24.9.2008 | 12:23
Falin myndavél, fjölmiðlar og friðhelgin
Þegar metnar eru þær skorður sem friðhelgi einkalífs setur tjáningarfrelsinu skiptir grundvallarmáli hvort hið birta efni, myndir eða texti, geti talist þáttur í almennri þjóðfélagsumræðu og eigi þannig erindi til almennings.Í Bubbamálinu var ekki talið að leynileg myndataka af honum reykjandi í bíl sínum ætti erindi til almennings sem liður í slíkri umræðu. Nú er tekist á um það hvort "Benjamínsmál" Kompáss varði almenning það miklu að tjáningarfrelsið trompi friðhelgina.
Í Kastljósi í gærkvöldi tókust lögmenn Kompáss og Benjamíns þessa, meints handrukkara, á um þessi mörk og verður fróðlegt að fylgjast með umfjöllun dómstóla og niðurstöðunni. Fjölmiðlar um heim allan nota óhefðbundnar aðferðir við upplýsinga- og myndaöflun. Í sinni ýktustu mynd eru "Papparassa" ljósmyndarar á ferð, en þeir eru hvorki gott dæmi né fyrirmynd við mat á gildi óhefðbundinna aðferða, því ég er að tala um upplýsingaöflun um mál sem sannanlega varða almenning miklu (en ekki hvað fyrirfólk og stjörnur eru að gera í einkalífi sínu).
Í þessu máli takast á tjáningarfrelsið og friðhelgi einkalífsins og stóra spurningin er hvort málefnið uppgefna - handrukkarar - sé það brýnt fyrir almenning og umræðuna að upplýsingaöflun með óhefðbundnum hætti sé réttlætanleg og óumflýjanleg.
Nefna má í þessu sambandi mál sem fór fyrir siðanefnd Blaðamannafélags Íslands fyrir nokkrum árum; myndataka og umfjöllun "Ísland í bítið" um erótíska nuddkonu. Hin leynilega myndataka var talin réttlætanleg af siðanefndinni. Hún sagði: "Siðanefnd er sammála lögmanni kærenda um að að öðru jöfnu hefðu hin óhefðbundnu vinnubrögð við efnisöflun hjá kærendum getað falið í sér brot á siðareglum BÍ. Á hinn bóginn ber að líta til þess að um er að ræða starfsemi sem erfitt er að afla upplýsinga um en óhjákvæmilega kallar á umfjöllun fjölmiðla, starfsemi þar sem ólíklegt var að hefðbundin vinnubrögð fréttamanns hefðu skilað fullnægjandi árangri".
Reyndar "brenglaði" Ísland í bítið myndir og hljóð hvað nuddkonuna varðar en Kompás ekki, en grunnur afstöðu siðanefndar lá þó í mikilvægi málefnisins og því að hefðbundnar leiðir til upplýsingaöflunar væru erfiðar ef ekki ómögulegar.
Hugleiða má hvort Kompáss hefði átt að "brengla" myndina af handrukkaranum meinta og þá nefna ekki nafn hans, en ég hygg að vegna aðdraganda málsins og umfjöllunar annarra þá hafði það ekki endilega verið raunhæft eða þjónað tilgangi lengur.
Ég hygg að í grundvallaratriðum hafi Kompáss-aðferðin verið réttlætanleg (að því gefnu að umsjónarmenn voru ekki að leikstýra atburðarásinni). Umræða um ofbeldi og handrukkun er brýn fyrir almenning og hefðbundnar aðferðir ekki auðsóttar.
Starfar ekki lengur hjá World Class | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Fjölmiðlar | Aukaflokkar: Sjónvarp, Stjórnmál og samfélag, Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 12:36 | Facebook
Athugasemdir
Sammála þessu; sé það sannleikanum samkvæmt sem kom fram hjá lögmanni 365 miðla í Kastljósi í gær - að Benjamín hafi haft frumkvæði að því að hann og sá sem hann svo lúskraði á (man ekki hvað hann heitir) hittust og Kompás mætti svo á staðinn og tók upp það sem fram fór - þá er upptaka og birting hennar í lagi að mínu mati þar eð almannahagsmunir liggja við.
Það er samfélaginu í vil að þekkja svona menn í sjón, við hljótum að geta verið sammála um það, og það eru staðlausir stafir hjá lögmanni Benjamíns að Kompás hafi hannað atburðarrásina og búið til fréttina. Benjamín tók þá ákvörðun sjálfur að hefja barsmíðarnar, það getur varla verið Kompás að kenna, hver sem aðdragandinn var?
Jón Agnar Ólason, 24.9.2008 kl. 12:42
Mér þykir alveg réttlætanlegt að viðhafa þessi vinnubrögð í þessu máli. Það mætti samt vinna betur úr þessu máli hjá Kompás og finnst mér að bæði Ragnar og fyrirtækið "World Class" mættu sæta skoðun.
sandkassi (IP-tala skráð) 24.9.2008 kl. 12:57
Benjamín sagði líka, rétt áður en hann réðist á manninn, að honum væri skítsama þó að væri fullt af myndavélum í kring...... Var hann þá ekki að gefa samþykki sitt fyrir myndatökunni?
Húnbogi Valsson (IP-tala skráð) 24.9.2008 kl. 13:28
Það myndi ég halda -:)
sandkassi (IP-tala skráð) 24.9.2008 kl. 13:46
Góð grein. Við verðum nefninlega að passa okkur að villast ekki inn á götur göturéttlætis.
Birgir Hrafn Sigurðsson, 24.9.2008 kl. 14:04
Það er greinilegt að mál þetta vekur afar mikla athygli og umræður, það sýna stórhækkaðar tölur yfir gestafjölda, miðað við það sem gengur og gerist hér hjá mér. Þegar eru komnir minnst þrefalt fleiri gestir en þegar ég skrifaði um Hafskip. Umræða um það stóra "hneykslismál" er enda afar takmörkuð.
Égá von á því að dómstólar komist að þeirri niðurstöðu að aðferðir Kompáss hafi verið réttlætanlegar. En dómstólar eiga það til að koma á óvart!
Friðrik Þór Guðmundsson, 24.9.2008 kl. 15:00
Hann sagði reyndar ekki að honum væri skítsama um myndavélar. Hann sagði eitthvað á þennan veg:
"þú ert svo sniðugur. Hvað veit ég nema þú sért með myndavélar hérna út um allt? Þú ert svoleiðis týpa."
Hins vegar er alveg rétt að tjáningarfrelsið gengur framar friðhelginni í þessu máli þar skiptir miklu máli að þetta gerðist úti á bílastæði á almannafæri þar sem hver sem er getur verið að mynda og Benjamín má gera sér grein fyrir þeim möguleika þegar hann ákveður að berja mann fyrir allra augum.
Jói (IP-tala skráð) 24.9.2008 kl. 17:34
Talaði nokkur um "friðhelgi einkalífsins" þegar Kompás beytti tálbeitum til að ná barnanýðingunum um árið? Held að flestir hafi verið bara nokkið sáttir við þær aðgerðir og nauðsyn þess að koma þessu liði úr umferð og í þessu máli sýnist mér að "almannaheill" vegi einnig þyngra en mannorð og æra handrukkara.
Róbert Björnsson, 24.9.2008 kl. 19:02
Ég velti þessu einmitt fyrir mér Róbert, en ég held að það blasi við að í barnaníðingsupptökunum vildi enginn meintra níðinga láta á friðhelgina reyna. Enginn kærandi því fyrir hendi. Menn voru þar hikstalaust leiddir í gildru, en nokkuð öruggt mál að mikilvægi umfjöllunarinnar fyrir almenning og umræðuna hafi trompað friðhelgina, enda vandséð hvernig hægt er að afla öruggra upplýsinga með hefðbundnum hætti.
Friðrik Þór Guðmundsson, 24.9.2008 kl. 19:07
Friðhelgi einkalífs, friðhelgi heimilis. Friðhelgin í saka- /ofbeldismálum á það til að vera gerandanum hagfelld. Hvað með mann sem lemur maka sinn HEIMA - með poka fullum af appelsínum (svo sjáist ekki að líftóran hafi næstum verið laminn úr honum)
Hef kallað á lögreglu, þar sem verið var að brjóta og bramla allt sem hægt var. Konan hrópandi undan honum og tvö börn hnipruðu sig hvort að öðru í angist. Ég gat ekki látið fjarlægja manninn, en konan gat farið fram á það. Það þorði hún ekki (hann átti eftir að koma heim aftur!) Spurði þá konuna hvort hún ætlaði að bjóða dætrum sínum uppá þetta "heimilislíf". Hún lét þá draga hann út. Ég vildi óska að þetta væri einsdæmi ...
Beturvitringur, 24.9.2008 kl. 20:36
Er ekki eitt grundvallaratriði, sem hér er horft framhjá?
Þarna var ekki um "handrukkun" að ræða heldur maður að "rukka" mann beint. Hvort "skuldin" var "ekta" eða ekki er svo annað mál, en "handrukkun" var þetta ekki.
Fyrir ekki löngu urðu landsmenn vitni að "eggjakastsvinnubrögðum" fyrrum Kompáss-starfsmannsins, Láru Ómarsdóttur, þá fréttamanns á Stöð 2. Má ætla að vinnubrögð þáttarstjórnenda Kompáss séu ámóta - gildir þá og ekki einu hvort einhver "Berjamín" á í hlut eða ekki?
Má berja Steingrím Njálsson?
Þorgeir Þormóðsson (IP-tala skráð) 24.9.2008 kl. 22:11
Má buffa annan mann ef það flokkast ekki undir handrukkun, heldur "beina" rukkun? Sérkennilegt siðferði?
Má yfirleitt berja fólk, nema þá í sjálfsvörn? Hver væri bættari með því að berja fárveikan aumingja eins og SN?
Beturvitringur, 24.9.2008 kl. 22:25
Mér finnst ótrúlegt að eigendur World Class hafi ekki vitað af hverslags starfsmann þeir voru með. Trúi því ekki.
sandkassi (IP-tala skráð) 24.9.2008 kl. 22:29
Ég á von á því að Þorgeir meini ekki að benjamín sé saklaus per se; gangi út frá því (eins og lögmaður Benjamíns) að hann sé sekur um líkamsárás (minniháttar, sagði lögmaðurinn) og hafi auðvitað ekki mátt berja Ragnar. Hann sé frekar að meina að ekki hafi verið um handrukkun að ræða, en það hafi átt að vera tilefni umfjöllunarinnar og þar með réttlæting hinnar óhefðbundnu myndatöku; að umræðan um handrukkara væri brýn og varðaði almannahag.
Umfjöllun um handrukkun og handrukkara nær auðvitað til framkomu þeirra almennt, ef það einkennist af líkamlegu og andlegu ofbeldi. Við sáum hugsanlega ekki meintan handrukkara handrukka, en við sáum mentalítet ofbeldisfulls manns að rukka. Ég man ekki hvernig Kompás kynnti atriðið, hvort fullyrt var beinum orðum um að um handrukkun væri að ræða, þyrfti að gá að því, en hef ekki orku í það núna.
Nei, það má ekki berja Steingrím Njálsson; það stríðir gegn hegningarlögum, nema að um sannanlega sjálfsvörn sé að ræða. Best er að láta hann afskiptalausan ef hann er ekki að gera eitthvað af sér.
Friðrik Þór Guðmundsson, 24.9.2008 kl. 22:40
Ég hef verið að velta fyrir mér hvort umfjöllun Kompáss brjóti lög. Í lögum um fjarskipti er t.d. bannað að taka upp símtal nema sá sem tekinn er upp hafi gefið samþykki sitt eða verið ljóst að verið væri að hljóðrita orð hans. Í lögum um persónuvernd er síðan kveðið á um að ekki verði unnið með efni úr öryggismyndavélum nema með leyfi viðkomandi, en heimilt er að láta lögreglu hafa efnið. Hefði ekki Kompás, lögum samkvæmt, átt að afhenda lögreglu upptökuna?
Guðbjörg Hildur Kolbeins, 24.9.2008 kl. 22:41
tja ætli það sé ekki matsatriði. Lög geta stangast á við önnur lög og á endanum er þetta spurning um túlkun.
Eitt er þó víst að hótanirnar voru mjög alvarlegar. Þá var boðið upp á vernd gegn greiðslu. Uppskrift að mafíustarfssemi.
sandkassi (IP-tala skráð) 24.9.2008 kl. 22:55
Gagnvart Benjamíni þessum hefur lögmaður hans nefnt brot á hegningarlögum (229. grein) og auðvitað ákvæði stjórnarskrár (og mannréttindasáttmálans) um friðhelgi einkalífsins.
Ég hygg að bæði í fjarskiptalögum og persónuverndarlögum séu ákvæði um tilteknar undanþágur fyrir fjölmiðla (og fleiri) í þágu lýðræðislegrar umræðu um mál er varða almannahag. Í persónuverndarlögum er það 5. grein.
"Að því marki sem það er nauðsynlegt til að samræma sjónarmið um rétt til einkalífs annars vegar og tjáningarfrelsis hins vegar má víkja frá ákvæðum laganna í þágu fjölmiðlunar, lista eða bókmennta". Þegar persónuupplýsingar eru einvörðungu unnar í þágu fréttamennsku eða bókmenntalegrar eða listrænnar starfsemi gilda aðeins viss ákvæði; tjáningarfrelsi fjölmiðla fær aukið vægi.
Myndbirtingin af Bubba í bílnum var dæmd brot á friðhelgi hans, en eingöngu vegna þess að hans prívat gjörðir þar varðaði almenning ekki og var ekki liður í þjóðfélagsumræðu. Hæstiréttur hefur myndað fordæmi um að tjáningarfrelsið taki friðhelginni framyfir ef tilefnið er sannanlega brýnt fyrir almenning, hina lýðræðislegu umræðu í þjóðfélaginu. Bubbamál: " Þegar metnar eru þær skorður sem friðhelgi einkalífs setja tjáningarfrelsinu er talið skipta grundvallarmáli hvort hið birta efni, myndir eða texti, geti talist þáttur í almennri þjóðfélagsumræðu og eigi þannig erindi til almennings."Friðrik Þór Guðmundsson, 24.9.2008 kl. 23:06
Guðbjörg Hildur talar um að bannað sé að taka upp símtöl, nema með samþykki þess upptekna. Þetta held ég að sé rangt því hleranir á afbrotamönnum er löglegar og standast fyrir dómi.
Í þessu kompásmáli var ekki verið að hlera/taka upp afbrotamann og ekki heldur handrukkara eins og yfirlýst markmið upptökunnar var.
Mér finnst að Kompás ætti að gera úttekt á þessum Ragnari og nota faldar myndavélar við það. Þessu maður er ekki síður glæpamaður en steratröllið
Gunnar Th. Gunnarsson, 25.9.2008 kl. 02:37
Hér er verið að vega að starfsheiðri heillar starfsstéttar og gera vinnubrögð þeirra tortryggileg.
Júlíus Valsson, 25.9.2008 kl. 09:45
bíddu nú við, áttu við að vegið sé að starfstétt handrukkara?
sandkassi (IP-tala skráð) 25.9.2008 kl. 11:19
Að ofan er sagt:
"Mér finnst að Kompás ætti að gera úttekt á þessum Ragnari og nota faldar myndavélar við það. Þessu maður er ekki síður glæpamaður en steratröllið"
Er hægt að leyfa sér að segja svona, þ.e. að Ragnar sé ekki síður "glæpamaður"?
Hvaða forsendur hafa "útíbæjarar" til að komast að slíkri niðurstöðu ... ja nema bara á grundvelli "af því bara" og að hann hafi umgengis "Berjamína" þessa lands ....
Ef upptaka þáttarmanna stenst ekki lög þá er það bara svo.
Er það ekki sami glæpur að stela af þjófi eða presti? ... eða á þjófurinn ekki að eiga neinn "rétt"...?
Í "denn" fóru menn í hópum milli landshluta til að brenna ofan af einum eða öðrum svona "bara af því" ... hugsanlega höfðu drepist nokkrar rollur og viðkomandi kennt um..... viljum við svoleiðis aftur?
Eru Kompáss-menn að gera þátt þáttarins vegna ..... eða er þeim "félögum" svona annt um "samfélagið"?
Þorgeir Þormóðsson (IP-tala skráð) 25.9.2008 kl. 11:23
Sammála þér Friðrik og vil benda á að maðurinn er hættulegur ofbeldismaður sem hefur stórslasað fólk.
Hann nauðgaði 13 ára stúlku....
Hann er með fleiri nauðganir á bakinu, sem stúlkurnar þora ekki að kæra...
Hann var einn ötulasti dópsali borgarinnar...
Hann var með unga ólögráða krakka í að selja fyrir sig, bæði dóp og þýfi.
Ég kannast ágætlega við kauða, og get lofað ykkur því að það sem komið er fram um þennan dreng er dropi í hafið. Sjálfur þurfti ég með hörku og klækjum að bjarga einum ungum pilti úr klónum á Benna.
Svo allt hjal um rétt hans er marklaust kerlinganöldur, það varðar almannaheill að vita hverjir eru ofbeldisfíklar og barnanauðgarar....Benni er hvorutveggja.
Haraldur Davíðsson, 25.9.2008 kl. 12:30
Haraldur; mér finnst þú ganga ansi langt í fullyrðingum. En það er þitt vandamál; þú hefur þitt tjáningarfrelsi og ef það reynir á ábyrgð orða þinna þá er vafalaust hægt að nálgast þig. Ég sé ekki beint ástæðu til að fjarlægja kommentið, en geri það ef ÞÚ eða Benjamín biðja um það.
Þorgeir; Gunnar er vissulega á mörkum tjáningarfrelsisins að fullyrða að Ragnar sé glæpamaður og Benjamín steratröll. Hafi Ragnar fengið á sig dóma fyrir glæpi og Benjamín fyrir steraneyslu þá eru kannski málefnalegar ástæður fyrir slíkum gildisdómum, eins ef þeir hafa viðurkennt þetta sjálfir, annars varla. Ætli reyni nokkuð á þetta; að Ragnar eða Benjamín fari í meiðyrðamál gegn Gunnari.
Það er annars ástæða til að þakka umræðuna og gestaganginn. Öll met voru slegin í gestakomum á bloggið mitt vegna þessarar færslu; 2.235 gestir til miðnættis, sem er hátt í 600 fleiri en fyrra met gaf og um fimmfalt meðaltal mitt þegar ég er virkur að blogga. Þetta mál vekur augljóslega mikla athygli og umræður. Þetta sýnir mér út af fyrir sig að um brýnt mál fyrir þjóðfélagsumræðuna sé að ræða; bæði ofbeldið og umfjöllun fjölmiðla um það og aðferðir við að veita almenningi upplýsingar um það.
Friðrik Þór Guðmundsson, 25.9.2008 kl. 13:05
Það er að sjálfsögðu þitt að ákveða það og ég set mig ekki á móti því.
Haraldur Davíðsson, 25.9.2008 kl. 16:35
Það er verst að ofbeldi er refsilaust.
Kristján Sigurður Kristjánsson, 25.9.2008 kl. 19:51
Án þess að ég vilji skipta mér af Friðrik Þór, þá þykir mér póstur Haraldar vera út fyrir mörk. Kannski fylgist ég illa með?
Þetta eru mjög alvarlegar ásakanir og ef að maðurinn hefur ekki hlotið dóm fyrir þessa hluti, þá eru hér alvarlegar ærumeiðingar á ferðinni.
Ég ber ekki í bætifláka fyrir handrukkarann og er reyndar á þeirri skoðun að hann ætti alls ekki að ganga laus. En það gefur fólki ekki leyfi til þess að klína á manninn öllu milli himins og jarðar.
Haraldi stendur aftur á móti til boða að sækja manninn til saka gegnum dómstóla. En þetta er ekki réttarsalur.
sandkassi (IP-tala skráð) 25.9.2008 kl. 23:43
Benjamín ER dæmdur nauðgari, það er varla ólöglegt að minnast á það, er það annars?
Gunnar Th. Gunnarsson, 26.9.2008 kl. 00:43
nei það er ekki ólöglegt, en er ekki gengið lengra í textanum? Annars er ég líklega ekki nógu kunnugur málinu. Ég held að hann hafi ekki fengið dóm fyrir alla þá hluti sem eru taldir upp, allavega hef ég ekki heirt af því. Það er ekki löglegt að halda þeim hlutum fram.
Hér var fjallað um myndbandsupptöku og það skemmtilega og af viti. Nú dreg ég mig í hlé og þakka fyrir mig.
sandkassi (IP-tala skráð) 26.9.2008 kl. 01:11
Ég ætla einfaldlega að hafa þetta svona; ef einhver, hvers siðferði er misboðið, gerir athugasemd við Moggabloggið og Moggabloggið óskar eftir viðbrögðum skal ég glaður bregðast við. Ég hef aðeins einu sinni séð mig knúinn til að fjarlægja komment og vil ógjarnan gera það aftur, hvað þá oft. Í þessu tilfelli eru meint fórnarlömb ærumeiðinga menn með harðan skráp og kalla ekki allt ömmu sína. Æran jafnvel og að líkindum löskuð fyrir.
Gunnar sagði: "Mér finnst að Kompás ætti að gera úttekt á þessum Ragnari og nota faldar myndavélar við það. Þessi maður er ekki síður glæpamaður en steratröllið". Svarið við spurningu Gunnars hér að ofan er; Jú, Benjamín hefur verið dæmdur fyrir glæp. Og hefur nú játað líkamsárás. Þú líklega ert OK í tilfelli Benjamíns.
Hvað Harald varðar veit ég ekki, en tel ekki endilega líklegt að Benjamín nenni að standa í honum með máli, ofan á Kompás-málshöfðunina. Til að verja sig og tjáningarfrelsið þarf Kompás að rökstyðja og opinbera allt sem réttlætt getur hinar leynilegu upptökur - og væntanlega telur Kompás sig vera með bjargfast mál - og Benjamín mun þarf þurfa að kljást við umtalsvert æru-mál. Sérstaklega ef Haraldur hefur rétt fyrir sér í einhverjum af ásökununum, kannski mörgum en jafnvel bara sumum.
Ég á sem fyrr segir von á því að dómstólar sýkni Kompás. En það er auðvitað í ljósi þess sem fram hefur komið. Fyrr kom fram: Hæstiréttur hefur myndað fordæmi um að tjáningarfrelsið taki friðhelginni framyfir ef tilefnið er sannanlega brýnt fyrir almenning, hina lýðræðislegu umræðu í þjóðfélaginu. Bubbamál: " Þegar metnar eru þær skorður sem friðhelgi einkalífs setja tjáningarfrelsinu er talið skipta grundvallarmáli hvort hið birta efni, myndir eða texti, geti talist þáttur í almennri þjóðfélagsumræðu og eigi þannig erindi til almennings."
Kannski má leika sér með spurninguna um hvort nokkurt það var að gerast á myndunum sem sýndi akkúrat umræðuefnið í aksjón.
Friðrik Þór Guðmundsson, 26.9.2008 kl. 01:21
Fari póstur minn fyrir brjóstið á þér Friðrik eða valdi þér vandræðum, skaltu endilega taka hann út, því það er ekki hlutverk hans að gera það. Það er ekki eitthvað sem ég held gegn þér á nokkurn hátt.
Með fullri virðingu.
Haraldur Davíðsson, 26.9.2008 kl. 02:23
"Í þessu tilfelli eru meint fórnarlömb ærumeiðinga menn með harðan skráp og kalla ekki allt ömmu sína. Æran jafnvel og að líkindum löskuð fyrir."
Ég held að það séu mistök að ætla það að afbrotamenn séum endilega með harðari skráp heldur en ég og þú Lillo. Það að æran sé að líkindum löskuð fyrir, réttlætir heldur ekki að klína öllu sem mönnum dettur í hug á viðkomandi. Þar situr mitt siðferði og basta.
Við skulum ekki gleyma því að menn eins og Benjamín geta snúið við blaðinu.
Mun Benjamín hafa orku eða nennu til að höfða mál gegn texta Haraldar? Nei, og er mat þitt kalt og rétt í því efni.
Ekki var ég að leggja til að ummæli Haraldar yrðu strokuð út, og er umræddur Benjamín ekki hár í metorðastiganum hjá mér frekar en öðrum hér. Ég hef reyndar en minna álit á athafnamanninum Ragnari og eru þeir 2 líklega ágætir saman.
Lítill og dvergslegur tappi með sjónvarpsfólk í eftirdragi við að svíkja fé og eignir út úr heiðarlegu fólki. Þvílíkur fáviti!
sandkassi (IP-tala skráð) 26.9.2008 kl. 02:41
Mér persónulega finnst vanta viðauka inní stjórnarskrá Íslands, lögin um persónuvernd og lögin um friðhelgi einkalífs og sá viðauki er ekki flókinn, sá sem brýtur þau lög sem hann á að fara eftir með því að valda annarri manneskju ekki líkamstjóni í hvaða mynd sem er, afsalar sér sjálfkrafa þeim rétti að geta borið við að á sér sé brotið sé á sínum rétti. Með öðrum orðum að þá mætti fólk sem virðir í einu og öllu stjórnarskrá Íslands, lögin um persónuvernd og lögin um friðhelgi einkalífs verði gert heimilt að gera allt til þess að sýna það og sanna svo ekki verði um villst, að á því var brotið af öðrum aðila með líkamstjóni.
Þegar það er verið að væla um að það sé verið að sviðsetja hitt og þetta til að fá einhvern til að geta myndað fólk valda öðrum líkamstjóni þá blæs ég á svoleiðis rök, fólk á að fara eftir lögum og reglum en ekki brjóta þau, og ef það er verið að nota tálbeitur til að draga rétta mynd af brotaþola þá ætti brotaþoli að vita að það sem hann er að fara að gera er brot á lögum og reglum og þá snýr hann sér við og labbar í burtu, ef hann ákveður að gera það ekki þá er það verst fyrir hann, að öðru leiti hvað varðar stjórnarskrá Íslands, lögin um persónuvernd og lögin um friðhelgi einkalífs má standa. Svona viðauki myndi hafa gríðarlegan fælingarmátt og fær misyndisfólk sig til að hugsa sig tvisvar um ætli það að fara að valda öðrum líkamstjóni, það gæti nefnilega verið að það væri tekið upp á myndband eða hljóðritað.
Sævar Einarsson, 26.9.2008 kl. 11:09
Það má taka það fram að Benjamín hefur opinberlega lýst sjálfum sér sem stórhættulegum og líkt sér við grimma hundategund sem er bönnuð á Íslandi vegna árásargirni. Það liggur opinberlega frami að hann hefur sérþjálfað sig í að beita ofbeldi. Hann hefur obinberlega lýst því yfir að hann beri ekki ábyrgð á gerðum sínum frekar en aðrir ferfætlingar. Hann hefur á sér dóm fyrir barnanauðgun. Hann er alræmdur illvirki.
Í hverju liggur "ærumeiðing" Haraldar Davíðssonar?? Í þessu ljósi stendur svarið uppá aðra en Harald.
Það er út í hött að líkja Ragnari við Benjamín. Vörnin gegn Ragnari er einföld skinsemi.
Kristján Sigurður Kristjánsson, 26.9.2008 kl. 12:31
tja, afnema semsagt alla sönnunarbyrði í rannsóknarferlum hjá hinu opinbera. Hvað ef þú ert hafður fyrir rangri sök?
Annars held ég að enginn taki upp málstað Benjamíns um komplot Kompásmanna. Fyrir mér er hann bara sekur. En ekki gleima því að Ragnar sjálfur hefur verið með einn hættulegasta handrukkara landsins í vinnu til lengri tíma. Hlotið með því vernd fyrir öllu því fólki sem hann hefur stolið af.
Þetta er haft eftir heimildarmönnum Kompás og DV. Hvaða rétt hefur þá Ragnar? 2 krimmar að slást, fremur óáhugavert. Eru þeir ekki báðir réttlausir þá samkvæmt þinni skilgreiningu?
sandkassi (IP-tala skráð) 26.9.2008 kl. 12:37
A er dæmdur fyrir nauðgun hann er síðar margdæmdur fyrir ofbeldi. Er það ærumeiðing að kalla hann ofbeldishrotta eins og Dv kallar Arnþór sem þú ert að ærumeiða samkvæmt þinni skilgreiningu?
Það er gildandi réttur á Íslandi að réttarmunur er þolanda ávallt í óhag. Útfrá réttvísinni er Ragnar réttlaus þar sem hann er þolandi ofbeldis af hendi Benjamíns sem hefur réttvísina sín megin.
Kristján Sigurður Kristjánsson, 26.9.2008 kl. 12:59
Kristján; "Barnanauðgun" er fleirtala. Á þetta ekki að vera eintala? Haraldur bloggvinur talar um fleiri nauðganir (ókærðar og ódæmdar), hann talar um misnotkun á börnum við dópsölu. Er það staðfest eða gefin tilefni fyrir slíku? Ég var annars fyrst og fremst að hafa áhyggjur af þessu í þágu Haraldar en ekki Benjamíns.
Gunnar Waage ærumeiddi ekki neinn sem hann nafngreindi ekki. Hann fór hins vegar nokkuð langt gagnvart Ragnari, þegar hann lítinn og dvergslegan tappa sem væri "að svíkja fé og eignir út úr heiðarlegu fólki. Þvílíkur fáviti!". Þ.e. ef ekki eru tilefnis-rök fyrir þessum gildisdómi.
Friðrik Þór Guðmundsson, 26.9.2008 kl. 14:19
"Með því að ákærðu voru sýknaðir af nauðgun í þessum málum er fjarri því að verið sé að gefa til kynna að slík háttsemi sem lýst er í þessum málum sé góð og gild, það eina sem niðurstaðan segir til um er að ekki hafi tekist í þessum tilvikum að sanna að brotið hafi verið gegn tilteknum ákvæðum laga"
Þetta er yfirlýsing frá héraðsdómstólum Íslands. Í þessu felst að ekki er bannað að ræða um tiltekið brot þótt það sanist ekki fyrir dómi. Dæmi "Prófessorsmálið".
Eintala fleirtala, í sláturstíð skiptir einn keppur til eða frá litlu.
Kristján Sigurður Kristjánsson, 26.9.2008 kl. 15:10
Réðist Ragnar á Benjamín í viðkomandi Kompásþætti ? ekki halda það það ég sé að verja Ragnar, ég hef heyrt það líka að Ragnar sé drullusokkur og hafði látið aðra sjá um skítverk, en þeir sem hafa séð um þau skítverk eiga ekki að taka þau að sér og þeir eiga að hafa vit á því að það er bannað.
Sævar Einarsson, 26.9.2008 kl. 15:10
"Með því að ákærðu voru sýknaðir af nauðgun í þessum málum er fjarri því að verið sé að gefa til kynna að slík háttsemi sem lýst er í þessum málum sé góð og gild, það eina sem niðurstaðan segir til um er að ekki hafi tekist í þessum tilvikum að sanna að brotið hafi verið gegn tilteknum ákvæðum laga".
Þetta er athyglisverð tilvitnun Kristján. Hvaðan kemur hún nánar tiltekið (hvar finn ég yfirlýsinguna)? Eins og ég hef sagt annars staðar; sýkna þýðir ekki endilega staðfest sakleysi.
Friðrik Þór Guðmundsson, 26.9.2008 kl. 15:35
Fann þetta Kristán:
http://www.domstolar.is/greinar/
Friðrik Þór Guðmundsson, 26.9.2008 kl. 15:38
Já, og fleira þar á meðal grein eftir Freyr Ófeigsson sem ylmar af steikarlykt ágætri.
Kristján Sigurður Kristjánsson, 26.9.2008 kl. 17:49
ah það er bara stemning hérna!!
sandkassi (IP-tala skráð) 26.9.2008 kl. 21:27
Ég er búinn að fylgjast með, allan tímann.
Húnbogi Valsson (IP-tala skráð) 27.9.2008 kl. 00:10
Djúpur, Húnbogi, djúpur. Hvar er myndavélin?
Kristján; það má ræða öll þessi mál og ganga langt í sumum en það eru takmörk og meðal annars þær hömlur sem lög setja, fyrir utan hömlur sem skráðar og óskráðar siðareglur setja. Mörk eru holl og draga úr slagsmálum og hatri. Sá sem lýsir ofbeldismanni á ofbeldisfullan og meiðandi hátt getur fengið á sig ofbeldisstimpil og þarf alltént að ábyrgjast eigin orð. Ég hef í sjálfu sér hvorki þig, Kristján, Harald, né hvorugan Gunnarinn í huga þegar ég segi: Stundum er það "málstaðnum" til trafala að djöflast of mikið, spúa of mikið. Við gagnrýni er betra að hafa vammirnar beittar en þungar.
Friðrik Þór Guðmundsson, 27.9.2008 kl. 01:16
Jæja, ég skulda nú ýmsum mönnum hér afsökunarbeiðni. Ég vissi ekki að Benjamín hefði hlotið 2 ára dóm fyrir nauðgun á 13 ára telpu 1992.
Ég er hræddur um að ég hafi tekið orð Björns Leifssonar eiganda World Class á visir.is fyrir því, að hann taki við hreinu sakavottorði frá öllum sínum starfsmönnum.
sandkassi (IP-tala skráð) 27.9.2008 kl. 03:02
En líklega hefur dómurinn sem maðurinn fékk verið kominn út fyrir tiltekin tímamörk sem kveðið er á um í reglugerð um sakaskrá.
Í 11. gr. er eftirfarandi texti;
" Hafi viðkomandi hlotið tvo eða fleiri fangelsisdóma ber að færa þá alla í sakavottorð þótt aðeins einn þeirra sé innan þeirra tímamarka sem getur í 1. mgr. Ríkissaksóknari getur einnig ákveðið í sérstökum tilvikum að í sakavottorði séu upplýsingar um niðurstöður eldri mála."
Ekki virðast yfirvöld sjá ástæðu til þess að láta færslur um alvarlega kynferðisglæpi falla undir þessar undantekningar. Þá skiptir engu máli þótt viðkomandi atvinnurekandi óski eftir upplýsingum, þær eru ekki veittar.
Sökudólgurinn hér er því ekki eigandi World Class sem óskaði eftir upplýsingum, heldur sú reglugerð sem gildir um þessi mál og heldur hlífiskildi yfir mönnum sem þessum.
sandkassi (IP-tala skráð) 27.9.2008 kl. 22:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.