Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Í djúpköfun með áttavita

KompásliðiðÞað er opinberlega viðurkennt að fjölmiðlar gegni gríðarlega mikilvægu hlutverki í hinni lýðræðislegu umræðu. Sömuleiðis er það skjalfest opinber stefna að fjölmiðlar eigi að vera virkir við að veita stjórnvöldum, stórfyrirtækjum og öðrum aðhald með gagnrýninni umfjöllun - með því að spyrja gagnrýninna spurninga, leita upplýsinga og staðfestinga og færa þær upplýsingar fram til almennings.

Á Íslandi hefur "djúpköfun" í blaða- og fréttamennsku þó aldeilis ekki notið forgangs hjá fjölmiðlaeigendum og þeir hinir sömu almennt og yfirleitt boðið blaða- og fréttamönnum upp á vinnuálag, tímaþröng og beina og óbeina ritskoðun. Blaða- og fréttamenn hafa þrátt fyrir þetta oft gert góða hluti og Kompás-menn ekki síst (á sumum sviðum hið minnsta).

Niðurlagning Kompáss-þáttanna var hrikaleg ákvörðun Ara Edwald, Jóns Ásgeirs og félaga. En rímar út af fyrir sig við stefnu sjónvarpsstöðvar þar sem afþreyingin er númer eitt, tvö og þrjú. Fréttir og fréttaskýringar hafa fengið að hanga í fjórða sætinu, en hafa nú verið settar enn neðar og má allt eins telja líklegt að fréttir Stöðvar tvö séu jafnframt í niðurskurðarsigtinu.

Ég er ánægður með það sem Jóhannes og félagar í Kompási lýsa yfir, að þeir ætli að halda áfram með þáttinn, þótt þeir fái ekki að halda nafni þáttarins. Ekki kemur fram HVAR þeir ætla að halda áfram með þáttinn; kannski á Skjá einum, kannski ÍNN, hvað sem því líður er nú tilefni sem aldrei fyrr til gagnrýninnar djúpköfunar. Nú með meiri áherslu á að afhjúpa leyndardóma viðskiptalífsins (þótt það kunni að bitna á áherslunni á barnaníðinga um sinn). Og nú án sjálfsritskoðunar í ljósi eignarhaldsins á fjölmiðlinum þar sem þættirnir voru sýndir...


mbl.is Fá ekki að nota Kompásnafnið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ofdekraður auðmaður frá síðustu öld

Kjartan Gunnarsson.Það er kannski ástæða til að bjóða Kjartan Gunnarsson fyrrum framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins velkominn í 21. öldina? Hann segir: „Í stjórnmálaumræðum tuttugustu aldarinnar hafði hugtakið „hreinsanir“ ávallt skýra og afmarkaða merkingu sem enginn heiðvirður maður vill láta kenna sig við". Það er rétt að undirstrika við Kjartan að HANS HUGARHEIMUR er ekki lengur við líði.

Ég neita að leyfa helbláum "komma"höturum að eigna sér einkaskilgreiningu á orðinu "hreinsanir" og ætla öðrum að notast við hana og enga aðra. 

Orðið "hreinsanir" var vissulega misnotað á 20. öldinni, þegar bæði kommúistar í austri og hægriöfgamenn í vestri stóðu að pólitískum "hreinsunum" - og viðmiðunin var oftar en ekki pólitískur og persónulegur geðþótti.

Þegar í dag er á Íslandi talað um "hreinsanir" í stofnunum er átt við að skipta út óhæfum og vanhæfum einstaklingum, sem eiga stóran hlut í því að hafa komið þjóðinni á kaldan klaka og skellt hafa framtíðarkynslóðum okkar í ömurlegan skuldaklafa. Skipta út mönnum sem ekki njóta trausts og eiga sannarlega að vera gera eitthvað annað. Eiga ekki lengur að starfa fyrir þessa þjóð í ábyrgðarmiklum embættum.

Kjartan Gunnarsson, ofdekraður auðmaður, stjórnarmaður í Landsbanka Björgólfanna, ætti að koma sér í 21. öldina hið bráðasta.


mbl.is Pólitískar hreinsanir og ofsóknir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Baugur glímir við draug

 Það var skuggalegt að hlusta á viðtal RÚV við Jón Ásgeir Jóhannesson forstjóra Baugs og útrásar-auðjöfur í hádeginu í dag; hafa þar eftir ónafngreindum heimildarmanni úr innsta hring Sjálfstæðisflokksins, að Davíð Oddsson hefði gert það að skilyrði fyrir brotthvarfi sínu úr stól seðlabankastjóra að "Baugur færi fyrst".

Maður er næstum því orðinn vanur stríðinu milli Jóns Ásgeirs og Davíðs og ætti því ekki að kippa sér upp við svona ávirðingar, en tímasetning atburða, svo sem kröfu skilanefndar Landsbankans um greiðslustöðvun, er með þeim hætti að manni stendur ekki á sama. 

Það gefur augaleið að það er út í hött, ef rétt er, að ákvörðun bankans, hugsanleg afleiðing meintrar kröfu Davíðs, setji í uppnám "50 þúsund störf í Bretlandi" og færi "hrægömmum" eignir Baugs ytra fyrir lítið. Ef notabene nokkuð er að marka orð Jóns Ásgeirs yfirleitt.

Jón Ásgeir mun aldrei get sannað fullyrðingu sína upp úr heimildarmanni í "innsta hring" Sjálfstæðisflokksins, nema sá hinn sami staðfesti þetta eða að auðjöfurinn hafi tekið símtalið upp. Að því leyti verður að afskrifa þessi ummæli. En skelfilega væri þægilegt ef Davíð stæði bara upp eins og maður og færi frá.

Ella er lítið að marka ásakanir Sjálfstæðismanna um hatur og heift af hálfu Samfylkingarinnar. Það getur nefnilega ekki talist neitt nema hatur, heift og hefnd að sitja áfram, enda snýst brotthvarf Davíðs ekki (lengur) um Samfylkinguna; þetta snýst um traust og trúverðugleika og þá ekki síst gagnvart erlendum lykilstofnunum.

Jón Ásgeir má gjarnan hverfa með öllu til Bretlands og það skilyrðislaust.


mbl.is Baugur í greiðslustöðvun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er ástæða til að halda sigurhátíð?

 Raddir fólksins stefna fólki á Austurvöll í dag, ekki fyrst og fremst til að mótmæla, eins og hingað til, heldur til að halda sigurhátíð. Er það tímabært? Hefur einhver sigur unnist? Svarið er bæði já og nei. Það vantar bara viðeigandi forskeyti á undan orðinu sigur. Það vantar t.d. forskeytið "áfanga-". Að öðru leyti er varla hægt að horfa framhjá stórfenglegum - áfangasigrum - fólksins.

Egill Helgason fjallar um þetta á Eyjubloggi sínu og segir: "Mér er alveg fyrirmunað að skilja hví Raddir fólksins boða til sigurhátíðar í dag. Lítið hefur gerst nema að ein ríkisstjórn er fallin. Önnur hefur ekki einu sinni tekið við. Nánast á hverjum degi berast fréttir af nýjum hneykslismálum í banka- og fjármálakerfinu. Maður sér ekki að sé mikið verið að taka á fjárglæframönnunum sem settu Ísland á hausinn. Atvinnuleysi eykst og kjörin versna. Er virkilega tilefni til að fagna sigri?"

Við Egil vil ég segja: Settu fyrrnefnt forskeyti á viðeigandi stað og þá getur þú fagnað eins og flestir aðrir. Fólkið er 5:0 yfir í hálfleik og spillingarliðið er nokkrum mönnum undir vegna rauðra spjalda. Réttnefndur sigur er í öruggu sjónmáli.

Er það ekki? Það Íslands- og jafnvel heimssögulega hefur gerst (miðað við langlundargerð Íslendinga) að fólk stormaði út á göturnar og flæmdi í burtu óvinsæla ríkisstjórn. Það er ekki lítil gjörð. Það stefnir í nýja ríkisstjórn sem endurspeglar mun betur (samkvæmt könnunum) vilja fólksins. Það er ekkert slor (þótt vissulega verði að líta á hana sem tímabundna starfsstjórn þar til annað kemur í ljós). Það er búið að bóka kosningar. Eins og fólkið vildi. Það er búið að bóka stjórnlagaþing, endurskoðun stjórnarskrárinnar, með í farteskinu að auka lýðræði og til að mynda auka hlut þjóðaratkvæðagreiðslna. Það er búið að stöðva aðhaldsleysis-nýfrjálshyggjuna. Eins og fólkið vildi. Það er búið að senda Sjálfstæðisflokkinn í frí eftir 18 ára stanslausa stjórnarsetu - eins og fólkið vildi. Það er búið að skipa sérstakan saksóknara og sérstaka rannsóknarnefnd (hvítbókarnefnd) til að fara í saumana á bankahruninu. Eins og fólkið vildi.

Vissulega mætti sumt vera fastara í hendi, eins og aðgerðir gegn "snillingunum" í bönkunum og eignarhaldsfélögunum, sem eru höfuðpaurar hrunsins. Eins mætti vilji fólksins hafa endurspeglast betur í myndun nýrrar breiðfylkingar um framboð. Eitt og annað mætti vera skýrara. En fólkið er búið að vinna svo margar orrustur og slík yfirburðastaða í stríðinu að "sigurhátíð" er í góðu lagi - meðan huglægt forskeyti er á réttum stað.

Að þessari sigurhátíð lokinni verður fólkið hins vegar að gera upp við sig hvað það vill gera næst. Mynda breiðfylkingu um framboð? Þá er nú aldeilis farið að liggja á. Það er verið að mynda nýja ríkisstjórn og í samkomulaginu verður kveðið á um kosningar, að líkindum í apríl.Viðkomandi "gömlu" flokkar virðast vilja hafa kosningarnar í fyrra fallinu. Það er slæmt að því leyti að þá gefst lítill tími til að undirbúa framboð; hjá öllum. Gömlu flokkarnir hlaupa út í uppstillingu í stað prófkjörs og það er ekki beint í anda virks lýðræðis. Ný framboð hafa skemmri tíma til að skipuleggja kosningastarfið - og munu líka eiga erfitt með að ástunda lýðræðislegt val á framboðslista. Það er ekki í anda þeirra lýðræðiskrafna sem uppi hafa verið. Væntanlega eiga Hörður Torfason og Gunnar Sigurðsson ekki að raða upp lista. Það væri ekki mikill sigur.


mbl.is Stjórnin mynduð á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grænn og/eða vænn - um mengun mannúðarinnar

 Ég er ósköp grænn gagnvart umhverfinu en númer eitt vænn gagnvart velferðarkerfinu. Ég styð ekki mengun í náttúrunni, en ég leggst alfarið gegn mengun mannúðarinnar.

Ég styð heilshugar baráttuna gegn mengun í náttúrunni og hef skilning á þörfinni fyrir minni losun gróðurhúsalofttegunda. En ef skynsömum umhverfissjónarmiðum er fylgt þá met ég meira ábata atvinnuuppbyggingar en sparifataloforð sem ekki eru í takti við hlut Íslands í raunverulegri losun. Nú sem aldrei fyrr þarf samfélagið á skilvirkri tekjuöflun að halda.

Sama gildir um hvalveiðar. Ég fellst ekki á tilfinningarök um að veiðar á hvölum séu í sjálfu sér slæmar, burt séð frá öðrum rökum. Ef skynsöm rök segja að hvalveiðar færi þjóðinni meiri tekjur en sem nemur tjóninu sem veiðarnar hafa í för með sér, þá fellst ég á hvalveiðar. Ef tjónið er meira og þá nettótap af veiðunum, þá er ég þeim ekki fylgjandi.

Ekki síst í yfirstandandi krísu horfi ég til alls þess sem getur varið velferðarkerfið gegn óþörfum skakkaföllum. Mannúð velferðarkerfisins er númer eitt hjá mér. Niðurskurður í heilbrigðisþjónustunni er eitur í mínum beinum. Ef það tryggir sjúklingum og slösuðum nauðsynlega meðferð og kemur í veg fyrir lokun deilda og annað slíkt þá get ég alveg fallist á alls konar verksmiðjur (sem standast heilbrigt umhverfismat, einkum á landsbyggðinni) og hvalveiðar.

Vildi bara nefna þetta.


mbl.is Deildum lokað á Landakoti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um reiði, hatur, heift og hefnd

Ég get vel skilið að sjálfstæðismenn séu reiðir út í Samfylkinguna fyrir að svipta Sjálfstæðisflokkinn völdum. Bráðnauðsynlegt aðgerð út af fyrir sig og í takt við þjóðarviljann, en ég skil reiðina samt; við erum að tala um flokk og fólk sem telur að völdin eigi að vera í þess höndum og helst engra annarra. Engum öðrum sé treystandi til að "stýra þjóðarskútunni"; aðrir séu almenn eða pólitísk fífl og gott ef ekki skaðvaldar, sem beiti svikum og prettum til að koma snillingunum úr Valhöll frá völdum.

Reiði sjálfstæðismanna er vitaskuld ekki næstum því eins innihaldsrík og réttmæt og reiði þjóðarinnar eftir hrunið. Hún er sértæk og hjá sumum er hún stæk, svo jaðrar við hatur. Sumir sjálfstæðismenn vilja nú ekki gráta Björn bónda, heldur fara út og hefna. Eiturtungur eru virkjaðar, sögur settar á flot og öll vopn notuð.

Berið þetta saman við réttmæta reiði almennings vegna árangurs og afleiðinga af 18 ára samfelldri stjórnarsetu Sjálfstæðisflokksins.

Hitt er annað mál að fleiri en sjálfstæðismenn hafa undanfarið fyllst reiði og farið offari. Mjög margir álitsgjafar leggja sérstakt fæð á suma stjórnmálamenn. Davíð Oddsson og Ingibjörg Sólrún standa vafalaust fremst í flokki slíkra "fórnarlamba". Í sumum kreðsum eru stöku auðjöfrar sérstaklega mikið hataðir að því er virðist, eins og Jón Ásgeir og Bjöggarnir. Það getur verið erfitt að halda aftur af tilfinningunum og stöðva formælingarnar frá því að komast út um munninn. 

Þetta eru að sönnu leiðinleg viðhorf; að stjórnast af reiði, hatri, heift og hefnd. Ég neita því ekki að hafa gerst sekur um ofboðslega reiðilestra. Í þeim reiðilestrum hefur mér einkum verið uppsigað við Davíð Oddsson og aðhaldslausa nýfrjálshyggjukerfið sem hann kom upp. Þessi reiði kraumaði hvað mest í mér í kjölfar bankahrunsins og fjármálakreppunnar. Nú er ég orðinn rólegri og ánægðari (vegna sigurs fólksins). Ég hef enga ósk heitari en að Davíð Oddssyni auðnist að stíga sjálfur til hliðar og setjast á friðarstól, t.d. við skriftir. Ég leyfi mér að vona sömuleiðis að stækustu andstæðingar Geirs Haarde og Ingibjargar Sólrúnar haldi sér á málefnaplaninu og einbeiti sér að pólitík en ekki persónum.


mbl.is „Ótrúlega ómerkilegt“ af Samfylkingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjaldgæft fyrirbrigði - ríkisstjórn án helmingaskiptaflokkanna

Ef fram fer sem horfir munum við upplifa afar sjaldgæft fyrirbrigði; ríkisstjórn án ráðherra úr annað hvort eða bæði Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum. Slíkt hefur aðeins gerst í tímabundnum minnihlutastjórnum og sú er staðan enn á ný, enda má ekki gleyma því varðandi yfirstandandi stjórnarmyndun, að um er að ræða minnihluta-starfsstjórn fram að kosningum. Starfsstjórn sem hefur lítinn tíma og getur fáu komið til leiðar.

Íslensk stjórnmál hafa meira og minna verið mótuð af Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki, eiginlega alla síðustu öld- allt lýðveldistímabilið. Völd Framsóknarflokksins hafa verið langt umfram kjörfylgi í gegnum tíðina, aðallega vegna hins mikla misvægis atkvæða í kosningakerfinu. Völd Sjálfstæðisflokksins hafa betur fylgt kjörfylginu, en þráseta flokksins við kjötkatlana er þó langt umfram það sem gengur og gerist í öðrum lýðræðisríkjum Vesturlanda miðað við sambærilega hægriflokka. Aðrir flokkar hafa setið stutt að völdum (undantekning er Alþýðuflokkurinn í Viðreisnarstjórninni) og ávallt í spennitreyju kjötkatlaflokkanna. 

Kannski má segja að á tímabilinu 1960-1995, í aldarþriðjung, hafi þetta ekki skipt eins miklu máli og síðar varð. Á því tímabili má segja að nokkuð víðtæk samstaða hafi myndast um uppbyggingu velferðarkerfis innan markaðsbúskaparins; menn voru flestir sammála um blandað hagkerfi og að bæta hag alþýðunnar með ýmsum úrræðum. Völd og áhrif viðskiptaelítunnar (Kolkrabbans, SÍS og fleiri) voru mikil en ekki endilega alltumlykjandi (miðað við það sem síðar gerðist). Þetta breyttist þegar kjötkatlaflokkarnir byrjuðu að frjálshyggjuvæða samfélagið og einkavinavæða á fullu. Lengi vel, þegar vel áraði, sætti fólk sig við ört vaxandi stéttamun og spillingu; meðan það sjálft hafði það ágætt, hafði vinnu og gat borgað skuldir sínar. Þegar hrunið kom sá fólkið hins vegar auðjöfrana og bankamennina standa vel fyrir utan rústirnar með allt sitt á hreinu, í góðu skjóli yfirvalda.

Og þjóðin sagði stopp.Það er táknrænt að til sé að verða ríkisstjórn án kjötkatlaflokkanna. Að vísu minnihlutastjórn og starfsstjórn fram að kosningum, en kannski lengur ef kjósendur hafa engu gleymt þegar þeir mæta í kjörklefann.


mbl.is Fundað um stjórnarmyndun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinstri stjórn eftir fall Berlínarmúrsins

Kannski væri best að þegja og sjá til hvað stjórnarsáttmálinn segir, áður en maður fullyrðir of mikið eða gefur sér of mikið fyrirfram. En kannski er í lagi að vera svolítið djarfur og segja hreint út: Að fá vinstri stjórn núna, sem leggur áherslu á hag alþýðunnar og vill hreinsa til í spillingarbælum, er ferskur andblær eftir of mörg ár af afskiptaleysis-frjálshyggju og stöðugt vaxandi stéttamun.

Þær hugmyndir sem maður hefur heyrt og lesið, um áherslur væntanlegrar vinstri stjórnar, hljóma vel og rétt að líta á þessar yfirlýsingar sem "kosningaloforð" komandi ríkisstjórnar. Almenningur og fjölmiðlar eiga að fylgjast með gjörðunum og haka við efndirnar. Og muna eftir þeim þegar að kosningum kemur.

Það blása núna ferskir vindar. Þjóðin greip í taumana. Ríkisstjórn Geirs H. Haarde er fallin. Ráðherrar hafa loks axlað ábyrgð. Ræsting er hafin í Fjármálaeftirlitinu. Ræsting að hefjast í Seðlabankanum.Aðgerðir að hefjast sem miðast við hagsmuni fjöldans, ekki hinna útvöldu. Gott fordæmi á að setja með fækkun ráðherra (vonandi). Talað er um að fá inn í ríkisstjórn aðra en atvinnupólitíkusa (vonandi).

Mér finnst eiginlega eins og að Berlínarmúr hafi fallið. Við séum að losna undan þungbæru oki afskiptaleysis-frjálshyggju Davíðskunnar.


mbl.is Falið að mynda stjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flokkur "í tætlum" - vegna þjóðarviljans

Þá eru dagar ríkisstjórnar Geirs H. Haarde (loks) taldir. Í beinni útsendingu. Geir tilkynnti þjóðinni þetta áðan og sagði að brotnað hefði á kröfu Samfylkingarinnar um að taka við forsætisráðuneytinu (fram að kosningum). Mest varð ég hugsi yfir orðum Geirs um að Samfylkingin væri "í tætlum" og þyldi ekki fjarveru formanns síns. Þetta er auðvitað fráleit lýsing.

Burt séð frá meintu náðarvaldi (karisma) Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur þá eru "tætlur" Samfylkingarinnar augljóslega fyrst og fremst fólgnar í því að grasrót flokksins, óbreyttir flokksmenn, gripu í taumana í Þjóðleikhúskjallaranum og kröfðust breytinga. Grasrótin endurómaði þar háværan þjóðarvilja. Geir talaði eins og að grasrótin eigi undir öllum kringumstæðum bara að gera það sem foringinn segir og hlýða. En flokksstarfið í Samfylkingunni er augljóslega ekki "Davíðskt".

Og flokksstarfið er heldur ekki "Davíðskt" innan Sjálfstæðisflokksins (lengur). Þar er líka að finna "tætlur", til að mynda djúpstæðan ágreining um Evrópumálin og ekki síður flokkadrætti hinna ýmsu arma um eftirmann Geirs. Þar er líka að finna sterkar raddir fyrir því að fyrir löngu hafi átt að "hreinsa til" í Seðlabankanum - en hollusta Geirs gagnvart Davíð Oddssyni hefur sætt furðu hjá æði mörgum í hinni almennu umræðu. Segja má að undanfarið hafi Sjálfstæðisflokkurinn verið í "tætlum" vegna nærveru Davíðs, hafi Samfylkingin verið í "tætlum" vegna fjarveru Ingibjargar!

Ofan á þrískiptingu valdsins má tala um fjórða vald fjölmiðla, fimmta vald fyrirtækjanna, sjötta vald samtaka almennings og ég leyfi mér nú að bæta við sjöunda valdinu - valdi hins almenna borgara. Almenningur hefur nú með mótmælum og öðrum aðgerðum komið ríkisstjórn frá, sem ekki naut trausts og trúverðugleika. Þetta er sögulegt í meira lagi. Búið er að hreinsa til í Fjármálaeftirlitinu og engin starfsstjórn mun taka við sem ekki hreinsar til í Seðlabankanum. Að öllum líkindum mun myndast breið samstaða um breytingar á stjórnarskrá í áttina að lýðræðislegra þjóðfélagi. Að öllum líkindum mun myndast samstaða um bæði siðferðilegri stjórnmál og viðskipti. Deila má um eitt og annað í þessari atburðarrás, en ég tel óhætt að óska þjóðinni til hamingju með árangurinn.


mbl.is Stjórnarsamstarfi lokið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afsögn Björgvins æpir á Sjálfstæðisflokkinn

Björgvin G. Sigurðsson tilkynnir um afsögn sína á...Ég og Björgvin G. Sigurðsson vorum samstarfsmenn fyrir áratug eða svo og ég tel mig þekkja hann ágætlega. Afsögn hans kemur mér ekki á óvart. Ef eitthvað er tel ég að þrýst hafi verið á hann um að stíga slíkt skref ekki - fyrr en þá nú. Ég þekki Björgvin af því að vera einarður prinsippmaður og tel mig vita að hugur fylgi þarna sannarlega máli, en að ekki sé um málamyndagjörning að ræða.

Afsögn Björgvins og - væntanlega að hans frumkvæði - fráhvarf forstjóra og stjórnarformanns Fjármálaeftirlitsins, Jónasar Fr. Jónssonar og Jóns Sigurðssonar, æpir á Sjálfstæðisflokkinn um samsvarandi öxlun ábyrgðar. Við blasir að hið minnsta formaður bankastjórnar og formaður bankaráðs Seðlabankans fjúki og að líkindum fjármálaráðherra. Gerist það má segja að forsenda sé fyrir hendi að núverandi ríkisstjórn geti almennt og yfirleitt setið að völdum fram að kosningum. Ef ekki eru engar forsendur fyrir áframhaldandi starfsstjórnun ríkisstjórnar Geirs H. Haarde.

Í þessum "töluðu" orðum eru forkólfar Samfylkingarinnar að funda með Geir heima hjá honum. Gangi þeim vel með erindi sitt...

Viðbót:

Kannski er ég óþarflega jákvæður í garð afsagnarinnar, en mér finnst furðum sæta hversu margir horfa á afsögnina í neikvæðu ljósi. Jafnvel þeir sem eru búnir að æpa lengi og hátt á öxlun ábyrgðar og afsagnir segja að útspil Björgvins sé bara pólitískur loddaraskapur, hann sé bara að hugsa um eigin hag, þetta sé of lítð og of seint o.s.frv. Jákvæðustu raddirnar segja að Björgvin sé "maður að meiru" fyrir að gera þetta.

Kom ákvörðun Björgvins of seint? Færa má gild rök fyrir því að hún hafi mátt koma fyrr, en að mínu mati þá einvörðungu í tengslum við víðtækari uppstokkun í stjórnarsamstarfinu og þá raunar með afsögn allrar ríkisstjórnarinnar í sjálfu sér. Ákvörðun Björgvins kemur hins vegar ekki of seint miðað við að ólgan í samfélaginu er tiltölulega nýrisin upp til hæstu hæða og uppreisnin innan flokks Björgvins er líka nýtilkomin. Það er NÚ sem mælirinn fylltist.

Of lítið? Já. þessi afsögn hefur lítið gildi fyrir hina reiðu þjóð nema hin hliðin á sama peningnum fylgi með. Fjármálaráðherra (ef ekki stjórnin öll), bankastjórn og bankaráð Seðlabankans.

Ég vildi og óska þess að einhverjar þær klásúlur væru til sem leiddu til "afsagnar" manna á borð við Finn Ingólfsson, Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, Ólafs Ólafssonar, Björgólfs Thors og Guðmundssonar, Sigurðar Einarssonar og fleiri mætti nefna.  Þarna eru skúrkarnir sem sannarlega eiga að "segja af sér".


mbl.is Björgvin segir af sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband