björgólfs, Jóns Ásgeirs og kó frá einkabönkum þeirra?
Viðskrifarinn (IP-tala skráð) 10.11.2008 kl. 15:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.