9.9.2008 | 13:23
Skrifa Moggaritstjórar hugsanir Þórs Sigfússonar?
Hér er á ferðinni ein stórlega gölluð frétt hjá Mogganum, því miður. Með öðrum orðum er ekkert í fréttinni sjálfri sem réttlætir fyrirsögnina. Hvergi í fréttinni kemur nefnilega fram að fjölmiðlakóngurinn styðji framboð McCain og Palin. Ekki nema fyrir liggi að leiðarahöfundar New York Post endurspegli óhjákvæmilega afstöðu eiganda síns - sem á alls ekki að vera sjálfgefið.
Fyrirsögnin fullyrðir að Murdoch (sá hættulegi einokunarsinni) styðji McCain (þótt hann hafi stutt Obama gegn Clinton). Í fréttinni er hins vegar hvergi vitnað í slíka yfirlýsingu frá honum. Það er hins vegar vitnað í slíka yfirlýsingu í leiðara fyrrnefnds blaðs í eigu Murdoch.
Allir þeir, sem leggja áherslu á og vilja virða sjálfstæði ritstjórna gagnvart eigendum sínum hljóta að gretta sig yfir þessum trakteringum. Skrifa leiðarahöfundar Moggans kannski eingöngu í samræmi við skoðanir eigenda sinna eða hafa þeir sjálfstæðar skoðanir sem stundum eru á skjön við skoðanir eigenda blaðsins? Ef Moggamenn skrifa bara í samræmi við vilja eigenda blaðsins þá er það nýtt fyrir mér. Get ég þá bókað að leiðarar Moggans séu í raun afstaða Forsíðu ehf, Útgáfufélagsins Valtýs hf og Björns Hallgrímssonar ehf, sem saman eiga yfir 60% í Mogganum? Endurspegla leiðarar Moggans í raun afstöðu Þórs Sigfússonar stjórnarformanns, Stefáns P. Eggertssonar varaformanns og kannski Kristins Björnssonar meðstjórnanda og fyrrum (?) olíumógúls?
Ekki það að ég efist um að milljarðamæringur og einokunarsinni eins og Murdoch styðji það framboð sem er hverju sinni lengst til hægri. Það bara segir ekkert um það í fréttinni. Fyrirsögnin væri réttari: "Leiðarahöfundar New York Post, sem er í eigu fjölmiðlakóngsins Murdoch, styðja McCain". Of löng fyrirsögn, ég veit það, en réttari.
Murdoch styður framboð McCain og Palin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Fjölmiðlar, Viðskipti og fjármál, Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 13:24 | Facebook
Athugasemdir
Ágætis pælingar. En er hægt að bera saman þetta ágæta blað Moggann og snepilinn New York Post? Hef búið í NYC í yfir 20 ár og er sífellt hneykslaður á þvílíkri steypu sem kemur úr þessu blaði og algerann skort á hlutleysi. Glugga mjög sjaldan í það af forvitni en myndi aldrei borga fyrir það, ekki eina krónu ef svo byðist. Reyndar er það svo lélegt að ég myndi varla flokka það neins staðar nálægt sæmilegum dagblöðum, frekar nær tabloid-fréttamennsku, með öfgakenndum greinum og forsíðu sem er eins og kvikmyndaplakat um einhverja frétt. Fyrirsagnirnar algerlega óbjóðandi hugsandi fólki. Man eftir forsíðu um TWA800 slysið fyrir rúmum áratug. Fjöldi manns fórst og forsíðan hjá New York Post var eitt orð í risaletri: "FIREBALL!!"
Nei blaðamenn sem skoða þetta og bera saman myndu strax sjá muninn á þessum blöðum, að annað er faglegt og hitt ekki.
Ólafur Þórðarson, 9.9.2008 kl. 13:44
Alla fjölmiðla má bera saman hvað eignarhald varðar; hvort eigendavaldið ráði ferðinni. NYP er vissulega ekki vandaðasta blað heimsins og Mogginn er alla jafna mjög vandur að virðingu sinni. Ég er ekki að bera blöðin saman að þessu leyti.
En af einhverjum ástæðum setur viðkomandi fréttaskrifari samasemmerki milli eigandans og þess viðhorfs sem fram kemur í leiðara NYP, í fyrirsögninni. Ég er einfaldlega að benda á að það sé óréttmætt miðað við innihald fréttarinnar sjálfrar.
Nema að draga megi þá ályktun að leiðarar Moggans endurspegli í hvert sinn viðhorf (helstu) eigenda blaðsins.
Friðrik Þór Guðmundsson, 9.9.2008 kl. 21:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.