Færsluflokkur: Kjaramál

Hinir ríkustu sitja eftir hjá Íhaldinu

Könnun Capacent-Gallup sýnir að lágtekjufólk er í óðaönn að yfirgefa þá tálsýn að Sjálfstæðisflokkurinn sé þeirra flokkur. Er að vakna upp við þann vonda draum að Sjálfstæðisflokkurinn meinar ekki lengur neitt með slagorðinu "stétt með stétt".

fylgi tekjur CG

 Það eru einkum auðmenn og hinir best settu í samfélaginu sem áfram treysta á völd og styrk Sjálfstæðisflokksins. Ekki venjulega fólkið. Ekki fólkið sem hefur fengið upp í kok á hruninu og klúðrinu sem gerðust vegna þess grunns sem Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn lögðu og hrundi vegna andvararleysis og sofandaháttar Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar.

Vaxandi hópur kjósenda finnur atkvæði sínu skjól hjá Borgarahreyfingunni. Fylgið vex frá könnun til könnunar. Síðasta könnun sýnir að Borgarahreyfingin er þegar komin með 5% lágmarkið hjá körlum (sjá mynd). Hreyfingin á enn eftir að sanna sig fyrir konum landsins, þar sem fylgið mælist aðeins 1.8%. Þarna er verk að vinna. Ef konur landsins gefa Borgarahreyfingunni meiri gaum og Borgarahreyfingin gefur konum meiri gaum þá verður 5% markinu fljótlega náð og hreyfingin fær á bilinu 1-4 þingmenn. 


mbl.is Tekjuháir færa sig um set
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinstri sveifla - og Borgarahreyfingin

Það er í gangi eindregin vinstri sveifla í þjóðfélaginu, það fer ekki á milli mála. En það eru að mínu mati jafnframt ljóst að mjög margir kjósendur eru tvístígandi og óákveðnir um hvað þeir vilja gera og munu gera þegar í kjörklefann er komið. Allt fólkið á bakvið "Búsáhaldabyltinguna" hlýtur að velta fyrir sér hvort nóg sé fyrir þjóðina að yfirgefa nýfrjálshyggjuna en halda áfram að kjósa gömlu flokkana - hvort ekki þurfi róttækari uppstokkun en það.

 

Ég hef nefnt það hér áður, nokkrum sinnum meira að segja, að mér finnst að blásið hafi verið til kosninga of snemma. Mér sýnist þannig alveg ljóst að áhugafólk um ný framboð og uppstokkun og "hreinsanir" innan gömlu flokkanna hafi ekki haft tíma til að skipuleggja öflug framboð og stilla saman stefnustrengi. Að hafa kosningar of snemma þjónar bara hagsmunum gömlu flokkanna svokölluðu og gefur þeim meira að segja færi á meiri höftum hvað val frambjóðenda sinna varðar. Að óbreyttu sýnist mér að "uppstokkun" flokkakerfisins muni gersamlega mistakast; fjórflokkakerfið er komið á ný (Frjálslyndi flokkurinn að hverfa) og þeir vísar að nýjum flokkum sem komið hafa fram hafa ekki sýnst burðugir.

Búsáhaldabyltingin hefur ekki getið af sér nýja fjöldahreyfingu til framboðs og verður það að teljast með ólíkindum eftir svona hrikalegar samfélagshræringar. Stjórnmálasaga Íslands inniheldur sterk dæmi um öfluga "fimmtu flokka" eftir væringar milli persóna innan gömlu flokkanna (t.d. Borgaraflokkur Alberts, BJ hans Vilmundar eða Þjóðvaki Jóhönnu) - en samfélagsleg uppreisn undanfarinna mánaða ætlar kannski litlu sem engu að skila inn í flokkakerfið!

Þó sýnist mér von með Borgarahreyfinguna; að hún geti komið sterk inn, knúið fram breytingar. Einna athyglisverðasta "stefnumál" þeirrar framboðshreyfingar er að hún ætlar að leggja sig niður og hætta störfum þegar búið er að koma fáum en skýrum markmiðum fram eða ljóst þykir að þeim verði ekki náð. Að öðru leyti snýr stefnan að nokkrum þeim meginmarkmiðum sem að baki mótmælanna miklu voru. Þessi "fókuspunktar" eru:

Krafan um réttlæti, jafnrétti og lýðræði sameinar okkur:

1. Gripið verði til neyðarráðstafana í þágu heimila og fyrirtækja.

2. Landsmenn semji sína eigin stjórnarskrá.

3. Trúverðug rannsókn undir stjórn og á ábyrgð óháðra erlendra sérfræðinga á íslenska efnahagshruninu verði hrundið af stað og fari fram fyrir opnum tjöldum. Frysta eignir grunaðra auðmanna STRAX meðan á rannsókn stendur.

4. Lögfest verði fagleg, gegnsæ og réttlát stjórnsýsla.

5. Lýðræðisumbætur STRAX.

6. Borgarahreyfingin leggur sig niður og hættir störfum þegar þessum markmiðum hefur verið náð eða augljóst er að þeim verður ekki náð. 

 

 Borgarahreyfingin kynnir framboð sitt og stefnu kl. 14 í Iðnó í dag og ég ætla að fylgjast grannt með.


mbl.is Gæti orðið mesta vinstri sveifla sem sést hefur hér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband