19.2.2008 | 13:21
Guðrún Sigurveig Jónsdóttir - mamma
Eiginmaður Guðrúnar Sigurveigar var Guðmundur Trausti Friðriksson, rafmagnsverkfræðingur og framkvæmdastjóri, f. 11. júní 1920, d. 28. september 1997. Börn þeirra eru:1) Jón, rafeindavirki og fiskvinnslustarfsmaður, f. 17. janúar 1954, búsettur á Höfn í Hornafirði. Sonur hans og Ingigerðar Arnardóttur er Örn Arnar tölvunarfræðingur, f. 10. apríl 1971. Synir hans og Elínar Hjálmsdóttur eru Steinar Ingi, f. 19. júlí 1997, Ágúst Orri, f. 6. desember 2000 og Hlynur Örn, f. 3. desember 2002. 2) Pétur vatnsveituverkstjóri, f. 21. desember 1954, búsettur í Seattle í Bandaríkjunum, kvæntur Virginiu Wood Fridriksson, tónlistarmanni og kaupmanni. Börn þeirra eru Spencer Thor, f. 8. júlí 1995 og Sonja Björk, f. 20. mars 1997. 3) Friðrik Þór, fréttamaður, f. 22. september 1956, búsettur í Reykjavík, kvæntur Kristínu Dýrfjörð leikskólastjóra og lektor. Börn þeirra eru Trausti Þór viðskiptafræðingur, f. 13. nóvember 1979, unnusta Íris Svavarsdóttir, sonur þeirra Sturla Þór, f. 25. september 2007, og Sturla Þór, f. 10. maí 1983, d. 1. janúar 2001. 4) Kristrún Jóna, ferðaskrifstofustarfsmaður, f. 24. ágúst 1959, búsett í Jacksonville í Bandaríkjunum, gift Joel Colburn, tónskáldi og rithöfundi. 5) Drengur Guðmundsson, f. 23. maí 1969, andaðist innan sólarhrings.
Guðrún Sigurveig, kölluð Búdda frá barnæsku, var komin af harðduglegu fólki, sunnlensku í föðurætt og suður-þingeysku í móðurætt. Jón tollari, faðir hennar, kvæntist í upphafi fjórða áratugar síðustu aldar ekkjunni Jónu Kristrúnu og gekk tveimur börnum hennar, Pétri og Helgu (Dollu), í föðurstað og Guðrún bættist 1934 í barnahópinn. Fjölskyldan settist að í Meðalholti 11 og bjó þar lengi. Árið 1951 fór hin þá 18 ára gamla Guðrún ásamt Helgu systur sinni til þjónustustarfa í Bandaríkjunum. Fyrir vestan kynntist Guðrún árið 1953 og giftist eiginmanni sínum, Guðmundi Trausta og fæddust synirnir Jón og Pétur í Elisabeth í New Jersey. 1955 komu þau hjónin heim til Íslands er Guðmundur hóf störf sem borgaralegur starfsmaður Public Works hjá varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli. Fljótlega bættust við börnin Friðrik Þór og Kristrún Jóna og fyrsta langtímaheimili fjölskyldunnar var að Glaðheimum 24 og síðar að Brúnalandi 8, bæði í Reykjavík. Guðrún var fyrst og fremst húsmóðir alla tíð og afar eljusöm í því hlutverki. Á áttunda áratugnum skildust leiðir Guðmundar og Guðrúnar, án þess þó að til lögskilnaðar hafi komið. Upp úr því tók hún upp heimilislíf hjá heiðurshjónunum Jarþrúði Pétursdóttur (Jöru) og Antoni Líndal Friðrikssyni (Tona) og fjölskyldu þeirra að Efstasundi 70. Þær Jara urðu miklar vinkonur og studdu hvor aðra í gegnum þykkt og þunnt, en báðar glímdu við erfið veikindi.
Útför Guðrúnar fer fram frá Fríkirkjunni í Reykjavík í dag og hefst athöfnin klukkan 15.
Pabbi og mamma gáfu okkur afar skemmtilega og sérstæða æsku. Pabbi nam og starfaði í 15 ár í Bandaríkjunum. Úti hitti hann mömmu, sem betur fer, árið 1953. Hún var 19 ára Au Pair stúlka, en hann 33ja ára mikilsmetinn verkfræðingur hjá RCA Victor. Þau héldu heim til Íslands tveimur árum síðar, tveimur drengjum ríkari. Pabbi starfaði frá 1955 í 31 ár hjá varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli, en fjölskyldan bjó þó mestmegnis í Reykjavík. Í barnahópinn bættust fljótlega við piltur og stúlka og bjó fjölskyldan fyrst í Meðalholti 11 en síðan í Silfurtúni (í Garðabæ). Hún fluttist 1962 í Glaðheima 24 og var þar í 8 ár, en frá 1970 varð Brúnaland 8 að heimahögunum. Og þetta voru ógleymanleg ár ævintýraferða um allt land og þá ekki síst til lax- og silungsveiða. Við brunum enn í græna hermannajeppanum í hugum okkar og bleiki kagginn hennar mömmu; Chevrolet Bel Air. Þá hafði mamma ómælda gleði af hestamennsku um langt árabil. Vegna starfa pabba á Vellinum hafði fjölskyldan algera sérstöðu meðal nágrannanna, því við klæddumst öðruvísi, borðuðum öðruvísi mat, áttum öðruvísi leikföng og við vorum fyrsta fjölskyldan í borginni til að setja upp loftnet og byrja að horfa á Kanasjónvarpið. Allt þetta auðveldaði okkur að eignast vini og allt þetta jók á sjálfstæði okkar á þessum mest mótandi tímum. Barnæskan í Glaðheimunum og unglingsárin í Fossvoginum voru enda mikil hamingjuár og þótt leiðir pabba og mömmu hefðu síðar skilið þá leiddi það þó til þess að við fengum að kynnast fjölskyldu Jöru og Tona og dætur þeirra urðu okkur mjög nánar persónulega.
Eðlilega leitar hugurinn fyrst og fremst til æskuáranna, því seinni part ævinnar mátti mamma þola ýmsa erfiðleika vegna sjúkdóma og umferðarslyss sem dró verulega úr hreyfanleika hennar til starfa og leiks. En hvað sem því líður þá hvarf aldrei sá kjarni sem einkenndi mömmu; innri fegurð hennar, karakter, gjafmildi og innileiki. Hún var alltaf afar sjálfstæð í hugsun og gjörðum, vildi aldrei vera öðrum háð, vildi engum skulda, vildi allt fyrir aðra gera og hugsaði seinast um eigin hag. Við kveðjum mömmu með miklum söknuði, en jafnframt gleðjumst við yfir því að hún hafi fengið hvíld og tækifærið til að fara í ættar- og vinaveisluna miklu fyrir handan, þar sem taka á móti henni fyrst af öllum pabbi hennar og mamma, Pétur bróðir hennar, eiginmaður hennar og pabbi okkar, Jara og Toni, Sturla Þór og Begga og fleiri ástvinir sem fyrr kvöddu. Við vitum að þau fagna henni innilega, því nú verður góð veisla enn betri.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Athugasemdir
Mínar innilegustu samúðarkveðjur, til þín og þinna, Friðrik minn.
Óskar Helgi Helgason
Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 19.2.2008 kl. 13:29
Takk Óskar Helgi. Maður hefur ekki beint verið í blogg-stuði upp á síðkastið...
Friðrik Þór Guðmundsson, 19.2.2008 kl. 13:56
Innilegar samúðarkveðjur til ykkar allra.
Þetta er falleg mynd.
Kolgrima, 19.2.2008 kl. 22:53
Mínar innilegustu samúðarkveðjur, Friðrik, til þín og fjölskyldu þinnar.
Kjartan Pálmarsson, 20.2.2008 kl. 10:54
Takk Kolgríma og Kjartan. Ég tel ástæðu til að nefna að það var sortuæxli sem felldi mömmu og hvetja alla til að láta skoða á sér fæðingarbletti. Ég er á leiðinni til þess.
Friðrik Þór Guðmundsson, 20.2.2008 kl. 11:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.